Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
21.11.2016 | 17:51
Skemmtilegur lýðræðishalli
Á samfélagsmiðlum og víðar hefur mátt sjá og heyra Íslendinga á ýmsum aldri hneykslast á kosningakerfi Bandaríkja Norður-Ameríku þegar þarlendir velja sér forseta. Æ ofan í æ fer sá frambjóðandi sem þjóðin velur, hann fer ekki með sigur af hólmi. Þess í stað fær sá sem þjóðin hafnar, hann fær forsetaembættið á silfurfati.
Ástæðan liggur í því að forsetinn er ekki kosinn af almenningi heldur nokkur hundruð kjörmönnum. Sauðsvörtum almenningi er ekki treyst fyrir fjöreggi lýðræðisins. Hann myndi klúðra því og kjósa eitthvað vanhugsað og heimskulegt. Eitthvað rugl. Þess vegna þarf sérkjörna ábyrgðarfulla embættismenn til að velja af skynsemi heppilegasta forsetaefnið.
Í galgopahætti kalla sumir þetta að lýðræðið hafi á dögunum valið Hildiríði Clinton en (kosninga) kerfið valið ljúflinginn Dóna Trump.
Það er ekkert rosalega langt síðan Evrópubúar tóku að þreifa sig áfram í átt að lýðræði. Gerð var tilraun með því að leyfa eignamönnum að kjósa. Það gafst vel. Þá var gerð tilraun til að leyfa fleiri karlmönnum að kjósa. Það virkaði ásættanlega. Að því kom að óhætt þótti að leyfa konum einnig að kjósa. Til öryggis framan af var notast við kjörmannakerfi eins og þetta bandaríska.
Kosningaaldur hefur verið lækkaður hægt og bítandi. Þetta er allt ennþá á tilraunastigi.
Íslendingar hafa ekki úr háum söðli að detta þegar kemur að fullkomnu lýðræði. Enda er það ekki til. En 1 atkvæði á mann væri nær því. Í dag er það ekki svo. Vægi atkvæða er ekki jafnt um allt land. Í sumum kjördæmum vegur 1 atkvæði allt að því á við 2 atkvæði greidd í öðrum kjördæmum. Einn dag í óræðinni framtíð leyfa veðurguðirnir sólinni að skína á Ísland sem þá verður eitt kjördæmi. Hvert og eitt atkvæði um allt land hafi sama vægi.
Forskot Clinton eykst enn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.11.2016 | 05:20
Gríðarleg fagnaðarlæti í Pakistan
Fáir fagna kosningasigri ljúflingsins Dóna Trumps - til embættis forseta Bandaríkja Norður-Ameríku - meira og ákafar en Pakistanar. Þar í landi er altalað að hann hafi fæðst í fjárhúsjötu í landinu; þá barn að aldri. Skömmu síðar féllu foreldrar hans frá, að því er sagan segir. Var hann þá ættleiddur til Bandaríkjanna - með stuttri viðkomu í Englandi.
Pakistanar kunna nöfn blóðforeldra hans utanbókar. Jafnframt eru til ljósmyndir af drenghnokkanum frá æskuárunum í Pakistan. Eðlilega hafa pakistanskir fjölmiðlar gert málinu góð skil. Enda þjóðin stolt af sínum manni. Hún hamstrar ljósmyndir af honum til að hengja upp á besta stað í stássstofunni. Hávær krafa er um að dagurinn sem Trump verður formlega settur í forsetaembætti verði gerður að opinberum frídegi í Pakistan til frambúðar.
Neitar að klæða Melaniu Trump | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2016 | 20:06
Stórsigur kvenna
Ég hef verið að skoða kosningaúrslit gærdagsins. Sú skoðun leiðir í ljós - þegar vel er að gáð - að staðan er glettilega góð og ánægjuleg fyrir konur. Við getum talað um stórsigur kvenna. Það er aldeilis jákvætt svo ekki sé fastar kveðið að orði. Mér reiknast til að eftir sveitastjórnarkosningarnar í gær séu átta af þrettán borgarfulltrúum Þórshafnar, höfuðborgar Færeyja, konur. Þvílík bomba! Ég segi og skrifa B-O-B-A!
Þær eru: Annika Olsen (Fólkaflokkur), Björghild Djurhuus, Helena Dam og Halla Samuelsen (Jafnaðarmannaflokkur), Gunnvör Balle, Marin Katrina Frýdal og Túrid Horn (Þjóðveldi) og Bergun Kass (Framsókn).
Mér segir svo hugur að Annika verði næsti borgarstjóri Þórshafnar.
Hverju breytir sigurinn á alþjóðavísu? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.11.2016 kl. 06:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.11.2016 | 16:40
Stoltir aðdáendur forsetaframbjóðanda
Á www.visir.is er frétt af íslenskum aðdáendum Dóna Trumps. Þeir eru sagðir læðast með veggjum. Humma, afsaka sig og draga í land þegar á þá er gengið. Um þetta má lesa með því að smella HÉR. Ég held að þetta sé misskilnungur hjá annars ágætum netmiðli. Það er engin ástæða fyrir hógværð í hrifningu af manninum. Eins og staðan er í dag þá er hann annar tveggja frambærilegustu þegna Bandaríkja Norður-Ameríku. Það er til fyrirmyndar að dást að þeim sem skara fram úr af mannskostum þar á bæ.
Misserum saman hefur bandaríska þjóðin leitað logandi ljósi að þeim sem er hæfastur til að gegna æðsta embætti heims. Ábyrgð þjóðarinnar er mikil. Hún gerir sér grein fyrir því. Þess vegna hefur verið vandað til verks. Mátað fjöldann allan við hlutverkið. Hver er traustastur? Klárastur? Líklegastur til að sameina landsmenn að baki sér? Hver lýgur minnst? Líklegastur til að verða landi og þjóð til sóma? Hver í Bandaríkjunum er flestum dyggðum prýddur?
Hvort heldur sem Dóni eða Hildiríður verði í dag kosinn forseti þá segja úrslitin þetta: Manneskjan er framúrskarandi afbragð samlanda í 320 milljón manna þjóð vestur í Ameríku. Það er ástæða til að vera stoltur aðdáandi. Það er heldur ekkert að því að lenda í 2. sæti: Vera næst mesti mannkostaþegn Bandaríkja Norður-Ameríku.
Hildiríður liggur undir grun um að hafa kosið sjálfa sig í dag. Óvíst er með Dóna. Hann er gamalgróinn Demókrati. Öfugt við Clinton. Hún er gamalgróin Reppi.
Teikn um sigur Trumps í N-Karólínu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.11.2016 | 09:28
Framsókn þarf þrjá ráðherrastóla
Framsóknarflokkurinn logar stafna á milli. Eins og gengur. Flokksmenn þora ekki lengur að "læka" við vitlausar Fésbókarfærslur. Þeim sem hefur orðið slíkt á er hvergi vært. Það er hringt í þá og lesið yfir hausamótunum á þeim. Ekkert "elsku mamma" heldur er tekið í hnakkadrambið á þeim og þeir hristir og hrærðir uns allur vindur er úr þeim.
Nú er gerð sanngjörn krafa um að Sigmundur Davíð verði ráðherra. Helst forsætisráðherra með 19 aðstoðarmenn. Annars verður engin sátt. Aðeins ófriður og illindi. Sigurður Ingi hlaut ekki nema 40 atkvæðum meira í formannsslagnum. Aðeins 817 kjósendur Framsóknarflokksins í NA-kjördæmi strikuðu yfir nafn Sigmundar. Hann á þess vegna skýlausa kröfu um ráðherraembætti. Það er eina leiðin til að hann verði glaður.
Þetta þýðir að Framsókn þarf þrjú ráðherrasæti í komandi ríkisstjórn. Formaðurinn og varaformaðurinn sitja vitaskuld fyrir. Þetta getur orðið vandamál. Stærsta vandamálið er það er alls óvíst að Framsóknarflokkurinn verði í ríkisstjórn. Þá verður langt í að gleði ríki á eyðibýli á NA-landi.
Krefjast sætis fyrir Sigmund | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.11.2016 | 19:54
Ofsóttur eyðibýlisbóndi
Hvergi sér fyrir enda á ofsóknum vondra manna gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Í skúmaskotum í New York, Brussel, Svíþjóð og eiginlega út um allan heim hafa óþokkar tekið höndum saman um að gera strákinn óvígan. Einskis er látið ófreistað. Svo langt er gengið að algengum vírus, svokölluðum Trójuhesti, var plantað í tölvu hans. Sá hestur njósnar um auglýsingar sem stráksi skoðar. Hann er ógn við heimsyfirráð vondra karla. Þeir skjálfa af ótta við það eitt að heyra nafn hans nefnt.
Verra er að samflokksmenn hans taka þátt í ofsóknunum. Ekki af léttúð heldur af fullum þunga. Í nýafstöðnum kosningum voru brögð að því að krotað væri yfir nafn Sigmundar á kjörseðlum. Vel á níunda hundrað Framsóknarmanna tók þátt í þessum ljóta leik. 18% í NA-kjördæmi. Jafnframt er staðfest að í öllum öðrum kjördæmum reyndu kjósendur Framsóknarflokksins með öllum ráðum að strika yfir nafn eyðibýlisbóndans. Það reyndist hægara sagt en gert af því að nafn hans var ekki á kjörseðlinum. Í einhverjum tilfellum brugðu kjósendur á það ráð að skrifa nafn hans á kjörseðilinn til þess eins að strika yfir það. Enn aðrir skrifuðu nafnið á servíettur og dagblöð til að strika yfir það. Þetta er galið. Snargalið.
Góðu fréttirnar eru að Sigmundur Davíð safnar notuðum flugeldaprikum. Söfnunin gengur vel.
Skoðanakúgun í flokknum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.11.2016 kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
4.11.2016 | 18:08
Eindregin ósk um forsætisráðherra
Mér er að mestu sama um það hvernig ný stjórn verður sett saman. Það er að segja hvaða stjórnmálaflokkar mynda meirihluta og þar með ríkisstjórn. Eða hvort að það verður minnihlutastjórn varin af utanstjórnarflokki. Þetta eru hvort sem er allt kratar. Það sem skilur á milli er smotterí sem er ekki á dagskrá næstu árin. Til að mynda upptaka nýs gjaldeyris eða umsókn um inngöngu í Evrópusambandið.
Næst á dagskrá er endurreisn heilbrigðiskerfisins, bættur hagur öryrkja og aldraðra, meiri spilling og meira pönkrokk. Allir geta náð sátt um það.
Mín ósk um nýja ríkisstjórn er að Óttar Proppe verði forsætisráðherra. Hann hefur samið langbestu lögin af öllum sem sæti eiga á Alþingi. Hann hefur ort flottustu og skondustu textana. Hann syngur töffaðast. Hann hefur gert bestu myndböndin. Sjá hér fyrir ofan og neðan. Hann á flottustu fötin.
Vilja Benedikt sem forsætisráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.11.2016 | 11:00
Ég nenni ekki að tala um Sigmund Davíð
Einn kunningi minn er afar áhugasamur um að láta banna hitt og þetta. Eiginlega flest. Næstum því daglega nefnir hann eitthvað sem hann telur brýnt að verði bannað. Hann telur sig vera frjálslyndan og hefur óbeit á forræðishyggju. Enda byrjar hann setningar jafnan á orðunum: "Eins og mér er illa við öll boð og bönn þá finnst mér að það eigi að banna..."
Þetta næstum því sama á við um þá sem mest og oftast tala um Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Þegar þeir hafa masað og þvaðrað um hann þá endar umfjöllunin á orðunum: "Annars nenni ég bara ekki að tala um Sigmund Davíð."
Nennir ekki að tala um Sigmund Davíð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.9.2017 kl. 14:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
2.11.2016 | 12:35
Kostir útstrikana
Nöfn tiltölulega fárra frambjóðenda eru strikuð út á kjörseðli í kosningum. Ástæðan er sú að almenningur þekkir lítið sem ekkert til frambjóðenda. Í nýafstöðnum alþingiskosningum voru hátt í 1300 manns í framboði. Hvorki ég né aðrir þekkja haus né sporð á sumum sem skipuðu efsta sæti á framboðslistum. Hvað þá þeirra sem skipuðu önnur sæti.
Fyrir bragðið er eðlilegt að útstrikaðir frambjóðendur séu upp með sér. Kjósendur vita á þeim deili. Þekkja meira að segja nógu vel til verka þeirra til að krota yfir nafn þeirra.
Montnastur allra í dag er Sigmundur Davíð Gunnlaugssonar. Hann er kóngur - útstrikanakóngur á eyðibýli. Svo gott sem fimmti hluti kjósenda Framsóknarflokksins í NA-kjördæmi krassaði yfir nafn hans. Það hefur verið skálað í kampavíni af minna tilefni.
Rúm 8% strikuðu Þorgerði Katrínu út | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.10.2016 | 06:25
Vanmetinn styrkur
Fyrir helgi spáði ég fyrir um úrslit alþingiskosninganna sem fóru fram á laugardaginn. Gekk þar allt eftir. Það er að segja innan skekkjumarka. Einn var þó hængur á. Mér reiknaðist til að ef öll helstu skyldmenni Júlíusar K. Valdimarssonar mættu á kjörstað gæti H-listi Húmanistaflokksins fengið 30 atkvæði. Þá að því tilskyldu að Júlíus myndi sjálfur greiða sér atkvæði. Það þurfti ekki að vera.
Þarna vanmat ég illilega styrk Húmanistaflokksins. Þegar atkvæðabunki hans var talinn reyndist framboðið mun öflugra en bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir. 33 atkvæði skiluðu sér í hús. Upp á það var haldið með húrrahrópum, flauti og blístri út allan sunnudaginn og langt fram á mánudagsmorgun. Vantaði aðeins hársbreidd - nokkur þúsund atkvæði - að Húmanistar kæmust á fjárlög. 10.000 atkvæði hefðu tryggt þeim þingsæti. Þar skall hurð nálægt hælum.
40 milljónir til Flokks fólksins? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)