Færsluflokkur: Spaugilegt
7.5.2014 | 22:09
Kattakaffi
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.5.2014 | 23:50
Óheppileg nöfn
Ég er ekki með söguna á hreinu. Á Norðurlöndunum heita íslensku Ópaltöflurnar OBAL. Ein sagan segir að Ópal þýði eitthvað dónalegt. Önnur saga segir að Ópal sé skrásett vörumerki en ónotað á Norðurlöndunum. Þriðja sagan segir að Ópal sé bæði dónalegt orð og líka skrásett og frátekið vörumerki. Hvað sem rétt er þá eru til mörg dæmi um að nöfn á sælgæti og öðru matarkyns hljómi illa þegar það er sett á markað í öðrum löndum en upprunalandi. Einkum á það við um asískar vörur sem eru merktar á ensku. Hér eru nokkur dæmi:
Þessi asíski drykkur heitir á ensku Gyðingaeyrnasafi. Eða kannski Gyðingaeyrnamergur?
Hér er rifsberjasulta. Sennilega er átt við að hún bragðist eins og heimagerð sulta ömmu. En yfirskriftin er "Bragðast eins og amma".
Ég veit ekki hver merkingin hefur átt að vera en þessi núðlusúpa heitir "Súpa fyrir druslur".
"Aðeins æla" er nafnið á snakkinu.
"Ristaðar apahreðjar"
"Piss kóla"
"Rifið barnakjöt"
"Extra typpi"
"Gautaborgar nauðgun"
Spaugilegt | Breytt 7.5.2014 kl. 00:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2014 | 22:30
Húðflúraklúður

Ég var að fá mér húðflúr. Sem er ekki í frásögu færandi. Það er merki færeyska OKKARA bjórsins. Húðflúrarinn sagði mér frá manni sem kom til hans í vandræðum. Maðurinn hélt upp á 10 ára edrúafmæli með því að láta húðflúra á sig Æðruleysisbænina. Sá sem framkvæmdi verkið var ekki í góðu formi. Fyrir bragðið var orðið breytt í tvígang skrifað með einföldu i. Í öðru tilfellinu vantaði að auki e. Edrúmaðurinn var og er í öngum sínum yfir þessu. Það er ekki hægt að laga klúðrið nema með því að gera það ennþá kjánalegra.
Flestir umgangast húðflúr af varfærni. Húðflúr er eitthvað sem fólk fær sér eftir vandlega yfirlegu. Húðflúr er svo gott sem varanlegt skraut á líkamann. Flestir sem á annað borð fá sér húðflúr fá sér aðeins eitt húðflúr. Tiltölulega fáir fá sér mörg húðflúr. Lengst af var húðflúr Íslendinga bundið við sjómenn. Enda engir starfandi húðflúrarar á Íslandi.
Erlendis, til að mynda í Bandaríkjum Norður-Ameríku og í Bretlandi, var húðflúr lengi vel einskorðað við þá sem sátu í fangelsi.
Í dag er auðvelt að fá sér húðflúr hvar sem er. Engu að síður vanda flestir val á húðflúri. Nema í Suðurríkjum Bandaríkja Norður-Ameríku. Þar gildir að menn redda sér. Málið er að kýla á hlutina og gera þá sjálfir fremur en að hafa hæfileika til að útkoman verði fagmannleg. Menn redda sér. Húðflúrin eru mörg hver ansi fjarri því að vera flott. Ótrúlega hallærislega ljót svo að ekki sé meira sagt.
Rangeygur hundur. Ofteiknaðar augabrúnir. Laufblöð í stað augabrúna.
"Dauði fremur en vanvirðing" er ágætt slagorð. En virkar ekki trúverðug eða ógnandi þegar leturgerðin er svona illa handteiknuð.
"Fjölskylda" er algeng yfirlýsing þeirra sem telja sig tilheyra gengi og eða mafíu. En það er engum til framdráttar að húðflúrið sé svona svakalega ljótt.

Húðflúr af dökkhærðri konu sýnir eiginlega vanskapaða ófreskju.

Ég veit ekki hvaða trúður þetta á að vera. Illa teiknað klúður.
Þarna er eitt frægasta og ljótasta húðflúr sögunnar. Ekkill fékk sér húðflúr, mynd af barnsmóðir þeirra 3ja barna. Hún fórst í eldsvoða. Húðflúrarinn klúðraði myndinni all svakalega, eins og gengur suður frá. Alvöru húðflúrari tók sig til og endurgerði myndina með glæsilegum árangri.

---------------------------------
Flugur sækja í athygli. Best er að þykjast ekki sjá þær.
Spaugilegt | Breytt 6.5.2014 kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.5.2014 | 23:27
Lulla frænka og karlamál
Lulla frænka bjó alla tíð ein. Þess á milli dvaldi hún á geðdeildum ýmissa stofnana. Hún nefndi oft hversu fögur hún væri. Sagðist vera svo lík ítölsku leikkonunni Sophiu Loren að fólk þekkti þær ekki í sundur. Lulla nefndi oft að hún hefði verið með fallegasta hár allra í Skagafirði. Sítt, svart og þykkt hár sem allir dáðust að.
Ég geri mér ekki grein fyrir því en ég held að Lulla hafi alveg verið nokkuð myndaleg. Eitt sinn spurði ég hana að því hvort að hún hafi aldrei átt kærasta. "Jú, ég átti kærasta sem hét Óli," svaraði Lulla.
"Hvað varð um hann?" spurði ég: "Hann var vitleysingur," svaraði Lulla og gaf ekkert frekar út á það.
Ég: "Af því að þú varst svona falleg þá hljóta karlmenn að hafa verið stöðugt að reyna við þig."
Lulla: "Já. Þá gaf ég þeim svoleiðis á kjaftinn að þeir reyndu það ekki aftur."
-------------
Fleir sögur af Lullu frænku: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1374813/
Spaugilegt | Breytt 3.5.2014 kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
30.4.2014 | 21:58
Páskar í Vesturheimi - IV
Um páskana var kvikmynd Baltasar Kormáks, Contraband, sýnd í bandarísku sjónvarpi. Hún var margspiluð á hverjum einasta degi. Það var gaman að sitja í setustofu fullri af ferðamönnum frá ýmsum löndum og fylgjast með þeim horfa á þessa ágætu mynd. Allir virtust kunna vel við myndina. Engin óskaði eftir því að skipta um sjónvarpsrás. Fólk sem rambaði inn í salinn eftir að myndin byrjaði beið í lok spennt eftir byrjuninni til að horfa á frá upphafi.
Fátt er um almennilegt drykkjarvatn í Bandaríkjunum. Í búðum er hægt að kaupa vatn. Ein tegundin ber af, Icelandic Glacial. Það er besta og ferskasta vatnið. Að auki í töff hannaðri flösku. Eins og nafnið gefur til kynna er vatnið rammíslenskt. Það er gaman að sjá Icelandic Glacial í bandarískum matvöruverslunum.

Ég reikna með að unglingar á kassa í bandarískum stórmörkuðum á borð við Walmart séu lágt launaðir. Svo gott sem allir eru hörundsdökkar stelpur þó að blökkumenn séu lágt hlutfall af íbúafjölda, í þessu tilfelli Washington DC. Stelpurnar eru kurteisar og kunna sína rullu.
Á hverjum degi keypti ég mínar Budweiser-kippur. Afgreiðsludaman tók fram þunnan gegnsæjan plastpoka og spurði: "Má bjóða þér annan poka?" Á því var ætíð þörf. Pokarnir eru það haldlitlir að þeir bera ekki þunga. Eitt kvöldið hljóp óvænt í mig galsi. Í stað þess að jánka öðrum poka spurði ég: "Hvað í ósköpunum ætti ég að gera við annan poka?"
Afgreiðsludaman svaraði um hæl: "Ég veit það ekki, herra. Verslunarstjórinn segir að ég eigi alltaf að spyrja að þessu."
Í annað skipti var afgreiðsludaman greinilega á sínum fyrsta vinnudegi. Margt vafðist fyrir henni þegar hún afgreiddi þá sem voru á undan mér í röð. Þegar röð kom að mér bað daman um persónuskilríki. Ég hváði. Daman útskýrði: "Þú ert að kaupa áfengan bjór. Ég þarf að ganga úr skugga um að þú hafir aldur til þess."
Ég (næstum sextugur): "Ókey. Er ég dálítið barnalegur í útliti?"
Hún: "Þetta er bara regla. Allir sem kaupa áfengan drykk verða að sýna fram á að þeir hafi aldur til þess."
Ég rétti dömunni vegabréfið mitt. Hún fletti upp í því og las ábúðafull upphátt: "08-05-1956. Já, þetta er í lagi."
Spaugilegt | Breytt 2.5.2014 kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2014 | 00:31
Lulla frænka og jólaöl
Þegar ég var í Myndlista- og handíðaskólanum á áttunda áratugnum var stranglega bannað að selja bjór á Íslandi (nema á Keflavíkurvelli). Þingheimur taldi bjór vera stórhættulegan drykk sem myndi tortíma mannkyninu. Ég hafði efasemdir og bruggaði dökkan bjór. Líka vegna þess að námslánin dugðu ekki til að ég gæti styrkt ríkiskassann með myndarlegum fjárframlögum í gegnum vínbúðir ÁTVR. Þrautalending var að brugga bjór.
Svo bar við eitt sunnudagskvöld að ég tappaði bjórnum á flöskur. Allt var á kafi í snjó (úti, vel að merkja) og ófærð. Þá birtist Lulla frænka skyndilega í útidyrunum hjá mér. Hún var alveg ónæm fyrir muni á færð og ófærð. Það vissi enginn til þess að hún hefði einhvertíma lent í vandræðum á Skodanum sínum vegna ófærðar. Þó hlýtur það að hafa gerst. Ég hef áður sagt frá því þegar öll umferð lá niðri í Reykjavík vegna brjálaðs veðurs. Allt lamaðist. Fólk komst hvorki til vinnu né í skóla. Öryrkjabíllinn fór hvergi. En Lulla brunaði á sínum bíl frá Skúlagötu til Hvíta bandsins efst á Skólavörðustíg. Og aftur til baka um kvöldið. Eins og ekkert væri.
Jæja, nema það að komin inn á gólf hjá mér rak Lulla augu í bjórinn. Það hýrnaði heldur betur yfir kellu. Hún klappaði saman höndum og hrópaði í fögnuði: "Þetta lýst mér á! Húrra! Ég hef ekki fengið jólaöl frá því að ég var krakki. Nú ber vel í veiði. Ég verð að fá glas af jólaöli hjá ykkur."
Ég vildi ekki upplýsa Lullu um að þetta væri bjór. Lögreglan hafði alltaf töluverð afskipti af Lullu og aldrei að vita hvað hún segði laganna vörðum í ógáti. Það var, jú, ólöglegt að brugga áfengan bjór. Ég brá á það ráð að segja Lullu að ölið væri ókælt og ekki tilbúið til drykkjar. En Lulla var viðþolslaus af löngun og sagði að það gerði ekkert til. Jólaöl væri það besta sem hún fengi hvort sem það væri kælt eða ókælt.
Ég hellti í hálft glas. Lulla skellti því í sig í einum teyg og ískraði af ánægju: "Helltu almennilega í glasið, drengur! Þú átt nóg af þessu. Þetta er sælgæti." Lulla var ekki vön að vera frek. Nú lá rosalega vel á henni. Ég hlýddi. En hafði nettar áhyggjur af þessu. Lulla hafði aldrei bragðað áfengi. Hún hafði óbeit á því.
Lulla drakk frekar hratt úr fulla glasinu og vildi meira. Hún fékk aftur í glasið. Drakk heldur hægar úr því. Að því loknu sagði hún: "Ég er kominn með svima." Hún var orðin þvoglumælt. Ég notaði tækifærið og sagði: "Það borgar sig ekki að drekka meira af ölinu. Það er ekki alveg tilbúið til drykkjar."
Lulla féllst á það. Sagðist ætla að koma sér heim. "Þetta er ekkert óþægilegur svimi," útskýrði hún. "En ég ætla samt heim og leggja mig."
Eftir að hafa kvatt heimilisfólkið og þakkað fyrir sig fór Lulla fram í forstofu og tróð sér í stígvél. Það gekk brösulega. Lulla vaggaði óstöðug yfir stígvélunum og slagaði utan í vegg. "Þetta er furðulegt," tautaði hún. "Það er eins og fæturnir hitti ekki í stígvélin. Ég vona að ég sé ekki að fá matareitrun."
Áhyggjur mínar jukust. Það hvarflaði að mér að hvetja Lullu til að taka leigubíl. Jafnharðan vissi ég að enga leigubíla var að fá í þessari ófærð. Að lokum komst Lulla í bæði stígvélin eftir heilmikið puð. Hún slagaði út í bílinn sinn. Ég fylgdist með út um glugga. Lulla kveikti sér í sígarettu um leið og hún settist inn í bílinn. Hún setti bílinn ekki í gang næstu 40 mínútur. Keðjureykti bara inni í bílnum. Loks ræsti hún bílinn og brunaði af stað í gegnum snjóskaflana.
Þegar ég áætlaði að Lulla væri komin heim til sín hringdi ég í hana. Mér til óblandinnar gleði svaraði hún í heimasímann. Heimförin hafði gengið vel. Ég spurði hvernig sviminn væri. Lulla svaraði: "Hann er notalegur. Ég ætla að leggjast en ekki sofna strax."
---------------------------------------
Fleiri sögur af Lullu frænku: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1371568/
---------------------------------------
Hans klaufi
--------------------------------------
Fyrir þremur áratugum eða svo stýrði Bryndís Schram ofur vinsælum barnatíma Sjónvarpsins. Fjölmiðlakannanir mældu mjög gott áhorf. Það einkennilega var að uppistaðan af áhorfendum voru miðaldra og eldri karlmenn.
Líkt þessu er hlustendakönnun á vinsælum barnatíma í færeyska útvarpinu.

Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2014 | 22:19
Sjálfsmyndir afhjúpa geðheilsu
Sjálfsmyndir, svokallaðar sjálfur eða "selfies", eru tískufyrirbæri. Í fyrra var þetta "orð ársins" í Bretlandi. Algengasta orðið á samfélagsmiðlum í netheimum. Og kannski víðar. Eðlilega eru sálfræðingar og geðlæknar farnir að gefa fyrirbærinu gaum. Niðurstaða skoðunar og greiningar á fyrirbærinu er þessi: Það er eðlilegt og ekkert athugavert við að fólk taki sjálfsmynd og deili á fésbók og instigram. Vandamálið er að þegar fólk verður upptekið af sjálfsmyndum þá sé andleg heilsa í ólagi. Það er sterkt samband þarna á milli. Þeim mun fleiri sjálfsmyndir því verri er andlega heilsan. Sjálfhverf hugsun, sjálfsdýrkun og þráhyggja.
Frægasta fjölmiðlafígúra sem er uppteknust af sjálfsmyndum er kanadíski klikkhausinn Justin Bieber.
Þegar slegið er inn í "gúggl" orðin "selfies and mental illness" skilar leitin 50 milljón síðum. Reyndar er þetta svo augljóst að engin þörf er á að bera málið undir sálfræðinga og geðlækna. Ekki frekar en að hómópata-bullið eða smáskammtalækningar standast auðvitað engar alvöru vísindalegar rannsóknir. Né heldur höfuðbeina- og spjaldhryggsruglið og það allt. Svo ekki sé nú minnst á óþolsprófið sem nú er í tísku.
Fólk elskar að láta plata sig og plokka af sér aura fyrir allskonar dellu. Sumir ganga svo langt að kjósa Framsóknarflokkinn.
----------------------------------------------------------
Í Póllandi er fagmennska í gerð músíkmyndbanda á sama stigi. Hér er gott dæmi um myndband ofurvinsæls lags. Lagið er spilað sem "playback"; söngur og hljóðfæraleikur "mæmuð". Gítarleikarinn í myndbandinu kann greinilega ekkert á gítar. Sömu sögu er að segja um bassaleikarann. Hann kann ekkert á bassa. Hefur það fram yfir gítarleikarann að vera í buxum. Bæði snúa hljóðfærinu í vitlausa átt. Bassaleikarinn er "splæstur" inn í myndbandið eftir á. Pólskir sjónvarpsáhorfendur eru gagnrýnislausir og halda að þetta sé "live" í hljóðveri.
![]() |
Tók sjálfsmynd eftir árásina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 11.4.2014 kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.4.2014 | 22:05
Málað hár og bakaðar baunir besti mælikvarði

Ég hitti ágætan mann í gær, pylsusala á miðjum aldri. Konan hans vinnur í banka. Er bankastjóri eða eitthvað svoleiðis. Þau voru búin að selja flugvélina sína og stóra Hummer-jeppann. Núna eiga þau bara minni jeppana. Þau standa í skilum með gullkortið sitt en berjast um á hæl og hnakka við að halda einbýlishúsinu og tveimur öðrum íbúðum sem þau leigja út svart. Þau urðu að skera húshjálpina niður við nögl. Núna kemur hún aðeins á virkum dögum.
Kallinn sagði: "Ég hlakka til þess dags þegar konan fær kaupauka, bónusgreiðslu sem nemur fernum árslaunum. Þá get ég hætt að mála á mér hárið og neglurnar sjálfur. Þá get ég farið á réttinga- og sprautuverkstæði og látið aðra mála á mér hárið og neglurnar. Við sem viljum fá strípur í hárið úti í bæ og lakkaðar neglur, líka táneglur, þurfum að stofna þrýstihóp. Jafnvel tvo. Einn fyrir strípur og annan fyrir neglur. Það verður að ríkisvæða skuldir tekjuhæstu einstaklinga svo við geti um frjálst og litað höfuð strokið."
Þetta er í hnotskurn lýsing á því hvar skóinn kreppir sárast. Einnig sá kompás sem mælir nákvæmast kreppu í efnahagslífi. Kreppu er ekki lokið fyrr en menn hætta að mála á sér hárið sjálfir og gjaldeyrishöftum hefur verið aflétt. Forstjóri Ikea í Garðabæ varði gríðarlega verðhækkun á baunasúpu fyrirtækisins með fullyrðingu um að kreppan sé að baki. Hið rétta er að kreppunni er lokið í Ikea en ekki utan Ikea. Ástæðan fyrir kreppulokum í Ikea er sú að lögfræðingar eru að mestu hættir að skipta um verðmiða á húsgögnum þar á bæ.
Næst besti mælikvarði á kreppu og góðæri felst í því að telja byggingakrana. Í kreppu sjást fáir kranar. Í þenslu snarfjölgar þeim. Þegar þeir eru orðnir fleiri en tölu verður komið á er stutt í hrun.
Í Bretlandi eru bakaðar baunir nákvæmasti mælikvarðinn. Þegar þrengist um efnahag Breta eykst sala á bökuðum baunum svo um munar. Í dýpstu kreppu nemur sala á Heinz bökuðum baunum 4 milljörðum fleiri kr. en í góðæri. Í góðæri gráta eigendur Heinz sáran. Eins dauði er annars vínarbrauð.
Engu að síður borða Bretar af miklum móð bakaðar baunir alla morgna, jafnt í góðæri sem í efnahagsþrengingum. Það sem gerist í kreppu er að bakaðar baunir sækja inn í aðra málsverði. Þá er þeim smurt ofan á brauð í hádegi og verða uppistaða í kvöldverðarkássu.

![]() |
Fyrir fólk sem litar sjálft á sér hárið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 12.4.2014 kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.4.2014 | 22:31
Klaufalega uppstoppuð dýr
Að stoppa upp dýr er list. Að mörgu þarf að hyggja. Til að mynda þarf listamaðurinn að þekkja vel til dýrsins. Þekkja svipbrigði þess, augnsvip, munn og tennur og hreyfingar og stellingar dýrsins. Til viðbótar felst listin í því að koma þessu öllu til skila. Þegar vel tekst til er uppstoppað dýr nánast alveg eins og lifandi dýr. Áhorfandinn upplifir uppstokkaða dýrið eiginlega eins og raunverulegt dýr.
Í fámennum þjóðfélögum, eins og því íslenska, komast fúskarar í faginu ekki langt. Í fjölmennum þjóðfélögum, aðallega í útlöndum, eru kröfurnar ekki allsstaðar miklar. Fúskarar komast upp með að skila af sér verulega gölluðu verki. Hér er þekkir fúskarinn ekki tanngarð rándýrsins. Rándýr eru með vígtennur en ekki sléttan tanngarð.
Þessi hundur er óþægilega tileygur. Munnsvipurinn er algjört klúður. Búkurinn er alltof smár í samanburði við höfuð og háls. Höfuðið virðist vera bólgið og hálsinn í yfirstærð.
Munnsvipur hreindýrsins er gallaður. Hugsanlega hefur eitthvað dottið af snoppunni. Nefið og hakan benda til þess.
Fætur hlébarðans eru einskonar staurfætur. Þær eru beinar og að því er virðist liðamótalausar. Þær eru líka útskeifar. Læri vantar á afturfætur. Búkurinn er allur úr lagi. Og höfuðið einnig.
Kálfurinn er eiginlega líkari hundi en kálfi. Eyrun lafa og eru síð eins og á hundi. Kálfar liggja heldur ekki með fætur beina eins og hundar. Kálfar beygja hné og setja fætur undir sig
Refir sitja ekki með upprétt bak. Nefið er of flatt. Munnur skrítinn og augnsvipur ótrúverðugur.
Spaugilegt | Breytt 9.4.2014 kl. 19:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.4.2014 | 02:23
Ný og öflug aðferð til að endurheimta æskuljóma andlitsins
Í aldanna rás hefur flestum þótt í aðra röndina gott að eldast. Hvert einast ár færir okkur haug af meiri þekkingu á mörgum sviðum. Það er endalaust hægt að læra eitthvað nýtt í landafræði. Víða um heim er elsta kynslóðin í mestu metum. Öldungar eru þeir sem kunna og vita. Viska þeirra er í hávegum. Viska er sambland af gáfum og hæfileikanum til að kunna að nota þær. Öldungar gefa unga fávísa fólkinu ráð, vel þegna gullmola.
Á sjötta áratug síðustu aldar varð til á vesturlöndum unglingamenning. Áður skiptist fólk í börn og fullorðna. Unglingamenningin varð til í gegnum bandarískar kvikmyndir með Marlon Brando og síðar fleirum og enn frekar í gegnum rokkið (Presley, Chuck Berry, Jerry Lee Lewis, Little Richard).
Hratt og bítandi þróaðist unglingamenning yfir í æskudýrkun. Orðið æskudýrkun er villandi. Það vísar til barnsaldurs en á frekar við um að eldra fólk sæki í að halda í unglingslegt útlit. Ellilífeyrisþegar vilja líta út eins og miðaldra. Miðaldra vilja líta út eins eins og aðeins yngri.
Á síðustu 20 - 30 árum hefur orðið til stór iðnaður í kringum það að hægja á eða snúa við öldrunareinkennum í andliti eldra fólks. Svokallaðar fegrunaraðgerðir eða yngingaraðgerðir tröllríða skemmtiiðnaðinum í Bandaríkjunum og teygir anga sína víða. Stóra vandamálið er að margir sem hella sér út í svoleiðis dæmi kunna sér ekki hóf. Ríku kvikmynda- og poppstjörnurnar eru umkringdar já-fólki sem klappar fyrir hverri "fegrunaraðgerð" og bendir aldrei á að aðgerðin geri viðkomandi ekkert nema kjánalega/n.
Frægasta "fegrunar" klúðrið er Mikjáll Jackson. Hann var huggulegur blökkudrengur sem lét breyta sér með "lýtalækningum" í afskræmda hvíta konu sem átti að líkjast ítalskri leikkonu, Sófíu Lóren.
Mikjáll Jackson lét nánast endurhanna andlit sitt. Breitt nefið var fjarlægt og annað örmjótt sett í staðinn. Umhverfis augun var húðflúruð svört lína og augnpokar fjarlægðir til að augun yrðu stór. Varir voru litaðar rauðar (ekki með annarri aðferð en daglegri varalitun). Toppurinn var þegar hann mætti á lýtalæknistofuna með ljósmynda af leikaranum Kirk Douglas og bað um að fá sett á sig samskonar Pétursspor (hökuskarð).
Mikjáll lét framkvæma svo margar breytingar á andliti sínu að andlitsbein morknuðu. Hann þurfti á stöðugum viðgerðum að halda. Til að mynda voru brjósk og bein í nefinu orðin óvirk. Hætt að ná tengingu við önnur brjósk og bein.
Annað frægt dæmi er svokölluð Kattakona. Hún var um tíma gift lýtalækni. Þau fóru hamförum í breyta andliti hennar í humátt að andliti kattar.
Leikkonan Daryl Hanna þótti falleg. Hún var gift tónlistarmanninum Jackson Brown. Hann lamdi hana. Óþokki. Eftir skilnað þeirra fór hún í andlitsstrekkingu og eitthvað svoleiðis. Er nánast óþekkjanleg síðan.
Víkur þá sögu að splunkunýrri yngingaraðferð. Hingað til hefur svokallað botox leikið stóra hlutverkið í baráttu við Elli kerlingu. Botoxi er sprautað inn í húðina. Það lamar andlitsvöðva og viðkomandi verður eins og sviplaust vélmenni. Nú er komin á markað önnur og miklu betri aðferð. Hún kallast Frotox. Andlitið er snöggfryst í 20 mínútur. Við það strekkist á húðinni og allar hrukkur hverfa eins og dögg fyrir sólu. Ólíkt Botox þarf ekki að sprauta með nál neinu í húðina. Frystingin er svo öflug að andlitið er hrukkulaust í 4 mánuði. Aðgerðin gengur eldsnöggt fyrir sig. Viðskiptavinurinn finnur aðeins þægilegan þrýsting á andlitið. Ekkert sárt eða óþægilegt.
Ég veit ekki hvort að þetta sé í boði hérlendis. Í Bretlandi og í Bandaríkjunum kostar svona frysting aðeins um 75 þúsund kall.
Ég veit reyndar ekki af hverju einhver vill losna við virðulegan svip eldra fólks og líta þess í stað út eins og einhver unglingsgalgopi. En Frotox er byltingarkennd nýjung í boði fyrir skrítið fólk með æskudýrkun.



Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)