Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ótrúlega ósvífið vanþakklæti

  Ford pallbíll og Chrysler fólksbíll skullu harkalega saman á gatnamótum í Boston í Bandaríkjunum.  Ökumaður síðarnefnda bílsins lést samstundis.  Farþegi,  ungur maður,  slasaðist.  Sjónarvottur að slysinu brá við skjótt.  Hann hjúkraði þeim slasaða,  veitti honum fyrstu hjálp og bar hann inn í sinn bíl.  Því næst brunaði hann að næsta sjúkrahúsi og kom honum inn á slysavarðstofu.  Þar aðstoðaði hann starfsfólk við að hlúa að sjúklingnum á meðan gert var að sárum hans. 

  Að því kom að hægt var að útskrifa hann.  Hann sagðist þurfa að skreppa á salerni áður en hann myndi fylla út tryggingapappíra.  Hann skilaði sér ekki til baka heldur náði að skríða út um glugga á salerninu.  Þar með sat hjálpsami Samverjinn uppi með sjúkrareikninginn.  Það var, jú,  hann sem kom með "viðfangsefnið" á slysó.

  Verra var að þegar hann kom út var bíllinn hans horfinn.  Lögreglan var kölluð til.  Í ljós kom að sá slasaði hafði náð að stela bíllykli Samverjans.  Hann hafði gefið upp rétt nafn og heimilisfang við innritun.  Lögreglan brunaði þangað og mikið rétt.  Bíllinn var þar.  Er lögreglan handtók kauða gaf hann þá skýringu að eftir andlát bílstjórans hafi hann verið bíllaus.  Þetta var eina ráðið sem honum datt í hug til að bæta sér upp bílleysið.

chrysler

  

    


Svangur frændi

  Fötluð kona í hjólastól bjó í kjallara á Leifsgötu.  Dag einn fékk hún upphringingu frá frænku sinni í norðlenskri sveit.  Sú sagði að 17 ára sonur sinn ætlaði til Reykjavíkur kvöldið eftir.  Hann væri að kaupa bíl.  Fengi hann að gista á Leifsgötunni?

  Frænkan fagnaði erindinu.  Frændann hafði hún ekki séð síðan hann var smápatti.  Móðirin sagði hann fá far hjá vörubílstjóra.  Þeir yrðu seint á ferð.  Myndu varla skila sér fyrr en eftir miðnætti.

  Kvöldið eftir bað sú fatlaða heimahjúkkuna um að laga mat handa frændanum og halda honum heitum uns hann mætti.  Er nálgaðist miðnætti sótti syfja að konunni.  Hún bað hjúkkuna um að renna sér inn í stofu.  Þar ætlaði hún að dotta í haustmyrkrinu uns frændi kæmi.

  Hún steinsofnaði en hrökk upp við að frændinn stóð yfir henni.  Hún tók honum fagnandi og bað hann um að renna sér í stólnum fram í eldhús.  Þar biði hans heitur matur.  Stráksi tók hraustlega til matar síns.  Hann var glorhungraður og fámáll.  Umlaði bara já og nei um leið og hann gjóaði augum feimnislega í allar áttir.  Sveitapilturinn var greinilega óvanur ókunnugum.  Skyndilega tók hann á sprett út úr húsinu.  Nokkrum mínútum síðar bankaði annar ungur maður á dyr.  Hann kynnti sig sem frændann.  Ættarsvipurinn leyndi sér ekki.  

  Hver var svangi maðurinn?  Við athugun kom í ljós að stofugluggi hafði verið spenntur upp.  Gluggasyllan og gólfið fyrir neðan voru ötuð mold.  Greinilega var innbrotsþjófur á ferð.  Hlýlegar móttökur og heitur matur hafa væntanlega komið á óvart!

hjólastóll           


Þegar Jón Þorleifs kaus óvænt

  Jón heitinn Þorleifsson var í stöðugri uppreisn.  Hann var verkamaður en snéri sér að ritstörfum kominn á efri ár.  Hann naut sín við að yrkja níðvísur og deila á menn og málefni.

  Hann notaði nánast aldrei atkvæðarétt sinn.  Þó mætti hann á kjörstað.  Þar skráði hann níðvísu um einhvern eða einhverja á kjörseðilinn. 

  Svo bar til einn bjartan kosningadag að þingmaður Alþýðubandalagsins mætti Jóni á gangi.  Þeir voru kunnugir og heilsuðust. 

  - Sæll Jón minn. Ertu búinn að kjósa?  spurði maðurinn.  

  - Já,  aldrei þessu vant,  svaraði Jón.

  - Kaustu rétt?

  - Það veit ég ekki.  Ég krossaði við Alþýðubandalagið.

  - Þakka þér kærlega fyrir atkvæðið.  Hvað kom til?

  - Þetta var eina ráðið sem ég hafði til að strika yfir nafnið þitt!

jon_orleifs  


Pottþétt ráð gegn veggjalús

  Veggjalúsin er leiðinda kvikindi.  Hún lifir í þurru og hlýju umhverfi.  Hún felur sig á daginn og bíður í rólegheitum eftir að fórnarlambið fari að sofa.  Þegar það er sofnað læðist lúsin hljóðlega að því og sýgur úr því blóð.  Í bitinu er staðdeyfiefni.  Þess vegna vaknar fórnarlambið ekki við bitið. 

  Blessunarlega er lítið um lúsina hérlendis.  Til þess er of kalt.  Á ferðalögum erlendis verður margur var við kláða og blóðblett í sárinu.  Einfalt er að sporna gegn dýrinu.  Aðeins þarf að kaupa létta frystikistu og geyma í henni föt, handklæði,  snyrtivörur og fleira.  Þar með eru litlir möguleikar fyrir skepnuna að laumast heim til  Íslands með ferðamanninum. 

lfrystikista

veggjalus


mbl.is Ekki taka upp úr ferðatöskum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áthylisverð nöfn á bæjum og götum

  Fólk er áhugasamt og sumt viðkvæmt fyrir nöfnum á götum,  bæjum og þorpum.  Í Þýskalandi er bær sem heitir því líflega nafni Fucking.  Hann lokkar að enskumælandi ferðamenn í halarófu.  Það gerir gott fyrir sveitarfélagið.  Verra er að þessir ferðamenn eru fingralangir.  Þeir stela skiltum sem bera nafn bæjarins.

  Í Bandaríkjunum gera heimamenn út á þorpið Hell.  Þeir bjóða gestum og gangandi upp á ótal söluvarning merktan því.  Í Noregi er líka bær sem heitir Hell.  Þar stela ferðamenn einu og öðru.

  Í miðbæ Þórshafnar í Færeyjum er gata sem heitir Tittlingsvegur.  Íslendingum þykir gaman að smella í sjálfu við götuheitið.

  Í Hollandi er gata sem áður bar nafn sem hljómaði líkt og víagra.  Þegar stinningarlyfið Viagra kom fram á sjónarsvið og öðlaðist vinsældir höfðu heimamenn ekki húmor fyrir nafninu.  Þeir skiptu um nafn á götunni. 

  Á síðustu öld reisti Sjálfstæðisflokkurinn bækistöðvar í Bolholti.  Frammámenn í flokknum fengu að skrá húsið við Háaleitisbraut.  Ég veit ekki af hverju. 

scandic hell


Hver mælti svo?

  Eftirfarandi gullmolar hrukku upp úr einum og sama manninum fyrir nokkrum árum þegar hann var áberandi í umræðunni.  Hver er það?

  - Ég veit að manneskja og fiskur geta átt friðsamleg samskipti!

  - Sífellt meira af innflutningi okkar kemur frá útlöndum!

  - Eitt það frábæra við bækur er að stundum innihalda þær flottar myndir!

  - Ég held að við getum verið sammála um að fortíðin er liðin!

  - Hvað hef ég heilsað mörgum með handabandi?

  - Ég vona að við komumst til botns í svarinu.  Ég hef áhuga á að vita það.

  - Ef þú hefur engan málstað að verja þá hefur þú engan málstað að verja!

  - Washington DC er staðurinn þar sem fólk stekkur út úr tófugreninu áður en fyrsta skotinu er hleypt af!

  - Þegar ég tala um mig og þegar hann talar um mig þá erum við báðir að tala um mig!


Metnaðarleysi

  Einhver allsherjar doði liggur yfir Íslendingum þessa dagana.  Meðal annars birtist það í áhugaleysi fyrir komandi forsetakosningum.  Innan við sjötíu manns eru byrjaðir að safna meðmælendum.  Það er lágt hlutfall hjá þjóð sem telur nálægt fjögur hundruð þúsund manns.  Að vísu þrengir stöðuna að frambjóðandi verður að vera 35 ára eða eldri.  Einnig þurfa kjósendur að vera 18 ára eða eldri.  Samt. 

kórona

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Steinunn Ólína byrjuð að safna undirskriftum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bónusgreiðslur og Bónuskort

  Í kjölfar bankahrunsins 2008 uppgötvaðist að bankarnir gengu á bónuskerfi.  Starfsmenn smöluðu gömlu fólki eins og rollum í réttir.  Smöluðu því af öruggum bankabókum yfir í Sjóð 9 og hvað þeir hétu allir þessir sjóðir.

  Bónuskerfið virkaði svo vel að Samkeppniseftirlitið og Skatturinn hafa tekið það upp.  Fleiri mætti virkja með bónuskerfi.  Til að mynda bílastæðisverði.  Það yrði handagangur í öskjunni ef vörðurinn fengi 1000 kall og Bónuskort fyrir hvern bíl sem hann sektar.  Hann myndi sleppa matar- og kaffihléi til að ná bónusnum upp.

  Hvað með lögguna?  Hvað ef hún fengi 10.000 kall og Bónuskort fyrir hverja handtöku?  Ekki má gleyma dómurum.  Þeir mættu fá vænan bónus og Bónuskort fyrir hver óskilorðsbundinn dóm.

kort

 

   


Hvar er mesta atvinnuþátttaka og minnsta?

  Mikil atvinnuþátttaka bendir til velsældar.  Að sama skapi er dræm atvinnuþátttaka vísbending um vesaldóm.  Á meðfylgjandi skjali má sjá yfirgripsmikla samantekt á þessu.  Ef smellt er á skjalið þá stækkar það til muna og verður læsilegra.

  Listinn spannar aldursbilið 15 - 74ra ára.  Hvar sem borið er niður skara Færeyingar framúr.  Sama hvort einstakir aldurshópar eru skoðaðir eða aðrir tilteknir hópar.  Til að mynda atvinnuþátttaka kvenna.  Allt flottast í Færeyjum! 

vinnuþáttaka

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Gleðilegan Þorra!

 


Það getur bjargað lífi ykkar og limum að vita þetta

  Við lifum á spennandi tímum.  Því miður í neikvæðri merkingu.  Við vitum ekkert hvernig mál eru að þróast.  Er Úkraínuher að rúlla rússneska hernum upp?  Eða eru Rússar með yfirhöndina?  Vopnaframleiðsla heimsbyggðarinnar er á flugi.  Vopnasala hefur sjaldan blómstrað meir.  Eru klasasprengjur komnar í gagnið?  Verður kjarnorkuvopnum beitt?  Í hafinu umhverfis Ísland er að verða krökkt af kafbátum.  

  Hvað með loftlagsvána?  Skógarelda?  hryðjuverk?  Flóð?  Hnífaburð ungmenna? 

  Hvar er öruggur staður til að vera á?  Ég veit það.  Hann er á Bíldshöfða 6.  Þar er bílasala.  Í auglýsingu frá henni segir:  "Brimborg,  öruggur staður til að vera á".

 

her     


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband