Ég var að leita að gistingu í miðborg Parísar. Úr vöndu var að velja. Gestir gefa þeim mörgum svo góða einkunn og láta vel af starfsfólki. Að lokum leist mér best á hótel sem heitir því hrífandi nafni Smart Place Paris. Starfsfólk þess fær meðaleinkunnina 95,2%. Ummæli eru á einn veg. Svo ég taki aðeins þau 10 nýjustu:
"Starfsfólk var virkilega indælt."
"Einstaklega vinalegt og hjálplegt starfsfólk."
"Starfsfólkið er vinsamlegt og aðstoðar þig þegar um er beðið."
"Starfsfólkið var vingjarnlegt, þrátt fyrir að ábendingar þess um matsölustaði og fleira væru ómarkvissar."
"Mjög hjálplegt starfsfólk."
"Starfsfólkið er vinsamlegt."
"Afskaplega indælt fólk."
"Starfsfólkið virtist kunna sitt fag."
"Notalegt starfsfólk."
"Frábærlega hjálplegt starfsfólk."
Það þarf ekki að velja úr umsögnum til að fá þessar lýsingar. Þær eru allar samhljóða. Þetta er töluvert frábrugðið umsögnum gesta á Travel-Inn í Reykjavík. Starfsfólkið þar fær meðaleinkunnina 4,8 á booking.com. Mestu skiptir hvort gestir eiga samskipti við eigandann eða ekki. Honum er lýst sem dónalegum og ósvífnum skapofsamanni. Um hann má lesa með því að smella á þennan hlekk:
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1253295/
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1253128/
Á booking.com má lesa eftirfarandi lýsingar fyrrverandi gesta Travel-Inn:
Stefanía (heldra par frá Ítalíu): "Rúmföt voru blóðug. Enginn starfsmaður finnanlegur. Fann sjálf hrein rúmföt og skipti um. Eigandinn varð mjög reiður við mig. Handklæðin voru óhrein. Eigandinn sagði að það væri aðeins andlitsfarði á þeim. Ég skipti um handklæði. Eigandinn fór að gráta og bölvaði."
.
Yves (barnafjölskylda frá Belgíu): "Starfsfólk er ekki vingjarnlegt, ekki hjálplegt, ekki áhugasamt. Rúmföt voru óhrein og blóðug. Herbergið var óhreint."
.
Carolyn (frá Edinborg): "Þegar ég sá herbergið vildi ég afbóka það. Eigandinn sagðist taka samt fulla greiðslu af kortinu mínu. Herbergið var neðanjarðar, rakt og ljóslaust. Vegglampi virkaði ekki, kannski til að leyna hryllilegum rúmfötunum. Á 20 ára ferðaflakki var þetta í fyrsta skipti sem ég varð að hylja koddann með jakkanum mínum! Morgunverður er auglýstur frá kl. 7.30. Ég þurfti að taka rútu kl. 8.30. Þegar á reyndi var kominn miði á eldhúsdyrnar með skilaboðum um að morgunverður væri kl 8.30. Ógeðslegur staður!
.
Pia (fjölskylda frá Danmörku): "Bókið aldrei hér!"
.
Shuchen (frá Þýskalandi): "Nánast allt í herberginu var í ólagi."
.
Francisco (vinahópur frá Spáni): "Eigandinn var afar dónalegur í tvígang. Í fyrra skiptið þegar uppgötvaðist að við höfðum verið sett í rangt herbergi. Hann baðst ekki afsökunar þó að mistökin væru hans. Í hitt skiptið reyndi hann að rukka okkur fyrir bílastæði, sem eru gjaldfrí úti á götu."
.
Aina (heldra par frá Spáni): "Við völdum þetta gistiheimili vegna þess að það er staðsett við hliðina á Umferðarmiðstöðinni og við þurftum að taka rútu snemma morguninn eftir. Við innritun var okkur tjáð að gistiheimilið væri ofbókað og við vorum flutt á annað gistiheimili í 1,5 km fjarlægð frá Umferðarmiðstöðinni."
.
Portúgali: "Eigandinn er afskaplega ókurteis gamall kall. Rúmið var brotið. Ég var þarna í 4 daga og fékk aldrei hreint handklæði og herbergið var aldrei þrifið."
.
Vinahópur frá Þýskalandi: "Baðherbergið var viðbjóður. Við urðum að stela klósettpappír frá öðru herbergi því enginn pappír var hjá okkur."
.
Englendingur: "Starfsfólk var ekki sérlega vingjarnlegt né ég boðin velkomin. Ég bókaði 2ja manna herbergi þó að ég væri ein. Mér var komið fyrir í pínulitlu eins manns herbergi. Herbergið sem ég bókaði stóð autt á meðan."
.
Ungt par frá Ísrael: "Af 6 gistiheimilum sem við dvöldum á í fríi okkar á Íslandi var þjónustan verst hér. Starfsfólkið er óvinsamlegt, þar með talinn forstjórinn. Þegar misskilningur kom upp varðandi greiðslu öskraði hann á okkur án þess að biðjast afsökunar."
.
Bresk fjölskylda: "Illa lyktandi herbergi, óhrein rúmföt, ómerkilegur morgunverður."
.
Finni: "Götótt rúmföt, brakandi rúm, hörð dýna. Baðherbergisofninn bilaður. Sjónvarpið bilað."
.
Rússenskt par: "Hrokafullt og dónalegt starfsfólk."
.
Lis (danskur vinahópur): "Í tvö af þremur skiptum sem við fórum í morgunverð var unga stelpan sem sá um hann í þvílíkt brjáluðu skapi að það hálfa væri nóg."
.
Það verður varla sagt um Travel-Inn að það gistiheimili sé Íslendingum og íslenskri ferðaþjónustu til sóma. Þegar skemmtistað er hleypt af stokkum þarf vottorð og úttekt frá yfir 20 embættum. Þetta eru Heilbrigðiseftirlit, brunavarnaeftirlit og allskonar. Ég kann ekki nöfnin á þessu batteríum. Þetta er allt mjög þungt í vöfum. Það tekur marga mánuði að afla allra þeirra vottorða sem þarf til. Hvernig er þetta með gistiheimili? Vegna Travel-Inn vakna spurningar um hvernig staðan er í þeirri deild. Ég veit að það eru til Samtök gistihúsaeigenda. Ég veit ekki hvert hlutverk þeirra er. Einhver fleiri samtök eru til sem heyra undir ferðaþjónustu. Eru gistihús eftirlitslaus? Svo virðist vera.