Færsluflokkur: Ferðalög

Misheppnuð stækkun

  Fyrir 100 árum eða svo fann Marís M. Gilsfjörð upp aðferð og smíðaði frumstætt tæki til að stækka fólk.  Tækið var nánast aukaatriði.  Galdraþulur voru í aðalhlutverki.  Hann gat hvort heldur sem var lengt fólk eða stækkað á þverveginn.  Á þessum árum voru Íslendingar almennt nettir.  Það þótti ókostur í vindasömu veðri.  Einkum í smalamennsku og göngum í hvassviðri. 

  Einn af þeim sem Marís stækkaði var ungur maður úr Svarfaðardal,  Jóhann að nafni.  Svo klaufalega vildi til að Marís sofnaði í miðju stækkunarferli (illar tungur segja vegna ölvunar).  Þegar Marís rankaði við sér var Jóhann orðinn 2,34 metrar á hæð.  Þaðan í frá gekk Jóhann undir nafninu Jói risi.  Stærðinni fylgdu ókostir.  Það þurfti að sérsauma á hann allan fatnað og skó.  Hann fékk þó vinnu við að sýna sig í sirkusum í útlöndum.  Marís gaf foreldrum Jóhanns 5% afslátt á taxta vegna mistakanna.  Að auki gaf hann þeim stimpil með mynd af stjörnu og annan með broskalli.

   Marís dró sig í hlé í kjölfar þessa atburðar.  Sumir héldu því fram að hann skammaðist sín dálítið.  

 

maris_staekkar_folk_1173574.jpg


Veitingahússumsögn

 - Réttur:  Sænskt hlaðborð

 - Veitingastaður:  Fljótt & Gott,  BSÍ

 - Verð:  1995 kr.

 - Einkunn:  ***1/2 (af 5)

  Þegar tal berst að sænskum mat koma sænskar kjötbollur upp í hugann.  Þær eru ekki veislumatur en ágætar hvunndags.  Það á við um fleira á sænska hlaðborðinu á Fljótt & Gott á BSÍ.  Þar má finna steiktar smápylsur (korv), niðurskornar pylsur í brúnsósu, beikon,  hakkbuff með lauki og þess háttar.  Sumt er meira framandi, svo sem innbakaður lax.  Hann er ekki það besta á hlaðborðinu.

  Þetta og ýmislegt fleira eru aðalréttir.  Forréttirnir eru meira veisluborð.  Þar má upp telja síldarrétti,  lifrakæfu,  roastbeef, skinku og svo framvegis.  Þeir eru á veislulegum bökkum ásamt grænmeti, ávöxtum og einhverju svoleiðis.  Meðlæti með forréttum og aðalréttum er fjölbreytt.  Til að mynda bragðgott kartöflugratín og steiktir kartöfluplattar sem kallast raggmunk.  Þeir eru steiktir upp úr eggjahræru og snæddir með títuberjasósu.  Algjört nammi sem smellpassar með beikoni. 

  Í eftirrétt er einhverskonar kókoskaka.  Ég smakkaði hana ekki en borðfélagar mínir gáfu henni hæstu einkunn. 

  Þeir,  eins og ég, voru ánægðir með sænska hlaðborðið.  Það er gaman að smakka sitt lítið af hverju í fyrstu umferð og fá sér síðan meira af því sem best bragðast.  Verðið er fínt.  Það er vel að þessu staðið.  Réttirnir eru merktir bæði með sænskum heitum og íslenskum.  Það er til fyrirmyndar.  Ég var á báðum áttum með það hvort sanngjarnt væri að gefa hlaðborðinu 4 stjörnur eða 3 og hálfa.  Nákvæmasta einkunn er 7,5 (af 10). 

  Ég mæli með sænska hlaðborðinu á BSÍ.  Allir finna sitthvað fyrir sína bragðlauka.  

  Sænska hlaðborðið er í boði til og með 2. október.  Ég á eftir að heimsækja það oftar.  Mun oftar.  Ég hef þegar sótt það tvívegis.  Það segir sína sögu.  Ég fagna þessu uppátæki hjá Fljótt & Gott:  Að bjóða okkur upp á spennandi sænskt hlaðborð á góðu verði og standa glæsilega að því.

  Það myndi skerpa á stemmningunni að spila músík sungna á sænsku.  Íslendingar þekkja og kunna vel við svoleiðis músík,  allt frá söngvunum um Emil í Kattholti og Línu Langsokk til Sven Ingvars og Black Ingvar.  Ég er mest fyrir Entombed - þó að þeir laumist stundum til að syngja á ensku.

 

 

 


Ódýr og hraðvirk detox aðferð

  Detox nýtur gríðarlega mikilla vinsælda hérlendis og í Póllandi.  Detox nær yfir sérstakt mataræði og fleiri aðferðir til að hreinsa líkamann að innan.  Hápunkturinn er svokölluð stólpípa.  Það er eitthvað klósetttæki sem tekur til í skottinu á fólki.  Sumir verða háðir stólpípunni.  Verða stólpípufíklar og fara aftur og aftur í detox.

  Það er dýrt og umdeilt.  Í Asíu er hægt að komast í hræódýra detox meðferð.  Þar er fíll staðgengill stólpípunnar.  Það þarf ekkert að leggjast inn á stofu eða neitt.  Fólk leggst bara á teppi á jörðinni og fílarnir afgreiða dæmið úti í guðs grænni náttúrunni.  Til öryggis þarf hraustan mann og annan fíl til að vera viðbúnir að halda viðskiptavininum í skefjum ef fíllinn hnerrar. 

detox


mbl.is „Samkvæmt BMI-stuðlinum er ég offitusjúklingur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðulegt og óvænt veðurfar

  Rok hefur breyst mjög mikið á síðustu árum.  Ég veit ekki hvort það er vegna loftslagsbreytinga eða af öðrum ástæðum.  Þegar brunalið var í miðju kafi - akkurat búið með fyrri helminginn - að sprauta vatni á þetta hús í Frakklandi þá fauk það óvænt í burtu. Í gær fauk gömul kona í Kópavogi.  Það sem verra var er að hún fauk í vitlausa átt.
.
fjúkandi hús

Bráðfyndið samtal í Hagkaup

  Ég gerði mér ferð í Hagkaup í Skeifunni.  Ég var þyrstur og langaði í Malt.  Þegar gengið er inn í verslunina blasir við horn sem er blanda af upplýsingaborði og sjoppu.  Ég bar upp erindið.  Afgreiðsludaman var í þann mund að sinna því þegar háöldruð kona ruddist upp að hlið mér og kallaði á dömuna:  "Getur þú hringt á leigubíl fyrir mig?"

  "Alveg sjálfsagt,"  svaraði afgreiðsludaman glaðlega.  Hún gerði þegar í stað hlé á samskiptum við mig og tók upp símtól.  Sú gamla snérist á hæl og þrammaði í átt að útidyrunum.  Hún fór hægt yfir.  Afgreiðsludaman kallaði á eftir henni:  "Hvert er nafnið?"

  Sú gamla hægði á ferðinni og kallaði um öxl:  "Ertu að tala við mig?"

  Afgreiðsludaman kannaðist við það og ítrekaði spurninguna:  "Já,  ég er að spyrja um nafnið."

  "Hreyfill,"  hrópaði sú gamla um leið og hún hvarf út um dyrnar.  

leigubíll


Íslenskir þingmenn sluppu fyrir horn

  Samkvæmt frétt á mbl.is lentu fjórir íslenskir þingmenn í hrakningum er þeir ætluðu að taka þátt í fundi Vestnorræna ráðsins í Þórshöfn í Færeyjum.  Lending flugvélarinnar sem þeir voru í gat ekki lent í Þórshöfn vegna veðurs, samkvæmt fréttinni.  Flugvélin neyddist til að lenda í Haugasundi í Noregi í staðinn.

  Út af fyrir sig var það gæfa að flugvélin reyndi ekki lendingu í Þórshöfn.  Þar eru engin skilyrði fyrir flugvél að lenda.  Hvorki vegna veðurs né annarra lendingaraðstæðna.  Færeyingar hafa til fjölda ára varið yfir 1000 milljónum í leit að flugvelli utan Voga.  Án árangurs.  Eini flugvöllurinn í Færeyjum er í Vogum.  Þaðan þurfa farþegar að koma sér frá og til flugvallar í rútu,  leigubíl eða í bílaleigubíl (orðið bílaleigubíll er dálítið skrítið) ef þeir eiga erindi til Þórshafnar á annarri eyju,  Straumey.  Það hefði endað með ósköpum ef reynt hefði verið að lenda flugvél í Þórshöfn.   

Þórshöfn


mbl.is Ætluðu til Færeyja en enduðu í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Wow sló í gegn

flug-wow 

  Ég skrapp til Parísar í Frakklandi.  Fyrst og fremst til að gera úttekt á Wow flugfélaginu.  Í stuttu máli þá sló Wow í gegn hjá mér.  Ég hef ekki áður skemmt mér jafn vel í millilandaflugi.  Flugfreyjurnar hjá Wow fóru á kostum.  Stemmningin um borð var ólík því sem maður á að venjast.

  Öll þekkjum við flugáhöfn í svörtum og blásvörtum klæðnaði, virðugheit,  alvörugefnar upplýsingar frá flugstjóra og flugáhöfn.  Mónótónískar upplýsingar í hátalarakerfi um öryggisbúnað, flughæð, veður á áfangastað og annað í þeim dúr.

  Þið þekkið þetta:  "Það er flugstjórinn sem talar.  Við fljúgum í 30 þúsund feta hæð.  Veður í París er 25 stiga hiti, sól og bla, bla, bla."

  Farþeginn lokar eyrum fyrir svona og les dagblöð,  fer að ráða krossgátur og eða sofnar.

  Flugfreyjur Wow voru í öðrum gír.  Þær voru ærslafullar og "bulluðu" í jákvæðri merkingu.  Lásu ekki upp þurran texta af blaði heldur mæltu af munni fram galsafengnar lýsingar.  Þær lýsingar eru kannski ekki fyndnar í endursögn.  En þær voru verulega fyndnar í því andrúmslofti sem ríkti um borð.  Þetta voru ekki staðlaðir brandarar heldur spunninn texti á staðnum.  Brandararnir voru ekki þeir sömu á flugleið frá Íslandi til Parísar né á leið frá París til Íslands.  Ekki heldur voru brandarar endurteknir í texta á íslensku og á ensku. 

  Flugfreyjurnar voru í fanta stuði.  Dæmi:  Þegar lagt var af stað frá París oftaldi flugfreyja farþega.  Tala hennar passaði ekki við farþegalista.  Þá voru tvær flugfreyjur látnar endurtelja.  Að talningu lokinni passaði tala þeirra saman og passaði við farþegalista.  Viðbrögð flugfreyjanna voru að stökkva í loft upp og slá saman lófum í hárri fimmu (high five).

  Á leiðinni út til Parísar þuldi flugþjónn upp þessar helstu vanalegu upplýsingar um flugferðina.  Hann nefndi að flugtíminn væri 2 klukkustundir og 10 mínútur og bætti við:  "Ég hef aldrei á ævinni heyrt um jafn stuttan flugtíma til Parísar."

  Á bakaleiðinni frá París var galsinn ennþá meiri.  Það hljómaði líkt og verið væri að kynna Bítlana á svið þegar flugfreyja tilkynnti með tilþrifum:  "Og nú er komið að því sem allir hafa beðið eftir:  Við förum yfir öryggisbúnað um borð!"

  Við tóku upplýsingar um björgunarvesti,  súrefnisgrímur og það allt.  Þegar upp var talið hvað gerist ef flugvélin hrapar var nefnt að súrefnisgrímur falli ofan í sætin,  Það var útlistað þannig:  "Þá skaltu hætta að öskra og setja á þig grímuna.  Síðan aðstoðar þú börn þín við að setja á þau grímur."  Í ensku upplýsingunum var bætt við:  "Þegar þú hefur komið grímunni fyrir á þér og börnunum skaltu aðstoða ósjálfbjarga eiginmanninn við að koma grímunni á hann!"

  Þannig var öllum upplýsingum komið á framfæri af gáska.  Stundum jaðraði textinn við bull en í samhengi við alvörugefnar upplýsingar var þetta verulega fyndið.  "Ef við stöndum ykkur að því að tala í farsíma eða reykja um borð eruð þið í verulega vondum málum.  Nei, ég segi nú bara si sona.  Þetta er smá grín."

  Í upptalningu á öllu sem er bannað um borð (farsímanotkun,  reykingar...) slæddist með:  "Það er bannað að reyna að fella okkur í gólfið!"

  Þetta hljómaði verulega spaugilegt þegar það var fléttað inn í alvörugefnar upplýsingar en er ekki fyndið í þessum skrifaða texta mínum.  Það var þetta skemmtilega andrúmsloft og kátína sem skapaði góða stemmningu um borð.

  Flugfreyjurnar voru allar ungar (sem svo sem skiptir ekki máli) og klæddar smart fjólubláum klæðnaði.  Á flugvellinum í París skáru fjólubláar merkingar á flugvél Wow sig frá öðrum flugvélum.  Hressilegar og áberandi.  Nafnið Wow er sérkennilegt og óhátíðlegt.  Allt í stíl.  Fjörlegum stíl.

  Tímasetningar stóðust upp á mínútu.  Það var pínulítið sérkennilegt að flugvél Iceland Express fór í loftið örfáum mínútum á undan flugvél Wow.  Það færi betur á að möguleiki væri á að velja á milli flugs að degi til annars vegar og kvöldflugi hinsvegar.  Kannski er eitthvað hagkvæmt við að vera svo gott sem í samfloti.  Það getur verið hagkvæmt þegar um strætisvagna er að ræða í slæmri færð.  En varla í flugi.  Þó veit ég ekki með það. 

  Ég gef Wow hæstu einkunn.  Frábærar flugfreyjur og sérlega fyndnar.  100% tímaáætlun.  Frábær stemmning um borð.  Galsi út í eitt.  Góð tilbreyting frá formlegheitum og alvörugefnum upplýsingum.  Það var góð skemmtun að fljúga með Wow.  Tekið skal fram að ég þekki engan persónulega sem vinnur hjá Wow eða tengist því fyrirtæki.   

wow


mbl.is WOW air flýgur frá Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjá góðu fólki - og vondu

travel-inn 

  Ég var að leita að gistingu í miðborg Parísar.  Úr vöndu var að velja.  Gestir gefa þeim mörgum svo góða einkunn og láta vel af starfsfólki.  Að lokum leist mér best á hótel sem heitir því hrífandi nafni Smart Place Paris.  Starfsfólk þess fær meðaleinkunnina 95,2%.  Ummæli eru á einn veg.  Svo ég taki aðeins þau 10 nýjustu:

 "Starfsfólk var virkilega indælt."

  "Einstaklega vinalegt og hjálplegt starfsfólk."

  "Starfsfólkið er vinsamlegt og aðstoðar þig þegar um er beðið."

  "Starfsfólkið var vingjarnlegt, þrátt fyrir að ábendingar þess um matsölustaði og fleira væru ómarkvissar." 

  "Mjög hjálplegt starfsfólk."

  "Starfsfólkið er vinsamlegt."

  "Afskaplega indælt fólk."

  "Starfsfólkið virtist kunna sitt fag."

  "Notalegt starfsfólk."

  "Frábærlega hjálplegt starfsfólk."

  Það þarf ekki að velja úr umsögnum til að fá þessar lýsingar.  Þær eru allar samhljóða.  Þetta er töluvert frábrugðið umsögnum gesta á Travel-Inn í Reykjavík.  Starfsfólkið þar fær meðaleinkunnina 4,8 á booking.com.  Mestu skiptir hvort gestir eiga samskipti við eigandann eða ekki.  Honum er lýst sem dónalegum og ósvífnum skapofsamanni.  Um hann má lesa með því að smella á þennan hlekk:

http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1253295/ 

http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1253128/

  Á booking.com má lesa eftirfarandi lýsingar fyrrverandi gesta Travel-Inn:

Stefanía (heldra par frá Ítalíu):  "Rúmföt voru blóðug.  Enginn starfsmaður finnanlegur. Fann sjálf hrein rúmföt og skipti um.  Eigandinn varð mjög reiður við mig. Handklæðin voru óhrein.  Eigandinn sagði að það væri aðeins andlitsfarði á þeim.  Ég skipti um handklæði. Eigandinn fór að gráta og bölvaði."
.
Yves (barnafjölskylda frá Belgíu):  "Starfsfólk er ekki vingjarnlegt, ekki hjálplegt, ekki áhugasamt.  Rúmföt voru óhrein og blóðug.  Herbergið var óhreint."
.
Carolyn (frá Edinborg):  "Þegar ég sá herbergið vildi ég afbóka það.  Eigandinn sagðist taka samt fulla greiðslu af kortinu mínu. Herbergið var neðanjarðar, rakt og ljóslaust.  Vegglampi virkaði ekki, kannski til að leyna hryllilegum rúmfötunum.  Á 20 ára ferðaflakki var þetta í fyrsta skipti sem ég varð að hylja koddann með jakkanum mínum!  Morgunverður er auglýstur frá kl. 7.30.  Ég þurfti að taka rútu kl. 8.30.  Þegar á reyndi var kominn miði á eldhúsdyrnar með skilaboðum um að morgunverður væri kl 8.30.  Ógeðslegur staður!
.
Pia (fjölskylda frá Danmörku):  "Bókið aldrei hér!"
.
Shuchen (frá Þýskalandi):  "Nánast allt í herberginu var í ólagi."
.
Francisco (vinahópur frá Spáni):  "Eigandinn var afar dónalegur í tvígang.  Í fyrra skiptið þegar uppgötvaðist að við höfðum verið sett í rangt herbergi.  Hann baðst ekki afsökunar þó að mistökin væru hans.  Í hitt skiptið reyndi hann að rukka okkur fyrir bílastæði,  sem eru gjaldfrí úti á götu."
.
Aina (heldra par frá Spáni):  "Við völdum þetta gistiheimili vegna þess að það er staðsett við hliðina á Umferðarmiðstöðinni og við þurftum að taka rútu snemma morguninn eftir. Við innritun var okkur tjáð að gistiheimilið væri ofbókað og við vorum flutt á annað gistiheimili í 1,5 km fjarlægð frá Umferðarmiðstöðinni."
.
Portúgali:  "Eigandinn er afskaplega ókurteis gamall kall. Rúmið var brotið. Ég var þarna í 4 daga og fékk aldrei hreint handklæði og herbergið var aldrei þrifið."
.
Vinahópur frá Þýskalandi:  "Baðherbergið var viðbjóður. Við urðum að stela klósettpappír frá öðru herbergi því enginn pappír var hjá okkur."
.
Englendingur: "Starfsfólk var ekki sérlega vingjarnlegt né ég boðin velkomin. Ég bókaði 2ja manna herbergi þó að ég væri ein. Mér var komið fyrir í pínulitlu eins manns herbergi. Herbergið sem ég bókaði stóð autt á meðan."
.
Ungt par frá Ísrael: "Af 6 gistiheimilum sem við dvöldum á í fríi okkar á Íslandi var þjónustan verst hér. Starfsfólkið er óvinsamlegt, þar með talinn forstjórinn. Þegar misskilningur kom upp varðandi greiðslu öskraði hann á okkur án þess að biðjast afsökunar." 
.
Bresk fjölskylda:  "Illa lyktandi herbergi, óhrein rúmföt, ómerkilegur morgunverður."
.
Finni:  "Götótt rúmföt, brakandi rúm, hörð dýna. Baðherbergisofninn bilaður. Sjónvarpið bilað."
.
Rússenskt par:  "Hrokafullt og dónalegt starfsfólk."
.
Lis (danskur vinahópur):  "Í tvö af þremur skiptum sem við fórum í morgunverð var unga stelpan sem sá um hann í þvílíkt brjáluðu skapi að það hálfa væri nóg."
.
   Það verður varla sagt um Travel-Inn að það gistiheimili sé Íslendingum og íslenskri ferðaþjónustu til sóma.  Þegar skemmtistað er hleypt af stokkum þarf vottorð og úttekt frá yfir 20 embættum.  Þetta eru Heilbrigðiseftirlit, brunavarnaeftirlit og allskonar.  Ég kann ekki nöfnin á þessu batteríum.  Þetta er allt mjög þungt í vöfum. Það tekur marga mánuði að afla allra þeirra vottorða sem þarf til.  Hvernig er þetta með gistiheimili?  Vegna Travel-Inn vakna spurningar um hvernig staðan er í þeirri deild.  Ég veit að það eru til Samtök gistihúsaeigenda.  Ég veit ekki hvert hlutverk þeirra er.  Einhver fleiri samtök eru til sem heyra undir ferðaþjónustu.  Eru gistihús eftirlitslaus?  Svo virðist vera.    

Merkilegar upplýsingar um mótorhjólafólk

motorcycle_racing_picture 

  Þetta eru niðurstöður úr samantekt bresks tryggingarfélags.  Ég veit ekki hvað má heimafæra margar af þessu upplýsingum yfir á íslenska mótorhjólagarpa.  Reyndar snúa margir af þessum punktum ekki að breskum mótorhjólamönnum.  Þetta er forvitnileg samantekt frá ýmsum heimshornum.

- Flestir sem gera kröfu á hendur breskra tryggingarfélaga vegna mótorhjólaóhappa bera nafnið Davíð.  Næstir koma Páll (Paul) og Andrés (Andrew).

- Að meðaltali verða 78 mótorhjólaóhöpp í Bretlandi dag hvern.

- Á Deili á Indlandi eru konur á mótorhjóli undanþegnar því að bera hjálm.

- Sá sem tekinn hefur verið fyrir glannalegasta hraðakstur á mótorhjóli í Bretlandi var á 175 km hraða.  Mig minnir að ég hafi heyrt um meiri hraða hérlendis.

- Sá sem fer út í umferðina á mótorhjóli er 50 sinnum líklegri til að lenda í lífshættulegu umferðaróhappi en sá sem er í bíl.

- 2009 mótmæltu mótorhjólamenn í Nigeríu nýjum lögum sem skylduðu þá til að vera með hjálm.  Mótmælendur báru hjálma sem voru búnir til úr graskerum.  Dálítið kjánalegt.  


Tónlistarhátíðin Gæran að hefjast!

Gaeran 

  Á fimmtudaginn (21. ágúst) hefst tónlistarhátíðin Gæran á Sauðárkróki.  Síðan tekur við stanslaust fjör fram á sunnudagsmorgunn.  Hver stórstjarnan tekur við af annarri,  allt verður á suðupunkti og Krókurinn mun iða af lífi og fjöri.  Meira að segja færeyska álfadrottingin,  Eivör,  treður upp og verður með splunkunýjan og flottan disk, Room, í farteskinu.  Þessi magnaði diskur kemur ekki út á heimsmarkað fyrr en í næsta mánuði.  Íslendingar fá forskot á sæluna af því að við erum í klíkunni.

  Gildran og Dimma afgreiða rokkið meðal annarra.  Brother Grass afgreiðir blúgrassið (sjá:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1249208/ ).  Contagen Funural sjá um blúsinn.  Geirmundur Valtýs sér um skagfirsku sveifluna.  Skytturnar rappa.  Dúkkulísurnar syngja um svart-hvíta hetju og sápuóperuna Dallas (sem er víst komin á dagskrá hjá Stöð 2).  Þá er fátt eitt upp talið.

  Miðinn fyrir alla dagana kostar aðeins 5000 kall.  Það er eins og inn á staka hljómleika í Hörpu og víðar.  Miðasala er á midi.is og Kaffi Króki.

  Dagskrá Gærunnar hefst klukkan 20.00 á fimmtudaginn á Mælifelli við Aðalgötu.  Þar koma fram eftirtaldir sólóskemmtikraftar:   

* Dana Ýr
* Sóla og Sunna
* Sveinn Rúnar
* Þorgerður Jóhanna
* Fúsi Ben og Vordísin
* Myrra Rós
* Gillon
* Joe Dúbíus
* InkCity

Á föstudeginum spilar þessi fríði flokkur:

* Rock to the moon
* Brother Grass
* Sverrir Bergmann og Munaðarleysingjarnir
* Eldar
* Gildran
* Hide your kids
* Eivör Pálsdóttir
* Sing for me Sandra
* Dimma
* Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar

Ball með Gildrunni á Mælifell strax eftir að hljómleikadagskrá lýkur.

Á laugardeginum sjá eftirtaldar hljómsveitir um herlegheitin:

* Art Factory Party
* Nóra
* Bee Bee and the Bluebirds
* The Wicked Stragners
* Dúkkulísurnar
* Lockerbie
* Death by toaster
* Skúli Mennski
* Skytturnar
* Contalgen Funeral

Ball á Mælifell strax eftir að hljómleikadagskrá lýkur.

Það er gaman á Króknum.  Skagfirðingar kunna að skemmta sér og öðrum og sletta úr klaufunum flestum betur.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.