Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvað eru Bjarni Ben og Sigmundur Davíð?

  Spurningin sem margir spyrja sig - og nokkra aðra - er:  Hvað eru Bjarni Ben og Sigmundur Davíð?  Svar við spurningunni áleitnu brennur á íslenskum almenningi (og í bland nokkrum útlendingum með bakpoka).  Mér er ljúft og skylt að upplýsa málið - fyrst að ég á annað borð veit svarið.  Í stuttu máli er Bjarni Ben djúpsteiktur fiskur (nánar tiltekið fiskborgari).  Sigmundur Davíð er hakkað naut (í formi nautaborgara). 

  Bjarni Ben og Sigmundur Davíð eru nýjustu réttirnir á veitingastaðnum Texasborgurum við Grandagarð.  

  Fram til þessa hafa hamborgararnir á Texasborgurum verið 140 gr.  Bjarni Ben og Sigmundur Davíð eru hinsvegar 90 gr.  Þeir eru afgreiddir í hamborgarabrauði og með frönskum kartöflum,  sósu og salati.  Verðið er sniðið að kaupgetu fólks í skuldaánauð;  690 kall.

  Hlutverk nafngiftar þessara málsverða er að minna ráðamenn landsins á að skuldugir landsmenn eru langþreyttir á bið eftir skuldaleiðréttingu.  Þeir bíða og bíða og bíða og bíða eftir skuldaleiðréttingu sem boðuð var á vormánuðum og átti að ganga í gegn einn, tveir og þrír.  Svo gleymdist hún.  Að mér skilst.  Í atinu þurfti að einbeita kröftum að kvótagreifum sem toguðust á um að borga sér 800 milljónir í arð (í stað 700 milljóna).  Eða eitthvað svoleiðis. 

  Ég þekki ekkert til þessara mála og skipti mér ekkert af þeim.  En ég held að framtak Texasborgara sé skemmtilegur flötur á skuldaánauðinni.      

  Tekið skal fram að ég hef engin tengsl við Texasborgara.  Aftur á móti snæði ég oft á Sjávarbarnum.  Hann er við hliðina á Texasborgurum og - að ég held - sami eigandi.  Á Sjávarbarnum er boðið upp á glæsilegt sjávarréttahlaðborð í bland við kjúklingarétti.  Það er í miklu uppáhaldi hjá mér.  

  Hér er eigandinn,  Magnús Ingi Magnússon,  með Bjarna Ben og Sigmund Davíð í fanginu.  

magnus_ingi_me_bb_og_sd.jpg 

 

 

 

 

 

 

 

 

bjarniben_spilar_a_imynda_a_blokkflautu.jpg 

 

 

 

 

 

 

 Bjarni Ben spilar ekki á loftgítar.  Þess í stað er hann liðtækur á loftklarinettu og loftfuglaflautu.  


Hýrnar yfir Hafnarfirði

  Það er allt að snúast á sveif með Hafnarfirði þessa dagana.  Margt telur og hjálpast að.  Kærleikur, friður og tónlist eru að taka við af andstæðu sinni.  Mestu munar um að stofnað hefur verið Menningar- og listafélag Hafnarfjarðar (MLH).  Þar fara fremst í flokki einstaklingar sem eru þekktir af því að láta verkin tala og hugsa stórt.  Til að mynda sjálfur Kiddi kanína,  einnig kenndur við Hljómalind;  Óli Palli Rokklandskóngur,  Erla söngkona Dúkkulísa og ég er ekki alveg nógu vel að mér um aðra í stjórn félagsins.  Enda er ég ekki Hafnfirðingur.

  Næsta sunnudag stendur MLH fyrir hljómleikum í Bæjarbíói í Hafnarfirði.  Það er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur.  Öðru nær.  Það er sjálf færeyska álfadísin,  Eivör,  sem heldur tvenna hljómleika ásamt hljómsveit sinni.  Fyrri hljómleikarnir eru klukkan 16.00.  Þeir seinni klukkan 20.00.  Hafnfirska hljómsveitin Ylfa hitar upp.

  Eins ágætar og plötur Eivarar eru þá eru hljómleikar hennar margfalt sterkari upplifun.  Hún hefur rosalega sterkan sviðsþokka.  Margir hafa lýst því þannig að það sé eins og hún dáleiði salinn og leiði hann inn í töfraheima.  Fegurð tónlistarinnar umvefur dolfallinn áheyrandann sem situr í sæluvímu.  

  Miðasala er á www.mlh.is  

gata_austurey_eivor_1228395.jpg


mbl.is Vítisenglar yfirgefa Hafnarfjörð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rokkstjörnur sem vilja ekki orður og upphefðartitla

  Fyrir nokkrum mánuðum bloggaði ég um nokkrar rokkstjörnur sem hafnað hafa viðtöku á orðum,  upphefðartitlum og öðru slíku pjatti og prjáli.  Um það má lesa með því að smella á þennan hlekk:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1319151/

   Rokkstjörnur með þessa afstöðu eru ekki týpurnar sem gala um þetta á torgum.  Fyrir bragðið ratar það ekki í fréttir þegar rokkstjarna hafnar glingri heldur spyrst út hægt og bítandi.  Kannski aldrei í einhverjum tilfellum.

  Það er leki víðar en hjá Hönnu Birnu.  Nú hefur lekið út að bítlinum George Harrison stóð til boða árið 2000 að vera heiðraður með OBE orðunni úr hendi Bretadrottningar.  Harrison hafnaði móttöku á glingrinu. 

  Blaðamaðurinn Ray Connolly þekkti George Harrison vel alveg síðan á sjöunda áratugnum.  Uppljóstrunin kemur Ray ekki á óvart.  Það hefði ekki verið líkt Harrison,  þá 56 ára,  að veita orðu viðtöku.  Honum þótti allt svoleiðis vera ómerkilegt snobb. 

  1965 fengu George Harrison og Bítlarnir MBE orðu úr hendi Bretadrottningar.  Það vakti gríðarmikla athygli.  Á þeim tímapunkti voru hinir ungu Bítlar upp með sér af heiðrinum.  Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar.  Bítillinn John Lennon skilaði sinni orðu með hávaða og látum 1970.  Það var í stíl við persónuleika Lennons.  Það var ekki í anda George að skila sinni MBE orðu.  En hann gerði ekkert með hana.  Það leikur grunur um að hann hafi einfaldlega hent orðunni í ruslið.  Að minnsta kosti urðu engir varir við hana.

  Ray bendir á að það hafi verið ósmekklegt að bjóða Harrison OBE þremur árum eftir að bítillinn Paul McCartney var aðlaður með Sir-titlinum.  Það er skilgreint meiri upphefð að fá Sir-titil en OBE orðu.  Engu að síður hefði það verið ólíkt Harrison að þiggja Sir-titil. 

  Einkasonur Harrisons,  Dhani tengdasonur Íslands,  og ekkja Harrisons,  Olivia,  neita að tjá sig um þetta mál.  Fyrst að George tjáði sig aldrei opinberlega um þetta sjá þau ekki ástæðu til að gera það heldur.

  Hér flytur Harrison lag sem fleiri en hann hafa síðar skráð sig höfund fyrir,  "Eyjan mín.  Eyjan mín fagra græna":


Kvikmyndarumsögn

 - Titill:  12 Years a Slave

 - Leikstjóri:  Steve McQueen

 - Leikarar:  Brad Pitt,  Michael Fassbinder og fleiri

 - Einkunn:  **** (af 5)

  Bandaríska kvikmyndin 12 Years a Slave er byggð á raunverulegum atburðum.  Handritið er ævisaga blökkumanns,  Solomons Northups.  Hann var fiðluleikari í New York um miðja nítjándu öld.  Honum vegnaði vel og var hamingjusamur tveggja barna faðir.  Svo dundi ógæfan yfir.  Honum var rænt af tveimur mönnum og seldur í þrældóm til Suðurríkjanna.  Það var algengt á þeim tíma.  Og refsilaust.  Líka þó að þannig mál væru rekin fyrir dómsstólum í Norðurríkjunum þar sem þrælahald var bannað.    

  Sagnfræðingar sem taldir eru þeir fróðustu um þrælahald í Suðurríkjunum votta að engin kvikmynd hafi áður dregið upp jafn raunsanna mynd af þrælahaldinu.  Það er ekki ástæða til að efast um það.  Þetta er, jú, frásögn manns sem upplifði hryllinginn á eigin skinni - í bókstaflegri merkingu.

  Bent hefur verið á að kvikmyndin sé framleidd fyrir hvíta áhorfendur.  Það er ekki ókostur út af fyrir sig.  Myndin er áhrifarík og situr eftir í huga áhorfandans.  Ég tel mig hafa haft þokkalega þekkingu á þrælahaldinu í Suðurríkjunum.  Fyrir bragðið kemur ekkert á óvart.  Samt er sláandi að sitja undir því hversu óhugnanlegt og ofbeldisfullt þrælahaldið var.  Líka hversu ógeðfelld viðhorf þrælahaldara voru.  Jafnvel þeirra sem teljast voru - innan gæsalappa vel að merkja - "góðir" í samanburði við illgjörnu hrottana og sadistana.  

  Ég hvet til þess að þið farið í bíó og sjáið 12 Years a Slave.  Það er ekki langt síðan þrælahald í Suðurríkjunum var upprætt.  Innan við hálf önnur öld.  Svona var þetta á tímum afa okkar og ömmu (eða foreldra þeirra).  Enn í dag er fjöldi manns í Suðurríkjunum sem saknar þrælahalds.  Enn er fjöldi manns sem heldur því fram í "kommentakerfum" bandarískra netmiðla að þrælar hafi haft það betra en hörundsdökkir útigangsmenn í Bandaríkjunum í dag.  Þrælarnir hafi þó haft húsaskjól og verið í fæði.  Þeir sem hampa þessari kenningu þurfa að sjá 12 Years a Slave.

  Myndin er ekki gallalaus.  Hún er of löng (næstum 2 og hálfur tími með hlé).  Sumar senur eru langdregnar og hægar.  Kannski með vilja gert til að laða fram tilfinningu fyrir því að 12 ár í þrældómi er langur tími.  Einnig koma fyrir senur sem gera ekkert fyrir myndina.  Hugsanlega skipta þær máli í bók mannsins sem segir söguna.  Dæmi:  Þrælar ganga fram á hóp Indíána.  Í næstu senu eru Indíánarnir að spila á hljóðfæri og syngja.  Svo eru þeir úr sögunni.  

  Fleira slíkt mætti tína til.  Eftir stendur:  Farðu í bíó.  Kíktu á þessa mynd.  Kynningarmyndbönd gera ekkert fyrir hana.  

  Önnur nýleg kvikmyndarumsögn:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1346507/

  Allt annað:  Þessi dama segist vera svo dugleg í líkamsræktinni að hún sé ekki með appelsínuhúð: 

vaxtaræktardama


Forsætisráðherra tekur upp merki fyrrverandi borgarstjóra

 Ólafur F. Magnússonsigmundur davíð gunnlaugsson

   Ég er fæddur og uppalinn í Skagafirði.  Þrátt fyrir búsetu í Reykjavík skilgreini ég mig alltaf sem Skagfirðing.  Sem slíkur fylgist ég grannt með öllu sem gerist í Skagafirðinum.  Þar eru æskuvinirnir,  ættargarðurinn að stórum hluta,  gömlu nágrannarnir,  gömlu skólasystkinin,  sundfélagarnir og sveitin mín.  Feykir er héraðsfréttablaðið mitt og á heimasíðunni www.skagafjordur.is fylgist ég með fundum,  fundargerðum og ýmsu öðru sem vindur fram í Skagafirði.

  Í fundargerð frá fundi Byggðarráðs Skagafjarðar í dag rakst ég á þessa skemmtilegu bókun:

"Endurgerð gamalla húsa á Sauðárkróki

Lagt fram til kynningar bréf frá forsætisráðuneytinu dagsett 27. desember 2013, þar sem tilkynnt er um að ákveðið hafi verið að veita styrk að upphæð 10 milljónir króna til viðgerðar á Góðtemplarahúsinu (Gúttó) á Sauðárkróki. Skal styrkurinn nýttur til að skipta um glugga og klæðningu að utanverðu.
Byggðarráð fagnar styrkveitingunni sem veitt er í endurbætur á þessu sögufræga húsi.

Sigurjón Þórðarson fulltrúi Frjálslyndra og óháðra leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er gleðilegt að sjá að forsætisráðherra hafi tekið upp merki fyrrverandi borgarstjóra Ólafs F. Magnússonar með því að standa vörð um og hvetja til endurbóta á gömlum húsum sem hafa menningarsögulegt gildi."
  Árlega er haldin glæsileg tónlistarhátíð á Sauðárkróki,  Gæran.  Þar koma fram allt frá stórstjörnum í Reykjavík og Færeyjum (Eivör) til heimamanna.  Þeirra á meðal Gísli Þór sem einnig kallar sig Gillon.
  Það er ekki bara gaman að fylgjast með því sem fram fer í Skagafirði.  Það er líka gaman að fylgjast með því sem gerist um land allt.  Á þeim extra fallega kaupstað Ísafirði er sjoppa sem heitir Hamraborg.  Þegar nammið er að klárast þar er sent sms til umboðsmanns Nóa Síríusar á Vestfjörðum.  Hann kemur þá að vörmu spori og fyllir á.  Í vikunni urðu þau mistök að sms-ið var sent á rangt númer.  Það uppgötvaðist þegar svar barst:
sms - hamraborg ísafirði

Útvarp Saga er þjóðarútvarp

   Ég kann vel að meta Útvarp Sögu.  Útvarp Saga er þjóðarútvarp.  Þjóðin talar og þjóðin hlustar.  Frá klukkan 09 að morgni til hádegis fær almenningur að hringja inn og tjá sig í beinni útsendingu.  Ranglega fullyrða sumir að örfáir innhringendur séu ráðandi í þessum símatímum.  Athugun hefur hrakið það.  Jú, jú, inn á milli ná einhverjir inn sem áður hafa látið í sér heyra.  Er eitthvað að því?  Umræðuefnið er af ýmsu tagi.  Þeir sem ná inn og eru alveg jafn góður þverskurður af íslenskum almenningi og þeir sem daglega taka þátt í "lofi og lasti" á Bylgjunni. 

  Símatímar Útvarps Sögu spegla umræðuna á Íslandi dag hvern.  Þar fyrir utan er margt annað áhugavert dagskrá Útvarps Sögu utan þessara 3ja klukkutíma símatíma.  Til að mynda skemmtilegur og fjölbreyttur morgunþáttur Markúsar Þórhallssonar og Jóhanns Kristjánssonar.  Núna er Jóhann að auki með bókmenntaþátt.  Rúnar Þór er með forvitnilega og fróðlega viðtalsþætti.  Þar rekur hann garnir úr þekktum tónlistarmönnum.  Torfi Geirmundsson og Guðný í Heilsubúðinni eru með þátt um hár og heilsu.  Annar heilsuþáttur heitir Heilsan heim.  Magnús Magnússon spilar gamlar dægurlagaperlum,  talar við tónlistarmenn og gefur hlustendum tertur,  bílabón og fleira.  Arnþrúður er með þátt um mat og matreiðslu.  Pétur Gunnlaugsson og Erlingur Már eru með síðdegisþátt.  Þangað fá þeir iðulega góða gesti í spjall.  Margt fleira áhugavert er á dagskrá Útvarps Sögu.

  Nýlega var hleypt af stokkum nýrri útvarpsstöð,  Jóla-Sögu:  89 á fm.  Nafnið segir sína sögu. 

 


Íslenska þakkagjörðarhátíðin

lambakjot.gif

 

 

 

 

 

 

 

 

 

   Elsta heimild um íslensku þakkargjörðarhátíðina,  slægju,  er í sögu af Ólafi Noregskonungi digra (hann var assgoti búttaður og þrútinn).  Ólafur (konungur 1015 - 1028) spurði Íslending hvort að satt sé að bændur gefi húskörlum sínum hrút til slátrunar á haustin.  Íslendingurinn kannaðist við það.  Þannig var heyskaparlokum fagnað og fé komið af fjalli.  Noregskonungur mælti þegar í stað fyrir um að Íslendingar í hans liði skuli fá hrút til slátrunar.  Reyndist þar vera um óvin Ólafs digra að ræða,  Hrút að nafni.  Íslendingarnir létu ekki segja sér það tvisvar.  Þeir slátruðu Hrúti þegar í stað og öllum hans mönnum.      

 


Næpuhvítur bleiknefi náði kosningu með því að þykjast vera svertingi

  Í Houston í ríkinu Texas í Bandaríkjum Norður-Ameríku fóru fram kosningar til bæjarstjórnar.  Frambjóðandi nokkur,  Dave Wilson,  átti á bratta að sækja.  Skoðanakannanir sýndu að hann vantaði örfá atkvæði til að tryggja sér sigur.  Þar munaði um atkvæði blökkumanna.  Hann var öruggur með atkvæði hvítra.  Síðustu daga fyrir kjördag tók kauði upp á því að þykjast vera svertingi.  Hann sendi út fjöldapóst með ljósmyndum af blökkumönnum.  Myndirnar fann hann á netinu.  Undir myndunum var textinn:  "Vinsamlegast kjósið vin okkar og nágranna Dave Wilson."

dave_wilson.png   Hann hampaði því að vera frændi þekkts blökkumanns (það var lýgi) sem ber sama ættarnafn,  Ron Wilson.  Talaði stöðugt um að þeir svörtu frændurnir hafi verið saman á kafi í körfubolta í gamla daga.  

  Þetta virkaði.  Bleiknefinn vann með 26 atkvæða mun.  Íbúar eru 2,1 milljón.     dave-wilson-houston-khou.jpg

  Verra er að Dave Wilson er ákafur hommahatari.  Eins og flestir slíkir áreiðanlega skápahommi. 

  Eftir að hann vann kosningarnar segir hann að kosningabaráttan - með þessu útspili að þykjast vera blökkumaður - hafi verið saklaus hrekkur (prank).   dave-wilson.jpg


Tónlist skiptir sköpum

  Tónlist er manninum nauðsynleg.  Tónlist kemur næst á eftir þörfinni fyrir mat og svefn.  Tónlistin deilir röðinni með þörfinni fyrir að ávaxta kyn sitt.  Tónlistin sefar,  linar þjáningar,  léttir geð,  lyftir andanum,  nærir sálina,  veitir ómælda gleði,  styttir stundir og það sem skiptir mestu máli:  Er gott hjálpartæki þegar löngun til að dansa kviknar.  

  Allar manneskjur hafa unun af tónlist.  Margir eru tónlistarfíklar.  Tilvera þeirra snýst að meira eða minna leyti um tónlist.  Margir iðka tónlist.  Spila á hljóðfæri og syngja.  

  Tónlistariðkun er bráðholl.  Hún eflir hæfileika viðkomandi á mörgum sviðum:  Ýtir undir skapandi hugsun,  samvinnu,  hæfni til að hlusta á aðra,  taka nýjum hugmyndum fagnandi,  deila upplifun með öðrum,  taka tillit til annarra,  skerpir skilning á gildi fortíðarinnar,  njóta augnabliksins og horfa til framtíðar.

  Vegna þessa hafa tónlistariðkendur forskot á aðra þegar kemur að öðrum hlutum.  Gott dæmi um það er framboð Besta flokksins.  Þetta var framboð vinahóps tónlistarmanna.  Hann tók önnur framboð í nefið.  Kosningabaráttan var snilldin ein.  Kosningalag Besta flokksins gerði kosningalög allra annarra framboða - í gegnum söguna - að hallærislegu prumpi.  Frambjóðendur Besta flokksins voru á heimavelli og tóku slaginn með óverjandi trompi.

  Fremstur í flokki fór bassaleikarinn úr pönksveitinni Nefrennsli,  Jón Gnarr.  Þegar ég hlustaði á Nefrennsli spila á pönkhljómleikum Útideildar fyrir röskum þremur áratugum þá vissi ég strax að þarna væri á sviði borgarstjóraefni Reykjavíkur.  Nei,  reyndar ekki.  Það blasti ekki við.  Ég hugsaði ekkert út í það.  Ekki frekar en þegar ég hlustaði á hljómsveitina Ske og þar var hljómborðsleikari,  Guðmundur Steingrímsson,  sem í dag leiðir Bjarta framtíð.  Þingflokk sem nú tekur við kefli Besta flokksins í Reykjavík.  

  Farsæll miðborgarstjóri Reykjavíkur er stuðmaðurinn,  hljómborðsleikarinn og djassgeggjarinn Jakob Magnússon.  Forstjóri Höfuðborgarstofu,  Einar Bárðarson,  er gamalreyndur gítarleikari og  lagahöfundur.  

  Jón Gnarr er ekki eini tónlistarmaðurinn sem hefur orðið borgarstjóri Reykjavíkur.  Ólafur F. Magnússon er gítarleikari og söngvari.  Birgir Ísleifur er djassgeggjari og píanóleikari.  Árni Sigfússon er gítarleikari,  lagahöfundur og söngvari.  Ingibjörg Sólrún hefur sungið inn á plötu.  Davíð Oddsson samdi dægurlagatexta og söng á hljómleikum með Gunnari Þórðarsyni.  

  Það voru svo tíð borgarstjóraskipti í Reykjavík um tíma að ég man í fljótu bragði ekki hverjir komu þar við sögu.  Borgarstjórnarfulltrúinn Oddný Sturludóttir var hljómborðsleikari hinnar ágætu rokksveitar Enzími.  

  Tónlistarmenn eru í forystu í hinum ýmsu sveitastjórnum um allt land.  Söngvari og selló-leikari Todmobile,  Eyþór Arnalds,  er í Árborg.  Matti Matt var í Dalvíkurbyggð.  Guðmundur í Sé Ellen og söngvari (ég man ekki nafn hans) sem var í hljómsveit á Laugarvatni og síðar í hljómsveitinni Bumbunum eru í Fjarðarbyggð.  

  Gott ef Magnús Stefánsson í Upplyftingu og fyrrverandi þingmaður er ekki sveitastjóri í Garði.  

  Geir Haaarde söng inn á plötu með South River Band.  

  Menntamálaráðherrann,  Illugi Gunnarsson,  er píanóleikari og hefur sent frá sér plötu. 

  Bill Clinton,  fyrrverandi forseti Bandaríkja Norður-Ameríku,  er saxafónleikari.  George eldri Bush er blúsgeggjari og gítarleikari.  Tony Blair,  fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands,  er rokkgítarleikari.  

  Upptalningin er endalaus.

  Fæstir tónlistarmenn eru "bara" tónlistarmenn.  Flestir koma víðar við.  Margir eru í leiklist.  Margir eru listmálarar.  Margir fást við ritstörf.  Um síðustu aldamót gerðu margir fjölmiðlar upp við tuttugustu öldina.  Völdu mann aldarinnar.  Eða tónlistarmann aldarinnar.  Flestir helstu fjölmiðlar heims enduðu á því að velja á milli Johns Lennons og Bobs Dylans.  Jafnan með þeirri niðurstöðu að Lennon hefði vinning.  Hljómsveit hans,  Bítlarnir,  vóg það þungt.  Lennon og Dylan voru ekki aðeins tónlistarmenn heldur einni myndlistamenn og rithöfundar.  


mbl.is Jón Gnarr hættir í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mögnuð markaðssetning

  Góð markaðssetning er gulls ígildi.  Markviss og vel hönnuð auglýsingaherferð skiptir sköpum.  Dæmi um slíkt er auglýsingaherferðin "Taktu Pepsi áskorun".  Herferðin gekk út á það að þvers og kruss um heiminn var viðskiptavinum matvöruverslana boðið að smakka Pepsi kóla og Kóka kóla blindandi.  Síðan átti smakkarinn að gefa upp hvor drykkurinn væri bragðbetri og hvor væri Pepsi og hvor væri Kók. 

  Þessi herferð stóð í nokkur ár.  Afleiðingarnar urðu þær að sala á Pepsi kóla margfaldaðist og raunar líka á Kóka kóla.  Síðan hafa kóladrykkir annarra framleiðanda ekki átt möguleika á markaðnum.  Fólk er ennþá forritað fyrir því að velja á milli Pepsi og Kóla.

  Sælgætisgerðin Góa er ekki þekkt af merkilegri markaðssetningu né vel hönnuðum auglýsingaherferðum.  Undan er skilið að forstjórinn,  Helgi í Góu,  hefur verið duglegur að halda sér í sviðsljósinu og taka þátt í umræðu um lífeyrissjóði og íbúðir aldraðra.  

  Nú hefur Góa skyndilega og óvænt spilað út stóru trompi fyrir súkkulaðibita sem kallast Hraun.  Stofnaður hefur verið hópur sem samanstendur af aðdáendum Hraunbita.  Hann kallast Hraunavinir.  Fyrir hópnum fara margir landsþekktir menn.  Þeir hafa verið duglegir við að vekja athygli á Hrauni.  Fara mikinn.  Svo mikinn að lögreglan hefur ekki svigrúm til að eltast við skipulagða glæpastarfsemi og kveða hana niður.  Lögregluflotinn er upptekinn við að vakta Hraunavini og bera þá á höndum sér fram og til baka um holt og hæðir.

hraun.jpg   Það gefst alltaf vel að stilla upp í auglýsingaherferð frægum andlitum.  Almenningur treystir fræga fólkinu betur en sjálfum sér til að vita hvaða súkkulaði er gott á bragðið.   

  Þessa dagana er togast á um hvern kassa af Hrauni í sjoppum og matvöruverslunum landsins.  Samt er Hraun ekkert gott.  Nóa Kropp er miklu betra.  Nóa hlýtur að koma með mótleik í stöðunni.  Stofna hóp Nóa-Kroppsvina og valta yfir Hraun.  Hvaða frægir ætli verði í forsvari fyrir Nóa Kropp?  Forsetinn?  Björk?  John Lennon?  Þetta eru spennandi tímar.     

   


mbl.is Engar landbætur vegna Álftanesvegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband