Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Jóla- og nýggjársheilsan

Eg ynskir tær og tinum eini gleðilig og hugnalig jól og eitt vælsignað og eydnuberandið nýggjár,  við tökk fyri tað brátt farna.


Níðst á frænku

  Í Bandaríkjum Norður-Ameríku er flóra dómsmála fjölbreytt og skemmtileg.  Hún kryddar tilveruna.  Sum dómsmál virðast vera sérkennileg.  En eru það ekki þegar betur er að gáð.

  Dómur var kveðinn upp í sakamáli drengs sem átta ára faðmaði frænku sína.  Hún mætti í afmæli hans.  Enda uppáhalds frænka.  Guttinn var að hjóla fyrir framan heimili sitt er frænkan birtist.  Ofsakæti greip hann.  Hann stökk af nýja afmælishjólinu með slíkum látum að það datt á hliðina.  Hann flaug í fang frænku gólandi:  Jen frænka!  Jen frænka!  Jen frænka!"  

  Í látunum nuddaðist frænkan á úlnlið.  Hún kippti sér ekki upp við það.  Gleymdi því.  Þangað til móðir drengsins lést.  Í ljós kom að hún var líftryggð upp á tugi milljóna (mig minnir um 60).  

  Við þau tíðindi tók fjögurra ára gamli úlnliðsnúningurinn sig upp að nýju.  Frænkan höfðaði þegar í stað mál á hendur frænda.  Hann - orðinn 12 ára - er hvort sem er vís til að eyða líftryggingunni í óþarfa.

  Frænkunni til undrunar og mikilla vonbrigða hafnaði kviðdómur sanngjarnri kröfu hennar.  Hún fór fram á að fá 15 milljónir af líftryggingu.  Meira var það nú ekki fyrir nudd á úlnlið.  

fégráðug frænka

 

  

   


mbl.is Vildi skaðabætur fyrir knúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Þorleifs fór í hundana

jon þorleifsson 1  Jón Þorleifsson,  verkamaður og rithöfundur,  var kappsamur um margt og þrár.  Hann gafst aldrei upp.  Þess í stað spýtti hann í lófana, bretti upp ermar og setti undir sig hausinn þegar hann ætlaði sér eitthvað.  Einu sinni sem oftar heimsótti hann systur mína og hennar fjölskyldu til Svíþjóðar.  Fjölskyldan var komin með hund.  Stóran og mikinn varðhund.

  Jón bauð sig fljótlega fram til að fara með hundinn í reglubundnar gönguferðir.  Því var hafnað.  Fjölskyldan hafði sótt ótal námskeið í öllu sem snýr að umgengni við hunda.  Jón var upplýstur um að hundurinn hlýði einungis fjölskyldunni. Hann virði ekki né taki mark á öðrum.

  Jón maldaði í móinn.  Sagðist vera fæddur og uppalinn í sveit og vanur að umgangast hunda.

  Smalahundur í sveit og risastór varðhundur í borg eru víst ekki alveg sama skepnan.

  Útúrdúr:  Systurdóttir mín gekk úr rúmi fyrir gestkomandi frænku sína.  Sú vaknaði snemma morguns við að hundurinn var að spyrna henni í rólegheitum út úr rúminu.  Hann hafði lagst fyrir innan.  Þar snéri hann baki í hana.  Svo spyrnti hann með fótum í vegginn.  Nautsterkur náði hann nánast að ýta konunni út á gólf er hún vaknaði.  Hún spratt á fætur í tæka tíð.  Í kjölfar ákvað hún að klæða sig.  En fann ekki fötin.  Við nánari athugun kom í ljós að hundurinn var búinn að bera fötin fram í stofu.  Sennilega ætlaði hann konunni að sofa þar fremur en í rúmi heimasætunnar.

  En aftur að Jóni:  Þegar styttist í að komið væri að kvöldgöngu hundsins hvarf Jón sjónum heimilisfólksins.  Varð þeim litið út um glugga.  Blasti þar við Jón með hundinn í bandi. 

  Í skelfingu hljóp fólkið út. Of seint.  Hundurinn tók á sprett niður götuna.  Hann var miklu sterkari en Jón.  Jón sleppti ekki taki á taumnum.  Hraðinn var svo mikill á hundinum að Jón hljóp hraðar en áður á sinni rösklega 90 ára löngu ævi. Hann var eins og spretthlaupari á Ólympíuleikum.  En bara í nokkrar sekúndur.  Fyrr en varði flaug hann láréttur í loftinu áður en hann skall á magann á götuna.  Hundurinn fann ekki fyrir þessu og sló hvergi af hlaupunum.  Heimilisfólkið hrópaði á hundinn.  Þrátt fyrir háværan umferðanið náðu hróp loks til hundsins.  Hann stoppaði og beið eftir því að vera sóttur og fylgt til baka heim á leið.  

  Jón blés eins og hvalur.  Bæði vegna óvæntrar áreynslu og eins því að honum var verulega brugðið.  Aðstæður voru vandræðalegar.  Umferð undrandi gangandi og akandi vegfarenda hafði stöðvast.  Fjöldinn fylgdist áhyggjufullur með Jóni brölta á fætur.  Hann var reikull í spori og ringlaður.  Sparijakkinn hans var fræsaður að framan.  Tölur höfðu kubbast af.  Líka tölur af spariskyrtunni.  Hatturinn fokinn út i buskann og fleira lauslegt.

  Heimilisfólkið skynjaði strax að niðurlútur Jón vildi ekki ræða þetta.  Það var látið eftir honum.  Atvikið lá í þagnargildi.  Hann reyndi ekki aftur að fara í göngutúr með hundinn.  

varðhundur          

------------------------------

Fleiri sögur af Jóni HÉR


Jón Þorleifs ofsótti bróður sinn

  Jóni Þorleifssyni,  rithöfundi og verkamanni,  samdi ekki við ættingja sína.  Eins og gengur.  Að því er ég best veit var flestum ættingjum hans hlýtt til hans.  Það var ekki gagnkvæmt í öllum tilfellum.

  Á gamals aldri fékk bróðir Jóns heilablóðfall.  Við það hægðist mjög á hugsun hans.  Þetta nýtti Jón sér.  Hann vissi hvaða kaffihús bróðirinn sótti.  Jón vaktaði þau.  Þegar hann sá bróður sinn þar inni þá vatt Jón sér að honum og hellti yfir hann svívirðingum.  Svo hljóp Jón út áður en bróðirinn náði að svara.  

  Jón hrósaði sigri í þessari viðureign.  Hann viðurkenndi að bróðirinn hafi lengst af haft betur í orðaskaki þeirra bræðra.  En þarna var hann mátaður.  "Ég þekki helvítið hann Kristján bróður það vel að ég veit að það sýður á honum að geta ekki svarað fyrir sig," sagði Jón sigurhrósandi.  

  Systir þeirra bræðra skrifaði Jóni bréf út af þessu.  Í því sagðist hún verða að skrifa honum bréf vegna þess að hann skelli á hana þegar hún hringi í hann.  Hún bað hann kurteislega um að sýna þann manndóm að láta veika ættingja í friði.  Þetta túlkaði Jón þannig að honum væri meinað að heimsækja móðir sína sem lá á banasæng.  Hann hlýddi fyrirmælunum en var afar ósáttur. Hann setti fyrirmælin lítið í samhengi við samskiptin við bróðurinn heldur einblíndi á að honum væri meinað að heimsækja veika móðir sína.  Það þótti honum vera svívirða en það væri fjarri sér að hunsa fyrirmæli systurinnar.  Hann talaði ekki við mömmu sína þaðan í frá né aðra ættingja.  Sagðist ekki geta krafið þá um heilbrigðisvottorð til að eiga orðastað við þá.     

  Fleiri sögur af Jóni HÉR

  jon_orleifs

 

 

 

 

 

 

 

 

  


Uppreisn Jóns Þorleifs

jón þorleifs 3

 

 

 

 

 

 

 

  Jón Þorleifsson,  verkamaður og rithöfundur,  var að sumu leyti Helgi Hóseason.  Þeir voru á svipuðum aldri.  Unnu saman í byggingarvinnu.  En varð ekki vel til vina.  Þvert á móti.  Hvor um sig taldi hinn vera öfgamann.  Barátta Helga snéri að því að fá ógilt skírn sína í ríkiskirkjuna.  Barátta Jóns snéri að því að afhjúpa verkalýðsforingja sem stéttarsvikara.  

  Eitt sinn mætti Jón heim til mín með stóra og dökkfjólubláa marbletti á höndum og handleggjum.  Þá hafði hann gert sér erindi á Hótel Loftleiðir.  Þar var einhverskonar hátíð eða samkunda verkalýðsfélags í kjallara.  Jón gerði þar þegar í stað hróp að ræðumönnum.  Á hann stukku margir menn sem fjarlægðu hann af staðnum.  

 Jón var lágvaxinn en mikill um sig.  Honum var fleygt láréttum á dyr.  Það gekk ekki lipurt fyrir sig.  Upp um stiga þurfti að fara.  Jón brá á aðferð krókódíslins.  Hann vatt stöðugt upp á sig eins hratt og hann gat og eins og kraftar leyfðu.  Við það misstu útkastarar takið hvað eftir annað.  Þá sætti Jón lagi og greip rígfast um handrið.  Þurftu menn ítrekað að plokka fingur hans af til að halda áfram að varpa honum á dyr. Við það hlaut Jón alla þessa stóru og ljótu marbletti.  Hann taldi að það hafi alveg tekið um 15 - 20 mínútur að henda sér út þann daginn.     

  Í annað skipti gerði Jón sér erindi á skrifstofu Sósíalistafélags Reykjavíkur svipaðs fyrirbæris.  Einn stafsmaður var á skrifstofunni.  Jón las honum pistilinn.  Sá vísaði Jóni á dyr.  Jón sýndi ekki á sér fararsnið heldur herti á skömmum.  Starfsmaðurinn rauk þá að Jóni og reyndi að henda honum út með afli.  Jón brást við með því að standa gleiður til að halda jafnvægi.  Hann hafði hendur í vösum og lét ekki haggast.  Gekk svo um hríð.  Maðurinn reyndi ýmist að hrinda Jóni eða toga hann til.  Leikar fóru þannig að maðurinn rykkti í nýjan sparijakka Jóns með þeim afleiðingum að jakkinn rifnaði.  En Jón stóð keikur í sömu sporum og gróf hendur dýpra í vasana.

  Þegar sparijakki Jóns rifnaði komst styggð að starfsmanninum.  Hann hljóp á brott.  Skildi Jón einan eftir á skrifstofunni.  Jón reiknaði út hversu langan tíma tæki fyrir starfsmanninn að skila sér til síns heima.  Þá hringdi Jón í hann.  Gerði honum grein fyrir því hversu óábyrgt var að skilja ókunnugan mann einan eftir á skrifstofunni. Hægur leikur hefði verað að rústað skrifstofunni,  stela öllu fémætu og gera annan óskunda.  Það væri hinsvegar ekki sinn siður.  Aftur á móti gerði hann þá kröfu að starfsmaðurinn bæði sig afsökunar á að hafa rifið jakkann.  Hinn tók það ekki í mál, setti upp snúð og skellti á Jón.  Jón hringdi nokkrum sinnum til viðbótar.  Án árangurs.  Hinn svaraði ekki.

  Nokkrum dögum síðar mætti Jón aftur á skrifstofuna.  Hann henti þar rifna jakkanum á borðið með þeim orðum að jakkinn væri best geymdur þarna sem tákn um að starfsmaðurinn væri vesalingur.  Frekari orðaskipti urðu ekki né fleiri samskipti Jóns við skrifstofuna.   

  Fleiri sögur af Jóni:  HÉR 

  Til gamans má geta að í nýjasta tölublaði tímaritsins Heima er bezt eru nokkrar sögur af Jóni Þorleifs.  


Hryðjuverkamenn vængstífðir í Færeyjum

ss liði handtekinn

csm_Sea_Shepherd 

 

 

 

 

 

 

 

  Í vor gengu í gildi ný lög í Færeyjum.  Þau voru og eru umdeild,  bæði innan og utan Færeyja.  Þau breyttust töluvert í meðförum færeyska Lögþingsins áður en samstaða náðist.  Lögin kveða á um það að hver sá sem reynir að hindra hvalveiðar Færeyinga skuli sektaður um 500 þúsund ísl. kr.  Einnig sá sem kemur auga á hvalvöðu í færeyskum fjörðum án þess að tilkynna "grindboð".  

  Í gær féllu fyrstu dómar yfir fimm einstaklingum sem brutu þessi lög í sumar.  Þar var um að ræða liðsmenn bandaríska hryðjuverkahópsins Sea Shepherd.  Aðeins einn þeirra var dæmdur til 500 þúsund króna sektar.  Annar fékk aðeins 100 þúsund króna sekt.  Ástæðan var sú að sá náungi var illa áttaður þegar hann var handtekinn fyrir að trufla hvalveiðar.  Hann var eins og vankaður.  Kannski vegna vímuefnaneyslu.  Kannski vegna andlegrar vanheilsu.  Kannski hvorutveggja í bland.

  Fyrir rétti var hann jafn ringlaður.  Saksóknari og dómarar sáu aumur á vesalingnum.

  Tveir SS-liðar voru dæmdir hvor um sig til 600 þúsund kr. sektar.  Til refsiþyngingar var metið að um samantekin ráð var að ræða.  Einnig að þeir sinntu ekki fyrirmælum lögreglu.

  Rosemarie hlaut 700 þúsund kr. sekt.  Til refsiþyngingar var metið að hún sé foringi og forsprakki SS í Færeyjum;  beri þar með höfuðábyrgð á starfseminni þar.

  Önnur kona þóttist ekkert kannast við Sea Shepherd.  Hún þóttist vera óbreyttur túristi í Færeyjum og hefði ekkert áttað sig á að þar væru hvalveiðar í gangi.  Myndbandsupptökur af henni og ljósmyndir sýndu að hún var í klæðnaði merktum Sea Shepherd í bak og fyrir.  Jafnframt er hún formlega skráð í áhöfn Sea Shepherd-skipsins Sam Simon.  

  Hún lýsti því jafnframt yfir að hún hafnaði færeyskum lögum.  Þau gætu átt við Færeyinga en kæmu sér ekki við.  

  Til viðbótar þeim einstaklingum sem hlutu dóm voru hryðjuverkasamtökin Sea Shepherd dæmd til sektar upp á hálfa aðra milljón ísl. kr. Rökin fyrir því eru þau að eigur Sea Shepherd (skip og litlir spíttbátar) voru notaðar til óhæfuverkanna.  Spíttbátarnir og allskonar dót (myndavélar,  vídíóupptökutæki og sitthvað fleira) var gert upptækt.

  Það verður áhugavert að fylgjast með framhaldinu.  Sumir dæmdra SS-liða hafa lýst því yfir að þeir muni frekar sitja af sér skuldafangelsi í Færeyjum en borga sektirnar. Á samfélagsmiðlum hafa þeir talað um að það geti kostað sig 8 ára fangelsi.  Aldrei áður hefur reynt á slíkt í Færeyjum. Líklegra er að vangreidd sekt kosti 2 vikur í fangelsi.   

  Annar möguleiki er sá að dómunum verði áfrýjað til danskra dómstóla.  Að því er ég best veit eru allar líkur á að það verði aðeins gálgafrestur.  Danskur dómstóll geti ekki ógilt færeysku lögin.  Nema þá aðeins að einhver stórvægileg mistök hafi átt sér stað við málsmeðferðina í Færeyjum.  

  Tveir SS-liðar til viðbótar hafa verið ákærðir.  Dómur yfir þeim verður felldur síðar.  

    


Hrokafullir Íslendingar virða Færeyinga ekki viðlits

jacob vestergaard

 

 

 

 

 

 

 

  Það er komið á þriðju viku frá því að íslenska umhverfis-,  auðlindar-, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherranum,  Sigurði Inga Jóhannssyni,  barst bréf frá færeyskum kollega sínum. Sá heitir Jacob Vestergaard.  Hann hefur verið sjávarútvegsráðherra meira og minna út alla þessa öld.  

  Í bréfinu óskar Jacob skýringar á því hvers vegna færeyska fiskveiðiskipinu Nærabergi var meinað að sigla til Íslands 20. júlí.  Skipið var á leið til Íslands þegar það var stöðvað 12 mílur frá landi.  Erindið var að sækja áhöfn sem hafði flogið frá Grænlandi.

  Gráir fyrir járnum tilkynntu íslenskir embættismenn skipstjóra Nærabergs að færeysk skip væru óvelkomin til Íslands.  Færeyingar séu á svörtum lista sem óvinir Íslendinga.  

  Færeyski ráðherrann óskaði eftir skjótum svörum.  Hann hefur engin svör fengið.  Íslenski ráðherrann,  Sigurður Ingi, og embættismenn hans virða Færeyinga ekki viðlits.  Sigurður Ingi svarar ekki færeyskum fjölmiðlum neinu.  Hann leyfir þeim ekki að ná á sér og sinnir ekki beiðnum um viðtal.  

  Hrokinn og rembingsleg framkoman í garð Færeyinga er ekki nýlunda.

  Í fyrra var Næraberginu siglt með bilaða vél til Íslands.  Áhöfninni var meinuð landganga.  Hún fékk hvorki að kaupa mat né drykk eða annað.  Það var afar niðurlægjandi fyrir íslenskan almenning að fylgjast með.  Góðmenni tóku sig til og báru í Færeyingana hamborgara, gosdrykki,  pizzur og kex með súkkulaðikremi.

  Sigurður Ingi flissaði að þessu í íslenskum og færeyskum fjölmiðlum.  Hann fullyrti að þessu yrði snarlega kippt í lag.  Svona ætti ekki að koma fram við Færeyinga.  Engu að síður sinnti hann þessu engu.  Gerði dögum saman ekkert í málinu annað en flissa yfir því.  

  Rök íslenskra embættismanna fyrir hrokafullri framkomu gagnvart Færeyingum eru þau að Færeyingar veiði makríl í grænlenskum sjó án þess að semja við íslendinga um það.  

  Færeyingar benda á móti á Hoyvíkursamninginn. Þar er skýrt tekið fram og undirstrikað að Ísland og Færeyjar séu sameiginlegt efnahagssvæði.  Þjóðirnar skuldbindi sig til að mismuna ekki á neinn hátt hvor annarri.

  Að auki benda Færeyingar á að Íslendingar dekstri rússnesk fiskveiðiskip sem eru að makrílveiðum á sama stað.  Rússar hafa ekki samið við íslendinga um þessar veiðar.

    HÉR má lesa um vandræði Nærabergs í fyrra.

    


Húðflúraklúður

  Húðflúrum er ætlað að vera varanleg merking.  Þess vegna hugsa flestir sig vel og lengi um áður en þeir láta merkja sig til frambúðar.  Þó er það svo að ungt fólk áttar sig ekki alltaf á því hvað það lifir blýfast í núinu. Það er ástfangið og heldur að ástarsambandið endist ævilangt.  Það heldur sömuleiðis upp á dægurlagasöngvara eða hljómsveit.  Áttar sig ekki á því að margt sem þykir flottast í dag í músík er það hallærislegasta sem til er nokkrum árum síðar. Tiltölulega fáar poppstjörnur standast tímans tönn.

  Þá er ekki um annað að ræða en fela húðflúrið á einhvern hátt.  Eða breyta því á annan veg.  

  Þessi dama lét húðflúra á herðablað nafn kærastans,  Andys.  Svo slettist upp á vinskapinn.  Stelpan sár og svekkt.  Hún reynir að gera hið besta í málinu með því að láta bæta við nafn Andys "Screw You".  Á vondri íslensku má þýða það sem "farðu til fjandans".

húðflúr-breyting a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Piltur lét húðflúra nafn kærustunnar á sig.  Svo lauk sambandinu.  Þá þarf að útskýra fyrir þeim sem sjá merkinguna fyrir hvað nafn hennar stendur.  Skýringin er:  "Mín stóru mistök".

húðflúr breyting c

 

  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Það á ekki af sumum að ganga.  Enn einn gaurinn með nafn kærustunnar húðflúrað á sig. Sambandið slitnar. Hann ætlar að vera voða sniðugur og setja yfir nafn hennar orðið "ógilding",  eins og stimpil.  Til að skerpa á tilfinningunni fyrir stimpli lætur hann fylgja með mynd af stimpilpúðanum.  EN klaufinn fattar ekki að textinn á stimpilpúðanum þarf að vera spegilmynd.  Þvílíkur auli.   Að auki er stimpilpúðinn töluvert minni en stimpillinn.  

húðflúr breyting e

 

 

 

 

 

 

 

  

   Stúlka lætur húðflúra á sig þann sérkennilega texta:  "Við Colvid deyjum á morgun".  Spáin rættist ekki heldur dó ást þeirra hvort á öðru.  Textanum var þá breytt í "Við gætum dáið á morgun".  Í leiðinni er röng stafsetning á orðinu "tomorrow" leiðrétt.  Þetta kostar nokkrar aukastjörnur.  En rauðhálsinn kippir sér aldrei upp við slíkt.

húðflúr breyting f

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Daman átti í ástarsambandi við Nick.  Hún var svo ánægð með það að hún lét húðflúra nafn hans á bringuna á sér.  Svo brást hann henni.  Þá breytti hún nafninu í Dick (skaufa).  Það er að vísu mjög kjánalegt að flagga bringu með áletruninni "Skaufi".  En kella tekur ekki eftir því.  Hún er fyrst og fremst að senda Nick tóninn.  Hann brást henni.  

húflúrabreyting g

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Í Suðurríkjum Bandaríkja Norður-Ameríku eru rauðhálsarnir vanir að redda sér.  Þeir gera ekki greinarmun á fagmennsku og fúski.  Þeir bara redda sér einhvernvegin.  Sumir reyna ekki að hugsa út fyrir boxið.  Þeir afskrifa úrelt húðflúr með massífum svörtum fleti,  hvort heldur sem er ferhyrndum eða stjörnulaga.  Ljótt?  Jú.  En þetta er redding.

húðflúr breyting hhúðflúr breyting i

 


mbl.is Sjáðu fyrsta tattúið hennar Kendall Jenner
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþokkabragð

  Þetta er svo langt síðan að ég veit ekki hvort að það sé leyndarmál lengur.  Samt veit ég ekki betur en að svo sé.  Fólkið sem um ræðir er aldrað í dag en vonandi allt á lífi og við góða heilsu.  Ég hef ekkert heyrt frá því né um það til áratuga.

  Ungt par á sjöunda áratugnum sleit samvistum á sama tíma og konan varð ólétt.   Maðurinn settist á skólabekk.  Þetta var fyrir daga námslána í hans fagi.  Pilturinn þurfti að horfa í hverja krónu.  Klauf m.a. strætómiða til að spara fyrir mat (náði góðri tækni við það sem virkaði og kenndi mér hana).  Hann skipti sér ekkert af fæðingu barnsins.  Á einhverjum tímapunkti neitaði hann formlega að kannast við að vera faðir þess.  Jafnframt bjó hann þannig um hnúta að erfitt var að staðsetja hann.  Hann var ekki með skráðan síma né fast heimilisfang.  Hreiðraði um sig í Hafnarfirði á meðan aðrir leituðu hans í Reykjavík.  

  Seint og síðar meir mætti embættismaður (mig hálfminnir að það hafi verið Haukur Morthens en kannski er ég að rugla saman dæmum) í skólann til hans og bar honum erindi.  Honum var gert að mæta í blóðprufu á tilteknum tíma vegna barnsfaðernismáls.  Ef erindinu væri ekki sinnt yrði hann færður með lögregluvaldi í blóðprufu.

  Honum var brugðið.  Hann ætlaði ekki að láta kostnað vegna barnsins tefja fyrir náminu.  Ráðið sem hann greip til var að senda skólabróðir sinn í blóðprufuna.  Það gekk eftir.  Sá mætti með bréfið og var ekki beðinn um skilríki.

  Niðurstaða blóðprufunnar var eðlilega sú að viðkomandi kæmi ekki til greina sem faðir barnsins.  Já,  ég veit að þetta var ljótt.  Þetta voru erfið ár fyrir barnsmóðurina.  Einstæða móðir sem gat ekki feðrað barnið sitt.  Á þessum árum voru miklir fordómar gagnvart konum í þeirri stöðu.   

 


mbl.is Sendi tvífara í faðernisprófið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Þorleifs í einkennilegum mótmælagöngum

  Ég hef áður sagt frá því hvers vegna Jón Þorleifsson,  verkamaður og rithöfundur,  var reglulega fjarlægður af lögreglunni 1. maí.  Um það má lesa með því að smella á hlekk hér neðst.  Jón tók aftur á móti virkan þátt í mörgum öðrum mótmælagöngum.  En gekk ekki í takt við aðra göngumenn.  Þvert á móti.  Hann gekk í öfuga átt;  á móti göngumönnum.  Hann þandi út olnbogana til að gera sig sem breiðastan.  Göngumenn urðu að taka stóran sveig til að komast framhjá honum.  Stundum til vandræða,  til að mynda þegar tveir eða fleiri héldu á lofti breiðum borða.  Eða hópur foreldra í einni kös ýtti á undan sér barnavögnum.  Eða þegar nokkrir fatlaðir voru hlið við hlið í hjólastólum.  Aldrei vék Jón fyrir neinum.  Hann stoppaði við svona aðstæður og beið eftir því að hinir sveigðu til hliðar.   

  Jón þurfti ekki að vera ósammála baráttumálum göngunnar til að bregðast svona við.  Þó var það í sumum tilfellum.  Oftar var þetta þó vegna þess að Jón var ósáttur við einhverja þá sem stóðu að göngunni eða auglýsta ræðumenn.  Það þurfti ekki mikið til.

  Síðustu áratugi ævi sinnar sinnaðist Jóni við ættingja sína.  Mér skilst að upphaf þess megi rekja til andúðar hans á verkalýðsforingjunum Gvendi Jaka og Eðvarði Sigurðssyni.  Bróðir Jóns hafi reynt að leiðrétta einhverjar ranghugmyndir hans varðandi þessa menn eða eitthvað í gjörðum þeirra.  Jón tók því illa.  

  Tekið skal fram að ættingjar Jóns voru og eru afskaplega gott og vandað fólk.  Suma þeirra þekki ég.  Samhljóða vitnisburð hef ég frá öðrum um þá sem ég þekki ekki.

  Í fyrsta skipti sem ég heyrði Jón nefna bróðir sinn var í sambandi við verkalýðsforingjana.  Jón úthúðaði þeim og sagði síðan óvænt:  "Ég skil ekki hvað ég þoldi helvítið hann Kristján bróðir lengi."

 Ég hissa:  "Ha?  Af hverju segir þú þetta?"

 Jón:  "Þetta fífl trúir öllu sem Gvendur Jaki og Eðvarð ljúga að honum."

 Ég:  "Hvernig þá?"

 Jón:  "Hann er trúgjarnasti maður sem ég þekki.  Hann er svo trúgjarn að þegar hann lýgur einhverju sjálfur þá trúir hann því samstundis."  

jón þorleifsson x

----------------

Fleiri sögur af Jóni  hér   

  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.