Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
3.3.2017 | 11:10
Kona stal í búð
Sá fáheyrði atburður átti sér stað í Þórshöfn, höfuðborg Færeyja, í fyrradag að kona stal í búð. Þetta gerðist í sjoppu í miðbænum. Afgreiðslumaður í búðinni sá út undan sér hvar konan tróð einhverju ofan í buxur sínar. Síðan hvarf hún á braut eins og ekkert hefði í skorist. Kvaddi ekki einu sinni.
Afgreiðslumanninum var eðlilega illa brugðið. Hann hringdi umsvifalaust í lögregluna og sagði tíðindin. Í þessu 19 þúsund manna sveitarfélagi þekkja allflestir alla. Kannski ekki endilega persónulega alla. En vita deili á nánast öllum. Líka lögregluþjónar. Þeir eru meira að segja með símanúmer fingralöngu konunnar.
Næsta skref er að öðru hvoru megin við helgina ætla þeir að hringja í konuna. Ætla að freista þess að semja við hana um að skila þýfinu. Ef hún fellst á það fæst góð lending í málið. Þangað til harðneitar lögreglan að upplýsa fjölmiðla um það hverju konan stal.
Elstu Færeyingar muna ekki til þess að þarlend kona hafi áður stolið úr búð. Hinsvegar eru dæmi þess að Íslendingar hafi stolið úr búðum og bílum í Færeyjum.
Meðfylgjandi myndband er ekki frá Færeyjum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
15.2.2017 | 19:27
Af hverju?
Leiðtogi Norður-Kóreu heitir Kim Jong-Un. Hann er klikkaður. Á ekki langt að sækja það. Þetta einkenndi pabba hans og afa. Úr fjarlægð er greining á klikkun hans ekki auðveldlega skilgreind af nákvæmni. Hún einkennist af ofsóknarkennd, vænisýki og einhverju svoleiðis. Vegna þessa nær hann ekki góðum svefni. Eins og gengur. Liggur andvaka flestar nætur. Þjáist líka af þvagsýrugigt. Er leiðandi frumkvöðull í hárgreiðslu sem kallast kústur. Er í fjölmiðlum heimalands skilgreindur kynþokkafyllsti karlmaður heims og vitnað í útlenda "Baggalúts"-síðu því til sönnunnar.
Kim Jong-Un er sakaður um að hafa látið myrða bróðir sinn. Það væri ekki frétt nema vegna þess hvernig að því var staðið. Tvær konur - önnur víetnamísk, hin frá Indónesíu - drápu hann með eitruðum nálum og eiturúða á flugvelli í Malasíu.
Af hverju var hann ekki drepinn í kyrrþey svo lítið bar á? Af hverju að drepa hann í Malasíu? Af hverju að fá til verksins útlendar konur? Af hverju á flugvelli undir vökulum augum eftirlitsmyndavéla? Þessum spurningum verður seint svarað. Vegir Kim Jong-Uns eru órannsakanlegir.
Það ku lengi hafa setið í Kim Jong-Un að bróðir hans fékk í afmælisgjöf á 16. ári ferð í tívolí í Japan. Dagur hefndar hlaut að renna upp. Þar að auki hafði brósi hvatt til þess að í N-Kóreu yrði tekið upp kínverskt markaðskerfi.
Ein tilgátan er sú að morðið eigi að vera skilaboð til allra í Kóreu og allra í heiminum: Enginn sé óhultur og hvergi. Ekki einu sinni nánustu ættingjar Kim Jong-Uns. Hann hefur líka látið drepa háttsettan föðurbróður. Einnig fræga kærustu sem var vinsæl leik- og söngkona. Sú hefur ekki látið það hafa áhrif á feril sinn nema að óverulegu leyti.
![]() |
Myrtur af útsendurum bróður síns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.11.2017 kl. 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.2.2017 | 18:06
Óvenjulegur fata- og fataleysissmekkur forsetahjóna
Forseti Bandaríkja Norður-Ameríku, Dóni Trump, er vel giftur. Ekki í fyrsta sinn. Ekki í annað sinn. Hann er þaulvanur - þrátt fyrir að Biblían fordæmi skilnað hjóna. Nýjasta eiginkona Trumps, Melanía, er slóvenskur innflytjandi, nýbúi í Bandaríkjunum. Fyrsta útlenda "the First Escort Lady" í Hvíta húsinu.
Trump-hjónin hafa íhaldssaman og einfaldan fatasmekk - þrátt fyrir að fjárráð leyfi "flipp". Herrann er fastheldinn á dökk jakkaföt, hvíta skyrtu og rautt bindi. Gott val. Konan er ekki fyrir föt. Til að gæta fyllsta siðgæðis sleppi ég öllum þekktustu ljósmyndum af henni. Hér eru tvær af annars hlutfallslega fáum siðsömum. Ótal aðrar fatalausar myndir af henni eiga ekki heima hér "dannaðri" bloggsíðu.
![]() |
Ætlar að lækka kostnaðinn við múrinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
10.2.2017 | 13:38
Rekinn og bannaður til lífstíðar
Um tíma leit út fyrir að heimurinn væri að skreppa saman. Að landamæri væru að opnast eða jafnvel hverfa. Að jarðarbúar væru að færast í átt að því að verða ein stór fjölskylda. Járntjaldið hvarf. Berlínarmúrinn hvarf. Landamærastöðvar hurfu eins og dögg fyrir sólu. Tollmúrar hurfu. Líka vörugjöld. Talað var um frjálst flæði fólks. Frjálst flæði vinnuafls. Frjálst fæði. Frjálsan markað.
Þetta gat ekki gengið svona til lengdar. Allt að fara í rugl. Tvö skref áfram og eitt afturábak. Fasískir taktar njóta nú vinsælda víða um heim. Til að mynda í Tyrklandi. Þökk sé ljúfmenninu Erdogan.
Færeyskur prestur hefur búið og starfað í Tyrklandi í fjögur ár. Kirkjan hans hefur vinsamleg samskipti við Kúrda og og sýrlenska flóttamenn. Hugsanlega er það ástæðan fyrir því að tyrkneska lögreglan sótti hann til yfirheyrslu. Hann var yfirheyrður í marga klukkutíma. Forvitnir lögreglumenn vildu vita nöfn þeirra sem hann hefur hitt í Tyrklandi, hverja hann þekkir og umgengst. Eins og gengur. Í spjallinu kom reyndar fram að þeir vissu þetta allt saman. Þá langaði aðeins að heyra hann sjálfan segja frá því.
Að spjalli loknu var honum gerð grein fyrir því að hann væri rekinn. Rekinn frá Tyrklandi. Ekki nóg með það. Hann er gerður brottrækur til lífstíðar. Hann má aldrei aftur koma þangað. Honum var umsvifalaust varpað upp í næstu flugvél. Hún flaug með hann til Danmerkur. Það var hálf kjánalegt. Hann á ekki heima í Danmörku. Hann þurfti sjálfur að koma sér á heimaslóðir í Færeyjum. Nánar tiltekið í Hvannasund.
![]() |
Vísað úr landi eftir 22 ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.11.2017 kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.2.2017 | 10:38
Breyttar kröfur í lögreglunni
Ekki veit ég hvaða hæfniskröfur eru gerðar til okkar ágætu íslenskra lögregluþjóna. Ég ætla að óreyndu að þær séu töluverðar. Gott ef flestir þeirra þurfi ekki að hafa farið í gegnum strangt nám í Lögregluskólanum; ásamt því að vera í góðu líkamlegu formi. Kannski líka góðu andlegu formi.
Í Bretlandi hefur lengst af verið gerð sú krafa til lögregluþjóna að þeir kunni að lesa og skrifa. Nú hefur þessari kröfu verið aflétt að hluta í London. Í dag dugir að þeir þekki einhvern sem kann að lesa og skrifa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.1.2017 | 19:49
Það þarf að hafa kontról á óþörfu rápi
Girðingar og múrveggir hafa oft gefist vel. Fangelsi eru iðulega umlukin öflugum girðingum og múrveggjum. Stundum er rafmagni hleypt í girðinguna. Þetta dregur úr möguleikum óstöðugra á að brjótast inn í fangelsi, gera usla og fjölga föngum ótæpilega.
Um miðja síðustu öld gerðu Þjóðverjar tilraun með múrvegg. Þeir skiptu borginni Berlín í tvennt með honum. Hann kom í veg fyrir óþarft ráp á milli borgarhluta. Hitt er annað mál að fyrir hlálegan misskilning var múrinn rofinn seint á síðustu öld og allt fór í rugl.
Í Palestínu hefur verið reistur snotur aðskilnaðarmúr. Með honum hefur reglu verið komið á ólívurækt Palestínumanna. Þeim eru skammtaðir tilteknir dagar til að skottast í gegnum múrinn og tína ólívur. Nema landtökugyðingar séu búnir að kveikja í trjánum enn einu sinni.
Næst á dagskrá er múrveggur á milli Mexíkó og Bandaríkjanna. Með honum verða Bandaríkin einangruð frá sunnanverðri Ameríku. Girt af. Ef einangrunarmúrinn gefst vel er næsta skref að reisa samskonar múr á milli Kanada og Bandaríkjunum. Í báðum tilfellum "flýja" mun fleiri Bandaríkjamenn yfir landamærin til Mexíkó og Kanada en öfugt. Það þarf að hafa kontról á þessu flakki.
![]() |
Við munum reisa múr segir Trump |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.1.2017 kl. 05:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
22.1.2017 | 16:37
Glæsilegt upphaf Trumps í embætti
Eins og sumir vita þá urðu forsetaskipti í Bandaríkjum Norður-Ameríku á fyrsta degi í Þorra. Hussein hrökklaðist úr embætti. Hans verður helst minnst fyrir að hafa - með dyggum stuðningi Hildiríðar Clinton - náð að hleypa öllu í loft upp í Austurlöndum nær. Þau eru blóðug upp að öxlum. Nutu til þess eindregins stuðnings íslenskra stjórnvalda.
Nýr og appelsínugulur forseti, Dóni Trump, hyggst draga úr sprengjuregni Kanans í útlöndum. Um óþarfa bruðl á skotfærum sé að ræða. Hernaður í útlöndum eigi fyrst og síðast að snúa að því að ræna olíulindum.
Það gustar af Trump. Það gustar allt í kringum hann. Á fyrsta degi í embætti, á bóndadag, náði hann að koma fleiri Bandaríkjamönnum út að ganga en Hussein á átta árum. Hreyfing er lykill að heilbrigði. Göngutúrar eru besta líkamsrækt sem völ er á.
![]() |
Segir að Trump eigi að skammast sín |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
14.1.2017 | 11:34
Flækjustigið kryddar tilveruna
Embættismönnum er ekki alltaf lagið að hanna einfalt og skilvirkt kerfi. Þvert á móti. Algengara er að hlutirnir stangist á við hvern annan. Allt lendi í pattstöðu.
Á síðustu öld seldu vinahjón mín bílinn sinn. Þau voru að flytja til útlanda. Allt gekk vel. Flutningurinn gekk eins og í sögu. Þá kom babb í bátinn. Kaupandanum tókst ekki að umskrá bílinn. Ástæðan var sú að bíllinn var upphaflega skráður í gegnum Tryggingastofnun. Konan er öryrki og fékk einhverja tolla eða gjöld felld niður við kaupin. Til að bíllinn yrði skráður á nýja kaupandann þurfti að ganga frá málum við Tryggingastofnun.
Haft var samband við Tryggingastofnun. Þá vandaðist málið. Þar fengust þær upplýsingar að fyrst þyrfti að umskrá bílinn.
Fyrir daga internets fóru samskipti fram í gegnum sendibréf á pósthúsi. Bréfin gengu fram og til baka. Lengi vel gaf hvorug stofnunin sig. Eftir ótal bréfaskipti í marga mánuði náðist lending. Í millitíðinni olli pattstaðan fjárhagslegum erfiðleikum. Það var þó aukaatriði.
Eftir innkomu internets er ekkert lát á flækjustigi. Færeyska lögregluembættið (sem heyrir undir Danmörku) auglýsti að Færeyingum væri skylt að skrá skotvopn sín fyrir tiltekinn dag. Samviskusamur hálf áttræður byssueigandi á Austurey brá við skjótt. Hann brunaði á lögreglustöðina í Rúnavík. En, nei. Þar var honum tjáð að skráningin væri hjá Umhverfisstofu í Þórshöfn á Straumey. Ekkert mál. En, nei. Þegar á reyndi þá var Umhverfisstofan ekki komin með pappíra til að fylla út. Hinsvegar var maðurinn upplýstur um það að hann þyrfti að fara aftur á lögreglustöðina í Rúnavík. Í þetta skipti til að fá sakavottorð. Það er alltaf gaman að eiga erindi til Rúnavíkur. Þar er vínbúð Austureyjar.
Þegar pappírar voru komnir í Umhverfisstofu brá kauði undir sig betri fætinum og brunaði til höfuðborgarinnar. Töluverðan tíma tók að fylla út í alla reiti. Að því loknu kvaddi hann starfsfólkið með handabandi. Við það tækifæri fékk hann að heyra að skýrslugerðin kostaði 4000 kall (ísl).
Svo heppilega vildi til að hann var með upphæðina í vasanum. En, nei. Umhverfisstofa tekur ekki við reiðufé. Allt í góðu. Hann dró upp kort. En, nei. Það má bara borga í Eik-banka. Hann skottaðist niður í miðbæ. Eftir töluverða leit fann hann Eik. Bar upp erindið og veifaði 4000 kallinum. En, nei. Hann mátti einungis millifæra af bók. Þá kom upp ný staða. Hann á ekki í viðskiptum við Eik og á enga bók þar. Þá var minnsta mál að opna bók og leggja peninginn inn til að hægt væri að millifæra. En, nei. Það væri svindl. Eik tekur ekki þátt í svoleiðis. Eina rétta leiðin fyrir hann væri að millifæra úr sínum rótgróna viðskiptabanka yfir til Eikar.
Ekki var um annað að ræða en fara langa leið upp í nýja Nordik-bankann í Þórshöfn. Þar var millifært yfir í Eik. Að því loknu snéri hann aftur í Eik. Þar sótti hann kvittun. Með hana fór hann glaður og reifur í Umhverfisstofu. Gegn henni fékk hann vottorð um að hann væri búinn að skrá byssuna sína. Allir urðu glaðir því að allir fóru eftir settum reglum. Þetta tók ekki nema tvo vinnudaga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.10.2017 kl. 15:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2017 | 21:28
Vandræðaleg staða
Gallinn við marga fanga er að þeir hafa ekki sómakennd. Fyrir bragðið eru þeir kallaðir harðsvíraðir. Það er enginn sómi að því. Víða erlendis klæðast fangar sérstökum fangaklæðnaði. Því fylgja margir kostir. Það dregur úr stéttaskiptingu innan fangahópsins. Banksterinn er í samskonar búningi og samlokuþjófur. Fangabúningurinn dregur úr möguleikum fangans að flýja úr fangelsinu. Jafnframt dregur það úr möguleikum strokufanga að leynast á meðal almennings. Almenningur ber þegar í stað kennsl á að strokufangi sé á ferð og framkvæmir snöfurlega borgaralega handtöku.
Hérlendis fá fangar að sperra sig í sínum fínustu fötum. Það er óheppilegt. Sést best í Fangavaktinni þar sem Georg Bjarnfreðarson er snöggur að koma sér upp samskonar klæðnaði og fangaverðir.
Í Bretlandi eru fangar í samræmdum fangaklæðum. Vandamálið er að þau eru í stöðluðum stærðum. Þær hafa ekkert breyst í áratuganna rás. Öfugt við holdafar Breta. Breskir glæpamenn hafa stækkað á þverveginn jafnt og þétt það sem af er þessari öld. Sér þar hvergi fyrir enda á.
Óánægður fangi í góðri yfirvigt lýsir því sem refsiauka að þurfa að vera í of litlum fangafötum. Einkum er lítill sómi að þegar fötin koma úr þvotti. Þá eru þau þrengri en eftir nokkurra vikna notkun. Buxur komast rétt upp á miðjar rasskinnar. Þær eru svo þröngar að göngulag verður eins og hjá stirðbusalegasta spýtukalli.
Ennþá verra er að skyrtan nær ekki yfir útstandandi ístruna. Hún nær með herkjum að hylja efri hluta búksins niður að maga. Hann stendur nakinn eins og risabolti út í loftið.
Að sögn fangans er þetta svo niðurlægjandi að menn í hans stöðu bjóða sér ekki upp á að taka á móti gestum í heimsóknartíma á meðan fötin eru þrengst. Nóg er að þurfa að þola háðsglósur annarra fanga. Jafnvel siðblindustu glæpamenn hafa sómakennd þegar snýr að fatnaði. Þeir vilja meina að þarna séu mannréttindi þeirra fótum troðin. Það er ekki til sóma.
![]() |
Hvar var sómakennd ykkar? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.12.2016 | 19:25
Árinni kennir illur ræðari
Það er mörgum erfitt að tapa í kosningum. Vera "lúserinn" í leiknum. Ekki síst þegar viðkomandi hlýtur hátt á þriðju milljón fleiri atkvæði en sigurvegarinn. Með óbragð í munni má kalla það að hafa sigrað í lýðræðinu en tapað í (kosninga) kerfinu.
Hildiríður Clinton á erfitt með að sætta sig við að hafa orðið undir gleðigjafanum Dóna Trump í kosningum til embættis forseta Bandaríkja Norður-Ameríku. Bæði tvö hafa kennt stórkostlegu kosningasvindli um úrslitin. Dóni vill þó láta gott heita. Hann sættir sig nokkurn veginn við niðurstöðuna. Er svo gott sem reiðubúinn að taka að sér embættið þrátt fyrir allt.
Hildiríður heldur hinsvegar áfram að vera með urg. Hún er tapsár.
Vissulega er kosningakerfi Bandaríkjanna skemmtileg gestaþraut. Vægi atkvæða er afar mismunandi eftir ríkjum. Þökk sé kjördæmakerfinu. Heimskur almúginn fær ekki að verða sér til skammar með því að kjósa vitlaust. Þess í stað fer 538 manna hópur gáfaðra kjörmanna með endanlegt vald til að velja forseta. Þó að þeir séu aldrei allir sammála þá eru þeir samt gáfaðri en skríllinn.
Opinbert leyndarmál er að kosningasvindl leikur stórt hlutverk í bandarískum kosningum. Það er allavega. Kjósendur þurfa að skrá sig á kjörskrá nokkru fyrir kjördag. Þeir þurfa að gefa upp pólitísk viðhorf. Þetta eru ekki leynilegar kosningar að því leyti. Enda ekkert nema kostur að allt sé uppi á borðum, gegnsætt og án leyndarmála.
Á kjördag mætir fólk í mörgum ríkjum án skilríkja. Hver sem er getur kosið í nafni hvers sem er. Það gera margir. Hópar kjósa undir nafni annarra. Margir mæta á kjörstað til að fá þær fréttir að þegar sé búið að kjósa í þeirra nafni.
Í einhverjum ríkjum þurfa kjósendur að vísa fram skilríkjum. Ekki hvað skilríkjum sem er. Í einhverju ríkinu var lögum um það breytt á síðustu stundu þannig að 300 þúsund fátæklingar duttu út af kjörskrá. Enda hefði sá hópur kosið vitlaust hvort sem er.
Í sumum ríkjum eru rafrænar kosningar. Þar fara "hakkarar" á kostum. Ekkert síður stuðningsmenn Hildiríðar en Dóna. Pútín líka. Þegar upp er staðið hefðu úrslitin ekkert orðið öðruvísi þó að enginn hefði svindlað. Þegar margir (= allir) svindla mikið þá leitar það að endingu jafnvægis.
![]() |
Kennir Pútín og FBI um ósigurinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)