Færsluflokkur: Menning og listir

Heimsfræg hljómsveit spilar íslenskan slagara

  Í gær bloggaði ég um konu sem spilar á trommur.  Hún er aðeins sjö ára brazilísk stelpuhnáta.  Konur fá iðulega ástríðu fyrir trommuleik á þeim aldri.  Uppáhalds hljómsveit brazilísku telpunnar er bandaríska þungarokkshljómsveitin System of a Down.  Það er hið besta má.  System of a Down er flott hljómsveit.  Ein vinsælasta og ferskasta rokkhljómsveit heims.  

  Víkur þá sögu að sígildu íslensku dægurlagi,  "Sá ég spóa".  Hér er það í flutningi Savanna tríós.

       

  Ég skammast mín fyrir að hafa sem krakki slátrað plötum föður míns með Savanna tríói.  Ég notaði þær fyrir flugdiska (frisbie).  Þær þoldu ekki meðferðina.

  Hlerum þessu næst lagið "Hypnotize" með System of a Down.  Leggið við hlustir á mínútu 0.12.  

       


Kona spilar á trommu

  Konur tromma.  Þær elska að spila á trommur.  Ekki allar, vel að merkja.  En margar.  Ein er brazilískur krakki.  Aðeins sjö ára stelpuskott, Eduarda Henklein.  Hún var varla byrjuð að skríða þegar trommuástríðan braust út.  Hún trommaði á allt sem hönd á festi.  Foreldrarnir gáfu henni litið leikfangatrommusett.  Hún skildi það ekki við sig.  Lúbarði það allan daginn.    

  Þegar hún var fjögurra ára bættu foreldrarnir um betur;  gáfu henni alvöru trommusett.  Hún hefur nánast ekki staðið upp af trommustólnum síðan.  Ekki nema til að setja þungarokksplötur á fóninn.  Henni drepleiðist létt og einföld tónlist.  Hún sækir í rokklög sem eru keyrð upp af afgerandi trommuleik þar sem allt rommusettið fær að njóta sín.  Hún elskar taktskiptingar og "breik".  Litlu fæturnar hamast af sama ákafa og hendurnar.     

  Uppáhalds hljómsveitir hennar eru System of a Down og Led Zeppelin.  Hún kann líka vel við Metallica, AC-DC,  Slipknot og Guns N Roses.  

  Það er gaman að horfa á hana spila.  Út úr andlitinu skín gleði og svipur sem gefur til kynna að trommuleikurinn sé án fyrirhafnar.  Hér spilar hún - sennilega 5 ára - syrpu úr smiðju Ac-Dc, Bítlanna og System of a Down.    

 


Mætir sterkur til leiks

gummi hebb

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Hvað gerist þegar grípandi tónlist U2 og Coldplay er blandað saman ásamt tölvupoppi og söngrödd Herberts Guðmundssonar?  Útkoman gæti hljómað eitthvað í humátt að því sem heyrist í myndbandinu hér fyrir neðan.  Flytjandinn kallar sig Wildfire.  Raunverulegt nafn er Guðmundur Herbertsson.  "Up to the Stars" er hans fyrsta lag.  Flott lag.

  Eins og einhvern grunar eflaust er Guðmundur sonur poppstjörnunnar Hebba Guðmundssonar.  Sonurinn hefur erft söngrödd föður síns og hæfileikann til að semja snotur "syngjum með" lög.  Til hamingju með sterkt byrjendaverk, Guðmundur!

 


Hnuplað með húð og hári

  1965 sungu Ellý Vilhjálms og Ragnar Bjarnason - við fjörlegan undirleik hljómsveitar Svavars Gests - fjölmörg lög í hljóðveri Ríkisútvarpsins á Skúlagötu.  Þau komu út á þremur fjögurra laga plötum,  svokölluðum Ep.  Öll nutu mikilla vinsælda í óskalagaþáttum útvarpsins til margra ára.  

  Eitt þessara laga heitir "Sveitin milli sanda".  Höfundur er Magnús Blöndal Jóhannsson.  Testinn er nettur og auðlærður.  Hann er nokkur "Aaaaaa". 

  Næst bar til tíðinda að ég hlustaði á þýska listamenn syngja og leika.  Hraut þar um lag sem kallast "Die Liebe ist ein Raubtier" með Nik Page.  Það hljómar kunnuglegt við fyrstu hlustun.  Gott ef þarna hefur ekki verið hnuplað í heilu lagi "Sveitinni milli sanda".  Ætli STEF viti af þessu?


Alþjóðlegi Clash-dagurinn

  Pönkið varð til í Bandaríkjum Norður-Ameríku um miðjan áttunda áratuginn.  Ekki sem tónlistarstíll heldur afstaða og uppreisn gegn svokölluðu prog-rokki.  1976 bætti breska hljómsveitin Sex Pistols um betur og formaði pönkið sem tónlistarstíl;  pönkrokk.  Eldsnöggt skutust upp undir hlið Sex Pistols lærisveinar í bresku hljómsveitinni The Clash.

  The Clash dvaldi ekki lengi við pönkrokkið heldur fór út um víðan völl. Þróaði pönkið yfir í fjölbreytta nýbylgju.  Forsprakkarnir,  Sex Pistols, sendu aðeins frá sér eina alvöru plötu.  The Clash dældu plötum inn á markaðinn. Fengu snemma viðurnefnið "Eina bandið sem skiptir máli." (The only band that matter).

  The Clash náði ofurvinsældum í Bandaríkjum Norður-Ameríku.  Það varð banabiti.  Annar tveggja framvarða, söngvarinn Joe Strummer, átti erfitt með að höndla það dæmi.  Það var ekki hans bjórdós.  Hinn forsprakkinn,  gítarleikarinn og lagahöfundurinn Mick Jones,  var hinsvegar áhugasamur um að gera enn frekar út á vinsældalista.  Þar með sprakk hljómsveitin í loft upp.  

  Í Bandaríkjunum - og um heim allan - er árlegur Clash-dagur haldinn hátíðlegur 7. febrúar.  Þá spila útvarpsstöðvar einungis Clash-lög frá morgni til klukkan 18.00.  Fjöldi bandarískra borga hefur gert 7. febrúar,  Clash-daginn,  að formlegum hátíðardegi.  Þær eru:  Austin í Texas, Seattle, San Francisco,  Kent, Van Couver,  Washington DC, Tucson, Ithaca, svo og og enska borgin Bridgwater.  Kannski slæst Reykjavík í hópinn á næsta ári. Eða Garðabær. 

       

 


Glæsileg ljóðabók

  Á dögunum áskotnaðist mér ljóðabókin Safnljóð.  Undirtitill er 2006-2016.  Höfundur er Skagfirðingurinn Gísli Þór Ólafsson.  Ég þekki betur til hans sem tónlistamannsins Gillons.  Ég á tvær flottar af fjórum sólóplötum hans.  Gísli Þór er sömuleiðis liðsmaður blússveitarinnar ágætu Contalgen Funeral frá Sauðárkróki.

 Eins og nafn bókarinnar upplýsir undanbragðalaust þá hefur hún að geyma úrval ljóða eftir Gísla Þór.  Þau eru úr fimm ljóðabókum hans og af plötunum.

  Ljóðin eru óbundin og óhefðbundin.  Engir stuðlar eða höfuðstafir né rím.  En góður möguleiki er á að greina hljómfall í sumum þeirra.

  Það er ferskur tónn í ljóðunum.  Frumleg hugsun og kímni.  Það er gaman að lesa ljóðin aftur og aftur.  Sum vaxa við endurlestur. Önnur eru alltaf jafn mögnuð.  Til að mynda eitt sem heitir "Haukur Ingvarsson":

 Hver er þarna að fikta í kaffivélinni?

er það ekki KK

sem er að fikta í kaffivélinni?  

  Annað og töluvert öðruvísi er "Ást á suðurpólnum":

  Hve oft

ætli mörgæsir

hafi séð þig

sveitta ofan á mér

er við nutum ásta

á suðurpólnum

í engu nema vettlingum

  Bókin inniheldur - auk ljóðanna - fróðleik um feril Gísla Þórs.  Ég hvet ljóðelska til að kynna sér hana.  Hún er virkilega ágæt, flott og skemmtileg.  Fátt nærir andann betur en lestur góðra ljóða.    

safnljóð   

 

  


Snautleg innsetningarhátíð

  Rík hefð er fyrir stórkostlegri rokkhátíð þegar nýr karlmaður er formlega settur í embætti forseta Bandaríkja Norður-Ameríku.  Stærstu nöfn rokksins sameinast í að afgreiða glæsilega dagskrá.  Ekki aðeins bandarísk nöfn.  Líka bresk.  Forseti Bandaríkjanna er jafnframt forseti heimsins.

  Á innsetningarhátíðinni sameinast þjóðin.  Hún fagnar lýðræði og frelsi.  Hún fagnar því að forsetakosningar eru haldnar á 4ra ára fresti.  Þjóðin hefur valið sinn merkasta og hæfasta karlmann.  Að þessu sinni ljúfmennið Dóna Trump.

  Strax og sigur hans lá fyrir bárust fréttir af því að hann og hans menn væru farnir að ræða við stærstu rokkstjörnurnar.  Þeim var sagt að á meðal þeirra sem kæmu fram yrðu the Beach Boys, Elton John, aularnir í Kiss, Garth Brooks og Céline Dion.  Þessir aðilar brugðu við skjótt og þvertóku fyrir sína þátttöku - þrátt fyrir að þeim hafi verið lofað hárri fjárupphæð.

  Engu að síður mátti ætla að rokkhátíðin gæti skartað stjörnum á borð við Nick Cave, Lady Gaga, Paul McCartney, Green Day, Tom Waits, Foo Fighters, U2, Patti Smith, Metallica, the Rolling Stones, Madonnu, Pearl Jam, Bob Dylan og Leoncie.  Ekki endilega nákvæmlega þessi nöfn.  Alveg eins einhver önnur af sömu stærðargráðu.

  Nú, degi fyrir hátíðarhöldin, liggur fyrir að ekki tókst að landa neinni þekktri rokkstjörnu.  Þetta verður snautlegasta rokkhátíð í manna minnum.  

  Jú, reyndar er eitt nafnið pínulítið þekkt innan sveitasöngvasenunnar.  Þar er um að ræða Toby Keith.  Hann hefur alla tíð verið yfirlýstur demókrati.  Segist hinsvegar vera svekktur yfir því að þrátt fyrir tryggðina hafi honum aldrei verið umbunað af flokknum.  Þar fyrir utan veiti honum ekkert af fjárfúlgunni sem er í boði.  Hann hefur aldrei náð jafn stjarnfræðilega háu tímakaupi við að syngja kántrý-slagara.

  Aðrir sem koma fram eru til dæmis að taka Dj Ravi Drums (spilar lög af plötum og trommar undir.  Sjá myndband hér fyrir neðan.), Jacki Evanco (keppti í raunveruleikaþættinum America´s Got Talent) og The Piano Guys.  Þeir kráka þekkt lög á píanó.  

  

   


mbl.is Kærir Trump fyrir ærumeiðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn söngvari hefur fallist á að syngja fyrir tilvonandi forseta

  Eftir áramót verður ljúflingurinn Dóni Trump settur formlega í embætti forseta Bandaríkja Norður-Ameríku.  Löng hefð er fyrir því að við slíkt tilefni sé miklum hátíðarhöldum slegið upp. Að þessu sinni ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur ennfremur í Rússlandi.  

  Hefðin boðar að hátíðardagskráin samanstandi af leik og söng heitustu og stærstu nafna amerískra tónlistarmanna.  Mikill heiður þykir fyrir viðkomandi að vera valinn til þátttöku.  Jafnframt reynist hún hafa öflugt auglýsingagildi til langs tíma.

  Trump hefur þegar haft samband við marga í hópi skærustu stjarna.  Fram til þessa hefur hann farið bónleiður til búðar. - Þrátt fyrir boð um gull og græna skóga.  Jafnvel setu í eftirsóttum embættum.  Stemmningin er sú sama og þegar hver poppstjarnan á fætur annarri bannaði góðmenninu að spila lög þeirra á kosningafundum.

  Örfáir tónlistarmenn könnuðust við að styðja forsetaframboð Trumps.  Þeir hugsa sér nú gott til glóðarinnar.  Vandamálið er að nöfn þeirra eru ekki af þeirri gráðu sem þörf er á.  Kosningateymi Trumps gerir sér grein fyrir því að hljómleikarnir megi ekki samanstanda af þeim. Það væri hræðilega hallærisleg og niðurlægjandi staða.  

  Ein ljóstýra hefur kviknað.  Lærð óperusöngkona,  Jackie Evancho,  upplýsti í gær að hún hafi þegið boð um að syngja á hljómleikunum.  Hún varð þekkt fyrir sex árum vegna þátttöku og góðs gengis í vinsælum raunveruleikaþætti í sjónvarpi,  Americas Got Talent.   Síðan hefur hún sungið jólalag og eitthvað fleira inn á plötu.  Nafn hennar er á mörkum þess að vera nógu öflugt til að standa undir sólóhlutverki á hljómleikunum.

  Jackie greindi frá því að hennar hlutverk verði að syngja lag með öðrum lærðum óperusöngvara.  Sá heitir Bocelli.  Frá honum hefur hinsvegar hvorki heyrst hósti né tíst um það hvort að hann sé tilkippilegur.    

queen--trump   


Svakalegustu íslensku hljómsveitanöfnin

  Mér var bent á ansi skemmtilega samantekt yfir - eða kosningu um - þau íslensk hljómsveitanöfn sem hafa sjokkerað mest og flesta rækilegast.  Áhugavert.  Samt ekkert svo svakalegt.  Frekar að þessi nöfn séu grallaraleg.  Listinn ku hafa verið tekinn saman fyrir tíu árum, 2006, á spjallþræðinum www.live2cruize.  Ég veit ekkert hvaða fyrirbæri það er.  Mér var vísað á að listinn hafi verið endurbirtur á www.menn.is.  Þar fann ég hann.   

  Þó að listinn sé tíu ára gamall þá kemur það ekki að sök.  Engin ný hljómsveitanöfn hafa komið fram á síðustu árum sem sjokkera. 

  Efst hér er ljúft myndband með hljómsveitinni frábæru Sjálfsfróun (nafn nr. 6)   

Rotnandi fóstur

2. Gyllinæð

3. Bruni BB (Bruni Bjarna Benedikstssonar)

4. VBV (Vinstra brjóst Vigdísar)

5. Anal Vomit

6. Sjálfsfróun

7. Æla  Ég held að þessi ágæta hljómsveit sé enn starfandi í Keflavík.

8. Gubbrass

9. Sjúðann

10. Drulla

11. Halló og heilasletturnar

12. Hölt hóra (Hölt hóra með kúk á brjóstunum)

13. Kúkur í poka

14. Nefrennsli  Þekktust fyrir að bassaleikarinn var Jón Gnarr.

15. Nýnasistur

16. Rotþróin  Ég hélt að nafn þessarar húsvísku hljómsveitar væri án ákveðins greinis. Nafnið sé Rotþró.  Mig minnir að ég eigi eitthvað með þeim á kassettu.  

17. Þvag

18. Ræsið

19. Sarðnaggar

20. Steiktir naflar 

Atli Fannar með Haltri hóru - áður en sú hljómsveit breyttist í Ingó & Veðurguðina.  Sjaldan hefur góð hljómsveit tekið jafn afgerandi kollhnís aftur á bak á versta veg. 


Ný plata

  Einn margra skemmtilegra fastra þátta á Útvarpi Sögu er "Meindýr og varnir".  Þar fer Guðmundur Óli Scheving á kostum.  Á auðskilinn hátt fræðir hann um allskonar pöddur,  svo sem silfurskottur og veggjalýs.  Líka rottur og myglusvepp.  Fróðleikinn kryddar hann með gamansemi, skemmtisögum og frumsaminni tónlist.  Frábærir þættir.

  Að undanförnu hef ég verið að hlusta á tvær hljómplötur Guðmundar Óla.  Listamannsnafn hans er Góli (stytting og samsláttur á nöfnunum Guðmundur Óli).  Plöturnar heita "Sporin í sálinni" og "Spegillinn í sálinni".  Sú fyrrnefnda kom út 2014. Hin 2015.  

  Töluverður munur er á þeim.  Sú fyrri er hrárri og einfaldari í alla staði.  Undirleikur er að uppistöðu til kassagítar.  Ýmist plokkaður eða sleginn.  Músíkina má skilgreina sem vísnasöngva eða þjóðlagatónlist (á ensku "folk").  Á hinni er meiri hljómsveitarbragur og popptónlist:  Með hljómborðum, bassa og trommum.  Jafnframt er meira lagt í útsetningar.  Jafnvel svo mjög að þær lyfta vel undir lögin.  Dæmi um það er bjöllukennt hljómborð í viðlagi "Þú ert mín ást".  Hljómurinn (sándið) er sömuleiðis hreinni og tærari.

  Öll lögin eru frumsamin.  Þau eru aldeilis ágæt.  Mörg hver grípandi og öll vel söngræn.  Einföld og notaleg.  Ég veit ekki hvort að ég meti það rétt en mér finnst eins og laglínur seinni plötunnar flæði liprar og áreynslulausar.  Kannski vegna útsetninga.  Kannski vegna þess að þar er meira kántrý.  

  Textarnir/ljóðin gefa tónlistinni drjúga vigt.  Eru safaríkt fóður út af fyrir sig.  Unun á að hlýða.  Þeir/þau eru mörg sótt í smiðju úrvalsljóða Davíðs Stefánssonar, Steins Steinarr, Tómasar Guðmundssonar,  Arnar Arnarssonar, Hannesar Hafsteins, Vilhjálms frá Skáholti og sjálfan margverðlaunaðan Guðmund Brynjólfsson.  Í bland eru frumsamin ljóð.  

  Á "Speglinum í sálinni" er þetta ljómandi jólalag sem heyra má hér fyrir neðan.  

  Flottar plötur.  Nú er komin út ný plata fá Góla.  Hún heitir "Hvíslið í sálinni".

góli - Hvíslið í sálinnigóli - Sporin í sálinnigóli - spegillinn í sálinni   

   

  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband