Hremmingar Billa Start

  Tónlistarmaðurinn Billy Start varð fyrir sérkennilegri reynslu á dögunum.  Heimilissíminn hans þagnaði.  Hann kippti sér ekki upp við það.  Reiknaði með að viðgerð stæði yfir hjá Símanum eða eitthvað álíka.  Slíkt hendir. 

  Það næsta sem gerðist var að vinir Billa sögðu honum að maður úti í bæ væri farinn að svara í símann fyrir hann.  Við eftirgrennslan kom í ljós að Síminn hafði tekið símanúmerið hans Billa og afhent ókunnugum. 

  Billy hefur haft þetta sama símanúmer til fjölda ára.  Hann hefur alltaf borgað símreikninginn á gjalddaga. 

  Þegar Billy hafði samband við Símann mætti hann bara dónaskap.  Viðurkennt var að um mistök væri að ræða.  En lítill vilji reyndist vera fyrir því að leiðrétta þau.  Var helst á mönnum að heyra að svona væri þetta og Billy yrði að sætta sig við það.  

  Það var ekki fyrr en í fimmta símtali við Símann sem loksins var fallist á að Billy fengi númerið sitt aftur.  Þá var farið að þyngjast í Billa og hann farinn að byrsta sig.  Daginn eftir var kominn sónn í símann hjá honum.

  Í engu af þeim 5 símtölum sem Billy átti við Símann var beðist afsökunar á mistökunum.  

  Nú bíður Billy spenntur eftir næsta símreikningi.  Það verður forvitnilegt að vita hver verður rukkaður fyrir símtölin sem ókunnugi maðurinn hringdi úr símanúmeri Billa.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Kemur mér ekki á óvart. Enda er ég nú hamingjusamur viðskiptavinur Vodafóns.

En leiðinlegt þegar þetta kemur fyrir svona fólk - Billi er nebblega eðalmenni.

Ingvar Valgeirsson, 11.7.2007 kl. 13:55

2 identicon

Þetta er náttúrulega svívirða að Startarinn lendi í svona hremmingum - annar eins öðlingur og SKILAMAÐUR! Það er 100% öruggt að ekki hefur staðið á því að Billi borgaði sína reikninga hvorki Símanum né öðrum. Þekki það frá fyrstu hendi - enda sveitungar og vinnufélagar hér forðum við TEMP-5 (þetta skilja bara innvígðir).

Kveðja úr þinni sveit Jens,

Guðmundur

GuðmundurB (IP-tala skráð) 11.7.2007 kl. 20:26

3 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Datt þetta í hug útfrá greininni þinni:

Þjónustuver Símans - aumasti brandarinn.....

 Svo skilst mér á bróðir mínum að hann hafi orðið fyrir því sama.

Ævar Rafn Kjartansson, 11.7.2007 kl. 21:56

4 Smámynd: Jens Guð

  Annar kunningi minn,  Gísli að nafni,  (og reyndar vinur Billa Start líka) lenti í svipuðu.  Í því tilfelli var Gísla þó sjálfum um að kenna.  Hann gleymdi að borga símreikninginn.  Símanúmeri hans var þá lokað.

  Gísli brá við skjótt og borgaði reikninginn.  Þegar Gísli gekk eftir því að síminn sinn yrði opnaður komst hann að því að daginn áður var númer hans tengt hjá konu úti í bæ.  Gísli hringdi í kellu.  Sagði henni frá því að hann væri búinn að hafa þetta númer í 20 ár,  væri sendibílstjóri og númerið prentað á auglýsingaspjald hans og annað í þeim dúr.

  Konan sagði að það væri sjálfsagt að skila númerinu.  Hún var hvort sem er ekki farin kynna það fyrir vinum og vandamönnum.

  Að nokkrum dögum liðnum hringir Gísli aftur í konuna til að vita hvenær hún tali við þá hjá Símanum.  Hún sagðist vera búin að tala við þá.  Þar á bæ þvertóku menn fyrir að leyfa henni að skila númerinu.  Sögðu að það væri gott á Gísla að tapa númerinu fyrst að hann borgaði ekki símreikninginn á réttum tíma.  Svoleiðis drullusokkar hefðu gott af því að tapa númerinu sínu.  Þeir myndu þá kannski passa betur upp á að standa skil í framtíðinni.

Jens Guð, 11.7.2007 kl. 22:32

5 Smámynd: Jens Guð

  Takk fyrir kveðjuna úr sveitinni,  Guðmundur.  Það væri gaman að fá komment frá leikhúsfræðingnum á leikritið í næstu færslu hér að ofan.

  Startarinn er pottþéttur snillingur í alla staði.  Þess vegna er furðulegt að Síminn skuli fokka upp hans málum. 

Jens Guð, 11.7.2007 kl. 22:59

6 identicon

Sælt verið fólkið, mér var bent á þessa síðu og ákvað að senda ykkur langlokuna sem ég sendi vinum og vandamönnum eftir að ég færði mig yfir í þjónustu Vodafone.  

Fyrir fimmtán árum flutti ég til Íslands og fékk mér, eins og lög gera ráð fyrir, síma. Á þessum tíma var aðeins eitt fyrirtæki sem bauð upp á þessa þjónustu þannig að vitanlega fékk ég mér síma hjá Símanum (Þá Landsímanum). Í mörg ár vorum við í fínasta sambandi en úr þeim gæðum fór að draga fyrir þremur árum.  Ég hafði verið með internetið í fimm ár þegar ég ákvað að fá mér ADSL. Kallinn keypti einhvern router (veit ekki hvernig það er skrifað) og við vorum sátt og fín í 10 vikur en þá skyndilega náðum við engu sambandi lengur. Ég hafði samband við þjónustuver Símans og mér var tjáð að það væri bilun í gangi sem væri verið að laga, eftir þrjá daga var enn ekkert internetsamband. Ég hef aftur samband og fæ sömu svör. Eftir rúma viku hef ég samband við vinkonu mína sem er að vinna hjá Símanum og hún fer í málið, í ljós kemur að það var búið að breyta einhverju (sem ég skyldi ekki) hjá símanum þannig að tækið mitt virkaði ekki lengur en ég gat keypt nýtt á 10.000 eða gert 12 mánaða áskriftasamning (eftir að hafa verið í áskrift í fimm ár). Nú ég var nú ekki alveg sátt og þakkaði vinkonunni vel og vandlega þegar hún reddaði þessu fyrir mig og hugsaði til þeirra sem ekki eiga greiðan aðgang að reddurum innan Símans.  Í fyrra fengum við okkur svo Skjásport. Ég get verið svolítið kærulaus þegar kemur að reikningum og lét bankann um að borga þetta en fór svo að skoða reikninginn þegar hann kom í þriðja sinn og sá að ég var að borga fyrir Breiðvarpið líka sem ég hafði aldrei pantað og hafði heldur ekki aðgang að. Ég ræði þetta við manninn minn og hann verður mjög hissa á þessu vegna þess að hann hafði ekki vitað að ég væri rukkuð um Skjásport því hann var líka að borga það. Það tók tvenn mánaðamót að leiðrétta þennan misskilning. Sem hefði hugsanlega ekki komist upp ef Breiðbandið hefði ekki slæðst með því þá hefðum við bæði borgað Skjásport þegjandi og hljóðalaust. Nú svo keypti ég mér gsm-síma og hann var þeim eiginleikum gæddur að ákveða af og til að nú ætti ég að nota head-settið. Eftir tveggja vikna notkun fór ég með símann í viðgerð en þeir fundu aldrei neitt að honum þannig að mín varð bara að passa að hafa head-settið meðferðis hvert sem farið var ef síminn skyldi nú ákveða að það væri málið. Ég þreyttist nú fljótt á honum þessum og fékk mér annan og sá var með myndavél og mín spennt yfir því að geta loksins farið að taka á móti og senda MMS en viti menn það var aldrei hægt að virkja það og svörin voru að síminn minn væri greinilega mánudagseintak og svona gerðist stundum.  Nú í þessum mánuði var mælirinn fylltur! Sonur minn fór og keypti handa mér nýjan síma. Þegar búið var að sækja hann sér hann að það er miði á kassanum sem á stendur: Vantar plast á rafhlöðu og bæklinga. Stelpan býður honum 10% afslátt vegna þessa pokaleysis sem hann þiggur. Ég set svo símann í hleðslu og var mjög ánægð með hraðvirkni hennar þar sem síminn var fullhlaðinn eftir klukkutíma. Um kvöldið fer ég svo að skoða gripinn og viti menn í símanum er fullt af myndum af einhverju liði sem ég kannast ekki við!!! Morguninn eftir hringi ég í söluver og maðurinn biður mig að fara í búðina sem síminn var keyptur í og fá nýjan og biður mig innilega afsökunar. Ég geri það og stelpan sem afgreiddi mig kippti sér ekki mikið upp við fréttirnar, tók símtækið og hvarf „bakvið“ í býsna langan tíma. Svo kemur hún fram og réttir mér síma og segir gerðu svo vel þetta er nýr sími. Ég tók upp púðurdósina mína til að athuga í speglinum hvort það stæði nokkuð Ég er fáviti á enninu á mér en nei það var ekki að sjá. Ég spurði því hvort ég ætti að trúa því að hún hafi ekki bara verið að eyða myndunum og hún verður mjög reið og segist geta náð í hitt liðið sem væri „bakvið“ svo ég geti bara spurt það. Ég segi henni þá eins rólega og mér var unnt að ég vilji að hún skilji þennan síma eftir hjá hinu dótinu (kassa, hleðslutæki o.s.frv.) og fari og sæki annan kassa með nýjum síma. En nei það má ekki, samkvæmt henni eru það verkreglur að taka ekki við hleðslutækjum eða rafhlöðum sem búið er að taka utan af. Ég segi að ég sé ekki sátt við þetta en hún segir að ég geti skoðað raðnúmerið ef ég vilji vera viss um að ég hafi fengið nýjan síma (og hver leggur ekki raðnúmerin á minnið??). Núbb, mín er ekki af baki dottin og segir að hún vilji líka nýja rafhlöðu, þær séu ekki í ábyrgð og hver viti hvernig fyrri eigandi hafi hlaðið símann. Stelpan rífur rafhlöðuna úr og fer með hana og kemur svo aftur að vörmu spori með rafhlöðu (ekki í plasti) og setur í símann.  

Þegar þarna var komið hafði ég ekki tíma til að þrátta en hringi síðar í þjónustustjóra og sú varð miður sín og sagðist myndi fara í málið. Klukkutíma síðar hringir verslunarstjóri í Smáralind og segir að hann hafi fengið þetta inn á borð til sín og segir að ég hefði átt að vinda mér strax til hans. Hann segir að ég sé með nýjan síma og stelpan hafi m.a.s. gengið svo langt að láta mig hafa nýja rafhlöðu. Ég segist ekkert vita um það enda hafi ég ekki séð hana gera neitt annað en að fara með hlutina og koma með aðra (eða sömu) ópakkaða aftur til baka. Hann segir eins og stelpan að það sé verkregla hjá þeim að taka ekki við rafhlöðum sem búið sé að taka utan af þar sem byrgjarnir þeirra taki ekki við þeim. Hmmm... en ég átti að gera það? Hann segist ekkert geta gert annað en beðið mig afsökunar og segir svo að sér þyki mjög leiðinlegt að það hafi gleymst að eyða myndunum úr símanum!!! Jamm og jæja þetta var sem sagt það sem þeim þótti leiðinlegast, að upp um þá hafi komist.

 Ég sagði honum að ég hefði tvisvar keypt gallaða síma hjá þeim og ekki getað fengið nýjan og spurði hvað hefði eiginlega orðið til þess að sá sem átti símann á undan mér hafi fengið að skila honum (og takið eftir rafhlöðunni líka!) og þá kom þetta frábæra svar: Sko ég er löngu hættur að gefa fólki síma, það verða allir að fá að velja þá sjálfir því oft kemur í ljós þegar maður hefur t.d. gefið einhverjum Samsung síma að hann er bara Nokia-maður!  

Þannig að ef þið eruð í vandræðum með símana ykkar þá bara segist þið vera háð einhverju öðru merki og þið fáið nýja og gamli (hugsanlega gallaði) síminn verður seldur einhverjum öðrum sem er nógu saklaus til að taka við honum.

Nú en sagan er ekki búin. Um daginn var svo hringt í mig og ég beðin um að skila routernum sem ég hafði haft í þrjú ár. Ég sagðist nú telja að ég ætti hann en þeir sögðu svo ekki vera. Nú ég dreif mig í Vodafone-búðina og keypti mér nýjan (ÉG á hann núna) á innan við 3000 krónur. Skelli mér svo hinu megin við vegginn til að skila gamla (þriggja ára) routernum. Afgreiðslustúlkan þakkar pent fyrir og segir að þetta sé komið, ég bað hana þá um kvittun. Og þá fer stúlkan að pikka eitthvað inn í tölvuna sína og segir svo að ég skuldi henni rúmar 8000 krónur!!!! WHAT! jább þetta var uppsagnargjaldið. Ég segi henni að ég trúi ekki að ég þurfi að borga uppsagnargjald sem er nógu hátt til að ég geti keypt mér tvo routera hinu megin við vegginn og átt afgang. En hún stendur á sínu og segir að ég sé að segja upp á miðju samningstímabili við þá og segir að skv. hennar tölvu hafi ég fengið routerinn vikuna áður. Ég þurfi hins vegar að vera búin að vera með græjuna í eitt ár til að þurfa ekki að borga þetta uppsagnargjald. Ég (eins rólega og ég get) segi henni að ég hafi verið með þetta tæki í þrjú ár. Nei nei hún sá það nú alveg á tækinu að það var alveg nýtt (ég veit ekki alveg hvernig aðrir nota sína routera, minn stendur bara á borðinu og svo þurrka ég af honum af og til). Ég sagði að ég vildi sjá þennan samning sem væri enn í gildi og hún sagði að hann væri bakvið en hún hefði ekki tíma til að finna hann því það tæki svo langan tíma því bauðst hún til að sleppa mér út úr búðinni með seðlaveskið jafnfeitt og það var þegar ég kom inn. Svo bætti hún við: Ég set í athugasemdir að konan segist hafa verið með routerinn í meira en ár, svo skulum við bara sjá hvort þú kemst upp með þetta!

Þarna standa málin í dag og ég naga neglurnar upp í kviku að bíða eftir reikningnum....  

Anna Pála Gísladóttir (IP-tala skráð) 13.7.2007 kl. 15:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband