Færsluflokkur: Trúmál

Ofsóknir Fíladelfíu gegn samkynhneigðum

 

 Á mínum uppvaxtarárum í Skagafirði á sjötta og sjöunda áratugnum voru ekki til neinir hommar eða lesbíur á Íslandi.  Svoleiðis fólk var bara í útlöndum.  Þetta var á þeim árum sem konum var bannað að vera í buxum á sumum vinnustöðum.  Og þegar ég fór í skóla á Laugarvatni var sítt hár á strákum brottrekstrarsök.  Hátt í 100% landsmanna voru í ríkiskirkjunni.

  Nú erum við komin langt inn á 21. öld.  Það er ekki lengur brottrekstrarsök í skólum eða á vinnustöðum að konur séu í buxum og strákar með sítt hár.  Kynhneigð skiptir fæsta meira máli en augnlitur.  Rétt um 70% landsmanna er ennþá í ríkiskirkjunni og þeim fækkar óðum.  Hinsvegar hefur sértrúarsöfnuðum bókstafstrúar vaxið ásmegin.  Með tilheyrandi hatursboðskap gegn samkynhneigðum,  fóstureyðingum,  hjónaskilnuðum og öðrum fornaldarviðhorfum með tilvísun í mótsagnakenndar mörg hundruð og mörg þúsund ára gamlar þjóðsögur gyðinga í Mið-Austurlöndum.

  Samkynhneigður söngvari,  Friðrik Ómar,  segist ekki fá að syngja í Fíladelfíu Hvítasunnumanna vegna kynhneigðar.  Forstöðumanni Fíladelfíu,  Verði Leví Traustasyni,  hefur vafist tunga um töng þegar þetta er borið undir hann.  Vörður ýmist ver þá afstöðu eða vísar henni á bug sem dellu,  misskilningi og lygi.  Í sumum viðtölum er Vörður skilningsríkur og umburðarlyndur.  Í öðrum viðtölum talar hann af sér sem talsmaður fordóma í garð samkynhneigðra.

  Það er gott hjá Friðriki Ómari að vekja athygli á þessu.  Hann segist þekkja fleiri dæmi en frá sjálfum sér um ritskoðun og útilokun frá Fíladelfíu vegna kynhneigðar. 

  Fíladelfía er ekki Krossinn og ekki eins öfgakennt fyrirbæri og Krossinn,  sem lýsir samkynhneigð og hjónaskilnaðum sem viðurstyggð í augum geimverunnar guði.  Það sem guð gyðinga Mið-Austurlanda hefur eitt sinn sameinað má ekki sundur slíta. Fráskildir og samkynhneigðir fara til helvítis og munu að eilífu brenna í vítisloga.  Fráskildir eru hórur ef þeir sænga hjá öðrum en fyrsta maka. 

  Þó ég sé í Ástrúarfélaginu er mér hlýtt til Fíladelfíu.  Trúboðar frá Fíladelfíu gerðu út frá mínu æskuheimili í Skagafirði á mínum uppvaxtarárum.  Síðar sá ég árum saman um auglýsingar fyrir Fíladelfíu þegar ég starfaði sem auglýsingahönnuður.  Í Fíladelfíu er margt góðra manna og kvenna.  Ég hef margoft sótt skemmtilegar samkomur í Fíladelfíu og á þar marga vini.  Þess vegna vil ég ekki kalla fyrirbærið Fífladelfíu.

  Snorri,  kenndur við Betel í Vestmannaeyjum,  fer mikinn á bloggi sínu um þetta mál.  Leggur að jöfnu barnaníðinga og samkynhneigða.  Já,  við erum stödd á árinu 2009.  En ekki Snorri.  Hann er staddur á árinu mínus 2009 fyrir okkar tímatal. 

  Ég er gagnkynhneigður.  Eða eiginlega lesbía.  Annars skiptir það engu máli.  Barnaníð og barnagirnd er allt allt allt annað en kynhneigð fullorðins fólks til annars fullorðins fólks.  Það er lágkúra af verstu sort að leggja að jöfnu samkynhneigð og barnaníð.  Barnaníð sem umfram annað hefur sett stóran og ljótan blett á kaþólsku kirkjuna í mörgum heimsálfum.

www.afldidak.is

www.stigamot.is

   


Mæjónes-söfnuðurinn

elvis kirkjamæjónesbiblíahermikrákuheimurghandiJohn_Lgunnarsmæjónes

  Í DV í dag er staðfest flökkusaga um að fjölskyldufyrirtækið Gunnars mayonnaise hafi breyst í einskonar sértrúarsöfnuð.  Þar á bæ hefur verið settur forstjóri,  Kleopatra Kristbjörg,  andlegur leiðtogi fjölskyldunnar.  Að sögn starfsmanns kemur Kleopatra ekki nálægt rekstrinum og hefur enda enga þekkingu á til þess.  Sumir starfsmenn fyrirtækisins hafa aldrei séð hana. 

  Helen Gunnarsdóttir,  einn eiganda fyrirtækisins,  fullyrðir að Kleopatra sé heiðarlegasta kona sem til er.  Engin af rösklega 3,3 milljörðum kvenna heims kemst með tær þar sem Kleopatra hefur hæla.  Hún er hlý með afbrigðum.  Góð umfram allar manneskjur.  Gáfuðust allra kvenna á Íslandi.  "Ofsalega vel gefin og mælsk".  Jafnframt er hún þeim einstæða hæfileika gædd að fá "fólk til að sjá ljósið".  Hallelúja!

  Helena segir Kleopötru vera hæfileikaríkan rithöfund.  "Bókin hennar,  Hermikrákuheimur,  er besta bók sem til er,"  að sögn Helenar.  Hallelúja! Biblían,  Góði dátinn Sveijk og Sjálfstætt fólk eru prump til samanburðar við Hermikrákuheim. 

  Helena vill ekki meina að klíka sé í kringum Kleopötru heldur styrktaraðilar (hver er munurinn?). 

  Ég veit ekki hver Kleopatra er umfram það að í gegnum tíðina hafa birst í dagblöðum heilsíðuauglýsingar þar sem hún er hlaðin lofi.  Þar er fullyrt að  ALLIR  vilji snerta hana og konur jafnt sem karlar bugti sig og beygi fyrir henni.  Hún veki  ALLSSTAÐAR  aðdáun og fólk falli að fótum hennar.  Jafnframt að hún sé  mjög  andleg og gædd dulrænum hæfileikum.  "Að vera nálægt henni er engu líkt."  Hallelúja! 

  Í umræddum auglýsingum eru sýnishorn af ritsnilld hennar og andlegri leiðsögn.  Einnig í auglýsingum um bækur hennar.  Þau sýnishorn styðja ekki fullyrðingar um hæfileika hennar.  Þeir hljóta að opinberast á öðrum vettvangi.

  Ég fann ekki mynd af andlegum leiðtoga mæjónes-safnaðarins.  Ég læt samnefnara hans/hennar duga.


Skjár 1 - kexrugluð sjónvarpsstöð

3333skrýtin mynd

  Skjár 1 glímir við vandamál.  Auglýsingatekjur hafa dregist saman á sama tíma og kostnaður við framleiðslu á íslensku sjónvarpsefni hefur vaxið sem og innkaup á útlendum (bandarískum) sjónvarpsþáttum.  Nú boðar Skjár 1 að dagskrá sjónvarpsstöðvarinnar verði send út rugluð til annarra en áskrifenda.  Áskriftarverði er engu að síður stillt í hóf:  2200 kall á mánuði.  Svipað verð og á kippu af góðum færeyskum bjór.

  Ég hef ekki tekið ákvörðun um hvort séu betri kaup í bjórkippunni eða áskrift að Skjá 1.  Í fljótu bragði skoðað er spjallþáttur Sölva eini þátturinn á Skjá 1 sem höfðar til mín.  Svo og - en á allt öðrum forsendum -  Lífsaugað  með Þórhalli miðli.  Sá þáttur er svo ruglaður að það er varla hægt að rugla hann meira. 

  Draugar sem heita Guðmundur,  Kristín og Guðrún koma á færibandi.  Síðast þegar ég vissi eru Guðmundur,  Kristín og Guðrún í öllum íslenskum fjölskyldum,  skólaárgöngum,  kunningjahópum og á vinnustöðum.  Sjálfur er ég umkringdur ættingjum með þessum nöfnum.  Er Guðmundsson og á mínum uppvaxtarárum í útjaðri Hóla í Hjaltadal voru Guðmundur í Hlíð,  Guðmundur á Hofi og Guðmundur í Víðinesi.  Bara til að nefna dæmi.  Úr mörgu er að velja þegar draugurinn Guðmundur mætir á miðilsfund.

  Draugar með sjálfgæfari nöfn mæta ekki á miðilsfundi.  Engin Þórlína,  Arabella eða Hörn.   Kjánarnir sem mæta í  Lífsaugað  eru allir af vilja gerðir að ráða fram úr ruglinu.  Þannig verður Kristín allt í einu Kristjana.  Takk kærlega fyrir það.

  Toppnum var náð þegar Þórhallur náði sambandi við framliðinn kóngabrjóstsykur.  Jóhann Waage var snöggur að kveikja á perunni og kannaðist við afa sinn með bláan Ópal.  Takk kærlega fyrir það.  Þórhallur var ennþá sneggri að kveikja á perunni og sá undir eins framliðna tuggu af bláum Ópal.

  Í spjalli við Jóhann Waage á eftir var hann dolfallinn af hrifningu yfir að Þórhallur hafi séð þessa framliðnu tuggu af bláum Ópal.  Sem Jóhann hafði þó frumkvæði af að nefna til sögunnar.  Er hægt að rugla svona sjónvarpsþátt meira?  Jú,  kannski.  Það er auðvelt að rugla ruglað fólk út í eitt.  Jafnvel svo að það verði næstum óruglað í ruglinu.   

  Það er ekki staðfest að ljósmyndin efst sé af Þórhalli miðli.  En ef hún er af Þórhalli þá er líklegra að hann sé þessi til hægri. 


Miðilsfundur

  einn athyglissjúkur með klemmur í andlitinu

  Fyrir nokkrum árum varð ég samferða vini mínum í flugvél út á land.  Við vorum báðir með námskeið í tilteknum kaupstað.  Af tillitssemi við þá sem þar voru nefni ég ekki staðinn.  Í flugvélinni ræddum við um miðilsfundi.  Vinur minn er grallari og ákvað að sprella.  Við bjuggum í heimavist framhaldsskóla.  Um kvöldið þóttist vinurinn falla í trans þar sem við sátum í sjónvarpssal með heimavistarbúum.  Vinurinn þóttist fá krampakast og náði að froðufella.  Ég tilkynnti viðstöddum að hann væri fallinn í miðilstrans.

  ALLIR viðstaddir keyptu grínið.  Vinurinn þuldi upp algengustu íslensk mannanöfn og viðstaddir gáfu sig fram sem ættingjar og aðstandendur framliðinna.  Vinurinn bar þeim skilaboð að hætti miðla.  Honum þótti þetta svo kjánalegt að hann fór að tiltaka sértækari og furðulegri dæmi.  Ekkert lát varð á viðbrögðum viðstaddra sem töldu sig kannast við skilaboðin.

  Vinurinn gekk ennþá lengra í sprellinu og gaf upp sjaldgæft íslenskt nafn.  Enginn kannaðist við það.  Þá sagði vinurinn:  "Fyrirgefið.  Viðkomandi ætlaði að mæta á miðilsfund á Hvammstanga en villtist."

  Enginn fattaði djókið.  Annað eftir þessu.  Vinurinn bullaði út í eitt og allir voru gagnrýnislausir á bullið.

  Daginn eftir kallaði einn heimavistardrengja vininn á eintal.  Sagðist hafa skýrt mömmu sinni frá miðilsfundinum og þau mæðgin væru tilbúin að borga vininum pening fyrir að setja upp einkamiðilsfund með þeim.  Faðir drengsins var nýlega fallinn frá og þau mæðgin langaði að ná sambandi við föðurinn.

  Þá var vini mínum nóg boðið.  Hann sagði:  "Undir þessum kringumstæðum skulið þið ekki koma nálægt miðilsfundum.  Alls ekki.  Forðist allt slíkt eins og þið mögulega getið."   


Húrra! Nú ætti að vera ball!

  Við þennan frábæra útlistann Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar á frjálshyggjuuppskrift Sjálfstæðis-FL-okksins sem nú hefur kollsteypt íslensku þjóðfélagi er engu við að bæta.  Nema kannski mútugreiðslunum frá FL-Group og Landsbankanum.  Eins og segir í gömlum slagara:  "Húrra,  nú ætti að vera ball!"  Takið eftir því að trúboðinn virkilega trúir því sem hann er að segja.

sjálfstæðis-FL-okkurinn

  Merki ránfuglsins er útfært að Guðsteini Hauki Barkarsyni.


Ný og spennandi plata frá Tý

  Vinsælasta lagið á Íslandi 2002 var  Ormurinn langi  með færeysku víkingarokkurunum í hljómsveitinni Tý.  Það rann Týs-æði á landann.  Hljómsveitin kom í hljómleikaferð til Íslands.  Spilaði á Akureyri,  Reykjavík,  Kópavogi,  Keflavík og Selfossi.  Færri komust að en vildu.  Þegar hljómsveitin áritaði plötu sína,  How far to Aasgsard,  í Smáralind myndaðist lengsta röð sem menn hafa séð þar. 

  Týs-æðið opnaði flóðgáttir himins og færeyska bylgjan skall yfir Ísland.  Skyndilega röðuðu færeyskir tónlistarmenn sér á íslenska vinsældalista og út um allt:  Eivör,  200,  Högni Lisberg,  Teitur,  Brandur Enni,  Boys in a Band,  Makrel,  Kristian Blak,  Lena Andersen,  Gestir,  Go Go Blues,  Taxi,  Krit,  Deja Vu,  Yggdrasil,  Sölva Ford,  Kári Sverrisson,  Ragnar í Vík,  Vestmenn og margir fleiri.   

  Það sér hvergi fyrir enda á færeysku bylgjunni.  Né frægðarför Týs.  Hljómsveitin fór á samning hjá stóru alþjóðlegu plötufyrirtæki og hefur byggt upp markað víðsvegar um heim.  Týr er nýkomin úr vel heppnaðri hljómleikaferð um Bandaríkin og er nú að hefja hljómleikaferð um meginland Evrópu.

  Fimmta plata Týs kemur út í lok mai.  Hún heitir  By the Light of the Northern Star.  Fyrri plötur Týs eru:

How far to Aasgard (inniheldur  Ormurinn langi)

Eric the Red (inniheldur  Ólavur Riddararós)

Ragnarök

Land

Lögin á nýju plötunni,  By the Light of the Northern Star,  eru:

1. Hold the Heathen Hammer High
2. Tróndur í Gøtu
3. Into the Storm
4. Northern Gate
5. Turið Torkilsdóttir
6. By the Sword in My Hand
7. Ride
8. Hear the Heathen Call
9. By the Light of the Northern Star 

  Fyrsta upplag af plötunni inniheldur tvö spiluð aukalög án söngs (instrumental): 
 

10. The Northern Lights
11. Anthem

  Platan fjallar um það þegar kristinni trú var neytt upp á Færeyinga.  Hér er upphafslag By the Light of the Northern StarHold the Heathen Hammer High:

  Plötur Týs fást í verslunum Pier í Korputorgi og glerturninum við Smáratorg.  Áreiðanlega fást þær í fleiri verslunum. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband