Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
3.9.2023 | 12:42
Það getur bjargað lífi ykkar og limum að vita þetta
Við lifum á spennandi tímum. Því miður í neikvæðri merkingu. Við vitum ekkert hvernig mál eru að þróast. Er Úkraínuher að rúlla rússneska hernum upp? Eða eru Rússar með yfirhöndina? Vopnaframleiðsla heimsbyggðarinnar er á flugi. Vopnasala hefur sjaldan blómstrað meir. Eru klasasprengjur komnar í gagnið? Verður kjarnorkuvopnum beitt? Í hafinu umhverfis Ísland er að verða krökkt af kafbátum.
Hvað með loftlagsvána? Skógarelda? hryðjuverk? Flóð? Hnífaburð ungmenna?
Hvar er öruggur staður til að vera á? Ég veit það. Hann er á Bíldshöfða 6. Þar er bílasala. Í auglýsingu frá henni segir: "Brimborg, öruggur staður til að vera á".
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.9.2023 kl. 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.8.2023 | 12:36
Maður sem hatar landsbyggðina
Kunningi minn er um áttrætt. Hann hefur andúð á landsbyggðinni; öllu utan höfuðborgarsvæðisins. Hann er fæddur og uppalinn í miðbæ Reykjavíkur. Foreldrar hans ráku þar litla matvöruverslun. Það var hokur. Ungur byrjaði hann að hjálpa til. Honum þótti það skemmtilegt.
Fjölskyldan tók aldrei sumarfrí. Stráksi stækkaði og tók bílpróf þegar aldurinn leyfði. 1974 var hringvegurinn opnaður. Yfir því ríkti mikill ævintýraljómi. Þá keypti hann ódýran bíl og fékk samþykki foreldranna til að taka stutt frí og aka hringinn.
Hringvegurinn var einbreiður malarvegur, alsettur holum og "þvottabrettum". Ökuþórinn fékk hræðslukast af áhyggjum yfir heilsu bílsins. Auk þess fylltist óþéttur bíllinn af ryki. Ekki bætti úr skák að framboð á gistirými var lítið en rándýrt. Sama var með veitingasölu.
Okkar maður kom hvergi auga á hið rómaða landslag sem hann hafði heyrt af. Fjöll voru hvert öðru líkt og ekki samkeppnishæf við Esjuna. Út um allt mátti sjó óspennandi tún, beljur og annað.
Á leið frá Skagafirði til Akureyrar hvellsprakk dekk undir bílnum. Varadekk og önnur dekk voru í bágu ásigkomulagi. Þetta var um helgi. Ökuþórinn leitaði uppi eigendur dekkjaverkstæða. Enginn var til í að opna verkstæði fyrr en á mánudeginum. Hann sannfærðist um að óliðlegheitin væru vegna þess að hann var utanbæjarmaður.
Til að spara pening svaf hann í rykugum bílnum. Eftir að gert var við dekk hætti hann við við hringferð. Hann brunaði aftur til Reykjavíkur og sór þess eið að fara aldrei aftur út á land. Í kjölfar óx andúðin á "sveitavarginum". Hann liggur ekki á skoðun sinni um að landsbyggðin sé afæta á samfélaginu. Hann snöggreiðist undir fréttum af fyrirhugaðri gangagerð eða öðrum samgönguúrbótum.
Eitt sinn var Hagkaupum synjað um innflutning á hollenskum kartöflum. Kallinn hætti alfarið að borða kartöflur. Þannig mótmælti hann "ofríki bændamafíunnar". Síðan borðar hann bara hrísgrjón, spagettí eða brauð með mat.
Hann hætti líka að borða mjólkurvörur. Smyr sitt brauð með smjörlíki og setur útlent mjólkurduft út á kaffið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.8.2023 kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
16.7.2023 | 13:52
Skipti um andlit og fann ástina
2018 sat Joe DiMeo í bíl í New Jersey í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Þetta var ungur og hraustur drengur, 24 ára. Þá lenti hann í hroðalegu bílslysi. Á augabragði breyttist bíllinn í skíðlogandi eldhaf. Joe brenndist illa. 80% líkamans hlaut 3ja stigs bruna. Andlitið varð ein klessa og læknar þurftu að fjarlægja nokkra fingur.
Læknar reyndu hvað þeir gátu að lagfæra andlitið. Þeir sóttu húð, bandvefi og fleira en varð lítið ágengt í 20 tíma aðgerð. Nokkrum árum síðar var afráðið að taka andlit af nýdánum manni og græða á Joe. 140 manns tóku þátt í 23ja tíma aðgerð. Þetta voru skurðlæknar, hjúkrunarfræðingar og allskonar.
Aðgerðin tókst eins og bjartsýnustu menn þorðu að vona. Að vísu er nýja andlitið of stórt og af 48 ára manni. Joe þykir þetta skrýtið. En það venst. Mestu skiptir að vera kominn með andlit.
32 ára hjúkrunarfræðingur í Kaliforniu, Jessy Koby, frétti af aðgerðinni. Starfandi á sjúkrahúsi heillaðist hún af uppátækinu. Til að fá nánari vitneskju af þessu setti hún sig í samband við Joe. Eftir því sem þau kynntust betur kviknuð tilfinningar í garð hvors annars.
Nú er hún flutt inn til hans og ástin blómstrar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.7.2023 kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.5.2023 | 14:19
Tímafrekt að rekast á ölvaðan mann
Það var föstudagskvöld. Að venju ekkert að gera hjá lögregluþjónunum tveim í Klakksvík, höfuðborg norðureyjanna í Færeyjum. Einskonar Akureyri þeirra. Um miðnætti var farið í eftirlitsferð um bæinn. Þá rákust þeir á ungan mann vel við skál. Hann var með nýtt smávægilega blóðrisa fleiður. Enga skýringu kunni hann á tilurð þess. Kom af fjöllum.
Lögum samkvæmt verður læknir að gefa út vottorð um að óhætt sé að láta mann með áverka í fangaklefa. Lög eru lög. Lögreglan ráðfærði sig við neyðarlínuna. Úr varð að ekið var með manninn í neyðarvakt sjúkrahússins í Klakksvík. Vakthafandi læknir treysti sér ekki til að skrifa upp á vottorð á meðan engar upplýsingar væru um tilurð fleiðursins.
Lögreglan ók þá með manninn sem leið lá til Þórshafnar, höfuðborgar Færeyja. Vegna veðurs og slæms skyggnis tók ferðin fjóra tíma. Maðurinn var skráður inn á bráðamóttöku borgarspítalans. Vakthafandi læknir gaf þegar í stað út vottorð um að óhætt væri að hýsa manninn í fangaklefa. Hann hvatti jafnframt til þess að maðurinn fengi að sofa úr sér vímuna í Þórshöfn. Gott væri að gefa honum kaffibolla. Var hann því næst sendur með leigubíl frá borgarspítalanum með fyrirmæli um að leggja sig í fangaklefa hjá Þórshafnarlögreglunni.
Lögregluþjónarnir snéru aftur til Klakksvíkur. Sælir eftir óvenju erilssama nótt. Upp var runninn sólbjartur morgunn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.4.2023 | 12:42
Best í Færeyjum
Flestallt er best í Færeyjum. Ekki aðeins í samanburði við Ísland. Líka í samanburði við önnur norræn lönd sem og þau helstu önnur lönd sem við erum duglegust að bera okkur saman við. Nægir að nefna að meðalævilengd er hæst í Færeyjum; atvinnuleysi minnst; atvinnuþátttaka mest; hjónaskilnaðir fæstir; fátækt minnst og jöfnuður mestur; sjálfsvíg fæst; krabbameinstilfelli fæst; glæpir fæstir; barneignir flestar; fóstureyðingar fæstar; hamingja mest; heilbrigði mest og pönkrokkið flottast. Bara svo örfá atriði séu tiltekin.
Ekki nóg með það heldur eru færeyskar kindur frjósamastar. Hérlendis og víðast eignast kindur aðallega eitt til tvö lömb í einu. Færeyskar kindur eru meira í því að bera þremur lömbum og allt upp í sjö! Það er heimsmet.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (49)
16.10.2022 | 00:02
Skemmtileg bók
- Titill: Glaðlega leikur skugginn í sólskininu
- Höfundur: Steinn Kárason
Sögusviðið er Skagafjörður á sjöunda áratugnum. Segir þar frá ungum dreng - 10 - 11 ára - á Sauðárkróki. Bakgrunnurinn er sjórinn, sjómennska og sveitin í þroskasögunni. Inn í hana blandast kaldastríðið, Kúbudeilan og Bítlarnir. Steinn kemur andrúmslofti þessara ára vel til skila.
Ég ætla að stór hluti sögunnar byggi á raunverulegri upplifun höfundar. Ég kannast við suma atburði sem sagt er frá. Ég var barn í Skagafirði á þessum tíma. Fyrir bragðið var sérlega gaman fyrir mig að rifja upp bernskubrekin. Bókin er þar fyrir utan líka skemmtileg og fróðleg fyrir fólk sem veit ekki einu sinni hvar Skagafjörður er. Mörg brosleg atvik eru dregin fram. En það skiptast á skin og skúrir. Ógeðfelldir atburðir henda sem og mannlegur breyskleiki í ýmsum myndum.
Þetta er stór og mikil bók. Hún spannar 238 blaðsíður. Káputeikning Hlífar Unu Bárudóttur er flott.
Steinn Kárason er þekktur fyrir fræðibækur, blaðagreinar, tónlist og dagskrárgerð í ljósvakamiðlum.
25.9.2022 | 06:38
Hryllingur
Ég mæli ekki með dvöl í rússnesku fangelsi. Það er ekkert gaman þar. Fangaverðir og stjórnendur fangelsanna eru ekkert að dekra við fangana. Það geta úkraínskir stríðsfangar staðfest.
Á dögunum skiptust Rússar og Úkraínumenn á stríðsföngum. 215 úkraínskir fangar fengu frelsi og 55 rússneskir. Hér eru ljósmyndir af einum úkraínskum. Hann var tekinn til fanga í Maríupól ftrir nihhrun vikun,. Þannig leit hann þá út. Á hægri myndinni sést hvernig fangelsisdvölin fór með hann.
![]() |
Erna Ýr ekki allslaus í Úkraínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.9.2022 | 05:01
Drykkfeldustu þjóðir heims
Þjóðir heims eru misduglegar - eða duglausar - við að sötra áfenga drykki. Þetta hefur verið reiknað út og raðað upp af netmiðli í Vín. Vín er við hæfi í þessu tilfelli.
Til að einfalda dæmið er reiknað út frá hreinu alkahóli á mann á ári. Eins og listinn hér sýnir þá er sigurvegarinn 100 þúsund manna örþjóð í Austur-Afríku; í eyjaklasa sem kallast Seychelles-eyjar. Það merkilega er að þar eru það nánast einungis karlmenn sem drekka áfengi.
Talan fyrir aftan sýnir lítrafjöldann. Athygli vekur að asískar, amerískar og norrænar þjóðir eru ekki að standa sig.
28.8.2022 | 01:35
Aðeins í Japan
Í Japan er margt öðruvísi en við eigum að venjast. Til að mynda hvetja þarlend yfirvöld ungt fólk til að neyta meira áfengis. Það er til að örva hagkerfið. Fá meiri veltuhraða. Ástæðan fyrir því að vöruflokkurinn áfengi er notaður í þetta er sú að ölvaðir unglingar eyða meiri peningum í skemmtanir, leigubíla, snyrtivörur, fín föt og allskonar óþarfa. Líka á þetta að hækka fæðingartíðni.
Í Japan fæst áfengi í allskonar umbúðum. Þar á meðal litlum fernum sem líta út eins og ávaxtasafafernur með sogröri og allt.
Japanir eru einnig í hollustu. Eða þannig. Kóladrykkir eru ekki hollir út af fyrir sig. En ef þeir innihalda hvítlauk og eru með hvítlauksbragði?
Annað dæmi um hollustu í Japan eru rafmagnsprjónar. Matprjónar. Þeir gefa frá sér vægt rafstuð af og til. Það er sársaukalaust en framkallar salt bragð af matnum. Salt er óhollt.
Mörg japönsk hótel, mótel og gistiheimili bjóða upp á ódýra svefnaðstöðu. Ekki er um eiginlegt herbergi að ræða. Þetta er meira eins og þröngur skápur sem skriðið er inn í án þess að geta staðið upp.
Japanir elska karaókí. Það er eiginlega þjóðarsport. Vinnufélagar fara iðulega á skemmtistaði til að syngja í karaókí. Þá er reglan að hver og einn taki lag óháð sönghæfileikum. Mörgum þykir líka gaman að syngja heima eða út af fyrir sig á vinnustað. Til að það trufli engan brúka söngfuglarnir hljóðhelda hljóðnema. Með heyrnartæki í eyra heyra þeir þó í sjálfum sér.
Eitt af því sem víðast þykir lýti en í Japan þykir flott eru skakkar tennur. Sérstaklega ef um er að ræða tvöfaldar tennur. Þar sem ein tönn stendur fyrir framan aðra. Þetta þykir svo flott að efnað fólk fær sér aukatennur hjá tannlæknum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.8.2022 kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
12.1.2022 | 00:03
Elvis bannar lag með sjálfum sér
Tímarnir líða og breytast. Ósæmileg hegðun sem fékk að viðgangast óátalin fyrir örfáum árum er nú fordæmd. Dónakallar sitja uppi með skít og skömm. Þeirra tími er liðinn. Hetjur dagsins eru stúlkurnar sem stíga fram - hver á fætur annarri - og afhjúpa þá.
Kynþáttahatur er annað dæmi á hraðri útleið. Tónlistarfólk - sem og aðrir - er æ meðvitaðra um hvað má og hvað er ekki við hæfi.
Eitt af stóru nöfnunum í nýbylgjunni á seinni hluta áttunda áratugarins var Elvis Costello. Hans vinsælasta lag heitir Oliver´s Army. Það kom út 1979 á plötunni Armed Forces. Þar syngur hann um vandamál Norður-Írlands. Kaþólikkar og mótmælendatrúar tókust á með sprengjum, drápum og allskonar.
Í textanum segir: "Only takes one itchy trigger / One more widow, one less white nigger."
Á sínum tíma hljómaði þetta saklaust. Gælunafn afa hans í breska hernum var White nigger. Það þótti ekki niðrandi. Í dag hljómar það hræðilega. Þess vegna hefur Elvis gefið útvarpsstöðvum fyrirmæli um að setja lagið umsvifalaust á bannlista. Sjálfur hefur hann tekið þetta sígræna lag af tónleikaprógrammi sínu. Hann ætlar aldrei að spila það aftur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)