Færsluflokkur: Ferðalög

Þvílík heppni!

ágúst fylkisson 

 Ágúst Fylkisson keppir við Gazman um það hver er frægasti þátttakandinn í atburðarrásinni frá því að vörubílstjórar hófu að mótmæla háum álögum ríkisins á eldsneyti.  Hvar sem vörubílstjórar safnast saman til aðgerða er Ágúst mættur og stillir sér upp sem nokkurskonar fyrirliða hópsins.

  Vörubílstjórar eru ekki sáttir við framgöngu Ágústar.  Þeir benda á að hann eigi ekki vörubíl og aki ekki einu sinni vörubíl.  Ennþá ósáttari eru vörubílstjórar við það þegar Ágúst mætti við Kirkjusand þegar þeir voru að sækja trukkana sína,  fór að rífa kjaft við lögreglumenn,  snöggreiddist upp úr þurru og kýldi lögreglumann í andlitið án nokkurrar ástæðu.

  Ágúst vísar til þess að hann hafi eitt sinn átt bilaðan vörubíl.  Jafnframt heldur hann því fram að hann sé ljúfur í lund og algjörlega laus við skapofsa.  

  Þvílík heppni fyrir vörubílstjóra og lögregluna.  Hvernig myndi ljúfmennið Ágúst haga sér ef hann væri ekki svona skapstilltur?    


Týndi sonurinn kominn heim

  Ég þakka fyrir allar hlýlegu óskirnar um góða ferð vestur til Boston.  Þær rættust.  Þegar ég á æskuárum yngri var,  eins og segir í skrítnum dægurlagatexta,  þá þurfti stundum að svara sérkennilegum spurningum í umsókn um vegabréfsáritun til Bandaríkja Norður-Ameríku.  Ein var hvort umsækjandi væri geðveikur eða félagi í kommúnistaflokki. 

  Núna þurfa Íslendingar ekki lengur vegabréfsáritun til Bandaríkjanna.  En þurfa samt að fylla út spurningalista á tveimur blöðum til að gleðja bandaríska embættismenn sem þykir fátt skemmtilegra en leika sér í skriffinnskubákni.  Ofangreind spurning hefur verið felld út en önnur ennþá áhugaverðari er komin í staðinn.  Þar er spurt hvort ferðalangur sé hryðjuverkamaður eða nasisti.

  Samviskusamur hryðjuverkamaður og eða nasisti hlýtur að merkja í já-reitinn.  Ég gerði það líka.  En til að lenda ekki í óþægindum útlistaði ég í skýringu að ég væri hvorki hryðjuverkamaður né nasisti en gæti vottað að þeir séu til.  Ég hafi séð í sjónvarpinu að þeir séu til í alvörunni.

  Til að skemmta mér betur í leik við skriffinnskubáknið svaraði ég öðrum spurningum álíka kjánalega.  Til viðbótar tók ég með mér til Bandaríkjanna sýl (= al,  lítinn sting sem svipar til skrúfjárns nema að oddurinn er hvass í stað þess að vera flatur). 

  Vegna þess að bannað er að taka með sér vökva tók ég með mér "roll-on" svitalyktareyði,  sem er,  jú,  bara vökvi.  Einnig tók ég með mér stóra öryggisnælu vegna þess að bannað er að ferðast með oddhvassa hluti.

  Sýlinn,  svitalyktareyðinn og næluna hafði ég í jakkavasa ásamt tveimur lyklakippum og pennum.  Eins og ég reiknaði með var ekki gerð nein athugsemd við það "ólöglega" dót sem ég hafði með mér þrátt fyrir að allt sem ég hafði meðferðis væri gegnumlýst. 

  Ég tók þetta dót allt með mér aftur til Íslands frá Bandaríkjunum.  Eiginlega bara til að fá staðfest fyrir sjálfum mér að allar þessar kjánalegu öryggisreglur og eftirlit með flugfarþegum er ekkert nema falskt öryggi. 

  En ekki vantaði samt að við komuna til Boston voru tekin af mér fingraför á báðum höndum og andlitsmynd.  Ég ruglaði að gamni á mér hárinu og gerði mig rangeygan til að vera sem bjánalegastur á myndinni.  Ég þurfti jafnframt að gera grein fyrir því hvað ég var með mikinn pening meðferðis.  Ég gerði það dálítið flókið með því að framvísa færeyskum peningum,  íslenskum,  evrum,  enskum pundum,  dönskum krónum og tafði dálítið afgreiðsluna með ósk um að þeir peningar væru reiknaðir út í dollurum.  Eftir jaml,  japl og fuður benti ég tollvörðum á að ég væri að auki með greiðslukort sem gerði dæmið dálítið flóknara vegna þess að ég gæti ekki áætlað hvað ég myndi láta strauja kortið oft.  Að lokum leysti ég tollverðina út með pennum sem ég hafði stolið frá Póstinum á Íslandi.  Ég reyndi líka að fá þá til að syngja með mér "Undir bláhimni" en vinsamlegur tollvörður tjáði mér að ég væri að tefja hann í vinnunni og hann væri ekki í skapi til að taka þátt í skrípalátum.  En bauð mig samt velkominn til Boston og vonaðist til að ég ætti góða dvöl.  Ég kyssti hann á kinnina og bauðst til að dansa við hann í valstakti á meðan ég myndi syngja "Undir bláhimni" og gaf honum smá tóndæmi.  En hann bað mig um að hlífa sér við fíflagangi og endurtók að ég væri velkominn til Boston.  Ég þakkaði fyrir það.     


Farinn

  Ég er í þann veg að fara í loftið og halda vestur til Ameríku.  Nei,  ekki til Grænlands í þetta skiptið heldur til Bandaríkja Norður-Ameríku.  Þar er margt spennandi að gerast þessa dagana sem full ástæða er til að fylgjast með í eigin persónu. Leit stóru flokkanna að frambærilegum forsetaframbjóðanda vegur þar hæst.  Einnig ætla ég að gera úttekt á sjónvarpsþættinum Boston Legal.  Ég sný aftur næsta þriðjudag.

  Ég hef ekki heyrt af því hvort tölva sé til í Bandaríkjunum.  En ef það er til tölva þar þá reikna ég með að of margir séu í biðröð að henni til að ég nenni að taka þar stöðu.  Þannig að ég hrelli tæplega neinn með bloggi næstu daga.


Fjáreyjar kalla

  Fjáreyjarnar kalla

og ég ætla að gegna þeim.

  Ég veit ekki hvort eða hvernig

eða hvenær ég kem heim.

  Heitið Færeyjar þýðir fjáreyjar.  Það er nefnilega allt morandi í kindum á eyjunum.  Þar er ekkert flatlendi.  Eintómir háir hólar og hæðir.  Fyrir bragðið hafa þróast í eyjunum tveir stofnar af kindum.  Á öðrum stofninum eru vinstri fæturnir styttri en á hinum eru hægri fæturnir styttri. 

  Þetta er til að kindurnar geti fyrirhafnarlítið rölt um snarbrattar hlíðar og úðað í sig safaríku grasi án þess að rúlla niður brekkuna og hafna ofan í sjó.

  Ferð til Fjáreyja er ferð til fjár í bókstaflegri merkingu.

  Mér er boðið til eyjanna.  Þar fer ég á hljómleika hjá hljómsveit sem heitir Orca.  Hún er gerð út af nafna mínum sem var bassaleikari í trip-hopp hljómsveit EivararClickhaze

  Ýmislegt fleira ætla ég að gera mér til gamans og gagns í leiðinni.  Verra er að danska krónan er komin yfir 14 íslenskar krónur.  Undanfarinn áratug og meir hefur danska krónan verið að dansa sitthvoru megin við tíkallinn.  Hvað er í gangi?  Þetta þýðir að kranabjórinn í Færeyjum kostar núna 560 íslenskar krónur í stað 400.  Sem betur fer þarf ég ekki að kaupa neitt annað í eyjunum að sinni.


Heppileg heppni

  Í Fréttablaðinu í dag er ítarleg frásögn af hrakningum manns á sextugsaldri sem skreið illa slasaður í klukkutíma eftir hjálp í kjölfar þess að hafa velt vélsleða við Landmannahelli í fyrrakvöld.   Maðurinn lenti undir sleðanum og fótbrotnaði illa á að minnsta kosti tveimur stöðum og eitt beinbrotið opið.  Þegar Flugbjörgunarsveitin á Hellu kom manninum til aðstoðar var hann örmagna.  Hann kom ekki upp orði heldur klóraði í ferðafélaga sína til að vekja þá.

  Slysið varð um miðnætti.  Lögreglu barst tilkynning um klukkan hálf tvö.  Þyrla Landhelgisgæslunnar fór í loftið tæpum klukkutíma síðar.  Hún gat hinsvegar ekki lent við Landmannahelli vegna óveðurs og vonds skyggnis.  Snjóbíll björgunarsveitarinnar var því keyrður að Búrfelli,  þar sem þyrlan gat lent og flaug með manninn á Borgarspítalann í Reykjavík. 

  Maðurinn gekkst undir aðgerð í gær en var það þrekaður að hann treysti sér ekki til að ræða við blaðamann Fréttablaðsins. 

  Í undirfyrirsögn Fréttablaðsins segir að heppnin hafi verið með manninum.  Vonandi fer ég ekki langt yfir strikið í ruddalegri kaldhæðni þegar ég þakka fyrir að vera ekki eins heppinn og þessi maður.  Ég óska honum alls hins besta og megi hann ná heilsu sem fyrst.


Nú er ég svo aldeilis hissa

  22.  janúar 2007 kærði Böðvar bílstjóri líkamsárás sem hann varð fyrir í starfi sínu er hann var staddur á biðstöð við Fjörð. Hann mundi eftir því að skömmu áður þegar hann var að beygja út á götuna hafi bifreið komið á töluverðri ferð miðað við aðstæður og þeytt bílflautuna en strætisvagninn var kominn út á götuna og hélt áfram ferð sinni. Þegar hann síðan stöðvar á biðstöðinni við Fjörð var barið fast á hurðina næst honum og var þar komin Olga Soffía  Sergeijsdóttir. Honum leist ekki á að hleypa henni inn í vagninn vegna þess hversu æst hún var. Hann opnaði þó að lokum hurðina.  Þá jós Olga Soffía yfir hann svívirðingum og lamdi í mælaborðið. Hann bað konunni að róa sig en hún hlýddi ekki.

  Böðvar vísaði henni þá út úr vagninum en þegar hann stóð upp úr sæti sínu kýldi Olga Soffía hann hnefahögg á vinstri kinn við nef. Hann varðist næsta höggi með því að bera fyrir sig vinstri framhandlegg.  Síðan greip hann um hægri hendi konunnar sem þá reyndi að kýla hann með vinstri hendi sem hann náði einnig taki á. Þannig hélt hann báðum höndum hennar,  setti hana út úr vagninum og sleppti eftir smástund.  Hún hljóp þá burtu eins hratt og fætur toguðu. Í framhaldinu fór Böðvar á slysadeild LSH í Fossvogi þar sem hann fór í læknisskoðun og beið ótrúlega lengi eftir röntgenmyndatöku.

  Olga Soffía heldur því fram við lögreglu að Böðvar hafi espað upp í henni reiði með þeim afleiðingum að hún kýldi hann einu höggi á kinnina. Hafi Böðvar þá tekið utan um hana og lyft henni út úr vagninum. Hún kveðst hafa reynt að losa sig án árangurs og að lokum sagt við Böðvar að hún ætlaði að kvarta við yfirmann hans. Böðvar hafi þá sleppt henni. Fyrir dómi sagði Olga Soffía að til átaka milli hennar og Böðvars hafi ekki komið fyrr en hann var búinn að láta hana út úr vagninum og að hann hafi byrjað áflogin.

  Vitnið Friðrik Stefánsson, sem var annar tveggja farþega sem voru inni í vagninum í umrætt sinn, kveðst hafa séð hvar ung kona kom inn í vagninn og fór að rífast við bílstjórann og síðan slegið hann hnefahöggi í andlitið. Bílstjórinn hafi þá tekið utanum konuna og borið hana út úr strætisvagninum og sett hana niður fyrir utan vagninn. Þegar bílstjórinn kom aftur inn í vagninn sýndi hann vitninu hvar höggið lenti í andliti hans. Kveðst Friðrik ekki hafa séð bílstjórann ýta með neinum hætti á konuna eða hrinda henni áður en hún sló hann.

  Verjandi Olgu Soffíu heldur því fram fyrir dóminum að hún sé svo rosalega grönn og afar smávaxin að hún hafi ekki líkamsburði til að slá stóran og sterkan. Ekki fellst dómurinn á að slíkar vangaveltur hafi við nein rök að styðjast enda liggur fyrir áverkavottorð sem lýsir afleiðingum höggsins sem eymslum á vinstri kinn rétt við nefið og yfir kinnbeinsbogasvæði, svolítilli bólgu á kinninni og  tannholdi, mari á kinn og kinnbeini vinstra megin. Þá hefur verjandi byggt á því að Olga Soffía hafi slegið til Böðvars í neyðarvörn og því eigi atlaga hennar að vera henni refsilaus. Gegn andmælum Böðvars og framburði vitnisins Friðriks telur dómari fráleitt að halda því fram að Böðvar hafi verið árásaraðili sem Olga Soffía hafi þurft vinna gegn með neyðarvörn.

  Böðvar lýsti því fyrir dóminum að hann hafi haft eymsli um alllangt skeið þar sem höggið lenti en þau séu nú horfin og að hann telji litlar líkur á að hann bíði varanlegan skaða af högginu sem ákærða veitti honum.

  Óumdeilt er að Olga Soffía missti stjórn á skapsmunum sínum sem varð til þess að hún vann verknað þann sem hún er ákærð fyrir. Þykir dómara því rétt að dæma ákærðu 30.000 þúsund króna sekt og vararefsingu sektar 4 daga fangelsi.


Klaufskur smyglari

  Króatískir tollverðir gripu mann nokkurn glóðvolgan er hann reyndi að smygla inn í landið 175 kameljónum.  Maðurinn brást hinn versti við og ásakaði þann sem seldi honum kameljónin um óheiðarleika.  Sá hafði fullyrt að kameljónin skipti um lit til samræmis við umhverfið.  Þess vegna væri óhætt að fylla tösku af þeim og þegar tollverðir myndu kíkja ofan í töskuna sæju þeir ekki kameljónin þar sem þau væru orðin samlit töskunni. 

Einn góður

  Þegar ég var að fljúga til Skotlands var ferðafélagi með krossgátublað sem ég fékk að glugga í.  þar rakst ég á brandara sem ástæða er til að deila með fleirum.

  Tvær ljóskur voru staddar á Hlemmi.  Strætisvagn rennir þar að.  Önnur ljóskan spyr:
"Get ég komist í Breiðholtið með þessum vagni?"

  "Nei,"  svarar bílstjórinn.  Hin ljóskan spyr þá:

  "En ég?  Má ég fara í Breiðholtið með honum?"


Til hvers?

  Í Flugstöð Leifs Eiríkssonari morgun glumdi ítrekað eftirfarandi tilkynning:  "Farþegar eru beðnir um að taka allan farangur með sér.  Það er bannað að skilja farangur eftir i flugstöðvarbyggingunni."

  Er þetta virkilegt vandamál?  Er farangur i reiðuleysi út um alla flugstöðvarbyggingu vegna þess að fólk heldur að það megi skilja hann eftir?

  Hvað með hryðjuverkamennina?  Þeir eru kannski búnir að eyða öllum sínum frítíma og peningum i að búa til sprengju.  Svo mæta þeir i flugstöðina.  fela sprengjuna í farangri.  Fara með hann inn á klósett.  Stilla þar tímarofa sprengjunnar og ætla að stinga af.  Þá heyra þeir að það megi ekki skilja eftir farangur.  Verða voða svekktir og hætta við allt saman.  Taka með sér farangurinn og þurfa að finna upp a nýju ráði til að sprengja allt í loft upp. 


8 ára strákur pissaði á rútugólf

  Það var hárrétt ákvörðun hjá 8 ára strák að pissa á rútugólfið eftir að rútubílstjórinn hafði í þrígang neitað honum um pissustopp.  Ég hvet alla rútufarþega sem ferðast á milli Reykjavíkur og Selfoss að sýna stráknum samstöðu með því að pissa líka á rútugólfið hjá þessum ósvífna rútubílstjóra.

  Þessi frétt rifjar upp atburð sem átti sér stað á Austurland fyrir aldarfjórðungi eða svo.  Þar kunna rútubílstjórar mannasiði.  Í sætaferð eftir dansleik á Norðfirði þurfti ungur ofurölvi maður að pissa þegar rútan var uppi á miðju fjalli.  Úti var svellglæra.  Ungi maðurinn er rétt að byrja að pissa þegar hann rennur ofurrólega af stað á spariskónum.  Hann tók ekki eftir neinu.  En áfram rann hann hægt og rólega niður allt fjallið.  Að mig minnir 3 kílómetra.  Og tók aldrei eftir því að hann rann.  Þegar hann rann yfir misjöfnur þá skrifaði hann það á ölvunarástandið.  Loks er hann stoppaði hafði hann lokið við að pissa og renna upp buxnaklaufinni.  Leit þá í kringum sig og skildi ekkert í hvað orðið hafði af rútunni. 

  Annar atburður í þessu samhengi.  Á unglingsárum höfðum við Bauni,  skólabróðir frá Laugarvatni,  og Hrólfur,  kunningi úr Keflavík,  lent í partýi.  Við rumskuðum þegar langt var liðið á dag og Hrólfur var ennþá blindfullur.  Hrólfur átti engan pening en Bauni bauðst til að lána honum fyrir rútufari til Keflavíkur.  Við röltum niður á Umferðarmiðstöð.  Hrólf langaði í meira vín en það var allt búið.  Við Bauni buðumst til að kaupa handa honum pilsner.  Töldum honum trú um að ef hann myndi þamba 6 pilsnera á einu bretti þá myndi ekki renna af honum á leiðinni til Keflavíkur.  Sennilega var það tilfellið. 

  Hrólfur varð afskaplega þakklátur og fylgdi fyrirmælum.  Á meðan hann þambaði pilsnerinn laumaðist Bauni til rútubílstjórans.  Kynnti sig sem gæslumann af Kleppi.  Sagðist vera að fylgja vistmanni í rútuna.  Móðir vistmannsins myndi taka á móti honum í Keflavík.  Mjög áríðandi væri að hleypa vistmanninum ekki út úr rútunni því að þá tæki hann til fótanna út í buskann.  Vistmaðurinn beitti jafnan því bragði að þykjast þurfa út að pissa.  Besta ráðið væri að segja þá róandi við hann:  "Við erum alveg að verða komnir,  góði minn."

  Bauni sótti síðan Hrólf og fór með til bílstjórans.  Bílstjórinn sagði við Hrólf:  "Það er best að þú sitjir hérna fremst hjá mér."  Hann ætlaði greinilega að standa sína vakt.

  Við Bauni fengum aldrei að vita hvernig ferðin gekk.  Þrátt fyrir að spyrja Hrólf ítrekað næstu ár fengum við ekki annað svar en að okkur kæmi það ekki við.  Sem gefur til kynna að eitthvað hafi borið til tíðinda þegar 2 lítrar af vatnslosandi pilsner fóru að streyma í þvagblöðruna.  

  P.s. Bauni er af mörgum þekktur sem dr. Guðmundur Rúnar Ásmundsson, ofurminniskennari.  Hann hefur verið búsettur í Bandaríkjunum í kannski 15 ár en fór eins og stormsveipur um landið með kennslu í ofurminnistækni fyrir einhverjum árum.  

         


mbl.is Pissaði á rútugólfið þegar bílstjórinn neitaði að stoppa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.