Færsluflokkur: Spaugilegt

Til minningar um gleðigjafa

  Tónlistarmaðurinn og gleðigjafinn Brynjar Klemensson féll frá 24. nóvember.  Hann var aðeins 67 ára.  Í vina og kunningjahópi gekk hann undir nafninu Billy Start.  Ástæðan var sú að hann var einskonar fylgihnöttur hljómsveitarinnar Start.  Forsöngvarinn,  Pétur heitinn Kristjánsson,  var hans stóra fyrirmynd.

  Billy átti auðvelt með að finna broslegar hliðar á mönnum og málefnum.  Allt í góðlátlegri frásögn.  Hann sagði skemmtilega frá.  Þegar hann mætti á svæðið tilkynnti hann jafnan viðstöddum:  "Billy Start mættur á kantinn!"  Þetta var ávísun á fjörlegar samræður og mikið hlegið. 

  Billy var smá prakkari.  Eitt sinn mætti hann á skemmtistað í Ármúla.  "Ósköp er rólegt í kvöld.  Ekkert fyrir dyravörðinn að gera," sagði hann.  Ég samsinnti því.  Sagði að dyravörður væri óþarfur þetta kvöldið.  

   Úti á miðju gólfi stóð ókunnugur miðaldra maður.  Hann góndi á boltaleik á sjónvarpsskjá.  Billy rölti til dyravarðarins og skrökvaði:  "Sérðu manninn þarna?  Þetta er alræmdur vandræðapési.  Þú þarft að fylgjast vel með honum.  Hann á eftir að hleypa öllu í bál og brand."  

  Hrekklaus dyravörðurinn lét ekki segja sér það tvisvar.  Hann læddist aftan að manninum,  stökk svo á hann með dyravarðafangbragði.  Maðurinn var í skrúfstykki.  Dyravörðurinn dró hann út á stétt og flýtti sér síðan að skella í lás.  Maðurinn var alveg ringlaður.  Hann bankaði - án árangurs - á dyrnar.  Svo náði hann á leigubíl og fór.   Þá opnaði dyravörðurinn dyrnar og allt féll í ljúfa löð.  

  Billy hrósaði dyraverðinum fyrir snöfurleg vinnubrögð.  Við mig sagði hann:  "Nú getur hann skráð í dagbók staðarins að honum hafi með lagni tekist að afstýra heilmiklu veseni!"

 

billy start


Þegar Jón Þorleifs kaus óvænt

  Jón heitinn Þorleifsson var í stöðugri uppreisn.  Hann var verkamaður en snéri sér að ritstörfum kominn á efri ár.  Hann naut sín við að yrkja níðvísur og deila á menn og málefni.

  Hann notaði nánast aldrei atkvæðarétt sinn.  Þó mætti hann á kjörstað.  Þar skráði hann níðvísu um einhvern eða einhverja á kjörseðilinn. 

  Svo bar til einn bjartan kosningadag að þingmaður Alþýðubandalagsins mætti Jóni á gangi.  Þeir voru kunnugir og heilsuðust. 

  - Sæll Jón minn. Ertu búinn að kjósa?  spurði maðurinn.  

  - Já,  aldrei þessu vant,  svaraði Jón.

  - Kaustu rétt?

  - Það veit ég ekki.  Ég krossaði við Alþýðubandalagið.

  - Þakka þér kærlega fyrir atkvæðið.  Hvað kom til?

  - Þetta var eina ráðið sem ég hafði til að strika yfir nafnið þitt!

jon_orleifs  


Anna frænka á Hesteyri hringdi á lögguna

  Fyrir nokkrum árum hringdi Anna Marta á Hesteyri í eldri frænku okkar í Reykjavík.  Það var alvanalegt.  Konan var nýbúin að setja lit í hárið á sér   Hún beið eftir að hann verkaðist áður en hann yrði skolaður.  Hún upplýsti Önnu um stöðuna.  Bað hana um að hringja aftur eftir 10 mínútur.  

  Í þann mund er konan skolaði hárið mundi hún eftir því að kartöflur og mjólk vantaði.  Komið fast að kvöldverðartíma og eiginmaðurinn væntanlegur úr vinnu.  Hún skrapp í matvörubúðina skammt frá.  Aðeins ein stelpa var á afgreiðslukassanum.  Hún var nýbyrjuð og óörugg.  Gerði einhver mistök með tilheyrandi töfum.  Röðin við kassann lengdist.   

  Er konan hélt heim blöstu við blikkandi ljós á sjúkrabíl og lögreglubíl í innkeyrslu  hennar.  Lögreglumaður upplýsti að tilkynnt hafi verið að kona væri steinrotuð og slösuð á baðherberginu.

  Konan sýndi lögreglunni inn í baðherbergi og útskýrði að um misskilning væri að ræða.  Síðan hringdi hún í Önnu fjúkandi reið.  Anna sagðist hafa hringt í hana 10 mínútum eftir að konan bað hana um það.  Síminn hringdi út.  Aftur og aftur.  Hún hafi þá lagt saman 2 og 2 og fengið þá niðurstöðu að konan hefði runnið til við að skola hárið og skollið harkalega á gólfið.  

  Konan bannaði Önnu að senda aftur á sig sjúkrabíl og lögreglu.  Anna svaraði:  "Jú,  ef ég verð vör við að þú liggir slösuð þá hringi ég í neyðarlínuna!  Ef þú hefðir slasast núna þá værir þú að þakka mér en ekki skamma mig."

sjúkrabílllöggubíll


Erfiður starfsmaður

  Nonni er rafvirki.  Á dögunum bættist á hann stórt verkefni í nýbyggingu.  Hann auglýsti eftir vönum rafvirkja sem gæti hafið störf strax.  Sá fyrsti sem hringdi var ráðinn.  Honum var sagt að mæta til vinnu klukkan 9 næsta morgunn. 

  Klukkan var eitthvað gengin í 11 er starfsmaðurinn,  ungur maður,  mætti.  Hann útskýrði málið:  "Ég lagði af stað á réttum tíma út á strætóstöð.  Þá sá ég að veðrið var svo gott að ég ákvað að ganga."

  Nonni sagði að það væri mikilvægt að starfsmenn séu mættir klukkan 9.  Hann sýndi rafvirkjanum hvar setja átti upp margar innstungur. 

  - Sýndu mér hvernig þú setur upp eina innstungu,  bað drengurinn.

  - Þú kannt að setja upp innstungu,  fullyrti Nonni.

  - Já,  auðvitað.  Mig langar bara að sjá hvernig þú gerir það.

  Nonni setti upp innstungu.  Hinn fylgdist með og tók svo við.  Honum lynti strax vel við vinnufélagana og stimplaði símanúmer þeirra inn í símaskrá sína.  Þeir voru alls sjö. 

  Daginn eftir var hann ekki mættur klukkan 9.  Hálftíma síðar hringdi hann í vinnufélaga.  Bað hann um að sækja sig.  Nonni blandaði sér í símtalið.  Sagði að ekki kæmi til greina að starfsmenn sæki hvern annan í vinnutíma. 

  -  Já,  já.  Ég er sammála því,  svaraði drengur.  Vinnufélaginn hefur misskilið mig.  Ég var að tilkynna veikindi.  Ég er með svaka hausverk.

  Næsta dag mætti hann sprækur klukkan 10.  Sagði að strætóferð hafi fallið niður. 

  Eftir hádegi þurfti Nonni að bregða sér frá í nokkra tíma.  Hann setti starfsmönnum fyrir verkefni.  Þegar hann snéri aftur blasti við að ungi rafvirkinn hafði fátt gert.  Nonni spurði hvað væri í gangi. 

  - Ég er búinn að vinna á fullu,  fullyrti piltur.  Einhvernvegin hefur verkið samt unnist hægt.  

   Verkefnið var komið í tímaþröng.  Ákveðið var að vinna fram á kvöld.  Um kvöldmatarleytið hélt vinnuflokkurinn á veitingastað með heimilismat.  Strákur mótmælti.  Sagðist aldrei borða kartöflumat á kvöldin.  Hann óskaði eftir pizzu.  Honum var boðið að fara á pizzustað á eigin kostnað.  Vinnuflokkurinn væri hinsvegar á samningi við heimilismatstöðina.  Kauði átti ekki pening og snæddi með ólund.

   Ekki bólaði á honum daginn eftir.  Nonni hringdi í hann.  Afsökun hans var:  "Mér er illt í maganum af því að ég fékk ekki pizzu.  Ég varaði þig við að ekki eigi að borða kvöldmat með kartöflum.  Þú tókst ekki mark á því.  Þetta er þér að kanna!"

  Nonni sagði honum að mæta aldrei aftur á staðinn.  Um mánaðarmótin mætti hann þó til að sækja kaupið sitt.  Kennitala hans leiddi í ljós að hann var aðeins 17 ára.  Hann viðurkenndi að vera ekki rafvirki og hefði aldrei komið nálægt rafmagni áður.  


Varð ekki um sel

  Reynsla og upplifanir sjómanna eru margar og mismunandi.  Því oftar sem þeir eru úti á sjó þeim mun líklegra er að þeir verði vitni að margvíslegum ævintýrum.  Þannig var það um helgina hjá honum Hjalta í Klakksvík.  Hann sat í trillunni sinni og fylgdist með hvalvöðu lóna við hliðina.  Þetta voru háhyrningar.  Þeir vita ekkert æti betra en spikfeita seli.

  Skyndilega stökk selur upp úr haffletinum.  Hann hrópaði á hjálp og synti á ofsahraða að bátnum.  Þar skorðaði hann sig við landganginn.

  Hjalti drap á vélinni og horfði skilningsríkur í augu selsins,  eins og til að róa hann.  Hvalirnir skildu ekki upp né niður í því hvað varð um selinn.  Þeir syntu undrandi fram og til baka í góðan hálftíma.  Þá héldu þeir á brott í leit að öðru æti. 

  Hjalti gaf selnum til kynna með leikrænni tjáningu að hættan væri liðin hjá.  Blessuð skepnan skildi og synti varfærnislega frá bátnum.  Í þann mund er hann steypti sér í djúpið þá snéri hann sér við og veifaði sjómanninum í þakklætisskini. 

hvalurKopur


Gátan leyst

  Afabróðir minn flutti til Færeyja um aldamótin 1900.  Þar hófst hann þegar í stað við að eignast börn með tveimur þarlendum konum.  Fyrir bragðið á ég fjölmennan frændgarð í Færeyjum.  Flestir bera ættarnafnið Ísfeld.  Margir hafa orðið áberandi í sjávarútvegi,   tónlist og byggingarlist.  Samruni íslenskra og færeyskra gena hefur gefist vel.  

  Barnungur færeyskur frændi minn,  Nói,  var í kristnifræði í skólanum fyrir helgi.  Heimkominn tjáði hann mömmu sinni frá náminu.  Kennarinn hafi upplýst að guð,  Jesú og heilagur andi væru eitt og hið sama.

  Stríðin mamman spurði:  "Hvernig í ósköpunum geta 3 guðir verið eitt og hið sama?"

  Nói svaraði um hæl:  "Ætli það sé ekki eins og með sjampóið okkar,  3 in 1.  Það er hársápa,  hárnæring og baðsápa í einu og sömu flöskunni.

sjampó   


Hrakfarir strandaglóps

  Fyrir nokkru átti ég erindi til Akureyrar.  Dvaldi þar á gistiheimili.  Þegar ég hugði á heimferð spurði kona við innritunarborðið hvort strandaglópur mætti fljóta með suður.  Um unglingspilt var að ræða.   Nokkru áður hafði hann hitt akureyrska stelpu á Músíktilraunum í Reykjavík.  Í kjölfarið keypti hann eldgamla bíldruslu til að heimsækja dömuna.  Fjármálin voru reyndar í klessu.  Hann átti aðeins 25 þús kall í vasanum.  Engin kort.  Þetta hlyti að reddast einhvernvegin.    

  Bíllinn gaf upp öndina í Hrútafirði.  Stráksi lét það ekki á sig fá.  Sá að vísu eftir því að hann var nýbúinn að fylla á bensíntankinn.  Hann reyndi án árangurs að fá far á puttanum.  Að vörmu spori stoppaði rúta hjá honum.  Þetta var áætlunarbíll á leið til Akureyrar. 

  Kominn til Akureyrar bankaði hann upp hjá stelpunni.  Hún var ekki heima.  Hann spurði foreldra hennar hvort hann mætti hinkra eftir henni.  Nei.  Ekki var von á henni heim fyrr en eftir tvo tíma eða síðar. 

  Úti var rok og grenjandi rigning.  Stráksi fann litla matvöruverslun.  Þar hímdi hann í góða stund uns búðin lokaði.  Þá færði hann sig yfir í sjoppu.  Hann var ekki með síma.  Að þremur tímum liðnum bankaði hann aftur upp heima hjá stelpunni.  Hún var komin heim.  Þau spjölluðu saman í forstofunni í góða stund.  Að því kom að hann spurði hvort það væri nokkuð mál að gista hjá henni.  Hún snöggreiddist.  Spurði hvort hann væri klikkaður.  Þau þekktust ekki neitt og hún hefði enga aðstöðu til að hýsa ókunnuga. 

  Þetta kom ferðalangnum í opna skjöldu.  Hann var fæddur og uppalinn í litlu sjávarþorpi.  Þar er til siðs að hýsa gesti.  Jafnvel í nokkra daga.  Stelpan benti á að í miðbænum væru ýmsir gistimöguleikar.  Hún bað hann um að ónáða sig ekki aftur. 

  Þetta var ástæðan fyrir því að hann varð staurblankur strandaglópur á gistiheimilinu.  Þegar ég tók hann með suður hafði hann ekkert borðað í tvo daga.

  Er við ókum framhjá bilaða bílnum spurði ég hvort hann vilji stoppa við hann.  Nei,  hann sagðist ekki vilja sjá drusluna framar.

  Ég benti honum á að búið væri að brjóta annað framljósið og stuðara.  "Ég braut það óvart.  Ég ætlaði að keyra nokkrar vegastikur niður.  Ég hélt að þær væru úr timbri.  Þær eru úr járni."       

  Hann bætti við að þetta væri ekki fyrsti bíllinn til vandræða.  Er hann var nýkominn með bílpróf æfði hann sig í að hringspóla á heimilisbílnum í gamalli sandgryfju.  Svo var fótboltakeppni fyrir utan þorpið.  Fjöldi áhorfenda.  Kauði ákvað að hringspóla á malarveginum þarna.  Ekki tókst betur til en svo að bíllinn sveif útaf veginum og sat pikkfastur ofan í skurði.  

  "Mjög niðurlægjandi því allir þekktu mig," viðurkenndi hann.

  Talið barst að sjómannsferli hans.  Hann sagði hana reyna á taugarnar.  Sem dæmi hefði skipstjórinn verið að öskra á hann út af litlu sem engu.  Ósjálfrátt grýtti hann fiski í kallinn.  

  - Hvernig brást hann við?  spurði ég.

  - Hann rak mig.  Það var óheppilegt.  Ég fékk enga vinnu í þorpinu.  Þess vegna neyddist ég til að flytja til Reykjavíkur og vinna á bónstöð í Kringlunni.  

  Skyndilega æpti drengurinn er við renndum inn í Reykjavík:  "Andskotinn!  Ég gleymdi að allt geisladiskasafnið mitt er í skottinu á bílnum!"      

  Nokkrum dögum síðar átti ég erindi í Kringluna.  Ákvað að heilsa upp á gaurinn.  Þá var búið að reka hann - fyrir að skrópa dagana sem hann var strandaglópur.


Að bjarga sér

  Upp úr miðri síðustu öld lenti heilsulítill bóndi í tímahraki með heyskap.  Þetta var fyrir daga heyrúllunnar.  Framundan var blautt haustveður en mikið af heyi ókomið í hlöðu.  Unglingur af öðrum bæ var sendur til að hlaupa undir bagga.  Kona bóndans var fjarri vegna barneignar.  10 ára sonur hennar tók að sér matseld í fjarveru hennar.

  Er nálgaðist hádegi sá unglingurinn dökkan reyk leggja frá eldhúsinu.  Í sömu andrá sást stráksi hlaupa út úr húsinu með rjúkandi pott.  Pottinn gróf hann með hröðum handtökum ofan í skurð.  

  Unglingurinn ók dráttarvélinni að pjakknum og spurði hvað væri í gangi.  Hann svaraði:  "Ég veit ekki hvað fór úrskeiðis.  Ég var að sjóða brodd og gerði alveg eins og mamma.  Ég hellti broddinum í sömu plastkönnu og hún.  Ég sauð hana í sama potti og hún. Það næsta sem gerðist var að kannan bráðnaði og allt brann við!"

  Unglingurinn vissi þegar í stað að pilturinn hafði ekki áttað sig á að kannan átti að fljóta í vatni í pottinum.

  Þegar kaffitími nálgaðist kallaði strákur á bóndann og unglinginn.  Sagðist ver búinn að hella upp á kaffi og útbúa meðlæti.  Meðlætið var heimalagað kremkex.  Kexið var sett saman í samloku með kakósmjörkremi á milli.  Þetta bragðaðist illa.  Var eins og hrátt hveitideig.  Stráksi sagði:  "Ég veit ekki hvað fór úrskeiðis.  Ég gerði alveg eins og mamma;  hrærði saman smjöri,  kakói,  hveiti og vanilludropum."

  Smjörkrem er ekki hrært með hveiti heldur flórsykri.  Hann er hvítur eins og hveiti en er sykurduft.

kex

   

     


Neyðarlegt

  Á unglingsárum vann ég í álverinu í Straumsvík.  Þar vann einnig maður sem seint verður kallaður mannvitsbrekka.  Hann var barnslegur einfeldningur.  Hann átti sextugs afmæli.  Hann bauð völdum vinnufélögum í afmælisveislu heima hjá sér.  Hann átti ekki nána fjölskyldu.  Veislan var fámenn og einungis sterkt áfengi í boði.  Allt gott um það að segja.  Ég hef verið í fjörlegri veislu.  Þó var gripið í spil og leiðinleg músík spiluð af segulbandi. 

  Er á leið sagði kallinn okkur frá trillu sem hann átti.  Jafnframt átti hann ofan í kjallara hið fallegasta trilluhús.  Hann sýndi okkur það stoltur á svip.  Hann mátti vera það.  Húsið var með opnanlegum gluggum og ýmsu skrauti.  Meðal annars skemmtilega útskornu munstri og táknum úr norrænni goðafræði. 

  Eftir að allir höfðu hlaðið lofsorði á húsið varð einum að orði:  "Hvernig kemur þú húsinu út úr kjallaranum?"  Eina sjáanlega útgönguleið úr kjallaranum voru þröngar steinsteyptar tröppur upp á jarðhæð. 

  Kallinn varð vandræðalegur og tautaði niðurlútur:  "Það er vandamálið.  Ég gleymdi að hugsa út í það.  Ég kem þessu ekki út úr kjallaranum.  Það er grábölvað.

álver     


Stórmerkileg námstækni

  Ég var staddur í verslun.  Þar varð ég vitni að því er tveir unglingspiltar hittust og heilsuðust fagnandi.  Annar spyr:  "Hvernig gekk þér í prófinu hjá...?" og nefndi nafn sem ég gleymdi jafnóðum.  Hinn svaraði:  "Ég notaði öfluga námstækni sem ég hannaði sjálfur.  Í stað þess að pæla í gegnum alla bókina þá byrjaði ég á því að sortera í burtu allt sem ég var 100% viss um að aldrei yrði spurt um.  Síðan lærði ég utanað 50% af því sem eftir stóð.  Með þessari aðferð reiknast mér til að maður eigi að geta verið pottþéttur með að fá að lágmarki 6 eða jafnvel 7.

  - Hvað fékkstu?  spurði skólabróðirinn spenntur.

  - Helvítis gaurinn felldi mig. Gaf mér aðeins 2.  Spurði aðallega um það sem ég lærði ekki!     


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband