Færsluflokkur: Spil og leikir

Stórmerkileg námstækni

  Ég var staddur í verslun.  Þar varð ég vitni að því er tveir unglingspiltar hittust og heilsuðust fagnandi.  Annar spyr:  "Hvernig gekk þér í prófinu hjá...?" og nefndi nafn sem ég gleymdi jafnóðum.  Hinn svaraði:  "Ég notaði öfluga námstækni sem ég hannaði sjálfur.  Í stað þess að pæla í gegnum alla bókina þá byrjaði ég á því að sortera í burtu allt sem ég var 100% viss um að aldrei yrði spurt um.  Síðan lærði ég utanað 50% af því sem eftir stóð.  Með þessari aðferð reiknast mér til að maður eigi að geta verið pottþéttur með að fá að lágmarki 6 eða jafnvel 7.

  - Hvað fékkstu?  spurði skólabróðirinn spenntur.

  - Helvítis gaurinn felldi mig. Gaf mér aðeins 2.  Spurði aðallega um það sem ég lærði ekki!     


Staðin að verki!

  Meðfylgjandi mynd tók 22ja ára ensk stelpa er hún greip kærastann og móður sína glóðvolg í bólinu.  Stelpan og strákurinn höfðu verið par í 10 mánuði.  Hún var barþjónn.  Af ótilgreindum ástæðum féll vakt hennar óvænt niður að hálfu eitt kvöldið.  Hún ákvað að nota fríið til að heimsækja móðir sína.

  Er hún gekk inn í íbúð mömmunnar blöstu skór kærastans við.  Frá efri hæðinni barst músík og ástarbrími.  Það fauk í hana.  Hún læddist upp og smellti ljósmynd af því sem mætti henni.  Myndina setti hún á Facebook.  Hún fór eins og stormsveipur um netheima og bresku götublöðin.

  Sumum þótti myndbirtingin ósmekkleg refsing.  Stelpan spurði:  "Er hún ósmekklegri en að vera svikin af kærastanum og móður?"

  Mamman kenndi stráksa um allt.  Hann hafi platað hana með fagurgala og herðanuddi á meðan hún vaskaði upp.  Eiginlega gegn sínum vilja tók hún þátt í að tína af sér spjarirnar og skríða með kauða undir sæng.

  Mamman segist þakklát dótturinni fyrir að bjarga sér úr vondum aðstæðum.  Þær mæðgur séu báðar fórnarlömb tungulipurs loddara. 

  Pilturinn segist aðeins hafa þegið það sem stóð honum til boða.  Hann væri ástralskur skiptinemi og stutt í heimferð.  "Mér gæti ekki verið meira sama," segir hann kotroskinn.

  Dóttirin sættist með semingi við mömmuna.  Sagði auðveldara að henda lélegum bólfélaga í ruslið en afskrifa mömmu. 

  Á myndunum til hægri eru mamman og stráksi fullklædd.

mamman

mamman.

  

  

      


Bestu hljómsveitirnar

  Allir -  eða allflestir - kunna vel að meta músík af einhverju tagi.  Svo eru það þeir sem hafa ástríðu fyrir músík.  Á ensku eru þeir kallaðir music lovers og eru á bilinu 3 - 5% fólks.  Tilvera þeirra snýst að stórum hluta um músík.  Þeir láta sér ekki nægja að hlusta á músík heldur fræða þeir sig um músík.  Skoða og skilgreina.

  Á dögunum tók einn sig til og stúderaði alla marktæka lista sem hann fann yfir bestu hljómsveitir bresku dægurlagasögunnar.  Listana lagði hann saman og reiknaði út einn sameiganlegan heildarlista.  Listarnir voru reyndar að mestu samstæðir.  Einkum efstu sætin.  Þau eru þessi:

1  Bítlarnir

2  Rolling Stones

3  Led Zeppelin

4  Pink Floyd

5  Clash

6  Who

7  Queen

8  Kinks

9  Black Sabbath

10 Smiths

11 Radiohead

12 Cure

13 Oasis

14 Sex Pistols

15 Genesis


Stórmerkilegur launalisti

Woodstock_poster 

  1969 var haldin merkasta hljómleikahátíð sögunnar.  Hún fór fram í Woodstock í New York ríki.  Yfirskriftin var "3ja daga friður og tónlist".  Þegar á reyndi teygðist dagskráin yfir fjóra daga. 

  Í upphafi var áætlað að hátíðin gæti laðað 15 þúsund manns að.  Er nær dró var ljóst að töluvert fleiri kæmu.  Aðstaða var þá bætt og gerð fyrir 25 þúsund gesti.

  Svæðið og næstu sveitabæir hurfu í mannhafi.  Hátt í hálf milljón mætti (á milli 470 - 480).  Allt fór í klessu:  hreinlætisaðstaða,  matur og drykkir...  Rigning og troðningurinn breyttu jarðvegi í drullusvað. 

  Eitt af mörgu sem gerði hátíðina merkilega er að allt fór friðsamlega fram.  Engar nauðganir eða annað ofbeldi.  Enginn drepinn. 

  Forvitnilegt er að skoða í dag hverjar voru launakröfur tónlistarfólksins:

Jimi Hendrix:  18 þúsund dollarar (7 milljón ísl kr. á núvirði).

Blood, Sweat & Tears15.000 dollarar.

Creedence Clearwater Revival og Joan Baez:  10.000 dollarar hvor.  

Janis Joplin,  Jefferson Airplane og The Band7500 dollarar hver.

The Who, Richie Havens,  Canned Heat og Sly & The Family Stone7000 dollarar hver.    

Arlo Guthrie og Crosby, Stills,  Nash & Young 5000 dollarar hvor.

Ravi Shankar:  4500 dollarar. 

Johnny Winter:  3750 dollarar.

Ten Years After:  3250 dollarar.

Country Joe and the Fish og The Grateful Dead:  2500 dollarar hvor. 

Incredible String Band:  2250 dollarar. 

Tim Hardin og Mountain:  2000 dollarar hvor. 

Joe Cocker:  1375 dollarar.    

Sweetwater:  1250 dollarar.

John Sebastian:  1000 dollarar.

Melanie og Santana:  750 dollarar hvor

Sha Na Na:  700 dollarar.

Keef Hartley:  500 dollarar.

Quill:  375 dollarar.


Brjálaður glæfraakstur Önnu frænku á Hesteyri

  Áratugum saman var vegurinn niður í Mjóafjörð einn brattasti,  versti og hættulegasti vegur landsins.  Ökumenn - með stáltaugar - fóru fetið.  Einu sinni var Vilhjálmur Hjálmarsson í Brekku í Mjóafirði að leggja í hann niður í fjörð.  Það var svartaþoka.  Nánast ekkert skyggni.  Hann kveið ferðalaginu.  

  Hann var ekki langt kominn er bíll Önnu Mörtu frænku á Hesteyri blasti við.  Bíllinn mjakaðist löturhægt niður veginn.  Anna ók reyndar alltaf mjög hægt.  Vilhjálmur fann fyrir öryggi í þessum aðstæðum. 

  Skyndilega gaf Anna hressilega í.  Hún brunaði inn í þokuna.  Vilhjálmi var illa brugðið.  Hann sá í hendi sér að´hún gæti ekki haldið bílnum á veginum á þessum hraða.  Síst af öllu í engu skyggni.  Hann ákvað að tapa ekki sjónum af afturljósum Önnu.  Hann yrði að komast á slysstað þegar - en ekki ef - bíllinn brunaði út af.  Skelfingu lostinn þurfti hann að hafa sig allan við að halda í við Önnu. 

  Greinilega hafði eitthvað komið yfir Önnu.  Hún hélt áfram að auka hraðann. Vilhjálmur þorði ekki að líta á hraðamæli.  Honum var ekki óhætt að líta sekúndubrot af afturljósunum. 

  Þegar þau komu niður í dal létti þoku.  Anna ók út í kant og stöðvaði.  Vilhjálmur gerði það einnig; hljóp til Önnu,  reif upp hurðina og spurði hvað væri í gangi.  Hún kom ekki upp orði um stund.  Hún var í losti;  andaði eins og físibelgur og starði með galopin augu í angist á Vilhjálm.  Loks tókst henni að stynja upp:

  "Ég óttaðist að þú reyndir að taka framúr.  Vegurinn býður ekki upp á framúrakstur.  Í svona svartaþoku er lífshættulegt að reyna það.  Ég varð að gera hvað ég gat til að hindra það!"  

  


Hlálegur misskilningur

  Fyrir næstum hálfri öld átti ungur Íslendingur erindi til Lundúnaborgar.  Á þessum árum voru menn ekkert að ferðast til útlanda bara að gamni sínu.  Enda ferðalög dýr,  sem og hótelgisting og uppihald.

  Sameiginlegur kunningi okkar ákvað að nýta tækifærið.  Hann bað vininn um að kaupa fyrir sig Labb-rabb tæki.  Þau voru nýlega komin á markað og kostuðu mikið á Íslandi.  Sögur fóru af því að þau væru mun ódýrari í Bretlandi. Labb-rabb eru handhægar talstöðvar með nokkurra kílómetra drægni.

  Er Íslendingurinn snéri heim voru engin Labb-rabb tæki meðferðis.  Hafði kappinn þó þrætt samviskusamlegar allar verslanir í London sem voru líklegar til að selja tækin.  Enginn kannaðist við Labb-rabb.  

  Þetta vakti undrun í vinahópnum.  Eftir miklar vangaveltur kom í ljós að ferðlangurinn hafði ekki áttað sig á að Labb-rabb er íslensk þýðing á enska heitinu Walkie Talkie!   

  Labb-rabb


Áthylisverð nöfn á bæjum og götum

  Fólk er áhugasamt og sumt viðkvæmt fyrir nöfnum á götum,  bæjum og þorpum.  Í Þýskalandi er bær sem heitir því líflega nafni Fucking.  Hann lokkar að enskumælandi ferðamenn í halarófu.  Það gerir gott fyrir sveitarfélagið.  Verra er að þessir ferðamenn eru fingralangir.  Þeir stela skiltum sem bera nafn bæjarins.

  Í Bandaríkjunum gera heimamenn út á þorpið Hell.  Þeir bjóða gestum og gangandi upp á ótal söluvarning merktan því.  Í Noregi er líka bær sem heitir Hell.  Þar stela ferðamenn einu og öðru.

  Í miðbæ Þórshafnar í Færeyjum er gata sem heitir Tittlingsvegur.  Íslendingum þykir gaman að smella í sjálfu við götuheitið.

  Í Hollandi er gata sem áður bar nafn sem hljómaði líkt og víagra.  Þegar stinningarlyfið Viagra kom fram á sjónarsvið og öðlaðist vinsældir höfðu heimamenn ekki húmor fyrir nafninu.  Þeir skiptu um nafn á götunni. 

  Á síðustu öld reisti Sjálfstæðisflokkurinn bækistöðvar í Bolholti.  Frammámenn í flokknum fengu að skrá húsið við Háaleitisbraut.  Ég veit ekki af hverju. 

scandic hell


Bráðsniðug uppfinning

  Einn kunningi minn er það sem kallast "þúsund þjala smiður".  Hann á létt með að gera við alla bilaða hluti;  hvort heldur sem er heimilistæki,  bíla eða hvað sem er.  Allt leikur í höndunum á honum.  Sjaldnast þarf hann annað en svissneska hnífinn sinn til að koma hlutunum í lag.  Hann grípur það sem hendi er næst og breytir því í varahlut.  Þetta getur verið tappi af kókflösku,  spýtubrot eða plastpoki.  

  Maðurinn er frjór í hugsun og stöðugt að finna upp nýja nytjahluti.  Eitt sinn hannaði hann dósapressu með teljara.  Mjög flott græja.  Er hann fór að kanna með að setja hana í fjöldaframleiðslu kom í ljós að samskonar tæki var til sölu í Húsasmiðjunni. 

  Þá snéri hann sér að því að hanna blaðsíðuteljara.  Dögum saman kannaði hann hina ýmsu möguleika.  Hann reiknaði og teiknaði.  Markmiðið var að tækið yrði ódýrt,  einfalt og þyrfti hvorki batterí,  rafmagn né aðra orkugjafa. 

  Eftir margra daga puð mætti uppfinningamaðurinn á bar í Ármúla,  Wall Street.  Hann sagði viðstöddum frá blaðsíðuteljaranum og vinnunni við að koma honum á koppinn.  Gleðitíðindin voru þau að hönnunin var komin á lokastig.  Þetta yrði jólagjöf næstu ára því margir fá bækur í jólagjöf.  Næsta skref yrði að koma tólinu á heimsmarkað.

  "Er ekki einfaldara að fletta upp á öftustu síðu til að sjá blaðsíðufjöldann?" spurði Siggi Lee Lewis.    

  Aldrei aftur var minnst á blaðsíðuteljarann.  

bók


Hver mælti svo?

  Eftirfarandi gullmolar hrukku upp úr einum og sama manninum fyrir nokkrum árum þegar hann var áberandi í umræðunni.  Hver er það?

  - Ég veit að manneskja og fiskur geta átt friðsamleg samskipti!

  - Sífellt meira af innflutningi okkar kemur frá útlöndum!

  - Eitt það frábæra við bækur er að stundum innihalda þær flottar myndir!

  - Ég held að við getum verið sammála um að fortíðin er liðin!

  - Hvað hef ég heilsað mörgum með handabandi?

  - Ég vona að við komumst til botns í svarinu.  Ég hef áhuga á að vita það.

  - Ef þú hefur engan málstað að verja þá hefur þú engan málstað að verja!

  - Washington DC er staðurinn þar sem fólk stekkur út úr tófugreninu áður en fyrsta skotinu er hleypt af!

  - Þegar ég tala um mig og þegar hann talar um mig þá erum við báðir að tala um mig!


Gullmolar

  Sagan segir að lagið Good Vibration hafi verið samið í sýrutrippi. Hið rétta er að ég samdi það í hassvímu! (Brian Wilson,  Beach Boys)

  Ég var eina manneskjan á Woodstock sem var ekki á sýrutrippi (Joe Cocker.  Hann var "bara" blindfullur). 

  Ég dópaði aldrei.  Djússaði bara.  Mér gast ekki að hugmyndinni að vera stöðugt í slagtogi með lögreglunni! (Robert Wyatt)

  Það skemmtilega við elliglöp er að maður rekst stöðugt á nýtt áhugavert fólk! (Paul McCartney) 

  Einhver líkti því við kynmök við górillu að prófa dóp.  Þú sleppur ekki fyrr en górillan ákveður það! (Peter Tork,  Monkees)

  Ef þú ert svalur þá veistu ekki af því! (Keith Richards)

  Keith gerir út á vorkunn.  Hann reddar sér oft fyrir horn með því að segjast vera heilaskaddaður! (Ronnie Wood,  Rolling Stones)

  Led Zeppelin keppti ekki við neina.  Við vorum besta hljómsveitin.  Enginn gat keppt við okkur! (Robert Plant).

  Lagasmíðar verða að vera mitt lifibrauð.  Ég kann ekkert annað! (Ray Davis,  Kinks)

  Ég verð að vera bjartsýnn.  Annars yrði ég að semja píkupopp og græða sand af seðlum! (Steve Earle).

  Ef þú verður að setja mig í bás þá er uppáhaldsbásinn minn ásatrú. (Neil Young)

  Í 4000 ár hafa skipulögð trúarbrögð reynt að fela þá staðreynd að tunglmánuðirnir eru 13.  Þau reyna að fela töluna 13 af því þau vilja ekki að náttúran sé samkvæm sjálfri sér. (Björk) 

 björk 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.