Kvikmyndaumfjöllun

skrapput 
Titill:  Skrapp út
Helstu leikarar:  Didda skáld,  Ólafía Hrönn,  Ingvar E.  Sigurðsson,  Jörundur Ragnarsson,  Erpur Eyvindarson,  Krummi í Mínus og nokkrir útlendingar
Framleiðandi: Zik Zak
Leikstjóri og handritshöfundur:  Sólveig Anspach
Einkunn:  **** (af 5)
.
  Söguþráðurinn er einfaldur.  Myndina má flokka undir vegamynd (road movie).  Ljóðskáldið Anna (Didda skáld) reykir gras (marijúana) og selur gras í Reykjavík.  Hún flækist vestur á Kvíabryggju og á sveitabýli frænda síns (Ingvar E.).  Atburðarrásin líður áfram látlaus en áhugaverð og oft brosleg.
  Myndatakan er falleg.  Íslenska landslagið er glæsilegt snemma vors,  hjúpað ljósbrúnum/gráum litum.  Handan við hornið er sumar og betri tíð í haga.
  Didda er sannfærandi sem síreykjandi grassali.  Leikur hennar er áreynslulaus.  Hún hefur útlitið með sér:  Andlitið rúnum rist,  líkaminn grannur,  röddin hás og týpan dálítið töff.
  Gömul ljóð eftir Diddu koma ítrekað við sögu.  Þau undirstrika að Didda er að hluta að leika sjálfa sig.
  Erpur á sterka innkomu.  Hann er líka að leika sjálfan sig:  Svalan og orðheppinn rappara.  Rapp hans snemma í myndinni er einn af hápunktum myndarinnar.  Ýmsir fleiri hafa lítið fyrir því að leika sjálfa sig,  svo sem Krummi í Mínus og synir Diddu.
   Myndin tekur sig ekki of hátíðlega.  Það er ástæðulaust að velta sér upp úr því að gæs er líffræðilega ófær um að "sporðrenna"  farsíma.  Eða þegar Anna sest niður til að raula nett lag og henni er réttur sjúskaður gítar af himnum ofan.
  Krúttlegar myndir af dýrum skjóta upp kolli.  Það er gaman að sjá kind kara nýfædd lömb sín. 
  Sömuleiðis er gaman að heyra reggímúsík dúkka ítrekað upp og binda síðan endahnút á myndina.  
  Margt fleira skemmtilegt ber fyrir augu og eyru:  Sverrir Guðjónsson tekur lagið,  Thor Vilhjálmsson fer með kvæði o.s.frv.
  "Skrapp út" er í aðra röndina drama og í hina röndina gamanmynd.  Grínið birtist ekki í atvikum sem framkalla stöðugar hláturgusur heldur er það meira undirliggjandi.  Dæmi:  Dópliðið sem heimsækir Önnu er æði skrautlegt en allir byrja á því að fara úr skónum um leið og þeir snarast inn um útidyrnar. 
  Ég get mælt með þessari mynd sem ágætri skemmtun og hef grun um að ekki sé síðra að horfa á hana aftur og aftur.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Mér hefur aldrei þótt geðslegt að horfa á kind kara lamb sitt.( Þér að segja, svona í trúnaði, þá þykir mér það bara ógeðslegt.)

Svo af því að í mig er kominn einhver kvöldgalsi, þá spyr ég: Hvernig getur mynd tekið sig ekki of hátíðlega og hvernig ber kvikmynd sig að ef hún tekur sig hátíðlega?

Kveðjur og heilsanir af Ströndinni.

Rúna Guðfinnsdóttir, 1.8.2008 kl. 00:09

2 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Þetta er mynd sem ég er svolítið spenntur fyrir að sjá og hlakka til að sjá dýrðina.

S. Lúther Gestsson, 1.8.2008 kl. 00:17

3 identicon

Hjómar mjög spennani. Ætla mér að sjá myndina við fyrsta tækifæri.

Má til með að segja eitt Jens þar sem þú talar þarna um tónlist flutta af Sverri Guðjóns og Ljóð flutt af Thor í myndinni.

Ég hef alltaf átt eftir að spyrja um þessi lög/brag í spilarunum hjá þér. Þetta er virkilega skemmtilegt efni og áhugavert. Hvenær gerðir þú þetta og eða er þetta væntanlegt til úgáfu? Það væri virkilega gaman að heyra meira.

 kveðja

Gunnar Pálsson

Gunnar Pálsson (IP-tala skráð) 1.8.2008 kl. 01:01

4 Smámynd: Jens Guð

  Rúna,  ég átta mig ekki á því hvers vegna þér þykir ógeðslegt að horfa á kind kara lömb sín.  Þetta er birtingarmynd væntumþykju móður gagnvart afkvæmi.  Þetta bindir mæðginin sterkum tilfinningaböndum.  Lömbin skynja út frá þessu hver hugsar um velferð þeirra.  Við körunina ertir lyktarhórmónið ferónmómar taugaenda í nefgöngum kindarinnar.  Við það hefst boðefnaframleiðsla í heila hennar sem býr til öfluga verndunarþörf í garð lambsins.

  Varðandi kvikmynd sem tekur sig hátíðlega eða ekki skulum við fyrst heimfæra þessa lýsingu upp á tilteknar manneskjur.  Sumar leggja sig fram um að vera virðulegar til orðs og æðis.  Reyna hvað þær geta að hljóma gáfulega og koma vel fyrir í alla staði.  Gæta þess jafnframt að klæða sig óaðfinnanlega til samræmis við þann virðuleikann.  Þessar manneskjur taka sig hátíðlega.

  Aðrar manneskjur eru lítið að velta fyrir sér hvernig þær koma fyrir og hvernig þær koma fyrir sig orði.  Þær koma til dyranna eins og þær eru klæddar.  Tala áður en þær hugsa og leyfa sér að láta eins og fífl - þegar þannig liggur á þeim.  Þessar manneskjur taka sig ekki hátíðlega.

  Berum þetta líka saman við hljómsveitir.  Sumar byggja upp ímynd vandaðra listrænna hljómsveita sem líta vel út á sviði og flytja metnaðarfulla músík.

  Aðrar hljómsveitir eru einskonar partý.  Liðsmenn þeirra líta á hljómsveitina sem vettvang fyrir fyllerí og fjör.  Þeir eru fyrst og fremst að skemmta sér og eru ekkert að eltast við að leggja vinnu í músíkina.

  Þetta er munurinn á hjómsveitum sem taka sig hátíðlega eða ekki.

  Þessu er líkt varið með kvikmyndir.  Í sumum er byggð upp virðuleg stemmning sem hvergi er hvikað frá.  Það er reynt að passa upp á að atburðarrás standist skoðun.

  Í öðrum leyfir leikstjórinn sér að bregða á leik og er ekkert upptekinn af því þó að eitthvað í framvindunni sé götótt.

Jens Guð, 1.8.2008 kl. 01:47

5 Smámynd: Jens Guð

  S.  Lúther,  þú verður ekki fyrir vonbrigðum.

  Gunnar,  ef þú ert að spyrja um lögin mín í spilaranum þá hafa þau komið út á eftirtöldum plötum:  "Rymur",  "Tyrkland",  "Lagasafnið" og "Rock from the Cold Seas".  Á þeim plötum er ég reyndar skráður undir dulnefninu Gleðisveitin Alsæla.  Það eru sennilega 10 - 15 ár síðan ég hljóðritaði þessi lög.  "Þorraþrællinn" fékk góða spilun á rás 2 á sínum tíma og grænlenska útvarpinu.  Þar fór lagið á vinsældalista og í kjölfarið var mér boðið í hljómleikaferð til Grænlands tvö ár í röð. 

Jens Guð, 1.8.2008 kl. 01:59

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sjón er ekki að sjá hann Jón,
því svaka í nef fékk ferómón,
þar Völu Ara,
var að kara,
bótaskylt hann beið þar tjón.

Þorsteinn Briem, 1.8.2008 kl. 03:09

7 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Helvíti ertu oft í heimspekilegu stuði Jens minn og þá kann ég sem aldrei fyrr að meta þig! Sömuleiðis sérfræðiþekkingin alltumliggjandi í svarinu til "Ekki Rabbabara-Rúnu"!

En eins og stundum fyrr, hvíla á mér miklir þankar.

Hélst til dæmis skvísan Didda í fötunum í myndinni, eða flaggaði hún fegurð sinni á Evuklæðunum einum líkt og hún gerði minnir mig í Stormy Weather!?

Bara svona að forvitnast!

Magnús Geir Guðmundsson, 1.8.2008 kl. 10:35

8 Smámynd: Jens Guð

  Steini,  takk fyrir limruna.

  Maggi,  Didda er kappklædd myndina út í gegn.  Þrátt fyrir miklar grasreykingar og sveppaát er þetta eiginlega fjölskyldumynd.  Ég man ekki eftir  Stormy Weather  myndinni.  

Jens Guð, 1.8.2008 kl. 10:53

9 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Hvað segirðu, mannst ekki eftir þeirri mynd?

hún, Didda og gott ef ekki myndin sjálf líka, fengu verðlaun víða m.a. fékk Didda Edduna he´rna heima og tók við henni með víst eftirminnilegum hætti!

Leikstjórin sá sami, Sólveig Anspach!

Magnús Geir Guðmundsson, 2.8.2008 kl. 00:54

10 Smámynd: Jens Guð

  Maggi,  ég man eftir að Didda fékk Edduna fyrir eitthvert hlutverk.  Ég man að hún var sérlega glæsileg á Eddunni.  En myndin hefur einhverra hluta vegna farið framhjá mér. Að óreyndu ætla ég að leikur hennar í "Skrapp út" trompi það hlutverk.

Jens Guð, 2.8.2008 kl. 01:22

11 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Daginn Jens! Þetta var nú bara létt grín hjá mér með orðaleikinn, ekkert sem risti djúpt..s.s bara bull  

Þetta með kindina er mér vel kunnugt um, enda hálfgerður sveitalubbi  Ég fæ bara klígju við að horfa á þær slafra í sig slíminu.   Kveðja inn í þennan laugardag 2. ágúst

Rúna Guðfinnsdóttir, 2.8.2008 kl. 09:41

12 identicon

Unglingurinn sem söng látlaust og fallega án undirleiks í myndinni, er þetta ekki söngvarinn í Soundspell? Spyr þig þar sem þú hefur skrifað um þá hljómsveit.

Ingi Þór (IP-tala skráð) 8.8.2008 kl. 11:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband