Færsluflokkur: Sjónvarp

Óskalag þjóðarinnar

  Þjóðin hefur talað.  Hún hefur valið óskalagið sitt.  Niðurstaðan kom ekki á óvart.  Þvert á móti.  Hún blasti við.  Allt benti ótvírætt í þá átt að "Þannig týnist tíminn" eftir Bjartmar Guðlaugsson væri óskalag þjóðarinnar.  Að vísu er óvenjulegt að nýtt lag skáki öllum lögum sem notið hafa ástsældar þjóðarinnar í áratugi og margar kynslóðir eiga hlýjar minningar um. En þetta er ekki lögmál.  Nýtt lag getur búið yfir aðdráttarafli sem trompar eldri og rótgrónari lög.  Það gerir "Þannig týnist tíminn".  Það höfðar jafn sterkt til allra aldurshópa og er tímalaust í stíl.          

 Það var gott uppátæki hjá Sjónvarpinu að hefja leit að óskalagi þjóðarinnar.  Með því var kastljósi beint að sögu íslenskra dægurlaga.  Umsjónarmenn leitarinnar,  píanóleikarinn Jón "Góði" og Ragnhildur Steinunn, stikluðu á stóru í sögunni og komu að mörgum skemmtilegum fróðleiksmolanum.  Allt á léttu nótunum.  Enda mega svona þættir ekki vera annað en lauflétt skemmtun.  

 Það var vel til fundið að taka hvern áratug fyrir í sitthverjum þættinum.  Þannig var fundið óskalag hvers áratugar fyrir sig.  Í lokaþættinum var hið endanlega óskalag valið úr sigurlögum hvers áratugar.  

  Vegna sérvisku minnar og músíksmekks - sem liggur meira í pönki og hörðu rokki en léttpoppi - þá lá ég ekki yfir þáttunum.  En tékkaði á þeim á vod-inu.  Þannig gat ég hraðspólað yfir lögin sem höfðuðu ekki til mín.  Samt var alveg gaman að "hlera" öll lögin.

  Á Fésbókinni sá ég að sumir voru ósáttir við að upprunaútsetningum laga var ekki fylgt út í hörgul.  Þar er ég á öðru máli.  Það var kostur að fá örlítið ferskan flöt á lögin.  Þannig reyndi meira á styrkleika laglínunnar. Líka á styrkleika söngvaranna.  Ekki skal vanmeta að Páll Rósinkranz túlkaði sterkt lag,  vinningslagið, með glæsibrag.   

  Gagnrýnisraddir tapsárra með ofmat á sínum lögum voru fyrirsjáanlegar.  Á síðari áratugum koma fram þúsundir nýrra laga á hverjum áratug.  Á fyrri áratugum eru það hundruð.  Auðvitað er grábölvað að eiga ekki eitt af 5 eða 10 af topplögum tiltekinna áratuga.  Þá er gott að hugga sig við þá ranghugmynd að fyrir klíkuskap hafi vinalög verið valin á kostnað sinna úrvals laga.  Þar fyrir utan er engin ástæða til að taka leitinni að óskalagi þjóðarinnar sem einhverju öðru en skemmtilegum samkvæmisleik.    

 Það þarf ekki að fara mörgum orðum um óskalag þjóðarinnar,  "Þannig týnist tíminn".  Úrslitin segja allt sem segja þarf.  Hinsvegar má segja um höfundinn,  Bjartmar,  að hann hefur ekki aðeins í óskalaginu heldur fjölda mörgum öðrum söngvum sannað einstakan hæfileika til að eiga samtal við þjóðarsálina.  Laglínurnar eru afar grípandi, söngrænar,  einfaldar og fallegar þar sem það á við.  Eða hressilegar þegar sá gállinn er á honum.  Textarnir hitta beint í mark.  Stundum kaldhæðnir.  Stundum ádeilukenndir. Oft broslegir. "Súrmjólk í hádeginu" laðar fram samúð með leikskólabarni.  "Fimmtán ára á föstu" spyrðir rómantík unglingabókmennta saman við heimilisofbeldi og basl. Allir þekkja týpuna Sumarliða (Sumarliði er fullur).  Margir þekkja af eigin raun "Vottorð í leikfimi".  Þannig má áfram telja. "Týnda kynslóðin" (Manna beyglar alltaf munninn...), "Ég er ekki alki" (fyrir 5 aura)...  

  Til hamingju með viðurkenninguna,  kæri vin.  Það er ekki vont hlutskipti að vera höfundur óskalags þjóðarinnar.  

 


mbl.is Fékk sigurfregnirnar á heimaslóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prestur hengdi álf

  Álfar eru ofsóttir.  Það andar köldu til þeirra úr ýmsum áttum.  Til að mynda er iðulega níðst á þeim í krossgátum Morgunblaðsins.  Þar er orðið álfur notað sem samheiti við bjána og kjána.  Þetta er ósvífni í garð álfa.  Og ekki síður við þá Íslendinga sem heitið hafa og heita Álfur. Til að mynda Frikka Pönks,  söngvara Sjálfsfróunar,  Kumls og fleiri hljómsveita.  Hann heitir samkvæmt þjóðskrá Álfur.   

  Á Jótlandi er prestur,  Jón Knúdsen,  sem hvetur til þess að allir álfar verði reknir frá Danmörku.  Sjálfur náði hann fyrir nokkrum árum að handsama álf og hengdi hann með það sama.  Álfinum til háðungar og öðrum álfum til viðvörunar lét Jón álfinn dingla yfir kirkjudyrum.  Um háls álfsins hengdi hann yfirlýsingu:  "Við fordæmum djöfulinn og allar hans gjörðir og öll hans vandræði".    

hengdur álfur a

  Jón segir gnóma vera versta allra álfa.  Gnómarnir séu illir andar frá djöflinum.  Það eru gnómarnir sem standa fyrir því að börn verða stundum lasin.  Þeir,  eins og aðrir álfar, geta gengið svo langt að valda fórnarlömbum sínum tímabundinni eða varanlegri geðveiki.  Gerviálfar eru alveg jafn varasamir og lifandi álfar.  

  Jón er á stöðugu flandri við að reka álfa út úr íbúðarhúsum.  Í mörgum tilfellum er um bráðatilfelli að ræða.  Hann kvartar undan því að lítið sem ekkert heyrist opinberlega frá öðrum álfahöturum.  Hann veit af mörgum þeirra og sárnar að þeir láti hann einan standa í baráttunni.  

  Góðu fréttirnar eru þær að Jón,  3ja barna faðir,  náði farsælum samningi við skólastjórnendur barna hans.  Þeir tóku vel í kröfu hans um að börnin þyrftu ekki í skólanum að eiga nein samskipti við álfa.  Þau þyrftu ekki einu sinni að syngja söngva um álfa.   Það telur.  

hengdi álf 

 


Pönkið í sókn!

  Ég verð seint talinn áhugsamur um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og Ísraels,  Júrovision.  Keppnin fer nánast alltaf algjörlega framhjá mér.  Þó að ég þyrfti að vinna mér það til lífs þá ætti ég í vandræðum með að nefna yfir tíu lög úr Júrovision,  útlend og íslensk í bland.  Ólíklegt er að á það reyni.

  Tvívegis hef ég horft á Júrovison í sjónvarpinu.  Í fyrra skiptið var ég gestkomandi á heimili í Færeyjum.  Þangað safnaðist smá hópur til að fylgjast saman með.  Allir stóðu með íslenska laginu.  Nema ég.  Ég stóð ekki með neinu lagi.  Þótti þau hvert öðru leiðinlegra.  Mér til bjargar varð að nóg var til af Föroya Bjór.  Mér tekst ekki að rifja upp hvaða íslensku lagi var teflt fram það árið.  Kannski var ég úti að reykja á meðan það var flutt.  

  Í seinna skiptið fylgdist ég með íslensku lokakeppninni.  Þá hafði ég orðið var við að óvenju góður hópur flottra flytjenda atti kappi saman.  Þar á meðal Botnleðja,  Heiða í Hellvar,  Eivör og Rúnar Júlíusson.   

  Í ár fylgdist ég ekki með.  Ég heyrði glæsilegt lag eftir Ólaf F. Magnússon,  fyrrverandi borgarstjóra,   sem var sent inn en hafnað af dómnefnd.  Lögin sem hlutu náð fyrir eyrum dómnefndar hljóta að vera tær snilld fyrst að flottu lagi Ólafs var hafnað.  Mér er sagt - af þeim sem fylgjast með - að flest lög sem komust í gegnum nálaraugað standi lagi Ólafs langt að baki.

  Ég held að ég hafi aðeins heyrt lag Pollapönks,  Enga fordóma,  af lögunum sem kepptu.  Kannski búta úr öðrum lögum.  Veit það ekki.  Þegar ég las á netinu að lag Pollapönks hafi sigrað leitaði ég á náðir vod.  Þar gat ég á 64-földum hraða spólað beint í lokamínútur útsendingarinnar og hlustað á  Enga fordóma.  Pollapönk er skemmtileg og grallaraleg hljómsveit.  Undir smá áhrifum frá Steppenwolf.  Flutningurinn í úrslitaþættinum er töluvert flottari en á myndbandinu á þútúpunni.  Meðal annars hleypti Heiðar á skeið í töff öskursöngstíl í seinni hluta lagsins.

  Vegna þekkingarskorts á Júrovision veit ég ekki hvort að þar hefur áður verið boðið upp á pönk.  Mér segir svo hugar að það sé ekki.  En hvort sem er:  Það er allt í hönk og það vantar alltaf meira pönk.  

   Ég veit ekkert hvernig Pollapönkið passar inn í Júrovision-klisjuna.  Það snýr hvergi að mér.  Eftir stendur fjörlegt pönk.  Það er gaman.  

   


mbl.is Enga fordóma fer til Danmerkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og HJARTA ÁRSINS er...

saeja.jpg

  Sæunn Guðmundsdóttir!  Það er niðurstaða áhorfenda og dómnefndar sjónvarpsstöðvarinnar flottu,  N4.  Þetta fólk hefur ekki rangt fyrir sér.  Ég votta það.  

  Það var skemmtilegt uppátæki hjá N4 og Miðbæjarsamtökum Akureyrar að efna til leitar að hjartahlýjustu manneskjunni.  Sæunn er alltaf á fullu í því að hjálpa öllum og gleðja aðra. 

  Hún kann ekkert á peninga.  Þegar hún kemur auga á bók eða plötu í búð þá er hennar fyrsta hugsun hvern bókin eða platan geti glatt.  Það hvarflar ekki að henni hvort að hún hafi efni á kaupa enn eina gjöfina til að gleðja.  Hún hefur ekkert efni á því.  En löngun til að gleðja aðra víkur fyrir öllu.  

  Þrátt fyrir ýmsa erfiðleika þá slær hún aldrei af við að sprella og grínast.  Gefur frekar í en hitt við hverja raun.  Hún og fjölskylda hennar hafa fengið stærri skammt af veikindum en hollt telst.  Maður hennar er að glíma við eftirstöðvar heilablóðfalls.  Er í endurhæfingu.  Sjálf hefur Sæunn strítt við heilsuleysi af ýmsu tagi alveg frá barnsaldri og er móðir 2ja langveikra barna.  Samtals eru börn hennar fjögur.  Ég kann ekki upptalningu á veikindum Sæunnar.  Hún er áhugasamari að tala um flest annað en nýrnabilun,  vefjagigt og hvað þetta heitir.

  Sæunn er ein af stofnendum Aflsins,  systursamtaka Stígamóta á Norðurlandi.  Hún er ennþá að vinna allan sólarhring fyrir Aflið.  

  Svo skemmtilega vill til að sama dag og Sæunn var útnefnd Hjarta ársins þá varð hún amma í annað sinn.  Á myndinni hér fyrir ofan er hún með hinu ömmugullinu.  Sæunn er til hægri á myndinni.  

  Til hamingju með daginn,  kæra systir! 

  


Bestu tónlistarmyndbönd sögunnar

  Breska popptónlistarblaðið New Music Express leitar að besta tónlistarmyndbandi sögunnar.  New Musical Express er söluhæsta tónlistarblaðið í Evrópu.  Það selst líka með ágætum í Ameríku og víðar.  Til að finna bestu tónlistarmyndböndin hefur NME leitað til lesenda sinna.  Þeir hafa komist að eftirfarandi niðurstöðu:

1  Thriller með Michael Jackson

2  Sabotage með Bestie Boys

3  Just með Radiohead

4  Coffie and TV með Blur

5  Learn to Fly með Foo Fighters

6  Fell in Love with a Girl með White Stripes

7  All is full of Love með Björk

8  Weapon of Choice með Fatboy Slim

9  Buddy Holly með Weezer

10  Sledgehammer með Peter Gabriel

11  Common People með Pulp

12  Go With the Flow með Queens of the Stone Age

13  Around the World með Daft Punk

14  Born Free með MIA

15  Wicked Game með Chris Isaak

16  Bad Girls með MIA

17  Walk This Way með Run DMC

18  Get Ur Freak On með Missy Elliot

19  Like a Prayer með Madonnu

20  Sleep Now in the Fire með Rage Against the Machine 


Veistu hver ég var?

siggi-hlo.jpg

   17. ágúst næstkomandi svífur á skjáinn splunkuný sjónvarpsþáttasería,  "Veistu hver ég var?"  Hún verður á dagskrá Stöðvar 2.   Þetta er spurningaþáttur.  Umsjónarmaður, spyrill og dómari er Siggi Hlö.  Viðfangsefnið er níundi áratugurinn.  Nánar tiltekið sú músík sem fellur undir samheitið "80´s" (dansvænt tölvupopp, nýróman...) og kvikmyndir.

  Hvernig stendur á því að ég veit þetta?  Öfgafullur maður sem var á kafi í því selja pönkplötur, gefa út pönkplötur og stússa í pönkhljómleikum á níunda áratugnum?  

  Skýringin liggur í því að ég er í einu af 18 keppnisliðum sem spreyta sig í "Veistu hver ég var?"  Þættirnir hafa þegar verið teknir upp.  Það var góð skemmtun að taka þátt í leiknum.  Egils Gull var í boði.  Gott ef að pizzur og eitthvað fleira voru ekki einnig á boðstólum.  Ég einbeitti mér að Gullinu.

  Ég var í keppnisliði Hebba Guðmunds.  Ásamt okkur var í liðinu Bjarni Jóhann Þórðarson.  Það munaði um minna.  Sá var og er á heimavelli þegar 80´s poppið er annars vegar.  Þar fyrir utan hugsar hann svo hratt að áður en mínar heilasellur náðu að sameinast í að grafa upp svar við einni spurningu var Bjarni búinn að svara mörgum.  

  Keppnislið Hebba atti kappi við lið Sverris Stormskers.  Sverrir er fjölfróðari um 80´s músík en margur heldur.  Honum til halds og trausts voru tveir Snorrar.  Annar er Snorrason og sigurvegari í Idol eða X-factor.  Ég held að ég sé ekki að rugla honum saman við einhvern annan þegar ég tengi hann við hljómsveitina Jet Black Joe.  

  Hinn Snorrinn er Sturluson.  Hann var íþróttafréttamaður, ja, nú man ég ekki hvort það var á Rúv eða hjá Stöð 2.  Eða kannski báðum.  Hann hefur líka verið dagskrárgerðarmaður á Rás 2 og öðrum útvarpsstöðvum.  Lið Sverris var öflugt.  

  Siggi Hlö er stuðbolti.  Hann tekur sig ekki hátíðlega.  Það einkennir þáttaseríuna.  Þetta er allt til gamans gert.  Það er útgangspunkturinn.  Ungmennafélagsandinn "að vera með í leiknum" svífur yfir vötnum.  Siggi Hlö er rétti maðurinn í hlutverki þáttastjórnandans, eins og dæminu er stillt upp:  Fjörmikill gleðipinni og snöggur til svars af léttúð undir öllum stöðum sem upp koma.  Hann á auðvelt með að keyra upp stemmninguna  Það er svo mikið stuð á stráknum.  Hann kann þetta frá A - Ö. 

  Það var virkilega gaman að taka þátt í þessum spurningaleik.  Ég skemmti mér konunglega.  Ég hlakka til að sjá útkomuna í endanlegri útfærslu.  Ekki aðeins þáttinn með keppnisliðum Hebba og Stormskers.  Aðrir þættir eru líka spennandi.  Til að mynda viðureign Rásar 2 og Bylgjunnar.  

  hebbi_gu_munds_li_-_bjarni_-_jens.jpg


Færeyingur bjargar júrivisjón

 

  Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst.  Hjálpin er Færeyingur.  Þetta þekkjum við Íslendingar manna best.  Þegar allar þjóðir heims harðneituðu að lána Íslendingum gjaldeyri - í kjölfar bankahrunsins - komu Færeyingar með fullar hendur gjaldeyris til Íslands og lánuðu okkur.  Það var ekki einu sinni búið að biðja þá um hjálp.

  Sama hefur ítrekað gerst þegar Íslendingar lenda í öðrum hremmingum,  til að mynda snjóflóði.  Þá eru Færeyingar snöggir til hjálpar.

  Þetta fer ekki alltaf hátt.  Svo dæmi sé tekið þá vita fáir hver bjargaði byggingu tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu.  Byggingin var svo flókin, snúin og nýstárleg að enginn Íslendingur fannst sem treystandi var fyrir svo erfiðu verki.  Að lokum var leitað til Færeyinga.  Þar fannst maður,  mikill snillingur,  sem taldi ekki eftir sér að bjarga byggingu Hörpu fyrir Íslendinga.  Það gerði hann með stæl - og var þó hlaðinn verkefnum út um allan heim.

  Á næsta ári verður söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva,  júrivisjón,  haldin í Danmörku.  Keppnin er orðin svo mikið og stórt batterí og í svo mörg horn að líta hvað tæknilegu hliðina varðar að danskir tæknimenn fóru á taugum við tíðindin.  Þeir óttast - eðlilega - að klúðra öllu.  Þess vegna leituðu þeir til Færeyja - viti sínu fjær af áhyggjum og ráðaleysi.  Færeyingur að nafni Per Zachariassen hefur látið undan grátbiðjandi Dönum og ætlar að halda utan um júrivisjón á næsta ári. 

per

  Þetta er Færeyingurinn sem bjargar júrivisjón.


Plötuumsögn

nýtt upphaf
 - Titill:  Nýtt upphaf
 - Flytjandi:  Herbert Guðmundsson
 - Einkunn: ****
.
  Yfir tónlistinni í heild er meiri léttleiki en á fyrri plötum Hebba.  Ballöðurnar eru poppaðri.  Í textum er hinsvegar tregi og eftirsjá í fyrstu 4 lögunum.  Í fimmta laginu,  Komdu með, er skipt um gír:  "Kveð veturinn / sem langur var og stríður."  Sumri, sól, ást og gleði er fagnað í fjörlegum léttrokkuðum sumarslagara.  Þetta lag hefur alla eiginleika til að verða sívinsæll sumarsmellur.
  Treginn skýtur aftur upp kolli í næsta lagi,  ballöðunni  Sé þig hvar sem er.  Þannig skiptast á skin og skúrir í næstu lögum.  Það er nett sumarstemmning í laufléttu og söngrænu  Sumarið er stutt
  Í hinu rólega  Við tvö  örlar á smá kántrý eða eiginlega blágresiskeim.  Í fljótu bragði man ég ekki eftir Hebba á þeim slóðum.
  Það kemur ekki á óvart að stórsmellurinn frá í fyrra,  Eilíf ást,  sé á plötunni.  Reyndar bæði í íslenskri útgáfu og einnig með enskum texta.  Enska útgáfan er hraðari og glaðværari.
  Mörgum kom í opna skjöldu að  Eilíf ást  skyldi ekki verða keppnislag Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í fyrra.  Ég hef aldrei fylgst með þessari keppni og veit ekki út á hvað hún gengur.  Mér skilst að dansspor keppenda,  klæðnaður,  hárgreiðsla og eitthvað svoleiðis skipti sköpum. 
  Hvort sem sá skilningur er réttur eða ekki þá hefur  Eilíf ást  orðið lífseigari en flest lögin sem það atti kappi við í keppninni í fyrra.
  Þátttakan í keppninni færði Hebba stærri sigur en öðrum keppendum.  Þátttakan leiddi saman hann og eiginkonu hans,  Lísu Dögg Helgadóttur.  Platan er tileinkuð henni.  Lísa Dögg er höfundur texta upphafslagsins,  Camilia. 
  Hebbi hefur jafnan gert út á frumsamda söngva.  Á  Nýju upphafi  bregður svo við að Hebbi spreytir sig á sjö lögum eftir sænska höfunda.  Fyrir bragðið er pínulítið önnur áferð á sumum laglínum og í útsetningum en við eigum að venjast á plötum með Hebba.  Engu að síður gerir Hebbi lögin að sínum með sínum persónulega stíl.  Hans þrjú frumsömdu lög skera sig ekki frá sænsku lögunum.  Þetta er heilsteypt plata.  Allur flutningur er fagmannlegur.  Þórir Úlfarsson spilar á hljómborð og heldur utan um upptökur og útsetningar;  Gulli Briem og Ingólfur Sigurðsson tromma;  Pétur Valgarð Pétursson og Stefán Már Magnússon spila á gítara;  Friðrik Sturluson plokkar bassa og semur flesta texta.  Um bakraddir sjá Þórir Úlfarsson, Edda Viðarsdóttir, Elísabet Ormslev pg Pétur Örn Guðmundsson.   
..

Alvöru júró-rokk í kvöld (laugardaginn 26. janúar)

 

  Sólstafa hefur verið sárt saknað í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva,  Júrivisjón.  Einkum af Finnum.  Þar njóta Sólstafir meiri vinsælda en allir íslenskir þátttakendur í sögu Júrivisjón frá upphafi.  Stök plata með Sólstöfum lætur sig ekki muna um að fara í 12. sæti á finnska vinsældalistanum þegar vel liggur á mannskapnum. 

  Nú er júrivisjón-fárið skollið á í ár.  Þá er fátt heppilegra í stöðunni en flýja í faðm Sólstafa.  Hlusta á alvöru rokktónlist í hæsta gæðaflokki.  Og ekki bregðast Sólstafir sem aldrei fyrr.  Þeir bjóða upp á spennandi hljómleika í kvöld,  26. janúar (laugardag) á Gauki á Stöng.  Þetta eru fyrstu sjálfstæðu hljómleikar Sólstafa í meira en ár.  Vinna við næstu plötu er jafnframt hafin.   Hljómsveitin Kontinuum hitar upp.  Fjörið hefst klukkan 22.00. 

  “Við erum á flakki um Evrópu mest allt árið. Svona hefur þetta verið síðastliðin ár en þó aukist með ári hverju”, segir Sæþór Maríus, gítarleikari Sólstafa. “Á vorin og haustin eru það túrarnir og svo tónleikahátíðir yfir sumartímann”, bætir hann við.

  Síðust tónleikar Sólstafa erlendis voru á skemmtiferðaskipi sem sigldi frá Miami til Bahamaeyja. “Það var mikið ævintýri og ólíkt því sem við erum vanir. Við spiluðum á sundlaugadekkinu í glampandi sól. Fólk var þarna að headbanga í heitapottinum og fá sér sundsprett”.

Sæþór segir þá félaga í fantagóðu spilaformi enda nýta þeir vetrartímann vel til að æfa. “Við erum orðnir skipulagðir, æfingaplanið er komið í Excel-skjal. Við höfum líka verið duglegir að semja nýtt efni undanfarið. Það er alltaf gaman”, segir Sæþór kíminn.


mbl.is Þrjú lög komust áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk tónlist í Svíþjóð

  Í hvert sinn sem ég fer til útlanda þá fagna ég því að vera áhugalaus um búðarráp.  Fyrir bragðið skipti ég mér ekkert af búðum.  Fer ekki í þær.  Horfi helst framhjá þeim ef þær verða á vegi mínum.  Eina undantekningu geri ég þó.  Hún er sú að ég læt aldrei framhjá mér fara verslanir sem selja hljómplötur.  Ég legg ekki á mig langar leiðir til að komast í plötubúð.  En á hótelinu spyr ég hvort að plötubúð sé í nágrenninu.  Sé svarið jákvætt þá fer ég þangað.

  Fyrir áratug og meir voru plötubúðir í flestum flugstöðvum.  Það er liðin tíð.  Plötubúðirnar eru horfnar úr flugstöðvunum.  Og bara mikið til horfnar.  

  Stokkhólmur er gullnáma fyrir plötusafnara.  Þar er að finna tugi plötubúða.  Margar þeirra eru með óvenju gott úrval af jaðarmúsík öfugt við þá þróun sem hefur orðið víðast hvar:  Jaðarmúsíkin hefur horfið að mestu úr plötubúðum heimsins og færst inn á netsíður. 

  Að þessu sinni kíkti ég inn í 4 plötubúðir í Stokkhólmi.  Samtals keypti ég þó innan við 20 plötur.  Flestar sænskar.  Það er af sem áður var þegar utanlandsferð stækkaði plötubunkann minn um 50 - 100 stk.

  Eitt af því sem er gaman við að fletta í gegnum lager í útlendum plötubúðum er að rekast á íslenskar plötur.  Fyrir ári síðan komst ég að því að plötur Sólstafa eru í finnskum plötubúðum.  Það kom skemmtilega á óvart.  Og einnig að uppgötva að þær hefðu náð inn á finnska vinsældalista.

  Í Stokkhólmi urðu á vegi mínum plötur með Björk,  Jónsa,  Sigur Rós og FM Belfast.  Ég vissi ekki áður að FM Belfast væri þetta stórt nafn í Svíþjóð.  Þau eru víst að gera það gott víðar á meginlandinu.         

  Plata Of Monsters and Men var ekki til sölu í áðurnefndum fjórum búðum.  Hinsvegar hljómaði lag þeirra  Little Talks  undir í sænskum sjónvarpsþætti,  einhverskonar annál, svipmyndum frá síðasta ári.  Það sérkennilega var að ég horfði ekkert á sjónvarp í þessari Stokkhólmsreisu.  Ég sá þennan þátt bara út undan mér fyrir tilviljun,  staddur á veitingastað.  Ég hef frásögn af því að lög með Of Monsters and Men hafi notið mikilla vinsælda í sænsku útvarpi. 

  Til viðbótar þessum sjónvarpsþætti og íslenskum plötum í sænskum plötubúðum vísa ég á lag með Írisi Kjærnested sem er að finna í síðustu bloggfærslu minni:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1275550/


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband