Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
19.6.2015 | 23:29
Húðflúraklúður
Húðflúrum er ætlað að vera varanleg merking. Þess vegna hugsa flestir sig vel og lengi um áður en þeir láta merkja sig til frambúðar. Þó er það svo að ungt fólk áttar sig ekki alltaf á því hvað það lifir blýfast í núinu. Það er ástfangið og heldur að ástarsambandið endist ævilangt. Það heldur sömuleiðis upp á dægurlagasöngvara eða hljómsveit. Áttar sig ekki á því að margt sem þykir flottast í dag í músík er það hallærislegasta sem til er nokkrum árum síðar. Tiltölulega fáar poppstjörnur standast tímans tönn.
Þá er ekki um annað að ræða en fela húðflúrið á einhvern hátt. Eða breyta því á annan veg.
Þessi dama lét húðflúra á herðablað nafn kærastans, Andys. Svo slettist upp á vinskapinn. Stelpan sár og svekkt. Hún reynir að gera hið besta í málinu með því að láta bæta við nafn Andys "Screw You". Á vondri íslensku má þýða það sem "farðu til fjandans".
Piltur lét húðflúra nafn kærustunnar á sig. Svo lauk sambandinu. Þá þarf að útskýra fyrir þeim sem sjá merkinguna fyrir hvað nafn hennar stendur. Skýringin er: "Mín stóru mistök".
Það á ekki af sumum að ganga. Enn einn gaurinn með nafn kærustunnar húðflúrað á sig. Sambandið slitnar. Hann ætlar að vera voða sniðugur og setja yfir nafn hennar orðið "ógilding", eins og stimpil. Til að skerpa á tilfinningunni fyrir stimpli lætur hann fylgja með mynd af stimpilpúðanum. EN klaufinn fattar ekki að textinn á stimpilpúðanum þarf að vera spegilmynd. Þvílíkur auli. Að auki er stimpilpúðinn töluvert minni en stimpillinn.
Stúlka lætur húðflúra á sig þann sérkennilega texta: "Við Colvid deyjum á morgun". Spáin rættist ekki heldur dó ást þeirra hvort á öðru. Textanum var þá breytt í "Við gætum dáið á morgun". Í leiðinni er röng stafsetning á orðinu "tomorrow" leiðrétt. Þetta kostar nokkrar aukastjörnur. En rauðhálsinn kippir sér aldrei upp við slíkt.
Daman átti í ástarsambandi við Nick. Hún var svo ánægð með það að hún lét húðflúra nafn hans á bringuna á sér. Svo brást hann henni. Þá breytti hún nafninu í Dick (skaufa). Það er að vísu mjög kjánalegt að flagga bringu með áletruninni "Skaufi". En kella tekur ekki eftir því. Hún er fyrst og fremst að senda Nick tóninn. Hann brást henni.
Í Suðurríkjum Bandaríkja Norður-Ameríku eru rauðhálsarnir vanir að redda sér. Þeir gera ekki greinarmun á fagmennsku og fúski. Þeir bara redda sér einhvernvegin. Sumir reyna ekki að hugsa út fyrir boxið. Þeir afskrifa úrelt húðflúr með massífum svörtum fleti, hvort heldur sem er ferhyrndum eða stjörnulaga. Ljótt? Jú. En þetta er redding.
.
![]() |
Sjáðu fyrsta tattúið hennar Kendall Jenner |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt 30.6.2016 kl. 19:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.6.2015 | 21:05
Óþokkabragð
Þetta er svo langt síðan að ég veit ekki hvort að það sé leyndarmál lengur. Samt veit ég ekki betur en að svo sé. Fólkið sem um ræðir er aldrað í dag en vonandi allt á lífi og við góða heilsu. Ég hef ekkert heyrt frá því né um það til áratuga.
Ungt par á sjöunda áratugnum sleit samvistum á sama tíma og konan varð ólétt. Maðurinn settist á skólabekk. Þetta var fyrir daga námslána í hans fagi. Pilturinn þurfti að horfa í hverja krónu. Klauf m.a. strætómiða til að spara fyrir mat (náði góðri tækni við það sem virkaði og kenndi mér hana). Hann skipti sér ekkert af fæðingu barnsins. Á einhverjum tímapunkti neitaði hann formlega að kannast við að vera faðir þess. Jafnframt bjó hann þannig um hnúta að erfitt var að staðsetja hann. Hann var ekki með skráðan síma né fast heimilisfang. Hreiðraði um sig í Hafnarfirði á meðan aðrir leituðu hans í Reykjavík.
Seint og síðar meir mætti embættismaður (mig hálfminnir að það hafi verið Haukur Morthens en kannski er ég að rugla saman dæmum) í skólann til hans og bar honum erindi. Honum var gert að mæta í blóðprufu á tilteknum tíma vegna barnsfaðernismáls. Ef erindinu væri ekki sinnt yrði hann færður með lögregluvaldi í blóðprufu.
Honum var brugðið. Hann ætlaði ekki að láta kostnað vegna barnsins tefja fyrir náminu. Ráðið sem hann greip til var að senda skólabróðir sinn í blóðprufuna. Það gekk eftir. Sá mætti með bréfið og var ekki beðinn um skilríki.
Niðurstaða blóðprufunnar var eðlilega sú að viðkomandi kæmi ekki til greina sem faðir barnsins. Já, ég veit að þetta var ljótt. Þetta voru erfið ár fyrir barnsmóðurina. Einstæða móðir sem gat ekki feðrað barnið sitt. Á þessum árum voru miklir fordómar gagnvart konum í þeirri stöðu.
![]() |
Sendi tvífara í faðernisprófið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.5.2015 | 18:43
Jón Þorleifs í einkennilegum mótmælagöngum
Ég hef áður sagt frá því hvers vegna Jón Þorleifsson, verkamaður og rithöfundur, var reglulega fjarlægður af lögreglunni 1. maí. Um það má lesa með því að smella á hlekk hér neðst. Jón tók aftur á móti virkan þátt í mörgum öðrum mótmælagöngum. En gekk ekki í takt við aðra göngumenn. Þvert á móti. Hann gekk í öfuga átt; á móti göngumönnum. Hann þandi út olnbogana til að gera sig sem breiðastan. Göngumenn urðu að taka stóran sveig til að komast framhjá honum. Stundum til vandræða, til að mynda þegar tveir eða fleiri héldu á lofti breiðum borða. Eða hópur foreldra í einni kös ýtti á undan sér barnavögnum. Eða þegar nokkrir fatlaðir voru hlið við hlið í hjólastólum. Aldrei vék Jón fyrir neinum. Hann stoppaði við svona aðstæður og beið eftir því að hinir sveigðu til hliðar.
Jón þurfti ekki að vera ósammála baráttumálum göngunnar til að bregðast svona við. Þó var það í sumum tilfellum. Oftar var þetta þó vegna þess að Jón var ósáttur við einhverja þá sem stóðu að göngunni eða auglýsta ræðumenn. Það þurfti ekki mikið til.
Síðustu áratugi ævi sinnar sinnaðist Jóni við ættingja sína. Mér skilst að upphaf þess megi rekja til andúðar hans á verkalýðsforingjunum Gvendi Jaka og Eðvarði Sigurðssyni. Bróðir Jóns hafi reynt að leiðrétta einhverjar ranghugmyndir hans varðandi þessa menn eða eitthvað í gjörðum þeirra. Jón tók því illa.
Tekið skal fram að ættingjar Jóns voru og eru afskaplega gott og vandað fólk. Suma þeirra þekki ég. Samhljóða vitnisburð hef ég frá öðrum um þá sem ég þekki ekki.
Í fyrsta skipti sem ég heyrði Jón nefna bróðir sinn var í sambandi við verkalýðsforingjana. Jón úthúðaði þeim og sagði síðan óvænt: "Ég skil ekki hvað ég þoldi helvítið hann Kristján bróðir lengi."
Ég hissa: "Ha? Af hverju segir þú þetta?"
Jón: "Þetta fífl trúir öllu sem Gvendur Jaki og Eðvarð ljúga að honum."
Ég: "Hvernig þá?"
Jón: "Hann er trúgjarnasti maður sem ég þekki. Hann er svo trúgjarn að þegar hann lýgur einhverju sjálfur þá trúir hann því samstundis."
----------------
Fleiri sögur af Jóni hér
Vinir og fjölskylda | Breytt 3.5.2015 kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.4.2015 | 21:57
Fegursta kona heims er á sextugsaldri
Útlent tímarit, People, hefur lagst í mikla rannsóknarvinnu til að finna út hver sé fegursta kona heims. Niðurstaðan er afhjúpuð í tölublaði sem kom á markað í fyrradag, miðvikudaginn 22. apríl. Svo ótrúlegt sem það hljómar þá fann tímaritið fegurstu konu heims í Bandaríkjunum. Ólíklegt er að það tengist því að tímaritið sé bandarískt. Það er óháð og frjálst. En þetta er þeim mun merkilegra að bandarískar konur eru aðeins rúmlega 2% af jarðarbúum.
Samkvæmt vísindalegri könnun og rannsókn People er fegursta kona heims kvikmyndaleikkonan Sandra Bullock. Hún er á sextugsaldri. Niðurstaðan verður ekki vefengd. Sandra er hugguleg. Hún ber þess sterk merki að vera hálf þýsk.
Svo skemmtilega vill til að bróðurdóttir mín, tæplega tvítug Fjóla Ísfeld, hefur löngum verið talin ótrúlega lík Söndru Bullock. Það bendir til þess að hún muni líta svona út á sextugsaldri:
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.4.2015 | 23:19
Jón Þorleifs og uppreisn á elliheimili
Jón Þorleifsson, rithöfundur og verkamaður, mætti mótlæti í lífinu alla sína löngu ævi. Hann þótti sérlundaður unglingur og varð fyrir aðkasti. Ég veit ekki hvort að um einelti var að ræða eða saklausa stríðni. Það var skopast að gormælgi hans. Það varð til þess að hann ákvað ungur að tala aldrei í útvarp, sjónvarp né á fundum. Hann sagðist ekki vilja gera andstæðingunum til geðs að snúa út úr málflutningi hans með háðsglósum um gormælgina.
Jafnaldrar Jóns lögðu hart að honum að drekka áfengi og reykja á unglingsárum. Jón harðneitaði að verða við því. Það kostaði glens á kostnað hans. Á gamals aldri þótti honum notalegt að þiggja stórt Irish Coffee glas eða tvö. Hann gerði ekki athugasemd við að whisky-slurkurinn væri plássfrekari í drykknum í seinna glasinu. Þá varð hann rjóður í vanga og hláturmildur.
Ég hef heimildir frá öðrum en Jóni um að hann hafi verið samviskusamur og röskur til vinnu.
Eitt sinn klæddi ég með furu stofu í íbúð sem ég keypti. Fyrir voru veggir með betrekki sem lá upp í fallega gifsskreytingu í lofti. Ég tók einn og einn vegg fyrir í einu. Fjarlægði betrekkið og grunnmálaði vegginn áður en furunni var neglt á þá.
Jón kom í heimsókn Hann var snöggur að hlaupa undir bagga. Hann tætti betrekkið svo kröftuglega af veggnum að stór hluti af gifsskreytingunni fylgdi með. Til að bjarga afganginum af gifsskreytingunni fékk ég ann til að byrja að negla upp furuborðin. Hann tók þau engum vettlingatökum. Hann lúbarði þau svo að þau mörðust við hvert hamarshögg og naglar beygluðust. Það kom ekki að sök. Flestir marblettir hurfu undir fals á næsta furuborði.
Á meðan á framkvæmdum stóð mætti Jón á hverju kvöldi. "Það munar um að vera með mann vanan byggingavinnu til aðstoðar," sagði hann drjúgur á svip.
Á miðjum aldri slasaðist Jón á baki. Það var vinnuslys. Eftir það gat hann ekki unnið neina vinnu sem reyndi á líkamann. Hann var settur á örorkubætur. Hann hafnaði þeim og vildi létta vinnu. Það gekk ekki upp. Jón kenndi verkalýðsforingjunum Gvendi Jaka og Eðvarði Sigurðssyni um að leggja stein í götu sína. Jón var atvinnulaus án allra bóta til margra ára. Honum til bjargar varð að hann átti dýrmætt bókasafn. Úr því seldi hann perlur eftir því sem hungrið svarf að.
Sumir halda því fram að Jón hafi sjálfur málað sig út í horn. Hann hafi ekki viljað þiggja aðstoð frá réttum aðilum. Hann hafi túlkað allt á versta veg og farið í stríð við þá. Hann hafi nærst á því að vera píslavottur. Ég ætla að það sé sannleikskorn í því. Hinsvegar þykir mér líklegast að Jón hafi einfaldlega ekki kunnað á rangala kerfisins. Ekkert vitað hvert hann gat snúið sér. Né heldur hver hans réttur til aðstoðar og bóta var.
Seint og síðar meir varð Jón þeirrar gæfu aðnjótandi að ramba inn á skrifstofu til Helga Seljan, fyrrverandi alþingismanns en þá ritstjóra tímarits Öryrkjabandalagsins.
Í tímariti Öryrkjabandalagsins var vísnaþáttur. Erindi Jóns til Helga var að lauma að honum vísu til birtingar í blaðinu. Áður en Jón náði að snúa sér við var Helgi búinn að koma öllum hans hlutum í lag. Þar á meðal að ganga frá langvarandi rugli og hnúti með skattamál Jóns. Helgi kom Jóni á eðlileg ellilaun. Nokkru síðar var hann jafnframt kominn með rúmgott húsnæði á öldrunarheimili í Hlíðunum. Þar fékk hann mat og drykk á öllum matmálstímum.
Eftir kynni Jóns af Helga blómstraði hann. Helgi er einn örfárra embættismanna sem kunni lag á Jóni. Þar að auki birti hann vísur eftir Jón í Öryrkjablaðinu. Það þótti Jóni mikil upphefð.
Á öldrunarheimilinu átti Jón að borga 25 þúsund krónur á mánuði (fyrir veitingar, þvotta, herbergi o.s.frv.). Gíróseðlunum safnaði Jón samviskusamlega saman en borgaði aldrei neitt. Í hvert sinn sem ég heimsótti Jón dró hann fram bunkann og sagði: "Sjáðu hvað þessi er orðinn stór!"
Á nokkurra vikna fresti kallaði stjórn elliheimilisins Jón á sinn fund. Þar var af nærfærni óskað eftir því að skuldamálið yrði leyst með góðri lendingu fyrir alla. Stofnunin safnaði ekki peningum heldur þyrftu herbergin að standa undir útlögðum kostnaði. Jón sagðist hafa fullan skilning á því. Tveir kostir væru í stöðunni. Annar - og sá sem Jón mælti eindregið með - væri sá að rukka menn sem skulduðu Jóni milljónir króna. Þar færi fremstur í flokki Gvendur Jaki. Næsti skuldunautur væri Eðvarð Sigurðsson.
"Rukkið þessa glæpamenn af fullum þunga," ráðlagði Jón og bætti við: "Ég skal kvitta undir hvaða pappír sem er að ykkur sé heimilt að ganga að þeim í mínu nafni."
Hinn kosturinn sem Jón benti á - en mælti ekki sérlega með - var sá að honum sjálfum yrði stungið inn í skuldafangelsi á Litla-Hrauni. "Á tíræðisaldri skiptir mig ekki svo miklu máli hvar ég hef húsaskjól og fæði. Ég held að ég eignist ekki fleiri vini þar en hér. Sem er enginn!"
-----------------------------
Fleiri sögur af Jóni: Hér
-----------------------------
Ef smellt er á þennan hlekk -hér - og skrollað niður síðu Vísis þá neðst til vinstri má sjá frétt af eftirmála þess er Jón reif hátíðarræðu af Eðvarði Sigurðssyni á 1. maí hátíðarhöldunum 1975.
Vinir og fjölskylda | Breytt 3.5.2015 kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.4.2015 | 22:16
Jón Þorleifs slátraði stjórnmálaflokki
Jóni Þorleifssyni, rithöfundi og verkamanni, var lítt um Gvend Jaka gefið. Ég hef þegar sagt sögur af því - og hægt er að fletta þeim upp hér fyrir neðan. Jón hafði sínar ástæður fyrir andúð á Gvendi Jaka. Andúðin jókst með árunum fremur en hitt.
Einn góðan veðurdag fékk Jón sér hádegisverð á veitingastað. Það var ekkert óvenjulegt. Það var venjulegt. Þar komst hann yfir glóðvolgt eintak af DV þess dags. Á baksíðu var lítil frétt um lítinn fund á Akureyri. Fundarefnið var það að þrjú lítil stjórnmálasamtök (utan fjórflokksins) hugðust kanna möguleika á sameiningu.
Þetta var sennilega um eða eftir 1990. Mig minnir að Borgaraflokkurinn hafi verið þarna um borð. Ég man ekki hver hin samtökin voru. Ég þigg með þökkum ef einhver man eftir því hver þau voru. Í fréttinni kom fram að Gvendur Jaki yrði fundarstjóri.
Jón óttaðist að Gvendur ætlaði sér hlutverk í nýju sameinuðu stjórnmálaafli. Hann brá við skjótt. Vélritaði upp með hraði greinargerð um meintan glæpaferil Jakans. Hann kunni ekki fingrasetningu lyklaborðs og sóttist verkið hægt. En fór á flug vegna tímapressunnar. Ákafinn bar hann hálfa leið. Svo var rokið á næstu ljósritunarstofu og greinargerðin fjölfölduð. Þessu næst var splæst í leigubíl niður á Reykjavíkurflugvöll. Þaðan flogið með næstu vél til Akureyrar.
Þangað kominn tók Jón leigubíl heim til foreldra minna. Hann vissi ekkert hvar fundurinn var á Akureyri né klukkan hvað. Hann bað pabba um að finna út með það. Erindi Jóns var að slátra þessu framboði í fæðingu.
Pabbi var innvígður og innmúraður sjálfstæðisflokksmaður. Honum þótti ekki nema gaman að leggja Jóni lið. Hann hefði svo sem liðsinnt Jóni með flest.
Pabbi fann strax út hvar og hvenær fundurinn var. Hann skutlaði Jóni á staðinn. Það mátti ekki tæpara standa. Fundurinn var að hefjast. Jón hóf þegar í stað að dreifa meðal fundarmanna greinargerðinni um Gvend Jaka. Við það kom kurr á fundarmenn. Einhverjir gerðu hróp að Jóni. Kraftakallar gerðu sér lítið fyrir og vörpuðu Jóni á dyr. Hann streittist á móti. Nokkrar konur mótmæltu hástöfum viðtökunum sem Jón fékk. Þær fylgdu honum út á stétt og báðu hann afsökunar á framferði fundarins í hans garð. Aðrir þarna fyrir utan blönduðust í umræðuna. Allt fór í havarí. Jón taldi sig merkja að sami æsingur ætti sér stað innan dyra. Fundurinn leystist upp í hrópum og köllum.
Ég hef aðeins frásögn Jóns af þessu. Engar fréttir bárust af fundinum í neinum fjölmiðlum. Jón taldi fullvíst að Gvendur Jaki og aðrir sem að fundinum stóðu hafi bundist fastmælum um að tjá sig hvergi um skipbrotið.
Jón var hinn ánægðasti með daginn. Hann lifði á því mánuðum saman að hafa slátrað "bófaflokki" í fæðingu. Hann sagði sem rétt var að hann hefði ekkert haft efni á að fara í þessa Akureyrareisu. En þarna var um bráðatilfelli að ræða. Akureyrarreisan var - að hans mati - hverrar krónu virði.
Er Jón flaug til baka frá Akureyri vildi svo til að Gvendur Jaki var í sömu flugvél. Jón sagðist hafa horft stíft á hann með svipbrigðum sigurvegarans. Gvendur hafi hinsvegar verið niðurlútur og lúpulegur. Það hafi verið eins og honum hafi verið gefið á kjaftinn.
-------------------------------------
Fleiri sögur af Jóni Þorleifs: hér
Vinir og fjölskylda | Breytt 10.4.2015 kl. 19:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.2.2015 | 19:19
Eivör breytir mannanafnalögum
Í huga Íslendinga er færeyska álfadísin Eivör eiginlega íslensk. Það er staðfest með því að hinar ýmsu akademíur hafa ítrekað verðlaunað og eða nefnt Eivöru og tónlist hennar til íslenskra verðlauna af margvíslegu tagi; allt frá "Besta íslenska söngkonan" til "Besta íslenska leikverkstónlistin" Jafnframt hefur Eivör verið hluti af Íslensku dívunum.
Í huga Íslendinga er Eivör líka færeyska drottningin. Eða færeyska álfadrottningin.
Vinsældir Eivarar eru það miklar og langvarandi að nafn hennar er orðið íslenskt. Mannanafnanefnd hefur nú formlega kveðið upp úrskurð þar um. Ekki seinna vænna. Íslenskir foreldrar vilja gefa dætrum sínum nafnið Eivör.
Í aldir hefur einstaka íslensk kona borið nafnið Eyvör. Það þýðir heill Vör! Vör er vitur og spurul gyðja í ásatrú.
Nafnið Eivör hefur aðra merkingu. Það þýðir ávallt verndandi. Í Færeyjum er nafnið borið fram sem Ævör. Þannig höfum við einnig vanist því á Íslandi.
Vinir og fjölskylda | Breytt 1.3.2015 kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.2.2015 | 22:01
Spaugilegar fjölskyldumyndir
Fyrir daga farsíma með innbyggðri myndavél og snjallsíma var ekki kastað til höndum er kom að ljósmyndatöku. Við hátíðleg tækifæri mættu fjölskyldur spariklæddar á ljósmyndastofur. Þar var eftir kúnstarinnar reglum stillt upp ljósalömpum og öll lýsing mæld út með ljósmæli. Ekki var smellt af fyrr en allir voru með sitt hlutverk á hreinu. Hver ljósmynd kostaði drjúgan skilding.
Eins og gerist og gengur hafði fólk ólíkan skilning og smekk fyrir því hvernig rándýra ljósmyndin átti að vera. Einnig slæddust með mistök. Einkum þegar ung börn föttuðu ekki út á hvað dæmið gekk.
Hér eru nokkur skondin dæmi (ungt fólk fattar ekki hvað þetta er broslegt)
Hér náði allt barnastóðið að setja upp sparisvip. En á sama tíma og sprenglærður ljósmyndarinn smellti af brast flótti á ungan gutta sem er skelfingu lostinn yfir uppstillingunni.
Fyrir vestan haf eru strandmyndir vinsælar. Það er í fínu lagi og gaman að sveifla börnum til á ströndinni. Spurning um að draga línuna réttu megin við strikið.
Vinaleg og snyrtileg fjölskylda. Karlarnir í eins skyrtu. Af hverju heldur sonurinn um mömmuna eins og hann sé í þann mund að kyrkja hana?
Ótrúlegt en satt: Allir í fjölskyldunni eru skjólstæðingar sömu hárgreiðsludömunnar.
Þessi mynd var jólakort. Klæðnaður - eða ðllu heldur klæðaleysi - húsbóndans er spurningarmerki.
Trúlofunarmynd feimna fólksins. Að giftingu afstaðinni ætla þau að taka stóra skrefið og prófa að haldast í hendur.
Heppnasta fjölskylda í heimi. Hún datt inn á útsölu og fann svartar peysur með bleikum skrautborðum og herðakústum. Þær voru til í öllum stærðum sem pössuðu fjölskyldunni.
Gárungarnir kalla fjölskylduna "Græna gengið". Það er út af því að fjölskyldubíllinn er grænn. Líka íbúðarhúsið að utan. Já, og að innan.
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.2.2015 kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.2.2015 | 20:46
Jón Þorleifs og símahleranir
Einn góðan veðurdag fékk Jón Þorleifsson, verkamaður og rithöfundur, þá flugu í höfuðið að bandaríska leyniþjónustan, CIA, fylgdist með sér. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvenær honum datt þetta í hug. Mig grunar að það hafi verið í kjölfar þess að systir mín og hennar fjölskylda flutti til útlanda fyrir aldarfjórðungi eða svo. Fyrstu símtölin að utan voru úr lélegum símasjálfsölum. Á sama tíma varð Jón þess var að pakkar að utan voru greinilega opnaðir á Tollpóststofunni.
Grunur og vissa Jóns um þessar njósnir urðu þráhyggja. Hann velti sér upp úr þessu. Það var í aðra röndina eins og honum þætti upphefð af því að vera undir eftirliti CIA.
Sumir urðu til að fullyrða við Jón að þetta væri hugarburður hjá honum. "Hvers vegna ætti leyniþjónusta vestur í Ameríku svo mikið sem vita af íslenskum eftirlaunþega þó að hann gefi út fjölritaðar bækur í örfáum eintökum?" var spurt.
Jón svaraði: "Það er merkilegt að leyniþjónustan hafi svona miklar áhyggjur af bókunum mínum. Orð geta verið beittari en sverð."
Jón gerði sér nokkrar ferðir til Símans í Ármúla. Þar krafðist hann þess að Síminn hætti umsvifalaust að leyfa CIA að hlera síma sinn. Kunningi minn sem vann hjá Símanum sagði að heimsóknir Jóns vektu kátínu þar á bæ.
Jón taldi sig merkja af viðbrögðum starfsmanna Símans að þeir vissu upp á sig skömmina. Þeir urðu lúpulegir og missaga.
Svo fór að starfsmaður Símans heimsótti Jón. Sagðist vera að rannsaka þessar hleranir. Jón sagðist hafa verið fljótur að sjá í gegnum það leikrit. "Maðurinn var ósköp vinalegur. Hann ræddi við mig um flest annað en símhleranirnar. Vildi vita hvernig heilsa mín væri og hvaðan ég væri af landinu. Hann tók aðeins upp símtólið til að heyra sóninn. Hann hafði ekki einu sinni rænu á að þykjast leita að hlerunarbúnaði. Enda vissi hann jafn vel og ég að hlerunarbúnaðurinn er staðsettur í húsakynnum Símans eða Sendiráði Bandaríkjanna."
Fleiri sögur af Jóni: hér
Vinir og fjölskylda | Breytt 22.2.2015 kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2015 | 22:57
Mannanafnalöggan
Eitt fáránlegasta fyrirbæri forræðishyggju er mannanafnalöggan. Foreldrum er treyst til að velja fatnað á börn sín. Þeim er treyst til að ráða hárgreiðslu og klippingu barna sinna. Þeim er treyst til að velja morgunmat og annað fæði barna sinna. En þegar kemur að nafni barnsins þá kemur "stóri bróðir" og grípur í taumana. Hann fer yfir málið og hafnar eða samþykkir nafngiftina.
Þetta er kolgeggjað.
Víðast um heim eru foreldrar blessunarlega lausir við þessa forræðishyggju. Án vandræða. Mannanafnalög í Bretlandi eru frjálsleg. Þar bættust við 2013 drengjanöfnin Tiger, Luck, Lohan, Geordie, Victory, Dior og Dallas. Einnig stúlkunöfnin Rosielee, Tea, Nirvana, Olympia, Phoenix, Reem, Paradise, Vogue, Pinky, Peppa og Puppy. Bara flott nöfn.
Tiger var nefndur í höfuðið á bandarískum golf-meistara. Rosielee er gælunafn yfir tebolla. Nirvana var nefnd í höfuðið á uppáhaldshljómsveit foreldranna. Olympia var getin á Olympíuleikunum í London 2012.
Vinsælustu nöfnin eru drengjanafnið Jack og stelpunafnið Amella.
Vinir og fjölskylda | Breytt 10.2.2015 kl. 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)