Færsluflokkur: Lífstíll

Framhald á frásögn af undarlegum hundi

  Þegar hér var komið sögu var hundinum komið fyrir í Kirkjubæ,  fámennu smáþorpi á Straumey.  Flottu þorpi með sögu.  Úti fyrir þorpinu er smá hæð á veginum.  Þar er einnig eins og dæld.  Venjulega er ekið þar um á litlum hraða.  Samt nógum til að bíllinn eins og stekkur yfir.

  Hundurinn tók þegar í stað að leggjast flatur í dældina á veginum þegar bílar óku þar um.  Bílstjórar urðu hans ekki varir fyrr en ekið hafði verið yfir hann.  Þá var þeim illa brugðið en hvutti stóð upp,  hristi sig og beið eftir næsta bíl.  Tóku þeir þá gleði sína á ný. 

  Einhverra hluta vegna brá seppi aldrei á leik við íbúa Kirkjubæjar.  Einhverra hluta vegna náði hann alltaf að staðsetja sig á veginum .þannig að hann varð ekki undir hjóli.  Nema einu sinni.  Þá voru dagar hans taldir.    

snati


Lífseig jólagjöf

  Algengt vandamál með jólagjafir er að þær hitta ekki alltaf í mark hjá viðtakendum.  Öll þekkjum við börn sem andvarpa þegar kemur að mjúkum pökkunum.  Krakkar vilja hörð leikföng.  Mjúkum pökkum fylgir stundum annað vandamál:  Út úr þeim kemur fatnaður sem passar ekki á börnin.  Svo eru það gjafakortin.  Þau eru keypt í litlum verslunum sem hafa ekki upp á neitt girnilegt að bjóða.  Eða þá að upphæðin á kortinu passar ekki nákvæmlega við neitt í búðinni.  Eftir stendur kannski 1000 kall eða 2000.  Peningur sem dagar bara uppi.

  Eitt sinn fékk frænka mín í jólagjöf fallegan og íburðarmikinn náttkjól í gjafaöskju.  Hún átti meira en nóg af náttkjólum.  Hún brá á það ráð að geyma kjólinn til næstu jóla.  Þá gaf hún mágkonu sinni kjólinn í jólagjöf.  Einhverra hluta vegna voru viðbrögð hennar þau sömu:  Kjóllinn varð jólagjöf til systur hennar næstu jól.  Alls varð hann sjö sinnum jólagjöf.  Í síðasta skiptið endaði hann aftur hjá konunni sem upphaflega gaf hann.  Sú var búin að fylgjast með ferðalagi kjólsins og vildi ekki að hann færi annan rúnt.  Hún tók hann í gagnið.  Þetta varð uppáhalds náttkjóllinn hennar.  Enda valdi hún hann þarna í upphafi vegna hrifningar af honum.

 


Heilsu- og megrunarkúr sem slær í gegn

  Margir bera nettan kvíðboga gagnvart jólunum - í bland við tilhlökkun vegna sigurs ljóssins yfir myrkrinu.  Honum er fagnað með mat og drykk.  Fólk gerir vel við sig og aðra.  Sælgæti af ýmsu tagi er hluti af gleðinni:  Konfekt, brjóstsykur, kökur,  tertur,  heitt súkkulaði og þessháttar er hluti af hefðinni.  Ýmsum hættir til að bæta á sig einhverjum kílóum. 

  Á nýju ári er gripið til þess ráðs að fara í megrunarkúr.  Jafnan er hann til þess verra er upp er staðið.  Þá er gott að vita að til er bráðhollur megrunarkúr.  Hann er fyrst og fremst heilskúr en hefur megrandi hliðarverkun.  Engin fita og kaloríur.  Bara prótein,  steinefni og hollusta.  Að auki kostar hann ekki neitt en kallar á skemmtilega útiveru fyrir alla fjölskylduna.

  Þetta er skordýrakúrinn.  Fjölskyldan fer út í náttúruna og safnar skordýrum:  Flugum,  möðkum,  brekkusniglum,  jötunuxum, járnsmiðum, köngulóm og svo framvegis.  Dýrin eru skoluð og síðan léttsteikt á pönnu.  Gott er að strá örlitlu salti og pipar yfir.  Þetta má snæða með soðnum kartöflum.  Einfalt, fljótlegt, holt og gott. 

    


Staðgengill eiginkonunnar

  Fólk hefur mismunandi viðhorf til kynlífs og hjónabands.  Skoðanir eru ólíkar eftir menningarsvæðum.  Þær eru líka allavega eftir þjóðfélagsgerð,  stétt og stöðu.  Einnig eru viðhorfin mismunandi innan kunningjahópa og jafnvel innan hjónabands.

  1969 gengu breski Bítillinn John Lennon og japanska listakonan Yoko Ono í hjónaband.  Á ýmsu gekk.  John var vandræðagemlingur;  skapofsamaður,  alkahólisti og eiturlyfjafíkill.

  1973 fékk Yoko nóg.  Hún tilkynnti honum að þau þyrftu að taka hlé frá hvort öðru.  Á þessum tíma bjuggu þau í New York.  Hún lagði til að hann myndi skottast til Los Angeles og taka gott helgardjamm með vinahópnum þar.  

  John fagnaði uppástungunni.  Næstu 18 mánuði drakk hann rosalega,  slóst,  dópaði og bara flippaði út.  Meðal drykkjufélaga hans voru Ringo,  Harry Nilson,  Elton John,  Keith Moon (trommari Who) og Jerry Lee Lewis.

  John var ófær um að ferðast einn.  Vegna sjóndepru gat hann ekki lesið á merkingar á flugvöllum.  Að auki hafði hann aldrei ferðast einn.  Hann kunni það ekki.  Þá kom sér vel að rúmlega tvítug kínversk stelpa,  May Pang, var ritari hjónakornanna.  Yoko gaf henni fyrirmæli um að fylgja John til Los Angeles,  passa upp á hann,  sjá til þess að hann héldi áfram í tónlist og veitti honum svo mikið kynlíf að hann myndi ekki leita til annarra kvenna.

  May sinnti starfi sínu af samviskusemi.

may-pang


Að bjarga sér

  Upp úr miðri síðustu öld lenti heilsulítill bóndi í tímahraki með heyskap.  Þetta var fyrir daga heyrúllunnar.  Framundan var blautt haustveður en mikið af heyi ókomið í hlöðu.  Unglingur af öðrum bæ var sendur til að hlaupa undir bagga.  Kona bóndans var fjarri vegna barneignar.  10 ára sonur hennar tók að sér matseld í fjarveru hennar.

  Er nálgaðist hádegi sá unglingurinn dökkan reyk leggja frá eldhúsinu.  Í sömu andrá sást stráksi hlaupa út úr húsinu með rjúkandi pott.  Pottinn gróf hann með hröðum handtökum ofan í skurð.  

  Unglingurinn ók dráttarvélinni að pjakknum og spurði hvað væri í gangi.  Hann svaraði:  "Ég veit ekki hvað fór úrskeiðis.  Ég var að sjóða brodd og gerði alveg eins og mamma.  Ég hellti broddinum í sömu plastkönnu og hún.  Ég sauð hana í sama potti og hún. Það næsta sem gerðist var að kannan bráðnaði og allt brann við!"

  Unglingurinn vissi þegar í stað að pilturinn hafði ekki áttað sig á að kannan átti að fljóta í vatni í pottinum.

  Þegar kaffitími nálgaðist kallaði strákur á bóndann og unglinginn.  Sagðist ver búinn að hella upp á kaffi og útbúa meðlæti.  Meðlætið var heimalagað kremkex.  Kexið var sett saman í samloku með kakósmjörkremi á milli.  Þetta bragðaðist illa.  Var eins og hrátt hveitideig.  Stráksi sagði:  "Ég veit ekki hvað fór úrskeiðis.  Ég gerði alveg eins og mamma;  hrærði saman smjöri,  kakói,  hveiti og vanilludropum."

  Smjörkrem er ekki hrært með hveiti heldur flórsykri.  Hann er hvítur eins og hveiti en er sykurduft.

kex

   

     


Stórmerkilegur launalisti

Woodstock_poster 

  1969 var haldin merkasta hljómleikahátíð sögunnar.  Hún fór fram í Woodstock í New York ríki.  Yfirskriftin var "3ja daga friður og tónlist".  Þegar á reyndi teygðist dagskráin yfir fjóra daga. 

  Í upphafi var áætlað að hátíðin gæti laðað 15 þúsund manns að.  Er nær dró var ljóst að töluvert fleiri kæmu.  Aðstaða var þá bætt og gerð fyrir 25 þúsund gesti.

  Svæðið og næstu sveitabæir hurfu í mannhafi.  Hátt í hálf milljón mætti (á milli 470 - 480).  Allt fór í klessu:  hreinlætisaðstaða,  matur og drykkir...  Rigning og troðningurinn breyttu jarðvegi í drullusvað. 

  Eitt af mörgu sem gerði hátíðina merkilega er að allt fór friðsamlega fram.  Engar nauðganir eða annað ofbeldi.  Enginn drepinn. 

  Forvitnilegt er að skoða í dag hverjar voru launakröfur tónlistarfólksins:

Jimi Hendrix:  18 þúsund dollarar (7 milljón ísl kr. á núvirði).

Blood, Sweat & Tears15.000 dollarar.

Creedence Clearwater Revival og Joan Baez:  10.000 dollarar hvor.  

Janis Joplin,  Jefferson Airplane og The Band7500 dollarar hver.

The Who, Richie Havens,  Canned Heat og Sly & The Family Stone7000 dollarar hver.    

Arlo Guthrie og Crosby, Stills,  Nash & Young 5000 dollarar hvor.

Ravi Shankar:  4500 dollarar. 

Johnny Winter:  3750 dollarar.

Ten Years After:  3250 dollarar.

Country Joe and the Fish og The Grateful Dead:  2500 dollarar hvor. 

Incredible String Band:  2250 dollarar. 

Tim Hardin og Mountain:  2000 dollarar hvor. 

Joe Cocker:  1375 dollarar.    

Sweetwater:  1250 dollarar.

John Sebastian:  1000 dollarar.

Melanie og Santana:  750 dollarar hvor

Sha Na Na:  700 dollarar.

Keef Hartley:  500 dollarar.

Quill:  375 dollarar.


Hver mælti svo?

  Eftirfarandi gullmolar hrukku upp úr einum og sama manninum fyrir nokkrum árum þegar hann var áberandi í umræðunni.  Hver er það?

  - Ég veit að manneskja og fiskur geta átt friðsamleg samskipti!

  - Sífellt meira af innflutningi okkar kemur frá útlöndum!

  - Eitt það frábæra við bækur er að stundum innihalda þær flottar myndir!

  - Ég held að við getum verið sammála um að fortíðin er liðin!

  - Hvað hef ég heilsað mörgum með handabandi?

  - Ég vona að við komumst til botns í svarinu.  Ég hef áhuga á að vita það.

  - Ef þú hefur engan málstað að verja þá hefur þú engan málstað að verja!

  - Washington DC er staðurinn þar sem fólk stekkur út úr tófugreninu áður en fyrsta skotinu er hleypt af!

  - Þegar ég tala um mig og þegar hann talar um mig þá erum við báðir að tala um mig!


Gapandi hissa

  Ég veit ekkert um boltaleiki.  Fylgist ekki með neinum slíkum.  Engu að síður fer ekki framhjá mér hvað boltafólk gapir mikið.  Það er eins og stöðug undrun mæti því.  Það gapir af undrun.  Að mér læðist grunsemd um að einhverskonar súrefnisþörf spili inn í.  Fólkið berjist við - í örvæntingu - að gleypa súrefni.  Þetta er eins og bráðasturlun.

bolti 1boltamóibolti 2bolti 3boltagaparibolti 4boltakappibolti 5boltagaurbolkti 6bolti dboltabullur 


Anna frænka og hraðsuðuketillinn

  Þegar móðir Önnu frænku,  Lára,  féll frá varð hún einstæðingur.  Faðir hennar féll frá einhverjum árum áður.  Hún sló á einmanaleikann með því að hringja oft og títt í innhringitíma Rásar 2.  Fyrir ofan síma hennar voru spjöld með símanúmerum nánustu ættingja.  Eitt spjaldið var tvöfalt stærra en hin.  Símanúmer Rásar 2 fyllti út í það.

  Lára var jörðuð í fjölskyldugrafreit á Hesteyri,  eins og afi minn og amma.  Að jarðarför lokinni fylgdi Anna presthjónunum inn í kaffi.  Þar setti hún hraðsuðuketil í samband.  Rafmagnsnúran var klædd tauefni.  Einhverra hluta vegna hafði hún slitnað í sundur.  Anna splæsti hana saman með álpappír.   

  Anna bauð prestfrúnni að grípa um álpappírinn. 

  "Það er svo gott að koma við hann þegar ketillinn er í gangi,"  útskýrði Anna og skríkti úr hlátri.  "Hí hí hí,  það kitlar!"

anna á Hesteyri 


Metnaðarleysi

  Einhver allsherjar doði liggur yfir Íslendingum þessa dagana.  Meðal annars birtist það í áhugaleysi fyrir komandi forsetakosningum.  Innan við sjötíu manns eru byrjaðir að safna meðmælendum.  Það er lágt hlutfall hjá þjóð sem telur nálægt fjögur hundruð þúsund manns.  Að vísu þrengir stöðuna að frambjóðandi verður að vera 35 ára eða eldri.  Einnig þurfa kjósendur að vera 18 ára eða eldri.  Samt. 

kórona

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Steinunn Ólína byrjuð að safna undirskriftum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband