Færsluflokkur: Ferðalög

Andartaki áður en árabáturinn lagðist á hliðina

andartaki áður en litli báturinn lagðist á hliðina

 


Útigrill eru lífshættuleg

  Þess eru fjölda mörg dæmi að fólk hafi fárveikst vegna kolsýrings frá útigrilli.  Í verstu tilfellum hefur þetta valdið dauða.  Þegar ég skrapp til Skotlands um daginn var fyrirferðamikil í breskum fjölmiðlum frétt af dauðsfalli 6 ára stúlku,  Isabelle Harris.  Hún var ásamt foreldrum sínum á tjaldstæði í New Forest í Hants.  Foreldrarnir grilluðu kjöt á litlu kolagrilli fyrir utan tjaldið.  Stelpan var inni í tjaldi.  Framhlið þess var opin upp á gátt. 

  Í meðfylgjandi frétt mbl.is var hins vegar einnota grill inni í tjaldi 14 ára stúlku sem lést um helgina.

  Í fréttum af dauðsfalli 6 ára stúlkunnar kom fram að í fyrra hafi nokkrir fullorðnir einstaklingar látist í tjaldi á Englandi af völdum eiturgufa frá kolagrillum.  Svo virðist sem tjöld loftræsist ekki nægilega vel.  Þess vegna er áríðandi að hafa kolagrill í góðri fjarlægð frá tjaldinu.

  Myndin sýnir tjaldið sem Isabelle var í og grillið fyrir utan.

Isabelle Harris   


mbl.is Fékk eitrun frá einnota grilli og lést
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pylsur

  Það er gaman að bera saman pylsumenningu á milli landa.  Kannski í og með vegna þess hvað íslenska pylsan þykir koma vel út úr þeim samanburði.  Útlendingar bera lof á hana.  Íslendingar búsettir erlendis láta vera sitt fyrsta verk er þeir heimsækja Ísland aftur að endurnýja kynni við íslensku pylsuna.  Þessa í brauði með hráum lauk,  steiktum,  sinnepi,  tómatsósu og remúlaði.

pylsa - íslensk

  Þjóðverjar eru æstir í pylsur.  Hvort sem mikið eða lítið stendur til fá þeir sér pylsur.  Á hátíðisdögum þar sem stórfjölskyldan hittist eru pylsur á borðum.  Á þessum sömu dögum og Íslendingar fá sér hangikjöt.  Svo sem á jóladag. 

  Í þýskum kjötborðum er gríðarlega mikið úrval af pylsum.

pylsur - wurstpylsur - wurst Apylsur - þýskarpylsur - þýskar wurstdetpylsur wurst C

  Á þýskum "bröns" eru að minnsta kosti 4 - 5 tegundir af pylsum.  Líka í pylsuvögnum.

pylsur - Wurst D

  Í þýskum stórborgum rölta pylsusalar um með sölustand á maganum.  Pylsurnar eru stórar.  Um það bil þriðjungi lengri en íslenskar pylsur og heldur digrari.  Brauðið er stutt og kubbslegt og frekar hart (þétt).  Pylsan stendur langt út fyrir brauðið.  Brauðið gegnir því aðal hlutverki að halda utan um pylsuna.  Á pylsuna er aðeins sett tómatsósa og sinnep.  Á veglegri pylsustöndum er einnig boðið upp á súrkál.

pylsa - Shot Wurstpylsa - Wurst Epylsa - wurst F

  Á veitingastöðum er boðið upp á pylsur með súrkáli og kartöflusalati.  Á sumum stöðum fylgir rauðkál,  steiktur laukur (ekki þessi harði,  þurri heldur nýsteiktur) og sitthvað fleira.

pylsa - berlin expresspylsa - german-hot-dog

  Þetta sést ekki skýrt á myndinni til vinstri.  Næst okkur er rauðkál.  Síðan er það steiktur laukur og lengst frá okkur er súrkálið.  Þjóðverjar elska súrkál.  Á myndinni til hægri er kartöflusalat næst okkur og pylsan þakin súrkáli.  Á þýskum "bröns" er stærsta skálin með súrkáli.  Á alþjóðavettvangi er rokkmúsík með þýskum sérkennum kölluð kraut (stytting á sauerkraut).

  Hamborgari á fortíð í þýsku hafnarborginni Hamborg.  Þar komust menn upp á lag með að borða kjötmeti án þess að leggja niður vinnu.  Þeir héldu tveimur brauðsneiðum utan um kjötið með annarri hendi en héldu áfram vinnu með hinni.  Þjóðverjar hafa stundum ennþá sama hátt á þegar þeir snæða pylsur.  Einskonar hamborgarapylsur.

pylsur - samlokapylsur wurst í hamborgarabrauði

  Grillspjótin í Þýskalandi bera vinsældum pylsunnar vitni.

pylsur - þýskt grillspjót


Íslensk tónlist vinsæl í Þýskalandi

 

  Það njóta fleiri íslenskir tónlistarmenn vinsælda í Þýskalandi en Q4U.  Og fleiri en Björk og Sigur Rós.  Afgreiðslumaður í plötubúð í Berlín tjáði mér á dögunum að íslensk tónlist hafi sterka og svala ímynd í huga Þjóðverja.  Hún þyki spennandi,  fersk,  fjölbreytt og í háum gæðaflokki.  Hann viðurkenndi fúslega að íslenskar plötur seljist vel í Þýskalandi.

  Þessi náungi var vel að sér um þær íslensku plötur sem fást í þýskum plötubúðum.

  Mér er minnisstætt þegar ég átti leið til Þýskalands fyrir 15 árum eða svo.  Þá tók ég bíl á leigu.  Svo skemmtilega vildi til að í honum var útvarp.  Fljótlega fann ég útvarpsstöð sem ég kunni þokkalega vel við.  Þar var spilað lag með Emilíönu Torríni.  Hún var ekki orðin þekkt utan Íslands á þeim tíma.  Skömmu síðar bárust aftur á móti fréttir af vinsældum hennar í Ítalíu.  Og í dag er Emilíana Torríni alveg bærilega vel þekkt nafn víða um heim.

  Fyrir 5 árum eða svo stökk ég inn á gólf í plötubúð í Berlín.  Þar hljómaði í hátölurum rokklag sem ég kannaðist við.  Hins vegar kom ég því ekki fyrir mér hvaða hljómsveit þetta væri.  Í vandræðum mínum bar ég undir afgreiðslumenn hvað þeir væru að spila.  Þeir upplýstu að það væri frábær íslensk hljómsveit,  I Adapt.  Fagurri lýsingu sinni fylgdu þeir eftir með því að sýna mér tvö þýsk rokkblöð sem fjölluðu um I Adapt. 

  Ég kann ekki þýsku en mér skildist á mönnunum að umfjöllun blaðanna væri mjög jákvæð.  Til að strákarnir í I Adapt myndu trúa frásögn minni af þessu náði ég að suða blöðin út úr afgreiðsludrengjunum.

  Þetta snilldar lag með I Adapt hefur verið spilað næstum 20 þúsund sinnum á Þútúppunni.

  Til gamans má skjóta inn í að fyrir 2 eða 3 árum endurtók sagan sig (reyndar dálítið öðru vísi) úti í Póllandi.  Frásögn mín af því leiddi í ljós að þar höfðu óprúttnir útgefendur þar í landi gefið út sjóræningjaútgáfu af plötu I Adapt.  Síðast þegar ég vissi var það mál komið í hendur lögfræðinga.  Ég veit ekki niðurstöðuna.

  Fyrir utan þau nöfn sem áður hafa verið nefnd fann ég núna í þýskum plötubúðum plötur með eftirtöldum:  Ólafi Arnalds (5 plötur),  Benna Hemm Hemm (2 plötur),  Jónsa (3 plötur),  Helga Hrafni Jónssyni (3 plötur),  Gus Gus (3 plötur),  Seabear (2 plötur) Sóleyju og Of Monsters and Men.   

  Þetta er gaman.  Þýski plötumarkaðurinn er sá stærsti í Evrópu.  Hann nær líka yfir til Austurríkis,  Sviss og víðar. 

  Plöturnar með Benna Hemm Hemm komu ekki verulega á óvart.  Fyrir nokkrum árum sá ég í þýsku blaði umsögn um hljómleika hans,  innan um umsagnir um (3 um í röð.  Það er flott) heimsþekkt nöfn.

   Á plötu Sóleyjar er límmiði þar sem vakin er athygli á að hún hafi verið í Seabear og Sin Fang.  Nafn Seabear er feitletrað (sem vísar til þess að Þjóðverjar þekki hljómsveitina).

  Á plötu með Emilíönu Torríni er límmiði með fullyrðingu um að platan innihaldi "#1 hit song Jungle Drum".  Getur verið að það glæsilega lag hafi náð 1. sæti þýska vinsældalistans?  Ég gleymdi að spyrja að því.  Ef það er tilfellið þá hafa íslenskir fjölmiðlar vanrækt að upplýsa það.

  Ég keypti mér lítið vasaútvarp í Berlín.  Svo skemmtilega vildi til að um leið og ég kveikti á því þá hljómaði  Little Talk  með Of Monsters and Men.

  Þetta ljúfa lag með Ólafi Arnalds hefur verið spilað yfir 1,3 milljón sinnum á Þútúpunni!  Þegar ég var í New York í fyrra voru hljómleikar með Ólafi auglýstir á þann hátt að hann var/er greinilega stórt nafn þar í borg.


Furðulegt samtal

  Ég átti erindi í banka.  Ég skokkaði léttfættur til gjaldkera (þegar röðin kom að mér, vel að merkja) og tók til máls.  Hátt,  skýrt og ákveðið:  Nú þarf ég að kaupa nokkrar evrur vegna þess að útlöndin kalla."

  Gjaldkerinn fletti upp í tölvunni sinni og svaraði afsakandi:  Þú ert þegar búinn að fara til útlanda í þessum mánuði.

  Vissulega kannaðist ég við það og játaði undanbragðalaust að hafa skroppið til Skotlands um páskana. 

  - Það má bara fara einu sinni í mánuði til útlanda,  upplýsti gjaldkerinn. 

  - Ha?

  - Þannig eru gjaldeyrislögin.  Þú mátt fara einu sinni í mánuði til útlanda.  Það er gjaldeyrisskortur í landinu.

  - Má ég fara 12 sinnum á ári til útlanda,  einu sinni í hverjum mánuði?  En ekki tvisvar á ári í einum og sama mánuði?

  - Það er rétt skilið.  Þannig eru lögin.

  - Ég er búinn að kaupa flugmiða og gistingu.  Ég get farið til útlanda og tekið þar út evrur í næsta hraðbanka.

  - Ja, þá ertu eiginlega að fara á svig við gjaldeyrishöftin.  Það er ekki gott. 

 


Stórfenglegt! Ótrúlega flott!

vatn + hótel

  Það getur verið gaman að dvelja í þessari kanadísku byggingu að vetri til,  svona upp á úrsýni og stemmningu að gera.  Hins vegar er varasamt að hafa börn í lausagöngu um nágrennið.  Að minnsta kosti ef þau eru á sleipum skóm og glannast. 

  Salerni er í risi á 5. hæð.  Í gegnum þunna glerplötu á gólfi baðherbergisins sér alla leið ofan í kjallara.  Stranglega er bannað að fjölmenna inn á gólf.  Sömuleiðis er betra að hafa vara á ef fólk er í mikilli yfirvigt.  Að auki er bannað að stökkva inn á gólf á skóm með pinnahæl úr járni.  Það er ekkert gaman að pompa niður í kjallara innan um glerbrot.

baðherbergi 


Bretar væla undan köldu brauðmeti

Pizza_Squarespizza-brauð 

  Bretar eru ótrúlegar væluskjóður.  Að minnsta kosti vantar ekkert upp á að volað sé undan öllu mögulegu og ómögulegu í breskum dagblöðum.  Ég man ekki hvort að þetta var svona á árum áður eða hvort að þetta er að ágerast.  Það er vælt undan stöðugum verðhækkunum,  vaxandi kostnaði við að reka heimili,  nýjum álögum,  nýjum boðum og bönnum og ég veit ekki hvað og hvað.

  Meðal nýrra laga sem Bretar væla undan er að óheimilt er að selja á góðu verði bjór,  létt vín og sterk vín.  Það má ekki verðleggja þessar veigar undir tilteknum upphæðum.

  Ennþá sárar er vælt undan 20% skatti sem verður settur á volgt og heitt brauðmeti í Bretlandi frá og með október.  Ekki aðeins vola Bretar undan verðhækkuninni sem skatturinn framkallar heldur einnig hverju þessi nýi skattur mun breyta. 

  Skatturinn leggst á brauðmeti sem er afgreitt heitar en stofuhita.  Þetta þýðir að bakarí verða að fjárfesta í hitamæli.  Pizzur,  vínarbrauð og ýmislegt annað brauð hefur til þessa verið afgreitt heitt eða vel volgt.  Til að komast hjá nýja skattinum þarf brauðið að standa í nokkrar mínútur þangað til það hefur kólnað undir stofuhita.  Verst er þetta með pizzurnar.  Þær koma 90 gráðu heitar út úr ofninum.  Það getur tekið pizzu 15-20 mínútur að kólna niður fyrir stofuhita. 

  Bakarar segja að útilokað sé að kæla brauðmetið undir kæliviftu eða einhverju slíku.  Það kæmi niður á bragðinu.  Brauðið verður að fá að kólna sjálft og hjálparlaust í stofuhita.

  Þá tekur við annað vandamál:  Allir vilja brauðmetið heitt eða vel volgt.  Einhverjir geta tekið strætó heim til sín og hitað það í eldavélarofninum.  Það tekur ekki nema kannski hálftíma ef stílað er upp á að strætisvagninn sé á réttum tíma. 

  Einn möguleikinn er sá að bakaríin komi sér upp auka aðstöðu í nágrenninu.  Þar þarf ekkert að vera annað en örbylgjuofnar.  Viðskiptavinirnir geta tekið brauðmetið þangað - eftir að það hefur kólnað niður fyrir stofuhita - og hitað að vild.  Verra er að pizza upphituð í örbylgjuofni verður lin og slepjuleg.  Best er að hita hana upp á steikarpönnu.  Kannski geta bakaríin líka komið eldavél fyrir í auka aðstöðu (við hliðina á örbylgjuofnum).  Í því tilfelli þurfa viðskipavinir að koma með steikarpönnur með sér að heiman.  Annars yrði þeim stolið.  Fastir viðskiptavinir geta hugsanlega fengið að geyma steikarpönnuna sína í bakaríinu.  Þá verður útbúið sérstakt geymsluherbergi í bakaríunum,  líkt og pósthólf á pósthúsi.  Hver viðskiptavinur fær merkt og númerað hólf undir steikarpönnuna sína.

  Einhver fleiri ráð ætla bakaríin að reyna að finna.  Það er einhugur um að spara viðskiptavininum verðhækkunina.  Staðan gæti orðið sú að skatturinn skili ríkissjóði engum tekjum þegar á reynir.  Það eina sem hann geri verður að valda viðskiptavinum bakaría óþægindum og tímafrekum leiðindum,  sem og bakaríunum.  Ásamt því að auka rekstrarkostnað bakaría.  Það er reisn yfir því.

pizzamanbunny-pizza


Tími húsbílsins er genginn í garð

  Samkvæmt grátkórnum stefnir hraðbyr í að þorp landsins breytist í gettó (þau eru það reyndar þegar ef mark er takandi á jarmandi vælusöngvum þar um).  Fiskvinnslufólk og sjómenn hætta að fá borguð laun fyrir sína vinnu.  Þess í stað mun þetta fólk borga með sér til að fá að vinna.  Það mun togast á um hvert starf og yfirbjóða hvert annað til að fá að vinna.  Hvaðan fólkið fær pening til að borga háar upphæðir með sér er hulin ráðgáta.  Hitt er ljóst að fólkið mun ferðast frá þorpi til þorps,  úr einu gettói í annað eftir því hvar fólkið fær að borga með sér til að fá vinnu.

  Þá er runnin upp sú stund að jarðfast húsnæði er vondur kostur.  Tími húsbílsins er genginn í garð.

húsbíll

Best er að byrja ódýrum húsbíl.

húsbíll-1A

Það getur komið sér vel að hafa smá verönd á húsbílnum,  þægilega eldunaraðstöðu og snúru til að hengja vinnugallann til þerris.

húsbíll-A1

Miklu skiptir að hafa gott þak yfir höfuðið til að verjast íslenskum vindum og regni.  Og nýta rýmið vel.  Þegar fram í sækir verður húsbíllinn stöðutákn.  Þannig er þróunin.  Hún verður ekki stöðvuð.

húsbíll-A3


mbl.is Býr til gettó á landsbyggðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veitingahússumsögn

svínarif-b

- Veitingastaður:  Grill 66Álfheimum
- Réttur:  Grilluð svínarif
- Verð:  1320 kr.
- Einkunn: **1/2 (af 5)
.
  Grill 66 er staðsett í nokkrum afgreiðslustöðum Olís.  Þetta er "ódýr" skyndibitastaður. 
  Matseðillinn er töluvert evrópskur.  Meðal annars er boðið upp á pizzur (Ítalía),  hamborgara (Þýskaland),  fisk & franskar (England),  plokkfisk (Ísland) og svo framvegis.  Franskar kartöflur (Belgía) fylgja flestum réttum. 
.
  Nöfnin á réttunum svipa til nafna á bandarískum borgum og ríkjum (Chicago,  Los Angeles,  Hollywood...).  Ég fatta ekki samhengið.  Margarita pizza (einungis ostur og sósa) er kölluð Tulsa.  Hvernig tengist þannig pizza Tulsa?  Hamborgari er kallaður Oklahoma.  Tulsa er í Oklahoma.  Þetta er ruglingslegt.  
.
  Eitt sumar dvaldi ég í Amarillo.  Ég rakst aldrei á lambasteik þar.  Fór ég þó mikinn á veitingastöðum og lék lausum hala í ófáu hlaðborðinu.  Amarillo-búar eru áberandi sólgnir í nautakjöt og ýmiskonar mexíkanska rétti.  Lambasteikin á Grilli 66 er kölluð Amarillo.  
.  
  Svínarifin á Grilli 66 kallast Kingman.  Þau eru framreidd í litlum ferköntuðum bitum.  Aðeins 1 - 2 bein eru í hverjum bita.  Það auðveldar að ná kjötinu af beinunum með hnífi án þess að káma putta að ráði eins og gerist þar sem svínarifjalengjur eru afgreiddar með 10 beinum. 
  Verra er að svínarifin á Grilli 66 eru ansi bragðdauf - þrátt fyrir ágæta grillsósu.  Vegna þess hvað rifin eru bragðdauf væri betra að hafa meira af grillsósunni.  Hún er samt ekkert skorin við nögl.
  Meðlæti er spriklandi ferskt jöklasalat og bökuð kartafla.  Ofan á jöklasalatinu er jógúrtsósa og ein stór en þunn tómatsneið.  Það væri meiri reisn yfir því að hafa tvær tómatsneiðar.  Þó þær væru minni og ennþá þynnri.  Það er fátæklegt að sjá eina tómatsneið á vænni hrúgu af jöklasalati.  Tómatsneiðin er eins og umkomulaus,  litla greyið.  Ég vorkenndi henni.
  Öllu meiri reisn er yfir því að fá bakaða kartöflu með svínakjötinu.  Henni fylgir smjör (eins og á að vera,  en vill á sumum veitingastöðum verða misbrestur á).  Aftur á móti vantar pipar á borðin.  Á borðum er salt,  tómatsósa, krydd fyrir franskar kartöflur og nóg af handþurrkum.  En ekki pipar.  Eins og það bragðbætir bakaða kartöflu vel og rækilega að strá yfir hana pipar.   
  Vandamálið er þó ekki stærra en svo að viðskiptavinir geta gripið með sér nokkur piparstauk að heiman til að strá úr yfir bökuðu kartöfluna.

Sérkennilega lagt í bílastæði

illa lagt í stæði A

  Það er ekki öllum gefið að leggja í bílastæði.  Sumum er algjörlega ómögulegt að leggja í stæði.  Aðrir geta lagt í hvaða stæði sem er.  Sama hversu lítið plássið er.

illa lagt í stæði C

Sumir þurfa ekki einu sinni bílastæði til að leggja bílnum snyrtilega við erfiðustu skilyrði.

illa lagt í stæði D

Heimakærum þykir notalegt að leggja bílnum sem næst svefnherberginu sínu.

illa lagt í stæði E

Til er fólk sem nennir ekki að ganga stysta spöl.  Þegar það langar niður að sjó þá ekur það eins nálægt sjónum og hægt er og leggur bílnum nánast á yfirborði vatnsins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.