Færsluflokkur: Spil og leikir

Jólatiktúrur afa - 3ji hluti

  Afi keypti ekki jólakort fyrr en á milli jóla og nýárs.  Þá fékk hann þau á góðum afslætti í Kaupfélaginu á Sauðárkróki.  Hann hældi sér af því hvað hann náði að kýla verðið niður.  Jafnframt sagði hann:  "Ég ætla ekki að spandera jólakorti á einhvern sem sendir mér ekki kort.  Það kemur ekki til greina!"  

  Eftir borðhald á heimilinu,  uppvask og frágang voru pakkar opnaðir.  Um það leyti fékk afi alltaf spennufall - eftir margra daga stanslausa tilhlökkun.  Hann hnussaði og hneykslaðist yfir öllum gjöfum.  Það var skemmtiefni fyrir okkur hin að fylgjast með fussinu í afa:  "Hvaða endemis rugl er þetta?  Hvað á ég að gera með bók?  Ég hélt að allir vissu að ég væri löngu hættur að lesa.  Ég á ekki einu sinni bókahillu.  Ég hef ekkert geymslupláss fyrir bækur!"  

  Ein jólin fékk afi pakka með sokkum og nærbuxum.  Hann ætlaði að springa úr vanþóknun:  "Hvaða fíflagangur er þetta?  Hvað á ég að gera við stuttar nærbuxur?  Ég hef aldrei á ævi minni farið í stuttar buxur.  Þetta eru unglingabuxur.  Þvílíkt og annað eins.  Er fólk að tapa sér?"

  Við gátum ekki varist hlátri er afi dró upp úr næsta pakka forláta síðar nærbuxur.  "Þú hefur verið bænheyrður," skríkti mamma í stríðni.  Afi hafði ekki húmor fyrir þessu:  "Hverjum dettur í hug að ég fari að ganga í útlendum bómullarbuxum?  Ég hef aldrei klæðst nema íslenskum prjónanærbuxum.  Ég breyti því ekki á grafarbakkanum.  Hvað eiga svona heimskupör að þýða?"  

  Ég man ekki hvort það var úr næsta eða þar næsta pakka sem afi fékk dýrindis prjónanærbuxur.  Mamma hrópaði:  "Þetta er þitt kvöld.  Þú ert stöðugt bænheyrður."

  Afi varð vandræðalegur.  Hann skoðaði buxurnar í bak og fyrir;  stóð upp og mátaði við sig stærðina og annað.  Allt virtist eins og best var á kosið.  Pabbi grínaðist með þetta:  "Þetta eru söguleg tíðindi.  Það er ekkert að buxunum."

  Afi hafði ekki sagt sitt síðasta:  "Hverjum dettur í hug að hafa svona frágang á buxnaklaufinni?  Hún er hneppt eins og skyrta.  Ég hélt að allir vissu að á prjónanærbuxum á að vera áfast stykki sem er hneppt þvert yfir til hægri.  Á þessum buxum er eins og hálfviti hafi verið að verki.  Þvílíkt klúður!  Það er eins gott að fólk sjái mig ekki í þessari hörmung.  Ég yrði að athægi!"


Jólatiktúrar afa - Annar hluti

  Aðferðir afa við að bjarga ótímabærum jólagjöfum báru ekki alltaf besta kost.  Eitt sinn fékk hann ílangan jólapakka.  Hann bankaði í kassann,  hristi og kreisti.  Hann taldi sig heyra undarleg hljóð úr pakkanum.  Því fastar sem hann bankaði í kassann þeim mun undarlegri voru hljóðin.  Á aðfangadag var afi að springa úr forvitni.  Er hann opnaði pakkann komu í ljós þrjár stórar og glæsilegar jólakúlur.  Þær voru mölbrotnar eftir barsmíðar afa. Afi kenndi Póstinum um.  

  Er ég var 10 - 11 ára fól afi mér það hlutverk að lesa upp úr jólakortum hans.  Sjón hans var ekki nógu góð.  Ég snéri út úr textanum.  Það var sama hvað ég "las" undarlegan texta;  afi trúði öllu.     

  Af einu korti þóttist ég lesa:  "Við óskum þér með hálfum huga farsæls komandi árs."

  Afa var hvergi brugðið.  Hann útskýrði:  "Þarna er Fríðu rétt lýst.  Hún er svo mislynd.  Skelfilega mislynd."

  Úr öðru korti las ég":  "Farsælt komandi ár en þökkum ekki fyrir liðið."  Afi útskýrði:  "Þetta er Jón sonur þeirra sem skrifar þetta.  Honum er strítt í skólanum.  Þess vegna lætur hann svona."  


Jólatiktúrur afa - Fyrsti hluti

  Afi var jólabarn.  Hann hlakkaði alltaf barnslega mikið til jólanna.  Var gífurlega spenntur.  Er jólapakkar tóku að berast í hús átti hann erfitt með að hemja sig.  Hann bar sína pakka inn til sín.  Þar þuklaði hann á þeim fram og til baka.  Aldrei leið á löngu uns við krakkarnir urðum varir við að afi hafði gægst í þá.  Reyndi hann þó að leyna því.  

  Þegar við sökuðum hann um þetta varð hann vandræðalegur og bar fyrir sig langsóttar ástæður.  Er hann gægðist í ferkantaða pakka sagðist hann hafa orðið að ganga úr skugga um að ekki væri um konfekt að ræða.  

  "Maður geymir ekki konfekt hvar sem er," útskýrði afi.  "Það gæti bráðnað ef pakkarnir eru nálægt ofninum." 

  Um rifu á mjúkum pökkum var afsökunin:  "Ég var að færa hann úr stað.  Tók í ógáti of fast á honum.  Bréfið brast.  Þegar ég skoðaði rifuna betur þá rifnaði hún meir.  Jólapappír er orðinn svo aumur nú til dags að það er hneisa!"

  Einstaka sinnum fékk afi konfekt í jólagjöf.  Hann hafði það út af fyrir sig.  Ég spurði af hverju hann biði ekki með sér.  Svarið var:  "Foreldrar þínir fengu líka konfekt í jólagjöf.  Við þurfum þess vegna ekkert að togast á um þessa fáu mola.  En ég skal gefa þér brjóstsykurmola."  Sem hann gerði.  


Frábær bók

 - Titill:  Born to Run - Sjálfsævisaga

 - Höfundur:  Bruce Springsteen

 - Þýðandi:  Magnús Þór Hafsteinsson

 - Útgefandi:  Ugla

 - Einkunn:  *****

  Bandaríski tónlistarmaðurinn Bruce Springsteen er einn af þeim stærstu í rokksögunni.  Hann hefur selt 150 milljónir platna;  margsinnis toppað vinsældalista um allan heim;  hlotið fjölda verðlauna.  Þar af 20 Grammy.  Um hann hafa verið skrifaðir tugir bóka.  Þessi sem hér um ræðir hefur þá sérstöðu að vera sjálfsævisaga hans.

  Bruce ólst upp við fátækt og basl í New Jersey.  Til að mynda var ekki heitt vatn á æskuheimili hans.  Pabbinn var alki sem hélst illa í vinnu.   

  Bruce er maður orðsins.  Söngtextar hans eru með þeim bestu í dægurlagaheimi.  Hann er pennafær.  Skrifar beinskeyttan auðlæsan texta og stutt í ljóðrænan blæ.  Yrkisefnið er jafnan örlög alþýðufólks.  Þar á meðal jafnaldrana sem hann ólst upp með.  

  Alþýðurokkarinn reynir hvergi að fegra sig.  Hann er hreinn og beinn.  Kann best við sig í gallabuxum og vinnuskyrtu.  En á það líka til að klæðast fínum fötum og aka um á dýrum bílum.  Hann hefur átt sína táradali jafnt sem hamingjustundir.  Vegna þess hvað hann geislar af gleði á hljómleikum vakti undrun er hann fór að tjá sig um þunglyndi fyrir nokkrum árum.  Þeim hremmingum gerir hann góð skil.   

  Lesandinn þarf ekki að þekkja tónlist Brúsa til að njóta bókarinnar.  Fyrir aðdáendur er hún gullnáma,   hnausþykk,  670 þéttskrifaðar blaðsíður með litlu letri.  Það tók mig nokkra daga að lesa hana.  Þeim var vel varið.  Jólagjöfin í ár!

  Þýðing Magnúsar Þórs Hafsteinssonar er vönduð og góð.

bruce


Slegist í Húnaveri

  Um og upp úr miðri síðustu öld var landlægur rígur á milli næstu byggðarlaga.  Hann birtist meðal annars í því að í lok dansleikja tókust menn á.  Ólsarar slógust við Grundfirðinga,  Reyðfirðingar slógust við Eskifirðinga,  Skagfirðingar slógust við Húnvetninga og svo framvegis.  Þetta voru ekki hrottaleg átök.  Lítið var um alvarleg beinbrot eða blóð.  Liggjandi maður fékk aldrei spark í höfuðið.  Þetta var meira tusk.  Í mesta lagi með smávægilegu hnjaski.  

  Skagfirðingur einn lét sig sjaldan vanta í tuskið.  Hann var jafnan drjúgur með sig.  Mundi framgöngu sína hetjulegri en aðrir.  Eitt sinn tuskaðist hann við Húnvetning fyrir aftan Húnaver.  Sá felldi hann í jörðina og hélt honum niðri.  Sama hvað okkar maður ólmaðist þá var hann í skrúfstykki.  Hann kallaði á félaga sína:  "Strákar, rífið mannhelvítið af mér áður en ég reiðist!" 

tusk

 

 


Smásaga um einbúa

  Lengst vestur á Vestfjörðum býr Jósafat.  Hann er fjárbóndi og einbúi.  Hann er heimakær.  Fer ekki af bæ nema nauðsyn kalli á.  Einsetan hefur ágerst með árunum.  Á unglingsárum kunni hann að skemmta sér.  Hann eignaðist son eftir einnar nætur gaman.  Samband við barnsmóðurina er ekkert.  Samband feðgana er stopult.  Sonurinn er í Reykjavík og hringir einstaka sinnum í pabba sinn.  Eiginlega bara þegar eitthvað fréttnæmt,  svo sem eins og þegar hann trúlofaðist og gerði kallinn að afa.  

  Verra er að sjónin er farin að daprast.  Jósafat ber það undir héraðslækninn.  Sá pantar fyrir hann tíma hjá augnlæknastöð í Reykjavík.  Í þetta sinn hringir hann í soninn.  Beiðist gistingar í tvær nætur.  Það er velkomið.  Kominn tími til að hann hitti tengdadótturina og 5 ára afastrákinn.

  Yfir kvöldmat fær tengdadóttirin hugmynd:  Krakkinn verður búinn á leikskólanum klukkan fjögur daginn eftir.  Þá er kallinn laus.  Spurning hvort hann geti sótt strákinn.  Hann tekur vel í það.  Minnsta mál!

  Hann mætir í skólann á réttum tíma.  Gleðstur að sjá strákinn kominn í úlpuna sína og stígvél.   Hann þrífur í drenginn og arkar af stað.  Kauði berst um á hæl og hnakka.  Jósafat er vanur að draga ólm lömb og þetta er ekkert öðruvísi.  Greinilega er strokárátta í gutta.  Til að hindra strok skellir afinn honum flötum á gólfið og sest ofan á hann.

  Skömmu síðar koma foreldrarnir æstir og óðamála.  Spyrja hvað sé í gangi.  Leikskólastjórinn hafði hringt í þau.  Sagt að maður hafi komið og rænt einum pabba sem var að sækja barn sitt.  Barnið væri enn í skólanum ásamt barni hjónanna.  

  "Hvernig tókst þér að ruglast á skeggjuðum þrítugum manni og fimm ára barni?"  hrópar sonurinn.

  "Þetta skýrir margt,"  tautar afi skömmustulegur.  "Það var ekki einleikið hvað barnið var tregt í taumi"    

 

langdreginn


Fjölskylduvænt framhjáhald

  Frönsk kona,  tveggja barna móðir,  vann lengst af sem einkaspæjari.  Meðal algengra og vinsælla verkefna var að njósna um fólk sem lá undir grun um að halda framhjá maka sínum.  Í vinnunni lærði hún hægt og bítandi hver eru helstu mistök fólks sem heldur framhjá og hvers vegna upp um það kemst.

  Hún tók æ oftar nærri sér hverjar urðu afleiðingar starfsins.  Iðulega kom til harðvítugs uppgjörs,  hjónaskilnaðar, upplausnar fjölskyldu og heimilis.  Sárast þótti henni að horfa upp á grátandi niðurbrotin börn í áfallastreituröskun. 

  Að því kom að hún þoldi þetta ekki.  Hún ákvað að snúa við blaðinu.  Hún lokaði á njósnir og stofnaði fyrirtæki sem býður upp á sérhæfða framhjáhaldsþjónustu.  Það skipuleggur framhjáhaldskvöld,  nætur eða helgarpakka.  Hún afgreiðir platsímtöl,  plat-sms,  útbýr og sendir út platboðskort eða fundarboð,  sviðsetur hverskonar atburði,  falsar hótelreikninga,  kvittanir frá veitingastöðum,  leigubílum; falsar ljósmyndir og önnur "sönnunargögn".

  Starfsemin gengur vel.  Nú leggst hún til svefns án samviskubits.  Ekki hefur komist upp um framhjáhald svo mikið sem eins kúnna.  Þetta eru fjölskylduvæn framhjáhöld.   

framhjáhald        


Furðuvísa

  Í kjölfar Hamraborgarhátíðar,  Menningarnætur Reykjavíkur og Danskra daga í Stykkishólmi rann á mig ósjálfráð skáldagyðja.  Áður en ég vissi af hrökk upp úr mér furðuleg vísa.  Ég botna hvorki upp né niður í henni.  Inn í bullið blandaðist óvænt nafn á 56 ára Bítlalagi af plötunni "Sgt. Peppers...".  Ég kannast ekki við bragfræðina.  Kannski er hún útlend.  Fyrsta orð í annarri línu í báðum hendingum er það sama.  Líka fyrsta orð í þriðju línu.   

  Málhaltir hundar sátu á grindverki.

Þeir sleiktu í sig sólskinið af frímerki.

  Forstjórinn stóð þar hjá og glotti við fót.

Hann heimtaði að fá að fara á þorrablót

í maí

eins og Lucy in the Sky.

 

  Hundarnir þorðu ekki að segja neitt.  

Þeir fóru út í hött eins og yfirleitt.

  Forstjórinn vissi vel að hann fengi sitt.

Jafnvel þó hann þyrfti að gera hitt

í maí

eins og Lucy in the Sky.  

 


Hvað gerðist?

  Grandvar virðulegur maður keypti sér rándýra spariskó sem voru í tísku.  Örfáum dögum síðar voru skórnir bókstaflega búnir:  Sólarnir götóttir,  saumar farnir að gefa sig,  hælarnir uppurnir og skórnir að öðru leyti verulega sjúskaðir.

  Maðurinn fór með skóna í skóbúðina og krafðist endurgreiðslu.  Þar reif fólk kjaft.  Sakaði hann um óvenju bíræfna kröfu.  Honum ofbauð dónaleg framkoman.  Hann snéri sér til Neytendasamtakanna.  Þar mætti hann sömu framkomu og í skóbúðinni.  Vandamál var að engin kvittun var til staðar.  Hann froðufelldi af reiði yfir óréttlæti heimsins. 

  Víkur þá sögunni að öðrum manni.  Sá var að flytja til útlanda.  Hann setti íbúð sína í sölu.  Á tilteknum degi hafði hann opið hús.  Hann átti samskonar tískuskó.  Nema að þeir voru gamlir og gjörsamlega búnir.  Hann lét þá þó duga framyfir flutninginn til útlanda.  Þar eru skór miklu ódýrari. 

  Er opnu húsi lauk uppgötvaði hann að gömlu skórnir voru horfnir.  Í staðinn voru komnir splunkunýir skór af sama tagi.    

skór


Smásaga um borð

  Skemmtiferðaskipið vaggar mjúklega.  Mikið er að gera á barnum.  Fastagestirnir mættir.  Mörg ný andlit líka.  Þétt setið við hvert borð.  Margir standa við barinn.  Músíkin er lágt stillt.  Barþjónarnir skynja að fólkið vill masa.  Masið hljómar eins og niður aldanna.  Jafn og þéttur kliður sem er brotinn upp með einstaka hlátrarsköllum. 

  Skyndilega rjúfa þrjú hvell bjölluslög stemmninguna.  Það er síðasta útkall á barinn.  Gestirnir þekkja þetta.  Örtröðin við barinn þéttist.

  Hálftíma síðar eru öll ljós tendruð.  Samtímis er slökkt á músíkinni.  Raddsterkur barþjónn kallar:  "Góðir gestir,  takk fyrir komuna.  Góða nótt!"

  Barþjónarnir hefja tiltekt á meðan gestirnir tínast út og halda til kauju.  Svo slökkva þeir ljós og loka á eftir sér.

  Allt er hljótt.  Að nokkrum tíma liðnum hvíslar borð næst útidyrunum:  "Psss,  psss.  Hey,  þið borð.  Ég þarf að ræða við ykkur."  Engin viðbrögð.  Þá áttar borðið sig á að borð hafa ekki eyru;  engan munn og talfæri.  Þau hafa ekki heila;  ekkert taugakerfi.  Þau geta ekki einu sinni sýnt ósjálfráð viðbrögð.  Við þessa hugsun roðnar borðið af skömm.  Svo fyllist það yfirlæti.  Það hnussar og tautar hæðnislega:  "Þetta mættu fleiri vita um borð!"  

bar  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband