Færsluflokkur: Spaugilegt
19.3.2025 | 08:41
Safaríkt 1. apríl gabb
Áður en langt um líður þarf fjölmiðlafólk að leggja hausinn í bleyti og upphugsa gott 1. apríl gabb. Á árum áður gekk gabbið út á að fórnarlambið hlypi yfir þröskuld. Helst jafnvel 3 þröskulda.
Í dag eru þröskuldar á undanhaldi. Eflaust skýrir það að hluta hvers vegna gabbið hefur gengisfallið. Fjölmiðlar og fleiri eru að slá upp lygafrétt 1. apríl án þess að nokkur hlaupi. Til að mynda frétt um að einhver nafngreindur væri að hefja störf á nefndum fjölmiðli. Eða að tónlistarmaður væri að ganga í nefnda hljómsveit. Þetta eru hvorutveggja raunveruleg 1. apríl göbb sem voru andvana fædd. Enginn hljóp. Enginn hló.
Safaríkara var um árið gabb starfsfólks veitingastaðar á Höfn í Hornafirði. Það hringdi í lögguna og tilkynnti um brjálaðan mann í sturlunarástandi sem væri að rústa klósettinu. Lögreglumenn brugðu við skjótt. Er þeir ruddust með látum og kylfur á lofti inn á staðinn mættu þeim hlátrarsköll starfsfólks og gesta sem hrópuðu: "1. apríl!"
Full ástæða er til að endurnýta þetta hressilega gabb; hringja í slökkvilið, sjúkrabíl, björgunarsveitir og láta liðið hlaupa 1. apríl. Það yrði hamagangur í öskjunni!
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 16:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
12.3.2025 | 10:27
Svangur frændi
Fötluð kona í hjólastól bjó í kjallara á Leifsgötu. Dag einn fékk hún upphringingu frá frænku sinni í norðlenskri sveit. Sú sagði að 17 ára sonur sinn ætlaði til Reykjavíkur kvöldið eftir. Hann væri að kaupa bíl. Fengi hann að gista á Leifsgötunni?
Frænkan fagnaði erindinu. Frændann hafði hún ekki séð síðan hann var smápatti. Móðirin sagði hann fá far hjá vörubílstjóra. Þeir yrðu seint á ferð. Myndu varla skila sér fyrr en eftir miðnætti.
Kvöldið eftir bað sú fatlaða heimahjúkkuna um að laga mat handa frændanum og halda honum heitum uns hann mætti. Er nálgaðist miðnætti sótti syfja að konunni. Hún bað hjúkkuna um að renna sér inn í stofu. Þar ætlaði hún að dotta í haustmyrkrinu uns frændi kæmi.
Hún steinsofnaði en hrökk upp við að frændinn stóð yfir henni. Hún tók honum fagnandi og bað hann um að renna sér í stólnum fram í eldhús. Þar biði hans heitur matur. Stráksi tók hraustlega til matar síns. Hann var glorhungraður og fámáll. Umlaði bara já og nei um leið og hann gjóaði augum feimnislega í allar áttir. Sveitapilturinn var greinilega óvanur ókunnugum. Skyndilega tók hann á sprett út úr húsinu. Nokkrum mínútum síðar bankaði annar ungur maður á dyr. Hann kynnti sig sem frændann. Ættarsvipurinn leyndi sér ekki.
Hver var svangi maðurinn? Við athugun kom í ljós að stofugluggi hafði verið spenntur upp. Gluggasyllan og gólfið fyrir neðan voru ötuð mold. Greinilega var innbrotsþjófur á ferð. Hlýlegar móttökur og heitur matur hafa væntanlega komið á óvart!
5.2.2025 | 11:05
Kallinn sem reddar
Öll þekkjum við kallinn sem reddar málunum. Þennan sem getur lagað alla hluti sem farið hafa úrskeiðis. Einnig getur hann sett saman hluti af öllu tagi án þess að skoða leiðarvísi. Sama hvort það eru IKEA innréttingar eða tölvur eða hvað sem er. Hann getur meira að segja græjað sundlaug eins og hendi sé veifað.
Einkenni reddarans er að hann sniðgengur fagurfræði hlutanna. Hann er meira fyrir klastur; að hluturinn virki. Sjón er sögu ríkari.
Spaugilegt | Breytt 8.2.2025 kl. 17:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
22.1.2025 | 10:00
Passar hún?
Á Akureyri býr 94ra ára kona. Hún er spræk þrátt fyrir að vera bundin í hjólastól. Hún er með allt sem heyrir undir ADHD og svoleiðis eiginleika. Fyrir bragðið fer hún stundum skemmtilega fram úr sér. Oft hrekkur eitthvað broslegt út úr henni áður en hún nær að hugsa.
Fyrir jólin sendi hún sonarsyni sínum pening. Honum fylgdu fyrirmæli um að hann myndi fá sér peysu. Peysan yrði jólagjöfin hans frá henni.
Eftir jól hringdi hún í strákinn og spurði:
- Hvernig peysu fannstu í jólagjöf frá mér?
- Ég fékk virkilega flotta svarta hettupeysu.
- Passar hún?
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
8.1.2025 | 19:36
Framhald á frásögn af undarlegum hundi
Þegar hér var komið sögu var hundinum komið fyrir í Kirkjubæ, fámennu smáþorpi á Straumey. Flottu þorpi með sögu. Úti fyrir þorpinu er smá hæð á veginum. Þar er einnig eins og dæld. Venjulega er ekið þar um á litlum hraða. Samt nógum til að bíllinn eins og stekkur yfir.
Hundurinn tók þegar í stað að leggjast flatur í dældina á veginum þegar bílar óku þar um. Bílstjórar urðu hans ekki varir fyrr en ekið hafði verið yfir hann. Þá var þeim illa brugðið en hvutti stóð upp, hristi sig og beið eftir næsta bíl. Tóku þeir þá gleði sína á ný.
Einhverra hluta vegna brá seppi aldrei á leik við íbúa Kirkjubæjar. Einhverra hluta vegna náði hann alltaf að staðsetja sig á veginum .þannig að hann varð ekki undir hjóli. Nema einu sinni. Þá voru dagar hans taldir.
7.1.2025 | 09:06
Furðulegur hundur
Einu sinni sem oftar spilaði færeyski píanóleikarinn Kristian Blak fyrir dansi í Þórshöfn í Færeyjum. Úti var grenjandi rigning og kalsaveður. Fyrir dansleikinn þurfti að bera hljóðfæri og hljómkerfi í hús. Stór skoskur hundur stillti sér upp við útidyrnar.
Kristian spurði hundinn hvort hann langaði að koma inn úr rigningunni. Sá var snöggur að þiggja boðið. Hann lagði sig á sviðið og fylgdist síðan með fólkinu dansa. Einn af hljóðfæraleikurunum átti erindi út á gólf. Hundurinn spratt á fætur og reisti sig upp framan á hann. Maðurinn steig dansspor með honum. Er maðurinn ætlaði aftur upp á svið mótmælti hann með frekjulegu gelti og lagðist þétt framan á hann. Þetta vakti kátínu. Þeir dönsuðu í smástund uns maðurinn sagði voffa að hann verði að spila með hljómsveitinni. Það var eins og blessuð skepnan skildi; stökk upp á svið og lagði sig á ný.
Er dansleik lauk elti hvutti Kristian heim. Veður var ennþá svo leiðinlegt að Kristian bauð honum inn. Útskýrði jafnframt fyrir honum að hann yrði að fara um morguninn áður en húsfrúin vaknaði. Hún væri kasólétt og andvíg húsdýrum.
Morguninn eftir vaknaði Kristian snemma og hleypti hundinum út. Sá virtist alsáttur. Seint næsta kvöld sá Kristian hundinn bíða við dyrnar. Þetta endurtók sig. Að nokkrum dögum liðnum hringdi konan í vinnuna til Kristians; sagði hund stara inn um glugga hjá sér. Hana grunaði að um svangan flækingshund væri að ræða. Kannski ætti hún að gefa honum matarbita. Kristian tók vel í það. Eftir það gekk hundurinn út og inn með því að opna og loka hurðinni sjálfur.
Konan komst að því hver ætti hundinn og Kristian kom honum til síns heima. Hundurinn strauk strax aftur til hans. Þetta endurtók sig. Neyðarráð var að koma voffa út í sveit. Í lítið þorp, Kirkjubæ.
Meira um dýrið á morgun.
Spaugilegt | Breytt 8.1.2025 kl. 01:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
31.12.2024 | 11:31
Undarleg gáta leyst
Dýralæknir var kallaður á heimili gamallar konu. Hún bjó ein í stórri blokkaríbúð á höfuðborgarsvæðinu. Hún átti litla og fallega kisu. Nú var hún veik. Verulega uppþembd og aðgerðalítil. Læknirinn fann strax út að kisan var kettlingafull.
"Það getur ekki verið," mótmælti gamla konan. "Hún er alltaf hérna inni. Hún fær aðeins að skjótast út á svalir þar sem ég fylgist með henni."
Læknirinn var viss í sinni sök. Hann fullyrti að stutt væri í að kettlingarnir kæmu í heiminn. Meira gæti hann ekki gert í málinu.
Á leið sinni út kom hann auga á kött. Sá svaf makindalega í forstofunni. Læknirinn kallaði á konuna og benti á köttinn. "Hér er ástæðan fyrir því að kisa er kettlingafull."
Konan gapti af undrun og hreytti hneyksluð út úr sér: "Er herra læknirinn eitthvað verri? Þetta er bróðir hennar!"
24.12.2024 | 08:13
Lífseig jólagjöf
Algengt vandamál með jólagjafir er að þær hitta ekki alltaf í mark hjá viðtakendum. Öll þekkjum við börn sem andvarpa þegar kemur að mjúkum pökkunum. Krakkar vilja hörð leikföng. Mjúkum pökkum fylgir stundum annað vandamál: Út úr þeim kemur fatnaður sem passar ekki á börnin. Svo eru það gjafakortin. Þau eru keypt í litlum verslunum sem hafa ekki upp á neitt girnilegt að bjóða. Eða þá að upphæðin á kortinu passar ekki nákvæmlega við neitt í búðinni. Eftir stendur kannski 1000 kall eða 2000. Peningur sem dagar bara uppi.
Eitt sinn fékk frænka mín í jólagjöf fallegan og íburðarmikinn náttkjól í gjafaöskju. Hún átti meira en nóg af náttkjólum. Hún brá á það ráð að geyma kjólinn til næstu jóla. Þá gaf hún mágkonu sinni kjólinn í jólagjöf. Einhverra hluta vegna voru viðbrögð hennar þau sömu: Kjóllinn varð jólagjöf til systur hennar næstu jól. Alls varð hann sjö sinnum jólagjöf. Í síðasta skiptið endaði hann aftur hjá konunni sem upphaflega gaf hann. Sú var búin að fylgjast með ferðalagi kjólsins og vildi ekki að hann færi annan rúnt. Hún tók hann í gagnið. Þetta varð uppáhalds náttkjóllinn hennar. Enda valdi hún hann þarna í upphafi vegna hrifningar af honum.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 08:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.12.2024 | 10:13
Til minningar um gleðigjafa
Tónlistarmaðurinn og gleðigjafinn Brynjar Klemensson féll frá 24. nóvember. Hann var aðeins 67 ára. Í vina og kunningjahópi gekk hann undir nafninu Billy Start. Ástæðan var sú að hann var einskonar fylgihnöttur hljómsveitarinnar Start. Forsöngvarinn, Pétur heitinn Kristjánsson, var hans stóra fyrirmynd.
Billy átti auðvelt með að finna broslegar hliðar á mönnum og málefnum. Allt í góðlátlegri frásögn. Hann sagði skemmtilega frá. Þegar hann mætti á svæðið tilkynnti hann jafnan viðstöddum: "Billy Start mættur á kantinn!" Þetta var ávísun á fjörlegar samræður og mikið hlegið.
Billy var smá prakkari. Eitt sinn mætti hann á skemmtistað í Ármúla. "Ósköp er rólegt í kvöld. Ekkert fyrir dyravörðinn að gera," sagði hann. Ég samsinnti því. Sagði að dyravörður væri óþarfur þetta kvöldið.
Úti á miðju gólfi stóð ókunnugur miðaldra maður. Hann góndi á boltaleik á sjónvarpsskjá. Billy rölti til dyravarðarins og skrökvaði: "Sérðu manninn þarna? Þetta er alræmdur vandræðapési. Þú þarft að fylgjast vel með honum. Hann á eftir að hleypa öllu í bál og brand."
Hrekklaus dyravörðurinn lét ekki segja sér það tvisvar. Hann læddist aftan að manninum, stökk svo á hann með dyravarðafangbragði. Maðurinn var í skrúfstykki. Dyravörðurinn dró hann út á stétt og flýtti sér síðan að skella í lás. Maðurinn var alveg ringlaður. Hann bankaði - án árangurs - á dyrnar. Svo náði hann á leigubíl og fór. Þá opnaði dyravörðurinn dyrnar og allt féll í ljúfa löð.
Billy hrósaði dyraverðinum fyrir snöfurleg vinnubrögð. Við mig sagði hann: "Nú getur hann skráð í dagbók staðarins að honum hafi með lagni tekist að afstýra heilmiklu veseni!"
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
3.12.2024 | 09:02
Þegar Jón Þorleifs kaus óvænt
Jón heitinn Þorleifsson var í stöðugri uppreisn. Hann var verkamaður en snéri sér að ritstörfum kominn á efri ár. Hann naut sín við að yrkja níðvísur og deila á menn og málefni.
Hann notaði nánast aldrei atkvæðarétt sinn. Þó mætti hann á kjörstað. Þar skráði hann níðvísu um einhvern eða einhverja á kjörseðilinn.
Svo bar til einn bjartan kosningadag að þingmaður Alþýðubandalagsins mætti Jóni á gangi. Þeir voru kunnugir og heilsuðust.
- Sæll Jón minn. Ertu búinn að kjósa? spurði maðurinn.
- Já, aldrei þessu vant, svaraði Jón.
- Kaustu rétt?
- Það veit ég ekki. Ég krossaði við Alþýðubandalagið.
- Þakka þér kærlega fyrir atkvæðið. Hvað kom til?
- Þetta var eina ráðið sem ég hafði til að strika yfir nafnið þitt!