Færsluflokkur: Spaugilegt
24.6.2024 | 08:40
Gleymdi barni
Ég var úti að aka. Langaði að hlusta á eitthvað áheyrilegt í útvarpinu. Tók upp á því - í óeiginlegri merkingu - að sigla á sjóbrettum um öldur ljósvakans. "Sörfa". Að því kom að ég heyrði spjall tveggja manna. Annar spurði hinn um ævi og störf. Þar á meðal um barneignir.
- Ég á þrjú börn, upplýsti hann.
- Á hvaða aldri eru þau?
- Nei, heyrðu, ég á fjögur börn. Ég gleymdi yngsta stráknum!
18.6.2024 | 08:06
Brjálaður glæfraakstur Önnu frænku á Hesteyri
Áratugum saman var vegurinn niður í Mjóafjörð einn brattasti, versti og hættulegasti vegur landsins. Ökumenn - með stáltaugar - fóru fetið. Einu sinni var Vilhjálmur Hjálmarsson í Brekku í Mjóafirði að leggja í hann niður í fjörð. Það var svartaþoka. Nánast ekkert skyggni. Hann kveið ferðalaginu.
Hann var ekki langt kominn er bíll Önnu Mörtu frænku á Hesteyri blasti við. Bíllinn mjakaðist löturhægt niður veginn. Anna ók reyndar alltaf mjög hægt. Vilhjálmur fann fyrir öryggi í þessum aðstæðum.
Skyndilega gaf Anna hressilega í. Hún brunaði inn í þokuna. Vilhjálmi var illa brugðið. Hann sá í hendi sér að´hún gæti ekki haldið bílnum á veginum á þessum hraða. Síst af öllu í engu skyggni. Hann ákvað að tapa ekki sjónum af afturljósum Önnu. Hann yrði að komast á slysstað þegar - en ekki ef - bíllinn brunaði út af. Skelfingu lostinn þurfti hann að hafa sig allan við að halda í við Önnu.
Greinilega hafði eitthvað komið yfir Önnu. Hún hélt áfram að auka hraðann. Vilhjálmur þorði ekki að líta á hraðamæli. Honum var ekki óhætt að líta sekúndubrot af afturljósunum.
Þegar þau komu niður í dal létti þoku. Anna ók út í kant og stöðvaði. Vilhjálmur gerði það einnig; hljóp til Önnu, reif upp hurðina og spurði hvað væri í gangi. Hún kom ekki upp orði um stund. Hún var í losti; andaði eins og físibelgur og starði með galopin augu í angist á Vilhjálm. Loks tókst henni að stynja upp:
"Ég óttaðist að þú reyndir að taka framúr. Vegurinn býður ekki upp á framúrakstur. Í svona svartaþoku er lífshættulegt að reyna það. Ég varð að gera hvað ég gat til að hindra það!"
Spaugilegt | Breytt 19.6.2024 kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
11.6.2024 | 08:22
Hlálegur misskilningur
Fyrir næstum hálfri öld átti ungur Íslendingur erindi til Lundúnaborgar. Á þessum árum voru menn ekkert að ferðast til útlanda bara að gamni sínu. Enda ferðalög dýr, sem og hótelgisting og uppihald.
Sameiginlegur kunningi okkar ákvað að nýta tækifærið. Hann bað vininn um að kaupa fyrir sig Labb-rabb tæki. Þau voru nýlega komin á markað og kostuðu mikið á Íslandi. Sögur fóru af því að þau væru mun ódýrari í Bretlandi. Labb-rabb eru handhægar talstöðvar með nokkurra kílómetra drægni.
Er Íslendingurinn snéri heim voru engin Labb-rabb tæki meðferðis. Hafði kappinn þó þrætt samviskusamlegar allar verslanir í London sem voru líklegar til að selja tækin. Enginn kannaðist við Labb-rabb.
Þetta vakti undrun í vinahópnum. Eftir miklar vangaveltur kom í ljós að ferðlangurinn hafði ekki áttað sig á að Labb-rabb er íslensk þýðing á enska heitinu Walkie Talkie!
4.6.2024 | 09:45
Áthylisverð nöfn á bæjum og götum
Fólk er áhugasamt og sumt viðkvæmt fyrir nöfnum á götum, bæjum og þorpum. Í Þýskalandi er bær sem heitir því líflega nafni Fucking. Hann lokkar að enskumælandi ferðamenn í halarófu. Það gerir gott fyrir sveitarfélagið. Verra er að þessir ferðamenn eru fingralangir. Þeir stela skiltum sem bera nafn bæjarins.
Í Bandaríkjunum gera heimamenn út á þorpið Hell. Þeir bjóða gestum og gangandi upp á ótal söluvarning merktan því. Í Noregi er líka bær sem heitir Hell. Þar stela ferðamenn einu og öðru.
Í miðbæ Þórshafnar í Færeyjum er gata sem heitir Tittlingsvegur. Íslendingum þykir gaman að smella í sjálfu við götuheitið.
Í Hollandi er gata sem áður bar nafn sem hljómaði líkt og víagra. Þegar stinningarlyfið Viagra kom fram á sjónarsvið og öðlaðist vinsældir höfðu heimamenn ekki húmor fyrir nafninu. Þeir skiptu um nafn á götunni.
Á síðustu öld reisti Sjálfstæðisflokkurinn bækistöðvar í Bolholti. Frammámenn í flokknum fengu að skrá húsið við Háaleitisbraut. Ég veit ekki af hverju.
28.5.2024 | 09:20
Ótrúleg ósvífni
Kunningi minn, Nonni, bætti við sig áfanga í skóla fyrir nokkrum árum. Til að fagna ákvað hann að blása til matarveislu. Sá hængur er á að hann kann ekki að matreiða. Vandamálið er ekki stærra en svo að á höfuðborgarsvæðinu eru ótal veitingastaðir. Þar á meðal einn asískur í göngufæri frá vinnustað Nonna.
Hann mætti á staðinn og spurði eftir yfirmanni. Sá birtist brosandi út að eyrum og einstaklega góðlegur á svip. Hann sagðist heita Davíð og vera eigandi.
Nonni bar upp erindið; hann væri að leita tilboða í 20 manna veislu. Davíð brosti breiðar og sagði: "Þú þarft ekki að leita tilboða. Ég gef þér tilboð sem undirbýður öll önnur veitingahús. Þú velur einn tiltekinn rétt fyrir hópinn og ég gef þér 50% afslátt! Til að það gangi upp erum við að tala um pappírslaus viðskipti."
Nonni gekk að þessu. Þeir innsigluðu samkomulagið með handabandi og Davíð knúsaði þennan nýja vin sinn.
Nokkrum dögum síðar mætti Nonni með gesti sína. Þeim var vísað til sætis og matur borinn fram: Væn hrúga af hrísgrjónum og örfáir munnbitar af svíni í sósu.
Afgreiðsludaman tilkynnti ítrekað að gestir með sérrétt mættu ekki fá sér af nálægu hlaðborði.
Í lok máltíðar grínuðust menn með að vera enn glorhungraðir eftir þennan litla "barnaskammt". Nonni hnippti í afgreiðsludömuna og spurði hvort möguleiki væri á ábót fyrir þá sem væru ennþá svangir. Hún tók erindinu vel. Snaraðist inn í eldhús og sótti stóran hrísgrjónapott. Spurði hvort einhver vildi aukaskammt af hrísgrjónum. Einhverjir þáðu það en nefndu að löngun væri meiri í kjötbita. Það var ekki í boði.
Með ólund rétti Nonni afgreiðsludömunni 29000 kall. "Nei, pakkinn er 58000 kall," mótmælti daman. "Davíð samdi um 50% afslátt," útskýrði hann. Hún fullyrti á móti að það væri aldrei gefinn afsláttur. Eftir þref bað hann dömuna um að hringja í Davíð. Nonni skildi ekki asíumálið en þótti undarlegt að konan hló og flissaði. Eftir símtalið sagði hún Davíð ráma í að hafa boðið 10% afslátt.Nonni þyrfti því að borga "aðeins" 52200 kall.
Þungt var í Nonna er hann gekk heim. Hann er sannfærður um að Davíð hafi sviðsett leikrit. Ekki síst núna þegar Davíð er opinberlega sakaður um mansal og fleiri glæpi.
Spaugilegt | Breytt 29.5.2024 kl. 08:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
15.5.2024 | 09:44
Hver mælti svo?
Eftirfarandi gullmolar hrukku upp úr einum og sama manninum fyrir nokkrum árum þegar hann var áberandi í umræðunni. Hver er það?
- Ég veit að manneskja og fiskur geta átt friðsamleg samskipti!
- Sífellt meira af innflutningi okkar kemur frá útlöndum!
- Eitt það frábæra við bækur er að stundum innihalda þær flottar myndir!
- Ég held að við getum verið sammála um að fortíðin er liðin!
- Hvað hef ég heilsað mörgum með handabandi?
- Ég vona að við komumst til botns í svarinu. Ég hef áhuga á að vita það.
- Ef þú hefur engan málstað að verja þá hefur þú engan málstað að verja!
- Washington DC er staðurinn þar sem fólk stekkur út úr tófugreninu áður en fyrsta skotinu er hleypt af!
- Þegar ég tala um mig og þegar hann talar um mig þá erum við báðir að tala um mig!
8.5.2024 | 08:42
Gullmolar
Sagan segir að lagið Good Vibration hafi verið samið í sýrutrippi. Hið rétta er að ég samdi það í hassvímu! (Brian Wilson, Beach Boys)
Ég var eina manneskjan á Woodstock sem var ekki á sýrutrippi (Joe Cocker. Hann var "bara" blindfullur).
Ég dópaði aldrei. Djússaði bara. Mér gast ekki að hugmyndinni að vera stöðugt í slagtogi með lögreglunni! (Robert Wyatt)
Það skemmtilega við elliglöp er að maður rekst stöðugt á nýtt áhugavert fólk! (Paul McCartney)
Einhver líkti því við kynmök við górillu að prófa dóp. Þú sleppur ekki fyrr en górillan ákveður það! (Peter Tork, Monkees)
Ef þú ert svalur þá veistu ekki af því! (Keith Richards)
Keith gerir út á vorkunn. Hann reddar sér oft fyrir horn með því að segjast vera heilaskaddaður! (Ronnie Wood, Rolling Stones)
Led Zeppelin keppti ekki við neina. Við vorum besta hljómsveitin. Enginn gat keppt við okkur! (Robert Plant).
Lagasmíðar verða að vera mitt lifibrauð. Ég kann ekkert annað! (Ray Davis, Kinks)
Ég verð að vera bjartsýnn. Annars yrði ég að semja píkupopp og græða sand af seðlum! (Steve Earle).
Ef þú verður að setja mig í bás þá er uppáhaldsbásinn minn ásatrú. (Neil Young)
Í 4000 ár hafa skipulögð trúarbrögð reynt að fela þá staðreynd að tunglmánuðirnir eru 13. Þau reyna að fela töluna 13 af því þau vilja ekki að náttúran sé samkvæm sjálfri sér. (Björk)
23.4.2024 | 09:03
Anna frænka og hraðsuðuketillinn
Þegar móðir Önnu frænku, Lára, féll frá varð hún einstæðingur. Faðir hennar féll frá einhverjum árum áður. Hún sló á einmanaleikann með því að hringja oft og títt í innhringitíma Rásar 2. Fyrir ofan síma hennar voru spjöld með símanúmerum nánustu ættingja. Eitt spjaldið var tvöfalt stærra en hin. Símanúmer Rásar 2 fyllti út í það.
Lára var jörðuð í fjölskyldugrafreit á Hesteyri, eins og afi minn og amma. Að jarðarför lokinni fylgdi Anna presthjónunum inn í kaffi. Þar setti hún hraðsuðuketil í samband. Rafmagnsnúran var klædd tauefni. Einhverra hluta vegna hafði hún slitnað í sundur. Anna splæsti hana saman með álpappír.
Anna bauð prestfrúnni að grípa um álpappírinn.
"Það er svo gott að koma við hann þegar ketillinn er í gangi," útskýrði Anna og skríkti úr hlátri. "Hí hí hí, það kitlar!"
Spaugilegt | Breytt 24.4.2024 kl. 08:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.4.2024 | 08:04
Örstutt og snaggaralegt leikrit um handrið
Persónur og leikendur:
Miðaldra kvenforstjóri
Álappalegur unglingspiltur
----------------------------------------------------------------------------------
Forstjórinn (horfir í forundran á piltinn baslast við að koma stóru handriði inn á gólf). Hvað er í gangi?
Piltur: Ég fann gott handrið!
Forstjórinn: Til hvers?
Piltur: Þú sagðir á föstudaginn að okkur vanti gott handrið. Ég leitaði að svoleiðis alla helgina og fann þetta í næstu götu.
Forstjórinn: Ég hef aldrei talað um handrið.
Piltur: Jú. þú sagðir að okkur vanti gott handrið til að taka þátt í jólabókaflóðinu í haust.
Forstjórinn: Ég sagði handrit; að okkur vanti gott handrit!
Tjaldið fellur.
Spaugilegt | Breytt 9.5.2024 kl. 17:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
27.3.2024 | 08:43
Eftirminnilegur jólapakki frá Önnu frænku á Hesteyri
Móðir mín og Anna Marta á Hesteyri í Mjóafirði voru bræðradætur. Kannski var það þess vegna sem þær skiptust á jólagjöfum. Ein jólin fékk mamma frá Önnu langan og mjóan konfektkassa. Hann var samanbrotinn í miðjunni. Endarnir voru kyrfilega bundnir saman með límbandi. Með fylgdi heimagert jólakort. Anna var ágætur teiknari. Hún skreytti kortið með teikningum af jólatrjágreinum og fleiru jólaskrauti. Í kortið voru meðal annars þessi skilaboð:
"Láttu þér ekki bregða við að konfektkassinn sé samanbrotinn. Það er með vilja gert til að konfektmolarnir verði ekki fyrir hnjaski í ótryggum póstflutningum."
Þegar mamma opnaði kassann blasti við ein allsherjar klessa. Einmitt vegna þess að hann var samanbrotinn. Molarnir voru mölbrotnir. Mjúkar fyllingarnar límdu klessuna saman við pappírinn.
Áfast pakkanum hékk límbandsrúlla. Anna hafði gleymt að klippa hana frá.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)