Færsluflokkur: Ferðalög

Íslenskir þingmenn sluppu fyrir horn

  Samkvæmt frétt á mbl.is lentu fjórir íslenskir þingmenn í hrakningum er þeir ætluðu að taka þátt í fundi Vestnorræna ráðsins í Þórshöfn í Færeyjum.  Lending flugvélarinnar sem þeir voru í gat ekki lent í Þórshöfn vegna veðurs, samkvæmt fréttinni.  Flugvélin neyddist til að lenda í Haugasundi í Noregi í staðinn.

  Út af fyrir sig var það gæfa að flugvélin reyndi ekki lendingu í Þórshöfn.  Þar eru engin skilyrði fyrir flugvél að lenda.  Hvorki vegna veðurs né annarra lendingaraðstæðna.  Færeyingar hafa til fjölda ára varið yfir 1000 milljónum í leit að flugvelli utan Voga.  Án árangurs.  Eini flugvöllurinn í Færeyjum er í Vogum.  Þaðan þurfa farþegar að koma sér frá og til flugvallar í rútu,  leigubíl eða í bílaleigubíl (orðið bílaleigubíll er dálítið skrítið) ef þeir eiga erindi til Þórshafnar á annarri eyju,  Straumey.  Það hefði endað með ósköpum ef reynt hefði verið að lenda flugvél í Þórshöfn.   

Þórshöfn


mbl.is Ætluðu til Færeyja en enduðu í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Wow sló í gegn

flug-wow 

  Ég skrapp til Parísar í Frakklandi.  Fyrst og fremst til að gera úttekt á Wow flugfélaginu.  Í stuttu máli þá sló Wow í gegn hjá mér.  Ég hef ekki áður skemmt mér jafn vel í millilandaflugi.  Flugfreyjurnar hjá Wow fóru á kostum.  Stemmningin um borð var ólík því sem maður á að venjast.

  Öll þekkjum við flugáhöfn í svörtum og blásvörtum klæðnaði, virðugheit,  alvörugefnar upplýsingar frá flugstjóra og flugáhöfn.  Mónótónískar upplýsingar í hátalarakerfi um öryggisbúnað, flughæð, veður á áfangastað og annað í þeim dúr.

  Þið þekkið þetta:  "Það er flugstjórinn sem talar.  Við fljúgum í 30 þúsund feta hæð.  Veður í París er 25 stiga hiti, sól og bla, bla, bla."

  Farþeginn lokar eyrum fyrir svona og les dagblöð,  fer að ráða krossgátur og eða sofnar.

  Flugfreyjur Wow voru í öðrum gír.  Þær voru ærslafullar og "bulluðu" í jákvæðri merkingu.  Lásu ekki upp þurran texta af blaði heldur mæltu af munni fram galsafengnar lýsingar.  Þær lýsingar eru kannski ekki fyndnar í endursögn.  En þær voru verulega fyndnar í því andrúmslofti sem ríkti um borð.  Þetta voru ekki staðlaðir brandarar heldur spunninn texti á staðnum.  Brandararnir voru ekki þeir sömu á flugleið frá Íslandi til Parísar né á leið frá París til Íslands.  Ekki heldur voru brandarar endurteknir í texta á íslensku og á ensku. 

  Flugfreyjurnar voru í fanta stuði.  Dæmi:  Þegar lagt var af stað frá París oftaldi flugfreyja farþega.  Tala hennar passaði ekki við farþegalista.  Þá voru tvær flugfreyjur látnar endurtelja.  Að talningu lokinni passaði tala þeirra saman og passaði við farþegalista.  Viðbrögð flugfreyjanna voru að stökkva í loft upp og slá saman lófum í hárri fimmu (high five).

  Á leiðinni út til Parísar þuldi flugþjónn upp þessar helstu vanalegu upplýsingar um flugferðina.  Hann nefndi að flugtíminn væri 2 klukkustundir og 10 mínútur og bætti við:  "Ég hef aldrei á ævinni heyrt um jafn stuttan flugtíma til Parísar."

  Á bakaleiðinni frá París var galsinn ennþá meiri.  Það hljómaði líkt og verið væri að kynna Bítlana á svið þegar flugfreyja tilkynnti með tilþrifum:  "Og nú er komið að því sem allir hafa beðið eftir:  Við förum yfir öryggisbúnað um borð!"

  Við tóku upplýsingar um björgunarvesti,  súrefnisgrímur og það allt.  Þegar upp var talið hvað gerist ef flugvélin hrapar var nefnt að súrefnisgrímur falli ofan í sætin,  Það var útlistað þannig:  "Þá skaltu hætta að öskra og setja á þig grímuna.  Síðan aðstoðar þú börn þín við að setja á þau grímur."  Í ensku upplýsingunum var bætt við:  "Þegar þú hefur komið grímunni fyrir á þér og börnunum skaltu aðstoða ósjálfbjarga eiginmanninn við að koma grímunni á hann!"

  Þannig var öllum upplýsingum komið á framfæri af gáska.  Stundum jaðraði textinn við bull en í samhengi við alvörugefnar upplýsingar var þetta verulega fyndið.  "Ef við stöndum ykkur að því að tala í farsíma eða reykja um borð eruð þið í verulega vondum málum.  Nei, ég segi nú bara si sona.  Þetta er smá grín."

  Í upptalningu á öllu sem er bannað um borð (farsímanotkun,  reykingar...) slæddist með:  "Það er bannað að reyna að fella okkur í gólfið!"

  Þetta hljómaði verulega spaugilegt þegar það var fléttað inn í alvörugefnar upplýsingar en er ekki fyndið í þessum skrifaða texta mínum.  Það var þetta skemmtilega andrúmsloft og kátína sem skapaði góða stemmningu um borð.

  Flugfreyjurnar voru allar ungar (sem svo sem skiptir ekki máli) og klæddar smart fjólubláum klæðnaði.  Á flugvellinum í París skáru fjólubláar merkingar á flugvél Wow sig frá öðrum flugvélum.  Hressilegar og áberandi.  Nafnið Wow er sérkennilegt og óhátíðlegt.  Allt í stíl.  Fjörlegum stíl.

  Tímasetningar stóðust upp á mínútu.  Það var pínulítið sérkennilegt að flugvél Iceland Express fór í loftið örfáum mínútum á undan flugvél Wow.  Það færi betur á að möguleiki væri á að velja á milli flugs að degi til annars vegar og kvöldflugi hinsvegar.  Kannski er eitthvað hagkvæmt við að vera svo gott sem í samfloti.  Það getur verið hagkvæmt þegar um strætisvagna er að ræða í slæmri færð.  En varla í flugi.  Þó veit ég ekki með það. 

  Ég gef Wow hæstu einkunn.  Frábærar flugfreyjur og sérlega fyndnar.  100% tímaáætlun.  Frábær stemmning um borð.  Galsi út í eitt.  Góð tilbreyting frá formlegheitum og alvörugefnum upplýsingum.  Það var góð skemmtun að fljúga með Wow.  Tekið skal fram að ég þekki engan persónulega sem vinnur hjá Wow eða tengist því fyrirtæki.   

wow


mbl.is WOW air flýgur frá Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjá góðu fólki - og vondu

travel-inn 

  Ég var að leita að gistingu í miðborg Parísar.  Úr vöndu var að velja.  Gestir gefa þeim mörgum svo góða einkunn og láta vel af starfsfólki.  Að lokum leist mér best á hótel sem heitir því hrífandi nafni Smart Place Paris.  Starfsfólk þess fær meðaleinkunnina 95,2%.  Ummæli eru á einn veg.  Svo ég taki aðeins þau 10 nýjustu:

 "Starfsfólk var virkilega indælt."

  "Einstaklega vinalegt og hjálplegt starfsfólk."

  "Starfsfólkið er vinsamlegt og aðstoðar þig þegar um er beðið."

  "Starfsfólkið var vingjarnlegt, þrátt fyrir að ábendingar þess um matsölustaði og fleira væru ómarkvissar." 

  "Mjög hjálplegt starfsfólk."

  "Starfsfólkið er vinsamlegt."

  "Afskaplega indælt fólk."

  "Starfsfólkið virtist kunna sitt fag."

  "Notalegt starfsfólk."

  "Frábærlega hjálplegt starfsfólk."

  Það þarf ekki að velja úr umsögnum til að fá þessar lýsingar.  Þær eru allar samhljóða.  Þetta er töluvert frábrugðið umsögnum gesta á Travel-Inn í Reykjavík.  Starfsfólkið þar fær meðaleinkunnina 4,8 á booking.com.  Mestu skiptir hvort gestir eiga samskipti við eigandann eða ekki.  Honum er lýst sem dónalegum og ósvífnum skapofsamanni.  Um hann má lesa með því að smella á þennan hlekk:

http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1253295/ 

http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1253128/

  Á booking.com má lesa eftirfarandi lýsingar fyrrverandi gesta Travel-Inn:

Stefanía (heldra par frá Ítalíu):  "Rúmföt voru blóðug.  Enginn starfsmaður finnanlegur. Fann sjálf hrein rúmföt og skipti um.  Eigandinn varð mjög reiður við mig. Handklæðin voru óhrein.  Eigandinn sagði að það væri aðeins andlitsfarði á þeim.  Ég skipti um handklæði. Eigandinn fór að gráta og bölvaði."
.
Yves (barnafjölskylda frá Belgíu):  "Starfsfólk er ekki vingjarnlegt, ekki hjálplegt, ekki áhugasamt.  Rúmföt voru óhrein og blóðug.  Herbergið var óhreint."
.
Carolyn (frá Edinborg):  "Þegar ég sá herbergið vildi ég afbóka það.  Eigandinn sagðist taka samt fulla greiðslu af kortinu mínu. Herbergið var neðanjarðar, rakt og ljóslaust.  Vegglampi virkaði ekki, kannski til að leyna hryllilegum rúmfötunum.  Á 20 ára ferðaflakki var þetta í fyrsta skipti sem ég varð að hylja koddann með jakkanum mínum!  Morgunverður er auglýstur frá kl. 7.30.  Ég þurfti að taka rútu kl. 8.30.  Þegar á reyndi var kominn miði á eldhúsdyrnar með skilaboðum um að morgunverður væri kl 8.30.  Ógeðslegur staður!
.
Pia (fjölskylda frá Danmörku):  "Bókið aldrei hér!"
.
Shuchen (frá Þýskalandi):  "Nánast allt í herberginu var í ólagi."
.
Francisco (vinahópur frá Spáni):  "Eigandinn var afar dónalegur í tvígang.  Í fyrra skiptið þegar uppgötvaðist að við höfðum verið sett í rangt herbergi.  Hann baðst ekki afsökunar þó að mistökin væru hans.  Í hitt skiptið reyndi hann að rukka okkur fyrir bílastæði,  sem eru gjaldfrí úti á götu."
.
Aina (heldra par frá Spáni):  "Við völdum þetta gistiheimili vegna þess að það er staðsett við hliðina á Umferðarmiðstöðinni og við þurftum að taka rútu snemma morguninn eftir. Við innritun var okkur tjáð að gistiheimilið væri ofbókað og við vorum flutt á annað gistiheimili í 1,5 km fjarlægð frá Umferðarmiðstöðinni."
.
Portúgali:  "Eigandinn er afskaplega ókurteis gamall kall. Rúmið var brotið. Ég var þarna í 4 daga og fékk aldrei hreint handklæði og herbergið var aldrei þrifið."
.
Vinahópur frá Þýskalandi:  "Baðherbergið var viðbjóður. Við urðum að stela klósettpappír frá öðru herbergi því enginn pappír var hjá okkur."
.
Englendingur: "Starfsfólk var ekki sérlega vingjarnlegt né ég boðin velkomin. Ég bókaði 2ja manna herbergi þó að ég væri ein. Mér var komið fyrir í pínulitlu eins manns herbergi. Herbergið sem ég bókaði stóð autt á meðan."
.
Ungt par frá Ísrael: "Af 6 gistiheimilum sem við dvöldum á í fríi okkar á Íslandi var þjónustan verst hér. Starfsfólkið er óvinsamlegt, þar með talinn forstjórinn. Þegar misskilningur kom upp varðandi greiðslu öskraði hann á okkur án þess að biðjast afsökunar." 
.
Bresk fjölskylda:  "Illa lyktandi herbergi, óhrein rúmföt, ómerkilegur morgunverður."
.
Finni:  "Götótt rúmföt, brakandi rúm, hörð dýna. Baðherbergisofninn bilaður. Sjónvarpið bilað."
.
Rússenskt par:  "Hrokafullt og dónalegt starfsfólk."
.
Lis (danskur vinahópur):  "Í tvö af þremur skiptum sem við fórum í morgunverð var unga stelpan sem sá um hann í þvílíkt brjáluðu skapi að það hálfa væri nóg."
.
   Það verður varla sagt um Travel-Inn að það gistiheimili sé Íslendingum og íslenskri ferðaþjónustu til sóma.  Þegar skemmtistað er hleypt af stokkum þarf vottorð og úttekt frá yfir 20 embættum.  Þetta eru Heilbrigðiseftirlit, brunavarnaeftirlit og allskonar.  Ég kann ekki nöfnin á þessu batteríum.  Þetta er allt mjög þungt í vöfum. Það tekur marga mánuði að afla allra þeirra vottorða sem þarf til.  Hvernig er þetta með gistiheimili?  Vegna Travel-Inn vakna spurningar um hvernig staðan er í þeirri deild.  Ég veit að það eru til Samtök gistihúsaeigenda.  Ég veit ekki hvert hlutverk þeirra er.  Einhver fleiri samtök eru til sem heyra undir ferðaþjónustu.  Eru gistihús eftirlitslaus?  Svo virðist vera.    

Merkilegar upplýsingar um mótorhjólafólk

motorcycle_racing_picture 

  Þetta eru niðurstöður úr samantekt bresks tryggingarfélags.  Ég veit ekki hvað má heimafæra margar af þessu upplýsingum yfir á íslenska mótorhjólagarpa.  Reyndar snúa margir af þessum punktum ekki að breskum mótorhjólamönnum.  Þetta er forvitnileg samantekt frá ýmsum heimshornum.

- Flestir sem gera kröfu á hendur breskra tryggingarfélaga vegna mótorhjólaóhappa bera nafnið Davíð.  Næstir koma Páll (Paul) og Andrés (Andrew).

- Að meðaltali verða 78 mótorhjólaóhöpp í Bretlandi dag hvern.

- Á Deili á Indlandi eru konur á mótorhjóli undanþegnar því að bera hjálm.

- Sá sem tekinn hefur verið fyrir glannalegasta hraðakstur á mótorhjóli í Bretlandi var á 175 km hraða.  Mig minnir að ég hafi heyrt um meiri hraða hérlendis.

- Sá sem fer út í umferðina á mótorhjóli er 50 sinnum líklegri til að lenda í lífshættulegu umferðaróhappi en sá sem er í bíl.

- 2009 mótmæltu mótorhjólamenn í Nigeríu nýjum lögum sem skylduðu þá til að vera með hjálm.  Mótmælendur báru hjálma sem voru búnir til úr graskerum.  Dálítið kjánalegt.  


Tónlistarhátíðin Gæran að hefjast!

Gaeran 

  Á fimmtudaginn (21. ágúst) hefst tónlistarhátíðin Gæran á Sauðárkróki.  Síðan tekur við stanslaust fjör fram á sunnudagsmorgunn.  Hver stórstjarnan tekur við af annarri,  allt verður á suðupunkti og Krókurinn mun iða af lífi og fjöri.  Meira að segja færeyska álfadrottingin,  Eivör,  treður upp og verður með splunkunýjan og flottan disk, Room, í farteskinu.  Þessi magnaði diskur kemur ekki út á heimsmarkað fyrr en í næsta mánuði.  Íslendingar fá forskot á sæluna af því að við erum í klíkunni.

  Gildran og Dimma afgreiða rokkið meðal annarra.  Brother Grass afgreiðir blúgrassið (sjá:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1249208/ ).  Contagen Funural sjá um blúsinn.  Geirmundur Valtýs sér um skagfirsku sveifluna.  Skytturnar rappa.  Dúkkulísurnar syngja um svart-hvíta hetju og sápuóperuna Dallas (sem er víst komin á dagskrá hjá Stöð 2).  Þá er fátt eitt upp talið.

  Miðinn fyrir alla dagana kostar aðeins 5000 kall.  Það er eins og inn á staka hljómleika í Hörpu og víðar.  Miðasala er á midi.is og Kaffi Króki.

  Dagskrá Gærunnar hefst klukkan 20.00 á fimmtudaginn á Mælifelli við Aðalgötu.  Þar koma fram eftirtaldir sólóskemmtikraftar:   

* Dana Ýr
* Sóla og Sunna
* Sveinn Rúnar
* Þorgerður Jóhanna
* Fúsi Ben og Vordísin
* Myrra Rós
* Gillon
* Joe Dúbíus
* InkCity

Á föstudeginum spilar þessi fríði flokkur:

* Rock to the moon
* Brother Grass
* Sverrir Bergmann og Munaðarleysingjarnir
* Eldar
* Gildran
* Hide your kids
* Eivör Pálsdóttir
* Sing for me Sandra
* Dimma
* Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar

Ball með Gildrunni á Mælifell strax eftir að hljómleikadagskrá lýkur.

Á laugardeginum sjá eftirtaldar hljómsveitir um herlegheitin:

* Art Factory Party
* Nóra
* Bee Bee and the Bluebirds
* The Wicked Stragners
* Dúkkulísurnar
* Lockerbie
* Death by toaster
* Skúli Mennski
* Skytturnar
* Contalgen Funeral

Ball á Mælifell strax eftir að hljómleikadagskrá lýkur.

Það er gaman á Króknum.  Skagfirðingar kunna að skemmta sér og öðrum og sletta úr klaufunum flestum betur.

 


Af ókurteisi og skapofsaköstum gistihússeiganda

 

  Í gær skrifaði ég bloggfærslu um verulega dónalegan eiganda gistiheimilisins Travel-Inn á Sóleyjargötu 31 í Reykjavík.  Bloggfærslan vakti mikla athygli.  Hún var lesin upp í útvarpi og henni var deilt út og suðar á fésbók.  Margir lögðu orð í belg.  Ýmsir könnuðust við kauða og allar umsagnir voru á einn veg:  Þarna er stórt vandamál á ferð.

  Bloggfærsluna frá í gær má lesa með því að smella á:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1253128/

  Meðal þeirra sem tjáðu sig um vandamálið var Dr. Gunni.  Hann hafði þetta um málið að segja:

   "Þegar ég var að skrifa ferðahandbókina Top 10 Reykjavík & Iceland hringdi ég einmitt í þetta gistiheimili til að spyrja um prísana og karlinn svoleiðis ærðist og sagði að mér kæmi það ekki við. Greinilega algjör Mr. Fawlty á hestasterum hér á ferð."


Ruddaleg ógestrisni og grófur dónaskapur

 

  Nýverið átti kanadískur tónlistarmaður leið um Ísland.  Það er engin frétt út af fyrir sig.  Þessi maður hefur í hálfan annan áratug ferðast þvers og kruss um heiminn.  Hann hefur ekki tölu á gististöðunum sem hafa hýst hann.  Þeir nema fjögurra stafa tölu. 

  Þessi kanadíski er afskaplega þægilegur og kurteis.  Einstaklega þægilegur og kurteis.  Hann gerir ekki kröfur til gististaða.  Aðbúnaður skiptir hann litlu sem engu máli.  Hann er hvort sem er sofandi þegar hann sefur og á meðan ómeðvitaður um umhverfið.

  Hingað kom hann að nóttu til og fór snemma að morgni þar næsta dags.  Fyrir utan svefntíma var hann aðeins í nokkra klukkutíma á gistiheimili í Reykjavík fyrri hluta dags.  Gistiheimilið,  Travel-Inn,  varð fyrir valinu vegna góðrar staðsetningar.  Það er alveg við Umferðarmiðstöðina.  Aðeins örfáa metra til og frá flugrútunni. 

  Maðurinn átti tvívegis erindi við eiganda Travel-Inn.  Í annað skipti leitaði hann eftir því hvort möguleiki væri á að komast í síma.  Aðeins til að láta sækja sig á staðinn.  Í hitt skiptið spurði hann um lykilnúmer fyrir þráðlausa netið.  Viðbrögð eigandans voru óvænt.  Sá, eldri maður,  hellti sér yfir þann kanadíska.  Ávarpaði hann "Kanaskrattinn þinn" (you bloody American).  Sagði honum að snáfa til sendiráðs síns til að komast í síma.  Bölv og ragn fylgdu með.  Erindinu um þráðlausa netið var svarað á svipaðan hátt. Og aftur ávarpaði eigandinn þann kanadíska með orðunum "Kanaskrattinn þinn". 

  Tónlistarmanninum var verulega brugðið við ruddalega og ofsafengna framkomu eigandans.  Hann var miður sín.  Hann hefur aldrei á sínu flakki um heiminn kynnst öðrum eins dónaskap. 

  Þarna er eitthvað stórt vandamál á ferðinni.  Ekki aðeins á eigandi Travel-Inn við stórt vandamál að stríða.  Vandamál hans er einnig stórt vandamál fyrir íslenska ferðamannaþjónustu.  Framkoma hans er skaðleg fyrir ímynd Íslands.  Hann er Íslendingum til skammar.

travel-inn 


mbl.is Greiða engan virðisaukaskatt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarbústaðaæði - mikilvægt að hafa í huga við val á sumarbústaði

 

sumarbústaðaland

  Það er skollið á sumarbústaðaæði.  Það er togast á um hvern einasta sumarbústað á landinu.  Í fljótu bragði má virðast einkennilegt að ásókn í sumarbústaði sé svona mikil á þessum árstíma.  Eins og nafnið bendir til hangir fólk helst í sumarbústað yfir sumartímann.  Nú er vetur að ganga í garð.

  Kosturinn við að kaupa sumarbústað að hausti er margþættur.  Til að mynda losnar kaupandinn alveg við viðhald fyrsta hálfa árið.  Það er aðeins á sumrin sem fólk dútlar allar helgar við að dytta að sumarbústaðnum:  Bæsa,  lakka,  mála,  smíða...

  Í öðru lagi losnar kaupandinn við stöðugan gestagang fyrsta hálfa árið.  Nóg er að hafa ekki stundlegan frið fyrir honum yfir sumartímann.

  Að öðru leyti er flest ákjósanlegt við að eiga sumarbústað.  Það er yndislegt að geta slitið sig frá erli dagsins í bænum, kúplað sig frá öllu og slappa af í sumarbústaðabyggð úti á landi.  Oft vill svo skemmtilega til að nágrannarnir eiga bústað við hliðina.  Þá er málið að reyna að gera sinn sumarbústað flottari.

  Áður fyrr var ekki símasamband í sumarbústöðum.  Ekkert sjónvarp og engin tölva.  Eiginlega ekki neitt utan borðs, stóla og rúma.  Þá greip fólk í spil eða tafl og náði að kynnast hvert öðru.  Núna sitja allir hver með sína tölvu eða snjallsíma og hanga inni á fésbók.

  Það er vandasamt að velja sér sumarbústað.  Mikilvægt er að hann skarti sem mestu timbri.  Það er alvöru sumarbústaðastemmning í því.  Einnig er nauðsynlegt að hann sé með gluggum.

sumarbústaður með glugga

  Gott er að hafa yfirbyggðan sólpall.  Það rignir oft í sumarbústaðabyggðum. 

sumarbústaður með grillpalli

  Fátt er betra en sitja í heitum potti eða í sundlaug við sumarbústað.  Það er jafn ómissandi og kældur bjór.

sumarbústaður með heitum potti

  Sumarbústaður á stultum dregur úr líkum á að hagamýs og villikanínur slæðist inn í bústaðinn.

sumarbústaður á stultum

  Ef lítið er af trjám á svæðinu er lag að stinga upp nokkrar hríslur og raða þeim við og á bústaðinn.  Það er mikil sumarbústaðastemmning í því.

sumarbústaður á gróðursælum stað

  Upplagt er að nota sumarbústaðinn til að skerpa á áhugamálinu.  Til dæmis má undirstrika bíladellu með því að láta bústaðinn bera svip af bíl.

sumarbústaður bíladellufólks

  Svipaða aðferð geta sjómenn notað:  Látið bústaðinn bera einkenni báts.

sumarhús úti á sjó


Einkennilegt þref í Þorlákshöfn

kjúllarmeðkartöflum

  Ég átti leið um Þorlákshöfn.  Þar rakst ég á lítinn sætan matsölustað.  Hann heitir Viking Pizza.  Af innréttingum má ráða að staðurinn sé einnig rekinn sem bar.  Afgreiðsluborðið er barborð.  Fyrir framan það eru háir barstólar.  Fyrir innan er úrval af vínflöskum. 

  Ég bað um matseðil.  Það var auðsótt mál.  Fátt freistaði þar.  Þrautalending var að panta rétt sem samanstóð af tveimur úrbeinuðum kjúklingaleggjum með frönskum kartöflum og fersku salati.  Kjúklingaleggirnir voru ágætir þegar á reyndi.

  Á matseðlinum stóð að verðið væri 1590 kr.  Ég setti á afgreiðsluborðið 1000 kall, 500 kall og 100 kall.  Í kjölfarið hófst hið skemmtilegasta spjall.

  Afgreiðsludaman (ákveðin):  "Það vantar 90 kall."

  Ég (bendi á 100 kallinn):  "Hann er hér."

  Hún:  "Þetta er bara einn 100 kall."

  Ég:  "Einmitt.  Ég á að fá 10 krónur til baka."

  Hún:  "Það vantar annan 100 kall."

  Ég:  "Rétturinn kostar 1590.  Það er einn hundrað kall plús seðlarnir og tíkall til baka."

  Hún:  "Rétturinn kostar 1690."

  Ég (bendi á verðið á matseðlinum):  "Það stendur á matseðlinum að hann kosti 1590."

  Hún:  "Hann kostar 1690."

  Ég:  "En af hverju stendur á matseðlinum að hann kosti 1590?"

  Hún:  "Af því að hann kostaði 1590.  Það er búið að hækka hann í 1690."

  Ég:  "Hvers vegna stendur þá ekki á matseðlinum að hann kosti 1690?"

  Hún:  "Af því að það á eftir að breyta því." 

    


Veitingahússumsögn

humarsúpa-stokkseyri

 - Veitingastaður:  Fjöruborðið,  Stokkseyri

 - Réttur:  Humarsúpa

 - Verð: 2050 kr.

 - Einkunn:  ***** (af 5)

  Ég var plötusnúður á Stokkseyri um helgina.  Nánar tiltekið á Draugabarnum í Lista- og menningarmiðstöðinni.  Það er önnur saga.  Þessi saga snýr að veitingahúsinu Fjöruborðinu á Stokkseyri.  Þegar maður er í nágrenni þess þá er nauðsyn að koma þar við.  Þetta er einn besti veitingastaður landsins.  Enda troðið út úr dyrum flesta daga.  Útlend frægðarmenni eiga varla leið um Ísland öðru vísi en birtast í Fjöruborðinu.  Stúlka sem vann þarna um tíma sagði mér að starfsfólkið kippi sér ekki upp við að afgreiða Clint Eastwood eða aðrar ámóta heimsþekktar stórstjörnur.

  Næstum daglega lenda þyrlur á þyrlupalli þarna með útlenda auðmenn.  Á dögunum var brosað að sádí-arabískri prinsessu sem kom í þyrlu og spurði hvort möguleiki væri á "Take away" nestispakka í Fjöruborðinu.  Það er ekki siður þarna en var auðsótt mál.

  Húsakynni Fjöruborðsins eru gamaldags timburhús með mörgum misstórum borðstofum.  Það er "sjarmi" yfir þessu.  Staðurinn er mitt á milli þess að vera fínn og millifínn.  Þjónar eru á þönum í sérmerktum klæðnaði.  Það er sama hvað mikið er að gera.  Gesturinn finnur lítið fyrir því.  Allt gengur hratt og örugglega fyrir sig.  Ég hef reyndar lent í því að svo gestkvæmt sé að bið eftir lausu borði taki upp í 2 - 3 tíma.  Þá er lag að panta borð og mæta aftur á tilsettum tíma.  Þegar annríki er mest er verið að afgreiða upp í 800 gesti á einni helgi.

  Ef þolinmæði er af skornum skammti er einnig hægt að skjótast á Eyrarbakka.  Þar er frábær veitingastaður sem heitir Rauða húsið.

  Góð humarsúpa er besta súpa í heimi.  Toppurinn er humarsúpan í Fjöruborðinu.  Gesturinn er varla fyrr sestur en hann fær á borð óumbeðið klakavatn.  Því næst er komið með brauð ásamt þremur sósum.  Ein er sæt.  Önnur er hvít, fersk og bragðlítil.  Sú þriðja er einhverskonar hvítlauks tómat-hummus. 

  Munnþurrkan er þykk tau-servíetta.  Það er stæll.  Borð eru svört og ódúkuð.  Stólar eru ódekkaðir í stíl við svart timburhúsið. 

  Humarsúpan kemur í fullum djúpum diski.  Ábót er í meðfylgjandi potti og er sama skammtastærð.  Meðal manneskja getur varla torgað nema hluta af brauði og ábótinni er svo gott sem ofaukið.  Nema til að veiða upp úr henni humarinn. 

  Það er reisn yfir því að hafa skammta svona ríflega.  Það er blóðugt að geta ekki gert þeim öllum skil.  Á móti vegur að hver biti og hver súpuskeið er lostæti.    


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband