Færsluflokkur: Spil og leikir

Smásaga um borð

  Skemmtiferðaskipið vaggar mjúklega.  Mikið er að gera á barnum.  Fastagestirnir mættir.  Mörg ný andlit líka.  Þétt setið við hvert borð.  Margir standa við barinn.  Músíkin er lágt stillt.  Barþjónarnir skynja að fólkið vill masa.  Masið hljómar eins og niður aldanna.  Jafn og þéttur kliður sem er brotinn upp með einstaka hlátrarsköllum. 

  Skyndilega rjúfa þrjú hvell bjölluslög stemmninguna.  Það er síðasta útkall á barinn.  Gestirnir þekkja þetta.  Örtröðin við barinn þéttist.

  Hálftíma síðar eru öll ljós tendruð.  Samtímis er slökkt á músíkinni.  Raddsterkur barþjónn kallar:  "Góðir gestir,  takk fyrir komuna.  Góða nótt!"

  Barþjónarnir hefja tiltekt á meðan gestirnir tínast út og halda til kauju.  Svo slökkva þeir ljós og loka á eftir sér.

  Allt er hljótt.  Að nokkrum tíma liðnum hvíslar borð næst útidyrunum:  "Psss,  psss.  Hey,  þið borð.  Ég þarf að ræða við ykkur."  Engin viðbrögð.  Þá áttar borðið sig á að borð hafa ekki eyru;  engan munn og talfæri.  Þau hafa ekki heila;  ekkert taugakerfi.  Þau geta ekki einu sinni sýnt ósjálfráð viðbrögð.  Við þessa hugsun roðnar borðið af skömm.  Svo fyllist það yfirlæti.  Það hnussar og tautar hæðnislega:  "Þetta mættu fleiri vita um borð!"  

bar  


Aldraðir glæpamenn

  Ég átti erindi í bókasafn.  Þar sátu tveir aldraðir karlar og ein gömul kona.  Ég giska á að þau hafi verið um eða yfir áttrætt.  Spjall þeirra barst að forréttindum aldraðra.  Þau könnuðust við að komast upp með eitt og annað vegna þess að almenningur standi í þeirri trú að gamalt fólk sé heiðarlegt.  Þau flissuðu og karlarnir nefndu dæmi.

  Annar sagðist ekki lengur aka bíl.  Þess í stað taki hann strætó - án þess að borga.  Hann tekur upp símann,  leggur hann á lesarann en borgar ekki.  Bílstjórarnir fatta ekki neitt.

  Hinn hafði unnið hjá stóru fyrirtæki.  Starfsmenn fengu skírteini sem veitir afslátt á ýmsum vörum og þjónustu.  Skírteinið er löngu útrunnið.  Hann notar það samt stöðugt og enginn fattar.    

  Þeir komust upp með að hnupla smáhlutum í verslunum.  Öryggisverðir og afgreiðslufólk vaktar bara ungt fólk.  Þeir eiga líka til að fara á matsölustaði sem rukka eftir á.  Þeir stinga af þegar komið er að borgun.  Trixið er að fara út í rólegheitum.  Ef þeir eru nappaðir þá leika þeir sig ringlaða.  Þykjast ekki skilja upp né niður.  Allir sýna því skilning. 

  "Ég myndi alddrei þora neinu svona,"  sagði konan og staulaðist út.


Banki rassskelltur

  Um eða eftir miðjan níunda áratuginn var hraðbanki kynntur til sögunnar.  Sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi á,  eins og skáldið orðaði það.  Nýjungin var kynnt með öflugri auglýsingaherferð.  Sú kostaði skildinginn.   

  Maður nokkur átti bankanum grátt að gjalda.  Hann hafði skrifað upp á ábyrgð fyrir bankaláni ættingja.  Ábyrgðin var upp á 500 þúsund.  Lánið lenti í vanskilum.  Bankinn skuldsetti manninn.  Verra var að bankinn uppfærði upphæðina til samræmis við verðbólgu þess tíma.  Maðurinn var ósáttur og fór með málið fyrir dómstóla.  Þar tapaði hann málinu.

  Maðurinn stofnaði fyrirtækið Hraðbanki og festi sér nafnið í firmaskrá.  Því næst gekk hann á fund bankastjóra.  Gerði honum grein fyrir því hver ætti nafnið Hraðbanki.  Næsta skref væri að fá lögbann sett á auglýsingaherferðina.  Eða - það sem hann væri líka til viðræðu um - að bankinn keypti af sér nafnið.  Það væri falt fyrir 1200 þúsund krónur. 

  Maðurinn var ekki með frekju.  Þetta var sú upphæð sem hann hafði tapað í viðskiptunum við bankann.  Upphæðin var aðeins brotabrot af því sem auglýsingaherferð bankans kostaði.  Bankastjórn stökk með snatri á tilboðið. 

   


Galdrar Bítlanna

 

  Breska hljómsveitin Bítlarnir (The Beatles) átti skamman feril á sjöunda áratugnum.  Plötuferill hennar spannaði sex ár.  Á þeim tíma sló hún hvert metið á fætur öðru.  Svo rækilega að um tíma átti hún samtímis sex vinsælustu lög á bandaríska vinsældalistanum.

  Hljómsveitin hafði á að skipa tveimur bestu lagah0fundum sögunnar.  Áður en yfir lauk var sá þriðji kominn í hópinn.  Allir ágætir textahöfundar.  Þar af einn sá allra besti,  John Lennon.  Þarna voru líka saman komnir tveir af bestu rokksöngvurum sögunnar.

  Bítlarnir voru leikmenn;  sjálflærðir amatörar.  Þeir kunnu ekki tónfræði né nótnalestur.  Samt stóðust þeir samanburð við hvaða hljómsveitir sem var. Eða réttara sagt:  skákuðu öllum hljómsveitum.

  Þó að enginn Bítill hafi lært á hljóðfæri þá léku þau í höndum þeirra.  Allir spiluðu þeir á gítar,  hljómborð,  trommur og allskonar.  Einn spilaði listavel á munnhörpu.  Annar á indverskan sítar.  Þannig mætti áfram telja.  

  Upptökustjóri Bítlanna,  George Martin,  var sprenglærður í klassískri tónlist.  Af og til benti hann Bítlunum á að eitthvað sem þeir voru að gera stangaðist á við tónfræðina.  Jafnóðum varð hann að bakka því það sem Bítlarnir gerðu "rangt" hljómaði betur.  

  Einn af mörgum kostum Bítlanna var að þeir þekktu hvern annan svo vel að þeir gátu gengið í hlutverk hvers annars.  Til að mynda þegar John Lennon spilaði gítarsóló í laginu "Get Back" þá fór hann í hlutverkaleik.  Þóttist vera George Harrison.  Síðar sagði George að hann hefði spilað sólóið alveg eins og John.  

  Hér fyrir ofan er síðasta lag sem Bítlarnir spiluðu saman,  "The End" á plötunni Abbey Road.  Í lokakafla lagsins taka John,  Paul og George gítarsóló.  Þetta er óæfður spuni.  Eitt rennsli og dæmið steinlá.  

  Fyrir neðan eru gítarsólóin aðgreind:  Paul til vinstri,  George til Hægri,  John fyrir neðan. 


Naflaskraut

  Við höfum heyrt út undan okkur að töluvert sé um að ungar konur fái sér naflaskraut.  Þetta er svo gott sem tískufyrirbæri.  Jafnan eru það nettir "eyrnalokkar" sem fá að prýða naflann.  Þeir passa samt ekki öllum.  Þá er þetta ráðið.

naflaskraut


Dvergur étinn í ógáti

  Þetta gerðist í Norður-Taílandi.  Dvergur var með skemmtiatriði í sirkuss.  Hann sýndi magnaðar listir sínar á trampólíni.  Eitt sinn lenti hann skakkt á trampólíninu úr mikilli hæð.  Hann þeyttist langt út í vatn.  Næsta atriði á dagskrá var að flóðhestur í vatninu átti að kokgleypa melónu sem var kastað til hans úr töluverðri fjarlægð.  Við skvampið frá dvergnum ruglaðist flóðhesturinn í ríminu.  Hann gleypti dverginn undir dynjandi lófaklappi 2000 áhorfenda.  Þeir héldu að þetta væri hápunktur skemmtunarinnar. 

flóðhestur      


Smásaga um trekant sem endaði með ósköpum

  Jonni átti sér draum.  Hann var um trekant með tveimur konum.  Þegar hann fékk sér í glas impraði hann á draumnum við konu sína.  Hún tók því illa.

  Árin liðu.  Kunninginn færði þetta æ sjaldnar í tal.  Börnin uxu úr grasi og fluttu að heiman.  Hjónin minnkuðu við sig.  Keyptu snotra íbúð í tvíbýlishúsi.  Í hinni íbúðinni bjuggu hjón á svipuðum aldri.  Góður vinskapur tókst með þeim.  Samgangur varð mikill.  Hópurinn eldaði saman um helgar,  horfði saman á sjónvarp,  fór saman í leikhús, á dansleiki og til Tenerife.

  Einn daginn veiktist hinn maðurinn.  Hann lagðist inn á sjúkrahús.  Á laugardagskvöldi grillaði Jonni fyrir þau sem heima sátu.  Grillmatnum var skolað niður með rauðvíni.  Eftir matinn var skipt yfir í sterkara áfengi.  Er leið á kvöldið urðu tök á drykkjunni losaralegri.  Fólkið varð blindfullt. 

  Þegar svefndrungi færðist yfir bankaði gamli draumurinn upp hjá Jonna.  Leikar fóru þannig að draumurinn rættist loks.  Morguninn eftir vaknaði kappinn illa timbraður.  Konurnar var hvergi að sjá.  Sunnudagurinn leið án þess að málið skýrðist.  Á mánudeginum hringdi frúin loks í mann sinn.  Tjáði honum að þær vinkonurnar hefðu uppgötvað nýja hlið á sér.  Þær ætluðu að taka saman.  Sem þær gerðu.  Eftir situr aleinn og niðurbrotinn maður.  Hann bölvar því að draumurinn hafi ræst.

Threesome      


Keypti karl á eBay

  Staurblankur enskur vörubílstjóri,  Darren Benjamin,  sat að sumbli.  Hann vorkenndi sér mjög.  Bæði yfir blankheitunum og ennfremur yfir að vera alltaf einn.  Það er einmanalegt.  Eftir margar og miklar vangaveltur yfir stöðunni fékk hann hugmynd.  Hún var sú að auglýsa sig til sölu á uppboðsvefnum eBay.  Hann hrinti henni þegar í framkvæmd.  Hann lýsti söluvörunni þannig:  "Kynþokkafullur en blankur vörubílstjóri til sölu."

 Viðbrögð voru engin fyrstu dagana.  Síðan fór Denise Smith að vafra um eBay.  Hún rakst á auglýsinguna.  Henni leist vel á ljósmyndina af kallinum.  Hún bjó í Milton Keynes eins og hann.  Henni rann blóðið til skyldunnar.  Yfir hana helltist vorkunn vegna aðstæðna hans.  Jafnframt blossaði upp í henni löngun til að veita ummönnun. 

  Denise bauð 700 kr. í kauða.  Hún var viss um gagntilboð.  Það kom ekki.  Tilboðinu var tekið.  Hann flutti þegar í stað inn til hennar.  Enda lá það í loftinnu.  Hann var orðinn eign hennar.  Þar með gat Darren sagt leiguíbúð sinni upp.  Það sparaði pening.

  Umsvifalaust var blásið til formlegs brúðkaups.  Eða eiginlega brúðgumakaups. 


Smásaga um viðskipti

  Þegar skólasystkinin byrjuðu í unglingavinnunni hannaði Nonni barmnælur með myndum af lunda og kind.  Nælurnar lét hann fjöldaframleiða í Kína.  Sumarið fór í að koma vörunni í túristasjoppur.  Einnig í sjoppur í fámennari þorpum þar sem fátt var um minjagripi.

  Er haustaði var salan orðin hálf sjálfvirk.  Pantanir bárust í tölvupósti og voru sendar með Póstinum.  Ágæt innkoma,  lítil vinna en einmanaleg.  Tíminn leið hægt.  Nonni saknaði þess að hitta fólk og spjalla. 

  Svo rakst hann á auglýsingu.  Heildverslun með ritföng óskaði eftir lagermanni í hálft starf.  Hann hringdi og var boðaður í viðtal.  Reksturinn var í höndum ungs manns og 17 ára systur hans. 

  Nonni sagði vinnuna henta sér vel til hliðar við nælurnar.  Maðurinn sýndi þeim áhuga.  Spurði mikils og hrósaði framtakinu.  Hann fékk hugmynd:  Hvernig væri að sameina þessi tvö fyrirtæki í eina öfluga ritfanga- og næluheildsölu?  Hann kallaði á systurina og bar þetta undir hana.  Hún fagnaði.  Nonni líka.  Ekki sakaði að hann var þegar skotinn í henni.  Hún var fögur og hláturmild. 

  "Drífum í þessu,"  skipaði bróðirinn.  "Þið tvö skottist eftir nælulagernum á meðan ég geri uppkast að samningi."  Þau ruku af stað.  Stelpan ók á rúmgóðum sendibíl.  Eins gott því Nonni var nýkominn með stóra sendingu.  Nú var gaman.  Fegurðardísin daðraði við hann.  Þau ferjuðu lagerinn inn í vöruhús heildsölunnar.  Bróðirinn kom með skjal til undirritunar.  Mikill og torskilinn texti á flóknu lagamáli.

  "Ég get ekki kvittað undir þetta,"  kvartaði Nonni.  "Ég skil ekki helminginn af þessu.  Þetta hljómar eins og ég sé að afsala mér nælunum til ykkar."

  "Já, það er rétt,"  viðurkenndi maðurinn.  "Við þurfum að umorða textann.  Þetta er  bráðabirgðauppkast. Á morgun semjum við í sameiningu nýtt skjal og fáum lögfræðing að þínu vali til að yfirfara það.  En við skulum öll krota undir uppkastið svo þetta sé komið í ferli."

  "Ég á erfitt með að skrifa undir þetta,"  mótmælti Nonni. 

  "Kanntu ekki að skrifa nafnið þitt?"  flissaði stelpan og ýtti skjalinu að honum.  Fallegt bros hennar sló hann út af laginu.  Eins og ósjálfrátt undirritaði hann en sá um leið eftir því.  Stelpan dró blaðið snöggt til sín og hallaði hlæjandi höfði á öxl hans:  "Ég var að stríða þér!"  

  "Sofum á þessu í nótt og innsiglum samrunann með handabandi," stakk bróðirinn upp á og rétti fram hönd. 

  "Eða með knúsi," bætti stelpan við um leið og hún faðmaði Nonna þéttingsfast.   

  Morguninn eftir mættu Nonni og daman á slaginu klukkan 9.  Hún heilsaði honum með knúsi og sagði "Gaman að sjá þig!  Bróðir minn er lasinn.  Hann var með ælupest í nótt.  Við getum dólað okkur á meðan við að uppfæra viðskiptamannalistann.  Slá inn símanúmer, netföng og það allt.  Eða hvort við byrjum á að senda þinum viðskiptavinum póst um að héðan í frá sendi þeir pantanir á netfang ritfangasölunnar.  Já,  gerum það fyrst."

  Dagurinn leið hratt.  Stelpan var stríðin.  Það var mikið hlegið.  Nonni sveif um á bleiku skýi.

  Bróðirinn var frá vinnu í 2 daga.  Svo kom helgi.  Á mánudeginum mætti hann strangur á svip.  "Ég hef legið undir feldi," sagði hann.  "Þú gagnast ekki nógu vel í vinnu hér.  Þú ert ekki með aldur til að fá bílpróf.  Plan okkar gengur ekki upp."

  Þetta var reiðarslag.  Nonni reyndi að bera sig vel.  Lán í óláni var að kynnast stelpunni.  Þau gætu áfram verið í sambandi ef hann tæki tíðindunum án leiðinda.  "Hún skutlar þá lagernum til mín á eftir," lagði hann til.

  "Nei,  höldum honum hérna!"  mótmælti bróðirinn höstuglega.  "Þú afsalaðir þér honum til mín.  Ég þinglýsti skjalinu.  Þetta eru einföld viðskipti.  Ekki illa meint.  Sumir eru lúserar.  Aðrir sigurvegarar.  Þeir hæfustu lifa!"                   

 

lundikind


Poppstjörnur á góðum aldri

 

  18. febrúar komst japanska myndlista- og tónlistarkonan Yoko Ono á tíræðisaldur.  Þá var kveikt á friðarsúlunni í Viðey til að samfagna með henni.  43 ár eru síðan hún varð ekkja Johns Lennons er hann var myrtur úti á götu í New York. Svona er lífið.

  Árlega höfum við ástæðu til að fagna hverju ári sem gæfan færir okkur.  Um leið gleðst ég yfir yfir hækkandi aldri poppstjarna barns- og unglingsára minna.  

  Kántrý-útlaginn Willie Nelson kemst á tírðisaldur í apríl.  Þessi eiga líka afmæli í ár (aldurinn innan sviga): 

  Tína Turner, Grace Slick (Jefferson Airplane) og Ian Hunter (Mott the Hoople) (84)

  Ringo Starr og Smokey Robinson (83)  

  Bob Dylan, Joan Baez, Eric Burdon (Animals), Paul Simon og Neil Diamond (82) 

  Paul McCartney,  Roger McGuinn (Byrds) og Brian Wilson (Beach Boys) (81)

  Mick Jagger,  Keith Richards, Roger Waters (Pink Floyd) og Steve Miller (80) 

  Rod Stewart,  Ray Davies (Kinks), Roger Daltrey (Who) og Carly Simoon (79)

  John Fogerty (Creedence Clearwater Revival),  Debbie Harry (Blondie),  Robert Wyatt,  Neil Young,  Pete Townshend (Who) og Eric Clapton (78)

  Patti Smith,  Linda Ronstadt, Donovan og Dolly Parton (77)

  Arlo Guthrie,  Elton John,  Carlos Santana,  Emmylou Harris,  Joe Walsh og Iggy Pop (76)

  Rober Plant  (Led Zeppelin),  Stevie Nicks (Fleedwood Mac) og Alice Cooper (75)

  Bruce Springsteen og Hugh Cornwell (Stranglers) (74)

  Peter Gabriel,  Stevie Wonder og Billy Joel (73)

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband