Byltingarkennd aðferð við kartöflurækt

 

  Um þessar mundir eru margir Íslendingar að setja niður kartöflur;  gróðursetja þær í von um væna uppskeru síðsumars.  Gallinn er sá að vinnubrögð eru ekki eins og best er á kosið.  Það er einkennilegt að ekki hafi borist til Íslands almennileg vinnubrögð við kartöflurækt.  Þó þarf ekki að sækja þá þekkingu lengra en til Færeyja.  Þar fær maður bestu kartöflur í heimi.

  Í Færeyjum er jarðvegur afskaplega grunnur.  Þar er varla svigrúm til að grafa þokkalega holu sem kartöflunni er troðið niður í.  Þess í stað er móðurkartöflum raðað ofan á jörðina með stuttu millibili.  Síðan eru þunnar torfþökur lagðar ofan á.  Grasið snýr niður.  Moldarhliðin snýr upp.  

  Snilldin við þetta er að nýju kartöflurnar spretta upp úr torfþökunum.   Það þarf ekkert að grafa þær upp.  Auðveldast er að raka þeim bara saman og setja í poka.  Það þarf ekki einu sinni að þvo af þeim mold eða neitt.  Þær eru tilbúnar beint í pottinn.

  Til gamans má geta að í Færeyjum heita kartöflur epli.  Á veitingastað í Þórshöfn var um tíma boðið upp á rétt sem var bökuð kartafla og túnfiskssalat.  Hann hét á matseðlinum "Epli í túni".  Mér varð það á að upplýsa starfsfólk um það hvernig nafn réttarins hljómaði í íslensk eyru.  Mönnum var brugðið og rétturinn tekinn af matseðlinum.  Færeyingar vilja ekki að matseðlar virki broslegir þegar Íslendingar renna í gegnum þá.  Það er metnaður í gangi.

  Kartöflurækt heitir á færeysku að "velta epli".  Fyrstu kynni Íslendinga af eplum voru með þeim hætti að hingað komu kartöflur frá Færeyjum.  Íslendingar héldu að þær væru epli og snæddu kartöflurnar hráar.  Það þótti heilmikið sport þó að engum þættu "eplin" bragðgóð.  Síðar bárust til Íslands alvöru epli.  Þau voru auglýst sem "epli er bragðast eins og perur."  Þau epli þóttu bragðbetri. 

kartöflur í færeyjum

  Fróðleiksmoli:  Höfundur sönglagsins um kartöflugarðana heima,  Leadbelly,  hafði þann vonda kæk að drepa menn.  Hann lenti í fangelsi eins og fleiri sem hafa sungið þetta lag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband