Færsluflokkur: Spil og leikir

Einn að misskilja!

  Bono Vox.  söngvari írsku rokkhljómsveitarinnar U2,  blandar iðulega inn í hljómleikadagskrá hljómsveitarinnar hugleiðingum um trúmál,  stríð og frið,  fátækt,  hungur,  mengun og svo framvegis.

  Svo bar til að U2 hélt hljómleika í Skotlandi.  Á miðjum hljómleikum stöðvaði Bono tónlistina og bað áheyrendur um algjöra þögn.  Síðan byrjaði hann að klappa saman höndum.  Hægt en taktfast.  Í salnum ríkti þögn í langan tíma á meðan.  Loks tók Bono til máls og tilkynnti með þunga í röddinni:  "Í hvert sinn sem ég klappa saman höndum þá deyr barn í afríku."

  Mjóróma rödd framarlega í salnum hrópaði reiðilega á móti með sterkum skoskum hreim: "Hættu þá að klappa, óþokkinn þinn!"     


Ógeðfelld grilluppskrift

  Þessa dagana eru netsíður,  blöð og tímarit uppfull af tillögum um hitt og þetta varðandi grill og matseld.  Lesendur eru hvattir til að brjóta upp hversdaginn og prófa þetta og hitt á grillið.  Fyrirsagnirnar eru:  "Tilvalið að grilla pizzur með banönum og bláberjum!"  "Tilvalið að grilla pizzur með ís og súkkulaði!"  "Tilvalið að grilla pizzur með lifrapylsu!". 

  Ólystugasta uppskriftin birtist fyrir nokkrum árum í dagblaði.  Þar sagði:  "Tilvalið að grilla pizzur með börnunum!"  Ég hef ekki getað hætt að hugsa um þetta.  Að vísu er víða þröngt í búi,  börn dýr í rekstri og það má alltaf búa til fleiri börn.  Samt... 

pizza


Þessi vitneskja getur bjargað lífi

  Íslendingar eru óvanir að rekast á ísbirni á förnum vegi.  Sú staða kemur þó upp af og til.  Vitað er um 600 ísbirni sem hingað hafa rekið á land frá Ameríku.  Einkum Grænlandi.  Hætt er við að þeim fjölgi í kjölfar hnattrænnar hlýnunar.  

  Birnir eru hættulegir fólki.  Ekki síst ef þeir eru soltnir eftir langt sjórek.  Röng viðbrögð eru að reyna að hlaupa birni af sér.  Bangsi hleypur miklu hraðar.  Að auki espir hlaupandi manneskja upp veiðieðli dýrsins. 

  Heppilegri viðbrögð eru að lyfta höndum upp fyrir höfuð og syngja ljúfa ballöðu.  Björninn þekkir af reynslu að stærra dýr er líklegra til að sigra í átökum.  Hendur upp yfir höfði hækka manneskjuna. 

  Þekkt eru dæmi þess að birnir láta syngjandi fólk í friði.  Ástæðan er sú að söng mannsins svipar til væls í húnum.  Þetta virkar á ísbirni, skógarbirni, svartbirni og Birni Bjarnasyni.     

bangsi   


Smásaga um hlýjan mann

  Það er ofsagt að Fúsi flatskjár sé ekki eins og annað fólk.  Til að mynda svipar honum mjög til föðurbróður síns:  Sama sljóa augnráðið.  Sama lafandi neðri vör og flæðandi slef í munnviki.  Einhverra hluta vegna forðast fólk drenginn.  Kannski vegna þess að hann þrífur sig ekki.  Hann fer hvorki í sturtu né bað.  Ástæða er til.  Hann hefur séð hrollvekjandi sturtuatriði í bíómynd Alfreds Hitchock.  Veit því að sturtur eru stórhættulegar.

  Fúsi hefur tvívegis farið í bað.  Í bæði skiptin með skelfilegum afleiðingum.  Í annað skiptið var hann næstum drukknaður.  Hann er nefnilega ósyndur.  Honum til lífs varð að baðkarið var vatnslaust.  Vatnsveitan var búin að loka fyrir vatnið til hans vegna vanskila.

  Í hitt skiptið gerði hann vel við sig:  Keypti margar plastendur og leikfangabáta.  Með þetta fór hann í bað.  Það var svo gaman að hann gleymdi sér.  Rumskaði ekki fyrr en eftir langan tíma að síminn hringdi.  Mjög langan tíma því Fúsi er ekki með síma.  Vatnið var orðið ískalt.  Kauði skalf eins og vibrator í hæsta gír.  Hann fékk lungnabólgu og missti matarlyst í tvo daga.  Það var áfall.  Fáir eru gráðugri.  Sósur af öllu tagi sullast yfirleitt yfir peysuna sem hann fer aldrei út.  Þar má sjá fjölbreytt sýnishorn af matseðli síðustu vikna. 

  Fúsi er hlýr maður.  Hann elskar að faðma fólk og skella slefblautum kossi á kinn eða munn.  Hann er oft á vappi til að leita að einhverjum sem hann kannast við.  Þá ljómar hann eins og tungl í fyllingu.  Andlitið verður eitt slefandi bros svo skín í gulan og skörðóttan tanngarðinn.  Glaðbeittur kjagar hann með útbreiddan faðm að fórnarlambinu.  Viðbrögðin eru jafnan að hann horfir á eftir veinandi og hlaupandi fólki út í buskann á hraða sem myndi skila verðlaunasæti á Ólympíuleikum.   Eftir stendur kjökrandi maður.  Slefandi bros breytist í slefandi skeifu.

  Foreldrarnir skipta sér lítið af drengnum.  Þeir hafa aldrei samband að fyrrabragði.  Ekki einu sinni á afmælisdegi hans.  Mamman afsakar sig með því að fyrir handvömm hafi gleymst að skrá afmælisdag hans í afmælisdagabók heimilisins.  Engin hafi því hugmynd um hvenær hann eigi afmæli.  Ef hann eigi þá einhvertímann afmæli.  Og þó mamman vildi hringja í hann á afmælisdegi þá er óhægt um vik út af símleysi hans.     

  Fúsi hringir stundum úr tíkallasíma í mömmuna.  Oftast slitnar símtalið um leið.  Það er ólag á tíkallasímum.  Nema þegar Fúsi pantar sér pizzu.

  Eitt sinn bankaði Fúsi upp hjá nágrannakonu.  Hann kvartaði undan kvenmannsleysi.  Hún tók honum vel en benti á að hann skorti kynþokka.  Ráð væri að fylgjast með fréttum af fræga fólkinu.  Herma síðan eftir klæðnaði þess.  Það var eins og við manninn mælt:  Gullfalleg kona hóf þegar í stað sambúð með kappanum.  Að auki kom hann sér eldsnöggt upp tveimur viðhöldum:  Einni konu og einum karli. 

heppinn 


Anna frænka á Hesteyri í fasteignabraski

   Fullorðin hjón frá Fáskrúðsfirði brugðu sér í heimsókn til Önnu Mörtu frænku minnar á Hesteyri.  Þau eru náttúruunnendur eins og hún.  Þau þrjú röltu saman um land Hesteyrar og drukku í sig fegurð landsins.  Nokkru fyrir ofan íbúðarhúsið er lítill foss.  Hjónin göntuðust með að þarna væri fullkomið umhverfi fyrir sumarbústað.

  Anna tók þau á orðinu og sagði:  "Þið getið fengið landskika hérna á 43 þúsund kall."

  Maðurinn hváði og spurði undrandi hvort hún væri að tala í alvöru. 

  "Ég skulda símreikninginn,"  útskýrði Anna.  "Hann er 43 þúsund.  Hann má ekki vera í vanskilum.  Þið mynduð alveg bjarga mér."       

  Höfð voru snör handtök.  Pappírar útbúnir,  þinglýstir, gengið frá greiðslu,   símreikningnum bjargað fyrir horn og sumarbústaður reistur.

  Framhald í næstu bloggfærslu...

Hesteyri

  Ps.  Þetta var undir lok síðustu aldar.  Gengi krónunnar var annað.  Hugsanlega má þrefalda verðgildið á gengi dagsins í dag.    


Safaríkt 1. apríl gabb

  Áður en langt um líður þarf fjölmiðlafólk að leggja hausinn í bleyti og upphugsa gott 1. apríl gabb.  Á árum áður gekk gabbið út á að fórnarlambið hlypi yfir þröskuld.  Helst jafnvel 3 þröskulda.  

  Í dag eru þröskuldar á undanhaldi.  Eflaust skýrir það að hluta hvers vegna gabbið hefur gengisfallið.  Fjölmiðlar og fleiri eru að slá upp lygafrétt 1. apríl án þess að nokkur hlaupi.  Til að mynda frétt um að einhver nafngreindur væri að hefja störf á nefndum fjölmiðli.  Eða að tónlistarmaður væri að ganga í nefnda hljómsveit.  Þetta eru hvorutveggja raunveruleg 1. apríl göbb sem voru andvana fædd.  Enginn hljóp.  Enginn hló.

  Safaríkara var um árið gabb starfsfólks veitingastaðar á Höfn í Hornafirði.  Það hringdi í lögguna og tilkynnti um brjálaðan mann í sturlunarástandi sem væri að rústa klósettinu.  Lögreglumenn brugðu við skjótt.  Er þeir ruddust með látum og kylfur á lofti inn á staðinn mættu þeim hlátrarsköll starfsfólks og gesta sem hrópuðu:  "1. apríl!" 

  Full ástæða er til að endurnýta þetta hressilega gabb;  hringja í slökkvilið,  sjúkrabíl,  björgunarsveitir og láta liðið hlaupa 1. apríl.  Það yrði hamagangur í öskjunni!

hlaup

  


4 lög með Bítlunum sem þú hefur aldrei heyrt

  Flestir hafa heyrt flest lög bresku Bítlanna.  Flestir kveikja á perunni þegar þeir heyra í fyrsta skipti einhver önnur Bítlalög.  Söngstíllinn og fleiri sérkenni svipta hulunni af þeim.  En það eru til lög með Bítlunum sem þú hefur aldrei heyrt.  Lög sem eru aldrei spiluð í útvarpi.   

  Undarlegasta lagið heitir Revolution 9.  Það er eftir John Lennon.  Uppskriftin er sú að ekki sé hægt að tralla með laginu né slá takt með því.  Ekki nóg með það heldur er þetta lengsta lagið á Hvíta albúminu.  Það spannar á níundu mínútu. 

  Annað lag heitir The Inner Light.  Það er eftir George Harrison og var gefið út á B-hlið smáskífunnar Lady Madonna.

  Svo er það Good Night á Hvíta albúminu.  Það er eftir John Lennon en sungið af Ringo. 

   Upphaflega ætlaði John Lennon að hafa You Know My Name á Hvíta albúminu.  Hann hætti við það og ætlaði að gefa það út á smáskífu með hljómsveit sinni Plastic Ono Band.  Lagið endaði hinsvegar sem B-hlið Bítlasmáskífunnar Let It Be.  Paul hefur upplýst að hann hafi aldrei skemmt sér betur við hljóðritun Bítlalags en á þessu lagi. 


Aldeilis furðulegt nudd

  Ég varð fyrir því að annar fóturinn bólgnaði um of og varð óþægilega aumur.  Ráðið var að fara í sjúkranudd.  Hugmynd mín um nudd reyndist allt önnur en raunveruleikinn.  Ég var látinn leggjast á bekk.  Þétt upp við bólguna var lagt tæki sem líktist Mackintosh (Quality Street) konfektdós.  Nema það var ekki skrautlegt á litinn.  Það var tengt við annað tæki sem líktist nettum ísskáp.

  Nuddarinn ýtti á takka,  settist niður og tók að skrifa á blað.  Mig grunar að hann hafi verið að yrkja ljóð.  Að nokkrum tíma liðnum kvartaði ég undan því að ekkert væri að gerast.  Nuddarinn svaraði:  "Þannig á það að vera.  Þú átt ekki að finna neitt."

  Að liggja í hálftíma í nuddi án þess að finna að maður sé í sjúkranuddi þykir mér klént.  Hönnuður tækisins hefur greinilega enga þekkingu á sálfræði.  Ef tækið á að virka sannfærandi þarf það að gefa frá sér ýmis hljóð,  svo sem píphljóð.  Einnig lítil blikkljós.  Jafnvel titra örlítið af og til og senda frá sér smá hita.

  Eftir "nuddið" fann ég engan mun á fætinum.  "Alveg eins og það á að vera,"  fullyrti "nuddarinn" og bætti við:  "Ég þarf að rukka þig um 15 þúsund og bóka þig í næsta tíma."  Ég afþakkaði næsta tíma.  

nudd

  

 


Kallinn sem reddar

  Öll þekkjum við kallinn sem reddar málunum.  Þennan sem getur lagað alla hluti sem farið hafa úrskeiðis.  Einnig getur hann sett saman hluti af öllu tagi án þess að skoða leiðarvísi.  Sama hvort það eru IKEA innréttingar eða tölvur eða hvað sem er.  Hann getur meira að segja græjað sundlaug eins og hendi sé veifað.

  Einkenni reddarans er að hann sniðgengur fagurfræði hlutanna.  Hann er meira fyrir klastur;  að hluturinn virki.  Sjón er sögu ríkari.

kallinn reddar hurð við stigaopkallinn var ekki í vandræðum með að koma of stórri hurð fyrirkallin græjar klósettskálkallinn reddar sundlaugkallinn kom klósettrúllunni snyrtilega fyrirkallinn reddar handfrjálsum síma  kallinn reddar sturtuhaus


Passar hún?

  Á Akureyri býr 94ra ára kona.  Hún er spræk þrátt fyrir að vera bundin í hjólastól.  Hún er með allt sem heyrir undir ADHD og svoleiðis eiginleika.  Fyrir bragðið fer hún stundum skemmtilega fram úr sér.  Oft hrekkur eitthvað broslegt út úr henni áður en hún nær að hugsa.

  Fyrir jólin sendi hún sonarsyni sínum pening.  Honum fylgdu fyrirmæli um að hann myndi fá sér peysu.  Peysan yrði jólagjöfin hans frá henni.

  Eftir jól hringdi hún í strákinn og spurði: 

  - Hvernig peysu fannstu í jólagjöf frá mér?

  - Ég fékk virkilega flotta svarta hettupeysu.

  - Passar hún?

hettupeysa


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.