Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Heimsfrægur í útlöndum

  Þetta er allt einn stór misskilningur.  Samfélagsmiðlarnir loga.  Í fljótu bragði virðist þetta vera flest á einn veg:  Menn túlka atburði gærdagsins sem svo að forsætisráðherra þjóðarinnar,  hinn rammíslenski og þjóðholli Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,  hafi lagt land undir fót og flúið með skottið á milli lappanna undan meinleysislegum spurningum forvitinna drengja.  Einungis vegna þess að hann var kominn í einhverskonar ógöngur;  rak í vörðurnar með taugarnar þandar og þurfti ferskt útiloft til að ná jafnvægi á ný.

  Samkvæmt mínum heimildum er ástæðan önnur.  Sveitastrákinn af eyðibýli á Norðurlandi langaði skyndilega í súkkulaðitertu.  Þegar mallakúturinn kallar á djöflatertu þá þolir það enga bið.  Þetta vita allir sem hafa ástríðu fyrir súkkulaðitertu.  Við erum að tala um bráðatilfelli.

  Bestu fréttirnar eru þær að núna er súkkulaðistrákurinn orðinn frægasti Íslendingurinn í útlöndum.  Það er meira fjallað um hann í heimspressunni í dag en Björk.  Miklu meiri.  Hann er á forsíðu stórblaðanna í sex heimsálfum.  Öllum nema Suðurskautslandinu.

http://www.theguardian.com/world/video/2016/apr/03/icelands-prime-minister-walks-out-of-interview-over-tax-haven-question-video?CMP=share_btn_fb 

http://indianexpress.com/article/world/world-news/as-iceland-collapsed-its-pm-sigmundur-david-gunnlaugsson-parked-money-in-offshore-firm/

http://www.b.dk/globalt/et-internationalt-skattecirkus-af-ufattelige-dimensioner-rammer-magtfuldt-persongal

http://panamapapers.sueddeutsche.de/articles/56fec0cda1bb8d3c3495adfc/

http://www.aftenposten.no/nyheter/uriks/Islendinger-om-avsloringene---Det-kan-komme-til-a-eksplodere-8415870.html

http://www.svtplay.se/video/7373606/agenda/agenda-3-apr-21-15

sigmundur davíð gunnlaugsson

súkkulaðitertusneið

 


mbl.is Lögregla kölluð að heimili Sigmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert rugl hér!

  Í gær kom ég við á bókasafni.  Þar hitti ég Skagfirðing.  Við hófum umsvifalaust að skrafa saman.  Á borðinu fyrir framan okkur lágu dagblöð og tímarit.  Bar þá að roskna konu sem haltraði til okkar.  Hún spurði hvort að við værum með laugardags-Moggann.  Skagfirðingurinn greip upp blað,  rétti að konunni og sagði:  "Nei,  en hérna er Sunnudags-Mogginn."

  Konan tók - eins og ósjálfrátt - við blaðinu.  Í sömu andrá var líkt og hún brenndi sig.  Hún þeytti blaðinu eldsnöggt á borðið,  hnussaði og hreytti með hneykslunartóni út úr sér um leið og hún strunsaði burt:  "Ég ætti nú ekki annað eftir en fara að lesa blöðin í vitlausri röð!"

alkahólfrír vodki

   


Rolling Stone mælir með íslenskri hljómsveit

  Bandaríska tímaritið Rolling Stone ber höfuð og herðar yfir önnur tónlistartímarit.  Prentútgáfan selst í hátt í tveimur milljónum eintaka.  Hún er ráðandi í tónlistarumfjöllun vestan hafs.  Hún kemur einnig út á þýsku og frönsku á meginlandi Evrópu.  

  Netútgáfan nýtur ört vaxandi vinsælda.  Sem dæmi um ítök Rolling Stone má nefna að þegar erlendar stórstjörnur troða upp á Íslandi er iðulega vísað til þess hvar eitthvað lag eða plata er á tilteknum lista í Rolling Stone. Til að mynda á lista yfir 500 merkustu plötur rokksögunnar.

  Umfjöllun í Rolling Stone vegur þyngra en hliðstæð umfjöllun í öðrum tónlistarblöðum.  Ekki aðeins vegna útbreiðslu blaðsins heldur einnig vegna þess að vel er vandað til verka.  Aðeins það sem talið er eiga virkilega brýnt erindi við lesendur kemst í gegnum nálarauga ritstjórnar.

  Í gær var birtur listi yfir 10 merkustu nýliða á vinsældalistunum.  Vel rökstuddur og ítarlegur.  Í þessum hópi er íslensk hljómsveit,  Kaleo.  Tónlist hennar er lýst sem íslenskum þjóðlagablús,  Delta"riffum",  tregaballöðum og falsettusöng.

  Talið er líklegt að tónlistin höfði til aðdáenda Black Keys og Bon Iver.  Þess er getið að lagið "All The Pretty Girls" með Kaleo hafi verið spilað yfir 10 milljón sinnum á Spotify.  Lagið "No Good" megi heyra í kvikmyndinni Vinyl.

  Söngvarinn er borinn fyrir því að miklu skipti að hafa alist upp á Íslandi. Náin tengsl við náttúruna veiti innblástur.  Langir dimmir vetramánuðir og sumrin setji mark á tónlistina.  

  Kaleo er búin að "meika það"!

 


Davíð Bowie 1947-2016

  Margir hafa hvatt mig til að blogga um feril heiðnu bresku poppstjörnunnar Davíðs Bowie.  Ég hef ekki spurt en dettur í hug að það sé vegna fráfalls hans í gær.  Aðrir hafa undrast að enga minningargrein um hann sé að finna á þessari bloggsíðu.  

  Nú að kvöldi næsta dags hefur verið fjallað um Bowie og feril hans fram og til baka í helstu fjölmiðlum.  Ekki síst á Rás 2.  Fáu er við að bæta.  Nema að kveða niður draugasögu um framburð Íslendinga á nafninu Bowie.  Hann er Báví.  Illar tungur flissa að þessu og halda því fram að réttur framburður sé Bóí.  

  Staðreyndin er sú að enskumælandi meðreiðarsveinar Bowies eru ekki á einu máli.  Sumir brúka íslenska framburðinn.  Til að mynda bandaríski gítarleikarinn hans,  Steve Ray Vaughan.  Sumir aðrir tala um Bóí. Þar fyrir utan megum við Íslendingar kalla hvaða útlending sem er hvaða nafni sem okkur hugnast.  Kinnroðalaust höfum við kallað Juan Carlos fyrrverandi Spánarkonung Jóhann Karl. Við tölum aldrei um The Beatles heldur Bítlana.  Bruce Springsteen köllum við Brúsa frænda.  Þannig mætti áfram telja.

  Annað:  Bowie var og er oft kallaður kameljón.  Það er villandi.  Kameljón breytir um lit til að laga sig að umhverfinu.  Bowie hinsvegar breytti ítrekað um lit til að skera sig frá umhverfinu.

  Þó að ég hafni kameljónstilvísunni þá segir sitthvað um litskrúðuga lagaflóru Davíðs að í morgun taldi ég 23 lög sem jafn margir aðdáendur póstuð á Fésbók sem sitt uppáhalds Bowie-lag.   

 

  

  Í stað þess að skrifa og bæta við enn einni minningargrein um Bowie og endurtaka flóð greina um feril hans vitna ég hér í nokkra punkta af Fésbók:

  "Mér finnst eins og rokkið sé dáið og hugur minn er í hálfa stöng...bless Bowie"

 - Bubbi (Björn Jónsson)  

  "Sumir segja hann vera goðsögn áttunda áratugarins, en það er vægt til orða tekið.  Hann hefur verið einn af fremstu og áhugaverðustu listamönnum heims í næstum fimm samfleytta áratugi."

  - Rakel Andradóttir 

  "Þú kenndir mér svo ótrúlega margt en það mikilvægasta er örugglega það að ef þú mátt vera David Bowie þá hlýt ég að mega vera ég sjálfur."

  - Óskar Zowie (Óskar Þór Arngrímsson)

  "Low og Heroes voru toppurinn fyrir mig.  Þær breytt því hvernig ég hugsaði um músík."

  - Trausti Júlíusson   

  "Og hann var ekki einu sinni leiðinlegur þægar hann var leiðinlegur."

  - Ísak Harðarson

  "Djöfull er nýja Bowie platan góð maður!"

  - Sigurjón Kjartansson


mbl.is David Bowie látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert skal halda 2016?

  Breska dagblaðið Daily Mail hefur tekið saman lista yfir heitustu staðina til að heimsækja 2016.  Heitustu í merkingunni girnilegustu,  ætla ég.  Listinn spannar tíu staði.  Hver um sig er kynntur með fögrum orðum.  Sannfærandi rök eru færð fyrir veru þeirra á listanum.   Það er ekki gert upp á milli áfangastaða í uppröðun í sæti.   

  Að sjálfsögðu trónir Ísland á listanum.  Fyrirsögnin er Iceland´s Warm Front (Íslands heita framhlið).  Landinu er lýst sem afar framandi undri.  Þar megi finna staði sem gefi þá upplifun að maður sé staddur á tunglinu.   Höfuðborgin,  Reykjavík,  sé umkringd töfrandi fossum,  jöklum,  eldfjöllum og norðurljósum.  

  Mælt er með því að ferðamenn tjaldi úti í íslenskri náttúru.  Þeir skuli þó einnig gefa sér góðan tíma til að ræða við innfædda.  Viðhorf Íslendinga til lífsins og tilverunnar séu "ja,  öðruvísi" (well,  different).  

  Vísað er á tilboðsferð til Íslands með Easy Jet.  Flug og vikudvöl á 3ja stjörnu Bed & Breakfast kosti rösklega 77 þúsund kall (412 pund).  Það er assgoti girnilegur pakki.  Geta Wow og Icelandair ekki boðið betur?

  Daily Mail klikkar á að nefna goshverina,  álfabyggðir og Bláa lónið.  Alveg á sama hátt og í annars ágætu myndbandi,  Inspired by Iceland,  vantar sárlega álfa og norðurljós.   

  Hinir staðirnir sem Daily Mail mæla með eru:  Noregur,  Þýskaland,  Bali,  Sri Lanka,  Ibiza,  Perú,  Verona,  Mozambik og Bequia.  Enginn jafn spennandi og Ísland.  

 


Gróf og saknæm aðför að lýðræðislegri umræðu

  Útvarp Saga er þjóðarútvarp.  Í þrjá klukkutíma á dag fær almenningur að hringja inn í beina útsendingu og tjá sig.  Það er engin ritskoðun.  Þjóðin tjáir sig og þjóðin hlustar.  Ýmsum hliðum á ólíkum málum er velt upp.  Það er tekist á um fjölbreytt álitamál.  Þetta er lýðræði.  Opin og frjáls skoðanaskipti.

  Stundum er velt upp og haldið fram skoðunum sem eru ekki allra.  Þá er þeim mótmælt á sama vettvangi.  Oft er umræðan fjörleg.  Oft fróðleg og áhugaverð.  

  Þetta er ekki öllum að skapi.  Sumir þola ekki lýðræðislega umræðu.  Þeir þola ekki skoðanir annarra. Þola ekki að sitja undir frjálsum og opnum skoðanaskiptum.  Þeir öfgafyllstu grípa til fasískra aðferða:  Ráðast á útvarpsstöðina með lögbrotum til að þagga niður í umræðunni.  Ganga svo langt að brjótast inn í tölvukerfi Útvarps Sögu,  stela þar aðgangsorðum og yfirtaka heimasíðu hennar.  Falsa niðurstöðu skoðanakannana og búa jafnvel til nýja skoðanakönnun. Í þeim eina tilgangi að niðra með svívirðingum eiganda og útvarpsstjóra Útvarps Sögu.  

  Spurning hvort að annað fjölmiðlafyrirtæki sé þátttakandi í aðförinni.  

  Málstaður skemmdarverkamanna þessara er jafn aumkunarverður og glæpir þeirra. Þetta eru fasísk vinnubrögð glæpamanna. Fasískt ofbeldi gegn opinni og lýðræðislegri umræðu.  

  


mbl.is Brotist inn á vef Útvarps Sögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynferðisofbeldi í heimavistarskóla

  Ég var í heimavist í Steinstaðaskóla og á Laugarvatni.  Það var rosalega gaman.  Mikið fjör.  Allt að því stanslaust partý.  Þarna eignaðist ég marga góða og kæra lífstíðarvini.  Því miður veit ég til þess að sum skólasystkini upplifðu vonda vist í þessum skólum.

  Víkur þá sögu að heimavistarskólanum á Núpi í Dýrafirði. Jón Gnarr segir í nýrri bók frá hópnauðgun og kynferðislegu níði kennara á nemanda.  Hann nafngreinir ekki kennarann.  Fyrir bragðið er því haldið fram að allir 8 kennarar skólans liggi undir grun.  Það er skrýtið.  Án þess að ég þekki til málsins þá tiltekur Jón að gerandinn hafi verið nýr og ungur kennari á staðnum,  búsettur á Núpi og hlustað á pönk.  

  Getur verið að allir 8 kennarar staðarins hafi verið ungir nýir kennarar á þessum tímapunkti?  Og allir hlustað á pönk?  Einn af kennurum var skólastjórinn.  Varla var hann skilgreindur sem nýr og ungur kennari.  Þrír af 8 kennurum bjuggu ekki á staðnum.  Einhverjir til viðbótar voru eldri en svo að þeir væru að hlusta á pönkrokk.  Til viðbótar hafa einhverjir kennarar upplýst að nemandi hafi aldrei komið inn fyrir þeirra dyr.

  Hringurinn þrengist.  Það passar ekki að 8 kennarar liggi allir undir grun.  Líkast til varla fleiri en 2 eða 3.  Það er vont fyrir þá saklausu.  Jafnvel verra en að vera í hópi 8 grunaðra.

     


Útvarp Saga slær í gegn

  Þær útvarpsstöðvar sem njóta mestrar vinsælda á Íslandi eru Útvarp Saga,  Rás 2 og Bylgjan.  Það er að segja hafa mesta hlustun.  Bera höfuð og herðar yfir allar aðrar.  Netsíður þessara þriggja útvarpsstöðva eru sömuleiðis vinsælustu netsíður útvarpsstöðva (netsíðan visir.is er þá skilgreind sem málgagn Bylgjunnar þó að hún sé enn fremur síða Fréttablaðsins og Stöðvar 2).  

  Á netsíðunum www.visir.is og www.utvarpsaga.is er daglega boðið upp á skemmtilegan samkvæmisleik.  Hann felst í gamansamri skoðanakönnun.  Léttri spurningu er varpað fram.  Lesendur merkja við svar sem hentar þeim.  

  Eðlilega tekur almenningur þessu sem þeim lauflétta samkvæmisleik sem hann er.  Þetta er ekki hávísindaleg skoðanakönnun byggð á nákvæmum þverskurði þjóðarinnar.  Þátttakendur velja sig sjálfir í úrtak.  Niðurstaðan speglar viðhorf hlustenda viðkomandi útvarpsstöðva.  Ekkert að því nema síður sé.  Þetta er til gamans gert.

  Skoðanakannanir af þessu tagi njóta mikilla vinsælda.  Þátttakendur sveiflast frá mörgum hundruð daglega upp í nokkur þúsund.  Yfirleitt liggur niðurstaða fyrir snemma fyrir.  Eftir 100 greidd atkvæði er niðurstaða jafnan sú sama og eftir 4000 greidd atkvæði.

  Hvor útvarpstöðin fyrir sig varpar fram hátt í eða um 300 skoðanakönnunum á ári.  Spurningarnar eru iðulega settar fram í gáska.  Kastað fram í samhengi við það sem hæst ber í umræðu hverju sinni.

  Á dögunum var spurning í skoðanakönnun Útvarps Sögu:  "Treystir þú múslimum?"  Meirihluti þátttakenda svaraði:  Já.  

  Grallari í húsvísku grínhljómsveitinni Ljótu hálfvitunum brást við með yfirlýsingu um að banna að músík spaugaranna væri spiluð á Útvarpi Sögu.  Sem hún hvort sem er var ekki spiluð á Útvarpi Sögu.  

  Þetta vakti nokkra athygli.  Þá stökk á vagninn dægurlagasöngvari sem vildi líka - að venju - og þurfti athygli.  Enda í miðju kafi við að kynna nýja ljóðabók.  Hann endurtók yfirlýsingu Ljóta hálfvitans.  Rifjaðist þá upp ósjálfrátt slagarinn "Ég er löggiltur hálfviti..."

  þessi viðbrögð við því að meirihluti hlustenda Útvarps Sögu treystir múslimum vekur upp fleiri spurningar en svör.  Af hverju er ekki gott að meirihlutinn treysti múslimum?  Við erum að tala um hálfan annan milljarð fólks.  Þar af margt úrvals fólk karla og kvenna.

  Í næstu skoðanakönnun Útvarps Sögu var spurt:  "Treystir þú Bubba Morthens?"

  Viðbrögð voru ofsafengin.  Bubbi spurði hvort að eigandi Útvarps Sögu væri fyllibytta.  Það er víst verra en að vera skemmdur dópisti.  Skilst mér.  Eða eitthvað svoleiðis. Nema kannski ekki.  Ég veit það ekki.  Eða bara skemmdur án þess eða í bland.  Bara eitthvað. Svo ofsafengin voru viðbrögð að brotist var inn í tölvubúnað Útvarps Sögu og niðurstaðan brengluð í gegnum IP-tölu í Sviss!  Þá var kátt í höllinni.

  Eftir stendur:  Útvarp Saga er þjóðarútvarp.  Þjóðin hlustar.  Þjóðin tjáir sig.  Útvarp Saga er opið útvarp.  Allir fá þar að tjá sig í þrjá klukkutíma á dag.  Þar fyrir utan eru á dagskrá Útvarps Sögu ótal þættir þar sem meðal annarra fá að viðra sín viðhorf fulltrúar múslima,  andstæðingar múslima,  tónlistarmenn,  hagfræðingar,  talsmenn ríkisstjórnar,  talsmenn stjórnarandstæðinga og svo framvegis.  

  Útvarp Saga er góður og opinn vettvangur lýðræðislegrar og gagnrýnnar umræðu um þjóðmál.  

  Bubbi má vel við una.  Hann hefur fengið mikla og þarfa athygli út á upphlaupið. Það er gott.  Líka fyrir nýju ljóðabókina.  Hann býr einnig að því að fjöldi útlendinga hefur krákað (cover songs) lög hans.  Alveg frá því um miðja síðustu öld.  Hér fyrir neðan krákar John Fogerty (1973) GCD lag hans um Hótel Borg.  Það er gaman.


Kvikmyndarumsögn

  - Titill:  Klovn Forever

  - Höfundar og leikarar:  Frank Hvam og Casper Cristensen

  - Einkunn:  **** (af 5)

  Dönsku sjónvarpsþættirnir Klovn hafa notið mikilla og verðskuldaðra vinsælda hérlendis og víðar.  Enda sérlega vel heppnaðir.  Grínið er grátt og stundum á ystu nöf.  Það er einnig mannleg taug í skopinu sem laðar fram samkennd með persónunum.

  Fyrir fimm árum var uppskriftin útfærð í kvikmynd,  Klovn The Movie.  Þar var grínið tekið ennþá lengra í grófari átt.  Mörgum aðdáanda sjónvarpsþáttanna var brugðið.  Jafnvel í sjokki.  Aðrir þurftu að horfa í tvígang á myndina til að kyngja gríninu og ná öllum bröndurunum.  Myndin var og er virkilega fyndin.  

  Nýja myndin,  Klovn Forever,  er einnig kölluð Klovn 2.  Hún er allt að því framhald af fyrri myndinni.  Gerist í rauntíma fimm árum síðar.  Frank er orðinn ráðsettur fjölskyldumaður,  tveggja barna faðir.  Casper er fráskilinn faðir fullorðinnar dóttur. Hann flytur til Bandaríkja Norður-Ameríku.  Frank heimsækir hann.  Það skiptast á skin og skúrir í stormasömum samskiptum þeirra.  Jafnframt er verið að gefa út bók um þá vinina.  Söguþráðurinn er lítilfjörlegur.  En það skiptir litlu máli. 

  Myndin sveiflast á milli þess að vera gargandi fyndin,  drama og allt að því spenna í bland. Ýmislegt óvænt ber til tíðinda.  Tempóið er nokkuð jafnt út í gegn.  Fyrri myndin er ekki slegin út.  Núna er áhorfandinn á varðbergi.  Veit við hverju má búast.  

  Aðdáunarvert er hvað Frank er góður skapgerðarleikari.  Hann túlkar með svipbrigðum frábærlega vel áhyggjur,  sorg,  örvæntingu,  gleði og allt þar á milli.

  Klovn Forever er skemmtileg mynd.  Ég mæli með henni.

klovnforeverposter            

  


mbl.is Klovn Forever forsýnd - MYNDIR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alið á útlendingahatri

  Ég átti erindi í verslun.  Aldrei þessu vant.  Mig langaði skyndilega í maltöl.  Samt ekki Egils maltöl.  Ég setti viðskiptabann á Ölgerð Egils Skallagrímssonar þegar forstjóri hennar réðist með hroka og frekju að Föroya Bjór í fyrra.  Krafðist þess af ósvífni og yfirgangsfrekju að Föroya bjór hætti að selja Föroya Bjór Gull.

  Sem betur fer snérust vopn í höndum Ölgerðarinnar.  Almenningur reis upp til varnar Föroya Bjór Gulli.  Það leiddi til þess að verslanir ÁTVR urðu að þjóna eftirspurn með því að taka Föryoa Bjór Gull í sölu í flestum Vínbúðum.  Sem ekki var áður en Ölgerðin tók frekjukast.

  Nema hvað.  Kominn inn í verslun mætti ég ungum manni og syni hans.  Strákurinn sennilega um fimm ára.  Þeir voru á leið út.  Skyndilega tekur faðirinn viðbragð,  stoppar og segir:  "Það er miðvikudagur.  Ég ætla að kaupa Lottó."

  Stráksi tók vel í það með orðunum:  "Jess! Helvítis Finnar.  Þeir ætla að reyna að stela af okkur Lottóinu!" 

  Ég hrökk við.  Í hausnum á mér bergmáluðu útvarpsauglýsingar frá Lottóinu.  Þær ganga þessa dagana út á rembing í garð nágrannaþjóða okkar.  Þær eru sakaðar um hitt og þetta svívirðilegt varðandi Lottó.  Óhörðnuð íslensk börn heyra daginn út og inn alið á útlendingahatri í auglýsingum frá Lottói.  

  Svei!  Þetta er pólitísk ranghugsun.

föroya bjór


mbl.is Einn vann 110 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband