Færsluflokkur: Spil og leikir

Hlálegt

  Opal er rammíslenskt jórtursælgæti í töfluformi.  Það kom á markað á fyrri hluta síðustu aldar.  Í Danmörku heitir það Obal.  Ástæðan er sú að einhver danskur grallari varð fyrri til að tryggja sér einkarétt á nafninu Opal á dönskum markaði. 

  Sagan segir að upphaflega hafi Opal verið pappalím.  Menn sem unnu við að líma saman pappakassa sóttu í að jórtra storknað límið.  Svo datt þeim í hug að bragðbæta það.  Þá varð þetta hið ágætasta nammi.  Í kjölfar var stofnað fyrirtækið Opal og opalið selt í töfluformi.  Það sló í gegn.  Síðar keypti sælgætisgerðin Nói fyrirtækið sem þá var í blóma. 

opal     


Undarlegar nágrannaerjur

  Ég átti erindi í smáíbúðahverfi;  skutlaði þangað dóti til kunningja.  Við stóðum við útidyrnar er nágranni renndi í hlað.  Kunninginn kastaði glaðlega kveðju á hann.  Viðbrögðin voru:  "Haltu kjafti,  fáviti!

  Kunninginn er ör og hvatvís.  Hann er aldrei kyrr.  Sama hvort hann horfir á sjónvarp eða situr í kirkju.  Hann sprettur ítrekað á fætur til að senda sms eða sækja penna út í bíl.  Ókyrrðin getur komið sér vel.  

  Hann útskýrði fyrir mér hegðun nágrannans:  "Um síðustu helgi tók ég garðinn minn í gegn;  sló, snyrti blómabeð,  bjó til þetta kúlulagamunstur á limgerðið.  Ég gleymdi mér í gróðri og mold.  Rankaði allt í einu við að ég var farinn að taka til í þessum samliggjandi garði nágrannans.  Ekki veitti af.  Ég stakk upp blómabeð og endurraðaði blómum til að ná fram betri litasamsetningu.  Sérðu þrepin þarna?  Þetta var bara ljótur grjótbingur.  Nokkrum dögum síðar kom nágranninn frá útlöndum.  Hann trylltist.  Sakaði mig um ósvífni,  frekju,  yfirgang og afskiptasemi.  Ég átti frekar von á þakklæti.  Maðurinn er eitthvað vanstilltur.  Þú heyrðir hvernig hann hreytti í mig áðan.  Það er annað en gaman að búa við hliðina á svona skapstirðum nágranna!"

garður


Rökfastur krakki

  Ég renndi með bílinn í bifreiðaskoðun.  Tími kominn á það árlega og nauðsynlega eftirlit.  Á biðstofunni var ungt par með lítinn gutta.  Ég giska á að hann sé þriggja ára eða rúmlega það.  Mamman tilkynnti honum:  "Eftir skoðunina kíkjum við í heimsókn til Gunnu ömmu og Nonna afa.  Manstu hvar þau eiga heima?

  Jú,  pilturinn romsaði heimilisfanginu út úr sér.  Mamman hélt áfram:  "Manstu hvar Halli afi á heima?"

  Stráksi sagðist ekki þurfa að muna það.  Mamman mótmælti.  Sagði það geta komið sér vel að kunna heimilisfangið. 

  Stráksi útskýrði:  "Við heimsækjum Halla afa aldrei.  Hann heimsækir okkur.  Það er hann sem þarf að vita hvar við eigum heima!"

  


Ástarsvik eða?

  Hann er á sjötugs aldri.  Á enga vini og er ekki í samskiptum við neina ættingja.  Skapgerðarbrestir eiga hlut að máli.  Hann pirrast af litlu tilefni,  snöggreiðist og verður stóryrtur.  

  Hann er heilsulítill offitusjúklingur;  étur daglega lófafylli af pillum.  Hann er nánast rúmfastur vegna orkuleysis,  mæði,  blóðþrýstings,  brjóstsviða,  magakveisu og allskonar.

  Hann er mjög einmana.  Fyrir nokkrum árum skráði hann sig á stefnumótavefinn Tinder.  Um leið og hann skráði sig heilsaði upp á hann þrítug fegurðardís í Úkraínu.  Hún sagðist vera forfallin Íslandsaðdáandi.  Hún fagnaði því að ná sambandi við Íslending.  Þau spjölluðu vel og lengi.  Og ítrekað.  Fljótlega samdi daman um að þau myndu skrá sig af Tinder og þróa þeirra samband.

  Stúlkan er í stopulli vinnu og hugsar um veika móðir sína.  Hún er í fjárhagsvandræðum.  Að því kom að hún bað um smá peningalán.  Svo færði hún sig upp á skaftið.  Aldrei er neitt endurgreitt.  Hún fór að ávarpa kallinn sem "kæra eiginmann sinn".  Hann er uppveðraður af því.  Sýnir hverjum sem er ljósmynd af fallegu eiginkonu sinni. 

  Verra er að hann gengur nærri sér til að senda "eiginkonunni" sem mestan pening í hverjum mánuði.  Hann sveltir dögum saman og nær ekki alltaf að leysa út lyfin sín með tilheyrandi afleiðingum.

  Konunni til afsökunar má telja að hún veit ekki af heilsuleysi mannsins.  Á móti kemur að samband þeirra gefur tilveru hans lit.  Það slær á einmanaleikann. 

gamlingimódel 


Einn að misskilja!

  Bono Vox.  söngvari írsku rokkhljómsveitarinnar U2,  blandar iðulega inn í hljómleikadagskrá hljómsveitarinnar hugleiðingum um trúmál,  stríð og frið,  fátækt,  hungur,  mengun og svo framvegis.

  Svo bar til að U2 hélt hljómleika í Skotlandi.  Á miðjum hljómleikum stöðvaði Bono tónlistina og bað áheyrendur um algjöra þögn.  Síðan byrjaði hann að klappa saman höndum.  Hægt en taktfast.  Í salnum ríkti þögn í langan tíma á meðan.  Loks tók Bono til máls og tilkynnti með þunga í röddinni:  "Í hvert sinn sem ég klappa saman höndum þá deyr barn í afríku."

  Mjóróma rödd framarlega í salnum hrópaði reiðilega á móti með sterkum skoskum hreim: "Hættu þá að klappa, óþokkinn þinn!"     


Ógeðfelld grilluppskrift

  Þessa dagana eru netsíður,  blöð og tímarit uppfull af tillögum um hitt og þetta varðandi grill og matseld.  Lesendur eru hvattir til að brjóta upp hversdaginn og prófa þetta og hitt á grillið.  Fyrirsagnirnar eru:  "Tilvalið að grilla pizzur með banönum og bláberjum!"  "Tilvalið að grilla pizzur með ís og súkkulaði!"  "Tilvalið að grilla pizzur með lifrapylsu!". 

  Ólystugasta uppskriftin birtist fyrir nokkrum árum í dagblaði.  Þar sagði:  "Tilvalið að grilla pizzur með börnunum!"  Ég hef ekki getað hætt að hugsa um þetta.  Að vísu er víða þröngt í búi,  börn dýr í rekstri og það má alltaf búa til fleiri börn.  Samt... 

pizza


Þessi vitneskja getur bjargað lífi

  Íslendingar eru óvanir að rekast á ísbirni á förnum vegi.  Sú staða kemur þó upp af og til.  Vitað er um 600 ísbirni sem hingað hafa rekið á land frá Ameríku.  Einkum Grænlandi.  Hætt er við að þeim fjölgi í kjölfar hnattrænnar hlýnunar.  

  Birnir eru hættulegir fólki.  Ekki síst ef þeir eru soltnir eftir langt sjórek.  Röng viðbrögð eru að reyna að hlaupa birni af sér.  Bangsi hleypur miklu hraðar.  Að auki espir hlaupandi manneskja upp veiðieðli dýrsins. 

  Heppilegri viðbrögð eru að lyfta höndum upp fyrir höfuð og syngja ljúfa ballöðu.  Björninn þekkir af reynslu að stærra dýr er líklegra til að sigra í átökum.  Hendur upp yfir höfði hækka manneskjuna. 

  Þekkt eru dæmi þess að birnir láta syngjandi fólk í friði.  Ástæðan er sú að söng mannsins svipar til væls í húnum.  Þetta virkar á ísbirni, skógarbirni, svartbirni og Birni Bjarnasyni.     

bangsi   


Smásaga um hlýjan mann

  Það er ofsagt að Fúsi flatskjár sé ekki eins og annað fólk.  Til að mynda svipar honum mjög til föðurbróður síns:  Sama sljóa augnráðið.  Sama lafandi neðri vör og flæðandi slef í munnviki.  Einhverra hluta vegna forðast fólk drenginn.  Kannski vegna þess að hann þrífur sig ekki.  Hann fer hvorki í sturtu né bað.  Ástæða er til.  Hann hefur séð hrollvekjandi sturtuatriði í bíómynd Alfreds Hitchock.  Veit því að sturtur eru stórhættulegar.

  Fúsi hefur tvívegis farið í bað.  Í bæði skiptin með skelfilegum afleiðingum.  Í annað skiptið var hann næstum drukknaður.  Hann er nefnilega ósyndur.  Honum til lífs varð að baðkarið var vatnslaust.  Vatnsveitan var búin að loka fyrir vatnið til hans vegna vanskila.

  Í hitt skiptið gerði hann vel við sig:  Keypti margar plastendur og leikfangabáta.  Með þetta fór hann í bað.  Það var svo gaman að hann gleymdi sér.  Rumskaði ekki fyrr en eftir langan tíma að síminn hringdi.  Mjög langan tíma því Fúsi er ekki með síma.  Vatnið var orðið ískalt.  Kauði skalf eins og vibrator í hæsta gír.  Hann fékk lungnabólgu og missti matarlyst í tvo daga.  Það var áfall.  Fáir eru gráðugri.  Sósur af öllu tagi sullast yfirleitt yfir peysuna sem hann fer aldrei út.  Þar má sjá fjölbreytt sýnishorn af matseðli síðustu vikna. 

  Fúsi er hlýr maður.  Hann elskar að faðma fólk og skella slefblautum kossi á kinn eða munn.  Hann er oft á vappi til að leita að einhverjum sem hann kannast við.  Þá ljómar hann eins og tungl í fyllingu.  Andlitið verður eitt slefandi bros svo skín í gulan og skörðóttan tanngarðinn.  Glaðbeittur kjagar hann með útbreiddan faðm að fórnarlambinu.  Viðbrögðin eru jafnan að hann horfir á eftir veinandi og hlaupandi fólki út í buskann á hraða sem myndi skila verðlaunasæti á Ólympíuleikum.   Eftir stendur kjökrandi maður.  Slefandi bros breytist í slefandi skeifu.

  Foreldrarnir skipta sér lítið af drengnum.  Þeir hafa aldrei samband að fyrrabragði.  Ekki einu sinni á afmælisdegi hans.  Mamman afsakar sig með því að fyrir handvömm hafi gleymst að skrá afmælisdag hans í afmælisdagabók heimilisins.  Engin hafi því hugmynd um hvenær hann eigi afmæli.  Ef hann eigi þá einhvertímann afmæli.  Og þó mamman vildi hringja í hann á afmælisdegi þá er óhægt um vik út af símleysi hans.     

  Fúsi hringir stundum úr tíkallasíma í mömmuna.  Oftast slitnar símtalið um leið.  Það er ólag á tíkallasímum.  Nema þegar Fúsi pantar sér pizzu.

  Eitt sinn bankaði Fúsi upp hjá nágrannakonu.  Hann kvartaði undan kvenmannsleysi.  Hún tók honum vel en benti á að hann skorti kynþokka.  Ráð væri að fylgjast með fréttum af fræga fólkinu.  Herma síðan eftir klæðnaði þess.  Það var eins og við manninn mælt:  Gullfalleg kona hóf þegar í stað sambúð með kappanum.  Að auki kom hann sér eldsnöggt upp tveimur viðhöldum:  Einni konu og einum karli. 

heppinn 


Anna frænka á Hesteyri í fasteignabraski

   Fullorðin hjón frá Fáskrúðsfirði brugðu sér í heimsókn til Önnu Mörtu frænku minnar á Hesteyri.  Þau eru náttúruunnendur eins og hún.  Þau þrjú röltu saman um land Hesteyrar og drukku í sig fegurð landsins.  Nokkru fyrir ofan íbúðarhúsið er lítill foss.  Hjónin göntuðust með að þarna væri fullkomið umhverfi fyrir sumarbústað.

  Anna tók þau á orðinu og sagði:  "Þið getið fengið landskika hérna á 43 þúsund kall."

  Maðurinn hváði og spurði undrandi hvort hún væri að tala í alvöru. 

  "Ég skulda símreikninginn,"  útskýrði Anna.  "Hann er 43 þúsund.  Hann má ekki vera í vanskilum.  Þið mynduð alveg bjarga mér."       

  Höfð voru snör handtök.  Pappírar útbúnir,  þinglýstir, gengið frá greiðslu,   símreikningnum bjargað fyrir horn og sumarbústaður reistur.

  Framhald í næstu bloggfærslu...

Hesteyri

  Ps.  Þetta var undir lok síðustu aldar.  Gengi krónunnar var annað.  Hugsanlega má þrefalda verðgildið á gengi dagsins í dag.    


Safaríkt 1. apríl gabb

  Áður en langt um líður þarf fjölmiðlafólk að leggja hausinn í bleyti og upphugsa gott 1. apríl gabb.  Á árum áður gekk gabbið út á að fórnarlambið hlypi yfir þröskuld.  Helst jafnvel 3 þröskulda.  

  Í dag eru þröskuldar á undanhaldi.  Eflaust skýrir það að hluta hvers vegna gabbið hefur gengisfallið.  Fjölmiðlar og fleiri eru að slá upp lygafrétt 1. apríl án þess að nokkur hlaupi.  Til að mynda frétt um að einhver nafngreindur væri að hefja störf á nefndum fjölmiðli.  Eða að tónlistarmaður væri að ganga í nefnda hljómsveit.  Þetta eru hvorutveggja raunveruleg 1. apríl göbb sem voru andvana fædd.  Enginn hljóp.  Enginn hló.

  Safaríkara var um árið gabb starfsfólks veitingastaðar á Höfn í Hornafirði.  Það hringdi í lögguna og tilkynnti um brjálaðan mann í sturlunarástandi sem væri að rústa klósettinu.  Lögreglumenn brugðu við skjótt.  Er þeir ruddust með látum og kylfur á lofti inn á staðinn mættu þeim hlátrarsköll starfsfólks og gesta sem hrópuðu:  "1. apríl!" 

  Full ástæða er til að endurnýta þetta hressilega gabb;  hringja í slökkvilið,  sjúkrabíl,  björgunarsveitir og láta liðið hlaupa 1. apríl.  Það yrði hamagangur í öskjunni!

hlaup

  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband