Færsluflokkur: Sjónvarp
12.11.2010 | 00:08
Skemmtilegur samkvæmisleikur
Fréttablaðið og Morgunblaðið eru bæði með skemmtilegan dálk sem fylgir birtingu þeirra á dagskrá helstu sjónvarpsstöðva. Blaðamenn þessara dagblaða skrifa létta umsögn um sjónvarpsdagskrána. Úr þessu má gera sér léttan samkvæmisleik. Hann felst í því að við lestur dagblaðanna setur lesandinn fingur yfir höfund pistilsins. Veit þannig ekki hver er höfundur pistilsins. Leikurinn gengur út á það að giska á hvort kona eða karl skrifar pistilinn. Svo skemmtilega vill til að nánast undantekningarlaust er hægt að átta sig á hvort karl eða kona skrifar pistilinn.
Ef vísað er til klæðaburðar einhvers í sjónvarpsþætti eða eitthvað er nefnt sem tengist sápuóperum er næsta víst að kona er höfundur pistilsins. Ef hinsvegar fótbolti er nefndur eða eitthvað um pólitík er höfundurinn karl.
Prófið þennan leik. Í 99,9% tilfella er ágiskunin rétt um hvort karl eða kona er höfundur pistilsins. Það skemmtilega við þennan leik er að hægt er að afgreiða hann án aðstoðar utanaðkomandi.
29.10.2010 | 21:36
Vitlaust spurt í Útsvari
Spurningaþátturinn Útsvar var jafn skemmtilegur og fróðlegur í sjónvarpinu í kvöld og oftast áður. Afskaplega vel heppnaður þáttur í flesta staði. Þáttur sem ómögulegt er að missa viljandi af. Mér var þó afskaplega illa brugðið þegar spurt var: "Höfuðborg hvaða fylkis í Bandaríkjunum heitir Helena?"
Gefið var rétt fyrir svarið: Montana.
Montana er ekki fylki í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Montana er ríki í Bandaríkjunum. Höfuðborg Montana-ríkis er Helena.
Ég er miður mín yfir þessu.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)
4.9.2010 | 19:06
Myndbönd Gunnars Rúnars
Sjónvarp | Breytt 5.9.2010 kl. 08:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
25.7.2010 | 15:57
Sjáðu fjörið á G!Festivali í Götu í Færeyjum
Um síðustu helgi fór fram stærsta árlega tónlistarhátíðin í Færeyjum, G!Festivalið í Götu. Fulltrúar danska poppblaðsins Gaffa létu sig ekki vanta á svæðið. Sjónvarpsdeild vefmiðilsins gerir grein fyrir G!Festivalinu í máli og myndum. Það er gaman að skoða. Sjá:
Stuð, stuð, stuð! Og fjörið verður jafnvel ennþá meira á Færeyskum fjölskyldudögum á Stokkseyri um næstu helgi. Þar verða Eivör, Högni, Kristian Blak, Jens Lisberg, Angelika Nielsen og samtals hátt í tveir tugir færeyskra tónlistarmanna.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 16:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.7.2010 | 12:08
Bráðskemmtilegt viðtal við Michael Jackson
Viðtöl fjölmiðla við Michael Jackson voru fæst merkileg eða skemmtileg. Að minnsta kosti þau þekktustu. Á dögunum rakst ég hinsvegar á meðfylgjandi sjónvarpsviðtal þar sem kappinn fer á kostum. Ekki síst í "tunglgöngunni". Algjör snilld!
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.7.2010 | 21:34
Aulalegustu músíkmyndböndin
Netsíðan www.toptenz.net heldur utan um "Topp 10" lista af öllu mögulegu og ómögulegu tagi. Bara nefna það: Stjórnmál, mat, trúarbrögð, kynlíf, músík... Nú hefur verið settur þar inn listi yfir 10 aulalegustu músíkmyndböndin. Íslendingar eiga þar fulltrúa. Og ekki nóg með það. Íslenski fulltrúinn trónir í toppsætinu. Enda sættum við okkur ekki við neitt minna.
Hér eru næst aulalegustu myndböndin:
Númer 3: Mark Gormley og lagið "Little Wing". Þetta er aðal töffarinn í Pensacola í Florida (þar sem ég bjó einu sinni í hjólhýsahverfi). Hér er töffaranum stillt upp fyrir framan bakgrunn (green screen) og þetta er, jú, virkilega illa unnið og kjánalegt.
Númer 2: Kevin Ayers og lagið "Carabbian Moon". Kevin Ayers hefur gert margt flott. Hann var í bresku hljómsveitinni (stundum) mögnuðu og framsæknu Soft Machine. Jakob Magnússon spilaði með Kevin Ayers um tíma. En hefði aldrei sætt sig við svona aulalegt myndband. Jafnvel ekki 1973 þegar músíkmyndbönd voru rétt svo í burðarliðnum.
Og sigurvegarinn er: Leoncie og lagið "Ást á pöbbnum". Skammirnar á toptenz.net vita greinilega ekkert um hina stórkostlegu Leoncie. Þær lýsa þessu sem hámarki samspils vonds lags og vonds myndbands. Þær geta sér þess til að þegar persónurnar í myndbandinu hafi séð útkomuna hljóti þær að hafa gengið berserksgang.
Ég get ekki látið Kevin Ayers liggja óbættan hjá garði - þrátt fyrir aulalega myndbandið. Hér er syrpa með honum og hljómsveitinni Soft Machine. Bútar úr ýmsum lögum og mikið "prog", frábær trommuleikur og verulega vont sánd. Til gamans (ja, ekki rétta orðið) má geta að trommusnillingurinn Robert Wyatt flaug út um glugga á 3ju hæð og ætlaði að fljúga - í LSD partýi - yfir London í góðu veðri. Flugferðin varð ekki lengri en niður á gangstétt. Síðan hefur hann verið bundinn við hjólastól. Sem er frekar óheppileg staða fyrir mann sem var ítrekað sigurvegari í kosningum hinna ýmsu poppfjölmiðla um besta trommara heims.
Hér er Robert Wyatt í þessum líka fína hjólastól. Síðar söng hann inn á Medúllu plötu Bjarkar.
Sjónvarp | Breytt 13.7.2010 kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (40)
19.6.2010 | 22:56
Skiffle
Í hinum frábæra sjónvarpsþætti Popppunkti í kvöld var spurt um flytjanda skiffle-lagsins Rock Island Line með skoska söngvaranum Lonnie Donegan. Skiffle var og er merkilegt fyrirbæri rokksögunnar. Þetta var upphaflega blúsafbrigði í Bandaríkjunum á þriðja áratugi síðustu aldar. Þegar Skotinn Ewan McColl kynnti Bretum blúsinn á sjötta áratugnum skall skiffle-æði yfir Bretland. Þar fór Lonnie Donegan fremstur í flokki. Hann söng í skiffle-útfærslu fjölda bandarískra laga eftir Woody Guthrie og Leadbelly. Raðaði þessum skiffle-lögum á breska vinsældalistann.
Ef svona lög kæmu út í dag væru þau sennilega flokkuð sem létt órafmagnað kántrý-pönk.
Hljómsveitin The Quarrymen, sem varð síðar Bítlarnir, var skiffle-hljómsveit. Írinn Van Morrison var líka í skiffle-deildinni. Í myndbandinu hér fyrir ofan flytur skiffle-kóngurinn Lonnie Donegan lag úr smiðju Leadbellys. Í myndbandinu hér fyrir neðan flytur enska írsk-ættaða þjóðlagapönksveitin The Pogues eitt vinsælasta lag Ewans McColls, Dirty Old Town.
Til gamans: Dóttir Ewans, Kirsty heitin (það var siglt yfir hana úti fyrir Mexikó) átti vinsælt lag í flutningi leikkonunnar Tracy Ullman, They Don´t Know:
Sjálf skoraði Kirsty McColl hátt á vinsældalistum með lagi eftir Billy Bragg, A New England.
Annað frægt lag með Kirsty McColl og The Pogues er Fairytale of New York:
Annað flott lag með Billy Bragg er Seven and Seven is:
Billy Bragg hefur átt mörg lög á breska vinsældalistanum. Aðeins einu sinni hefur hann þó náð 1. sætinu. Það var með lagi Bítlanna, hljómsveitarinnar sem byrjaði sem skiffle-hljómsveit, She´s Leaveing Home:
Svo haldið sé áfram að teygja á tengingunni þá var eiginkona Ewans McColls, Peggy Seeger, systir eins frægasta söngvahöfundar Bandaríkjanna, Petes Seegers. Hann er meðal annars höfundur Turn, Turn, Turn. Eins þekktasta lags The Byrds:
Og Bells of Rhymney:
Hér er Pétur gamli sjálfur að syngja lag Woodys Guthries fyrir Hussein forseta Bandaríkjanna:
Af öðrum lögum Woodys Guthries er þekkt Pretty Boy Floyd með The Byrds:
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
4.6.2010 | 01:20
Það þarf að laga loka sekúndurnar í myndbandinu
Myndband sem kynnir og dregur upp ágæta mynd af þessum venjulegu sídansandi Íslendingum er í íslenskum fjölmiðlum jafnan kallað átakið (án frekari skýringa). Ég veit ekki hvað það er kallað í útlöndum. Hitt veit ég að myndbandið er um margt vel heppnað. Það á eftir að skerpa á vinsældum Emilíönu Torríni og hennar fjörlega Jungle Drum lagi. Það er hið besta mál. Verra er að allt annað lag er undir myndbandinu á þútúpunni (sjá hér fyrir neðan).
Ef vel er að gáð má sjá í lok myndbandsins að unglingsstelpa neglir hnénu á sér í kviðinn á hundi. Þetta hefði mátt vinna betur. Til að mynda með því að hin stelpan sparkaði í hausinn á kvikindinu eða lemdi kröftuglega með skóflu. Þá kæmi 100 ára gamall bóndi á dráttarvél og keyrði yfir skepnuna. Því næst tækju stelpurnar og bóndinn nokkur nett dansspor áður en bóndinn færi örfáa kollhnísa í loftinu, færi síðan í splitt og hlypi út í buskann á annarri hendi.
Það væri reisn yfir því.
Átakið hefur slegið í gegn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 02:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.5.2010 | 14:23
Skúbb! Ómar Ragnarsson og Andri Freyr í samstarf
Samkvæmt þokkalega áreiðanlegum heimildum hafa tveir af helstu skemmtikröftum og sprelligosum þjóðarinnar, Ómar Ragnarsson og Andri Freyr Viðarsson, ákveðið að stilla saman strengi sína í sumar. Þetta hljómar virkilega spennandi. Það fylgir reyndar ekki sögunni í hverju samstarfið mun nákvæmlega felast. Áreiðanlega verður það annað hvort eða bæði á sviði tónlistar og ljósvakamiðlunar.
Eftir Ómar liggja sennilega á annan tug hljómplatna og Andri Freyr hefur spilað á gítar með hljómsveitum á borð við Bisund, Botnleðju og Fidel. Ómar hefur til fjölda ára verið einn vinsælasti sjónvarpsmaður landsins og Andri Freyr einn vinsælasti útvarpsmaðurinn; núna síðast sem umsjónarmaður Litlu hafmeyjarinnar á rás 2 - ásamt Dodda litla.
Það hlýtur fljótlega að koma eitthvað fram um þetta væntanlega samstarf Ómars og Andra Freys. Á hvaða sviði sem það verður þá er þetta tilhlökkunarefni. Þó Ómar sé sennilega um sjötugt og Andri Freyr 20-og-eitthvað ára þá er næsta víst að þessir æringjar geta náð vel saman og spilað hvorn annan upp í allskonar sprell.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.4.2010 | 23:38
Magnaður texti sigurvegarans
Ég fylgdist með seinni hluta Söngkeppni framhaldsskólanna í sjónvarpinu áðan. Ég minnist ekki að hafa gert það áður. Hvorki fylgst með fyrri eða seinni hluta Söngkeppni framhaldsskólanna. Á árum áður hef ég stundum dottið inn í útsendingu frá keppninni. En verið fljótur að skipta yfir á aðra stöð. Ég veit ekki alveg hvers vegna ég skipti ekki um stöð núna er ég datt inn í útsendinguna. Kannski var það af því að kynnarnir voru í góðum gír og skemmtilegir þegar ég byrjaði að horfa. Kannski voru lögin hlustendavænni fyrir mín eyru en á fyrri árum. Kannski er ég að eldast illa. Kannski var þetta allt í bland.
Nema hvað. Sigurlagið, flutt af nemendum í Borgarholtsskóla, vakti aðdáun mína. Ekki lagið samt heldur magnaður texti annars söngvarans. Textinn var ávarp höfundarins til föður síns, eiturlyfjafíkils. Það var hrífandi að heyra hvað textahöfundurinn er opinskár með tilfinningar sínar, einlægur og beinskeyttur. Framsetningin var einföld og hnitmiðuð. Og túlkun söngvarans sem rappara einnig. Ég heyrði ekki lögin í fyrri hluta keppninnar. En sigur Borgarholtsskóla var verðskuldaður. Það er alveg klárt. Það hefur enginn toppað framlag þessara drengja.
Borgarholtsskóli sigraði í söngkeppninni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (73)