Færsluflokkur: Sjónvarp

Bruce Springsteen segir frá íslenskri konu

 

  Vinna við heimildarkvikmynd um Brúsa frænda (Bruce Springsteen) er komin á fljúgandi skrið.  Nafn myndarinnar verður "Springsteen & I".  Myndin er samvinnuverkefni þriggja kvikmyndafyrirtækja.  Þau eru:  Ridley Scott Associates,  Black Dog Films og Scott Free London.  Uppskriftin að myndinni er sótt í margverðlaunaða mynd Scott Free London,  "Life In A Day". 

  Á heimasíðu Brúsa er upplýst að framleiðandi (producer) myndarinnar sé Svana Gísla.  Svana er meðeigandi í Black Dog Films.  Ég veit fátt um Svönu annað en að hún hefur eitthvað komið að myndböndum fyrir Sigur Rós. 

  Á heimasíðu Brúsa eru aðdáendur hvattir til að senda Svönu frásagnir af því á hvern hátt Brúsi og tónlist hans hafa haft á líf viðkomandi.  Svana segir að það skipti ekki máli hvort frásögn sé frá aðdáendum sem eru nýbúnir að uppgötva Brúsa eða hvort þeir séu búnir að vera harðlínuaðdáendur í fjóra áratugi.  Svana biður líka um sögur af foreldrum, ættingjum, nágrönnum eða öðrum sem séu ákafir safnarar á Brúsa-plötum.    

  Frestur til að senda inn frásagnir eru til 29. nóv.  Netfang Svönu er gefið upp:  info@springsteenandi.com .  Fólki er einnig boðið að hringja í Svönu.  Símanúmerið er hinsvegar ekki gefið upp.  Það er skrítið.

  Brúsi er eitt stærsta nafnið í rokkinu.  Nafn Svönu Gísla ætti því að verða þekkt á heimsvísu eftir að hafa verið kynnt á heimasíðu kappans.  Brúsi er þekktur fyrir þátttöku í ýmsum mannúðarmálum.  Til að mynda var hann á dögunum duglegur við að safna hjálparfé til stuðnings þeim sem eiga um sárt að binda eftir fellibylinn Sandy.  Hann hefur einnig lagt Amnesty International lið og túrað undir merkjum þessa helsta málsvara samviskufanga heims.  Svo fátt eitt sé nefnt.  Fyrir fjórum árum tók Brúsi í fyrsta skipti þátt í beinni stjórnmálabaráttu með því að styðja forsetaframbjóðandann Hussein Obama.  Þeir eru góðir vinir.  Svana Gísla á væntanlega eftir að verða tíður gestur í Hvíta húsinu. 


Klúður í tónlistarverðlaunum

  Bandarísku tónlistarverðlaunin Grammy hafa iðulega verið aðhlátursefni.  Þetta eru samt tónlistarverðlaun sem vekja ætíð heimsathygli.  Þeim er gert hátt undir höfði í bandarískum fjölmiðlum.  Líka í heimspressunni.  Það að vera tilnefndur til Grammy verðlauna er rosalega öflug auglýsing.  Það er ávísun á góða plötusölu.  Að landa Grammy verðlaunum er ennþá öflugri auglýsing og skilar ennþá meiri plötusölu.  Grammy verðlaunahafi stimplar sig rækilega inn í tónlistarsöguna.
  Klúðrin eru samt mörg.  Bandarískir lykilmenn í tónlist eru stundum úti á þekju.
  Grammy er stytting á orðinu "gramaphone" (hljómplötur).  Ég er ekki með það á hreinu hverjir í bandaríska músíkbransanum tilnefna nöfn og kjósa sigurvegara.  Sennilega eru það fulltrúar plötuútgefenda og plötusala.
.
  Dæmi um Grammy-klúður er að margra ára gamlar plötur hafa verið verðlaunaðar sem besta plata ársins.  Rótgrónir tónlistarmenn með langan og farsælan feril að baki eru verðlaunaðir sem bestu nýliðar ársins.  Frægasta klúðrið er þegar breska folk-blús prog-hljómsveitin Jethro Tull var 1989 verðlaunuð sem besta hard rock/heavy metal hljómsveitin.  Og það mörgum árum eftir blómaskeið hljómsveitarinnar.  Liðsmenn JT (og fleirir) eru ennþá að hlæja sig máttlausa yfir verðlaununum.
  Bandaríska tónlistarmyndbandsstöðin MTV er stórveldi í tónlist.  Árleg MTV verðlaun eru um margt brennd sama marki og klúður Grammy. 
  Næst söluhæsta rokktímarit Bandaríkjanna hefur tekið saman lista yfir klúður MTV-verðlauna:
  Framan af ferli sýndi MTV ekki myndbönd með blökkumönnum.  Rökin voru þau að blökkumannamyndbönd myndu fæla auglýsendur frá.  Plötufyrirtækið CBS (í eigu japanska fyrirtækisins Sony) fór þá verkfall.  Tók öll sín myndbönd úr spilun á MTV þangað til stöðin myndi sýna myndbönd með Michael Jackson.  Þetta var á þeim tímapunkti sem aðal skjólstæðingur CBS var Brúsi frændi (Bruce Springsteen) og hann á hátindi frægðarinnar.  Seint og síðar meir gaf MTV sig og setti myndbönd með Michael Jackson á næturdagskrá MTV.  Þá brá svo við að áhorf á MTV tók risastökk upp á við og auglýsingum rigndi inn.  Leikar fóru þannig að blökkumannamyndbönd urðu meðal vinsælustu myndbanda á MTV og auglýsendur dældu inn auglýsingum vegna aukins áhorfs.
.
  Þó var það svo að vinsælasta myndbandið á MTV, "Thriller" með Michael Jackson, laut í lægra hald sem myndband ársins 1984 fyrir löngu gleymdu myndbandi með The Cars,  "You Might Think".
  1992 sló lagið og myndbandið "Smells Like Teen Spirit" með Nirvana rækilega í gegn á heimsmarkaði.  Lagið skóp nýja rokkbylgju, gruggið (grunge).  Gruggið varð málið og hérlendis ól það af sér meðal annars hljómsveitir eins og Botnleðju og The Noice. Gruggið varð stórveldi með hljómsveitum á borð við Pearl Jam og Soundgarden.  Nirvana varð eitt stærsta nafnið í sögu rokksins. En MTV verðlaunaði löngu gleymt myndband með Van Halen,  "Right Now", sem myndband ársins 1992.
  1995 verðlaunaði MTV myndbandið "Hold My Hand" með Hootie & the Blowfish sem besta myndband ársins.  Myndband sem keppti við "Last Goodbuy" með Jeff Buckley og "Sour Times (Nobody Loves Me)" með Portishead.  Myndbandið með Hootie & the Blowfish er í dag löngu gleymt.
  Þetta eru aðeins örfá klúður dæmi af mörgum sem Spin tiltekur. 
.     

Ókeypis lag (til niðurhals)

 
  Eftir gríðarlega velgengni Fjöru - fyrsta smáskifulags Sólstafa af plötunni Svörtum söndum - hefur bandið nú sent frá sér aðra smáskífu af sömu plötu. Lagið, sem heitir Æra, er aðgengilegt á heimasíðu bandsins Solstafir.net til ókeypis niðurhals.

  Lagið Fjara hefur notið mikilli vinsælda á Íslandi og erlendis.  Það dvaldi lengi á vinsældarlistum rásar 2 og X-ins 977. Myndband við lagið hefur hlotið mikla eftirtekt.  Það vann meðal annars til verðlauna sem besta myndband ársins á hlustendaverðlaunum X-ins. Það hefur fengið um 300.000 heimsóknir á myndbandasíðunni Youtube.

  Sólstafir eru þessa stundina á hljómleikaferðalagi um Evrópu og koma fram á mörgum af helstu þungarokkshátíðum heims.  Bandið hefur spilað á yfir 40 hljómleikum á meginlandinu síðan í mars, auk nokkura vel valdra tónleika á Íslandi.
  Þegar ég var í Finnlandi um jólin sá ég plötuna  Svarta sanda  í öllum plötubúðum.  Afgreiðslumaður í einni þeirra sagði að platan hafi verið á finnska vinsældalistanum.

  Í þakklætisskini fyrir velgengnina bjóða Sólstafir lagið Æru nú aðgengilegt til ókeypis niðurhals af heimasíðu bandsins, Solstafir.net.



Foringjarnir

  Það er margt skemmtilegt og áhugavert við þútúpuna.  Þar á meðal að þar dúkka iðulega upp gömul og sjaldheyrð lög.  Lög af plötum sem ekki hafa fengist í plötubúðum eða annars staðar til fjölda ára og áratuga.  Fyrir örfáum dögum birtist á þútúpunni lagið hér fyrir ofan,  Get ekki vakað lengur.  Það er með hljómsveitinni Foringjunum.

  Foringjarnir nutu töluverðra vinsælda um og upp úr miðjum níunda áratugnum.  Til að mynda náði lagið  Komdu í partý  með Foringjunum góðri útvarpsspilun og myndband við það var margoft sýnt í sjónvarpinu. 

  Hljómsveitin þótti góð í að rífa upp stuð,  hvort sem var á dansleikjum eða á hljómleikum.  Fyrir bragðið var hún eftirsótt til að hita upp fyrir aðrar hljómsveitir.  Ein þeirra var Kiss,  svo dæmi sé nefnt.

  Foringjarnir voru Þórður Bogason (söngur),  Einar Jónsson (gítar),  Jósep Sigurðsson (hljómborð),  Oddur F. Sigurbjörnsson (trommur) og Steingrímur Erlingsson (bassi).

  Höfundar  Get ekki vakað lengur  eru Þórður og Einar.  Þórður hefur sungið með fjölda annara hljómsveita, svo sem Þreki, Skyttunum, Rickshaw, Þrymi, Warning, Þukli, DBD, Rokkhljómsveit Reykjavíkur og Mazza.


Minnismerki um dægurlagatexta

  Frægt tónlistarfólk vegur þungt í ferðamannaiðnaði heimsins.  Bæði beint og óbeint.  Aðdáendurnir sækja í æskuslóðir poppstjarnanna.  Þeir,  en einnig aðrir,  lesa viðtöl við poppstjörnurnar eða heyra viðtöl við þær í útvarpi og sjónvarpi.  Þar bera æskuslóðirnar iðulega á góma.  Og jafnan í jákvæðu samhengi.  Poppstjarnan hljómar eins og ferðamálaauglýsing.  Vekur upp löngun hjá þeim er á hlýðir að heimsækja staðinn.

  Þetta vita ferðamálayfirvöld víða og nýta sér.  Hafnarborgin Liverpool í Englandi er undirlögð einu og öðru sem tengist vanmetnustu hljómsveit rokksögunnar,  Bítlunum.  Meira að segja flugvöllurinn ber nafn forsprakkans og heitir John Lennon flugvöllur.  Flugvöllurinn í Varsjá í Póllandi og sitthvað fleira þar ber nafn Chopins.

  Á Karíbahafi gerir eyjan Jamaíka út á Bob Marley.  Þar ber m.a. heill garður nafn hans.  Í 13 þúsund manna smábænum Nomsus í Noregi er stór stytta af rokk- og vísnasöngvaranum Age Aleksandersen.  Í 3000 manna smábænum Okemah í Oklahóma er vatnsgeymir og fleira merkt vísnasöngvaranum Woody Guthrie.  Þannig mætti áfram telja.

  Víkur þá sögu að skoska 12 þúsund manna smábænum Galashiels.  Þar hafa yfirvöld nú samþykkt að láta reisa heilmikið minnismerki um sönglagið  Kayleigh  með hljómsveitinni Marillion.  Langur texti lagsins verður greyptur með stórum stöfum í merkið. 

  Ástæðan fyrir þessu uppátæki er sú að í textanum fjallar skoski söngvarinn Fiskur um gamla kærustu frá Galashiels.  Fiskur sagði henni fautalega upp á sínum tíma og afsakar það í textanum.  Hann rifjar upp ýmsa nafngreinda staði í Galashields.  Þar á meðal kirsuberjatré á Markaðstorginu.  Minnisvarðanum er einmitt ætluð staðsetning á Markaðstorginu.  Einhverjar gagnrýnisraddir eru uppi um það að kirsuberjatrén hafa verið fjarlægð af torginu til að minnisvarðinn njóti sín.

  Til marks um vinsældir lagsins má nefna að fyrir útgáfudag þess var nafnið Kayleigh ekki að finna á lista yfir 100 algengustu kvenmannsnöfn í Skotlandi.  Nokkrum árum síðar var það orðið eitt af 30 algengustu nöfnunum. 

  Fiskur hóf söngferil sinn í Galashilds.  Bærinn er honum kær.  Honum þykir vænt um söngtextann  Kayleigh  og að honum verði reistur þessi minnisvarði á Markaðstorginu.

  Kayleigh  er þekktasta lagið frá Marillion.  Það náði 2. sæti breska vinsældalistans og hefur öðlast langlífi.  Er til að mynda að finna á ótal safnplötum sem innihalda vinsælustu lög frá níunda áratugnum. 

Market Square í Galashiels A

  Markaðstorgið í Galashiels.  Þarna mun minnisvarðinn tróna og laða ferðamenn að bænum.

  Ég er ekkert fyrir minnisvarða og styttur.  Aftur á móti finnst mér upplagt að götur í Reykjavík verði kenndar við Björk,  Sykurmolana,  Mezzoforte,  Of Monsters and Men,  Mínus og fleiri.

  Í Mosó er upplagt að kenna götur við Sigur Rós,  Ólaf Arnalds og fleiri.  Í Bolungarvík skal kenna  götu við rokkkónginn Mugison. 

Okemah-StreetSignjla-logo


Andri Freyr er frábær! Hann er sá flottasti í útvarpi og sjónvarpi!

andri

  Eiður Guðnason,  fyrrverandi sendiherra,  fyrrverandi alþingismaður,  fyrrverandi sjónvarpsstjarna og eitthvað fleira fyrrverandi,  heldur úti áhugaverðu bloggi um málfar og miðla.  Yfirskriftin er "Molar um málfar og miðla".  Það má hafa gagn og gaman af vangaveltum hans og athugasemdum. 

  Suma gagnrýnir Eiður oftar en aðra.  Eins og gengur.  Á dögunum skrifaði Eiður þetta um ástsælasta útvarps- og sjónvarpsmann landsins:

  "Það er alveg séríslenskt sjónvarpssiðferði þegar umsjónarmaður hins sjálfhverfa vikulega Andralandsþáttar leikur aðalhlutverk í langri kaffiauglýsingu sem sýnd var rétt fyrir fréttir (19.03.2012) í Ríkissjónvarpinu. Raunar verður ekki betur séð en þetta sé skýrt brot á þeim siðareglum sem Ríkisútvarpið hefur sjálft sett. En til þess eru reglur að brjóta þær , ekki satt? Sá hinn sami hefur fastan þátt í morgunútvarpi Rásar tvö. Þar er talað um hljóstir, ekki hljómsveitir og bið í síma heitir að hanga á hóldinu. Til hvers er Ríkisútvarpið með málfarsráðunaut? Svo les maður í Fréttablaðinu (21.03.2012) að Ríkissjónvarpið ætli að gera þennan starfsmann sinn út af örkinni til að gera sjónvarpsþætti á slóðum Vestur-Íslendinga þar sem hann segist eiga skyldmenni. Hann segir orðrétt í Fréttablaðinu um skyldmenni sín vestra: ,Pabbi segir að þau séu ógeðsleg en amma segir að þau séu fín. Það er engin ástæða til að greiðendur nauðungaráskriftar Ríkisútvarpsins kosti ferðalag piltsins vestur um haf til að heimsækja ættmenni sín. Sjónvarpið ætti hinsvegar sjá sóma sinn í að gera alvöru heimildaþætti um Vestur-Íslendinga eða Kanadamenn sem eru af íslensku bergi brotnir. Til þess er þessi dagskrárgerðarmaður ekki rétti maðurinn, sé horft til þess sem hann hefur frá sér sent bæði í sjónvarpi og útvarpi. Getur hann ekki bara haldið áfram að gera þætti um sjálfan sig á Íslandi? Eru þeir sem stjórna dagskrárgerðinni í Efstaleiti búnir að tapa áttum og algjörlega heillum horfnir? Hvers eiga frændur okkar og vinir vestra að gjalda? Hversvegna á að kasta takmörkuðu dagskrárfé á glæ með þessum hætti ? Óskiljanlegt."

  Ég hef ekki heyrt Andra Frey tala um hljóstir.  Hinsvegar hef ég oft heyrt hann tala um hljómsveitir.  Enda hefur Andri verið í vinsælum hljómsveitum á borð við Bisund,  Botnleðju og Fidel. 

  Það er fagnaðarefni að Ríkissjónvarpið ætli að gera Andra Frey út af örkinni til að gera þætti um Vestur-Íslendinga.  Enginn er betur til þess fallinn.  Það hafa verið gerðir margir hundleiðinlegir og uppskrúfaðir útvarps- og sjónvarpsþættir um Vestur-Íslendinga.  Nú er röðin komin að skemmtilegum þáttum um Vestur-Íslendinga.   Sjónvarpið fær stóran plús í kladdann fyrir þættina Andri á flandri og Andraland.  Sömuleiðis fyrir að senda kappann vestur um haf til að gera þætti um Vestur-Íslendinga. 

  Það er engin tilviljun að sjónvarps- og útvarpsþættir Andra Freys tróni ítrekað í toppsæti yfir vinsælustu þætti.  Drengurinn er bráðskemmtilegur og orðheppinn.  Hann tekur sig ekki hátíðlega.  Honum er eðlislægt að vera skemmtilegur.  Það er ekkert óskiljanlegt við að stjórnendur Ríkisútvarpsins nýti þennan frábæra "talent" sem mest má vera.  Þjóðin elskar Andra Frey.  Hann var og er hvalreki á fjörur dagskrárgerðar fyrirtækisins. 

  Vitaskuld er Andri Freyr ekki yfir gagnrýni hafinn.  Hann talar hinsvegar tungumál sem þjóðin skilur.  Og elskar að hlusta á.  Hann er flottastur!   

 


Hljómleikaumsögn

eivör

- Yfirskrift:  Af fingrum fram
- Gestgjafi:  Jón Ólafsson
- Gestur:  Eivör
- Staður:  Salurinn í Kópavogi
- Einkunn:  ***** (af 5)
.
  Margir muna eftir sjónvarpsþáttum Jóns Ólafssonar,  Af fingrum fram.  Þar fékk hann þekkta tónlistarmenn í spjall;  fór yfir tónlistarferil þeirra,  æsku,  uppruna og fleira.  Sýnishorn af ferlinum voru dregin fram og þættinum lauk á því að gesturinn tók lagið við píanóundirleik Jóns.
  Þættirnir voru skemmtilegir og nutu vinsælda.  Það var vel til fundið hjá Jóni að hafa framhald á og færa þá á svið í Salnum í Kópavogi.  Sjónvarpsformið var í knappasta lagi.  Rösklega hálfs þriðja klukkutíma dagskrá (með stuttu hlé) í Salnum gerir viðfangsefninu miklu betri skil.
  Eivör og Jón fluttu 19 lög,  studd dyggilega af bassaleikaranum Robba frá Húsavík (ég held að hann heiti Róbert Þórólfsson).  Þá eru meðtalin sýnishorn af fyrsta lagi sem Jón samdi og fyrsta lagi sem Eivör samdi.  Eivör var treg til að flytja sitt fyrsta frumsamda lag en Jón beitti þrýstingi með því að spila sitt fyrsta frumsamda lag.  Upprifjun á þessum bernskubrekum vakti kátínu.
  Á milli laga ræddi Jón við Eivöru um upphaf ferils hennar og tilurð söngva hennar.  Í fyrri hluta hljómleikanna var meira spjallað og músíkin djassaðri.  Í seinni hlutanum var músíkin þjóðlagakenndari. 
  Jón er orðheppinn og fyndinn.  Hann nær að skapa  heimilislegt,  létt og afslappað andrúmsloft.  Hann spilar stemmninguna af fingrum fram.
  Flestöll viðtöl sem Eivör hefur afgreitt í íslensku sjónvarpi,  útvarpi og fjölmiðlum hafa verið frekar formleg og alvörugefin.  Eivör er hinsvegar mikill fjörkálfur og grallari í eðli sínu.  Jón náði að laða þá hlið hennar fram.  Hún fór meira að segja út á þann hála ís að þýða dónaleg færeysk orð yfir á íslensku og öfugt.  Það var allt snyrtilega innan siðferðismarka.  Húmoristinn Jón náði að búa til góða brandara úr því.  Það var mikið hlegið og allir skemmtu sér konunglega.
  Til viðbótar við kunn lög frá ferli Eivarar flutti hún tvö lög af væntanlegri plötu.  Þar af annað gullfallegt og grípandi til minningar um föður sinn sem féll frá fyrir rösku ári síðan.
  Eivör er besta söngkona heims.  Frábær tónlistarmaður.  Lögin voru misvel æfð hjá tríóinu.  Jafnvel óæfð.  Það átti sinn þátt í því hvað stemmningin var heimilisleg. 
  Þessir hljómleikar voru frábær skemmtun.  Það var uppselt á þá nánast um leið og þeir voru settir á dagskrá.  Troðið út úr dyrum.  Sem gefur vonir um að Eivör verði aftur á dagskrá  Af fingrum fram  næsta vetur. 
  Lítill fugl hvíslaði að mér að tæknimenn frá rás 2 hafi verið á staðnum og hljóðritað hljómleikana.  Vonandi er það rétt.  Svona konfekt á að varðveita.      
Jón Ólafs 
 
 
   

Íslenskt tónskáld í útlöndum

  Íris Kjærnested er ung íslensk tónlistarkona,  búsett í Svíþjóð.  Hún er hámenntuð í tónsmíðum og hljóðfæraleik.  Hún vinnur við tónsmíðar fyrir meðal annars kvikmyndir,  sjónvarpsþætti og auglýsingar.  Ég fann þó ekkert eftir hana á þútúpunni nema myndbandið hér fyrir ofan (athugið að músíkin byrjar ekki fyrr en á 42. sek).  Hinsvegar fann ég léttilega nokkrar netsíður með upplýsingum um hana,  svo sem þessar:

 http://www.iriskjaernested.com/

 http://www.imdb.com/name/nm3572798/

  Allir kannast við einhver auglýsingastef eftir Írisi.  Þekktast er sennilega "Veldu gæði,  veldu Kjarnafæði."

Íris Kjærnested


Mikilvægt varðandi sigurlagið í söngvakeppninni

  Eins og allir vita þá er  Eilíf ást  með Herberti Guðmundssyni sigurlagið í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva (júrivisjón) í ár.  Þegar þetta ber á góma verður mörgum að orði eitthvað í þessa veru:  "Það kjósa auðvitað allir lagið hans Hebba.  Það er neyðarlegt fyrir aðra söngvahöfunda í keppninni.  Af því að lagið hans Hebba er svo öruggt í sigursæti ætla ég að greiða einhverjum öðrum höfundi mitt atkvæði af vorkunnsemi."

  Þessi afstaða er varasöm og allt að því refsiverð.  Ef allir hugsa á þennan veg fer allt í rugl.  Það eina rétta í stöðunni er að greiða atkvæði með því að hringja í 900-9901.  Aðeins þannig fer allt vel.


Óvenjulegt markaðsátak 365

Kristján Óli og meintur nauðgari

  365 miðlar eru stærsta fjölmiðlasamsteypa landsins.  Þeir reka meðal annars Stöð 2,  Stöð 2 Sport,  Stöð 2 Extra,  Stöð 2 Bíó,  Nova TV,  Bylgjuna,  FM957 og nokkrar fleiri útvarpsstöðvar,  netmiðilinn Vísi og gefa út Fréttablaðið.  Skráður eigandi er Ingibjörg Pálmadóttir,  eiginkona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar,  lengst af kenndan við Baug. 

  Víkur þá sögu að markaðsráðgjafa 365 miðla,  Kristjáni Óla Sigurðssyni.  Samkvæmt opinberri starfsmannastefnu 365 miðla er leitast við að ráða starfsmenn sem eru frumlegir og útsjónarsamir,  traustir og áreiðanlegir.

  Kristján Óli stendur bærilega undir því að vera frumlegur og útsjónarsamur.  Um það vitnar nýjasta markaðsátak hans.  Það felst í því að hann kemur fram undir nafni 365 og leggst af fullum þunga á DV með kröfu um að blaðið birti nafn 18 ára stelpukrakka sem kærði mann á fertugsaldri og konu fyrir nauðgun. 

  Frumleikinn í gjörningnum er margþættur.  Fram til þessa hefur fólk ekki haft hugmyndaflug til að velta fyrir sér hvort undir einhverjum kringumstæðum eigi fjölmiðlar að birta nafn stelpukrakka sem kærir hópnauðgun.  Það þarf frumleika og kaldrifjaðar hvatir til að láta sér detta þetta í hug.  Hvað þá að krefjast þessa af dagblaði.

  Í annan stað er frumlegt af markaðsráðgjafa stærstu fjölmiðlasamsteypu landsins að krefjast þess af litlu dagblaði úti í bæ að framkvæma lágkúruna. 

  Útsjónarsemin liggur í einhverju sem ég átta mig ekki á.  En næsta víst er að þetta markaðsátak hlýtur að skila fjölmiðlum 365 fjölmennum hópi nýrra áskrifenda og ennþá fjölmennari hópi auglýsenda.   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband