Færsluflokkur: Umhverfismál
22.6.2013 | 21:29
Byltingarkennd aðferð við kartöflurækt
Um þessar mundir eru margir Íslendingar að setja niður kartöflur; gróðursetja þær í von um væna uppskeru síðsumars. Gallinn er sá að vinnubrögð eru ekki eins og best er á kosið. Það er einkennilegt að ekki hafi borist til Íslands almennileg vinnubrögð við kartöflurækt. Þó þarf ekki að sækja þá þekkingu lengra en til Færeyja. Þar fær maður bestu kartöflur í heimi.
Í Færeyjum er jarðvegur afskaplega grunnur. Þar er varla svigrúm til að grafa þokkalega holu sem kartöflunni er troðið niður í. Þess í stað er móðurkartöflum raðað ofan á jörðina með stuttu millibili. Síðan eru þunnar torfþökur lagðar ofan á. Grasið snýr niður. Moldarhliðin snýr upp.
Snilldin við þetta er að nýju kartöflurnar spretta upp úr torfþökunum. Það þarf ekkert að grafa þær upp. Auðveldast er að raka þeim bara saman og setja í poka. Það þarf ekki einu sinni að þvo af þeim mold eða neitt. Þær eru tilbúnar beint í pottinn.
Til gamans má geta að í Færeyjum heita kartöflur epli. Á veitingastað í Þórshöfn var um tíma boðið upp á rétt sem var bökuð kartafla og túnfiskssalat. Hann hét á matseðlinum "Epli í túni". Mér varð það á að upplýsa starfsfólk um það hvernig nafn réttarins hljómaði í íslensk eyru. Mönnum var brugðið og rétturinn tekinn af matseðlinum. Færeyingar vilja ekki að matseðlar virki broslegir þegar Íslendingar renna í gegnum þá. Það er metnaður í gangi.
Kartöflurækt heitir á færeysku að "velta epli". Fyrstu kynni Íslendinga af eplum voru með þeim hætti að hingað komu kartöflur frá Færeyjum. Íslendingar héldu að þær væru epli og snæddu kartöflurnar hráar. Það þótti heilmikið sport þó að engum þættu "eplin" bragðgóð. Síðar bárust til Íslands alvöru epli. Þau voru auglýst sem "epli er bragðast eins og perur." Þau epli þóttu bragðbetri.
Fróðleiksmoli: Höfundur sönglagsins um kartöflugarðana heima, Leadbelly, hafði þann vonda kæk að drepa menn. Hann lenti í fangelsi eins og fleiri sem hafa sungið þetta lag.
Umhverfismál | Breytt 23.6.2013 kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2013 | 21:21
Þekkir þú skepnuna?
Fólk ofmetur iðulega þekkingu sína á dýrum. Fólk heldur að það þekki dýr sem það umgengst oft. Jafnvel daglega. Það heldur líka að það þekki dýr sem ber sjaldnar fyrir augu. Látum reyna á þekkinguna. Hér eru myndir af nokkrum dýrum. Langt þar fyrir neðan eru nöfnin á þeim.
Mynd A
Mynd B
Mynd C
Mynd D
Mynd E
Mynd F
Mynd G
Mynd H
Mynd I
-
-
-
-
-
-
-
-
-
Mynd A: Þetta er augabrúnamaur. Hann lifir í augabrúnum á okkur og víðar á skrokknum. En aðallega í augabrúnum. Þar grefur hann sig niður að hluta og skemmtir sér vel. Sú er ástæðan fyrir því að okkur klæjar stundum örlítið í augabrún. Þá er maurinn að krafsa. Af sömu ástæðu fáum við stundum eins og örlitla flösu í augabrúnir. Við varla sjáum hana reyndar. Við sjáum ekki maurinn eiginlega heldur. Nema vera með öflugt stækkunargler fyrir framan spegil. Góðu fréttirnar eru að maurinn styrkir ofnæmiskerfi líkamans. Hann heldur því sívakandi.
Mynd B: Höfuðlús. Þarna er hún að fikra sig áfram á mannshári, kvikindið atarna. Lengi vel þótti mikil prýði af höfuðlúsinni. Þeir lúsugustu voru eftirsóttir. Hvort heldur sem var til vinnu eða undaneldis.
Mynd C: Húsaflugulirfa.
Mynd D: Vespa
Mynd E: Fiðrildalirfa. Hún er krútt.
Mynd F: Skógarmítill. Hann er alveg að springa. Hann er svo uppbelgdur af blóði. Þetta er stórhættuleg skepna. Leitið upplýsinga um skógarmítil. Gúglið kvikindið.
Mynd G: Sæormur. Hann er örsmár.
Mynd H: Vatnabjörn. Hann er líka örsmár. Þú verður ekkert var við hann þó að drekkir hann.
Mynd I: Britney Spears
Umhverfismál | Breytt 16.6.2013 kl. 11:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.6.2013 | 22:37
Það er gaman að sjá fjörulabba
Víða um land, einkum á Vestfjörðum, er skemmtileg skepna á vappi. Hún heitir fjörulabbi. Fjörulabbi heldur sig að mestu í sjónum. Þegar enginn sér til laumast fjörulabbinn í land. Mest ber á því um fengitíma. Þá má sjá fjörulabba hér og þar í fjöru og jafnvel upp í hlíðum. Fjörulabba er alveg sama þó að hann sjáist. Hinsvegar gætir hann þess vandlega að enginn sjái hann koma upp úr sjónum né fara í sjóinn. Þess vegna hefur enginn séð það.
Fjörulabbi er svo gott sem alveg eins og kind að stærð og lögun. Reyndar hafa sjónarvottar komið auga á fjörulabba sem er alveg eins og hundur að stærð og lögun.
Fjörulabbi er ekki feiminn við ljósmyndavél. Þvert á móti sækir hann í að "pósa" fyrir framan myndavél. Besta aðferð til að komast í návígi við fjörulabba er að glenna framan í hann myndavél. Þess eru dæmi að foreldri ætli að taka mynd af börnum sínum á Vestfjörðum þegar fjörulabbi kemur aðvífandi, stuggar við börnunum og stillir sér upp fyrir framan ljósmyndavélina. Frekjan er svo gengdarlaus.
Umhverfismál | Breytt 6.6.2013 kl. 00:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
29.5.2013 | 05:20
Litríkir og flottir bæir og þorp
Íslensk þorp, íslenskir kaupstaðir, íslenskir sveitabæir og bara flest hús á Íslandi eru litlaus og ljót. Hvít, grá eða máluð öðrum dauflegum litum. Siglufjörður er undantekning. Myndirnar hér fyrir ofan eru þaðan. Gott ef það var ekki myndlista- og kvikmyndagerðarmaðurinn Jón Steinar Ragnarsson sem málaði bæinn rauðan og gulan og bláan...
Grænlendingar kunna vel að meta skæra liti, hvort sem er á fatnaði eða húsum. Fyrir bragðið eru grænlensk þorp litrík og flott. Hér eru nokkrar myndir:
Í sumum löndum aðeins lengra í burtu má rekast á skærlitaða bæjarhluta. Til að mynda í Gamla Stan í Stokkhólmi í Svíþjóð:
Einnig í Wroclaw í Póllandi:
Í Cinque á Ítalíu lífgar litagleðin upp á annars frekar ljótar byggingar:
Margir Íslendingar hafa heillast af ýmsu á Pattaya í Tælandi.
Til samanburðar höfum við grámyglulega Reykjavík (og næstum hvaða bæ eða þorp á Íslandi):
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.5.2013 | 23:19
Hvar er húfan mín?
Einna lengst er gengið í Finnlandi hvað þetta varðar. Finnar þurfa reyndar ekki að skýla sér fyrir sól eða vindum. Þar er svalandi logn. Fyrir bragðið geta Finnar leyft sér höfuðskraut án tillits til veðurs. Þeir geta gripið eitthvað fallegt úr náttúrunni og hrúgað því á höfuðið. Þetta getur verið rabbabari, fífur, söl, trjágreinar, gras eða annað sem fegrar viðkomandi og gefur tignarlegt yfirbragð. Það þarf ekki að sauma neitt eða kosta öðru til.
Karlmenn skreyta iðulega herðarnar í stíl. Þeim þykir vera reisn yfir því.
Svo einkennilegt sem það er þá er það einungis elsta kynslóðin sem keppist við að vera með höfuðskraut. Ungir Finnar láta ekki sjá sig með svoleiðis. Þeim þykir þetta asnalegt.
Ungir Finnar safna frekar hári og greiða það fram í langan topp. Þetta eru svölustu rokkstjörnurnar í Finnlandi:
Umhverfismál | Breytt 3.5.2013 kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.1.2013 | 02:37
Einfalt og ódýrt að laga gallað malbik
Vegagerðin og allskonar lið er í rosalegum vandræðum með ýmsa dularfulla hluti sem hrjá stundum vegi víða um land. Það veit enginn hvernig þetta gerist. Ennþá síður vita menn hvað skal til ráða. Þetta er mjög vandræðalegt ástand. Það lýsir sér þannig að það er eins og vegunum blæði eða þeir gráti. Eitthvað losnar af vegunum og eltir bíla langar leiðir. Jafnvel þó aðeins sé skroppið stutta leið. Í verstu tilfellum er eins og smáar og snyrtilegar rifur myndist í malbikinu.
Það er til ráð. Þökk sé íslenska flugdólgnum að ráðið fannst. Vegagerðir erlendis eru þegar farnar að nota grípa til þess með góðum árangri. Það eina sem þarf að gera er að líma veginn saman með pökkunarlímbandi.
Dularfullar blæðingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 02:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.8.2012 | 13:29
Spennandi og ævintýraleg öðruvísi hús
Í mörgum hverfum borga og bæja eru flest eða öll húsin alveg eins. Það er ljótt - sama hversu flott hvert einstakt hús er út af fyrir sig. Þar fyrir utan er það ruglingslegt. Það er erfitt að þekkja húsin í sundur og rata á rétt hús. Þetta hefur oft skapað vandræði. Einkum þegar mjög ölvað fólk er á rölti að nóttu til.
Á Grænlandi og víðar er til siðs að greina hús að með skærlitaðri málningu. Ef líkt hús eins nágranna er skærrautt og annars nágranna skærblátt þá málar þú þitt hús skærgrænt eða fjólublátt eða appaelsínugult.
Skemmtilegast fyrir alla er samt að hús hvers og eins sé frábrugðið öllum öðrum húsum. Það gleður augað.
Takið eftir því að á milli húss og meginlands hangir kláfur í bandi. Þannig komast gestir og heimilisfólk heim og að heiman.
Blokk þarf ekki að vera einn ljótur ferkantaður kassi. Það er enn ríkari ástæða til að hleypa sköpunargleðinni á skeið þegar blokk er hönnuð ein einbýlishús.
Ef vel er að gáð sést glitta í stiga undir húsinu. Hann er einungis hægt að nota í stilltu veðri. Hann sveiflast of mikið í hvassviðri. En útsýnið er stórfenglegt.
Ef svo óheppilega vill til að þú býrð í ófrumlegu húsi þá er upplagt að skreyta það með því sem hendi er næst. Til að mynda með bíl. Þar með eignast þú líka húsbíl.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.7.2012 | 19:43
Bjargaðu lífi þínu með því að vita þetta
Viðbragðsteymi vegna landgöngu hvítabjarnar í Húnavatnssýslu var kallað saman í morgun. Í teyminu eru sérfræðingar og fulltrúar Landhelgisgæslunnar, Ríkislögreglustjóraembættisins, Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar. Í samráði við lögregluna á Blönduósi og sýslumannsembættið í Húnavatnssýslu lét viðbragðsteymið hanna og teikna upp spjald með nauðsynlegustu upplýsingum sem geta bjargað lífi þess sem kemur auga á ísbjörn. Hjálparsveitin hefur dreift þessu spjaldi á bæi í sýslunni í allan dag, ásamt því sem spjaldinu hefur verið dreift á Fésbók.
Ísbjörninn hefur ekki fundist þrátt fyrir víðtæka leit. Hins vegar fundust tveir Ítalir. Þeir eru taldir vera hættulausir.
Á meðan ísbjörninn er týndur er áríðandi að þú skoðir þetta spjald gaumgæfilega, leggir það á minnið og sýnir síðan öðrum spjaldið.
Búið að finna Ítalina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
13.6.2012 | 22:09
Munum eftir trjánum
Erlendis er til siðs, þegar kólnar í veðri, að þá eru tré klædd í þar til gerðan fatnað. Þetta er góður siður. Tré kunna vel að meta hann. Nú er hlýtt í veðri hérlendis. En næsta víst er að veður á eftir að kólna þegar líður á veturinn. Því er upplagt að nota núna tímann og góða veðrið til að prjóna flíkur á tré áður en vetrarhörkur skella á.
Tré eru hrifnust af litríkum og röndóttum fötum.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
21.4.2012 | 22:09
Flott og spennandi sýning
Í Sverrissal Hafnarborgar í Hafnarfirði stendur yfir sýningin Skjaldarmerkið hennar Skjöldu. Hún er hluti af listahátíðinni List án landamæra. Höfundur verkanna er fjöllistamaðurinn Atli Viðar Engilbertsson frá Akureyri. Auk þess að vera í myndlist hefur hann látið að sér kveða í tónlist, leiklist, á ritvelli og víðar.
Atli Viðar hefur samið fjölda leikverka. Allt frá einþáttungum til viðamikilla söngleikja. Einnig fór hann með hlutverk í sjónvarpsþáttunum Hæ Gosi sem sýndir voru á Skjá 1 og eru núna til sýningar í færeyska sjónvarpinu.
Atli Viðar var í rokkhljómsveitinni Fnyk frænda. Eftir hana liggur tónlist (2 lög) í kvikmyndinni Ingaló (með Sólveigu Arnarsdóttur í aðalhlutverki). Að auki hefur Atli Viðar sent frá sér fjölda laga og ljóða á sólósnældum.
Í Morgunblaðinu hafa birst ótal greinar eftir Atla Viðar. Margar þeirra fjalla um geðræn veikindi. Þá eru ótaldar smásögur, internetverk, ljóðakver og ýmislegt fleira sem skreytir ferilsskrá Atla Viðars.
Sýningin í Hafnarborg er fjölbreytt og flott. Mörg verkanna eru unnin úr og á bylgjupappa. Það gefur þeim skemmtilegt yfirbragð. Laðar fram tilfinningu fyrir léttleika og nýtni: Að grípa til þess sem hendi er næst. Önnur hráefni undirstrika þetta. Til að mynda er eitt Íslandskort (af mörgum) þakið haframjöli. Ofan á það eru límdar nokkrar rúsínur. Band- og snærisspottar skreyta önnur verk. Eitt er unnið úr gallabuxum. Þetta eru skúlptúrar í bland við lágmyndir, málverk, litríka heklaða skó og sitthvað fleira.
Meðal skemmtilegra verka eru "styttur" af fjölskyldu unnar úr ómáluðum bylgjupappa. Virkilega flott. Einfalt en nostursamlega og vel gert.
Atli Viðar hefur næmt auga fyrir formum og litum. Hann er hugmyndaríkur og djarfur en laus við "stæla". Hann rembist ekki við að vera frumlegur til að vera frumlegur heldur er innblásinn af sköpunargleði og vinnur úr henni af yfirvegun og einlægni fyrir viðfangsefninu.
Ég mæli með sýningu Atla Viðars í Hafnarborg. Hún stendur til 29. apríl.
Kíkið á þessa síðu:
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)