Færsluflokkur: Menning og listir
12.6.2017 | 00:05
Nýtt íslenskt tónlistartímarit
Ef áætlanir ganga upp er stutt í að fyrsta tölublað nýs íslensks tónlistartímarits líti dagsins ljós. Nafn þess er Rvk on stage. Textinn er á ensku. Það mun koma út ársfjórðungslega, prentað á góðan pappír. Blaðsíðnafjöldi er 76 og brotið er A4 (sama stærð og vélritunarblað). Umfjöllunarefnið er áhugaverð íslensk rokk- og dægurtónlist.
Undirbúningur hefur staðið í 5 mánuði og engu til sparað. Allt hið vandaðasta sem útgefendur og kaupendur geta verið stoltir af. Einnig verður hægt að fá stafræna útgáfu af blaðinu.
Fjármögnun er hafin á Karolina Fund. Hægt er að velja um nokkrar leiðir, frá kr. 1200 upp í 90 þúsund kall. Um þetta má lesa nánar HÉR Lægstu upphæðirnar eru kaup á blaðinu en ekki eiginlegur styrkur. Endilega hjálpið til við að ýta tímaritinu úr vör. Ef vel tekst til getur þetta orðið góð vítamínssprauta fyrir nýskapandi íslenska tónlist.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.5.2017 | 20:50
Íslendingar færa Færeyingum listaverk að gjöf
Í vikunni var listaverkið "Tveir vitar" afhjúpað við hátíðlega athöfn í höfuðborg Færeyja, Þórshöfn. Annika Olsen, borgarstjóri, og Högni Hoydal, þingmaður á færeyska lögþinginu og danska þinginu, fluttu ávörp og Hafnar-lúðrasveitin lék við hvurn sinn fingur.
"Tveir vitar" er gjöf Vestfirðinga til Færeyinga; þakklætisvottur fyrir höfðinglegar peningagjafir færeyskra systra okkar og bræðra til endurreisnar Flateyrar og Súðavíkur í kjölfar mannskæðra snjóflóða 1995.
Bæjarstjóri Ísafjarðar, Gísli Halldór Halldórsson, afhenti listaverkið formlega.
Það er virkilega fagurt og glæsilegt, samsett úr blágrýti og stáli. Höfundurinn er myndlistamaðurinn Jón Sigurpálsson. Hann er einnig kunnur sem bassaleikari djasshljómsveitarinnar Diabolus in Musica.
Á klöppuðum uppreistum steini fyrir framan "Tvo vita" stendur:
TVEIR VITAR
"Þökk sé færeysku þjóðinni fyrir samhug og vinarþel í kjölfar snjóflóðanna í Súðavík og á Flareyri 1995. Frá vinum ykkar á Vestfjörðum."
Færeyingum þykir afskaplega vænt um þessa táknrænu þakkargjöf.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.5.2017 | 17:01
Átta ára krúttbomba
Stelpa er nefnd Anastasia Petrik. Hún er fædd og uppalin í Úkraínu (eða Úkraníu, eins og Skagfirðingar kalla landið - ef miðað er við leiðtogann, Gunnar Braga Sveinsson). Hún á afmæli á morgun, 4. maí. Þá fagnar hún fæðingardeginum í fimmtánda sinn.
Í myndbandinu hér að ofan er hún nýorðin átta ára að keppa í söngvarakeppni barna (8 - 12 ára) í beinni útsendingu í úkraínska sjónvarpinu. Hún geislar af leikgleði og sjálfsöryggi. Skemmtir sér vel. Hún gerir þetta gamla Bítlalag að sínu. Hnikar lipurlega til áherslum í laglínu. Þarna kunni hún ekki ensku. Textinn skolast því dálítið til. En kemur ekki að sök nema síður sé. Úkraínskur almenningur kann ekki ensku.
Án þess að þekkja frammistöðu annarra keppenda kemur ekki á óvart að hún - yngst keppenda - bar sigur úr bítum. Síðan hefur hún verið atvinnusöngkona og sungið inn á vinsælar plötur. Góð söngkona. Þannig lagað. En um of "venjuleg" í dag. Það er að segja sker sig ekki frá 1000 öðrum atvinnusöngkonum á sömu línu. Ósköp lítið spennandi. Hér er ný klippa frá henni:
Menning og listir | Breytt 4.5.2017 kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.4.2017 | 19:27
Bestu synir Belfast
Frægustu synir Belfast eru tónlistarmaðurinn Van Morrison, fótboltakall sem hét George Best og skip sem hét Titanic. Í fyrra var Van aðlaður af Karli bretaprinsi, sleginn til riddara fyrir að vera (eitt) helsta aðdráttarafl ferðamanna til Belfast. Æskuheimili hans er rækilega merkt honum. Það er ekki til sýnis innandyra. Íbúar þess og nágrannar láta sér vel líka stöðugan straum ferðamanna að húsinu. Þykir gaman að svara spurningum þeirra og aðstoða við ljósmyndatökur.
Einnig er boðið upp á 2ja tíma göngutúr um æskuslóðir Vans. Leiðin spannar hálfan fjórða kílómetra. Með því að skanna með snjallsíma uppgefna kóda á tilteknum stöðum má heyra Van syngja um áfangastaðina.
Fyrir utan að bera Sir-titilinn er Van heiðursdoktor við Belfast háskólann - og reyndar líka heiðursdoktor við Ulster háskólann.
Á æskuárum mínum var George Best vinsæll boltakall. Ég hef 0% áhuga á boltaleikjum. Hann var hinsvegar fyrirferðamikill í slúðurfréttum þess tíma. Aðalega vegna drykkju að mig minnir, svo og hnittinna tilsvara. Gamall og blankur sagðist hann hafa sóað auðæfum sínum í áfengi og vændiskonur. Afgangurinn hafi farið í vitleysu.
Í Belfast heitir borgarflugvöllurinn George Best Belfast City Airport.
Frægasta safnið í Belfast er Titanic. Einkennilegt í aðra röndina að Belfast-búar hæli sér af því að hafa smíðað þetta meingallaða skip sem sökk eins og steinn í jómfrúarferðinni. Með réttu ættu þeir að skammast sín fyrir hrákasmíðina. Ekki síst eftir að gerð var kvikmynd um ósköpin. Hræðilega ömurlega væmin og drepleiðinleg mynd með viðbjóðslegri músík.
Af ferðabæklingum að ráða virðist Belfast ekki eiga neina fræga dóttir. Ekki einu sinni tengdadóttir.
Menning og listir | Breytt 26.4.2017 kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.4.2017 | 20:19
Vísnasöngvar og þungarokk
Í vikunni var bandaríska vísnasöngkonan Joan Baez vígð - við hátíðlega athöfn - inn í "Safn rokktónlistarleiðtoganna". Á ensku heitir safnið "Hall of fame". Oftast ranglega beinþýtt í íslenskum fjölmiðlum sem "Frægðarhöll rokksins".
Jóhanna frá Bægisá (eins og Halldór Laxness kallaði hana) á glæsilegan feril. Framan af sjöunda áratugnum titluð drottning vísnasöngs (Queen of folk music). Hæst skoraði hún þó á vinsældalistum á áttunda áratugnum.
Svo einkennilega vill til að hennar frægasta lag, "Diamonds and Rust", er sívinsælt þungarokkslag. Ekki þó í flutningi hennar. Það er þekktast í þungarokksdeildinni í flutningi bresku hljómsveitarinnar Judas Priest. Líka í flutningi Thunderstone, svo og gítarleikara Deep Purple, Ritchie Blackmore. Já, og hljómleikaskrá Nazareth og ýmissa fleiri.
Hér er orginalinn með Joan Baez sjálfri. Textinn fjallar um gamlan kærasta hennar, Bob Dylan.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2017 | 09:59
Sepultura-bræður á leið til Íslands
Útvarpsþátturinn Harmageddon á X977 skúbbaði all svakalega í þessari andrá. Stefán Magnússon, Eistnaflugstjóri, upplýsti þar að Cavalera-bræðurnir úr Sepultura muni spila á hátíðinni í sumar.
Bræðurnir, Max og Igor, stofnuðu þungarokkshljómsveitina Sepultura í Brazilíu 1984. Max var söngvari, gítarleikari og söngvahöfundur en Igor trommaði af krafti. Áður en langt um leið var hljómsveitin komin í fremstu víglínu þrass-metals og harðkjarna á heimsvísu.
Eftir að hafa leitt Sepultura í 12 ár yfirgaf Max hljómsveitina - á hápunkti vinsælda og frægðar - og stofnaði annan risa, hljómsveitina Soulfly. Einnig rak hann hljómsveitina Nailbomb um tíma ásamt Igori.
Fyrir ellefu árum yfirgaf Igor Sepultura. Þaðan í frá er enginn upprunaliðsmanna í hljómsveitinni. Bræðurnir stofnuðu þá hljómsveitina Cavalera Conspiracy sem nú er á leið til Íslands.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.3.2017 | 18:28
Vond plötuumslög - og góð
Hver músíkstíll hefur sína ímynd. Hún birtist í útliti tónlistarfólksins: Hárgreiðslu og klæðnaði. Til dæmis að taka eru kántrý-söngvarar iðulega með hatt á höfði og klæddir gallabuxum, köflóttri vinnuskyrtu og jakka með indíánakögri. Á plötuumslögum sjást gjarnan hestar.
Í pönkdeildinni eru það leðurjakkar, gaddaólar og hanakambur.
Þungarokkshljómsveitir búa jafnan að einkennismerki (lógói). Stafirnir eru þykkir með kantaðri útlínu. Oft er hönnuðurinn ekki fagmaður. Þá hættir honum til að ganga of langt; ofteikna stafina þannig að þeir verða illlæsilegir. Það er klúður.
Þungarokksumslög skarta vísun í norræna goðafræði, víkinga, manninn með ljáinn, grafir, eld og eldingar. Þau eru drungaleg með dularfullum ævintýrablæ. Stundum er það óhugnaður.
Hér fyrir ofan eru sýnishorn af vel heppnuðum þungarokksumslögum. Upplagt er að smella á þau. Þá stækka þau og njóta sín betur. Það dugir að smella á eitt umslag og síðan fletta yfir á þau hin. Ég veit ekki af hverju eldingar skila sér ekki hér á Metallica-umslaginu. Þær voru til staðar á fyrirmyndinni sem ég kóperaði. Hægt er að sjá umslagið með eldingunum með því að smella HÉR
Út af fyrir sig er skemmtilegra að skoða vond þungarokksumslög. Hér eru nokkur fyrir neðan:
Myndin á Blue Oyster Cult umslaginu er klaufalega ósannfærandi unnin með úðapenna (air brush). Hann gefur alltof mjúka áferð. Nef og aðrir andlitsdrættir eru eins og mótuð úr bómull.
Svo er það útfærsla á "Risinn felldur". Aumingjahrollur.
Teikningin á umslagi þýsku hljómsveitarinnar Risk er meira í stíl við litríkt barnaævintýri en þungarokk.
Dangerous Toys er eins og björt og skærlit blómaskreyting fremur en ógnvekjandi öskrandi þungarokk. Fínleg leturgerðin bætir ekki úr skák.
Lógó Ezy Meat er barnalega langt frá "heavy mtal". Líkist meira blóðmörskeppum en grjóthörðum metal. Blóðdropar ná ekki að framkalla annað en fliss með titlinum "Ekki fyrir viðkvæma". Ljótt og aulalegt. Teikningin af manninum er gerð með of ljósu blýi. Líkast til hefur það gránað meira þegar myndin var filmuð, lýst á prentplötu og þaðan prentuð á pappír. Það er algengt þegar um fölgrátt blý er að ræða.
Menning og listir | Breytt 30.3.2017 kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
20.3.2017 | 09:20
Heil! Heil! Chuck Berry!
Hann var einn af frumherjum rokksins á sjötta áratugnum. Hann átti drjúgan þátt í hönnun rokksins. Ekki síst hvað varðar gítarleik og laglínur. Allir sungu söngva hans: Presley, Jerry Lee Lewis, Little Richard...
Bítlahljómsveitir sjöunda áratugarins voru ekki síður uppteknar af Chuck Berry. Allar spiluðu söngva hans: Bítlarnir, Byrds, Rolling Stones, Beach Boys...
Söngvar hans áttu stað í hipparokkinu. Einnig þungarokki áttunda áratugarins. Líka í pönkbylgjunni og reggae-senunni. Líka hjólabrettapönki þessarar aldar. Tónlist hans umvefur allt og fellur aldrei úr gildi.
Ekki má gleyma að textar hans eru dágóðir. Þeir skerptu á unglingauppreisninni sem rokkið var í árdaga, svo sem titillinn "Roll over Beethoven" undirstrikar.
John Lennon komst þannig að orði: Ef rokkið fengi nýtt nafn þá yrði það Chuck Berry.
Stjörnurnar votta Berry virðingu sína | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt 21.3.2017 kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.3.2017 | 17:09
Ungur og efnilegur tónlistarmaður - sonur rokkstjörnu
Fátt er skemmtilegra en að uppgötva nýtt, efnilegt og spennandi tónlistarfólk; ungar upprennandi poppstjörnur. 2015 kom út hljómplatan "Void" með ungum rappara. Listamannsnafn hans er Andsetinn, hressilega frumlegt nafn. Raunverulegt nafn er Arnar Jóhann Þórðarson. Hann hefur verið að kynna ný lög á samfélagsmiðlinum Soundcloud.
2015 fór platan "Void" alveg framhjá mér. Samt reyndi ég að hlusta á flestar plötur þess árs. Meðal annars vegna þess að fjölmiðlar óska jafnan eftir mati mínu á bestu íslensku plötum ársins. Áreiðanlega vissu aðrir álitsgjafar fjölmiðla ekki af plötunni heldur. Þetta er dálítið snúið. Það koma kannski út 500 plötur. Við sem erum álitsgjafar í áramótauppgjöri heyrum varla helming af þeim.
Andsetinn á fjölmennan og harðsnúinn aðdáendahóp. Myndbönd hans hafa verið spiluð hátt í 28 þúsund sinnum á þútúpunni. Lögin hafa verið spiluð 100 þúsund sinnum á Soundcloud.
Þegar ég kynnti mér nánar hver þessi drengur væri þá kom í ljós að hann á ekki langt að sækja tónlistarhæfileikana. Faðir hans, Þórður Bogason (Doddi Boga), var áberandi í rokksenu níunda og tíunda áratugarins. Einkum þeirri sem var með annan fótinn í söngrænu þungarokki. Hann var söngvari hljómsveita á borð við Foringjana, Rickshaw, Skytturnar, Þukl, Þrek, Rokkhljómsveit Íslands, DBD og Warning. Eflaust er ég að gleyma einhverjum. Hann rak jafnframt vinsæla hljóðfæraverslun, Þrek, á Grettisgötu. Hún gekk síðar inn í Hljóðfærahús Reykjavíkur.
Þórður er ennþá að semja og syngja tónlist. Á til að mynda besta jólalag síðustu ára, "Biðin eftir aðfangadegi". Það hentar ekki að blasta því hér í mars. En fyrir þá sem átta sig ekki á um hvaða lag er að ræða þá er hægt að hlusta á það með því að smella HÉR
Mig rámar í slagtog Dodda með bandarísku hljómsveitinni Kiss. Með aðstoð "gúggls" fann ég þessa ljósmynd af þeim Paul Stanley.
Menning og listir | Breytt 18.3.2017 kl. 13:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.3.2017 | 11:11
Umhugsunarverð umræða
Breska götublaðinu Daily Mail barst bréf á dögunum. Bréfritari var kona sem sagði farir sínar ekki sléttar. Hún hafði gengist undir mjaðmaskipti á sjúkrahúsi (hvar annarsstaðar?). Þar deildi hún herbergi með annarri konu. Sú fór í uppskurð. Vandamálið var að hún talaði ekki ensku. Maður hennar þurfti að þýða allt fyrir hana.
Bréfritari spurði manninn hvað konan hafi lengi búið í Englandi. Svarið var: Í 21 ár. Bréfritari fékk áfall. Lét að því liggja að þetta væri hneyksli sem ætti ekki að líða.
Blaðamaðurinn tekur undir: Þegar flutt er til annars lands ætti nýbúinn að læra mál innfæddra. Þetta hafi Bretar hinsvegar aldrei gert. Þeir óðu á skítugum skóm yfir Indland og fjölda afrískra landa. Það hvarflaði aldrei að þeim að læra mál innfæddra. Innfæddir urðu að læra ensku til að eiga samskipti við þá. Mörg þúsund Bretar eru búsettir á meginlandi Evrópu. Þar af flestir í Frakklandi og á Spáni. Enginn þeirra hefur lært frönsku eða spænsku. Þeir halda sig út af fyrir sig, blandast ekki innfæddum og tala einungis ensku.
Í lokaorðum svarsins er hvatt til þess að Bretar endurskoði tungumálakunnáttu sína fremur en kasta steinum úr glerhúsi.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 18:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)