Færsluflokkur: Menning og listir
8.5.2024 | 08:42
Gullmolar
Sagan segir að lagið Good Vibration hafi verið samið í sýrutrippi. Hið rétta er að ég samdi það í hassvímu! (Brian Wilson, Beach Boys)
Ég var eina manneskjan á Woodstock sem var ekki á sýrutrippi (Joe Cocker. Hann var "bara" blindfullur).
Ég dópaði aldrei. Djússaði bara. Mér gast ekki að hugmyndinni að vera stöðugt í slagtogi með lögreglunni! (Robert Wyatt)
Það skemmtilega við elliglöp er að maður rekst stöðugt á nýtt áhugavert fólk! (Paul McCartney)
Einhver líkti því við kynmök við górillu að prófa dóp. Þú sleppur ekki fyrr en górillan ákveður það! (Peter Tork, Monkees)
Ef þú ert svalur þá veistu ekki af því! (Keith Richards)
Keith gerir út á vorkunn. Hann reddar sér oft fyrir horn með því að segjast vera heilaskaddaður! (Ronnie Wood, Rolling Stones)
Led Zeppelin keppti ekki við neina. Við vorum besta hljómsveitin. Enginn gat keppt við okkur! (Robert Plant).
Lagasmíðar verða að vera mitt lifibrauð. Ég kann ekkert annað! (Ray Davis, Kinks)
Ég verð að vera bjartsýnn. Annars yrði ég að semja píkupopp og græða sand af seðlum! (Steve Earle).
Ef þú verður að setja mig í bás þá er uppáhaldsbásinn minn ásatrú. (Neil Young)
Í 4000 ár hafa skipulögð trúarbrögð reynt að fela þá staðreynd að tunglmánuðirnir eru 13. Þau reyna að fela töluna 13 af því þau vilja ekki að náttúran sé samkvæm sjálfri sér. (Björk)
16.4.2024 | 08:01
Bítlasynir taka höndum saman
Það hefur ýmsa kosti að eiga fræga og dáða foreldra. Því miður hefur það einnig ókosti. Meðal kosta er að börnin eiga greiðan aðgang að fjölmiðum. Kastljósið er á þeim. Af ókostum má nefna að barnið er alltaf borið saman við það allra besta sem eftir foreldra liggur. Þetta hafa synir Bítlanna sannreynt.
Til samans hafa synirnir spilað og sungið inn á um tvo tugi platna. Þær standast ekki samanburð við Bítlana. Og þó. Sonur Ringos, Zak, er virkilega góður trommari. Hann hefur meðal annars cerið trommari Oasis og Who.
Nú feta Sean Lennon og James McCartney nýja leið. James hefur sent frá sér lag, "Primrose Hill", sem hann samdi og flytur með Sean. Lagið er Bítla-Lennon-legt. Það hefði varla verið boðlegt sem B-hlið á Bítlasmáskífu og aldrei ratað inn á stóra Bítlaplötu. Því síður toppað vinsældalista. Sterk laglína og flottur texti hefðu hjálpað.
Menning og listir | Breytt 6.8.2024 kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
10.4.2024 | 08:04
Örstutt og snaggaralegt leikrit um handrið
Persónur og leikendur:
Miðaldra kvenforstjóri
Álappalegur unglingspiltur
----------------------------------------------------------------------------------
Forstjórinn (horfir í forundran á piltinn baslast við að koma stóru handriði inn á gólf). Hvað er í gangi?
Piltur: Ég fann gott handrið!
Forstjórinn: Til hvers?
Piltur: Þú sagðir á föstudaginn að okkur vanti gott handrið. Ég leitaði að svoleiðis alla helgina og fann þetta í næstu götu.
Forstjórinn: Ég hef aldrei talað um handrið.
Piltur: Jú. þú sagðir að okkur vanti gott handrið til að taka þátt í jólabókaflóðinu í haust.
Forstjórinn: Ég sagði handrit; að okkur vanti gott handrit!
Tjaldið fellur.
Menning og listir | Breytt 9.5.2024 kl. 17:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
6.3.2024 | 09:39
Kennaramorð
Sex ára frænka mín hóf nám í grunnskólanum. Hún hefur sterkt og afskaplega ríkt hugmyndaflug. Í hennar huga stækka hlutirnir og verða sveipaðir ótrúlegasta ævintýraljóma.
Í aðdraganda skólagöngunnar viðurkenndi pabbi hennar að hann hafi stundum verið óþekkur í skólanum. Hann hafi lent í útistöðum við kennarann. Stelpan rak upp stór augu. Svo kom skólasystir hennar í heimsókn. Þær spjölluðu um skólann. Pabbanum var illa brugðið er hann heyrði dótturina einlæga og alvörugefna segja: "Pabbi var rosalega óþekkur í skóla. Hann steindrap kennarann!"
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
21.2.2024 | 21:56
Ánægjuleg kvikmynd
- Titill: BOB MARLEY: One Love
- Einkunn: **** (af 5)
Bob Marley ólst upp í mikilli fátækt á Jamaica. Hann vann sig upp í að verða skærasta, stærsta og í raun eina ofurtónlistarstjarna þriðja heimsins. Súperstjarna ofarlega á lista yfir merkustu tónlistarmenn sögunnar. Kvikmynd um 36 ára ævi hans var fyrir löngu tímabær.
Kvikmyndin stendur undir væntingum. Í og með vegna þess að músíkin er yndisleg. Hljóðheimur (sánd) Kringlubíós er frábær. Sérlega skilar hann bassagítar flottum.
Einstaka sena er allt að því full róleg. Þannig er það með myndir sem byggja á raunverulegum söguþræði. Enski leikarinn Kingslay Deb-Adir túlkar Marley. Hann er ágætur. Honum tekst þó ekki fullkomlega að fanga sjarma Bobs. Það er ómöguleiki.
Blessunarlega upphefur myndin Bob ekki sem breyska guðlega veru. Né heldur ofhleður hana með rasta-trúarbrögðum hans. Sem samt voru stór þáttur í lífi hans.
Margt má segja um myndina gott og misgott. Eftir stendur að ág mæli með henni sem skrepp í kvikmyndahús og upplifa "feel good").
Menning og listir | Breytt 7.3.2024 kl. 17:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
12.1.2024 | 08:39
Áfall!
Ég verð seint sakaður um að horfa of mikið og of lengi á sjónvarp. Síst af öllu að horfa á línulaga dagskrá. Þess í stað fletti ég upp á dagskrá Rúv á heimasíðu þess og hlera hvort þar hafi verið sýnt eitthvað áhugavert. Ég er ekki með neina keypta áskrift.
Í gær fletti ég upp á endursýndri spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur. Það er fróðlegt og skemmtilegt sjónvarp. Í kjölfarið birtist óvænt Hemmi Gunn á skjánum. Mér var illa brugðið. Gleðipinninn féll frá fyrir 11 árum. Þetta var áfall. Mér skilst að Sjónvarpið hafi hvorki varað ættingja hans né vini við. Þetta var svakalegt.
Við nánari könnun kom í ljós að um var að ræða endursýningu á gömlum skemmtiþætti, Á tali hjá Hemma Gunn. Sem betur fer var tali sjónvarpsstjörnunnar ekki breytt með gervigreind. Það var lán í óláni.
Ég vara viðkvæma við að "skrolla" lengra niður þessa bloggsíðu. Fyrir neðan eru nefnilega myndir af Hemma.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 08:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
5.1.2024 | 04:51
Óvænt og ferskt stílbragð Rúv
Löng hefð er fyrir því að viðurkenningarskjöl, meistarabréf og fleira af því tagi séu virðuleg og vegleg. Einkum er nafn handhafa plaggsins sem glæsilegast. Oft skrautskrifað. Tilefnið kallar á að reisn sé yfir verkinu. Enda algengt að það sé innrammað og prýði veggi.
Í fésbókarhóp sem kallast Blekbyttur vekur Árni Sigurðsson athygli á nýstárlegri framsetningu Rúv á viðurkenningarskjali. Þar eru fréttamenn ársins heiðraðir. Skjalið sem staðfestir titilinn lætur lítið yfir sér - ef frá er talið nafn handhafans. Það stingur í stúf við tilefnið; er krotað með hrafnasparki líkt og eftir smábarn að krota með kúlupenna.
Með uppátækinu fer Rúv inn á nýjar brautir. Út af fyrir sig er metnaður í því. Einhver kallaði þennan nýja stíl "pönk". Munurinn er þó sá að pönk er "kúl".
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 08:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
25.11.2023 | 09:08
Frábær bók
- Titill: Born to Run - Sjálfsævisaga
- Höfundur: Bruce Springsteen
- Þýðandi: Magnús Þór Hafsteinsson
- Útgefandi: Ugla
- Einkunn: *****
Bandaríski tónlistarmaðurinn Bruce Springsteen er einn af þeim stærstu í rokksögunni. Hann hefur selt 150 milljónir platna; margsinnis toppað vinsældalista um allan heim; hlotið fjölda verðlauna. Þar af 20 Grammy. Um hann hafa verið skrifaðir tugir bóka. Þessi sem hér um ræðir hefur þá sérstöðu að vera sjálfsævisaga hans.
Bruce ólst upp við fátækt og basl í New Jersey. Til að mynda var ekki heitt vatn á æskuheimili hans. Pabbinn var alki sem hélst illa í vinnu.
Bruce er maður orðsins. Söngtextar hans eru með þeim bestu í dægurlagaheimi. Hann er pennafær. Skrifar beinskeyttan auðlæsan texta og stutt í ljóðrænan blæ. Yrkisefnið er jafnan örlög alþýðufólks. Þar á meðal jafnaldrana sem hann ólst upp með.
Alþýðurokkarinn reynir hvergi að fegra sig. Hann er hreinn og beinn. Kann best við sig í gallabuxum og vinnuskyrtu. En á það líka til að klæðast fínum fötum og aka um á dýrum bílum. Hann hefur átt sína táradali jafnt sem hamingjustundir. Vegna þess hvað hann geislar af gleði á hljómleikum vakti undrun er hann fór að tjá sig um þunglyndi fyrir nokkrum árum. Þeim hremmingum gerir hann góð skil.
Lesandinn þarf ekki að þekkja tónlist Brúsa til að njóta bókarinnar. Fyrir aðdáendur er hún gullnáma, hnausþykk, 670 þéttskrifaðar blaðsíður með litlu letri. Það tók mig nokkra daga að lesa hana. Þeim var vel varið. Jólagjöfin í ár!
Þýðing Magnúsar Þórs Hafsteinssonar er vönduð og góð.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.11.2023 | 09:15
Jólagjöfin í ár!
Út er komin meiriháttar svakaleg bók, Born to Run - Sjálfsævisaga. Í henni segir rokkgoðsögnin Bruce Springsteen sögu sína og hljómsveitarinnar E Street Band. Ég er kominn með bókina í hendur og byrjaður að lesa. Það er ekkert áhlaupaverk. Hún er hnausþykkur doðrantur, hátt í 700 blaðsíður. Þær eru þétt skrifaðar með frekar smáu letri. Þýðandi er Magnús Þór Hafsteinsson, þekktur fyrir góðar og vandaðar þýðingar.
Ég sé í hendi mér að bókin er ekki lesin á einu kvöldi. Þetta er margra daga lestur; margra daga skemmtun. Ég geri betur grein fyrir henni að lestri loknum.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.9.2023 | 12:43
Smá smásaga
Í vor fæddist stór og myndarlegur drengur. Honum var gefið nafnið Jónas. Hann var 1,90 á hæð og þrekvaxinn eftir því. Stærðin er ekki hið eina einkennilega við strákinn. Aldur hans vekur undrun. Hann fæddist 27 ára.
Fæðingar eru svo sem af ýmsu tagi. Kona nokkur fæddi frosk. Önnur eignaðist eingetið barn. Sumir eiga erfitt með að trúa þessu. Jónas fæddisst 2023. Samt er kennitala hans 080596. Hann er jafn gamall og Janis Joplin, Jim Morrison, Jimi Hendrix og Brian Jones voru er þau féllu frá. Öll með J sem upphafsstaf í fornafni eða eftirnafni. Eða hvorutveggja. Kurt Cobain er undantekning af því að hann féll fyrir eigin hendi. Upphafsstafur hans er næsti stafur á eftir J.
Jónas hefur lokið námi í lögfræði. Prófskírteini hans vottar það. Einkunnirnar eru frekar lélegar.
Þrátt fyrir stærðina hefur hann engan skugga. Sama hvort ljós, sól eða önnur birta fellur á hann. Kannski er hann bara skugginn af sjálfum sér.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)