Færsluflokkur: Sjónvarp

Áríðandi að leiðrétta

  Í fréttum sjónvarpsins af nýjustu tíðindum frá bandarísku  Frægðarhöll rokksins  (Hall of Fame) var fullyrt að breska hljómsveitin The Hollies hefði verið nefnd í höfuðið á rokksöngvaranum Buddy Holly.  Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég heyri þessu haldið fram.  Á Wikipedíu er Graham Nash borinn fyrir þessari sögu.

  Hið rétta er að nafnið Hollies var upphaflega sótt í greinar af jólatrjám.  Þessar greinar eru hengdar upp hér og þar yfir jól á heimilum í Manchester á Englandi og víðar.  Það mætti þýða orðið  hollies  sem hátíðarskraut.  Kannski.  Eða eitthvað í þá áttina.

  Hitt má fylgja sögunni að liðsmenn The Hollies kunnu vel við rokk Buddys Hollys.  Eins og flestir aðrir sem tilheyrðu kynslóð bítlarokkara sjöunda áratugarins.  Vel má vera að Graham Nash hafi einhversstaðar sagt í hálfkæringi og galsa að nafn hljómsveitarinnar væri tilvísun í Buddy Holly.  En Graham Nash er þekktur lygari.   

  The Hollies voru aldrei sérlega graðir rokkarar.  En reyndu sitt besta samt stundum.  Jamaíski reggípopparinn Jimmy Cliff hefur heldur aldrei verið mikill rokkari.  Hann var vígður inn í  Frægðarhöllina  á sama tíma og The Hollies:

  Bandaríska hljómsveitin The Stooges var einnig vígð í  Frægðarhöllina.  Sú hljómsveit rokkar:

 


Hannes grét

  Eftirfarandi er tekið af bloggi Valgerðar Bjarnadóttur á Eyjunni.  Þetta er frásögn Hreins Loftssonar,  fyrrum formanns einkavinavæðingarnefndar Davíðs Oddssonar á bönkum þjóðarinnar.  Frásögnin er lítillega stytt af mér (einkennd með þrípunktum).  Hún gefur skarpa mynd af stemmningunni:

  "...þegar Falun Gong kom til landsins... til að vekja athygli á harðneskju kínverskra stjórnvalda gegn andófsmönnum í Kína í tilefni af opinberri heimsókn kínverska forsetans, Jiangs Zemin, til Íslands... Davíð Oddsson var forsætisráðherra...

Hannes H. Gissurarson... vildi setja nafn sitt á auglýsingu til að mótmæla framkomu íslenskra stjórnvalda gagnvart Falun Gong. ...þeir fengu ekki að koma til landsins og voru... settir í einhvers konar búðir í Njarðvík, áður en þeim var snúið til baka, þeim, sem á annað borð komust til landsins. Mótmæli Falun Gong felast í ákveðnum æfingum og eru án ofbeldis.

Hannes hringdi í mig vegna þess að hann óttaðist um sinn hag. Ef hann myndi setja nafn sitt á auglýsinguna myndi hann falla í ónáð hjá leiðtoga sínum, Davíð Oddssyni. Ég sagði honum, að Davíð gæti ekki og mætti ekki hafa þau áhrif á hann, þennan mikla andstæðing kommúnisma og fasisma, lærisvein Hayeks, að hann þyrði ekki að standa með sannfæringu sinni gegn ofríki kommúnismans. Okkur bæri skylda til að taka stöðu með andófsmönnum kommúnismans. Davíð hlyti að skilja þetta. Hannes væri einn helsti hugmyndafræðingur íslenskrar frjálshyggju... Ég hvatti hann eindregið til að setja nafn sitt á auglýsinguna. Hannes gerði það líka...

Nokkrum dögum síðar hringdi Hannes grátandi, ég meina ekki kjökrandi heldur háskælandi í mig vegna þess, að hann næði engu sambandi við Davíð... Davíð svaraði ekki skilaboðum, tæki ekki símann og virti hann ekki viðlits. Mér brá. Var þetta virkilega Hannes H. Gissurarson, vinur minn og félagi í baráttunni gegn hinum alþjóðlega kommúnisma? Maðurinn, sem ég hafði litið upp til öll þessi ár? Var þetta þá styrkurinn, sannfæringin? Grátandi af ótta við að missa stöðu hjá leiðtoga sínum?

Ég sagði Hannesi þá skoðun mína, að hann yrði að herða upp hugann og standa á sannfæringu sinni. Ef Davíð... væri ekki stærri maður en þetta, ef hann skyldi ekki stöðu Hannesar gagnvart svona einföldu máli, þá yrði hann að una því. Davíð væri þá einfaldlega ekki stuðnings okkar virði.

Ég heyrði ekki frá Hannesi í nokkra daga eftir þetta símtal... Það er erfitt að hlusta á fullorðinn mann gráta. Örfáum dögum síðar hringdi Hannes aftur og þá lá vel á honum. Hann sagði, að hann hefði loksins náð sambandi við Davíð, sem hefði skammað sig hraustlega fyrir að taka stöðu með andstæðingum sínum með því að mótmæla meðferðinni á Falun Gong. Það skyldi hann ekki gera aftur. Hann hefði hlaupið á sig. Að sjálfsögðu hefði verið nauðsynlegt að taka hart á þessu fólki... Íslensk stjórnvöld gætu ekki með öðrum hætti tekið á svona mótmælendum... Hannes(i)... leið... vel, að vera kominn í náðina á nýjan leik..."


mbl.is Svar komið vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færeyingar fylgdust náið með íslenska júrivisjóni

 

  Færeyingar fylgdust spenntir með framgangi Jógvans í forkeppninni á Íslandi í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.  Ég held að sumir færeyskir fjölmiðlar hafi sent fréttamenn til Íslands til að fylgjast með.  Svo snöggir voru færeyskri netmiðlar að birta úrslitin.  Áður höfðu færeyskir fjölmiðlar haft samband við mig og spurt út í forkeppnina á Íslandi.  Ég varð að segja þeim eins og er að hún væri fyrir utan mitt áhugasvið og ég fylgdist ekki með.  Aldrei þessu vant var ég þess vegna ekki í gír til að tjá mig neitt eða gefa upplýsingar um það sem spurt var um.  En ég varð var við keppnina út undan mér.

  Nú liggur fyrir að lag Heru Bjarkar fékk 21.694 atkvæði og lagið sem Jógvan söng 21.471 atkvæði.  Þarna munaði mjóu. 

  Sigurður Hreiðar bendir réttilega á í bloggi sínu að nafn Jógvans skuli rétt framborið Jeggvann.  Við Íslendingar getum borið nafnið fram sem "Ég vann".  Að vísu er örlítill framburðarmunur á þessu nafni á milli eyjanna í Fjáreyjum.  Svo örlítill að við skulum halda okkur við "Ég vann".  Jógvan kemur frá Akureyri Færeyja,  Klaksvík.  Þar er framburður aðeins harðari en á suðureyjum.  Jógvan kom inn á kortið í Færeyjum á unglingsárum sem söngvari "sítt að aftan" hljómsveitarinnar Aria,  sem var einskonar BARA-flokkur norðursins. 

  Í leiðinni er ágætt að árétta að nafn Eivarar er framborið Ævör.  Ef smámuna semi er beitt eru sérhljóðar í færeysku jafnan bornir fram sem samhljóðar.  Nákvæmur framburður er því Eavör. 

  Til gamans má geta að lagið sem Eivör syngur hér er eftir frábæran færeyskan söngvahöfund,  Hanus G.  Hann er einskonar færeysk útgáfa af Megasi og Gunnari Þórðarsyni.  Hann er um sextugt;  hefur aðeins sent frá sér 3 plötur (ein er kassetta).  Hann sniðgengur hljóðver, er töluvert sérstakur og yndisleg persóna.  Ungir færeyskir tónlistarmenn dýrka hann og kráka (cover songs) hans lög grimmt.  Ég hef kynnst þessum snillingi og það er auðvelt að átta sig á hvers vegna ungir færeyskir tónlistarmenn og tónlistarunnendur hafa hann í hávegum.   Til gamans má geta að á lagalista hans er "Fatlafól" Megasar.  Þegar Hanus þá sjaldan kemur fram er söng hans jafnan drekkt í fjöldasöng áheyrenda.  Þessi maður er goðsögn.      

 

  Færeyingar fylgdust einnig spenntir með danska júrivisjón.  Þar keppti til úrslita Færeyingurinn Jens Marni.  Sá hinn sami og heillaði Íslendinga upp úr skónum á Færeyskum dögum á Stokkseyri síðastliðna verslunarmannahelgi.

  Ekki alveg mín bjórdós.  En áreiðanlega einhverra.

-----------------------------------------------------

Jógvan gjørdist nummar tvey

    Grand Prixið í Íslandi er nú av, og føroyski Jógvan Hansen megnaði heldur ikki hesaferð at vinna kappingina. Hann gjørdist nummar tvey.

Við einari frálíkari framførslu trein Jógvan Hansen í kvøld á pall í Íslendska Melodi Grand Prixinum við lagnum ”One more Day”.

Hóast framførslan var sera góð eydnaðist tað ikki Jógvani Hansen at vinna kappingina.

Sostatt er greitt, at føroyingar onga umboðan fáa í Olso seinni í ár, hóast bæði Jens Marni Hansen og Jógvan Hansen í kvøld hava verið sera tætt við.

   


Færeyingar rúlla Dönum upp

 

  Á sama tíma og Íslendingar halda áfram að hasla sér völl í færeysku viðskiptalífi velta danskir fjölmiðlar fyrir sér hvers vegna færeysku tónlistarfólki gengur hlutfallslega vel á danska markaðnum.  Færeyingar eru rösklega 48 þúsund,  eða eins og lítið þorp,  í danska sambandsríkinu sem telur hátt í 6 milljónir manna. 

  Færeyska innrásin í Danmörku hófst í ársbyrjun 2002 er þungarokkshljómsveitin Týr sigraði í dönsku tónlistarkeppninni Melody Makers.  Týr náði bæði titlinum "Besta hljómsveitin" (valin af dómnefnd) og "Vinsælasta hljómsveitin" (valin af almenningi).  Í kjölfarið sló Týr í gegn hérlendis með laginu  Ormurinn langi.  Það er önnur saga.

  Sigur Týs í Melody Makers vakti mikla athygli og mikla umfjöllun í dönskum fjölmiðlum.  Augu Dana var beint að Færeyjum.  Það leiddi til þess að færeysku hljómsveitinni Clickhaze var boðið að spila á Hróarskeldu.  Þar heillaði hún danska gagnrýnendur upp úr skónum.  Margir þeirra sögðu hljómleika Clickhaze hafa verið toppinn á Hróarskeldu hátíðinni það sumarið.  Í Jyllands-Posten var frammistöðu Clickhaze lýst á þann hátt að söngkona hljómsveitarinnar,  Eivör,  hefði blásið Björk út í hafsauga.  Lesendur voru hvattir til að gleyma Björk.  Eivör væri framtíðin.  Eivör mótmælti þessari söguskoðun í öllum viðtölum þar sem þetta bar á góma. Sagðist vera aðdáandi Bjarkar og frábað sér að taka þátt í samanburði á sönghæfileikum þeirra.  Þegar ég var kynnir á hljómleikum Clickhaze á Grand Rock 2002 og vitnaði til þessara ummæla Jyllands-Posten hóf Eivör hljómleikana með þeim orðum að Björk sé frábær og ummæli JP algjörlega út í hött. 

  Síðar heillaði Evör Dani sem sólósöngkona.  Hún hefur fengið margar útnefningar og nokkur verðlaun í dönsku tónlistarverðlaununum.  Einnig tók stórsveit danska ríkisútvarpsins upp á því að útsetja lög Eivarar og flytja í útvarpinu.  Það starf þróaðist þannig að síðar söng Eivör lögin með hljómsveitinni inn á plötu.

  Teitur er annar færeyskur tónlistarmaður sem nýtur vinsælda og virðingar í Danmörku.  Hann hefur verið drjúgur við að fá tilnefningar og verðlaun í dönsku tónlistarverðlaununum. 

 

  Högni Lisberg er enn einn færeyski tónlistarmaðurinn sem hefur haslað sér völl í Danmörku,  spilað á Hróarskeldu og fleiri dönskum tónlistarhátíðum.

  Fyrir tveimur árum vakti pönkskotin færeysk popprokksveit,  The Dreams,  athygli í dönsku "Músíktilraunum".  The Dreams hafnaði í 2.  sæti og sló hressilega í gegn.  Enginn man lengur eftir hljómsveitinni sem sigraði en The Dreams hefur raðað lögum í 1. sæti danska vinsældalistans og sigrað í ótal vinsældakosningum.  The Dreams er ofur vinsæl í Danmörku. 

  Fyrir 2 árum eða svo kom færeyska söngkonan Guðrun Sölja,  sá og sigraði í söngvarakeppninni "Stjarna kvöldsins" í danska sjónvarpinu.  Í fyrra endurtók færeyska söngkonan Linda Andrews leikinn í danska X-factor.  Í ár er færeyska söngkonan Anna Nygaard á fljúgandi siglingu í danska X-factor og virðist sigurstrangleg.

  Þetta er ástæðan fyrir því að danskir fjölmiðlar spyrja sig hvernig á því standi að færeyskir tónlistarmenn séu svona sigurstranglir hvar sem til þeirra spyrst.  Danir vísa jafnframt til þess að færeyski söngvarinn Jógvan sigraði í íslensku X-factor og sé kominn í lokaúrslit í forkeppni Júrivisjón á Íslandi. 

  Hér fyrir neðan er forsíðufrétt í danska Berlingske Tidene af því að færeyska söngkonan Anna Nygaard meiddi sig á hökunni.  Hún missteig sig í stiga og féll við.

x-factor anna          


mbl.is Hilda hf. eignast í Færeyjabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kolbrenglaðar mælingar á útvarpshlustun

  Mér hefur borist til eyrna að á morgun muni Samkeppniseftirlitið halda fund.  Helsta fundarefni verður hvernig Capacent Gallup stendur að mælingu á hlustun á útvarpsstöðvar og gón á sjónvarp.  Vandamálið er að núna eru þessar mælingar rafrænar.  Þrír aðilar eiga rafrænu græjurnar.  Það eru RÚV,  365 miðlar og Skjár 1.  

  Útvarps- og sjónvarpsstöðvar í eigu annarra geta verið með.  En það kostar 4 milljónir fyrir hverja þeirra.  Útvarp Saga,  Kaninn,  Flash,  Lindin,  alkastöðin og hvað hún heitir útvarpsstöðin á Selfossi hafa ekki fjárhagslegt svigrúm né vilja til að afhenda keppinautunum 4 milljónir.  Áreiðanlega er sama staða uppi hjá ÍNN,  Omega og N4.

  Fyrir bragðið mælir Capacent Gallup ekki gón á litlu sjónvarpsstöðvarnar eða hlustun á fjölda útvarpsstöðva.  Þar með er niðurstaða hlustunar á útvarpsstöðvar skökk.  Auglýsingastofur og aðrir stórir auglýsendur sitja uppi með villandi upplýsingar þegar verið er að reikna út snertiverð auglýsinga í útvarpi.  Þessum aðilum vantar inn í reikningsgögnin rétta mynd af útvarpshlustun landsmanna.

  Skortur á heildarmyndinni veldur því að auglýsendur sniðganga útvarpsstöðvar sem hvergi er minnst á í gögnum Capacent Gallup.  Þetta þýðir að RÚV og 365 miðlar halda keppinautunum úti í kuldanum.  Beita fjárhagslegu svigrúmi sínu til þess að halda keppinautunum frá auglýsingamarkaðnum.  

  Samkeppniseftirlitið hlýtur að taka þetta föstum tökum. 

utvarp_saga.jpg

                                     

      

 

 

 

 

.


mbl.is Samruni sendur aftur til Samkeppniseftirlitsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært lag

  Ég veit ekkert um boltaleiki.  Þykir þeir allir hundleiðir áhorfs og er alltaf slétt sama um hverjir böðlast í þessum krakkaleikjum óháð því hverjir eru að sprikla hverju sinni.  Hinsvegar dúkka stundum upp flott lög þegar boltaleikir í sjónvarpinu eru auglýstir.  Sérstaklega er gaman þegar þar eru spiluð lög með The Sex Pistols eða The Clash.  Núna keyrir Sjónvarpið boltaauglýsingu með "intrói" lagsins  I Fought the Law  með The Clash.  Eitthvað EM sem ég veit ekki hvað er.  Kannski Evrópumót boltaleikja óþroskaðra drengja sem hafa ekkert betra við tímann að gera en elta uppblásna tuðru?  Skiptir ekki máli af minni hálfu. Hún gefur upp boltann fyrir að rifja upp þetta ágæta lag sem tvívegis hefur farið hátt á vinsældalista víðsvegar um heim.  Takið eftir skemmtilegum áherslum trommuleiks Toppers Headons sem keyrir glæsilega upp hrynjanda lagsins.

  Er þetta norski fáninn sem trónir í bakgrunni?


mbl.is "Fingur" Nevilles til rannsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

X-factor og Idol stórskaðlegir samfélaginu

x-factor

  Flestir halda að sjónvarpsþættir á borð við X-factor og Idol séu meinlausir.  Þeir séu saklausir samkvæmisleikir.  Þeir hafi jafnframt þann kost að óþekktum söngvurum er gefið tækifæri á skjótfenginni frægð og frama.  Sálfræðingurinn Anna D. Hentze er heldur betur á annarri skoðun.  Hún fullyrðir að þessir sjónvarpsþættir upphefji einkenni eineltis og hafi þannig skaðleg áhrif samfélagið. 

  Það gerist þannig:  Áhorfendur skilgreina ósjálfrátt dómarana sem fyrirmyndir.  Gallinn sé sá að dómararnir hiki ekki við að gera lítið úr keppendum.  Hæða þá með niðrandi athugasemdum og slá sér upp á meinfýsnum bröndurum á kostnað keppendanna.  Verstu útreið fá þeir keppendur sem standa sig ekki vel.  Vinsældir þáttanna snúast að verulegu leyti um að niðurlægja þá.  Fórnarlambið er í erfiðri stöðu.  Þó það reyni að bera hönd fyrir höfuð sér eru hlutföllin 3 dómarar á móti einum keppanda.  Til viðbótar leika framleiðendur sér að því að klippa þættina þannig að fórnarlambið líti sem kjánalegast út í sjónvarpinu.  Það selur. 

  Áhorfendur fá þau skilaboð að það sé í góðu lagi að niðurlægja aðra.  Og ekki bara það heldur að þannig framkoma sé beinlínis vænleg til vinsælda.
  Ég hef ekki sett mig nægilega vel inn í þessa þætti til að átta mig á hvort eitthvað er til í kenningu sálfræðingsins knáa.  Veist þú eitthvað um þessa þætti?
.

Mikilvægt að leiðrétta

  Ég sat límdur yfir undanúrslitakvöldi Söngvakeppni evrópskra sjónvarpstöðva í kvöld.  Eins og allir landsmenn.  Nei,  þetta er reyndar ekki rétt.  Mér varð á að snæða á veitingahúsi þar sem þessi viðbjóður djöfulsins var í gangi.  Ókey,  þetta er kannski yfirdrifin lýsing.  Júrivisjón er bara ekki mín bjórdós.  Mér heyrðist samt vera þolanlegt að hlusta á Dalvíkinginn Matta Matt kráka (cover song)  Paradise City  Guns N´Roses.  Svona einu sinni að minnsta kosti.  Ég er jákvæður gagnvart Dalvíkingum og Guns N´Roses.  Einkum eftir að ég var staddur í Stokkhólmi í Svíþjóð er söngvari GNR,  Axl Rose,  beit þar hótelþjón í fótinn.  Við það missti Axl út úr sér gervigóminn sem hélt áfram að hanga samanbitinn í buxum þjónsins eftir að lögreglan stakk Axl í steininn.  Það er að segja gómurinn hékk í buxunum en ekki þjónninn.

  Í því broti af Söngvakeppninni sem ég sá mér til leiðinda á matsölustað fluttu Ingó "veðurguð" og Jóhanna (nei,  ekki Sigurðardóttir) Guðrún lagið  It Ain´t Me,  Babe.  það var kynnt sem Johnny Cash  lag.  Hið rétta er að þetta er Bob Dylan lag.  Vissulega hefur Jón Reiðufé raulað lagið af sinni alkunnu snilld inn á plötu.  Eins og margir aðrir.  En þetta er eitt þekktasta lag Dylans.  Sívinsælt í hans flutningi og Joan Baez,  Bryans Ferrys,  Duane Eddy,  Jan & Dean,  Peter Paul & Mary,  Earls Scruggs,  Nancy Sinatra,  The Turtles og fjölda annarra.  Flott lag.  1000 sinnum flottara en allt Júróvisjón prump til samans.

  Takið eftir hvernig söngurinn hjá Dylan flýgur óvænt háflug á 48. sek.


mbl.is Lögin tvö sem komust áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig fannst þér áramótaskaupið?

  Hvað segið þið um áramótaskaupið?  Mér þótti það ágætt.  Ekki það allra besta en samt ágætt. Hrifnastur var ég af stuttu bröndurunum: Þegar spurt var um kattatungur og starfsmaður vísaði á kjötborðið. Líka þegar spurt var í verslun um drullusokka og vísað á Landsbankann. Einnig þegar "Bjarni Ármanns" þakkaði þjóðinni árangur í maraþonhlaupi hlaupandi undan reiðri þjóð. Svo og þegar tölvupóstur var sendur á Alla Reynis = alli.r = allir@.  Að ógleymdu þegar fálkaorða fylgdi hverjum kassa af morgunkorni. 

  Ég veit ekki hversu snjallt var að leggja í skaupinu út af kvikmyndinni  The hangover.   Ég hef orðið var við að margir hafa ekki séð þá ágætu grínmynd og föttuðu því ekki tilvísanir í hana.  En fyrir þá sem hafa séð þessa mynd gaf það skaupinu tiltekna vídd. 

  Halldór Einarsson,  aðalhöfundur skaupsins,  þarf ekki að flýja land.  Þetta var ágætis skemmtun.  Hvað fannst þér?

  Smá upprifjun frá skaupinu í fyrra:


mbl.is Árið kvatt með ljósum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvikmyndarumsögn

bjarnfreðarson plakat

 - Titill:  Bjarnfreðarson

 - Leikstjóri:  Ragnar Bragason

 - Handrit:  Ragnar Bragason,  Jón Gnarr,  Pétur Jóhann Sigfússon,  Jörundur Ragnarsson og Jóhann Ævar Grímsson

 - Einkunn:  ****1/2 (af 5)

  Flestir kannast við sjónvarpsþættina  Næturvaktina,  Dagvaktina og Fangavaktina.  Þetta eru einhverjir albestu gamanþættir sem framleiddir hafa verið og sýndir í íslensku sjónvarpi (öfugt við  Martein  sem er versta "gaman"myndasería í íslensku sjónvarpi).  Kvikmyndin  Bjarnfreðarson  er einskonar lokapunktur aftan við sjónvarpsþættina.  Afskaplega vel heppnaður lokapunktur. 

  Kvikmyndin kemur á óvart.  Það er mun meiri dýpt í henni en sjónvarpsþáttunum,  meira drama og hún er vandaðri í alla staði;  meira í hana lagt.  Framvindan tekur nokkra óvænta vinkla,  sagan gengur vel upp og fær farsælan endi. 

  Eins og nafn myndarinnar gefur til kynna er sjónum einkum beint að Georgi Bjarnfreðarsyni.  Við fáum að kynnast æsku hans,  mömmu hans,  afa og ömmu.  Hægt og bítandi fær áhorfandinn skilning á því hvers vegna Georg hefur orðið þessi brenglaði maður sem hann er.  Áður en myndin er á enda örlar jafnvel á því að maður vorkenni Georg pínulítið.

  Góðkunningjar Georgs,  Ólafur Ragnar og Daníel,  úr vaktaseríunum eru í stórum hlutverkum sem fyrr.  Það er ekki sanngjarnt að segja að neinn steli senunni en Ólafur Ragnar á fyndnustu senurnar.  Já,  þetta er gamanmynd.  Mynd sem ég mæli með fyrir alla aldurshópa sem virkilega góðri skemmtun.  Hún á eftir að verða klassík.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband