Færsluflokkur: Menning og listir
3.10.2025 | 09:29
Útvarpsraunir
Við sem búum á suðvesturhorninu erum þokkalega stödd varðandi úrval útvarpsstöðva til að hlusta á. Öðru máli gegnir með afganginn af landsbyggðinni. Þegar ekið er út úr bænum byrja útvarpsstöðvarnar að detta út hver á fætur annarri fljótlega eftir að Ártúnsbrekkunni sleppir.
Enn þrengir að. Nú er Sýn búin að slökkva á öllum sendum FM957 á landsbyggðinni að undanskildum Vestmannaeyjum og Akureyri. Verra er að slökkt hefur verið á öllum sendum X-ins út um landið. Það vekur furðu. X-ið er með miklu meiri hlustun en FM957. Eina skýringin sem mér dettur í hug er að manneskjan sem slekkur á útvapsstöðvum hlusti sjálf á FM957 en aldrei á X-ið.
Tekið skal fram að mæling á hlustun er meingölluð. Hún mælir einungis stöðvar sem borga fyrir að fá að vera með. Þannig vantar samanburðinn við Útvarp Sögu. Í eldri könnunum hefur Saga verið í hópi 3ja vinsælustu stöðvanna.
Athygli vekur að kántrý-stöðin hefur aldrei náð flugi - þrátt fyrir mikla og góða kynningu.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
19.9.2025 | 10:10
Mistök
Dægurlagamúsík á að vera lifandi. Þannig er hún ekta. Þannig fær hún að anda. Hún er betri þegar örlítil mistök fá að fljóta með í stað þess að allt sé sótthreinsað og allir hnökrar fjarlægðir. Hér eru nokkur dæmi - og gaman væri að fá fleiri dæmi frá ykkur:
Minning um mann með Logum: Þarna er sungið um mann sem drakk Brennivín úr stæk. Orðið stendur með einhverju sem lyktar illa (stæk fýla). Eða að einhver sé öfgafullur (stækur andstæðingur). Lagið er eftir Gylfa Ægis. Hann orti um mann sem drakk Brennivín úr sæ og söng það inn á kassettutæki. Hann var í glasi og dálítið þvoglumæltur. Söngvara Loga misheyrðist.
Draumaprinsinn með Ragnhildi Gísla: Lagið er í kvikmyndinni Í hita og þunga dagsins. Á einum stað syngur hún um draumaprinsinn Benedikt. Á öðrum stað er draumaprinsinn Benjamín. Lengst af var skýringin sú að Ragga hafi ruglast á nafninu. Einhver hefur haldið því fram að um meðvitaðan rugling væri að ræða.
Blue Suede Shoes með Carl Perkins: Bilið (hikið) á milli fyrstu línu (Well, it´s one for the money) og annarrar (Two for the show) átti ekki að vera þarna. Þetta voru mistök. Carl var búinn með upptökutíma sinn og allan pening og gat ekki lagað mistökin.
Life on mars með David Bowie: Ef hækkað er í græjunum þegar píanóið fjarar út í lok lags má heyra símhringingu. Einhver gleymdi að loka dyrunum á hljóðversklefanum.
Satisfaction með Rolling Stones: Í lok hvers vers - rétt áður en gítar-riffið skellur á - má heyra pínulítinn smell þegar Keith Richards stígur á "effekta" fótstigið. Enginn tók eftir þessu í tæka tíð.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 18:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
22.8.2025 | 11:36
Herkænska
Ég skrapp í Ikea. Keypti mér þar skæri og hélt síðan á veitingasvæðið. Þar fékk ég mér lax. Á næsta borði sátu nokkur ungmenni. Kannski um tvítug. Ég fylgdist ekkert með þeim þangað til sími pípti hjá einum drengnum. Hann kíkti á sms skilaboð, dæsti og sagði: "Æ andskotinn. Framkvæmdastjórinn boðar mig á fund í fyrramálið."
- Hvað er í gangi? spurði annar.
- Ég held að hann ætli að reka mig. Hann hefur hótað því, útskýrði drengurinn og hélt svo áfram: Ég ætla að byrja fundinn á því að rétta honum uppsagnarbréf. Reka hann áður en hann rekur mig. Hann getur ekki rekið mig ef hann er ekki lengur framkvæmdastjóri!
- Getur þú rekið hann?
- Ég læt allavega reyna á það!
19.6.2025 | 09:55
Einn að misskilja!
Bono Vox. söngvari írsku rokkhljómsveitarinnar U2, blandar iðulega inn í hljómleikadagskrá hljómsveitarinnar hugleiðingum um trúmál, stríð og frið, fátækt, hungur, mengun og svo framvegis.
Svo bar til að U2 hélt hljómleika í Skotlandi. Á miðjum hljómleikum stöðvaði Bono tónlistina og bað áheyrendur um algjöra þögn. Síðan byrjaði hann að klappa saman höndum. Hægt en taktfast. Í salnum ríkti þögn í langan tíma á meðan. Loks tók Bono til máls og tilkynnti með þunga í röddinni: "Í hvert sinn sem ég klappa saman höndum þá deyr barn í afríku."
Mjóróma rödd framarlega í salnum hrópaði reiðilega á móti með sterkum skoskum hreim: "Hættu þá að klappa, óþokkinn þinn!"
9.4.2025 | 09:13
Sérkennilegur vinsældalisti
Fyrir nokkrum árum - nánar tiltekið fyrir 61 ári - gerðist undarlegur hlutur vestur í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Þetta var á vordögum 1964. Ensk unglingahljómsveit naut óvænt vinsælda og virðingar þarna vesturfrá. Slíkt hafði aldrei áður gerst. Þótti óhugsandi. Bandaríski vinsældalistinn varð ólíkur því sem tónlistarunnendur áttu að venjast. Skoðum hvaða lög röðuðu sér í 5 efstu sæti vinsældalistans:
Í 1. sætinu var lagið "Can´t Buy Ne Love" með Bítlunum (The Beatles). Lagið kom fyrst inn á vinsældalistann í marslok og klifraði síðan hratt upp í toppsætið.
Í 2. sætinu var "Twist And Shout" með Bítlunum. Það fór í 2. sætið í tveimur stökkum.
Í 3. sæti var "She Loves You" með Bítlunum. Lagið var áður í 1. sæti.
Í 4. sæti var "I Want To Hold Your Hand" með Bítlunum. Það var áður í 1. sæti.
Í 5. sæti var "Please Please Me" með Bítlunum. Það náði hæst í 3. sæti - vegna þess að sæti 1 og 2 voru blokkeruð af öðrum Bítlalögum.
Samtals áttu Bítlarnir 12 lög samtímis á bandaríska vinsældalistanum um þessar mundir. Nokkuð sérstakt vegna þess að hljómsveitin hafði aðeins sent frá sér 2 plötur. Þetta vakti heimsathygli.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 18:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
5.3.2025 | 09:11
4 lög með Bítlunum sem þú hefur aldrei heyrt
Flestir hafa heyrt flest lög bresku Bítlanna. Flestir kveikja á perunni þegar þeir heyra í fyrsta skipti einhver önnur Bítlalög. Söngstíllinn og fleiri sérkenni svipta hulunni af þeim. En það eru til lög með Bítlunum sem þú hefur aldrei heyrt. Lög sem eru aldrei spiluð í útvarpi.
Undarlegasta lagið heitir Revolution 9. Það er eftir John Lennon. Uppskriftin er sú að ekki sé hægt að tralla með laginu né slá takt með því. Ekki nóg með það heldur er þetta lengsta lagið á Hvíta albúminu. Það spannar á níundu mínútu.
Annað lag heitir The Inner Light. Það er eftir George Harrison og var gefið út á B-hlið smáskífunnar Lady Madonna.
Svo er það Good Night á Hvíta albúminu. Það er eftir John Lennon en sungið af Ringo.
Upphaflega ætlaði John Lennon að hafa You Know My Name á Hvíta albúminu. Hann hætti við það og ætlaði að gefa það út á smáskífu með hljómsveit sinni Plastic Ono Band. Lagið endaði hinsvegar sem B-hlið Bítlasmáskífunnar Let It Be. Paul hefur upplýst að hann hafi aldrei skemmt sér betur við hljóðritun Bítlalags en á þessu lagi.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
12.2.2025 | 10:23
Frábær kvikmynd
- Titill: The Complete Unknown
- Lengd: 141 mín
- Einkunn:**** (af 5)
Myndin lýsir því þegar 19 ára söngvaskáldið Bob Dylan kemur til New York 1961. Hann var fæddur og uppalinn í Minnesota. Fyrirmyndir hans voru vísnasöngvararnir í New York. Þar á meðal aðal idolið, Woody Guthrie.
Blessunarlega eru leikararnir í myndinni ekki látnir herma nákvæmlega eftir fyrirmyndunum. Helstu sérkenni er þó stuðst við. Eðlilega reynir mest á hæfileika Timothée Chalamet. Hann leikur Dylan listilega vel; hvort heldur sem er í gítarleik, munnhörpublæstri, tali eða töktum. Hann er aðdáanlega jafnvígur á öllum þessum sviðum.
Monica Barbaro er eiginlega senuþjófur í hlutverki Joan Baez. Hún fær það erfiða verkefni að túlka ofurflotta söngrödd Baez. Útkoman er óaðfinnanleg.
Aðrir leikarar eru hver öðrum betri. Tónlistar- og þroskaferli Dylans er fylgt eftir fram til ársins 1965. Kauði er breyskur eins og flestir. Hann ræður illa við skyndilega ofurfrægð. Á það til að vera önugur, ótrygglyndur, vita ekki hver eru næstu skref og er í stöðugri vörn gagnvart samferðafólki sem setur fram ýmsar kröfur um framhaldið.
Myndin er áhugaverð í alla staði. Ekki bara fyrir aðdaendur Dylans. Líka þá sem eru að kynnast honum í fyrsta sinn. Tónlistin er að sjálfsögður fyrirferðamikil og skemmtileg. Lögin mörg hver fá að njóta til enda. Fyrir bragðið er myndin löng. Sem er gott. Enda meiriháttar lög og ennþá glæsilegri og safaríkari textar.
Ég hvet fólk til að drífa sig í bíó og njóta skemmtunarinnar í hæstu hljómgæðum.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
15.1.2025 | 10:34
Þegar Paul McCartney yfirtók frægustu hljómsveit heims
9. október 1956 fagnaði ungur drengur í Liverpool í Englandi 16 ára afmæli. Hann hét John Lennon. Nokkrum dögum síðar stofnaði hann hljómsveit, The Quarrymen. Hún spilaði svokallaða skiffle tónlist. John söng og spilaði á gítar. Hljómsveitin fékk nóg að gera.
Um sumarið gekk 15 ára piltur, Paul McCartney, til fundar við John. Hann langaði í hljómsveitina. John dáðist að tónlistarhæfileikum hans og bauð hann velkominn um borð.
Skólabróðir Pauls, George Harrison, var lipur gítarleikari. Hann var aðeins 14 ára. Á þessum aldri munar miklu um hvert ár. John hugnaðist ekki að verða barnapía. Paul suðaði og fékk að leyfa George að djamma með hljómsveitinni. Hann náði að heilla John.
Eftir nokkrar mannabreytingar endurnefndi John hljómsveitina The Beatles, kölluð Bítlarnir á Íslandi. 1962 tók Ringo Starr við trommukjuðunum. Þar með var hljómsveitin komin í sitt endanlega horf. Hún var alla tíð hljómsveit Johns. Hann réði ferðinni, samdi og söng flest lögin. Hann lagði þó ríka áherslu á að Bítlarnir væru hljómsveit jafningja. Hún lagði undir sig heimsmarkaðinn svo rækilega að aldrei verður saman jafnað.
Adam var ekki lengi í Paradís. Vinsældirnar og frægðin fóru að þjaka John. Hann varð óhamingjusamur. Hann varð faðir án áhuga á því hlutverki. Hann var í ástlausu hjónabandi. Honum þótti Bítlarnir vera sirkusatriði. Hvorki öskrandi áheyrendur né Bítlarnir sjálfir heyrðu hvað fór fram á sviðinu. Að auki hafði hann ekki unnið úr ótal áföllum æskuáranna. Foreldrarnir stungu drenginn af og hann hitti þau ekki fyrr en á fullorðinsárum. Ströng og snobbuð frænka hans ól hann upp. Hún var ekkert fyrir að faðma eða knúsa barn. Maður hennar var hressari. Hann dó er John var 12 ára. Þegar hann á unglingsárum hitti mömmu sína var hún drepin af ölvuðum bílstjóra. Áfram mætti lengi telja.
1966 féllst umboðsmaður Bítlanna, Brian Epstein, á að hljómsveitin hætti hljómleikahaldi. Ári síðar dó hann. Það var enn eitt áfallið. Hann hafði leitt hljómsveitina frá fyrstu skrefum og í gegnum ofurvinsældirnar. Viðbrögð Johns voru að hella sér út í harða eiturlyfjaneyslu. Upp frá því var hann hálfur út úr heimi, áhugalítill og latur.
Viðbrögð Pauls voru ólík. Hann var og er mjög ofvirkur en líka stjórnsamur. Hann tók eiginlega við af Brian Epstein. Bókaði hljómsveitina í hin ýmsu verkefni með misjöfnum árangri. Verra var að ofríki hans pirraði George og Ringo. Báðir hættu í hljómsveitinni um tíma. Hinsvegar var Paul diplómatískari í samskiptum við John, vitandi að hann léti ekki að stjórn. Á síðustu Bítlaplötunum semur Paul, syngur og útsetur flest lög.
Án ofvirkni Pauls og eftirrekstrar hefðu plötur Bítlanna orðið tveimur færri eða rúmlega það.
Menning og listir | Breytt 6.2.2025 kl. 20:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
7.1.2025 | 09:06
Furðulegur hundur
Einu sinni sem oftar spilaði færeyski píanóleikarinn Kristian Blak fyrir dansi í Þórshöfn í Færeyjum. Úti var grenjandi rigning og kalsaveður. Fyrir dansleikinn þurfti að bera hljóðfæri og hljómkerfi í hús. Stór skoskur hundur stillti sér upp við útidyrnar.
Kristian spurði hundinn hvort hann langaði að koma inn úr rigningunni. Sá var snöggur að þiggja boðið. Hann lagði sig á sviðið og fylgdist síðan með fólkinu dansa. Einn af hljóðfæraleikurunum átti erindi út á gólf. Hundurinn spratt á fætur og reisti sig upp framan á hann. Maðurinn steig dansspor með honum. Er maðurinn ætlaði aftur upp á svið mótmælti hann með frekjulegu gelti og lagðist þétt framan á hann. Þetta vakti kátínu. Þeir dönsuðu í smástund uns maðurinn sagði voffa að hann verði að spila með hljómsveitinni. Það var eins og blessuð skepnan skildi; stökk upp á svið og lagði sig á ný.
Er dansleik lauk elti hvutti Kristian heim. Veður var ennþá svo leiðinlegt að Kristian bauð honum inn. Útskýrði jafnframt fyrir honum að hann yrði að fara um morguninn áður en húsfrúin vaknaði. Hún væri kasólétt og andvíg húsdýrum.
Morguninn eftir vaknaði Kristian snemma og hleypti hundinum út. Sá virtist alsáttur. Seint næsta kvöld sá Kristian hundinn bíða við dyrnar. Þetta endurtók sig. Að nokkrum dögum liðnum hringdi konan í vinnuna til Kristians; sagði hund stara inn um glugga hjá sér. Hana grunaði að um svangan flækingshund væri að ræða. Kannski ætti hún að gefa honum matarbita. Kristian tók vel í það. Eftir það gekk hundurinn út og inn með því að opna og loka hurðinni sjálfur.
Konan komst að því hver ætti hundinn og Kristian kom honum til síns heima. Hundurinn strauk strax aftur til hans. Þetta endurtók sig. Neyðarráð var að koma voffa út í sveit. Í lítið þorp, Kirkjubæ.
Meira um dýrið á morgun.
Menning og listir | Breytt 8.1.2025 kl. 01:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.12.2024 | 09:18
Spennandi sjávarréttur - ódýr og einfaldur
Fyrir daga kvótakerfisins var fiskur og önnur sjávar- og vatnadýr fátækramatur. Þau voru á borðum flesta daga vikunnar. Nema sunnudaga. Þá var lambahryggur eða -læri með Ora grænum baunum. Í dag er sjávarfang lúxusfæði ríka fólksins. Það er helst að almenningur laumast til að sjóða sér fiskbita á mánudögum og herða sultarólina aðra daga.
Mér og öðrum til ánægju býðst hér uppskrift á ódýrum og virkilega bragðgóðum sjávarrétti. Í hann þarf eftirfarandi hráefni:
25 g smjörlíki
125 g strásykur
5 msk kakó
1 egg
Sulta þarf að vera innan seilingar. Skiptir ekki máli hvort það er rabbbara- eða bláberjasulta. Bara ekki sviðasulta.
90 g hveiti
1/2 tsk matarsódi
1/4 tsk salt
1/2 bolli mjólk
1/2 vanilludropar og lítil dós af hákarlsbitum
Smjörlíkinu og strásykrinum er sullað saman og hrært kröftuglega í. Óvænt er eggjum bætt út í. Síðan svo lítið ber á er hveiti, matarsódi, kakói og salti sigtað saman og laumað út í svo lítið ber á ásamt mjólk og vanillu. Þessu er hrært saman undir spilun á laginu "Á sjó" með Þorvaldi Halldórs og Hljómsveit Ingimars Eydal.
Að því loknu er herlegheitunum sturtað í lausbotna tertuform og bakað við 147 ¨C í 47 mínútur. Á meðan er notalegt að sötra Irish Coffie eða Bailys. Eftir þetta er botninn skorinn í sundur, sultan smurð á milli og súkkulaðikremi - sem er til á öllum heimilum - klesst ofan á. Þegar tertan er tilbúin skal hverri sneið fylgja hákarlsbiti og honum skolað niður með kældu Brennivínsskoti.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)