Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Lögreglan skoðar mál

  Héraðsdómur dæmir mann í nálgunarbann.  Samkvæmt dómnum má hann ekki undir neinum kringumstæðum hafa samband við konuna sem hann hafði ofsótt og beitt grófu ofbeldi.  Hann má ekki nálgast heimili hennar né hafa samband við hana í síma eða senda henni skilaboð í sms,  tölvupósti eða eftir öðrum leiðum.

  Dómurinn virðist vera skýr og auðskilinn.  Samt vefst hann fyrir lögreglunni.  Á hálfu ári hefur maðurinn brotið nálgunarbannið á margvíslegan hátt um það bil þúsund sinnum.  Þar á meðal með opinskáum morðhótunum.  Hann heldur heilu bæjarfélagi í heljargreipum.

  Lögreglan gerir ekkert.  Hún er að skoða fyrri ofbeldismál mannsins.  Á meðan er ekkert gert.  

  Er það í lagi? 

www.aflidak.is

www.stigamot.is 

www.solstafir.is 


mbl.is „Hann ætlar að láta mig borga“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóra rafrettusvindlið

rr chesterfields
  Framleiðsla og sala á sígarettum hefur lengst af verið góður bissness.  Sígarettuframleiðendur eru öflugur þrýstihópur í Bandaríkjum Norður-Ameríku og víðar.  Hann hefur farið sínu fram með því að "kaupa" rétta fólkið inn í stjórnsýslunni.
 
  Hægt og bítandi hefur samt þrengt að sígarettuframleiðendum.  Og um leið að reykingafólki.  Forræðishyggjufólk hefur komist upp með að banna reykingar hér og þar.  Það má ekki reykja í flugvélum.  Ekki inni á veitingastöðum.  Ekki hér og ekki þar.  Samt hefur ekki tekist að sýna fram á að reykingar séu verulega skaðlegar.  Að minnsta kosti ekki nógu skaðlegar til að banna þær alfarið.  Þær eru meira eins og óhollusta sykurs,  hvíts hveitis og McDonalds.  Meira óhollar en hollar.
 
  Sem dæmi um hvað sígarettuframleiðendur eru sterkur þrýstihópur í Bandaríkjum Norður-Ameríku má nefna að eftir árásirnar á tvíburaturnana í New York voru settar strangar reglur um hvað má og hvað má ekki hafa með sér í flugvél.  Til að mynda má ekki hafa með sér drykki,  sjampó eða handsprengjur.  Fyrst mátti ekki hafa með sér kveikjara.  Því banni var fljótlega aflétt.  Þökk sé sígarettuframleiðendum.
 
  Á síðustu árum hefur verið illa þrengt að sígarettuframleiðendum á auglýsingamarkaði.  Hérlendis má ekki auglýsa sígarettur.  Í Bandaríkjum Norður-Ameríku má ekki auglýsa sígarettur hvar sem er.  Til að mynda ekki í ljósvakamiðlum.
 
  Þá dúkkuðu skyndilega upp svokallaðar rafrettur.  Þær líta út eins og venjulegar sígarettur.  Þær má reykja hvar sem er.  Þær má auglýsa hvar sem er.  Þær eru markaðssettar sem tæki til að reykja án þess að reykja alvöru sígarettur.  Þær má auglýsta hvar sem er.   Fallegt fólk er sýnt í auglýsingum reykja rafrettur.  Það er töff að reykja rafrettur.   Því er slegið upp sem "frelsi" að reykja hvar sem er (rafrettur).     
 
  Í fljótu bragði virðist sem áróður fyrir rafrettum sé átak gegn því að reykja venjulegar sígarettur.  Þegar betur er að gáð þá eru það sígarettuframleiðendur sem standa á bak við rafretturnar.  Þetta er klók markaðsaðferð sígarettuframleiðenda til að viðhalda ímynd um að það sé töff að reykja.  Til lengri tíma hættir enginn að reykja þó að hann skipti tímabundið yfir í rafrettur.  Þetta er plat.  Vel heppnað markaðstrix sígarettuframleiðenda.      
   
rafrettur freedom
 Nú eru auglýsingatímar sjónvarpsstöðva uppfullir af myndarlegu fólki með sígarettu í munnviki.  Það eru engin aldursmörk á kaupum á rafrettum.  10 - 12 ára krakkar kaupa sér rafrettur.  Og þykir töff að totta þær.  Það er aftur komið í tísku að reykja sígarettur.
 
  
 
   

Nasistaklúður

 

  Í Suðurríkjum Bandaríkja Norður-Ameríku hafa í á annað hundrað ár starfað kristin samtök kynþáttahátara.  Þau kallast Ku Klux Klan.  Oftast kölluð KKK.  Félagar í KKK hatast við gyðinga og alla kynþætti aðra en aría.  Þeirra saga er blóði drifin.  Þeir hafa myrt fjölda blökkumanna og annarra.  Jafnan refsilaust.   Billie Holiday orti um þá frægt lag,  Strange Fruit.  Þar syngur hún um blökkumenn sem KKK hengdu upp á sport í Suðurríkjunum.  

   

  Heldur hefur fjarað undan ójafnaðarmönnum KKK síðustu áratugina.  Þó sprikla þeir enn og ofsækja fólk.  Inn á milli reyna þeir að bæta ímynd sína.  Það gengur ekkert vel.  Þetta eru nasistar og óþverrar.  

  Í páskavikunni reyndi einn af KKK forsprökkunum í Kansas að blása glæður í starfsemi KKK.  Hann hóf skotárás á hóp fólks fyrir utan bænahús gyðinga.  Myrti þrjá og særði fleiri.  Fyrstu fréttir af morðárásinni vöktu fögnuð meðal KKK og blés þeim kapp í kinn.  Glansinn fór snögglega af hryðjuverkinu þegar í ljós kom að öll fórnarlömbin voru kristin.  14 ára unglingur,  amma hans og læknir hennar.  

g millerKKK1 

 

  Morðinginn,  Glenn Miller,  hrópaði "Heil Hitler!" þegar hann var handtekinn.  

  Í stað þess að verða hetja innan KKK nasistasamfélagsins er Glenn Miller nú fordæmdur af kristnum KKK félögum sínum.  Það er hin versta smán fyrir nasistana að fulltrúi þeirra hafi myrt hvíta kristna bræður og systur.   

  Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem hinn grunnhyggni Glenn Miller klúðrar málum.  Eins og félagar hans í KKK er hann hommahatari.  Fyrir nokkrum árum var hann gripinn glóðvolgur í almenningsgarði í áköfum kynmökum með svörtum karlmanni.  Glenn afsakaði sig þá með því að hann hafi leitt samkynhneigða blökkumanninn í gildru til að lemja hann til óbóta.  Áður en af því ætlunarverki varð hafi fyrir klaufaskap leikar þróast yfir í kynlíf.  Laganna verðir hafi verið of fljótir á sér að grípa inn í áður en hann lamdi svarta hommann.   Röðin hafi eiginlega alveg verið komin að því.

  


Páskar í Vesturheimi - IV

   

  Um páskana var kvikmynd Baltasar Kormáks,  Contraband,  sýnd í bandarísku sjónvarpi.  Hún var margspiluð á hverjum einasta degi.  Það var gaman að sitja í setustofu fullri af ferðamönnum frá ýmsum löndum og fylgjast með þeim horfa á þessa ágætu mynd.   Allir virtust kunna vel við myndina.  Engin óskaði eftir því að skipta um sjónvarpsrás.  Fólk sem rambaði inn í salinn eftir að myndin byrjaði beið í lok spennt eftir byrjuninni til að horfa á frá upphafi.

  Fátt er um almennilegt drykkjarvatn í Bandaríkjunum.  Í búðum er hægt að kaupa vatn.  Ein tegundin ber af,  Icelandic Glacial.  Það er besta og ferskasta vatnið.  Að auki í töff hannaðri flösku.  Eins og nafnið gefur til kynna er vatnið rammíslenskt.  Það er gaman að sjá Icelandic Glacial í bandarískum matvöruverslunum.

ícelandic glacial

 

 

 

  Ég reikna með að unglingar á kassa í bandarískum stórmörkuðum á borð við Walmart séu lágt launaðir.  Svo gott sem allir eru hörundsdökkar stelpur þó að blökkumenn séu lágt hlutfall af íbúafjölda,  í þessu tilfelli Washington DC.  Stelpurnar eru kurteisar og kunna sína rullu.  

  Á hverjum degi keypti ég mínar Budweiser-kippur.  Afgreiðsludaman tók fram þunnan gegnsæjan plastpoka og spurði:  "Má bjóða þér annan poka?"  Á því var ætíð þörf.  Pokarnir eru það haldlitlir að þeir bera ekki þunga.   Eitt kvöldið hljóp óvænt í mig galsi.  Í stað þess að jánka öðrum poka spurði ég:  "Hvað í ósköpunum ætti ég að gera við annan poka?"

  Afgreiðsludaman svaraði um hæl:  "Ég veit það ekki,  herra.  Verslunarstjórinn segir að ég eigi alltaf að spyrja að þessu."

  Í annað skipti var afgreiðsludaman greinilega á sínum fyrsta vinnudegi.  Margt vafðist fyrir henni þegar hún afgreiddi þá sem voru á undan mér í röð.  Þegar röð kom að mér bað daman um persónuskilríki.  Ég hváði.  Daman útskýrði:  "Þú ert að kaupa áfengan bjór.  Ég þarf að ganga úr skugga um að þú hafir aldur til þess."

  Ég (næstum sextugur):  "Ókey.  Er ég dálítið barnalegur í útliti?"

  Hún:  "Þetta er bara regla.  Allir sem kaupa áfengan drykk verða að sýna fram á að þeir hafi aldur til þess."

  Ég rétti dömunni vegabréfið mitt.  Hún fletti upp í því og las ábúðafull upphátt:  "08-05-1956.  Já, þetta er í lagi."     

 


Páskar í Vesturheimi - III

easter-chocolate-bunnies
 
 
 
 
  Mig grunar að fáar þjóðir geri eins mikið úr frjósemishátíðinni,  páskunum,  og Íslendingar.  Mörgum vikum fyrir páskana er ekki þverfótað í íslenskum matvöruverslunum fyrir páskaeggjum í ýmsum stærðum.  Um svipað leyti hellist blessaður páskabjórinn yfir land og þjóð.
 
  Í Washington DC fór lítið fyrir páskunum.  Í matvöruverslunum mátti sjá nett úrval af litlum súkkulaðikanínum og súkkulaðieggjum.  Súkkulaðieggin eru í sömu stærð og hænuegg.  Þau eru pökkuð inn í skrautlegan álpappír.  
  Ég veit ekki hvort að þau eru fyllt með nammi,  eins og íslensku eggin.  En ósköp eru þau ræfilsleg í samanburði við íslensku risaeggin.
 
  Súkkulaðikanínurnar eru í hóflegri stærð.  Það er meira úrval af þeim.  Fleiri útfærslur en eggjunum.  Hver kanína er einn til tveir munnbitar.  
 
  Á páskadag heilsaðist fólk í WDC með kveðjunni:  "Gleðilega páska!"  Allar verslanir og allir veitingastaðir voru opnir eins og á venjulegum sunnudegi.  Engin páska-tilboð eða páska-gylliboð.  
 
  Miðað við hvað Kaninn gerir almennt mikið úr tyllidögum og er duglegur að selja allskonar glingur stingur í stúf hvað frjósemishátíðin er lágstemmd í WDC.  
 
  Til samanburðar var á laugardaginn Plötubúðadagurinn.  Næstu daga á undan,  sama dag og næstu daga á eftir voru fjölmiðlar í WDC undirlagðir umfjöllun um Plötubúðadaginn.  Með þeim árangri að á laugardeginum þurfti að hleypa fólki inn í hollum í plötubúðirnar.  Það voru langar raðir,  margra metra langar,  fyrir utan hverja einustu plötubúð í WDC.  Ég nennti ekki að hanga í þannig röð.  En rölti framhjá.  Flestar helstu plötubúðirnar í WDC eru við sömu götu.  Það er verslunargata,  18. stræti,  í nokkurri fjarlægð frá miðbænum.  
 
  Í umfjöllun um Plötubúðadaginn kom fram að sala á vinylplötum vex bratt í Bandaríkjunum.  Geisladiskurinn víkur hratt fyrir niðurhali.  Einn viðmælandi benti réttilega á að sálfræðiþátturinn sé vinylplötunni í hag:  Það að vera með 12" flykki í fanginu,  stóra mynd á framhlið,  stórt letur á bakhlið,  nærhald og textablað,  setja hlunkinn á spilarann,  ræsa tækið,  koma klunnalegum hausnum með nálinni á sinn stað,  sjá ferlíkið snúast...  Þetta er athöfn sem gerir svo mikið úr upplifuninni að hlusta á plötu - áður en platan fer að hljóma.  Fyrir músíkdellufólk er þetta eins og helgiathöfn.    
 
  Geislaspilarann eða músík í tölvunni vantar allt sem gerir "athöfn".   Það er alveg eins hægt að setja útvarpið í gang.  
 
  Í móttökunni á gistiheimilinu sem ég dvaldi á var að jafnaði spiluð leiðinleg R & B músík.  Inn á milli spilaði ung dama heila plötu með Of Monster and Men.  Dag eftir dag.  Það var dásemd.  Aðspurð vissi hún ekki hvers lensk OMAM er.  Hún sagðist elska þessa plötu.  Varð mjög hissa þegar ég upplýsti hana um að OMAM væri íslensk hljómsveit.  Það örlaði jafnframt á efasemdum því að hún spurði:  "Hvernig veistu?"
 
 
 

Páskar í Vesturheimi - II

wdc a
  Í Washington DC vekur athygli gríðarlega hátt hlutfall af skrifstofubyggingum.  Þegar málið er skoðað nánar þá á það sér eðlilegar skýringar.  WDC er stjórnsetur alríkisstjórnar Bandaríkja Norður-Ameríku.  Þarna er stjórnsýslan eins og hún leggur sig:  Alþingi,  ráðuneyti  forsetaembættið og það allt.  
 
  Bandaríkjamenn eru 1000 sinnum fjölmennari en Íslendingar.  Lauslega áætlað má gera ráð fyrir að embættismenn bandaríska alríkisins séu um það bil 1000 sinnum fleiri en skrifstofu- og embættismenn íslenska ríkisins.   Það þarf margar skrifstofur undir þann fjölmenna hóp sem nagar blýanta í nafni bandaríska alríkisins.  
 
  Víða eru bílastæðisplön.  Þau eru römmuð inn með hænsnaneti.  Það er togað og teygt.  Ber þess merki að óprúttnir stytti sér leið með því að klöngrast yfir það.  Plönin sjálf eru ekki með sléttu yfirborði.  Þau eru öll í hólum og lautum,  holum og hæðum.  Undirlagið er olíuborin möl.  Ég giska á að plönin séu rekin af einkaaðilum.  Inni á miðju plani er pínulítill skúr.  Þar hafast við 3 starfsmenn. Í öllum tilfellum hörundsdökkir ungir menn.  Þeir rukka 15 dollara (um 1700 kall) fyrir daginn.   
 
  Gönguljós við gangbrautir eru skemmtileg.  Þegar gangandi vegfarandi fær grænt ljós þá hefst niðurtalning á ljósaskilti í sek.  Það er mismunandi eftir gatnamótum hvort að gangandi fái 60 eða 80 sek.  Þegar 18 sek. eru eftir má enginn halda út á gangbraut.  Þeir sem lagðir eru af stað fá 18 sek. til að koma sér yfir.
 
  Það er ekki bundið við WDC heldur viðgengst um öll ríki BNA að alkahólprósenta er ekki gefin upp á bjórumbúðum.  Það er vandamál fyrir ókunnuga.  Sumir vilja kaupa léttan 3% bjór.  Aðrir sækja í 6% bjór.  Starfsfólk verslana er verra en ekkert.  það þykist vita og giskar á.  Jafnan með óþægilegum skekkjumörkum.  
 
  Ég hef ekki staðfestingu á en mér er sagt að þetta hafi allt með það að gera að ekkert samræmi sé með áfengislögum hinna ýmsu ríkja Bandaríkjanna.  Leyfður hámarksstyrkleiki bjórs sé mismunandi.  Bjórframleiðendur fríi sig vandræðum með því að gefa ekki upp styrkleika bjórsins.    
 
  Í WDC er mikið af áhugaverðum söfnum.  Það er frítt inn á þau.  Hæst ber kannski Smithsonian listasafnið.  
 
 
 
  Þar getur að líta bandaríska myndlist af ýmsu tagi.  Allt frá mörg hundruð ára gömlum málverkum til nútíma vídíóverka.  Þarna er fræga myndin hans Andys Warhols af mannréttindabaráttukonunni og anti-rasistanum Marilyn Monroe.  
 
mm
 
  Þarna eru málverk af Muhammeth Ali og fleiri hnefaleikaköppum;  ýmsum öðrum íþróttahetjum,  forsetum og fleirum.  Mér skilst að uppskriftin af ókeypis aðgangi að söfnum í WDC sé sú að það laði ferðamenn til WDC.  Mig minnir að árlega komi 6 milljónir ferðamanna til WDC.  Þeir troðist í ókeypis söfn og skilji eftir sig góðan pening í formi hótelgistingar og matar og drykkjar.  
 
  Þegar ég var staddur við inngang Smithsonian safnsins blossaði upp í mér íslenskur Geysiskall.  Mig langaði virkilega til að hefja umsvifalaust þarna við innganginn rukkun á aðgengi.  Hundruð túrista streymdi að.  Hvað hefði þá munað um að borga mér eins og 500 kall? 

Sakar íslenskan ráðherra um að vera ótíndan lygamörð og bullukoll

  Sjaldan launar kálfur ofeldið.  Íslendingar hafa aldrei mátt vita af einhverju sem betur má fara í Noregi öðru vísi en hlaupa undir bagga og kippa málum í lag.  Gott dæmi um það er að á síðustu sex árum hefur verið tilfinnanlegur skortur í Noregi á frambærilegum vörubílstjórum,  strætisvagnabílstjórum,  iðnaðarmönnum og verkafólki.  Þrátt fyrir að Íslendingar séu aðeins 325 þúsund hræður - og þurfi á öllum vinnufúsum höndum að halda - hafa Íslendingar í þúsundatali fórnað sér í þágu Noregs.  Frá 2008 hafa hátt í,  um eða yfir,  10 þúsund Íslendingar flutt til Noregs.  Það eru þessir fórnfúsu Íslendingar sem halda hjólum atvinnulífsins í Noregi gangandi.  Án þeirra væri Noregur ekki mesta velferðarríki heims.  Það kæmist ekki einu sinni á lista yfir 10 mestu velferðarríkin.  Væri á pari við Kasatan... Kasasan... Kastaman... eða hvað landið heitir þarna langt í burtu.  

  Hverjar eru þakkirnar?  Jú,  Beta sjávarútvegsráðherra Noregs kallar íslenskan starfsbróðir sinn ósvífinn lygara og rugludall.  Kannski er þetta rétt hjá henni.  Og á svo sem ekkert frekar við um Makríldeiluna en annað.  Og á við um marga fleiri íslenska ráðherra og ekkert síður fyrrverandi ráðherra.  Ég veit annars ekkert um það.  En ósvífið er af norskum ráðherra lýsi þessu yfir opinberlega.  Verulega ósvífið.  Fólk sem kann sig hvíslast aðeins á um svona.  Það er rembingur í Norðmönnum út af því að þeim hefur vegnað betur í Júrivisjón en Íslendingum.   

 


mbl.is Segir ráðherra fara með rangt mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgát skal höfð i nærveru netsins

  Netið er varasamt.  Ekki síst spjallþræðir,  svo og athugasemdakerfi fréttamiðla.  Fyrir það fyrsta tjáir fólk sig öðruvísi á lyklaborði en þegar staðið er fyrir framan þann sem orðum er beint að.  Eða verið er að fjalla um.  Bremsurnar eru ekki þær sömu og þegar horft er framan í manneskjuna.  Í annan stað tjáir fólk sig öðruvísi á netinu undir dulnefni en réttu nafni.  Það er eins og losni um hömlur og fólk leyfir sér meiri ókurteisi og ruddaskap þegar það er falið á bakvið dulnefni.  Í þriðja lagi kemur iðulega illa út að blanda þessum tveimur atriðum - lyklaborði og dulnefni - saman við ölvun.  Það þarf ekki netið til að fullt fólk segi sitthvað annað en þegar það er edrú. 

  Stemmning í athugasemdakerfum og spjallþráðum hefur mikið að segja.  Ég þekki ekki barnaland.is og bland.is.  Mér er sagt að umræðan á barnaland.is hafi verið svakaleg á köflum.  Þar hafi notendur síðunnar keppst við að toppa hvern annan með slúðri um frægt fólk og niðrandi ummælum um það.  Það ku hafa eitthvað dregið úr þessu eftir að nafni síðunnar var breytt í bland.is.  Ég kíkti núna inn á bland.is og sé að allir skrifa þar undir dulnefni.  Umræðan er eftir því. 

  Stundum má sjá í athugasemdakerfi fréttamiðla hvernig umræða þróast.  Fyrstu "komment" eru kannski kurteisleg.  Svo mætir einhver yfirlýsingaglaður á svæðið.  Þá spólast aðrir upp.  Áður en líður á löngu eru menn komnir í kapp við að toppa hvern annan.  Þetta á einkum við um það þegar verið er að fjalla um ofbeldismenn,  nauðgara,  barnaníðinga og aðra slíka.  Þá er stutt í yfirlýsingar á borð við:  "Hnakkaskot og málið er dautt."   Eða lýsingar á því hvernig gaman væri að pynta viðkomandi og láta hann deyja hægum sársaukafullum dauðdaga.  

  Annað mál er að sumt sem hljómar ruddalegt í skrifuðum texta er ekki illa meint.  Það er sett fram í kaldhæðni eða á að vera í léttum dúr.  Málið er að án þess að sjá svipbrigði þess sem skrifar og eða þekkja hann er auðvelt að meðtaka textann á annan hátt.  Netið er svo ungur samskiptavettvangur að við höfum ekki ennþá náð að höndla það almennilega.  

  Fyrir daga netsins skrifaði fólk lesendabréf eða pistil í dagblöð.  Fólk vandaði sig.  Tók marga daga í að skrifa vandað bréf.  Lét ættingja og vini lesa það yfir áður en það var sent til dagblaðs.  Á þeim árum komu út mörg dagblöð:  Morgunblaðið,  Vísir,  Tíminn,  Þjóðviljinn,  Dagblaðið,  Alþýðublaðið og Dagur.  Þessi dagblöð birtu ekki hvaða lesendabréf eða pistil sem var.  Ósæmilegu efni var hafnað eða farið fram á að texta væri breytt.  Það sem birtist á prenti hafði farið í gegnum síu.  Núna hinsvegar getur fólk ýtt á "enter" um leið og það hefur lokið við að slá texta á lyklaborðið.  Á næstu sek. er textinn orðinn opinber á netinu.     

     


mbl.is Fullur kærasti á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Malta ræðst að Íslendingum með ósvífni

 

  Fullyrðing Vigdísar Hauksdóttur um að Malta sé ekki sjálfstætt ríki hefur farið eins og eldur í sinu um netheima.  Hver erlendi netmiðillinn á fætur öðrum hefur tekið málið upp.  Þetta er frétt dagsins víða um heim.  Þarna gætir smávægilegs misskilnings.  Vigdís stóð í þeirri trú að Malta væri súkkulaðikex.  Súkkulaðikex getur ekki verið sjálfstætt ríki.  Þar fyrir utan er sjálfstæði ríkja teygjanlegt hugtak.   

Malta

  Sunnudagsútgáfa maltneska netmiðilsins circle.com leggur út af orðum Vigdísar von Malta og gerir samanburð á Íslandi og Möltu.  Fyrirsögnin er: "Þess vegna er Malta betra land en Ísland"

  Þessi hrokafulla rangsanninda fyrirsögn er rökstudd með eftirfarandi:

  -  Sólin skín í 3000 klukkutíma á ári í Möltu en 1300 tíma á Íslandi. 

  -  Eldgos á Íslandi spúa eldi og brennisteini yfir alla Evrópu.  Eldfjöll á Möltu hafa vit á að hafa hægt um sig.

  -  Maltnesk eldfjöll bera lipur nöfn á borð við Mosta og Dingli.  Það er illmögulegt fyrir útlendinga að segja Eyjafjallajökull.   

  -  Hætta á innræktun er meiri á Íslandi vegna fámennis.  Íslendingar eru  320 þús.  Maltverjar eru 452 þúsund. 

  -  Verðlag á Íslandi er 8. hæsta í Evrópu.  Verðlag á Möltu er í 22. sæti.  Á Íslandi kostar brauðhleifur 1,55 evrur.  Á Möltu kostar hann 0,83 evrur. 

  - Íslendingar hafa ekki þjóðarrétt Möltu,  pastizzi.  Þess í stað eru bestu pylsur í heimi seldar á einum stað í Reykjavík. 

  - Íslendingar eru sjálfhverfir skrattakollar í norðri.

  Greinina má lesa í heild með því að smella á:  http://www.sundaycircle.com/2014/02/why-malta-is-a-better-country-than-iceland/     


mbl.is Fjölmiðlar á Möltu fjalla um Vigdísi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvarlegar rangfærslur

  Í fjölmiðlum í dag mátti heyra ýmsa góða manneskjuna kenna Dag elskenda,  Valentínusardaginn,  við Bandaríki Norður-Ameríku.  Sumir fussuðu yfir því að Íslendingar séu að apa eftir bandarískum ósiðum.  Aðrir létu þess getið að Dagur elskenda sé eldri en Bandaríkin.  Dagurinn eigi sögu aftur til 14 aldar í Evrópu.  

  Þar er sennilega vísað til Wikipedíu sem í þessu tilfelli segir aðeins hálfa sögu.

  Hið rétta er að þetta var heiðinn hátíðisdagur til forna.  Hann var kenndur við ástarguðinn Lupercus.  Kirkjan hafði horn í síðu hans.  Þegar fullreynt þótti að þessum heiðna hátíðisdegi yrði ekki útrýmt tókst kirkjunni að finna píslarvott,  Valentinus,  sem átti fæðingardag nánast á Degi elskenda.  Það munaði aðeins einum degi.  Málið var leyst með því að kirkjan uppnefndi heiðna hátíðisdaginn Valentínusardag.  Heiðingjar tóku því fagnandi.  Það var ekkert nema hið besta mál að þessi hátíðisdagur væri tekinn í sátt af kirkjunni.   

  Heimildir eru til um heiðna hátíðisdaginn frá því 4 öldum fyrir okkar tímatal.  

  Þetta er einfalda sagan af Degi elskenda.  Það er til flóknari útgáfa.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.