Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Jón Þorleifsson og bandaríska leyniþjónustan

  Jón Þorleifsson,  rithöfundur og verkamaður,  beit í sig sannfæringu um að vera undir smásjá bandarísku leyniþjónusturinnar CIA.  Það var ekki ótrúlegra en margt annað sem tekið hefur verið upp á af embættismönnum CIA.  Nema að fátt benti til að Jón væri þar undir eftirliti.  Tekið skal fram að Jón var enginn bjáni.  Þvert á móti.  Hann var klár náungi.  En eitthvað skransaði til hjá honum á gamals aldri varðandi þetta.

  Þegar Júlía systir mín og hennar fjölskylda flutti til útlanda fyrir hátt í þremur áratugum sendu þau Jóni pakka fyrir jól og afmælisdag hans.  Pakkarnir lentu iðulega í tollskoðun.  Jón kom með pakkana í heimsókn til mín.  Sýndi mér að bandaríska leyniþjónustan uppi á Höfða hafi hnusað í pakkana.  "Þetta lið er svo heimskt að það kann ekki einu sinni að fela verksummerkin,"  sagði Jón og vísaði til þess að pakkarnir voru límdir aftur með límbandi merktu Tollinum á Íslandi.

  Þegar stafrænum símanúmerum var fjölgað í 7 stafi fór Jón á flug.  Hann var til að byrja með fastur í sex stafa símanúmerunum.  Þá greip sjálfvirkur símsvari inn í og minnti á 7 stafa númer.  "Vinsamlegast munið eftir 7 stafa símanúmerum".

  Jón sagði:  "CIA njósnararnir eru svo spenntir að vita hvert ég er að hringja að þeir geta ekki á sér setið þegar ég gleymi breytingunni yfir í 7 stafa númer.  Þá gjamma þeir um 7 stafa númer."

  Ég:  "Hvað segir þú?  Kalla þeir á þig og benda á að búið sé að breyta númerakerfinu?"

  Jón:  "Já,  þeir geta ekki á sér setið fyrir forvitni.  Það er allt í lagi.  Ég les þeim pistilinn.  Læt þá heyra það á ómengaðri íslensku."

  Ég:  "Hverju svara þeir?"

  Jón:  "Þetta er svo heimskt að það getur engu svarað.  Þeir halda bara áfram að tönglast á því að ég eigi að muna eftir 7 stafa símanúmerum."  

jón þorleifs 2

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fleiri sögur af Jóni Þorleifs:  Hér

   


Jón Þorleifs og símhleranir

jon_orleifs

 

  Jón Þorleifsson,  verkamaður og rithöfundur,  var góðum gáfum gæddur.  Hann var fjölfróður.  Ótrúlega fjölfróður miðað við stutta skólagöngu og kunni ekkert erlent tungumál,  sér til lestrar og fróleiks.  Honum dugði að fylgjast vel með íslenskum dagblöðum og tímaritum.  

  Á gamals aldri gerðist Jón rithöfundur.  Sendi frá sér tugi bóka af ýmsu tagi.  Þetta voru ljóðabækur,  sjálfsævisaga og hugleiðingar um heimsmál.  

  Jón var gagnrýninn á menn og málefni í þessum bókum.  Bækurnar seldust ótrúlega vel miðað við að Jón seldi þær "maður á mann".  Hann seldi 400 - 600 eintök af hverri bók. 

  Á þessum tíma,  áttunda og níunda áratugnum,  voru heimilissímar allsráðandi.  Þar heyrðust stundum smellir og skruðningar.  Einkum í eldri símtækjum.  Jón brást ókvæða við slíkum óhljóðum.  Hann hætti þegar í stað að beina orðum að viðmælanda.  Þess í stað hellti hann sér yfir meinta njósnara og símhleranadólga bandarísku leyniþjónustunnar CIA. Las þeim pistilinn tæpitungulaust.  

 Örfáum vikum eftir að Jón féll frá voru stórfelldar símhleranir á Íslandi afhjúpaðar  Fátt bendir til þess að Jón hafi verið hleraður.  Ekkert bendir heldur til þess að hann hafi ekki verið hleraður.  Næsta víst er að Jón hefði fagnað fréttunum af símhlerunum.  Sigri hrósandi hefði hann sagt eitthvað á þessa leið:  "Hvað sagði ég ekki?  Svo var því haldið fram að ég væri ímyndunarveikur og geggjaður."  

 

 

Fleiri sögur af Jóni: Hér  


Skaut besta vin sinn

 Philip

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

   Byssur drepa engan,  að sögn margra.  Ekki fremur en hnífar,  sprengjur eða sinnepsgas.  Engu að síður geta byssur verið varasöm leikföng.  Það fengu tveir nánir vinir,  Philip og Ian, að sannreyna á dögunum.  Báðir höfðu þeir dálæti á byssum,  hermennsku,  stríði og þess háttar.  

  Philip kíkti inn í verslun í London sem höndlar með allskonar stríðsdót.  Þar keypti hann meðal annars skothelt vesti.  Hann varð þegar í stað gríðarlega montinn yfir vestinu.  Hann státaði sig af því við hverja einustu manneskju sem hann hitti.  Líka fólk sem hann þekkti ekkert en varð á vegi hans.

  Suma bað hann um að skjóta sig.  Enginn vildi það þann daginn.  Samt fullyrti Philip að það yrði ekkert nema gaman.  Algjörlega skaðlaus skemmtun.  Vestið væri, jú, skothelt.

  Dagur kom að kveldi.  Philip gat varla beðið eftir því að fara á hverfispöbbinn til að flagga vestinu.  Philip til mikilla vonbrigða uppveðraðist enginn á barnum yfir vestinu.  Og enginn fékkst til að skjóta hann.  Fyrr en besti og nánasti vinur hans,  Ian,  mætti.  Sá var dolfallinn af hrifningu yfir vestinu.  Það þurfti ekki að mana hann til að skjóta vin sinn.  Hann henti hugmyndina umsvifalaust á lofti.  Hann dró upp byssuna sína,  þeir fóru út á tún og Ian skaut Philip.  Hann lést úr innvortis meiðslum.

  Ian hefur nú fengið sjö ára dóm fyrir sína þátttöku í leiknum.  Þar af er helmingurinn óskilorðsbundinn.  Dómarinn hafði samúð með Ian.  Trúði því að hann væri niðurbrotinn eftir leikinn.  Gráti stöðugt og fái hryllilegar martraðir á nóttunni.  Hann hefði jafnframt þegar í stað ekið með Philip á Slysó.  Hinsvegar hafi hann viljugur tekið þátt í heimskulegum og lífshættulegum glannaskap:  Að skjóta vin sinn úr nokkurra feta fjarlægð.  Menn eiga að skjóta óvini,  samkvæmt skilgreiningu ríkisins,  en ekki vini sína.  

  Dómarinn fyrirskipaði að byssa Ians verði gerð upptæk og eyðilögð.  Hún sé greinilega hættulegt leikfang.  

   Við rannsókn málsins kom í ljós að skothelda vestið var ekki vandað alvöru skothelt vesti heldur eftirlíking.

  Myndin að ofan er af Philip heitnum.  Myndin hér er af banamanni hans og besta vini.

Ian       


Sjónvarpið og Jón Þorleifs

jon_orleifshannibal_bok 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Jón Þorleifsson,  verkamaður og rithöfundur,  hafði margt gott til brunns að bera.  Hann var góðum gáfum gæddur;  hagyrtur,  skrifaði góða íslensku (þrátt fyrir stutta skólagöngu),  glöggur og fjölfróður.  Oft sat hann heima hjá mér þegar spurningaþættir voru í sjónvarpinu,  svo sem Útsvar og Gettu betur.  Mig grunar að hann hafi í og með stílað upp á að sjá þessa þætti;  vitandi að ég fylgdist með þeim.

 Það var gaman að fylgjast með spurningaþáttunum með Jón sér við hlið.  Hann gaf keppendum ekkert eftir við að svara spurningum rétt. Meira að segja spurningum um djass (sem Jón hafði óbeit á) og spurningum um rokkmúsík (sem Jón hlustaði ekki á).  Hann kom mér ítrekað á óvart með þekkingu sinni.  

  Sjálfur var hann lengst af sjónvarpslaus.  Meira en það.  Hann marglýsti yfir andúð sinni á sjónvarpi.  Það væri heimskandi,  höfðaði til lægstu hvata mannsins,  uppfullt af ofbeldi og ósiðum af ýmsu tagi.  Dagskráin væri að mestu bandarískur áróður með það eina hlutverk að sljóvga og heimska almenning.

  Líkast til hafði Jón lítil kynni af sjónvarpi áður en hann fór að venja komur inn á mitt heimili á seinni hluta áttunda áratugarins.  Hann tók kvikmyndum að einhverju leyti sem raunveruleika.  Einhverskonar heimildarþáttum fremur en leiknu efni.

  Eitt sinn horfði ég á kvikmynd í sjónvarpinu er Jón bar að garði.  Hann horfði á myndina með mér.  Áður en á löngu leið hófst slagsmálasena í myndinni á milli tveggja manna.  Annar fór halloka fyrir miklum hrotta.  Jóni varð svo um að hann spratt á fætur. Hann titraði og skalf af geðshræringu og hrópaði:  "Viðbjóðslegur fantur.  Tökumaðurinn er samsekur að hjálpa ekki vesalings drengnum!  Hann heldur bara áfram að mynda og gerir ekki neitt!"

  Ég tók undir gagnrýni Jóns og hann var lengi að róast.  Svo skrökvaði ég því að honum að eftir að myndin var tekin til sýningar í kvikmyndahúsum þá hafi bæði ofbeldismaðurinn og tökumaðurinn verið dæmdir í fangelsi.  "Að sjálfsögðu," svaraði Jón og var létt.    

  Í annað skipti gerðist það að Jón var rétt nýkominn í hús þegar kynlífssenu brá fyrir í sjónvarpinu.  Jón hrökk við og eins og snöggreiddist.  "Hvur djöfullinn.  Eru þeir að sýna klám í sjónvarpinu?" spurði hann hneykslaður.

  Í stríðni skrökvaði ég:  "Ég veit ekki hvaða rugl þetta er.  Þetta er barnatíminn hjá henni Bryndísi Schram."

  Við þessi tíðindi gat Jón ekki setið kyrr. Hann óð um stofuna og fordæmdi hörðum orðum Bryndísi og allt hennar fólk.  Ekki síst tengdaföður hennar,  Hannibal Valdemarsson.  Sagðist alltaf hafa haft óbeit á honum.  Í kjölfar fór hann á flug við að segja sögur af kauða.  Þar á meðal sagði hann að sér væri nuddað um nasir að deilu sína á Hannibal mætti rekja til þess að Hannibal hafi sængað hjá stúlku sem Jón hafði augastað á.  Jón sagðist ekki hafa neinar sannanir fyrir því að Hannibal hafi sængað hjá þessari dömu. En hafi hún sloppið við ágengni Hannibals þá væri hún undantekning á öllum Vestfjörðum.          

  Þess á milli hótaði hann því að kæra Bryndísi fyrir klám.  Jafnframt taldi hann brýnt að koma henni út úr sjónvarpinu.  

  Án þess að ég viti það þá tel ég líklegt að Jón hafi hringt í yfirmenn sjónvarpsins og kvartað undan kláminu.

  Fleiri sögur af Jóni Þorleifs:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1529603/  

----------------------------------

  Ein mest lesna fréttin í Færeyjum í gær og dag:  http://www.in.fo/news-detail/news/foeroysk-aettarbond-ovast-a-islendska-tonatindinum/?sword_list[]=Bjartmar&no_cache=1    

  


Jón Þorleifsson og slagsmál

jon_orleifs

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

   Jón Þorleifsson,  verkamaður og rithöfundur,  var mikil barnagæla.  Sjálfur eignaðist hann engin börn.  Hann var einhleypur alla ævi.  Börn löðuðust að Jóni.  Hann kom fram við þau eins og jafningja og gat endalaust leikið við þau.  Þó að hann væri orðinn háaldraður þá lét hann sig ekki muna um að velta sér um gólf eða skríða á fjórum fótum þegar það hentaði leiknum.  Synir mínir og systkinabörn mín elskuðu Jón.  Það var ætíð fagnaðarfundur þegar Jón kíkti í heimsókn.  Skipti þá engu máli þó að hann kæmi stundum dag eftir dag. 

  Einhverju sinni var leikurinn þannig að litlir plastkallar voru látnir slást.  Hvort að þeir hétu Action Man,  He-Man,  Hulk eða eitthvað annað.  Synir mínir stýrðu sitthvorum plastkallinum.  Jón þeim þriðja.  Hans kall var fyrst og fremst í því hlutverki að verja sig í stað þess að sækja fram.  Sennilega var það þess vegna sem sonur minn spurði Jón:  "Hefur þú aldrei verið í slagsmálum?"

  Jón svaraði strangur á svip:  "Nei,  aldrei.  Ég hef óbeit á öllu ofbeldi.  Slagsmál eru andstyggð!"

  Ég blandaði mér í umræðuna.  Sagðist hafa heyrt af slagsmálum Jóns við nasista á Eyrarbakka eða þar um slóðir.

  Jón spratt á fætur og andlitið ljómaði við upprifjunina.  Hann lagði handarbakið á barkann á sér og sagði hróðugur:  "Ég sló nasistann með spýtu af alefli á barkann.  Hann steinlá og var ekki til frekari stórræða þann daginn!"

__________________________________________

Fleiri sögur af Jóni:

http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1409699/


Jólasveinar

  Ég skrapp í Bykó í gær og smakkaði þar á glæsilegu jólahlaðborði.  Það er tvöfalt girnilegra en jólahlaðborð Húsasmiðjunnar.  Samt 190 kr. ódýrara.  Þar sem ég sat í rólegheitum - snæddi hangikjöt og maulaði laufabrauð með - gekk ungt par framhjá ásamt lítilli stelpu.  Sú var á að giska 2ja eða 3ja ára.  Hún snarstoppaði við hliðina á mér,  benti vísifingri á mig og kallaði hátt til mömmu sinnar:  "Sjáðu!"  Mamman fór að hlæja og dró stelpuna frá mér.  Ég heyrði þær nefna jólasveininn.  

  Fólkið settist við borð skammt frá.  Stelpan var sett í háan barnastól.  Hún tók varla augun af "jólasveininum".  Ég glotti til hennar.  En hún starði alvörugefin og undrandi á mig.  Eins og hún væri hissa á að sjá jólasveininn.

  Þetta er hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem börn taka mér sem jólasveini eftir að skeggið á mér hvítnaði.  Fyrir nokkrum árum gerði systir mín sér áramótaferð úr sveitinni til Reykjavíkur.  Með í förum var um það bil 4ra ára sonur hennar.  Sá hafði ekki áður séð mig.  Ég kíkti til þeirra.  Hafði ekki verið þar lengi þegar sími systur minnar hringdi.  Strákurinn svaraði.  Eldri bróðir hans var á línunni.  Sá yngri hóf samtalið með því að segja:  "Jólasveinninn þekkir mömmu.  Hann er í heimsókn hjá okkur!"  

 

----------------------------------------------------

Íslenska jólatréð tekur sig vel út í Þórshöfn í Færeyjum:

 

ísl jólatréð

 

     


mbl.is Föndurdagatal Hurðaskellis og Skjóðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sprenging í sölu á Föroya Bjór Gulli

föroya bjór gull dós

 

  Íslendingar kunna vel að meta hinn bragðgóða færeyska bjór Föroya Bjór Gull.   Í vörulista Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) er honum lýst þannig:  "Gullinn,  ósætur,  meðalfylling,  meðalbeiskja.  Korn,  baunir,  malt,  humar."  Ég lýsi bragðinu sem skörpu,  ósætu og að eftirbragð sé gott.  Hann kippir vel í,  um 6%.  

  Það er stutt síðan Íslendingar almennt vissu af tilvist Föroya Bjór Gulls.  Þó hefur hann verið framleiddur í hálfan fjórða áratug og verið seldur á Íslandi lengst af.  Lengst af þeim tíma hefur hann verið seldur á Íslandi.  Hinsvegar hefur aldrei verið gert neitt átak í kynningu á honum.  Það hafa helst verið Færeyingar á Íslandi sem sótt hafa í heilsudrykkinn,  svo og Íslendingar sem hafa heimsótt Færeyjar.

  Í síðustu viku brá svo við að Föreyja Bjór Gull barst í tal í íslenskum fjölmiðlum.  Ástæðan var afskaplega hrokafullt og ósvífið bréf sem forstjóri Ölgerðarinnar Agli Skallagrímssyni sendi forstjóra Föroya Bjór.  Við þau tíðindi rann á Íslendinga Gull-æði.  Sala á Föroya Bjór Gulli á Íslandi óx um 1200%.  Söluaukningin hefði orðið ennþá meiri ef hann hefði ekki selst upp í sumum vínbúðum.  Þar toguðustu menn á um síðustu dósirnar þannig að víða lá við stimpingum.  Mörg dæmi voru um að menn keyptu Föroya Bjór Gull tvo og upp í þrjá daga í röð.  Þá hafa margir lýst því yfir á Fésbók og á bloggsíðum að héðan í frá kaupi þeir engan bjór annan en Föroya Bjór Gull.  Þetta sé besti bjór í heimi.  

  Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu ÁTVR eru í dag til örfáar kippur í aðeins þessum þremur verslunum:  Heiðrúnu (20 kippur + 1 dós),  Akureyri (26 kippur) og Hafnarfirði (51 kippa + 5 dósir).    

   


Broslegar ljósmyndir teknar á hárréttu augnabliki

  Þegar ég var í Myndlista- og handíðaskóla Íslands á áttunda áratugnum var ein mánaðarönn lögð undir ljósmyndun.  Við nemendurnir þurftum staurblankir að kaupa rándýrar myndavélar.  Ekki var um annað að ræða.  Þetta var fyrir daga einnota myndavéla og farsíma með myndavél.  Það var allt dýrt í kringum þetta:  Filmur,  framköllunarvökvi,  ljósmyndapappír... 

  Eflaust gerði okkur myndlistanemendum gott að fá innsýn í heim ljósmyndarinnar.  Ein setning kennarans situr í mér.  Hún var á þá leið að besti ljósmyndarinn væri sá sem tæki margar myndir.  Fyrr eða síðar myndi hann fyrir tilviljun lenda á rétta augnablikinu.  Því náði sá sem tók mynd af þessum hestum.  Sá til hægri fer yfir og felur andlit manneskju.  Fyrir bragðið virðist hún vera með hestshaus.  Og kannski var hún það. 

rétt augnablik a 

rétt augnablik b 

  Páfagaukur gengur inn á myndina og auga hans hittir sem staðgengill auga mannsins. 

rétt augnablik c

  Neðri hluti barborðsins er spegill.  Viðskiptavinurinn,  kona í pilsi,  virðist vera neðri hluti barþjónsins. 

rétt augnablik d

  Skott kattanna mynda skemmtilegt hjartalaga mynstur. 

rétt augnablik e

  Manneskjan sem klifrar á hæðinni virðist prumpa stóru skýi.  Kannski gerði hún það eftir að hafa komist í bakaðar baunir frá Mexíkó?

rétt augnablik f

  Strákurinn virðist vera með tagl.  Þegar vel er að gáð má sjá í fótabúnað stelpu sem hleypur við hlið hans.  Hún er með taglið sem guttinn virðíst vera með. 


Spaugilega misheppnaðar myndir af börnum

  Í dag eiga flestir farsíma eða snjallsíma með myndavél.  Það auðveldar foreldrum að varðveita í myndaformi skemmtileg augnablik með börnum sínum.  Þetta var öðruvísi fyrir nokkrum áratugum.  Þá pöntuðu foreldrar með góðum fyrirvara tíma á ljósmyndastofu.  Þangað var síðan mætt með barnið. 

  Það var heilög stund þegar sprenglærður ljósmyndarinn smellti mynd af barninu - eftir að hafa raðað upp ljósaskermum,  mælt ljósmagn,  stillt fókus og það allt saman.  Það var ekkert verið að smella af að óþörfu.  Filmur voru rándýrar.  Ljósmyndapappír líka.  Allt  þessu tengt var rándýrt.

  Mörgum dögum síðar var hringt frá ljósmyndastofunni og tilkynnt að búið væri að framkalla myndina.  Það var hátíð í bæ þegar myndin var komin í hús og allir fengu að skoða hana.  Svo var hún römmuð inn og hengd upp á vegg á áberandi stað í stofunni.

  Eins og gengur var ljósmyndurum mislagðar hendur.  Það var ekki öllum gefið að laða fram fallegasta bros barnsins.

barnamynd a

  Einkum var það erfitt þegar börnin voru tvö.  Þá gat annað barnið sett upp sparisvip eitt augnablik.  Það augnablik var fangað.  En á kostnað hins barnsins.

barnamynd abbarnamynd aa   

  Vandinn tvöfaldast þegar börnin eru fjögur.

barnamynd aab 

  Svo ekki sé talað um vandann þegar hópurinn er miklu fjölmennari. 

barnamynd aaa 

  Munum að vandamálið er líka til staðar þó að barnið sé aðeins eitt. 

barnamynd cbarnamynd dbarnamynd ebarnamynd fbarnamynd b

 ---------------------------------------------

  Á upphafsárum rokksins á sjötta áratugnum voru margir hressir.  Þar á meðal Little Richard,  Elvis Presley,  Jerry Lee Lewis,  Chuck Berry,  Bunker Hill og Link Wray.  Link flutti síðar til Danmerkur og bjó þar fram á dauðadag (sem var fyrir nokkrum árum).  Hann starfaði m.a. með dönsku hljómsveitinni Sorte Sol.  En þarna á upphafsárum rokksins í Bandaríkjum Norður-Ameríku spilaði hann m.a. með Bunker Hill.  Textinn er snilld.  Bunker upplýsir að stelpan sem er umtöluð fyrir að kunna ekki að dansa sé kærastan sín.  

 


Hver er tvífari þinn?

  Ótrúlegt en satt.  Og hefur verið fært til bókar og staðfest:  Nánast allt fólk á tvífara,  sér alls óskylda.  Að minnsta kosti óskylda í tíu ættliði.  En einhver fjarskyldari gen hljóta að koma við sögu lengra aftur í ættir og afgreiða tvífara.  Því er jafnvel haldið fram að ekki þurfi fjölmennara úrtak óskyldra (hljóta samt að vera fjarskyldra) ættingja en 500 manns til að finna tvífara.

  Hér er dæmi þar sem ekki hefur samt tekist að rekja saman skyldleika:

tvífarar

  Þessir herramenn eru kannski fjarskyldir.  Hafa verið rangfeðraðir eða eitthvað svoleiðis.  Þegar þeir urðu á vegi ljósmyndara voru þeir með samskonar derhúfu.  En ekki í skyrtu í sama lit.  Samt eru skyrturnar í sömu stöðu hjá þeim. 

twins2 

  Vissulega er hárlitur þessara  "óskyldu" kvenna ekki sá sami.  En allt annað:  Augabrúnir,  augnsvipur, nef, kinnar,  tennur, haka...

twins-7

  Þessar dömur eru ekki aðeins með sama andlitsfall.  Þær eru með sömu hárgreiðslu.  Nákvæmlega.  Mesta undrun ljósmyndarans vakti að þær voru í alveg eins skyrtubol. 

tvífarar obama 

  Eins og annað fólk þá á fræga fólkið tvífara.  Margir tvífarar fræga fólksins hafa atvinnu af því að þykjast vera fræga manneskjan.

tvífarar - the-officetvífarar - Popetvífarar - Bush 

  Bandarískum kvikmyndaleikara,  Will Ferrell,  og trommuleikara rokkhljómsveitarinnar Red Hot Chili Peppers er oft ruglað saman.  Eins og með fleiri tvífara er fatasmekkur sá sami. Kvikmyndaleikarinn er liðtækur trommuleikari. 

dagur Bcarl-philip-of-sweden_we

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.