Færsluflokkur: Ferðalög

Þegar menn urðu að leggja töluvert á sig til að redda hlutunum

þarf að fara út og snúa flugvélina í gang

  Sumum þótti þetta all svakalega glæfralegt.  Enda mátti fátt út af bera til að illa færi.  Virkilega illa.  Öðrum þótti þetta spennandi og ævintýralegt.  Það fékk líkamann til að framleiða vænan skammt af adrenalíni sem leiddi til langvarandi vellíðunnar.  Það sem skipti samt mestu máli er að það varð að gera þetta þegar flugvélin drap á sér á flugi.  Það var ekki um annað að ræða en klifra út á hjólastellið, ná góðu taki á hreyfilblaði og snúa vélina í gang áður en hún tapaði of mikilli flughæð og myndi kollsteypast.

   Þegar svona henti þótti kostur ef veður var gott. 


Hættulegir jeppabílstjórar

 

  Það er eitthvað sem gerist í hausnum á sumum bílstjórum um leið og þeir setjast undir stýri á jeppa.   Ekki öllum.  Alls ekki.  Bara sumum.  Það er eins og einhverskonar frekjukast hellist yfir þá,  ásamt streitukasti á háu stigi.  Það er eins og þeir upplifi sig sem kónga er eigi að njóta sérstaks forgangs í umferðinni.  Aðrir í umferðinni séu aðeins að þvælast fyrir þeim.  Jeppakarlarnir eru snöggir að leggjast á flautuna,  steyta hnefa og senda öðrum ökumönnum fingurinn.  Það má einnig sjá að jeppagaurarnir eru að hrópa eitthvað.  Enginn veit hvað þeir hrópa en svipurinn lýsir ofsabræði.

  Það eru þessir sömu jeppabílstjórar sem leggja í merkt stæði fyrir fatlaða.  Ekki vegna þess að þeir hafi merki sem heimilar slíkt heldur vegna þess að það eru bestu stæðin.  Reyndar er það fötlun út af fyrir sig að vera jeppabílstjóri með þetta hegðunarmynstur.  En hún er ekki þess eðlis að jeppabílstjórar fái skírteini út á það.

  Þegar þröngt er á þingi vegna einhvers viðburðar;  fótboltaleiks,  hljómleika og þess háttar þá bregst ekki að jeppum er lagt upp á gangstéttir,  umferðareyjar og út um allt nema í almenn bílastæði.

  Þegar jeppakallar sleppa út fyrir höfuðborgina eru þeir friðlausir þangað til þeir hafa ekið utanvegar og spænt upp viðkvæman jarðveg.  

  


mbl.is „Mátti engu muna að það yrði stórslys“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færeyskt góðgæti

kjotsupa

  Núna eru færeyskir dagar í Smurbrauðsstofu Sylvíu á Laugavegi 170 (við gatnamótin fyrir ofan Nóatún í Nóatúni).  Þeir vara til klukkan sex á morgun (laugardag).  Þar er boðið upp á ræstkjötssúpu (rast kjöt).  Einnig bakka með fjórum girnilegum smurbrauðssneiðum.  Á einni er skerpukjöt (skerpikjöt).  Á annarri er færeysk rúllupylsa.  Á þeirri þriðju eru niðursneiddir knettir.  Á þeirri fjórðu eru niðursneiddar fríkadellur.

  Ræst kjöt og skerpukjöt eru hvorutveggja þurrkað lambakjöt.  Ræstkjötið er hryggur og frampartur og hangir skemur uppi.  Það er á stigi svipuðu því sem við köllum siginn fisk.  Skerpukjötið er læri og hangir lengur uppi en er ekki jafn þurrt og harðfiskur.  Það bragðast eitthvað í humátt að parmaskinku.  Bæði skerpukjötið og ræstkjötið eru bragðsterk og gefa endingargott eftirbragð.  

  Það er algengt að Íslendingum þyki þetta ekki góður matur þegar það er smakkað í fyrsta skipti.  Eftir að hafa smakkað það oftar vex sterk löngun í að komast sem allra fyrst í svona sælgæti oftar.  Þetta er svipað og löngunin í kæstan hákarl,  kæsta skötu og hangikjöt.  Eitthvað sem maður verður að fá sér í það minnsta árlega.  Helst miklu oftar.

  Ræstkjötssúpunni svipar mjög til íslensku kjötsúpunnar.  Þetta er matmikil grænmetissúpa með rófum,  gulrótum,  lauk,  hrísgrjónum og þess háttar.  Hlutfall ræstkjötsins er heldur minna en kjötið í íslensku kjötsúpunni.  Enda gefur ræstkjötið mun skarpara bragð.  Í Færeyjum er algengt að ræstkjötið sé fjarlægt úr súpunni og borðað sér með soðnum kartöflum.  Í Smurbrauðsstofu Sylvíu er kjötið í súpunni.  600 krónur fyrir súpuna á Smurbrauðsstofu Sylvíu er gott verð og auðveldar óvönum að smakka.  Innifalið í verðinu er ábót ef einhver er rosalega svangur.  Ég hef aldrei þurft á því að halda.  Súpan er saðsöm og ein besta ræstkjötssúpa sem ég hef fengið.  Alveg eðal.  5 stjörnu súpa.

  Smurðu heimilisbrauði er ekki ætlað að vera eiginlegur veislumatur sem keppir við alvöru "danskt smurbrauð".  Brauðbakkinn gefur góða hugmynd um hefðbundið smurt brauð á færeyskum heimilum.  Þó er skerpukjöt meira til spari í Færeyjum en snætt hvunndags. 

  Færeyska rúllupylsan er keimlík þeirri íslensku.  Sú færeyska er mildari og hlutfall kjöts meira á móti fitu.  Það er töluvert af lauk í henni og smávegis af púðursykri. 

  Knettir eru soðnar fiskbollur.  Uppistöðu hráefnið í knöttum er þorskur og kindamör.  Saman við það er blandað lauki, salti og pipar.  Sumir hafa örlítið af sykri með.  Færeysku knettirnir eru blessunarlega lausir við hveitibragð íslensku fiskbollanna.  Fyrir bragðið (í bókstaflegri merkingu) eru knettirnir eins og ferskari.  Að öðru leyti er bragðið líkt.

  Fríkadellur eru steiktar fiskbollur.  Að öðru leyti eru þær alveg eins og knettir.

  Þannig er frá brauðbökkunum í Smurbrauðsstofu Sylvíu gengið að hægt er að grípa þá með sér heim.  Það er upplagt að gera.  Meðal annars til að gefa öðrum að smakka með sér.  Og þess vegna að grípa með sér nokkra bakka til að eiga daginn eftir.  Jafnvel marga bakka til að eiga í marga daga.  Bakkinn kostar aðeins 1100 kall.

  Það er bráðskemmtilegt og bragðgott ævintýri að gera sér og sínum dagamun með því að smakka þessar færeysku kræsingar. 

faereyskar_brau_snei_ar


Krúttlegar gamlar konur

gomul_kona.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Ég átti (brýnt) erindi í vínbúð á Eiðistorgi.  Þar var fátt um manninn.  Þó var þarna háöldruð kona með göngugrind.  Hún þurfti margt að skoða.  Miðaldra kona,  hugsanlega dóttir hennar (hún kallaði hana mömmu.  En það gæti hafa verið til að villa um fyrir nærstöddum), rak stöðugt á eftir þeirri gömlu.  Fann áfengisflöskuna sem sú gamla vildi kaupa (ég heyrði þá gömlu tala um meðala-Sherrý) og kom sér strax að afgreiðsluborðinu.  Sú gamla þurfti margt fleira að skoða og lét ekki reka mikið á eftir sér.  Enda engin ástæða til að göslast í flýti í gegnum vínbúðina.  Yngri konan var komin út að útidyrahurð og rak á eftir gömlu konunni.  Gamla konan tók sér góðan tíma í að finna greiðslu fyrir áfengisflöskuna og skoðaði ýmislegt í leiðinni.  Þegar sú gamla hafði gengið frá greiðslu ruglaðist hún á göngugrind sinni og hjólagrind fyrir innkaupakörfur vínbúðarinnar.  Hún skildi göngugrindina sína eftir í búðinni en brölti út með hjólagrind fyrir innkaupakörfur.  Það voru 2 eða 3 körfur í körfugrindinni.  Sú gamla tók sig vel út með þetta.  Það var reisn yfir þessu.

  Mæðgurnar voru komnar út á stétt þegar dóttirin áttaði sig á mistökunum.  Það tók nokkra stund að gera þeirri gömlu grein fyrir því að hún væri með vitlausa grind.  Hún var ekki til í sleppa körfugrindinni fyrr en dóttirin hafði skokkað eftir göngugrindinni. 
.
  Í sömu verslunarmiðstöð var öldruð kona að rúnta um á nettum rafmagnsbíl.  Bíllinn var ekki plássfrekari en stórt mótorhjól.  Bíllinn var þó á fjórum hjólum,  hljóðlaus og aö öðru leyti eins og yfirbyggt mótorhjól í útliti.  Flott tæki.  Gamla konan átti í örðugleikum með að ráða við tækið.  Ég forvitnaðist um þessa skemmtilegu innkaupakerru.  Rafmagnsbíll þessi nær 15 kílómetra hraða.  Það er lúxus fyrir þá gömlu að skreppa á bílnum til innkaupa á Eiðistorgi.  Ég var á hraðferð og gaf mér ekki tíma til að fylgjast betur með innkaupaferð konunnar.  Miðað við hvað hún var dálítið klaufsk á tækið óttast ég um verslanahillurnar á Eiðistorgi.  . 

Áhrifamikil og ævintýraleg byggingalist

15444_184402920912_657720912_3401733_2259275_n

  Góðir arkítektar fella byggingar inn í landslagið.  Leyfa náttúrinni að njóta sín og ráða för.  Það kunna íslenskir arkítektar ekki.  Sumir aðrir kunna það.

19743_302753100912_657720912_4016055_3191757_n19743_302753110912_657720912_4016056_2508164_n

  Fara jafnvel glannalega leið.  Takið eftir kláfinum sem ferjar fólk til og frá á mynd nr. 2.  Takið einnig eftir kaðalstiganum undir byggingunni á síðustu myndinni.  Hann er varasamur í hvassviðri.

kofahús

  Ég átta mig ekki alveg á þessu timburhúsi.  Fátt er um glugga í efri hæðum.  Burðarþolið er allt í hægri hluta byggingarinnar.  Kannski er þetta sumarbústaður?

ekki fyrir lofthrædda-varðstöð

  Þessi varðstöð fellur ekki beinlínis að landslaginu.  En sumir upplifa landslagið sterkt þegar farið er þarna um.  Einkum þeim sem er snúið við.  Þá er betra að vera ekki lofthræddur.

ekki fyrir lofthrædda-veitingahús

  Þetta veitingahús í Kína er ekki heldur fyrir lofthrædda.  Gönguleiðin er eftir tágarbrú sem sveiflast til og frá þegar eftir henni er gengið.  Þunnt og gegnsætt tauefni tekur ekki fallið af ef menn hrasa.

ekki fyrir-lofthrædda-Hunan-kína

  Þessi gönguleið í Hunan í Kína er öruggari.  En samt ekki fyrir lofthrædda.  Þarna eru þó járnbent handrið sem hægt er að grípa í ef manni verður fótaskortur. Gönguleiðin er varasöm í frosti.  Þá eru tröppurnar nefnilega hálar.


Misheppnuð stækkun

  Fyrir 100 árum eða svo fann Marís M. Gilsfjörð upp aðferð og smíðaði frumstætt tæki til að stækka fólk.  Tækið var nánast aukaatriði.  Galdraþulur voru í aðalhlutverki.  Hann gat hvort heldur sem var lengt fólk eða stækkað á þverveginn.  Á þessum árum voru Íslendingar almennt nettir.  Það þótti ókostur í vindasömu veðri.  Einkum í smalamennsku og göngum í hvassviðri. 

  Einn af þeim sem Marís stækkaði var ungur maður úr Svarfaðardal,  Jóhann að nafni.  Svo klaufalega vildi til að Marís sofnaði í miðju stækkunarferli (illar tungur segja vegna ölvunar).  Þegar Marís rankaði við sér var Jóhann orðinn 2,34 metrar á hæð.  Þaðan í frá gekk Jóhann undir nafninu Jói risi.  Stærðinni fylgdu ókostir.  Það þurfti að sérsauma á hann allan fatnað og skó.  Hann fékk þó vinnu við að sýna sig í sirkusum í útlöndum.  Marís gaf foreldrum Jóhanns 5% afslátt á taxta vegna mistakanna.  Að auki gaf hann þeim stimpil með mynd af stjörnu og annan með broskalli.

   Marís dró sig í hlé í kjölfar þessa atburðar.  Sumir héldu því fram að hann skammaðist sín dálítið.  

 

maris_staekkar_folk_1173574.jpg


Veitingahússumsögn

 - Réttur:  Sænskt hlaðborð

 - Veitingastaður:  Fljótt & Gott,  BSÍ

 - Verð:  1995 kr.

 - Einkunn:  ***1/2 (af 5)

  Þegar tal berst að sænskum mat koma sænskar kjötbollur upp í hugann.  Þær eru ekki veislumatur en ágætar hvunndags.  Það á við um fleira á sænska hlaðborðinu á Fljótt & Gott á BSÍ.  Þar má finna steiktar smápylsur (korv), niðurskornar pylsur í brúnsósu, beikon,  hakkbuff með lauki og þess háttar.  Sumt er meira framandi, svo sem innbakaður lax.  Hann er ekki það besta á hlaðborðinu.

  Þetta og ýmislegt fleira eru aðalréttir.  Forréttirnir eru meira veisluborð.  Þar má upp telja síldarrétti,  lifrakæfu,  roastbeef, skinku og svo framvegis.  Þeir eru á veislulegum bökkum ásamt grænmeti, ávöxtum og einhverju svoleiðis.  Meðlæti með forréttum og aðalréttum er fjölbreytt.  Til að mynda bragðgott kartöflugratín og steiktir kartöfluplattar sem kallast raggmunk.  Þeir eru steiktir upp úr eggjahræru og snæddir með títuberjasósu.  Algjört nammi sem smellpassar með beikoni. 

  Í eftirrétt er einhverskonar kókoskaka.  Ég smakkaði hana ekki en borðfélagar mínir gáfu henni hæstu einkunn. 

  Þeir,  eins og ég, voru ánægðir með sænska hlaðborðið.  Það er gaman að smakka sitt lítið af hverju í fyrstu umferð og fá sér síðan meira af því sem best bragðast.  Verðið er fínt.  Það er vel að þessu staðið.  Réttirnir eru merktir bæði með sænskum heitum og íslenskum.  Það er til fyrirmyndar.  Ég var á báðum áttum með það hvort sanngjarnt væri að gefa hlaðborðinu 4 stjörnur eða 3 og hálfa.  Nákvæmasta einkunn er 7,5 (af 10). 

  Ég mæli með sænska hlaðborðinu á BSÍ.  Allir finna sitthvað fyrir sína bragðlauka.  

  Sænska hlaðborðið er í boði til og með 2. október.  Ég á eftir að heimsækja það oftar.  Mun oftar.  Ég hef þegar sótt það tvívegis.  Það segir sína sögu.  Ég fagna þessu uppátæki hjá Fljótt & Gott:  Að bjóða okkur upp á spennandi sænskt hlaðborð á góðu verði og standa glæsilega að því.

  Það myndi skerpa á stemmningunni að spila músík sungna á sænsku.  Íslendingar þekkja og kunna vel við svoleiðis músík,  allt frá söngvunum um Emil í Kattholti og Línu Langsokk til Sven Ingvars og Black Ingvar.  Ég er mest fyrir Entombed - þó að þeir laumist stundum til að syngja á ensku.

 

 

 


Ódýr og hraðvirk detox aðferð

  Detox nýtur gríðarlega mikilla vinsælda hérlendis og í Póllandi.  Detox nær yfir sérstakt mataræði og fleiri aðferðir til að hreinsa líkamann að innan.  Hápunkturinn er svokölluð stólpípa.  Það er eitthvað klósetttæki sem tekur til í skottinu á fólki.  Sumir verða háðir stólpípunni.  Verða stólpípufíklar og fara aftur og aftur í detox.

  Það er dýrt og umdeilt.  Í Asíu er hægt að komast í hræódýra detox meðferð.  Þar er fíll staðgengill stólpípunnar.  Það þarf ekkert að leggjast inn á stofu eða neitt.  Fólk leggst bara á teppi á jörðinni og fílarnir afgreiða dæmið úti í guðs grænni náttúrunni.  Til öryggis þarf hraustan mann og annan fíl til að vera viðbúnir að halda viðskiptavininum í skefjum ef fíllinn hnerrar. 

detox


mbl.is „Samkvæmt BMI-stuðlinum er ég offitusjúklingur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðulegt og óvænt veðurfar

  Rok hefur breyst mjög mikið á síðustu árum.  Ég veit ekki hvort það er vegna loftslagsbreytinga eða af öðrum ástæðum.  Þegar brunalið var í miðju kafi - akkurat búið með fyrri helminginn - að sprauta vatni á þetta hús í Frakklandi þá fauk það óvænt í burtu. Í gær fauk gömul kona í Kópavogi.  Það sem verra var er að hún fauk í vitlausa átt.
.
fjúkandi hús

Bráðfyndið samtal í Hagkaup

  Ég gerði mér ferð í Hagkaup í Skeifunni.  Ég var þyrstur og langaði í Malt.  Þegar gengið er inn í verslunina blasir við horn sem er blanda af upplýsingaborði og sjoppu.  Ég bar upp erindið.  Afgreiðsludaman var í þann mund að sinna því þegar háöldruð kona ruddist upp að hlið mér og kallaði á dömuna:  "Getur þú hringt á leigubíl fyrir mig?"

  "Alveg sjálfsagt,"  svaraði afgreiðsludaman glaðlega.  Hún gerði þegar í stað hlé á samskiptum við mig og tók upp símtól.  Sú gamla snérist á hæl og þrammaði í átt að útidyrunum.  Hún fór hægt yfir.  Afgreiðsludaman kallaði á eftir henni:  "Hvert er nafnið?"

  Sú gamla hægði á ferðinni og kallaði um öxl:  "Ertu að tala við mig?"

  Afgreiðsludaman kannaðist við það og ítrekaði spurninguna:  "Já,  ég er að spyrja um nafnið."

  "Hreyfill,"  hrópaði sú gamla um leið og hún hvarf út um dyrnar.  

leigubíll


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband