Færsluflokkur: Ferðalög

Hrakfarir strandaglóps

  Fyrir nokkru átti ég erindi til Akureyrar.  Dvaldi þar á gistiheimili.  Þegar ég hugði á heimferð spurði kona við innritunarborðið hvort strandaglópur mætti fljóta með suður.  Um unglingspilt var að ræða.   Nokkru áður hafði hann hitt akureyrska stelpu á Músíktilraunum í Reykjavík.  Í kjölfarið keypti hann eldgamla bíldruslu til að heimsækja dömuna.  Fjármálin voru reyndar í klessu.  Hann átti aðeins 25 þús kall í vasanum.  Engin kort.  Þetta hlyti að reddast einhvernvegin.    

  Bíllinn gaf upp öndina í Hrútafirði.  Stráksi lét það ekki á sig fá.  Sá að vísu eftir því að hann var nýbúinn að fylla á bensíntankinn.  Hann reyndi án árangurs að fá far á puttanum.  Að vörmu spori stoppaði rúta hjá honum.  Þetta var áætlunarbíll á leið til Akureyrar. 

  Kominn til Akureyrar bankaði hann upp hjá stelpunni.  Hún var ekki heima.  Hann spurði foreldra hennar hvort hann mætti hinkra eftir henni.  Nei.  Ekki var von á henni heim fyrr en eftir tvo tíma eða síðar. 

  Úti var rok og grenjandi rigning.  Stráksi fann litla matvöruverslun.  Þar hímdi hann í góða stund uns búðin lokaði.  Þá færði hann sig yfir í sjoppu.  Hann var ekki með síma.  Að þremur tímum liðnum bankaði hann aftur upp heima hjá stelpunni.  Hún var komin heim.  Þau spjölluðu saman í forstofunni í góða stund.  Að því kom að hann spurði hvort það væri nokkuð mál að gista hjá henni.  Hún snöggreiddist.  Spurði hvort hann væri klikkaður.  Þau þekktust ekki neitt og hún hefði enga aðstöðu til að hýsa ókunnuga. 

  Þetta kom ferðalangnum í opna skjöldu.  Hann var fæddur og uppalinn í litlu sjávarþorpi.  Þar er til siðs að hýsa gesti.  Jafnvel í nokkra daga.  Stelpan benti á að í miðbænum væru ýmsir gistimöguleikar.  Hún bað hann um að ónáða sig ekki aftur. 

  Þetta var ástæðan fyrir því að hann varð staurblankur strandaglópur á gistiheimilinu.  Þegar ég tók hann með suður hafði hann ekkert borðað í tvo daga.

  Er við ókum framhjá bilaða bílnum spurði ég hvort hann vilji stoppa við hann.  Nei,  hann sagðist ekki vilja sjá drusluna framar.

  Ég benti honum á að búið væri að brjóta annað framljósið og stuðara.  "Ég braut það óvart.  Ég ætlaði að keyra nokkrar vegastikur niður.  Ég hélt að þær væru úr timbri.  Þær eru úr járni."       

  Hann bætti við að þetta væri ekki fyrsti bíllinn til vandræða.  Er hann var nýkominn með bílpróf æfði hann sig í að hringspóla á heimilisbílnum í gamalli sandgryfju.  Svo var fótboltakeppni fyrir utan þorpið.  Fjöldi áhorfenda.  Kauði ákvað að hringspóla á malarveginum þarna.  Ekki tókst betur til en svo að bíllinn sveif útaf veginum og sat pikkfastur ofan í skurði.  

  "Mjög niðurlægjandi því allir þekktu mig," viðurkenndi hann.

  Talið barst að sjómannsferli hans.  Hann sagði hana reyna á taugarnar.  Sem dæmi hefði skipstjórinn verið að öskra á hann út af litlu sem engu.  Ósjálfrátt grýtti hann fiski í kallinn.  

  - Hvernig brást hann við?  spurði ég.

  - Hann rak mig.  Það var óheppilegt.  Ég fékk enga vinnu í þorpinu.  Þess vegna neyddist ég til að flytja til Reykjavíkur og vinna á bónstöð í Kringlunni.  

  Skyndilega æpti drengurinn er við renndum inn í Reykjavík:  "Andskotinn!  Ég gleymdi að allt geisladiskasafnið mitt er í skottinu á bílnum!"      

  Nokkrum dögum síðar átti ég erindi í Kringluna.  Ákvað að heilsa upp á gaurinn.  Þá var búið að reka hann - fyrir að skrópa dagana sem hann var strandaglópur.


Breytti bíl í mótorhjól

  Franskur rafvirki lét langþráðan draum rætast er hann brunaði um Marokkóska eyðimörk.  Fararskjótinn var Citroen 2CV,  uppnefndur bragginn.  Í eyðimörkinni eru engar umferðareglur.  Kappinn naut frelsisins.  Hann leyfði sér að stíga þungt á bensínpedalann.  Þá gerðist óhappið.  Bíllinn skall ofan á steinhellu.  Undirvagninn mölbrotnaði ásamt mörgum öðrum hlutum bílsins..

  Úr vöndu var að ráða.  Ekkert símasamband.  Engir aðrir bílar á ferð.  Enginn vissi af manninum þarna.  32 kílómetrar til byggða.  Til allrar lukku var hann með mat og drykk sem gátu dugað til tíu daga ef sparlega var farið með.  Vonlaust var að rogast með næringuna í fanginu í brennheitri sólinni.  Hún var alltof þung. 

  Frakkinn fékk hugmynd:  Hugsanlega var mögulegt að tjasla saman einhverju heillegu úr bílnum.  Hanna frumstætt mótorhjól.  Verra var að nothæf verkfæri voru fá í bílnum.  Hann hafði takmarkaða þekkingu á bílum og mótorhjólum. 

  Eftir engu var að bíða.  Hann puðaði langan vinnudag við að átta sig á aðstæðum.  Verkið tók tólf daga.  Ekki mátti seinna vera.  Er hann loks náði að koma mótorhjólinu í gang átti hann aðeins hálfan lítra af vatni eftir.  Hjólið skilaði honum til byggða.  Þar vakti það mikla athygli.  Rafvirkinn hafði fundið upp ýmsar lausnir sem mótorhjólaframleiðendur tileinkuðu sér þegar í stað.

motorhjól         


Togast á um utanlandsferðir og dagpeninga

  Utanlandsferðir hafa löngum freistað opinberra embættismenn ríkis og bæja.  Togast er á um setu í nefndum,  ráðum og æðri embættum.  Öllum brögðum er beitt til að komast í utanlandsferðir.  Þær eru bitlingur.  Ekki aðeins er sport að fara í utanlandsferðir sem almenningur borgar heldur fylgja drjúgir dagpeningar með í pakkanum.

  Undantekning frá reglunni var borgarstjóratíð Ólafs F.  Magnússonar.  Hann beitti ströngu aðhaldi í rekstri borgarinnar.  Hann fór aðeins í eina utanlandsferð í embætti.  Hún var til Færeyja í boði Færeyinga.  Þetta var svo óvenjulegt að illar tungur komu af stað lygasögu um að Ólafur væri flughræddur.  

_lafur_f_magnusson_  

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is 26 ferðir til útlanda á þessu kjörtímabili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðgengill eiginkonunnar

  Fólk hefur mismunandi viðhorf til kynlífs og hjónabands.  Skoðanir eru ólíkar eftir menningarsvæðum.  Þær eru líka allavega eftir þjóðfélagsgerð,  stétt og stöðu.  Einnig eru viðhorfin mismunandi innan kunningjahópa og jafnvel innan hjónabands.

  1969 gengu breski Bítillinn John Lennon og japanska listakonan Yoko Ono í hjónaband.  Á ýmsu gekk.  John var vandræðagemlingur;  skapofsamaður,  alkahólisti og eiturlyfjafíkill.

  1973 fékk Yoko nóg.  Hún tilkynnti honum að þau þyrftu að taka hlé frá hvort öðru.  Á þessum tíma bjuggu þau í New York.  Hún lagði til að hann myndi skottast til Los Angeles og taka gott helgardjamm með vinahópnum þar.  

  John fagnaði uppástungunni.  Næstu 18 mánuði drakk hann rosalega,  slóst,  dópaði og bara flippaði út.  Meðal drykkjufélaga hans voru Ringo,  Harry Nilson,  Elton John,  Keith Moon (trommari Who) og Jerry Lee Lewis.

  John var ófær um að ferðast einn.  Vegna sjóndepru gat hann ekki lesið á merkingar á flugvöllum.  Að auki hafði hann aldrei ferðast einn.  Hann kunni það ekki.  Þá kom sér vel að rúmlega tvítug kínversk stelpa,  May Pang, var ritari hjónakornanna.  Yoko gaf henni fyrirmæli um að fylgja John til Los Angeles,  passa upp á hann,  sjá til þess að hann héldi áfram í tónlist og veitti honum svo mikið kynlíf að hann myndi ekki leita til annarra kvenna.

  May sinnti starfi sínu af samviskusemi.

may-pang


Anna á Hesteyri - undarlegt aksturslag

  Anna frænka á Hesteyri var um sextugt þegar einn frændi okkar gaf henni bíl og bílpróf.  Nýkomin með ökuréttindi brá hún sér upp á Hérað.  Vegurinn upp úr Mjóafirði var einbreiður og lélegur malarruðningur.  Kannski þess vegna vandi hún sig á að keyra aldrei hraðar en í öðrum gír.  

  Er Anna nálgaðist Egilsstaði var hún skyndilega komin á fínan tvíbreiðan malbikaðan veg.  Hún tók upp á því að keyra eftir honum miðjum.  Þetta olli öðrum bílstjórum vandræðum með að taka framúr eða mæta henni. 

  Einhver gerði lögreglunni viðvart.  Hún brunaði á móti Önnu;  stöðvaði hana með blikkandi ljósum og sírenu.  Önnu var illa brugðið.  Lögreglan bað hana að gera grein fyrir þessu undarlega aksturslagi.  Hún sagðist hafa orðið svo ánægð með breiða malbikaða veginn að henni datt í hug að leika sér;  leyfa öðrum ökumönnum að ráða hvoru megin þeir vildu mæta henni eða taka framúr. 

  Laganna vörður benti Önnu á að í gildi væru umferðarreglur sem öllum bæri að fylgja. 

  "Þarna er komin skýring á því hvers vegna allir flautuðu svona mikið á mig," hrökk upp úr Önnu. Síðar játaði hún að hafa skammast sín rosalega mikið.   

anna marta


Pottþétt ráð gegn veggjalús

  Veggjalúsin er leiðinda kvikindi.  Hún lifir í þurru og hlýju umhverfi.  Hún felur sig á daginn og bíður í rólegheitum eftir að fórnarlambið fari að sofa.  Þegar það er sofnað læðist lúsin hljóðlega að því og sýgur úr því blóð.  Í bitinu er staðdeyfiefni.  Þess vegna vaknar fórnarlambið ekki við bitið. 

  Blessunarlega er lítið um lúsina hérlendis.  Til þess er of kalt.  Á ferðalögum erlendis verður margur var við kláða og blóðblett í sárinu.  Einfalt er að sporna gegn dýrinu.  Aðeins þarf að kaupa létta frystikistu og geyma í henni föt, handklæði,  snyrtivörur og fleira.  Þar með eru litlir möguleikar fyrir skepnuna að laumast heim til  Íslands með ferðamanninum. 

lfrystikista

veggjalus


mbl.is Ekki taka upp úr ferðatöskum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þannig týnast bílar

  Lögreglan hefur vottað að fólk eigi til að týna bílnum sínum.  Margir kannast við það.  Þar af er ekki alltaf verið að blanda lögreglunni í málið.  Fyrst eru fleiri möguleikar kannaðir.

  Eitt sinn - sem oftar - átti ég leið í Kringluna.  Þetta var rétt fyrir lokun.  Eftir að hafa útréttað fór ég út á bílastæði.  Ég mundi ekki hvar ég hafði lagt bílnum.  Það gerist iðulega.  Sjaldan þarf ég að rölta langt áður en hann blasir við.  Það tókst ekki í þessu tilfelli.  Þó vissi ég fyrir víst að hann var á jarðhæð og ekki í hliðarsal.  

  Eftir dágóða stund hringdi ég í konuna og lýsti stöðunni.  Ég átti að sækja hana úr vinnu.  Hún ráðlagði mér að hinkra á meðan bílum fækkaði á stæðunum.  Leið svo og beið.  Bílum fækkaði fyrir framan mig.  Að því kom að ég kannaðist við einn.  Rann þá upp fyrir mér ljós:  Ég mundi skyndilega eftir því að ég var á leigðum bíl.  Minn var á verkstæði.  Því hafði ég steingleymt!

bananabíll  


Brjálaður glæfraakstur Önnu frænku á Hesteyri

  Áratugum saman var vegurinn niður í Mjóafjörð einn brattasti,  versti og hættulegasti vegur landsins.  Ökumenn - með stáltaugar - fóru fetið.  Einu sinni var Vilhjálmur Hjálmarsson í Brekku í Mjóafirði að leggja í hann niður í fjörð.  Það var svartaþoka.  Nánast ekkert skyggni.  Hann kveið ferðalaginu.  

  Hann var ekki langt kominn er bíll Önnu Mörtu frænku á Hesteyri blasti við.  Bíllinn mjakaðist löturhægt niður veginn.  Anna ók reyndar alltaf mjög hægt.  Vilhjálmur fann fyrir öryggi í þessum aðstæðum. 

  Skyndilega gaf Anna hressilega í.  Hún brunaði inn í þokuna.  Vilhjálmi var illa brugðið.  Hann sá í hendi sér að´hún gæti ekki haldið bílnum á veginum á þessum hraða.  Síst af öllu í engu skyggni.  Hann ákvað að tapa ekki sjónum af afturljósum Önnu.  Hann yrði að komast á slysstað þegar - en ekki ef - bíllinn brunaði út af.  Skelfingu lostinn þurfti hann að hafa sig allan við að halda í við Önnu. 

  Greinilega hafði eitthvað komið yfir Önnu.  Hún hélt áfram að auka hraðann. Vilhjálmur þorði ekki að líta á hraðamæli.  Honum var ekki óhætt að líta sekúndubrot af afturljósunum. 

  Þegar þau komu niður í dal létti þoku.  Anna ók út í kant og stöðvaði.  Vilhjálmur gerði það einnig; hljóp til Önnu,  reif upp hurðina og spurði hvað væri í gangi.  Hún kom ekki upp orði um stund.  Hún var í losti;  andaði eins og físibelgur og starði með galopin augu í angist á Vilhjálm.  Loks tókst henni að stynja upp:

  "Ég óttaðist að þú reyndir að taka framúr.  Vegurinn býður ekki upp á framúrakstur.  Í svona svartaþoku er lífshættulegt að reyna það.  Ég varð að gera hvað ég gat til að hindra það!"  

  


Hlálegur misskilningur

  Fyrir næstum hálfri öld átti ungur Íslendingur erindi til Lundúnaborgar.  Á þessum árum voru menn ekkert að ferðast til útlanda bara að gamni sínu.  Enda ferðalög dýr,  sem og hótelgisting og uppihald.

  Sameiginlegur kunningi okkar ákvað að nýta tækifærið.  Hann bað vininn um að kaupa fyrir sig Labb-rabb tæki.  Þau voru nýlega komin á markað og kostuðu mikið á Íslandi.  Sögur fóru af því að þau væru mun ódýrari í Bretlandi. Labb-rabb eru handhægar talstöðvar með nokkurra kílómetra drægni.

  Er Íslendingurinn snéri heim voru engin Labb-rabb tæki meðferðis.  Hafði kappinn þó þrætt samviskusamlegar allar verslanir í London sem voru líklegar til að selja tækin.  Enginn kannaðist við Labb-rabb.  

  Þetta vakti undrun í vinahópnum.  Eftir miklar vangaveltur kom í ljós að ferðlangurinn hafði ekki áttað sig á að Labb-rabb er íslensk þýðing á enska heitinu Walkie Talkie!   

  Labb-rabb


Áthylisverð nöfn á bæjum og götum

  Fólk er áhugasamt og sumt viðkvæmt fyrir nöfnum á götum,  bæjum og þorpum.  Í Þýskalandi er bær sem heitir því líflega nafni Fucking.  Hann lokkar að enskumælandi ferðamenn í halarófu.  Það gerir gott fyrir sveitarfélagið.  Verra er að þessir ferðamenn eru fingralangir.  Þeir stela skiltum sem bera nafn bæjarins.

  Í Bandaríkjunum gera heimamenn út á þorpið Hell.  Þeir bjóða gestum og gangandi upp á ótal söluvarning merktan því.  Í Noregi er líka bær sem heitir Hell.  Þar stela ferðamenn einu og öðru.

  Í miðbæ Þórshafnar í Færeyjum er gata sem heitir Tittlingsvegur.  Íslendingum þykir gaman að smella í sjálfu við götuheitið.

  Í Hollandi er gata sem áður bar nafn sem hljómaði líkt og víagra.  Þegar stinningarlyfið Viagra kom fram á sjónarsvið og öðlaðist vinsældir höfðu heimamenn ekki húmor fyrir nafninu.  Þeir skiptu um nafn á götunni. 

  Á síðustu öld reisti Sjálfstæðisflokkurinn bækistöðvar í Bolholti.  Frammámenn í flokknum fengu að skrá húsið við Háaleitisbraut.  Ég veit ekki af hverju. 

scandic hell


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband