Færsluflokkur: Spil og leikir
27.3.2024 | 08:43
Eftirminnilegur jólapakki frá Önnu frænku á Hesteyri
Móðir mín og Anna Marta á Hesteyri í Mjóafirði voru bræðradætur. Kannski var það þess vegna sem þær skiptust á jólagjöfum. Ein jólin fékk mamma frá Önnu langan og mjóan konfektkassa. Hann var samanbrotinn í miðjunni. Endarnir voru kyrfilega bundnir saman með límbandi. Með fylgdi heimagert jólakort. Anna var ágætur teiknari. Hún skreytti kortið með teikningum af jólatrjágreinum og fleiru jólaskrauti. Í kortið voru meðal annars þessi skilaboð:
"Láttu þér ekki bregða við að konfektkassinn sé samanbrotinn. Það er með vilja gert til að konfektmolarnir verði ekki fyrir hnjaski í ótryggum póstflutningum."
Þegar mamma opnaði kassann blasti við ein allsherjar klessa. Einmitt vegna þess að hann var samanbrotinn. Molarnir voru mölbrotnir. Mjúkar fyllingarnar límdu klessuna saman við pappírinn.
Áfast pakkanum hékk límbandsrúlla. Anna hafði gleymt að klippa hana frá.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
28.2.2024 | 09:36
Maður með nef
Margir kannast við ævintýrið um Gosa spýtukall. Hann er lygalaupur. Hann kemur jafnóðum upp um sig. Þannig er að í hvert sinn sem hann lýgur þá lengist nef hans. Þetta er ekki einsdæmi. Fyrir áratug fór að bera á svona hjá breskum hermanni á eftirlaunum, Jóa lygara, Þegar hann laug bólgnaði nef hans. Að því kom að nefið formaðist í stóran hnúður. Þetta hefur eitthvað að gera með taugaboð og örari hjartslátt þegar hann fer með fleipur.
Þetta lagðist þungt á 64 ára mann. Hann einangraði sig. Læddist með Covid-grímu út í matvörubúð að nóttu til þegar fáir eru á ferli. Fyrir tveimur árum leitaði hann til lýtalæknis. Sá fjarlægði hnúðinn, lagaði nefið í upprunalegt horf og gaf Jóa ströng fyrirmæli um að láta af ósannindum..
Spil og leikir | Breytt 29.2.2024 kl. 08:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.2.2024 | 10:13
Kallinn reddar
Í samfélagi mannanna má jafnan finna kallinn sem græjar hlutina; lagar það sem úrskeiðis fer. Hann er engin pjattrófa. Hann grípur til þess sem hendi er næst og virkar. Það eitt skiptir máli. Útlitið er algjört aukaatriði. Sama hvort um er að ræða stól, handstýrða rúðuþurrku, flöskuopnara, farangursskott með læsingu, klósettrúllustatíf eða hurð í risinu. Það leikur allt í höndunum á honum.
19.1.2024 | 10:53
Vandræði við að rata
Ég átti leið í Costco. Flest þar er á svipuðu verði og í Bónus. Fólk getur þess vegna sparað sér 5000 króna félagsgjald í Costco. Þó má komast í ódýrara bensín og smakk á ýmsum matvælum.
Samferða mér inn í Costco var ungur maður og öldruð kona. Maðurinn gekk greitt. Konan dróst afturúr. Hún kallaði á eftir honum hvellri röddu: "Erum við núna í Keflavík?"
Maðurinn umlaði eitthvað sem ég náði ekki. Rifjaðist þá upp fyrir mér þegar mæðgur á Akureyri þurftu að bregða sér til Reykjavíkur. Þær rötuðu ekkert í höfuðborginni. Þetta var fyrir daga tölvunnar. Þær ákváðu að keyra vel inn í Reykjavík áður en spurt yrði til vegar. Allt gekk vel. Svo komu þær að sjoppu og spurðu afgreiðsludömuna: "Hvert er best að fara í átt að Krummahólum?"
Daman snéri sér að annarri afgreiðsludömu og spurði: "Eru Krummahólar ekki einhversstaðar í Reykjavík?"
Áður en hún náðu að svara spurðu mæðgurnar: "Erum við ekki í Reykjavík?"
- Nei, svaraði daman. Við erum í Hafnarfirði!
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
12.1.2024 | 08:39
Áfall!
Ég verð seint sakaður um að horfa of mikið og of lengi á sjónvarp. Síst af öllu að horfa á línulaga dagskrá. Þess í stað fletti ég upp á dagskrá Rúv á heimasíðu þess og hlera hvort þar hafi verið sýnt eitthvað áhugavert. Ég er ekki með neina keypta áskrift.
Í gær fletti ég upp á endursýndri spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur. Það er fróðlegt og skemmtilegt sjónvarp. Í kjölfarið birtist óvænt Hemmi Gunn á skjánum. Mér var illa brugðið. Gleðipinninn féll frá fyrir 11 árum. Þetta var áfall. Mér skilst að Sjónvarpið hafi hvorki varað ættingja hans né vini við. Þetta var svakalegt.
Við nánari könnun kom í ljós að um var að ræða endursýningu á gömlum skemmtiþætti, Á tali hjá Hemma Gunn. Sem betur fer var tali sjónvarpsstjörnunnar ekki breytt með gervigreind. Það var lán í óláni.
Ég vara viðkvæma við að "skrolla" lengra niður þessa bloggsíðu. Fyrir neðan eru nefnilega myndir af Hemma.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 08:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
5.1.2024 | 04:51
Óvænt og ferskt stílbragð Rúv
Löng hefð er fyrir því að viðurkenningarskjöl, meistarabréf og fleira af því tagi séu virðuleg og vegleg. Einkum er nafn handhafa plaggsins sem glæsilegast. Oft skrautskrifað. Tilefnið kallar á að reisn sé yfir verkinu. Enda algengt að það sé innrammað og prýði veggi.
Í fésbókarhóp sem kallast Blekbyttur vekur Árni Sigurðsson athygli á nýstárlegri framsetningu Rúv á viðurkenningarskjali. Þar eru fréttamenn ársins heiðraðir. Skjalið sem staðfestir titilinn lætur lítið yfir sér - ef frá er talið nafn handhafans. Það stingur í stúf við tilefnið; er krotað með hrafnasparki líkt og eftir smábarn að krota með kúlupenna.
Með uppátækinu fer Rúv inn á nýjar brautir. Út af fyrir sig er metnaður í því. Einhver kallaði þennan nýja stíl "pönk". Munurinn er þó sá að pönk er "kúl".
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 08:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
31.12.2023 | 12:09
Lán í óláni
Kunningi minn er á áttræðisaldri. Hann á orðið erfitt með gang. Þess vegna fer hann sjaldan úr húsi. Nema ef frá er talið rölt í matvörubúð. Hann býr við hliðina. Tilvera hans er fábrotin. Sjón hefur dofnað. Hann les ekki lengur. Bækur voru honum áður besti félagsskapur.
Fyrr í þessum mánuði ákvað hann að rjúfa einangrun sína. Hann fékk sér sjónvarp og sjónvarpspakka, internet, ráder, myndlykil, prentara, snjallsíma og allskonar. Hann kunni ekkert á þetta. Hann fékk ungan mann til að tengja allt og kenna sér á helstu aðgerðir.
Ekki gekk þjónustumaðurinn vel um. Hann skildi eftir á gólfinu hrúgu af snúrum af ýmsu tagi. Á dögunum vaknaði gamlinginn utan við sig. Hann flæktist í snúrunum; sveif á hausinn og rotaðist. Það síðasta sem hann man var að horfa á eftir stóra flatskjánum skella á næsta vegg.
Margar snúrur höfðu aftengst. Með aðstoð 8007000 tókst honum að tengja þær upp á nýtt. Honum til undrunar stóð flatskjárinn af sér höggið. Hann virkar. Ekki nóg með það; myndin á skjánum er ennþá skýrri og litir skarpari en áður. Jafnframt örlar núna á þrívídd.
Allra best þykir honum að sjónvarpsdagskráin á skjánum er betri en fyrir óhappið.
Spil og leikir | Breytt 14.1.2024 kl. 16:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.12.2023 | 09:51
Jólatiktúrur afa - 3ji hluti
Afi keypti ekki jólakort fyrr en á milli jóla og nýárs. Þá fékk hann þau á góðum afslætti í Kaupfélaginu á Sauðárkróki. Hann hældi sér af því hvað hann náði að kýla verðið niður. Jafnframt sagði hann: "Ég ætla ekki að spandera jólakorti á einhvern sem sendir mér ekki kort. Það kemur ekki til greina!"
Eftir borðhald á heimilinu, uppvask og frágang voru pakkar opnaðir. Um það leyti fékk afi alltaf spennufall - eftir margra daga stanslausa tilhlökkun. Hann hnussaði og hneykslaðist yfir öllum gjöfum. Það var skemmtiefni fyrir okkur hin að fylgjast með fussinu í afa: "Hvaða endemis rugl er þetta? Hvað á ég að gera með bók? Ég hélt að allir vissu að ég væri löngu hættur að lesa. Ég á ekki einu sinni bókahillu. Ég hef ekkert geymslupláss fyrir bækur!"
Ein jólin fékk afi pakka með sokkum og nærbuxum. Hann ætlaði að springa úr vanþóknun: "Hvaða fíflagangur er þetta? Hvað á ég að gera við stuttar nærbuxur? Ég hef aldrei á ævi minni farið í stuttar buxur. Þetta eru unglingabuxur. Þvílíkt og annað eins. Er fólk að tapa sér?"
Við gátum ekki varist hlátri er afi dró upp úr næsta pakka forláta síðar nærbuxur. "Þú hefur verið bænheyrður," skríkti mamma í stríðni. Afi hafði ekki húmor fyrir þessu: "Hverjum dettur í hug að ég fari að ganga í útlendum bómullarbuxum? Ég hef aldrei klæðst nema íslenskum prjónanærbuxum. Ég breyti því ekki á grafarbakkanum. Hvað eiga svona heimskupör að þýða?"
Ég man ekki hvort það var úr næsta eða þar næsta pakka sem afi fékk dýrindis prjónanærbuxur. Mamma hrópaði: "Þetta er þitt kvöld. Þú ert stöðugt bænheyrður."
Afi varð vandræðalegur. Hann skoðaði buxurnar í bak og fyrir; stóð upp og mátaði við sig stærðina og annað. Allt virtist eins og best var á kosið. Pabbi grínaðist með þetta: "Þetta eru söguleg tíðindi. Það er ekkert að buxunum."
Afi hafði ekki sagt sitt síðasta: "Hverjum dettur í hug að hafa svona frágang á buxnaklaufinni? Hún er hneppt eins og skyrta. Ég hélt að allir vissu að á prjónanærbuxum á að vera áfast stykki sem er hneppt þvert yfir til hægri. Á þessum buxum er eins og hálfviti hafi verið að verki. Þvílíkt klúður! Það er eins gott að fólk sjái mig ekki í þessari hörmung. Ég yrði að athægi!"
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.12.2023 | 00:23
Jólatiktúrar afa - Annar hluti
Aðferðir afa við að bjarga ótímabærum jólagjöfum báru ekki alltaf besta kost. Eitt sinn fékk hann ílangan jólapakka. Hann bankaði í kassann, hristi og kreisti. Hann taldi sig heyra undarleg hljóð úr pakkanum. Því fastar sem hann bankaði í kassann þeim mun undarlegri voru hljóðin. Á aðfangadag var afi að springa úr forvitni. Er hann opnaði pakkann komu í ljós þrjár stórar og glæsilegar jólakúlur. Þær voru mölbrotnar eftir barsmíðar afa. Afi kenndi Póstinum um.
Er ég var 10 - 11 ára fól afi mér það hlutverk að lesa upp úr jólakortum hans. Sjón hans var ekki nógu góð. Ég snéri út úr textanum. Það var sama hvað ég "las" undarlegan texta; afi trúði öllu.
Af einu korti þóttist ég lesa: "Við óskum þér með hálfum huga farsæls komandi árs."
Afa var hvergi brugðið. Hann útskýrði: "Þarna er Fríðu rétt lýst. Hún er svo mislynd. Skelfilega mislynd."
Úr öðru korti las ég": "Farsælt komandi ár en þökkum ekki fyrir liðið." Afi útskýrði: "Þetta er Jón sonur þeirra sem skrifar þetta. Honum er strítt í skólanum. Þess vegna lætur hann svona."
Spil og leikir | Breytt 23.12.2023 kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
9.12.2023 | 14:03
Jólatiktúrur afa - Fyrsti hluti
Afi var jólabarn. Hann hlakkaði alltaf barnslega mikið til jólanna. Var gífurlega spenntur. Er jólapakkar tóku að berast í hús átti hann erfitt með að hemja sig. Hann bar sína pakka inn til sín. Þar þuklaði hann á þeim fram og til baka. Aldrei leið á löngu uns við krakkarnir urðum varir við að afi hafði gægst í þá. Reyndi hann þó að leyna því.
Þegar við sökuðum hann um þetta varð hann vandræðalegur og bar fyrir sig langsóttar ástæður. Er hann gægðist í ferkantaða pakka sagðist hann hafa orðið að ganga úr skugga um að ekki væri um konfekt að ræða.
"Maður geymir ekki konfekt hvar sem er," útskýrði afi. "Það gæti bráðnað ef pakkarnir eru nálægt ofninum."
Um rifu á mjúkum pökkum var afsökunin: "Ég var að færa hann úr stað. Tók í ógáti of fast á honum. Bréfið brast. Þegar ég skoðaði rifuna betur þá rifnaði hún meir. Jólapappír er orðinn svo aumur nú til dags að það er hneisa!"
Einstaka sinnum fékk afi konfekt í jólagjöf. Hann hafði það út af fyrir sig. Ég spurði af hverju hann biði ekki með sér. Svarið var: "Foreldrar þínir fengu líka konfekt í jólagjöf. Við þurfum þess vegna ekkert að togast á um þessa fáu mola. En ég skal gefa þér brjóstsykurmola." Sem hann gerði.