Færsluflokkur: Ferðalög

Af ókurteisi og skapofsaköstum gistihússeiganda

 

  Í gær skrifaði ég bloggfærslu um verulega dónalegan eiganda gistiheimilisins Travel-Inn á Sóleyjargötu 31 í Reykjavík.  Bloggfærslan vakti mikla athygli.  Hún var lesin upp í útvarpi og henni var deilt út og suðar á fésbók.  Margir lögðu orð í belg.  Ýmsir könnuðust við kauða og allar umsagnir voru á einn veg:  Þarna er stórt vandamál á ferð.

  Bloggfærsluna frá í gær má lesa með því að smella á:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1253128/

  Meðal þeirra sem tjáðu sig um vandamálið var Dr. Gunni.  Hann hafði þetta um málið að segja:

   "Þegar ég var að skrifa ferðahandbókina Top 10 Reykjavík & Iceland hringdi ég einmitt í þetta gistiheimili til að spyrja um prísana og karlinn svoleiðis ærðist og sagði að mér kæmi það ekki við. Greinilega algjör Mr. Fawlty á hestasterum hér á ferð."


Ruddaleg ógestrisni og grófur dónaskapur

 

  Nýverið átti kanadískur tónlistarmaður leið um Ísland.  Það er engin frétt út af fyrir sig.  Þessi maður hefur í hálfan annan áratug ferðast þvers og kruss um heiminn.  Hann hefur ekki tölu á gististöðunum sem hafa hýst hann.  Þeir nema fjögurra stafa tölu. 

  Þessi kanadíski er afskaplega þægilegur og kurteis.  Einstaklega þægilegur og kurteis.  Hann gerir ekki kröfur til gististaða.  Aðbúnaður skiptir hann litlu sem engu máli.  Hann er hvort sem er sofandi þegar hann sefur og á meðan ómeðvitaður um umhverfið.

  Hingað kom hann að nóttu til og fór snemma að morgni þar næsta dags.  Fyrir utan svefntíma var hann aðeins í nokkra klukkutíma á gistiheimili í Reykjavík fyrri hluta dags.  Gistiheimilið,  Travel-Inn,  varð fyrir valinu vegna góðrar staðsetningar.  Það er alveg við Umferðarmiðstöðina.  Aðeins örfáa metra til og frá flugrútunni. 

  Maðurinn átti tvívegis erindi við eiganda Travel-Inn.  Í annað skipti leitaði hann eftir því hvort möguleiki væri á að komast í síma.  Aðeins til að láta sækja sig á staðinn.  Í hitt skiptið spurði hann um lykilnúmer fyrir þráðlausa netið.  Viðbrögð eigandans voru óvænt.  Sá, eldri maður,  hellti sér yfir þann kanadíska.  Ávarpaði hann "Kanaskrattinn þinn" (you bloody American).  Sagði honum að snáfa til sendiráðs síns til að komast í síma.  Bölv og ragn fylgdu með.  Erindinu um þráðlausa netið var svarað á svipaðan hátt. Og aftur ávarpaði eigandinn þann kanadíska með orðunum "Kanaskrattinn þinn". 

  Tónlistarmanninum var verulega brugðið við ruddalega og ofsafengna framkomu eigandans.  Hann var miður sín.  Hann hefur aldrei á sínu flakki um heiminn kynnst öðrum eins dónaskap. 

  Þarna er eitthvað stórt vandamál á ferðinni.  Ekki aðeins á eigandi Travel-Inn við stórt vandamál að stríða.  Vandamál hans er einnig stórt vandamál fyrir íslenska ferðamannaþjónustu.  Framkoma hans er skaðleg fyrir ímynd Íslands.  Hann er Íslendingum til skammar.

travel-inn 


mbl.is Greiða engan virðisaukaskatt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarbústaðaæði - mikilvægt að hafa í huga við val á sumarbústaði

 

sumarbústaðaland

  Það er skollið á sumarbústaðaæði.  Það er togast á um hvern einasta sumarbústað á landinu.  Í fljótu bragði má virðast einkennilegt að ásókn í sumarbústaði sé svona mikil á þessum árstíma.  Eins og nafnið bendir til hangir fólk helst í sumarbústað yfir sumartímann.  Nú er vetur að ganga í garð.

  Kosturinn við að kaupa sumarbústað að hausti er margþættur.  Til að mynda losnar kaupandinn alveg við viðhald fyrsta hálfa árið.  Það er aðeins á sumrin sem fólk dútlar allar helgar við að dytta að sumarbústaðnum:  Bæsa,  lakka,  mála,  smíða...

  Í öðru lagi losnar kaupandinn við stöðugan gestagang fyrsta hálfa árið.  Nóg er að hafa ekki stundlegan frið fyrir honum yfir sumartímann.

  Að öðru leyti er flest ákjósanlegt við að eiga sumarbústað.  Það er yndislegt að geta slitið sig frá erli dagsins í bænum, kúplað sig frá öllu og slappa af í sumarbústaðabyggð úti á landi.  Oft vill svo skemmtilega til að nágrannarnir eiga bústað við hliðina.  Þá er málið að reyna að gera sinn sumarbústað flottari.

  Áður fyrr var ekki símasamband í sumarbústöðum.  Ekkert sjónvarp og engin tölva.  Eiginlega ekki neitt utan borðs, stóla og rúma.  Þá greip fólk í spil eða tafl og náði að kynnast hvert öðru.  Núna sitja allir hver með sína tölvu eða snjallsíma og hanga inni á fésbók.

  Það er vandasamt að velja sér sumarbústað.  Mikilvægt er að hann skarti sem mestu timbri.  Það er alvöru sumarbústaðastemmning í því.  Einnig er nauðsynlegt að hann sé með gluggum.

sumarbústaður með glugga

  Gott er að hafa yfirbyggðan sólpall.  Það rignir oft í sumarbústaðabyggðum. 

sumarbústaður með grillpalli

  Fátt er betra en sitja í heitum potti eða í sundlaug við sumarbústað.  Það er jafn ómissandi og kældur bjór.

sumarbústaður með heitum potti

  Sumarbústaður á stultum dregur úr líkum á að hagamýs og villikanínur slæðist inn í bústaðinn.

sumarbústaður á stultum

  Ef lítið er af trjám á svæðinu er lag að stinga upp nokkrar hríslur og raða þeim við og á bústaðinn.  Það er mikil sumarbústaðastemmning í því.

sumarbústaður á gróðursælum stað

  Upplagt er að nota sumarbústaðinn til að skerpa á áhugamálinu.  Til dæmis má undirstrika bíladellu með því að láta bústaðinn bera svip af bíl.

sumarbústaður bíladellufólks

  Svipaða aðferð geta sjómenn notað:  Látið bústaðinn bera einkenni báts.

sumarhús úti á sjó


Einkennilegt þref í Þorlákshöfn

kjúllarmeðkartöflum

  Ég átti leið um Þorlákshöfn.  Þar rakst ég á lítinn sætan matsölustað.  Hann heitir Viking Pizza.  Af innréttingum má ráða að staðurinn sé einnig rekinn sem bar.  Afgreiðsluborðið er barborð.  Fyrir framan það eru háir barstólar.  Fyrir innan er úrval af vínflöskum. 

  Ég bað um matseðil.  Það var auðsótt mál.  Fátt freistaði þar.  Þrautalending var að panta rétt sem samanstóð af tveimur úrbeinuðum kjúklingaleggjum með frönskum kartöflum og fersku salati.  Kjúklingaleggirnir voru ágætir þegar á reyndi.

  Á matseðlinum stóð að verðið væri 1590 kr.  Ég setti á afgreiðsluborðið 1000 kall, 500 kall og 100 kall.  Í kjölfarið hófst hið skemmtilegasta spjall.

  Afgreiðsludaman (ákveðin):  "Það vantar 90 kall."

  Ég (bendi á 100 kallinn):  "Hann er hér."

  Hún:  "Þetta er bara einn 100 kall."

  Ég:  "Einmitt.  Ég á að fá 10 krónur til baka."

  Hún:  "Það vantar annan 100 kall."

  Ég:  "Rétturinn kostar 1590.  Það er einn hundrað kall plús seðlarnir og tíkall til baka."

  Hún:  "Rétturinn kostar 1690."

  Ég (bendi á verðið á matseðlinum):  "Það stendur á matseðlinum að hann kosti 1590."

  Hún:  "Hann kostar 1690."

  Ég:  "En af hverju stendur á matseðlinum að hann kosti 1590?"

  Hún:  "Af því að hann kostaði 1590.  Það er búið að hækka hann í 1690."

  Ég:  "Hvers vegna stendur þá ekki á matseðlinum að hann kosti 1690?"

  Hún:  "Af því að það á eftir að breyta því." 

    


Veitingahússumsögn

humarsúpa-stokkseyri

 - Veitingastaður:  Fjöruborðið,  Stokkseyri

 - Réttur:  Humarsúpa

 - Verð: 2050 kr.

 - Einkunn:  ***** (af 5)

  Ég var plötusnúður á Stokkseyri um helgina.  Nánar tiltekið á Draugabarnum í Lista- og menningarmiðstöðinni.  Það er önnur saga.  Þessi saga snýr að veitingahúsinu Fjöruborðinu á Stokkseyri.  Þegar maður er í nágrenni þess þá er nauðsyn að koma þar við.  Þetta er einn besti veitingastaður landsins.  Enda troðið út úr dyrum flesta daga.  Útlend frægðarmenni eiga varla leið um Ísland öðru vísi en birtast í Fjöruborðinu.  Stúlka sem vann þarna um tíma sagði mér að starfsfólkið kippi sér ekki upp við að afgreiða Clint Eastwood eða aðrar ámóta heimsþekktar stórstjörnur.

  Næstum daglega lenda þyrlur á þyrlupalli þarna með útlenda auðmenn.  Á dögunum var brosað að sádí-arabískri prinsessu sem kom í þyrlu og spurði hvort möguleiki væri á "Take away" nestispakka í Fjöruborðinu.  Það er ekki siður þarna en var auðsótt mál.

  Húsakynni Fjöruborðsins eru gamaldags timburhús með mörgum misstórum borðstofum.  Það er "sjarmi" yfir þessu.  Staðurinn er mitt á milli þess að vera fínn og millifínn.  Þjónar eru á þönum í sérmerktum klæðnaði.  Það er sama hvað mikið er að gera.  Gesturinn finnur lítið fyrir því.  Allt gengur hratt og örugglega fyrir sig.  Ég hef reyndar lent í því að svo gestkvæmt sé að bið eftir lausu borði taki upp í 2 - 3 tíma.  Þá er lag að panta borð og mæta aftur á tilsettum tíma.  Þegar annríki er mest er verið að afgreiða upp í 800 gesti á einni helgi.

  Ef þolinmæði er af skornum skammti er einnig hægt að skjótast á Eyrarbakka.  Þar er frábær veitingastaður sem heitir Rauða húsið.

  Góð humarsúpa er besta súpa í heimi.  Toppurinn er humarsúpan í Fjöruborðinu.  Gesturinn er varla fyrr sestur en hann fær á borð óumbeðið klakavatn.  Því næst er komið með brauð ásamt þremur sósum.  Ein er sæt.  Önnur er hvít, fersk og bragðlítil.  Sú þriðja er einhverskonar hvítlauks tómat-hummus. 

  Munnþurrkan er þykk tau-servíetta.  Það er stæll.  Borð eru svört og ódúkuð.  Stólar eru ódekkaðir í stíl við svart timburhúsið. 

  Humarsúpan kemur í fullum djúpum diski.  Ábót er í meðfylgjandi potti og er sama skammtastærð.  Meðal manneskja getur varla torgað nema hluta af brauði og ábótinni er svo gott sem ofaukið.  Nema til að veiða upp úr henni humarinn. 

  Það er reisn yfir því að hafa skammta svona ríflega.  Það er blóðugt að geta ekki gert þeim öllum skil.  Á móti vegur að hver biti og hver súpuskeið er lostæti.    


Bráðskemmtileg hjólhýsi og áríðandi ábendingar

HJÓLhýsi

  Hjólhýsi og húsbílar eru í tísku hjá Íslendingum.  Það er sprengisala í þessum fyrirbærum.  Hún nær hámarki núna fyrir verslunarmannahelgina.  Yfir köldustu og snjóþyngstu vetrarmánuðina er dræm sala í hjólhýsum, húsbílum og fellihýsum.  Sala á fellihýsum er reyndar dræm allt árið.  Hjólhýsi og húsbílar eru málið.

  Fellihýsi er hallærisleg.  Þau eru ljót,  óstöðug í roki og það er fyrirhöfn að setja þau upp og taka þau niður.  Það er út í hött að vera með fellihýsi þegar hægt er að fá glæsileg hjólhýsi fyrir 7 milljónir og varla það.  Húsbílar kosta aðeins örfáum milljónum meira. 

  Margir byrjendur og fúskarar halda að munurinn á húsbíl og hjólhýsi sé sá að húsbíllinn sé blanda af bíl og húsi en hjólhýsið blanda af reiðhjóli og húsi.  Þessi munur þarf ekki að vera svona.  Hjólhýsi getur verið húsvagn.  Það er að segja yfirbyggður vagn á hjólum.  Algengast er að hjólhýsið sé fest aftan á bíl.  En það má líka draga það á fjórhjóli,  traktor og ýmsu öðru - ef fjölskyldunni liggur ekkert á.

hús-bíll   

húsbíll-2

  Fjölmennar fjölskyldur þurfa 2ja hæða hjólhýsi.

húsbíll 2ja hæða

  Hjólhýsin eru flottust og náttúrulegust eftir því sem þau eru nettari,  timbrið fær að njóta sín betur og þau falla að landslaginu. 

húsbíll DFG

  Þegar ferðast er með hænur er gott að hafa nettan stiga fyrir þær með í för.  Hænur eiga erfitt með flug en þeim gengur vel að rölta.

húsbíll fyrir hænur

  Mikilvægt er að skorða hjólhýsi vel þegar það er ekki í notkun. 

húsbíll-123


mbl.is Íslendingar velja hjólhýsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðborgin dó í dag

  Miðbærinn í Reykjavík dó í dag.  Ástæðan er tvíþætt:  Annarsvegar hækkuðu gjöld í stöðumæla.  Hinsvegar tilkynntu forsvarsmenn Dressmann um þá ákvörðun útlendra eigenda verslunarkeðjunnar að búðinni á Laugaveginum verði skellt í lás.  Og aldrei opnuð aftur.  Vegna yfirvofandi gjaldskrárhækkunar í stöðumæla hefur búðin á Laugaveginum verið rekin með bullandi tapi til margra ára. 

  Það er þyngra en tárum taki að þurfa að borga 12 og hálfri krónu meira en áður í gjaldmæli fyrir að skjótast í búð á Laugaveginum.  Nógu erfitt er að nurla saman 12 milljónum fyrir báðum litlu nýju heimilisbílunum á 3ja ára fresti þó að þessi ósköp bætist ekki við.

  Aðeins einn bíll og ein manneskja sáust á Laugaveginum í dag.  Manneskjan var útlensk og kom á bílnum í miðborgina til að kaupa sér ullarvettlinga og húfu.  Manneskjunni var ekki kunnugt um gjaldskrárhækkunina.  Hún ætlaði að slóra í 10 mínútur við kaupin og setti 3750 krónur í stöðumælinn í staðinn fyrir 37.50 kr.  Hún áttaði sig ekki í tæka tíð á því hvað bílastæðisgjöldin hér eru mikið lægri en í útlöndum.  Fyrir vikið sat hún uppi með næstum 17 klukkutíma bílastæði.  Til að sóa því ekki í vitleysu hélt útlendingurinn til í miðborginni í allan dag.  Kíkti inn í hverja einustu búð, öll veitingahús og bara hvar sem dyr voru ólæstar. 

  Þó að útlendingurinn hafi eytt hundrað þúsundköllum á bæjarröltinu dugði það ekki til að bjarga miðborginni frá dauða.  Hún dó, eins og sést á þessari mynd sem var tekin á háannatíma í dag.  Það á aldrei aftur eftir að sjást manneskja eða bíll í miðbænum.  Aldrei.

laugavegur


mbl.is Loka Dressmann á Laugavegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árangursrík heimsókn borgarstjórans í Reykjavík til Færeyja

jongnarr

  Fyrir nokkrum dögum skrifaði ég bloggfærslu um þá fyrirhugaða Gleðigöngu í Færeyjum,  Faroe Pride.  Þar fullyrti ég meðal annars eftirfarandi:  "Það er alveg klárt að nærvera og þátttaka borgarstjórans í Reykjavík og Eivöru mun reynast Faroe Pride þungt lóð á vogarskálina;  gefa göngunni alvöru vigt og verða Færeyingum hvatning til að fjölmenna í hana.  Það er næsta víst að með þátttöku sinni tryggja þau að Föroya Pride 2012 verði fjölmenn gleðiganga."

  Þetta gekk svo sannarlega eftir.  Hér má sjá mynd af fyrri færeyskri Gleðigöngu:

föroya-pride

  Aðeins örfáir tugir þátttakenda.  Þar af komu flestir frá Danmörku og Íslandi.  Á föstudaginn mætti hinsvegar á sjötta þúsund manns í gönguna í Þórshöfn.  Íbúar Þórshafnar eru rétt um 20 þúsund.  Önnur eins þátttaka í skrúðgöngu hefur aldrei áður sést í Færeyjum. 

faroe-pride-2012

  Fyrir og eftir gönguna var kvartað undan vondri tímasetningu.  Það er að segja að gengið var á föstudegi á meðan fjöldi manns er fastur í vinnu.  Margir sem ólmir vildu vera með komust ekki frá.

  Það fór ekki á milli mála hvað Jón Gnarr lék stórt hlutverk í Gleðigöngunni.  Í Færeyskum fjölmiðlum var stóri punkturinn í fréttum af göngunni stuðningur borgarstjórans í Reykjavík við málstað samkynhneigðra.  Hér má sjá dæmigerða frétt (úr færeyska útvarpinu):

http://www.kringvarp.fo/Archive_Articles/2012/07/27/borgarstjori-studlar-samkynd-i-foroyum

  Fréttir íslenskra fjölmiðla af Faroe Pride hafa einnig snúist um þátttöku Jóns Gnarrs.  Ég minnist þess ekki að íslenskir fjölmiðlar hafi gefið Gleðigöngu í Færeyjum gaum áður.  Færeyskir fjölmiðlar voru reyndar líka áhugalitlir þangað til nú.

  Jón stóð vel að málum.  Mætti í bleikum jakkafötum og las upp góða ræðu.  Henni var síðan dreift á færeysku til göngumanna.

  Það er gaman þegar framfarir eru í mannréttindum, umburðarlyndi, kærleika og gleði, hvar sem er í heiminum. 


mbl.is Skrifaði ræðuna á iPad
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forvitnileg mynd af Grímsstöðum 2026

  Kínverjar hafa þegar fundað með færeyskum stjórnvöldum um að koma sér upp umskipunarhöfn í Færeyjum.  Risastórri umskipunarhöfn.  Hvers vegna funda Kínverjar ekki með íslenskum stjórnvöldum fyrst þeir hafa brennandi áhuga á umskipunarhöfn á Íslandi?  Eða eru það bara Huang og félagar sem hafa áhuga á umskipunarhöfn á Íslandi?  Er hugmyndin sú að það verði ein risastór umskipunarhöfn í Færeyjum og önnur á Íslandi?  Þetta er dularfullt.

  Eins og margoft hefur verið bent á þá hugsa Kínverjar í heilum og hálfum öldum en ekki í árum.  Þannig lítur út tölvugerð kínversk mynd af Grímsstöðum á Fjöllum 2062.

grímsstaðir

  Samkvæmt viðtölum í útlendum fjölmiðlum við Huang þá hefur hann þegar selt hinum ýmsu Kínverjum 100 hús á Grímsstöðum.  Þar er um að ræða 100 blokkir, að því er virðist, því áætlað er að hvert hús hýsi um 3000 Kínverja (samtals 300 þúsund). 

  Athygli vekur að þessi hús hefur Huang selt áður en hann hefur leigt Grímsstaði.  Og áður en ljóst er hvort honum verða leigðir Grímsstaðir.  Það er snöfurlega að málum staðið. 

  Ef eða þegar Huang fær Grímsstaði leigða mun hann hefjast handa fyrir alvöru.  Þá færist fjör í sölu á blokkum til Kínverja.  Það er gaman.  Það hefur lengi verið alltof rólegt á Grímsstöðum.  Þar fyrir utan er áætlað að einhverjir Íslendingar fái vinnu við uppbygginguna.  Kannski 3.  Jafnvel fleiri.

  Hér er nærmynd af dæmigerðum kínverskum blokkum.   

grimsst

  Samkvæmt uppkasti að leigusamningnum munu Kínverjarnir varðveita gróður og náttúruna á Grímsstöðum,  ásamt því að gera út á golfaðstöðu.  20 hæða blokk verður lögð undir þessi ákvæði.   

grímsst.á fjöllum


mbl.is Skoða hafnir á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðsynlegur fróðleikur um landafræði

  Fyrir nokkrum árum keypti ég í Bandaríkjum Norður-Ameríku lítinn hnött.  Eða réttara sagt líkingu af jarðkúlunni.  Hún var ekki í raunstærð heldur frekar nett.  Ástæðan fyrir því að ég fjárfesti í þessu hnattlíki var sú að þar er hvergi Ísland né Færeyjar að sjá.  Þar sem Ísland og Færeyjar eru vanalega á landakorti er aðeins blár flötur sem sýnir óslitið hafsvæði.

  Eftir að Sykurmolarnir,  Björk og Sigur Rós urðu stór nöfn í Bandaríkjunum óx landafræðiþekking þarlendra aðdáenda.  Einkum að því er snýr að Íslandi.  Í dag gæta bandarískir landakortagerðarmenn þess að hafa Ísland með.  Við endurprentun á eldri Íslandslausum landakortum er Íslandi nú bætt við.  Allur gangur er á því hvernig Ísland snýr á kortunum. 

  Ef vel er að gáð má sjá að Færeyjar eru bæði fyrir sunnan og norðan Ísland.  Syðri Færeyjarnar virðast heyra undir Ísland.  Það eru góðar fréttir. 

  Í rauða textanum kemur fram að Stokkhólmur sé höfuðborg Finnlands og nyrsta höfuðborg í heimi.  Íbúar Stokkhólms eru sagðir vera 2 milljónir og þar með 20% af heildar íbúafjölda Skandinavíu.  Vissulega slagar íbúafjöldi Stokkhólms í 2 milljónir ef allir á Stokkhólmssvæðinu eru með taldir.  Hins vegar hélt ég lengi vel að íbúafjöldi Skandinavíu væri um 25 milljónir.  En það eru ekki allir á einu máli um það hvort Skandinavía nær yfir öll Norðurlöndin eða bara hluta þeirra. 

  Hvernig sem það er þá er skemmtilegt og fróðlegt að skoða Norðurlöndin á landakorti sem þessu.  Ósló og Gautaborg eru þarna vel staðsettar í Noregi.  Stavangur, Bergen og Stokkhólmur dreifa sér um Finnland.  Helsinki blasir við í Svíþjóð.  Maður verður eiginlega ringlaður af þessum fróðleik. 

bandarískt landakort með fróðleik


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband