Færsluflokkur: Spaugilegt

Lulla frænka og Jón Þorleifs

 

  Jón Þorleifs,  rithöfundur,  og Lulla frænka áttu ekki skap saman.  Þau voru bæði það sem kalla má heimagangar hjá mér.  Og einnig hjá Júlíu systur minni.  Oft bar þau að á svipuðum tíma.  Enda komu þau helst að kvöldi til.  Stundum fyrr um helgar.  

  Einhverra hluta vegna virtu þau hvort annað vart viðlits.  Lulla hafði engan áhuga á frásögnum Jóns af óréttlæti heimsins og þeirri baráttu sem hann stóð í við verkalýðsforingja.  Hún tók aldrei undir neitt sem hann sagði né sýndi önnur viðbrögð.  Það var frekar að hún snéri tali að einhverju allt öðru.  Greip þá stundum orðið af Jóni og fór að tala um drauga eða eitthvað annað.  Jón lét eins og hann heyrði ekki í henni.  Þagði á meðan hún talaði.  Þegar hún þagnaði hélt hann áfram að tala um Gvend Jaka og Eðvarð Sigurðsson.

  Lulla og Jón bjuggu á sama blettinum.  Hann við Hlemm og hún á Skúlagötu fyrir neðan Hlemm.  Jón var bíllaus.  Ótal oft,  einkum þegar kalt var í veðri,  var stungið upp á því að Jón fengi far með Lullu heim á leið.  Nei,  það kom aldrei til greina af hálfu Jóns.  Hann kaus heldur að ganga - þó að leiðin væri margir kílómetrar;  alveg frá Skipasundi eða Ásgarði.  

  Ég tel víst að Lulla hafi lítið skilið í því sem Jón talaði mest um.  

  Eitt sinn var afmælisveisla heima hjá systur minni.  Ég og mitt fólk mætti.  Líka Lulla og Jón.  Þegar sest var við veisluborð kveikti Lulla sér í sígarettu.  Eftir smá stund spratt Jón óvenju snöggur í hreyfingum fram í eldhús.  Að vörmu spori kom hann með öskubakka,  lagði hann á borðið fyrir framan Lullu og tilkynnti:  "Hér er öskubakki fyrir þig."   Öskubakkinn kom sér vel því að Lulla keðjureykti að venju.  

  Síðar,  þegar Lulla og fleiri gestir,  höfðu kvatt sagði systir mín við Jón:  "Takk fyrir að sýna Lullu frænku þessi almennalegheit;  að sækja fyrir hana öskubakka."

  Það hnussaði í Jóni og hann svaraði:  "Ég var ekkert að sýna henni nein almennalegheit.  Ég sá að konubjálfinn hafði enga rænu á að slá ösku af sígarettunni.  Ég var að bjarga gólfteppinu.

-----------------------

Fleiri sögur af Jóni:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1396811/

Of af Lullu frænku:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1390234/

 


Eru Íslendingar of bláeygir?

  Fyrir nokkrum áratugum hafði aldrei verið framið bankarán á Íslandi.  Sú staðreynd var svo eðlileg að enginn hugsaði út í þann möguleika að eitthvað slíkt gæti gerst á Íslandi.  Svo gerðist það að maður með lambhúshettu bankaði á bakdyr í banka í Breiðholti.  Þetta var eftir lokun bankans.  Starfsmaður bankans opnaði dyrnar og hleypti lambhúshettumanninum inn.  Hvorugur sagði orð.  Starfsmaðurinn gekk út frá því sem vísu að þetta væri einhver að sækja konuna sína úr vinnu í bankanum.

  Lambhúshettumaðurinn gekk að gjaldkerastúku og hrifsaði til sín alla seðlana þar.  Starfsfólk bankans horfði á og hugsaði með sér:  "Þetta er nú meiri grínistinn!"  Svo hélt það áfram að vinna.  Lambhúshettumaðurinn yfirgaf bankann.  Starfsfólkið reiknaði með að hann kæmi aftur og segðist hafa verið að grínast.  En það gerðist ekki.  Síðan hefur ekkert til mannsins né peninganna spurst.  

  Löngu síðar komst starfsfólk bankans að þeirri niðurstöðu - í samráði við lögregluna - að um bankarán hafi verið að ræða.  Vandamálið var það að starfsfólkið hafði eiginlega ekki veitt manninum neina athygli.  Það átti í erfiðleikum með að muna klæðaburð hans eða annað.  Nema að allir mundu eftir því að hann var með lambhúshettu.  Einhver taldi sig hafa séð út undan sér er maðurinn hvarf út í myrkrið að göngulag hans hefði verið fjaðrandi er hann steig yfir þröskuldinn.  Sá sami taldi sig hafa tekið eftir herðablöðum mannsins.   Þau hafi vísað út.  

  Þegar ljóst var að bankaþjófurinn myndi ekki gefa sig fram af sjálfsdáðum auglýsti lögreglan eftir manni með lambhúshettu,  útstæð herðablöð og fjaðrandi göngulag.   

  Það eina sem kom út úr því var niðurstaða aldraðrar konu sem fór - sjálfviljug - á ballettsýningu.  Hún tók eftir því að göngulag sumra dansaranna var fjaðrandi.  Hinsvegar var enginn þeirra með útstæð herðablöð.   

  Um svipað leyti tókst ungu pari að svíkja fé út úr pósthúsi.  Það hringdi í pósthús og sagðist vera að hringja frá banka.  Peningur hafi verið lagður inn í bankann og yrði sóttur í pósthúsið.  Svo var mætt í pósthúsið og sagt:  "Það á að vera kominn peningur til mín sem var lagður inn á banka."  Afreiðslukonan kannaðist við það og afhenti peninga án spurningar.   Það hafði aldrei hvarflað að neinum að neinn myndi misnota þetta einfalda og þægilega fyrirkomulag.

  Í mars var eldri maður dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að svíkja á annað hundrað milljónir út úr 16 manneskjum.  Í lok síðustu aldar var hann dæmdur í 20 mánaða fangelsi fyrir samskonar brot.  Þá brá svo við að hann var náðaður á þeirri forsendu að honum myndi líða illa í fangelsi.  Hann væri vanur að reka hótel,  tívolí,  billjardstofu og sjoppu og búa við lífsstíl sem er ólíkur þeim sem stela samloku og snærisspotta.  Líklegt væri að depurð myndi sækja að honum í fátæklega búnum fangaklefa.   

  Af dómnum í mars verður ekki ráðið annað en að maðurinn hafi síðustu áratugi verið í fullri vinnu við að svíkja fé út úr fólki.  Hann vann ekkert annað.  Hann þóttist vera auðmaður - og var það í raun vegna þess hve vel honum gekk að komast yfir fé annarra.   Hann bauðst til að gera fólk ríkt.  Það eina sem það þyrfti að gera væri að láta hann hafa allan sinn pening.  Svo myndi hann sjá um rest.  Ekkert gerðist annað en fólkinu var sagt að það þyrfti að láta manninn fá meiri pening svo að það yrði ennþá ríkara.       


mbl.is Ævintýraleg ákæra yfir „Sigga hakkara“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útlendingahræðsla

 jon_orleifs

  Jón heitinn Þorleifsson,  verkamaður og rithöfundur,  var ekki rasisti í þeim skilningi að honum væri illa við útlendinga.  Hann var oftast réttsýnn og mannréttindasinnaður.  Það var fjarri honum að sýna fólki af öðrum kynþáttum andúð og ókurteisi.  Að vísu voru djasstónlist og blús eitur í hans beinum.  Ekki vegna þess að það væri blökkumannatónlist heldur vegna þess að þetta var bandarísk músík.  Hann hafði horn í síðu bandaríska hersins á Miðnesheiði.  Einhverra hluta vegna setti hann rokkið ekki undir sama hatt.  Sennilega vegna þess að fjölmargir breskir og íslenskir tónlistarmenn spiluðu rokk.

  Jón hafði ekkert gaman af rokki en dáðist að vinsældum bresku Bítlanna,  Stóns og fleiri á heimsmarkaði.  Það hlakkaði í honum yfir því að breskir rokkarar væru vinsælli á alþjóðavettvangi en bandarískir.  Jón fylgdist með framvindunni og var nokkuð vel að sér um bresku rokkarana.  Einkum Bítlana.  Hann var óvenju vel að sér um Bítlana miðað við að músík þeirra höfðaði ekki til hans.  

  Reyndar var Jón fjölfróður um ótal margt.  Hann kunni ekkert erlent tungumál.  En  fylgdist vel með íslenskum fjölmiðlum.  Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar var Jón í heimsókn heima hjá mér þegar spurningaþættir á borð við Útsvar og Gettu betur voru í sjónvarpinu.  Jón gaf keppendum þar ekkert eftir.  Var iðulega snöggur til rétts svars.  

  Á seinni hluta síðustu aldar bjó Jón háaldraður í íbúð við Hlemm.  Á þeim tíma var dálítill straumur af fólki frá Asíu til Íslands.  Aðallega víetnömskum flóttamönnum og kvenfólki frá Tælandi og Filippseyjum.   Jón beit það í sig að kínverska eiturlyfjamafían væri búin að leggja undir sig Hlemm-svæðið.  Þar voru á stuttum tíma komin fjögur asísk veitingahús.  Jón taldi að stutt væri í að kínverska eiturlyfjamafían myndi leggja Ísland undir sig.  

  Rök hans voru:  "Af hverju þrífast íslensk veitingahús ekki við Hlemm?  Af hverju gengur kínverskum veitingahúsum betur?  Getur verið að þar sé selt eitthvað fleira en matur?  Hvar segir löggan að eiturlyfjasala fari helst fram?  Er það ekki við Hlemm?  Hvers vegna hreiðra Kínverjar um sig við Hlemm af öllum stöðum?  Hvað dregur þá að Hlemmi?  Fyrir hvað er kínverska mafían þekkt út um allan heim?  Er það ekki fyrir eiturlyfjasölu?  Ég er ekki fæddur í gær.  Ég legg saman 2 og 2.  Ég er búinn að átta mig á því hvað er í gangi."

  Þegar ég maldaði í móinn og gerði lítið úr hræðslu Jóns við kínversku eiturlyfjamafíuna sagði hann:  "Þú áttar þig á alvöru málsins þegar leigumorðingjar kínversku eiturlyfjamafíunnar fara að taka til sinna ráða.  Þetta eru engin lömb að leika sér við.

  Þarna - fyrir aldarfjórðungi eða svo - átti Jón sér mörg skoðanasystkini sem deildu með honum hræðslu við að kínverska eiturlyfjamafían væri að leggja íslenska dópmarkaðinn undir sig.  Nokkrum árum síðar færðist hræðslan yfir á rússnesku mafíuna.  Það tímabil stóð stutt yfir.  Það færðist eldsnöggt yfir á litháísku mafíuna.  Í undirheimum Reykjavíkur - þar sem handrukkun komst í tísku - þótti árangursríkt um tíma að hóta því að menn myndu fá heimsókn frá litháísku mafíunni.  

  Í dag gráta framsóknarkellingar - þar á meðal Savíð - sárt undan eigin hræðsluáróðri gegn múslímum.  

 

-------------------- 

Fleiri sögur af Jóni Þorleifs: 

http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1225402/

   


mbl.is Segir umræðuna viðbjóðslega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju strýkur fólk af elliheimilum?

 

  Iðulega má sjá og lesa í blöðum fréttir af gömlu fólki sem strýkur af elliheimilum.  Oftast til að komast í einhvern gleðskap.  Þetta vekur upp margar áleitnar spurningar:  Hvers vegna strýkur fólk af elliheimilum?  Af hverju þarf það að strjúka?  Hvað er til ráða svo draga megi úr stroki fólks af elliheimilum?

  Hugsanleg lausn er að leyfa fólkinu að vera frjálst ferða sinna.  Þá getur það ekki strokið.  Það bara fer þegar því langar til að bregða sér bæjarleið.   

  Önnur lausn er að bjóða reglulega upp á partý inni á elliheimilum.  Villt partý með þungarokki, dópi og fjölbreyttu kynlífi.   

 


mbl.is Strauk af elliheimili fyrir partí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klúður!

  Það eru ekki allir með alla hluti á hreinu alltaf.  Ólíklegustu hlutir geta þvælst fyrir hverjum sem er.  Sumir geta dvalið í Abu Dhabi í heilan mánuð án þess að koma auga á eina einustu kirkju.  Fyrir bragðið standa sumir í fullvissu um að þar séu engar kirkjur,  "eðli málsins samkvæmt" - þrátt fyrir að þar séu margar reisulegar kirkjur.

  Sumir eru urrandi ósáttir við að Reykjavíkurborg hafi úthlutað grísku rétttrúnaðarkirkjunni lóð undir kirkjubyggingu.  Það má mótmæla af minna tilefni.  Þrátt fyrir að gríska rétttrúnaðarkirkjan hafi aldrei sótt um lóð í Reykjavík.  Kannski er það einmitt þess vegna sem Reykjavíkurborg hefur ekki úthlutað grísku rétttrúnaðarkirkjunni lóð. 

  Sumir komast upp með að skila nýkeyptri þráðlausri fjarstýringu vegna þess að það "vantaði" tengisnúru.  Fulltrúinn í skiladeild verslunarinnar gerir enga athugasemd og skráir "gallann" samviskusamlega.    

klúður - þráðlaus - fantar tengisnúru 

  Það er gaman að kunna að fótósjoppa.  Það býður m.a. upp á að bæta við nokkrum lóðum á lyftingastöngina og pósta myndinni á Fésbók.  Jú, jú.  Gaurinn virðist vera kraftakall.  Þegar betur er að gáð má sjá spegil á veggnum fyrir aftan.  Hann sýnir aðeins eitt par af lóðum á lyftingastönginni.  Dáldið neyðarlegt klúður.   

klúður - fótósjoppuð lóð 

  Sumir eru ekki með landafræðina á hreinu.  Vita ekki að Miami er í Flórída. 

klúður - miami florida 

  Nestissamloka með osti.  Æ,  gleymdist að taka plastið utan af ostsneiðinni. 

klúður - ostur í plasti 

  Lesskilningur fólks er misjafn.  Ekki síst þegar kemur að skammstöfun. 

klúður - IDK 

  Úps! 

klúður - miley cyrus


Kvikmyndarumsögn

 

  - Titill:  Bad neighbours

  - Leikarar:  Seth Rogen,  Zag Efron...

  -  Leikstjóri:  Nicholas Stoller 

  -  Einkunn: **

  Söguþráðurinn býður upp á gott grín:  Vitgrönn hjón í Bandaríkjum Norður-Ameríku,  nýorðin foreldrar,  flytja í fjölskylduhverfi.  Svokallað bræðralagsfélag framhaldsskóla flytur inn í næsta hús.  Svona bræðralagsfélög eru afskaplega kjánalegt.  Kvikmyndin deilir í aðra röndina á þann aulahátt.  það skerst í odda á milli hjónanna og bræðralagsins.  Um hríð gengur á með skæruhernaði;  hefndum og gagnhefndum á víxl.  Þarna hefði mátt leggja meiri vinnu í handritið.  Það er ekkert fyndið við að rusli sé hent á lóð eða vatnslögn höggvin í sundur.  Loftpúðahrekkur er hinsvegar skemmtilega útfærður. 

  Allir sem við sögu koma eru verulega heimskir.  Ekkert ótrúverðugt við það út af fyrir sig.    

  Í upphafi er grínið í stíl aulahúmors og fíflaláta.  Niðurlagskafli er dauflegur og þunnur þrettándi.  EN þar á milli slæðast með nokkrir ágætir brandarar.  Í millikaflanum vottar sömuleiðis fyrir spennu í einstaka atriði.  Allt er þetta þó fyrirsjáanlegt og myndin nær aldrei flugi.

  Engu að síður:  Ef fólk hefur ekkert annað að gera þá er upplagt að skella sér í bíó.  Það má brosa nokkrum sinnum undir þessari mynd.  Hún er ekkert leiðinleg.        

  


Lulla frænka kaus

  Lulla föðursystir mín fylgdist ekkert með stjórnmálum.  Var að mestu áhugalaus um þau - ef undan er skilið að hún gætti þess vandlega að mæta ætíð á kjörstað.  Þar kaus hún Sjálfstæðisflokkinn,  eins og bræður sínir og fleiri ættingjar.  Hún lét Sjálfstæðisflokkinn sjá um pólitíkina;  þá þurfti hún þess ekki sjálf.  Einu áhyggjurnar sem hún hafði voru af því hvort að hún myndi gleyma að kjósa eða kjósa vitlaust fyrir klaufaskap eða ógilda kjörseðilinn.

  Lulla gerði ráðstafanir í tæka tíð til að tryggja að ekkert færi úrskeiðis.  Hún samdi við einhvern um að fylgja sér á kjörstað.  Eitt sinn fylgdi henni kona sem var afar stríðin og mikill stuðbolti.  Hún fylgdi Lullu að kjörklefanum svo langt sem það mátti.  Þetta var á áttunda áratugnum og reglur frjálslegri en í dag.  Njósnarar frá stjórnmálaflokkunum sátu við kjörklefann og skráðu hjá sér hverjir mættu á kjörstað og hvenær.  

  Fylgi stjórnmálaflokka var fastara í hendi en í dag.  Kjósendur fylgdu sínum flokki fram í rauðan dauðann hvað sem á gekk.  Þetta var eins og trúarbrögð eða áhang við fótboltalið.  Þeir sem mættu seint á kjörstað fengu upphringingu frá sínum flokki og voru hvattir til að drífa sig.  Þeim var boðin aðstoð í formi aksturs eða annars liðsinnis.   

  Lulla staulaðist inn í kjörklefann.  Síðan leið og beið.  Hún kom ekki aftur út úr honum.  Allir viðstaddir urðu langeygir.  Þeir horfðu með undrunar- og ráðaleysissvip hver á annan.  Svo mændu þeir á fylgdarkonu Lullu eins og hún gæti leyst málið.  Hún brosti glaðlega á móti og þótti biðin brosleg.

  Að mörgum mörgum mínútum liðnum heyrðist Lulla kalla hátt og snjallt:  "Er það D eins og drottinn?"

  Stríðna fylgdarkonan svaraði um hæl af hvatvísi:  "G eins og guð!" 

  Sumir viðstaddra hvesstu reiðilega augu að fylgdarkonunni.  Einn sýndi henni manndrápssvip.  Allir voru mjög alvörugefnir.  Henni þótti það gera hrekkinn við Lullu ennþá fyndnari.  Höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins,  Alþýðubandalagið,  var með listabókstafinn G.  Sjálf nýtti hún ekki kosningarétt sinn.  

  Nú gengu hlutir hraðar fyrir sig.  Lulla skilaði sér glaðbeitt að vörmu spori út úr kjörklefanum og stakk kjörseðlinum í kjörkassann.

  Þegar þær stöllurnar voru komnar út og sestar inn í bíl sagði Lulla:  "Það er skelfilega ruglingslegt að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki X-S.  Það ruglar mann í ríminu að hann sé með einhvern annan staf.  Ég var alveg á nálum.  Ég var svo hrædd um að kjósa vitlaust út af þessu rugli með stafinn!"   

--------------------

  Fleiri sögur af Lullu frænku:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1382276/

--------------------

tilboð á bjór


mbl.is Staðgengill borgarstjóra hefur afnot af bíl hans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki er allt sem sýnist

  Ljósmyndir eru heimild. En stundum þarf að horfa á ljósmynd tveívegis til að átta sig hvað er í gangi.  Þessi náungi er að spjalla við Boris Jeltsin og virðist hafa allt á hornum sér.  Þegar rýnt er í bakgrunn myndarinnar kemur skýring í ljós.   
ekki er allt sem sýnist - maður með horn
  Hér gæti austurískur söngvari verið að taka lagið.  Þegar betur er að gáð er það hár dömunnar sem sveiflast yfir andlitið og myndar eins og skegg (hægt er að smella á myndina til að hún verði stærri og skýarari.  
ekki er allt sem sýnist - austurrískur söngvari
 
 
 
  Hundur horfir á skuggamynd.  Svo virðist sem tveir ókunnugir gangandi vegfarendur séu að kyssast á næsta andartaki.   
ekki er allt sem sýnist - hundur horfir á skuggamynd
                                                                                               
   Kona flytur ávarp á strönd.  Hún virðist svífa yfir ströndina.  Skuggi af fána brenglar sjónarhornið.
  Andlitsmynd af rappara á skyrtubol á herðaslá virðist vera sem kauði sé að kíkja þarna á milli bolanna.  
ekki er allt sem sýnist - kona flytur ávarp á ströndekki er allt sem sýnist - andlitsmynd á bol

Áttavilltur lögregluþjónn

 

  Í kvikmyndinni sívinsælu,  Sódóma Reykjavík,  gengur einn af mörgum vel heppnuðum bröndurum út á það að ein persónan þekkir ekki mun á hægri og vinstri.  Þetta er smákrimmi sem Helgi Björnsson leikur af snilld.  Reyndar er það svo að mörgum,  einkum ungum börnum,  gengur illa að muna hvað er hægri og hvað er vinstri.  Flestir eru búnir að læra það þegar þeir eru komnir töluvert á fullorðinsár.

  Fyrir tveimur árum varð lögregluþjónn á Manhattan-eyju í Bandaríkjum Norður-Ameríku fyrir því að ungur reiður maður kýldi hann með olnboga af öllu afli í annað augað.  Á dögunum var málið dómtekið.

  Sækjandi og verjandi þráspurðu lögregluþjóninn um atvikið og eftirmála þess.  Í ljós kom að hann gerði engan greinarmun á vinstri og hægri.  Ítrekað benti hann á vinstra auga þegar hann nefndi hægra auga og öfugt.  

  Þetta olli miklum vandræðum.  Einkum setti þetta dómsritara í klípu og klúðraði að stórum hluta skráningu hans.  Hún fylgdi framsögn lögregluþjónsins að uppistöðu til en þurfti jafnframt að geta bendinga hans.  Þar stangaðist allt á.

  Önnur vandræði fylgdu því að lögregluþjónninn hafði í upphafi réttarhalda gengist undir eið,  svarið við gamlar þjóðsögur gyðinga í Arabíu,  að segja sannleikann og ekkert nema sannleikann.  Maður sem fer rangt með hægri og vinstri undir eið er í raun að rjúfa eiðinn og eyðileggja réttarhöldin.  Strangt til tekið.  

  Vegna þessara vandræða neyddist dómarinn í lok réttarhaldanna til að fá úr því skorið hvort að lögregluþjónninn vissi hvað væri hægri og hvað vinstri.  Hann skaut sér lipurlega undan því að svara já eða nei heldur sagði að í þessu tilfelli skipti það engu máli.  Til væru ljósmyndir og áverkavottorð sem sýndu hvort augað var slasað.  

 


Kettir

  Kettir eru eina húsdýrið sem valdi sjálft að verða húsdýr.  Kettir eru eiginhagsmunaseggir út í eitt.  Hjá köttum er ekkert til sem heitir trygglyndi.  Allt er á þeirra eigin forsendum út frá þeirra hagsmunum.

köttur auglýst eftir

  Auglýst eftir týndum ketti.   

köttur á priki

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Köttur á priki.

köttur fer í inniskó

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Köttur laumast í inniskó. 

köttur horfir yfir snjóruðning

 

 

 

 

 

 

 

 

 Köttur horfir yfir snjóruðning.

 Köttur með gorm á höfði.

köttur með gorm á hausnum köttur þykist ætla að kyrkja annan köttköttur skríður upp um lampaskermköttur skríður um fataskápköttur situr í tröppu

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.