Færsluflokkur: Tónlist
19.11.2024 | 10:15
Leifur óheppni
John Lydon (Rotten) er söngvari Sex Pistols og PIL. Hann hefur sent frá sér tvær sjálfsævisögur. Þær eru keimlíkar. Í annarri þeirra segir af meðstofnanda PIL, gítarleikaranum flotta Keith heitnum Levene. Lydon segir hann hafa verið fagmann í neikvæðni.
Nokkrum árum áður stofnaði Keith hljómsveitina The Clash. Hann þótti svo leiðinlegur að honum var sparkað.
Kunningi minn er í sama gír. Hann leyfir sér aldrei að gleðjast. Hann finnur ætíð einhverja vankanta á öllu. Gárungarnir kalla hann Leif óheppna.
Hann er tengdur bílaumboði fjölskylduböndum. Eitt sinn var hann í bílavandræðum. Umboðið gaf honum nýjan bíl. Kappinn hafði allt á hornum sér. Einkum var hann ósáttur við að bíllinn var hvítur. Hann hélt því fram að hvítir bílar væru ógæfutæki. Þeir lentu í árekstrum og fleiri vandamálum en aðrir bílar. Eftir langt ólundarskeið tókst honum að skipta á bílnum við vinnufélaga sem átti rauðan bíl. Sá var gamall og mikið keyrður. Öllu munaði að hann var ekki hvít slysagildra.
Svo bar til að við hittumst á asískum veitingastað. Í boði var meðal annars tilboðsréttur mánaðarins. Hægt var að velja á milli venjulegs skammts og stórs. Ég valdi venjulegan en vinurinn stóran. Er réttirnir voru bornir fram blasti við að skammtarnir voru álíka stórir. Eiginlega munaði aðeins að hans var á stærri diski. Þetta "óréttlæti" eyðilagði fyrir honum daginn. Skipti engu þó ég héldi því fram að hans skammtur væri í réttri stærð; ég hefði fengið óvenju stóran skammt.
Steininn tók úr er hann fékk lottóvinning upp á 9 millur. Í stað fagnaðar brotnaði hann niður. Þvílík ógæfa! Vikuna áður hafði 80 milljón króna vinningur gengið út. Kauða leið eins og hann hefði í raun tapað 71 milljón með því að fá vinning í "rangri" viku! Hann var svo miður sín að hann mætti ekki í vinnu í nokkra daga.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
29.10.2024 | 10:43
4 vísbendingar um að daman þín sé að halda framhjá
Íslendingar eru ekki áberandi trygglyndir. Allir þekkja marga sem hafa haldið framhjá maka sínum. Munur á konum og körlum er óverulegur á þessu sviði. Í flestum tilfellum er sá kokkálaði grunlaus. Enda er framhjáhaldarinn lúmskur og hugmyndaríkur. Ef vel er að gáð þá kemur ýmis hegðun upp um dömu sem er að halda framhjá.
Dæmi 1: Sími hennar hringir. Hún hleypur með hann inn á baðherbergi. Þaðan berast hláturskellir í góðan tíma. Að því loknu kemur hún flissandi út úr herberginu og segir að þetta hafi bara verið vitlaust símanúmer. Þetta endurtekur sig dag eftir dag. Rautt flagg: Símasamband á baðherberginu er afleitt.
Dæmi 2: Hún segist þurfa að skreppa til útlanda í tveggja vikna vinnuferð. Rautt flagg: Hún er ekki í neinni vinnu.
Dæmi 3: Hún segist vera ólétt. Rautt flagg: Þið hafið ekki sofið saman í tvö ár.
Dæmi 4: Hún kemur heim með ungan mann; segir hann hafa ofkælst í frosthörku í strætóskýli í næstu götu. Hún verði að hátta hann í hvelli ofan í rúmið ykkar og halda á honum hita. Rautt flagg: Eina veður þessa dagana er steikjandi sól. Ekkert strætóskýli er í næstu götum.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.9.2024 | 10:25
Hvað þýða hljómsveitanöfnin?
Hljómsveitanöfn eru ekki öll sem sýnist. Dæmi um slíkt er The Rolling Stones. Nafnið er iðulega þýtt sem Rúllandi steinar. Það er ekki röng þýðing. Hinsvegar er nákvæmari þýðing Flakkarar. Nafnið er sótt í sönglag blúsarans Muddy Waters, Rollin Stone. Þar er haft eftir óléttri konu að sonurinn verði flakkari. Eirðarlaust fólk sem unir sér aldrei lengi á sama stað; er á stöðugu flakki er kallað rolling stone.
Á kreppuárunum í Bandaríkjunum urðu margir flakkarar í leit að vinnu. Þeir urðu laumufarþegar í vöruflutningalestum. Til að vera ekki lúbarðir á lestarstöðvum þá stukku þeir út úr lestinni á ferð. Tæknin var að hlaupa út í sömu átt og lestin og rúlla sér kollhnísa eftir grasinu. Úr fjarlægð líktust þeir rúllandi steinum.
Í eldri merkingu er orðatiltæki sem segir að mosi vaxi ekki á rúllandi steini.
The Kinks. Stundum hefur hljómsveitin verið kölluð Kóngarnir. Það er rangt. Nafnið er ekki skrifað með g. Orðið kink þýðir að eitthvað sem á að vera beint sé bogið. Það er líka notað yfir óhefðbundið kynlíf. Hérlendis er talað um kinky.
The Hollies. Algeng skoðun er að nafnið sé sótt í bandaríska tónlistarmanninn Buddy Holly. Hið rétta er að jólatrésgreinar sem hýbýli eru skreytt með að heiðnum sið á jólum eru kallaðar hollies á Englandi.
The Byrds. Nafnið hljómar vel, Fuglarnir. Vandamálið var að Bítlarnir og fleiri Bretar kölluðu ungar og aðlaðandi dömur birds. Til aðgreiningar frá þeim var nafnið skrifað með y - í og með undir áhrifum frá The Beatles. Aðalsprauta The Byrds, Roger McGuinn, hafði dálæti á djassstjörnunum Donaldi Byrd og Charlie Byrd.
Sex Pistols. Nafnið má þýða sem kynhólka eða typpi. Því var ætlað að auglýsa tískufataverslun umboðsmannsins, Sex.
Pink Floyd. Við getum talað um Bleika froðu. Nafnið var sótt í uppáhalds blúsista hljómsveitarinnar, Pink Andersen og Floyd Council.
Sham 69. Nafnið getur þýtt Sviðsett munnmök. Öllu fremur kenndi hljómsveitin sig við heimabæ sinn, HerSHAM á Englandi. 69 er númer þjóðvegar sem liggur í gegnum bæinn. Vegurinn er í daglegu tali kallaður Sham 69.
Handriðið. Nöfn íslenskra hljómsveita eru jafnan augljós og skiljanleg: Hljómar, Flowers, Paradís, Utangarðsmenn... Á níunda áratugnum neitaði auglýsingadeild Ríkisútvarpsins að afgreiða auglýsingar pönksveitarinnar Sjálfsfróunar. Nafni hljómsveitarinnar var þá breytt í Handriðið. Engar athugasemdir.
Talking Heads. Nafnið er oft þýtt sem Talandi höfuð. Meðal annars samdi og söng hljómsveitin Spilafífl magnað lag, Talandi höfuð. Betur hljómar að þýða nafnið Höfðatal.
Tónlist | Breytt 11.9.2024 kl. 18:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
3.9.2024 | 09:17
Staðgengill eiginkonunnar
Fólk hefur mismunandi viðhorf til kynlífs og hjónabands. Skoðanir eru ólíkar eftir menningarsvæðum. Þær eru líka allavega eftir þjóðfélagsgerð, stétt og stöðu. Einnig eru viðhorfin mismunandi innan kunningjahópa og jafnvel innan hjónabands.
1969 gengu breski Bítillinn John Lennon og japanska listakonan Yoko Ono í hjónaband. Á ýmsu gekk. John var vandræðagemlingur; skapofsamaður, alkahólisti og eiturlyfjafíkill.
1973 fékk Yoko nóg. Hún tilkynnti honum að þau þyrftu að taka hlé frá hvort öðru. Á þessum tíma bjuggu þau í New York. Hún lagði til að hann myndi skottast til Los Angeles og taka gott helgardjamm með vinahópnum þar.
John fagnaði uppástungunni. Næstu 18 mánuði drakk hann rosalega, slóst, dópaði og bara flippaði út. Meðal drykkjufélaga hans voru Ringo, Harry Nilson, Elton John, Keith Moon (trommari Who) og Jerry Lee Lewis.
John var ófær um að ferðast einn. Vegna sjóndepru gat hann ekki lesið á merkingar á flugvöllum. Að auki hafði hann aldrei ferðast einn. Hann kunni það ekki. Þá kom sér vel að rúmlega tvítug kínversk stelpa, May Pang, var ritari hjónakornanna. Yoko gaf henni fyrirmæli um að fylgja John til Los Angeles, passa upp á hann, sjá til þess að hann héldi áfram í tónlist og veitti honum svo mikið kynlíf að hann myndi ekki leita til annarra kvenna.
May sinnti starfi sínu af samviskusemi.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
15.7.2024 | 08:05
Bestu hljómsveitirnar
Allir - eða allflestir - kunna vel að meta músík af einhverju tagi. Svo eru það þeir sem hafa ástríðu fyrir músík. Á ensku eru þeir kallaðir music lovers og eru á bilinu 3 - 5% fólks. Tilvera þeirra snýst að stórum hluta um músík. Þeir láta sér ekki nægja að hlusta á músík heldur fræða þeir sig um músík. Skoða og skilgreina.
Á dögunum tók einn sig til og stúderaði alla marktæka lista sem hann fann yfir bestu hljómsveitir bresku dægurlagasögunnar. Listana lagði hann saman og reiknaði út einn sameiganlegan heildarlista. Listarnir voru reyndar að mestu samstæðir. Einkum efstu sætin. Þau eru þessi:
1 Bítlarnir
2 Rolling Stones
3 Led Zeppelin
4 Pink Floyd
5 Clash
6 Who
7 Queen
8 Kinks
9 Black Sabbath
10 Smiths
11 Radiohead
12 Cure
13 Oasis
14 Sex Pistols
15 Genesis
Tónlist | Breytt s.d. kl. 09:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
1.7.2024 | 10:13
Stórmerkilegur launalisti
1969 var haldin merkasta hljómleikahátíð sögunnar. Hún fór fram í Woodstock í New York ríki. Yfirskriftin var "3ja daga friður og tónlist". Þegar á reyndi teygðist dagskráin yfir fjóra daga.
Í upphafi var áætlað að hátíðin gæti laðað 15 þúsund manns að. Er nær dró var ljóst að töluvert fleiri kæmu. Aðstaða var þá bætt og gerð fyrir 25 þúsund gesti.
Svæðið og næstu sveitabæir hurfu í mannhafi. Hátt í hálf milljón mætti (á milli 470 - 480). Allt fór í klessu: hreinlætisaðstaða, matur og drykkir... Rigning og troðningurinn breyttu jarðvegi í drullusvað.
Eitt af mörgu sem gerði hátíðina merkilega er að allt fór friðsamlega fram. Engar nauðganir eða annað ofbeldi. Enginn drepinn.
Forvitnilegt er að skoða í dag hverjar voru launakröfur tónlistarfólksins:
Jimi Hendrix: 18 þúsund dollarar (7 milljón ísl kr. á núvirði).
Blood, Sweat & Tears: 15.000 dollarar.
Creedence Clearwater Revival og Joan Baez: 10.000 dollarar hvor.
Janis Joplin, Jefferson Airplane og The Band: 7500 dollarar hver.
The Who, Richie Havens, Canned Heat og Sly & The Family Stone: 7000 dollarar hver.
Arlo Guthrie og Crosby, Stills, Nash & Young: 5000 dollarar hvor.
Ravi Shankar: 4500 dollarar.
Johnny Winter: 3750 dollarar.
Ten Years After: 3250 dollarar.
Country Joe and the Fish og The Grateful Dead: 2500 dollarar hvor.
Incredible String Band: 2250 dollarar.
Tim Hardin og Mountain: 2000 dollarar hvor.
Joe Cocker: 1375 dollarar.
Sweetwater: 1250 dollarar.
John Sebastian: 1000 dollarar.
Melanie og Santana: 750 dollarar hvor
Sha Na Na: 700 dollarar.
Keef Hartley: 500 dollarar.
Quill: 375 dollarar.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
8.5.2024 | 08:42
Gullmolar
Sagan segir að lagið Good Vibration hafi verið samið í sýrutrippi. Hið rétta er að ég samdi það í hassvímu! (Brian Wilson, Beach Boys)
Ég var eina manneskjan á Woodstock sem var ekki á sýrutrippi (Joe Cocker. Hann var "bara" blindfullur).
Ég dópaði aldrei. Djússaði bara. Mér gast ekki að hugmyndinni að vera stöðugt í slagtogi með lögreglunni! (Robert Wyatt)
Það skemmtilega við elliglöp er að maður rekst stöðugt á nýtt áhugavert fólk! (Paul McCartney)
Einhver líkti því við kynmök við górillu að prófa dóp. Þú sleppur ekki fyrr en górillan ákveður það! (Peter Tork, Monkees)
Ef þú ert svalur þá veistu ekki af því! (Keith Richards)
Keith gerir út á vorkunn. Hann reddar sér oft fyrir horn með því að segjast vera heilaskaddaður! (Ronnie Wood, Rolling Stones)
Led Zeppelin keppti ekki við neina. Við vorum besta hljómsveitin. Enginn gat keppt við okkur! (Robert Plant).
Lagasmíðar verða að vera mitt lifibrauð. Ég kann ekkert annað! (Ray Davis, Kinks)
Ég verð að vera bjartsýnn. Annars yrði ég að semja píkupopp og græða sand af seðlum! (Steve Earle).
Ef þú verður að setja mig í bás þá er uppáhaldsbásinn minn ásatrú. (Neil Young)
Í 4000 ár hafa skipulögð trúarbrögð reynt að fela þá staðreynd að tunglmánuðirnir eru 13. Þau reyna að fela töluna 13 af því þau vilja ekki að náttúran sé samkvæm sjálfri sér. (Björk)
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
16.4.2024 | 08:01
Bítlasynir taka höndum saman
Það hefur ýmsa kosti að eiga fræga og dáða foreldra. Því miður hefur það einnig ókosti. Meðal kosta er að börnin eiga greiðan aðgang að fjölmiðum. Kastljósið er á þeim. Af ókostum má nefna að barnið er alltaf borið saman við það allra besta sem eftir foreldra liggur. Þetta hafa synir Bítlanna sannreynt.
Til samans hafa synirnir spilað og sungið inn á um tvo tugi platna. Þær standast ekki samanburð við Bítlana. Og þó. Sonur Ringos, Zak, er virkilega góður trommari. Hann hefur meðal annars cerið trommari Oasis og Who.
Nú feta Sean Lennon og James McCartney nýja leið. James hefur sent frá sér lag, "Primrose Hill", sem hann samdi og flytur með Sean. Lagið er Bítla-Lennon-legt. Það hefði varla verið boðlegt sem B-hlið á Bítlasmáskífu og aldrei ratað inn á stóra Bítlaplötu. Því síður toppað vinsældalista. Sterk laglína og flottur texti hefðu hjálpað.
Tónlist | Breytt 6.8.2024 kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
21.2.2024 | 21:56
Ánægjuleg kvikmynd
- Titill: BOB MARLEY: One Love
- Einkunn: **** (af 5)
Bob Marley ólst upp í mikilli fátækt á Jamaica. Hann vann sig upp í að verða skærasta, stærsta og í raun eina ofurtónlistarstjarna þriðja heimsins. Súperstjarna ofarlega á lista yfir merkustu tónlistarmenn sögunnar. Kvikmynd um 36 ára ævi hans var fyrir löngu tímabær.
Kvikmyndin stendur undir væntingum. Í og með vegna þess að músíkin er yndisleg. Hljóðheimur (sánd) Kringlubíós er frábær. Sérlega skilar hann bassagítar flottum.
Einstaka sena er allt að því full róleg. Þannig er það með myndir sem byggja á raunverulegum söguþræði. Enski leikarinn Kingslay Deb-Adir túlkar Marley. Hann er ágætur. Honum tekst þó ekki fullkomlega að fanga sjarma Bobs. Það er ómöguleiki.
Blessunarlega upphefur myndin Bob ekki sem breyska guðlega veru. Né heldur ofhleður hana með rasta-trúarbrögðum hans. Sem samt voru stór þáttur í lífi hans.
Margt má segja um myndina gott og misgott. Eftir stendur að ág mæli með henni sem skrepp í kvikmyndahús og upplifa "feel good").
Tónlist | Breytt 7.3.2024 kl. 17:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
10.2.2024 | 03:39
Illvíg ófærð
Í vikunni bar til tíðinda að í Færeyjum spólaði bíll í snjó. Hann var fastur. Undir stýri var ung kona á leið frá Vestmanna til höfuðborgarinnar, Þórshafnar. Henni var komið til hjálpar og fylgt til Þórshafnar. Engan sakaði.
https://www.in.fo/news-detail/kvinna-koyrdi-seg-fasta-oman-fyri-kvivik
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)