Færsluflokkur: Spil og leikir

Til minningar um gleðigjafa

  Tónlistarmaðurinn og gleðigjafinn Brynjar Klemensson féll frá 24. nóvember.  Hann var aðeins 67 ára.  Í vina og kunningjahópi gekk hann undir nafninu Billy Start.  Ástæðan var sú að hann var einskonar fylgihnöttur hljómsveitarinnar Start.  Forsöngvarinn,  Pétur heitinn Kristjánsson,  var hans stóra fyrirmynd.

  Billy átti auðvelt með að finna broslegar hliðar á mönnum og málefnum.  Allt í góðlátlegri frásögn.  Hann sagði skemmtilega frá.  Þegar hann mætti á svæðið tilkynnti hann jafnan viðstöddum:  "Billy Start mættur á kantinn!"  Þetta var ávísun á fjörlegar samræður og mikið hlegið. 

  Billy var smá prakkari.  Eitt sinn mætti hann á skemmtistað í Ármúla.  "Ósköp er rólegt í kvöld.  Ekkert fyrir dyravörðinn að gera," sagði hann.  Ég samsinnti því.  Sagði að dyravörður væri óþarfur þetta kvöldið.  

   Úti á miðju gólfi stóð ókunnugur miðaldra maður.  Hann góndi á boltaleik á sjónvarpsskjá.  Billy rölti til dyravarðarins og skrökvaði:  "Sérðu manninn þarna?  Þetta er alræmdur vandræðapési.  Þú þarft að fylgjast vel með honum.  Hann á eftir að hleypa öllu í bál og brand."  

  Hrekklaus dyravörðurinn lét ekki segja sér það tvisvar.  Hann læddist aftan að manninum,  stökk svo á hann með dyravarðafangbragði.  Maðurinn var í skrúfstykki.  Dyravörðurinn dró hann út á stétt og flýtti sér síðan að skella í lás.  Maðurinn var alveg ringlaður.  Hann bankaði - án árangurs - á dyrnar.  Svo náði hann á leigubíl og fór.   Þá opnaði dyravörðurinn dyrnar og allt féll í ljúfa löð.  

  Billy hrósaði dyraverðinum fyrir snöfurleg vinnubrögð.  Við mig sagði hann:  "Nú getur hann skráð í dagbók staðarins að honum hafi með lagni tekist að afstýra heilmiklu veseni!"

 

billy start


Þegar Jón Þorleifs kaus óvænt

  Jón heitinn Þorleifsson var í stöðugri uppreisn.  Hann var verkamaður en snéri sér að ritstörfum kominn á efri ár.  Hann naut sín við að yrkja níðvísur og deila á menn og málefni.

  Hann notaði nánast aldrei atkvæðarétt sinn.  Þó mætti hann á kjörstað.  Þar skráði hann níðvísu um einhvern eða einhverja á kjörseðilinn. 

  Svo bar til einn bjartan kosningadag að þingmaður Alþýðubandalagsins mætti Jóni á gangi.  Þeir voru kunnugir og heilsuðust. 

  - Sæll Jón minn. Ertu búinn að kjósa?  spurði maðurinn.  

  - Já,  aldrei þessu vant,  svaraði Jón.

  - Kaustu rétt?

  - Það veit ég ekki.  Ég krossaði við Alþýðubandalagið.

  - Þakka þér kærlega fyrir atkvæðið.  Hvað kom til?

  - Þetta var eina ráðið sem ég hafði til að strika yfir nafnið þitt!

jon_orleifs  


Erfiður starfsmaður

  Nonni er rafvirki.  Á dögunum bættist á hann stórt verkefni í nýbyggingu.  Hann auglýsti eftir vönum rafvirkja sem gæti hafið störf strax.  Sá fyrsti sem hringdi var ráðinn.  Honum var sagt að mæta til vinnu klukkan 9 næsta morgunn. 

  Klukkan var eitthvað gengin í 11 er starfsmaðurinn,  ungur maður,  mætti.  Hann útskýrði málið:  "Ég lagði af stað á réttum tíma út á strætóstöð.  Þá sá ég að veðrið var svo gott að ég ákvað að ganga."

  Nonni sagði að það væri mikilvægt að starfsmenn séu mættir klukkan 9.  Hann sýndi rafvirkjanum hvar setja átti upp margar innstungur. 

  - Sýndu mér hvernig þú setur upp eina innstungu,  bað drengurinn.

  - Þú kannt að setja upp innstungu,  fullyrti Nonni.

  - Já,  auðvitað.  Mig langar bara að sjá hvernig þú gerir það.

  Nonni setti upp innstungu.  Hinn fylgdist með og tók svo við.  Honum lynti strax vel við vinnufélagana og stimplaði símanúmer þeirra inn í símaskrá sína.  Þeir voru alls sjö. 

  Daginn eftir var hann ekki mættur klukkan 9.  Hálftíma síðar hringdi hann í vinnufélaga.  Bað hann um að sækja sig.  Nonni blandaði sér í símtalið.  Sagði að ekki kæmi til greina að starfsmenn sæki hvern annan í vinnutíma. 

  -  Já,  já.  Ég er sammála því,  svaraði drengur.  Vinnufélaginn hefur misskilið mig.  Ég var að tilkynna veikindi.  Ég er með svaka hausverk.

  Næsta dag mætti hann sprækur klukkan 10.  Sagði að strætóferð hafi fallið niður. 

  Eftir hádegi þurfti Nonni að bregða sér frá í nokkra tíma.  Hann setti starfsmönnum fyrir verkefni.  Þegar hann snéri aftur blasti við að ungi rafvirkinn hafði fátt gert.  Nonni spurði hvað væri í gangi. 

  - Ég er búinn að vinna á fullu,  fullyrti piltur.  Einhvernvegin hefur verkið samt unnist hægt.  

   Verkefnið var komið í tímaþröng.  Ákveðið var að vinna fram á kvöld.  Um kvöldmatarleytið hélt vinnuflokkurinn á veitingastað með heimilismat.  Strákur mótmælti.  Sagðist aldrei borða kartöflumat á kvöldin.  Hann óskaði eftir pizzu.  Honum var boðið að fara á pizzustað á eigin kostnað.  Vinnuflokkurinn væri hinsvegar á samningi við heimilismatstöðina.  Kauði átti ekki pening og snæddi með ólund.

   Ekki bólaði á honum daginn eftir.  Nonni hringdi í hann.  Afsökun hans var:  "Mér er illt í maganum af því að ég fékk ekki pizzu.  Ég varaði þig við að ekki eigi að borða kvöldmat með kartöflum.  Þú tókst ekki mark á því.  Þetta er þér að kanna!"

  Nonni sagði honum að mæta aldrei aftur á staðinn.  Um mánaðarmótin mætti hann þó til að sækja kaupið sitt.  Kennitala hans leiddi í ljós að hann var aðeins 17 ára.  Hann viðurkenndi að vera ekki rafvirki og hefði aldrei komið nálægt rafmagni áður.  


Varð ekki um sel

  Reynsla og upplifanir sjómanna eru margar og mismunandi.  Því oftar sem þeir eru úti á sjó þeim mun líklegra er að þeir verði vitni að margvíslegum ævintýrum.  Þannig var það um helgina hjá honum Hjalta í Klakksvík.  Hann sat í trillunni sinni og fylgdist með hvalvöðu lóna við hliðina.  Þetta voru háhyrningar.  Þeir vita ekkert æti betra en spikfeita seli.

  Skyndilega stökk selur upp úr haffletinum.  Hann hrópaði á hjálp og synti á ofsahraða að bátnum.  Þar skorðaði hann sig við landganginn.

  Hjalti drap á vélinni og horfði skilningsríkur í augu selsins,  eins og til að róa hann.  Hvalirnir skildu ekki upp né niður í því hvað varð um selinn.  Þeir syntu undrandi fram og til baka í góðan hálftíma.  Þá héldu þeir á brott í leit að öðru æti. 

  Hjalti gaf selnum til kynna með leikrænni tjáningu að hættan væri liðin hjá.  Blessuð skepnan skildi og synti varfærnislega frá bátnum.  Í þann mund er hann steypti sér í djúpið þá snéri hann sér við og veifaði sjómanninum í þakklætisskini. 

hvalurKopur


Vegg stolið

  Í miðbæ Þórshafnar,  höfuðborgar Færeyja,  er starfræktur írskur pöbb.  Hann heitir Glitnir.  Nafnið er ekki sótt í samnefndan íslenskan banka sem fór á hausinn.  Nafnið er sótt í hýbýli norræns guðs.  Sá er Forseti.

  Færeyski Glitnir er notalegur pöbb.  Á góðviðriskvöldum sitja viðskiptavinirnir úti á stétt.  Allir deila borðum og sætum með öllum.  Stundum taka menn lagið.  

  Á dögunum gerðist undarlegt atvik.  Um það leyti sem starfsfólk lagði drög að því að loka þá uppgötvaðist að búið var að stela vegg sem þar var innandyra.  Vitni telja sig hafa séð útundan sér tvo menn rogast í burtu með vegginn.  Vegna ölgleði fylgdist enginn sérlega vel með þjófunum.  

  Líklegt þykir sem þarna hafi verið um góðlátlegt grín að ræða fremur en bíræfinn stuld.  Færeyingar eru ekki alvöru þjófar.

þórshöfn 

 


Hvað þýða hljómsveitanöfnin?

   

  Hljómsveitanöfn eru ekki öll sem sýnist.  Dæmi um slíkt er The Rolling Stones.  Nafnið er iðulega þýtt sem Rúllandi steinar.  Það er ekki röng þýðing.  Hinsvegar er nákvæmari þýðing Flakkarar.  Nafnið er sótt í sönglag blúsarans Muddy Waters,  Rollin Stone.  Þar er haft eftir óléttri konu að sonurinn verði flakkari. Eirðarlaust fólk sem unir sér aldrei lengi á sama stað;  er á stöðugu flakki er kallað rolling stone.

   Á kreppuárunum í Bandaríkjunum urðu margir flakkarar í leit að vinnu.  Þeir urðu laumufarþegar í vöruflutningalestum.  Til að vera ekki lúbarðir á lestarstöðvum þá stukku þeir út úr lestinni á ferð.  Tæknin var að hlaupa út í sömu átt og lestin og rúlla sér kollhnísa eftir grasinu.  Úr fjarlægð líktust þeir rúllandi steinum.

   Í eldri merkingu er orðatiltæki sem segir að mosi vaxi ekki á rúllandi steini.

  The Kinks.  Stundum hefur hljómsveitin verið kölluð Kóngarnir.  Það er rangt.  Nafnið er ekki skrifað með g.  Orðið kink þýðir að eitthvað sem á að vera beint sé bogið.  Það er líka notað yfir óhefðbundið kynlíf.  Hérlendis er talað um kinky. 

  The Hollies.  Algeng skoðun er að nafnið sé sótt í bandaríska tónlistarmanninn Buddy Holly.  Hið rétta er að jólatrésgreinar sem hýbýli eru skreytt með að heiðnum sið  á jólum eru kallaðar hollies á Englandi. 

  The Byrds.  Nafnið hljómar vel,  Fuglarnir.  Vandamálið var að Bítlarnir og fleiri Bretar kölluðu ungar og aðlaðandi dömur birds.  Til aðgreiningar frá þeim var nafnið skrifað með y - í og með undir áhrifum frá The Beatles.  Aðalsprauta The Byrds,  Roger McGuinn,  hafði dálæti á djassstjörnunum Donaldi Byrd og Charlie Byrd.  

  Sex Pistols.  Nafnið má þýða sem kynhólka eða typpi.  Því var ætlað að auglýsa tískufataverslun umboðsmannsins,  Sex.

  Pink Floyd.  Við getum talað um Bleika froðu.  Nafnið var sótt í uppáhalds blúsista hljómsveitarinnar,  Pink Andersen og Floyd Council.

  Sham 69.  Nafnið getur þýtt Sviðsett munnmök.  Öllu fremur kenndi hljómsveitin sig við heimabæ sinn,  HerSHAM á Englandi.  69 er númer þjóðvegar sem liggur í gegnum bæinn.  Vegurinn er í daglegu tali kallaður Sham 69.  

  Handriðið.  Nöfn íslenskra hljómsveita eru jafnan augljós og skiljanleg:  Hljómar,  Flowers,  Paradís,  Utangarðsmenn...  Á níunda áratugnum neitaði auglýsingadeild Ríkisútvarpsins að afgreiða auglýsingar pönksveitarinnar Sjálfsfróunar.  Nafni hljómsveitarinnar var þá breytt í Handriðið.  Engar athugasemdir.  

  Talking Heads.  Nafnið er oft þýtt sem Talandi höfuð.  Meðal annars samdi og söng hljómsveitin Spilafífl magnað lag,  Talandi höfuð.  Betur hljómar að þýða nafnið Höfðatal.


Neyðarlegt

  Á unglingsárum vann ég í álverinu í Straumsvík.  Þar vann einnig maður sem seint verður kallaður mannvitsbrekka.  Hann var barnslegur einfeldningur.  Hann átti sextugs afmæli.  Hann bauð völdum vinnufélögum í afmælisveislu heima hjá sér.  Hann átti ekki nána fjölskyldu.  Veislan var fámenn og einungis sterkt áfengi í boði.  Allt gott um það að segja.  Ég hef verið í fjörlegri veislu.  Þó var gripið í spil og leiðinleg músík spiluð af segulbandi. 

  Er á leið sagði kallinn okkur frá trillu sem hann átti.  Jafnframt átti hann ofan í kjallara hið fallegasta trilluhús.  Hann sýndi okkur það stoltur á svip.  Hann mátti vera það.  Húsið var með opnanlegum gluggum og ýmsu skrauti.  Meðal annars skemmtilega útskornu munstri og táknum úr norrænni goðafræði. 

  Eftir að allir höfðu hlaðið lofsorði á húsið varð einum að orði:  "Hvernig kemur þú húsinu út úr kjallaranum?"  Eina sjáanlega útgönguleið úr kjallaranum voru þröngar steinsteyptar tröppur upp á jarðhæð. 

  Kallinn varð vandræðalegur og tautaði niðurlútur:  "Það er vandamálið.  Ég gleymdi að hugsa út í það.  Ég kem þessu ekki út úr kjallaranum.  Það er grábölvað.

álver     


Anna á Hesteyri - undarlegt aksturslag

  Anna frænka á Hesteyri var um sextugt þegar einn frændi okkar gaf henni bíl og bílpróf.  Nýkomin með ökuréttindi brá hún sér upp á Hérað.  Vegurinn upp úr Mjóafirði var einbreiður og lélegur malarruðningur.  Kannski þess vegna vandi hún sig á að keyra aldrei hraðar en í öðrum gír.  

  Er Anna nálgaðist Egilsstaði var hún skyndilega komin á fínan tvíbreiðan malbikaðan veg.  Hún tók upp á því að keyra eftir honum miðjum.  Þetta olli öðrum bílstjórum vandræðum með að taka framúr eða mæta henni. 

  Einhver gerði lögreglunni viðvart.  Hún brunaði á móti Önnu;  stöðvaði hana með blikkandi ljósum og sírenu.  Önnu var illa brugðið.  Lögreglan bað hana að gera grein fyrir þessu undarlega aksturslagi.  Hún sagðist hafa orðið svo ánægð með breiða malbikaða veginn að henni datt í hug að leika sér;  leyfa öðrum ökumönnum að ráða hvoru megin þeir vildu mæta henni eða taka framúr. 

  Laganna vörður benti Önnu á að í gildi væru umferðarreglur sem öllum bæri að fylgja. 

  "Þarna er komin skýring á því hvers vegna allir flautuðu svona mikið á mig," hrökk upp úr Önnu. Síðar játaði hún að hafa skammast sín rosalega mikið.   

anna marta


Stórmerkileg námstækni

  Ég var staddur í verslun.  Þar varð ég vitni að því er tveir unglingspiltar hittust og heilsuðust fagnandi.  Annar spyr:  "Hvernig gekk þér í prófinu hjá...?" og nefndi nafn sem ég gleymdi jafnóðum.  Hinn svaraði:  "Ég notaði öfluga námstækni sem ég hannaði sjálfur.  Í stað þess að pæla í gegnum alla bókina þá byrjaði ég á því að sortera í burtu allt sem ég var 100% viss um að aldrei yrði spurt um.  Síðan lærði ég utanað 50% af því sem eftir stóð.  Með þessari aðferð reiknast mér til að maður eigi að geta verið pottþéttur með að fá að lágmarki 6 eða jafnvel 7.

  - Hvað fékkstu?  spurði skólabróðirinn spenntur.

  - Helvítis gaurinn felldi mig. Gaf mér aðeins 2.  Spurði aðallega um það sem ég lærði ekki!     


Staðin að verki!

  Meðfylgjandi mynd tók 22ja ára ensk stelpa er hún greip kærastann og móður sína glóðvolg í bólinu.  Stelpan og strákurinn höfðu verið par í 10 mánuði.  Hún var barþjónn.  Af ótilgreindum ástæðum féll vakt hennar óvænt niður að hálfu eitt kvöldið.  Hún ákvað að nota fríið til að heimsækja móðir sína.

  Er hún gekk inn í íbúð mömmunnar blöstu skór kærastans við.  Frá efri hæðinni barst músík og ástarbrími.  Það fauk í hana.  Hún læddist upp og smellti ljósmynd af því sem mætti henni.  Myndina setti hún á Facebook.  Hún fór eins og stormsveipur um netheima og bresku götublöðin.

  Sumum þótti myndbirtingin ósmekkleg refsing.  Stelpan spurði:  "Er hún ósmekklegri en að vera svikin af kærastanum og móður?"

  Mamman kenndi stráksa um allt.  Hann hafi platað hana með fagurgala og herðanuddi á meðan hún vaskaði upp.  Eiginlega gegn sínum vilja tók hún þátt í að tína af sér spjarirnar og skríða með kauða undir sæng.

  Mamman segist þakklát dótturinni fyrir að bjarga sér úr vondum aðstæðum.  Þær mæðgur séu báðar fórnarlömb tungulipurs loddara. 

  Pilturinn segist aðeins hafa þegið það sem stóð honum til boða.  Hann væri ástralskur skiptinemi og stutt í heimferð.  "Mér gæti ekki verið meira sama," segir hann kotroskinn.

  Dóttirin sættist með semingi við mömmuna.  Sagði auðveldara að henda lélegum bólfélaga í ruslið en afskrifa mömmu. 

  Á myndunum til hægri eru mamman og stráksi fullklædd.

mamman

mamman.

  

  

      


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.