Stutt og snaggaralegt leikrit

Persónur: 1. Níræður kall sem lýtur út fyrir að vera útigangsmaður. Úfinn og íklæddur tötrum. Hann er með of stór sólgleraugu. Þau eru með stórri grænni umgjörð.

                    2. Virðulegur og spariklæddur afgreiðslumaður.

Svið: Plötubúð með gamaldags "úti"símklefa við enda afgreiðsluborðsins

---------------------------------------------------------------------------------------------------

 

Gamli maðurinn læðist flóttalegur á svip inn í búðina eins og þjófur að nóttu. Hann skimar forvitinn um búðina. Hann tekur ekki eftir afgreiðslumanninum innan við búðarborðið.

Afgreiðslumaðurinn (lágróma og kurteis): "Góðan dag! Get ég aðstoðað?"

Gamli (hendist til eins og hann hafi verið sleginn í andlitið. Hvæsir ásakandi á afgreiðslumanninn): "Þarftu að öskra svona eins og geðsjúklingur?"

Afgreiðslumaðurinn (áfram lágróma og kurteis en undrandi): "Nei, ég þarf þess ekki. Nei, nei. Alls ekki. Þú heyrir óvenju vel, herra."

Gamli (pirraður og argur): "Ef eitthvað er óvenjulegt við heyrnina hjá mér þá fer ég til eyrnalæknis en ekki í plötubúð." (Verður aftur skimandi, flóttalegur og niðurlútur): "Ég er hér með gallaða plötu." (Dregur upp úr úlpuvasanum mölbrotna og grútskítuga vinylplötu): "Sérðu, nálin á plötuspilaranum hoppar þegar ég spila fyrstu lögin á plötunni. Það heyrist ekkert nema brestir og brak."

Afgreiðslumaðurinn: "Brestir og brak er nú aldeilis fínt lag eftir Jón Múla og Jónas Árnasyni. Björk hefur sungið það inn á plötu. Þú þarft ekki að kvarta á meðan nálin spilar Bresti og brak."

Gamli: "Nei, ég á við að nálin hoppar bara og hoppar svo það heyrast bara brestir: Klikk, klikk, klikk, klikk…Hún hoppar svo mikið nálin í fyrstu lögunum."

Afgreiðslumaðurinn (umhyggjusamur og hugsandi): "Þú segir nokkuð. Hoppar nálin í fyrstu lögunum? Getur verið að nálin sé að dansa? Þetta er dansplata."

Gamli (ákveðinn): "Nei, ég get ekki spilað plötuna. Nálin hoppar svo mikið. Ef nálin væri að dansa myndi hún gera svona." (tekur nokkur ótrúlega glæsileg ballettdansspor). "En hún hoppar bara svona" (hoppar beinstífur nokkrum sinnum upp og niður).

Afgreiðslumaðurinn: "Hefurðu prófað að skipta um nál? Kannski er nálin gölluð. Nálar eru oft gallaðar."

Gamli (ergilegur): "Það er ekkert að nálinni! Ég get spilað allar aðrar plötur með henni."

Afgreiðslumaðurinn (mjög undrandi) "Ha? Líka geislaplötur?"

Gamli (skömmustulegur og niðurlútur): "Nei, ég veit það ekki. Ég hef ekki prófað það. En nálin spilar allar aðrar plötur sem ég á. Hún spilar meira að segja síðasta lagið á þessari plötu." (veifar plötubrotunum).

Afgreiðslumaðurinn (feginn og glaður): "Það er gott! Síðasta lagið er nefnilega eina góða lagið á plötunni. Hin lögin eru hundleiðinleg."

Gamli (tekur plötuna og stingur henni í vasann með háværum brothljóðum): "Ég vona að þú segir satt!" (Hvessir illum augum á afgreiðslumanninn): "Ég vona svo sannarlega að hin lögin séu hundleiðinleg!" (Snýr sér við og ætlar að yfirgefa búðina. Hættir við á síðustu stundu og gengur aftur að afgreiðsluborðinu. Græna gleraugnaumgjörðin er þá allt í einu orðin rauð. Röddin er smeðjuleg): "Heyrðu Ljúfurinn. Heldurðu að þú eigir plötu með laginu "I´m Bad" með Michael Jackson?"

Afgreiðslumaðurinn (hikandi og ráðvilltur): "Bíddu við. Kannast ekki við nafnið. Hvaða lag getur þetta verið?"

Gamli: "Það er svona:.." (byrjar að syngja lagið og dansar alveg eins og Michael Jackson gerir í myndbandinu við lagið).

Afgreiðslumaðurinn (klórar sér vandræðalega í hausnum, tekur upp plötuna með laginu og setur á fóninn): "Getur það verið þetta lag?"

Gamli (syngur með laginu og dansar áfram eins og Michael Jackson. Lyftir þumalputta upp til að sýna að þetta sé lagið og hrópar síðan glaður): "Já, þetta er lagið! Þetta er lagið!"

Afgreiðslumaðurinn (vandræðalegur og afsakandi um leið og hann lækkar í músíkinni): "Því miður þá höfum við ekki fengið þessa plötu ennþá."

Gamli (hissa): "Hvað áttu við? Hvar get ég þá fengið þessa plötu?"

Afgreiðslumaðurinn (hugsandi): "Það er nú vandamálið. Þessi plata hefur ekki verið flutt til landsins. Hún er alveg ófáanleg."

Gamli (niðurlútur og skilningsríkur): "Ég hef náttúrulega bara heyrt þetta í sjónvarpinu."

Afgreiðslumaðurinn (feginn): "Það er alveg klárt. Þetta er bara til í sjónvarpinu. Þetta lag hefur aldrei komið út á plötu. Það kemur aldrei út á plötu. Þessi músík er farin úr tísku." (Tekur plötuna af fóninum og setur á sinn stað). "Gott ef þessi söngvari er ekki líka bara dauður eða lasinn eða eitthvað svoleiðis. Hann er að minnsta kosti orðinn voðalega fölur." (Ákveðinn): "Já, pjakkur. Þú verður að taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti."

Gamli (gapir í forundran og spyr): "Hundsbiti? Hvað er hundsbiti?"

Afgreiðslumaðurinn (drjúgur með sig): "Veistu ekki hvað hundsbit er? Hefur þú aldrei verið í sveit?"

Gamli (skömmustulegur): "Nei, ég hef aldrei verið í sveit. En ég hef séð ljósmynd af sveit."

Afgreiðslumaðurinn (hissa): "Hvað segirðu, maður? Hefurðu aldrei verið í sveit? Við verðum að redda því. Bíddu." (gengur að símklefanum og kallar í tólið): "Halló, getur þú gefið mér samband Hóla í Hjaltadal." (bíður smástund, lyftir svo upp þumalputta sigri hrósandi í átt að gamla manninum sem starir gáttaður á): "Halló, er þetta frændi? Blessaður frændi! Vantar þig ekki strák í sveitina núna? Ég er hérna með einn ansi góðan í heyskapinn." (Undrandi): "Nú hvað segirðu? Er aldrei heyjað yfir vetrartímann? Jæja, hann mokar þá bara snjóinn fyrir þig. Beljurnar verða kátar ef einhver mokar snjóinn frá þeim. Nú er enginn snjór í fjósinu? Óskapar veðurblíða er þetta hjá þér. Ha? Já, bíddu. Ég skal spyrja hann…"  (kallar til gamla mannsins): "Drekkurðu áfengi?"

Gamli (hneykslaður): "Nei, ég hef aldrei drukkið. Ég er algjör bindindismaður í alla staði!"

Afgreiðslumaðurinn (í símann) "Nei, nei, blessaður vertu. Hann drekkur ekki. Þetta er pottþéttur strákur!" (hlustar á símann og kallar svo til gamla mannsins): "En reykirðu?"

Gamli (pirraður): "Nei, ég var að segja að ég er bindindismaður í alla staði!"

Afgreiðslumaðurinn (í símann): "Nei, hann reykir ekki. Ég sendi hann þá bara með pakkann minn." (þreifar eftir sígarettupakkanum í vösum sínum, finnur hann, réttir þeim gamla og kallar til hans um leið): "Hérna taktu þennan með þér handa bóndanum!"

Gamli (gáir undrandi ofan í sígarettupakkann, hvolfir úr honum í lófa sinn einum uppreyktum sígarettustubbi. Horfir hissa á stubbinn og stingur honum svo ofan í pakkann aftur).

Afgreiðslumaðurinn (hefur hlustað á símann á meðan en kallar svo til gamla mannsins) "Ertu með meðmæli?"

Gamli (drjúgur með sig): "Já, já. Ég er með meðmæli." (dregur upp stóran bunka af krumpuðum, rifnum og óhreinum bréfum og réttir afgreiðslumanninum).

Afgreiðslumaðurinn (gluggar í bréfin og segir svo ávítandi við gamla manninn): "Þetta eru engin meðmæli um þig. Þetta eru meðmælabréf um allskonar fólk."

Gamli (montinn): "Ég veit allt um það. Ég rek verðbréfamiðlun og var að auglýsa eftir sendli. Þetta eru meðmælabréfin frá þeim sem sóttu um sendlastarfið. Bóndinn hlýtur að geta notað þessi bréf. Þau eru sum mjög góð."

Afgreiðslumaðurinn (klórar sér vandræðalegur í kollinum) "Já, þessi hljóta að duga." (Í símann ákveðinn): "Já, ég er nú hræddur um það. Hann er með vasana fulla af meðmælabréfum. Ég sagði það: Þetta er pottþéttur strákur. Hann kemur með rútunni á eftir. Segjum það, frændi. Ég bið að heilsa eiginkonunni og syni þínum." (Hlustar í smástund): "Já, eða mínum. Það er satt. Við verðum að fara að fá úr því skorið hvor er faðirinn. Það er betra að hafa það á hreinu. Maður vill nú gefa sínu eigin barni veglegri jólagjöf en einhverjum fjarskyldum lausaleikskróa norður í rassgati. Já, já, við finnum út úr því einhvern daginn. Ókey. Bless, bless!" (Leggur á og snýr sér ánægður að gamla manninum): "Þetta gekk vel. Allt klappað og klárt. Þú ferð niður á Umferðarmiðstöð núna klukkan tvö, tekur þar Norðurleiðarrútuna til Varmahlíðar og ferð svo á puttanum upp í Hjaltadal. En á leiðinni niður á Umferðarmiðstöð þarftu að koma við á Laugarvegi 17 og grípa með þér bréf sem á að fara norður."

Gamli (gengur ringlaður út úr búðinni en tautar á meðan): "Niður á Umferðarmiðstöð, gríp upp bréf á Laugavegi 17 og já, já…" (Kallar til afgreiðslumannsins) "Blessaður og þakka þér fyrir almennilegheitin!" 

Afgreiðslumaðurinn (kallar á móti) "Blessaður og góða ferð!" (Hleypur í símklefann, hringir æstur og kallar ofsaglaður í tólið): "Halló, Magga. Alltaf erum við jafn heppin. Núna losnum við alveg við að borga fyrir frímerkið undir jólakortið til þeirra í Hjaltadal. Það er maður á leið til þín. Hann ætlar að grípa kortið með sér norður. Hann er að fara norður núna á eftir. Ókey. Flott. Bless!"

Tjaldið fellur. Þegar tjaldið er dregið frá aftur vegna gífurlegra fagnaðarláta og uppklapps eru leikararnir ekki á sviðinu heldur 3 unglingstelpur, gjörólíkar leikurunum í útliti. Ein er með sólgleraugu gamla mannsins. Þær hneigja sig og tjaldið fellur aftu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Kr. Bragason

Þetta gæti kannski verið of sýrt og ruglingslegt fyrir suma, en ég hafði mjög gaman að þessu! :P

Björn Kr. Bragason, 11.7.2007 kl. 18:02

2 Smámynd: Sigurður Axel Hannesson

Bráðfyndið! Mun skemmtilegra en margar Hollywood kvikmyndir.

Sigurður Axel Hannesson, 11.7.2007 kl. 19:56

3 identicon

Frumlegt, I must say.
En gaman að þessu!

Maja Solla (IP-tala skráð) 11.7.2007 kl. 20:31

4 identicon

Þetta er magnaður fjölskylduharmleikur í felum - það er að segja báðir mennirnir í leikritinu eiga fjölskyldur sem þjást mjög vegna bæði hegðunar þeirra og útlits, en ekki koma þessir fjölskyldumeðlimir þó í fram í verkinu sjálfu en nærvera þeirra er ljós í undirtexta verksins.

Ætla má að sögusviðið sé sótt í reynsluheim höfundar sem er tíður gestur í hljómplötuverslunum bæði sem viðskiptavinur og þjófur - auk þess sem höfundur hefur starfað í og rekið slíka verslun.

Hin óræða persóna Gamli er ekki öll þar sem hún er séð - okkur er gert ljóst í upphafi að hún er eitt en virðist annað - má marka það af útlitslýsingum í upphafi og af gleraugum sem ekki passa henni. Afgreiðslumaðurinn er á yfirborðinu (til að byrja með) sléttur og feldur afgreiðslumaður en er fram líður þetta mikla leikverk verður okkur ljóst að hann er úlfur í sauðagæru (úr Hjaltadal), nánasar djöfull og armur bragðarefur.

Segja má að höfundur skilji okkur nokkuð eftir í lausu lofti við lok leiksins - og passar það vel í þeim póstmóderníska heimi sem við lifum í - þó má greina tregablandnar ævisögulegar skírskotanir hjá höfundi. Vísanir í æsku, rútuferðir í Skagafjörð og prakkarastrik í plötubúðum. 

Ætla má að þetta verk muni lifa með þjóðinni og verða höfundi til ævarndi sóma meðan land byggist.

 ----------------------------------------------------------------------------------------------

svei mér ef dómurinn er ekki betri en verkið

Kveðja, GB  

GuðmundurB (IP-tala skráð) 11.7.2007 kl. 23:29

5 Smámynd: Jens Guð

  Takk kærlega fyrir þessa mögnuðu og frábæru umsögn.  Ég hló svo mikið við lesturinn að mér svelgdist á bjórnum.  Ég hafði þig,  Guðmundur leikhúsfræðingur,  einmitt í huga þegar ég samdi leikritið.  Það veitti mér aðhald að ímynda mér að þú værir að horfa gagnrýnum augum yfir öxlina á mér þegar ég pikkaði þetta á lyklaborðið.  Húmorinn í leikritinu litast af því.  Líka tilvísunin í Hóla í Hjaltadal. 

  Ég samþykki það að umsögnin er svo mikil snilld að leikritið fellur í skuggann.  Sérstaklega skellti ég upp úr við tilvitnun í reynsluheim höfundar sem viðskiptavinar og þjófs.  Hehehe! 

Jens Guð, 11.7.2007 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband