Færsluflokkur: Spaugilegt
12.9.2025 | 10:13
Furðulegur ágreiningur
Tveir vinir mínir hafa ólík sjónarmið til margra hluta. Eitt sinn voru þeir ágætir vinir. Nú andar köldu á milli þeirra. Einmitt vegna ólíkra viðhorfa.
Gulli starfaði lengst af sem sendibílstjóri í forföllum leyfishafa bílsins. Þegar leyfishafinn kom aftur til starfa fór Gulli í sjálfstæðan rekstur. Allt gekk á afturfótunum. Reksturinn sveif á hliðina. Hann tapaði leiguíbúð sinni. Í kjölfar fékk hann tímabundið inni hjá Halla vini sínum. Sá rak fyrirtæki á Selfossi en bjó heima hjá sér í Reykjavík um helgar. Þó sjaldan lengur en frá laugardagskvöldi og fram á mánudagsmorgun.
Gulli hóf leit að ódýrri leiguíbúð. Leitin bar árangur. Hann bað Halla um að lána sér sendibíl hans í örfáa daga svo hann gæti flutt búslóð sína. Halli sá engin vandkvæði á því. Þeir yrðu þó að skottast á bílnum til Selfoss morguninn eftir. Þaðan gæti hann reddað sér fari í bæinn um næstu helgi.
Þetta gekk eftir. Gulli settist undir stýri "til að kynnast bílnum." Er þeir renndu í hlað fyrir utan fyrirtæki Halla sagði Gulli ákveðinn: "Þetta er 20 þúsund kall."
Halli spurði hvað hann ætti við. Gulli svaraði: "Skutlið hingað kostar 20 þúsund kall!"
Halli varð ringlaður og sagði: "Bíddu við, þetta er minn bíll sem ég er að lána þér og þú býrð frítt heima hjá mér..."
Það fauk í Gulla. Hann æsti sig og hrópaði: "Það skiptir engu máli hver á bílinn. Fjöldi sendibílstjóra og leigubílstjóra á ekki bílinn sem þeir aka og það skiptir engu andskotans máli. Taxtinn fyrir skutl til Selfoss er 20 þúsund kall. Reyndu ekki að búa til vesen. Þú vilt ekki kynnast mér reiðum. Komdu með þennan 20 þúsund kall og ekkert rugl!"
Halli var ennþá ringlaður. Honum var jafnframt brugðið við æsinginn í Gulla. Eiginlega ósjálfrátt kippti hann 20 þúsund kalli upp úr vasa sínum. Þeytti honum í Gulla og kallaði um leið og hann stökk út úr bílnum: "Verði þér kærlega að góðu!"
Halli var afar ósáttur er hann sagði mér frá þessu. Ég spurði Gulla út í söguna. Það var þungt í honum: "Halli er svo heimskur að hann fattar ekki að sendibílstjóri undir stýri er að vinna. Það breytir engu um hver á bílinn. Ég eyddi næstum 2 tímum í Selfossskutlið. Ég stóð í flutningum og hafði nóg annað að gera við tímann!"
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
5.9.2025 | 10:55
Örstutt og snaggaralegt leikrit
Persónur eru tveir menn á tíræðisaldri. Annar situr á bekk við göngustíg. Hann er í stuttbuxum og ermalausum bol. Hinn kemur skokkandi, móður og másandi. Hann er í þykkri úlpu, með prjónahúfu undir hettunni, trefil um hálsinn og hnausþykka prjónavettlinga á höndum. Hann stillir sér upp fyrir framan þann léttklædda.
- Góðan dag. Ég er staðráðinn í að kasta mæðunni í smá stund.
- Góðan og blessaðan daginn í allan dag og fram til morguns.
- Ég heiti Jón Sigurðsson, kallaður Kiddi Skokk.
- Hvers son segist þú vera?
- Ég er oftast Pétursson. Heitir þú eitthvað?
- Nei, en ég er kallaður Palli eða Kalli. Ég er farinn að tapa heyrn þannig að ég veit ekki hvort er.
- Hvað gerir þú, strákur?
- Ég? Ertu að tala við mig?
- Það eru ekkert rosalega margir aðrir hér, er það?
- Ég er bara gestur.
- Er það vinna?
- Eiginlega frekar tómstundagaman.
- Í hverju felst það?
- Ég leyfi sköpunargleðinni að brokka eða fara á skeið. Jafnvel stökk.
- Fyrirgefðu, sagðist þú vera gestur eða hestur?
- Gestur.
- Ertu skyldur Gesti Einari Jónssyni, leikara?
- Nei, en ég hef heyrt um mann sem er skyldur honum. Ég hef það þó ekki frá fyrstu hendi
- Þú segir fréttir. Ég er heldur ekki skyldur honum. Við eru þá sennilega frændur.
- Ég er ekki viss um að ég sé skyldur neinum. Ég hef aldrei heyrt neitt um það.
- Allir eru skyldir einhverjum.
- Það er áróður.
- Er ekki allt áróður?
- Eru sokkarnir þínir áróður?
- Kannski og kannski ekki. (Dregur tvö Prince Polo upp úr vasa sínum og réttir hinum annað þeirra).
- Bestu þakkir (Rífur bréfið í ákafa utan af, hendir súkkulaðikexinu en stingur bréfinu upp í sig og kyngir).
- Hendirðu súkkulaðinu?
- Þetta er ekki súkkulaði. Þetta er spýta sem bréfið er vafið utanum til að halda því sléttu og lystugu. Annars myndi enginn kaupa þetta óæti. Þeir sem eru vanir að borða spýtur átta sig strax á þessu.
- Alltaf lærir maður eitthvað nýtt í landafræði. Vertu svo margblessaður frá öllum hliðum.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
29.8.2025 | 10:25
Týndi bílnum
Anna Marta Guðmundsdóttir frænka mín á Hesteyri í Mjóafirði var komin yfir miðjan aldur er hún tók bílpróf. Þökk sé Jóni Karlssyni frænda okkar. Hann gaf henni bílpróf og bíl. Fram að þeim tíma hafði hún haldið sig að mestu í Mjóafirði - ef frá er talið að einstaka sinnum fór hún með áætlunarbát til Neskaupsstaðar.
Komin á bíl brunaði Anna upp í Egilsstaði. Þar blasti við reisulegur stórmarkaður. Þangað hélt hún og gerði einhver spennandi innkaup. Er hún kom aftur út á bílaplanið fann hún ekki bílinn sinn. Enda margir bílar þarna hver öðrum líkari. Eftir mikla leit og rölt gafst hún upp. Hún fékk starfsmann búðarinnar til að hringja á lögguna. Löggan kom og fann bílinn undir eins. Hann var þarna á planinu og Anna áreiðanlega búin að ganga ítrekað framhjá honum.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
22.8.2025 | 11:36
Herkænska
Ég skrapp í Ikea. Keypti mér þar skæri og hélt síðan á veitingasvæðið. Þar fékk ég mér lax. Á næsta borði sátu nokkur ungmenni. Kannski um tvítug. Ég fylgdist ekkert með þeim þangað til sími pípti hjá einum drengnum. Hann kíkti á sms skilaboð, dæsti og sagði: "Æ andskotinn. Framkvæmdastjórinn boðar mig á fund í fyrramálið."
- Hvað er í gangi? spurði annar.
- Ég held að hann ætli að reka mig. Hann hefur hótað því, útskýrði drengurinn og hélt svo áfram: Ég ætla að byrja fundinn á því að rétta honum uppsagnarbréf. Reka hann áður en hann rekur mig. Hann getur ekki rekið mig ef hann er ekki lengur framkvæmdastjóri!
- Getur þú rekið hann?
- Ég læt allavega reyna á það!
7.8.2025 | 10:07
Dularfulla kexið
Eitt sinn heyrði ég sögu af nafngreindum eldri bræðrum. Þeir bjuggu tveir saman á sveitabæ í nágrenni Bolungarvíkur. Þeir stunduðu fjárbúskap. Fátt var um gestakomur til þeirra. Þó brá svo við einn daginn að farandsali heilsaði upp á þá. Annar bróðirinn bauð honum upp á kaffi og mjólkurkex. Hann bleytti upp í kexinu með því að dýfa því ofan í kaffið. Það mýkti kexið. Er hann hafði sporðrennt nokkrum kexbitum spurði gestgjafinn:
- Þykir þér vera skrýtið bragð af kexinu?
Gesturinn velti bragðinu og spurningunni fyrir sér og kvað hálf hikandi nei við. Bróðirinn mælti:
- Bróðir minn heldur því fram að kötturinn hafi migið í kexkassann. Ég held ekki.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 15:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
24.7.2025 | 10:05
Hlálegt
Opal er rammíslenskt jórtursælgæti í töfluformi. Það kom á markað á fyrri hluta síðustu aldar. Í Danmörku heitir það Obal. Ástæðan er sú að einhver danskur grallari varð fyrri til að tryggja sér einkarétt á nafninu Opal á dönskum markaði.
Sagan segir að upphaflega hafi Opal verið pappalím. Menn sem unnu við að líma saman pappakassa sóttu í að jórtra storknað límið. Svo datt þeim í hug að bragðbæta það. Þá varð þetta hið ágætasta nammi. Í kjölfar var stofnað fyrirtækið Opal og opalið selt í töfluformi. Það sló í gegn. Síðar keypti sælgætisgerðin Nói fyrirtækið sem þá var í blóma.
17.7.2025 | 10:33
Undarlegar nágrannaerjur
Ég átti erindi í smáíbúðahverfi; skutlaði þangað dóti til kunningja. Við stóðum við útidyrnar er nágranni renndi í hlað. Kunninginn kastaði glaðlega kveðju á hann. Viðbrögðin voru: "Haltu kjafti, fáviti!"
Kunninginn er ör og hvatvís. Hann er aldrei kyrr. Sama hvort hann horfir á sjónvarp eða situr í kirkju. Hann sprettur ítrekað á fætur til að senda sms eða sækja penna út í bíl. Ókyrrðin getur komið sér vel.
Hann útskýrði fyrir mér hegðun nágrannans: "Um síðustu helgi tók ég garðinn minn í gegn; sló, snyrti blómabeð, bjó til þetta kúlulagamunstur á limgerðið. Ég gleymdi mér í gróðri og mold. Rankaði allt í einu við að ég var farinn að taka til í þessum samliggjandi garði nágrannans. Ekki veitti af. Ég stakk upp blómabeð og endurraðaði blómum til að ná fram betri litasamsetningu. Sérðu þrepin þarna? Þetta var bara ljótur grjótbingur. Nokkrum dögum síðar kom nágranninn frá útlöndum. Hann trylltist. Sakaði mig um ósvífni, frekju, yfirgang og afskiptasemi. Ég átti frekar von á þakklæti. Maðurinn er eitthvað vanstilltur. Þú heyrðir hvernig hann hreytti í mig áðan. Það er annað en gaman að búa við hliðina á svona skapstirðum nágranna!"
10.7.2025 | 10:08
Rökfastur krakki
Ég renndi með bílinn í bifreiðaskoðun. Tími kominn á það árlega og nauðsynlega eftirlit. Á biðstofunni var ungt par með lítinn gutta. Ég giska á að hann sé þriggja ára eða rúmlega það. Mamman tilkynnti honum: "Eftir skoðunina kíkjum við í heimsókn til Gunnu ömmu og Nonna afa. Manstu hvar þau eiga heima?"
Jú, pilturinn romsaði heimilisfanginu út úr sér. Mamman hélt áfram: "Manstu hvar Halli afi á heima?"
Stráksi sagðist ekki þurfa að muna það. Mamman mótmælti. Sagði það geta komið sér vel að kunna heimilisfangið.
Stráksi útskýrði: "Við heimsækjum Halla afa aldrei. Hann heimsækir okkur. Það er hann sem þarf að vita hvar við eigum heima!"
3.7.2025 | 10:58
Ástarsvik eða?
Hann er á sjötugs aldri. Á enga vini og er ekki í samskiptum við neina ættingja. Skapgerðarbrestir eiga hlut að máli. Hann pirrast af litlu tilefni, snöggreiðist og verður stóryrtur.
Hann er heilsulítill offitusjúklingur; étur daglega lófafylli af pillum. Hann er nánast rúmfastur vegna orkuleysis, mæði, blóðþrýstings, brjóstsviða, magakveisu og allskonar.
Hann er mjög einmana. Fyrir nokkrum árum skráði hann sig á stefnumótavefinn Tinder. Um leið og hann skráði sig heilsaði upp á hann þrítug fegurðardís í Úkraínu. Hún sagðist vera forfallin Íslandsaðdáandi. Hún fagnaði því að ná sambandi við Íslending. Þau spjölluðu vel og lengi. Og ítrekað. Fljótlega samdi daman um að þau myndu skrá sig af Tinder og þróa þeirra samband.
Stúlkan er í stopulli vinnu og hugsar um veika móðir sína. Hún er í fjárhagsvandræðum. Að því kom að hún bað um smá peningalán. Svo færði hún sig upp á skaftið. Aldrei er neitt endurgreitt. Hún fór að ávarpa kallinn sem "kæra eiginmann sinn". Hann er uppveðraður af því. Sýnir hverjum sem er ljósmynd af fallegu eiginkonu sinni.
Verra er að hann gengur nærri sér til að senda "eiginkonunni" sem mestan pening í hverjum mánuði. Hann sveltir dögum saman og nær ekki alltaf að leysa út lyfin sín með tilheyrandi afleiðingum.
Konunni til afsökunar má telja að hún veit ekki af heilsuleysi mannsins. Á móti kemur að samband þeirra gefur tilveru hans lit. Það slær á einmanaleikann.
Spaugilegt | Breytt 4.7.2025 kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
12.6.2025 | 10:22
Ógeðfelld grilluppskrift
Þessa dagana eru netsíður, blöð og tímarit uppfull af tillögum um hitt og þetta varðandi grill og matseld. Lesendur eru hvattir til að brjóta upp hversdaginn og prófa þetta og hitt á grillið. Fyrirsagnirnar eru: "Tilvalið að grilla pizzur með banönum og bláberjum!" "Tilvalið að grilla pizzur með ís og súkkulaði!" "Tilvalið að grilla pizzur með lifrapylsu!".
Ólystugasta uppskriftin birtist fyrir nokkrum árum í dagblaði. Þar sagði: "Tilvalið að grilla pizzur með börnunum!" Ég hef ekki getað hætt að hugsa um þetta. Að vísu er víða þröngt í búi, börn dýr í rekstri og það má alltaf búa til fleiri börn. Samt...