Færsluflokkur: Fjármál

Anna frænka á Hesteyri í fasteignabraski

   Fullorðin hjón frá Fáskrúðsfirði brugðu sér í heimsókn til Önnu Mörtu frænku minnar á Hesteyri.  Þau eru náttúruunnendur eins og hún.  Þau þrjú röltu saman um land Hesteyrar og drukku í sig fegurð landsins.  Nokkru fyrir ofan íbúðarhúsið er lítill foss.  Hjónin göntuðust með að þarna væri fullkomið umhverfi fyrir sumarbústað.

  Anna tók þau á orðinu og sagði:  "Þið getið fengið landskika hérna á 43 þúsund kall."

  Maðurinn hváði og spurði undrandi hvort hún væri að tala í alvöru. 

  "Ég skulda símreikninginn,"  útskýrði Anna.  "Hann er 43 þúsund.  Hann má ekki vera í vanskilum.  Þið mynduð alveg bjarga mér."       

  Höfð voru snör handtök.  Pappírar útbúnir,  þinglýstir, gengið frá greiðslu,   símreikningnum bjargað fyrir horn og sumarbústaður reistur.

  Framhald í næstu bloggfærslu...

Hesteyri

  Ps.  Þetta var undir lok síðustu aldar.  Gengi krónunnar var annað.  Hugsanlega má þrefalda verðgildið á gengi dagsins í dag.    


Sérkennilegur vinsældalisti

 

  Fyrir nokkrum árum - nánar tiltekið fyrir 61 ári - gerðist undarlegur hlutur vestur í Bandaríkjum Norður-Ameríku.  Þetta var á vordögum 1964.  Ensk unglingahljómsveit naut óvænt vinsælda og virðingar þarna vesturfrá.  Slíkt hafði aldrei áður gerst.  Þótti óhugsandi. Bandaríski vinsældalistinn varð ólíkur því sem tónlistarunnendur áttu að venjast.  Skoðum hvaða lög röðuðu sér í 5 efstu sæti vinsældalistans:

  Í 1. sætinu var lagið "Can´t Buy Ne Love" með Bítlunum (The Beatles).  Lagið kom fyrst inn á vinsældalistann í marslok og klifraði síðan hratt upp í toppsætið.

  Í 2. sætinu var "Twist And Shout" með Bítlunum.  Það fór í 2. sætið í tveimur stökkum.

  Í 3. sæti var "She Loves You" með Bítlunum.  Lagið var áður í 1. sæti.

  Í 4. sæti var "I Want To Hold Your Hand" með Bítlunum.  Það var áður í 1. sæti.

  Í 5. sæti var "Please Please Me" með Bítlunum.  Það náði hæst í 3. sæti - vegna þess að sæti 1 og 2 voru blokkeruð af öðrum Bítlalögum. 

  Samtals áttu Bítlarnir 12 lög samtímis á bandaríska vinsældalistanum um þessar mundir.  Nokkuð sérstakt vegna þess að hljómsveitin hafði aðeins sent frá sér 2 plötur.  Þetta vakti heimsathygli.   


Sparnaðarráð

  Gott og hagstætt getur verið að kunna sparnaðarráð.  Einkum þegar verðbólga geisar,  stýrivextir eru óþægilega háir,  bankavextir eru ennþá óþægilegri og framundan er tollastríð út um allar grundir.  Hér kemur ráð sem kemur sér vel:

  Þegar silungur eða bleikja eru smjörsteikt á pönnu þá er fátt betra en steikja möndlumylsnu með.  Vandamálið er að hún er dýr.  Hana má drýgja með því að ydda framan af blýanti, mylja yddið í smátt og blanda saman við möndlumylsnuna.  

  Brýnt er að brjóta blýið og henda því.  Blý er óholt.

blýantur


Niðurlægður

  Ég átti erindi í Ikea.  Þar er veitingastaður.  Af mörgum ljúffengum réttum er lax girnilegastur.  Ekki skemmir fyrir að máltíðirnar eru á hóflegu verði í samanburði við aðra matsölustaði.  

   Mig langaði í laxinn.  Er ég tölti inn í veitingastaðinn fékk ég góða hugmynd.  Mér datt skyndilega í hug að losa mig við eitthvað af klinki sem hafði hlaðist upp í vösum mínum.  Til að tefja ekki röðina við afgreiðslukassann ákvað ég að vera tilbúinn með rétta upphæð.
   Ég seildist eftir klinki úr tveimur vösum og lagði það í lófa minn.  Þar taldi ég og sorteraði myntina.  Eitthvað vantaði upp á rétta upphæð;  ég seildist eftir fleiri krónum.  Þá vatt sér að mér ung kona.  Hún lagði 1000 kall í lófa minn.  Ég spurði í forundran:  "Hvað?  Var ég að missa þennan seðil í gólfið?"

  Hún svaraði:  "Nei,  ég er að gefa þér hann,  Ég sé að þú ert í vandræðum með að nurla saman fyrir máltíð."

  Ég leiðrétti hana.  Sagðist vera borgunarmaður fyrir mat;  ég ætlaði bara að losna við klink.  "En takk samt!"

  Ég rétti henni seðilinn.  Nærstaddir flissuðu.  Konan góða tók við honum niðurlút og sagði:  "Úps!  Sorry.  Þetta er virkilega vandræðalegt."

lax


Passar hún?

  Á Akureyri býr 94ra ára kona.  Hún er spræk þrátt fyrir að vera bundin í hjólastól.  Hún er með allt sem heyrir undir ADHD og svoleiðis eiginleika.  Fyrir bragðið fer hún stundum skemmtilega fram úr sér.  Oft hrekkur eitthvað broslegt út úr henni áður en hún nær að hugsa.

  Fyrir jólin sendi hún sonarsyni sínum pening.  Honum fylgdu fyrirmæli um að hann myndi fá sér peysu.  Peysan yrði jólagjöfin hans frá henni.

  Eftir jól hringdi hún í strákinn og spurði: 

  - Hvernig peysu fannstu í jólagjöf frá mér?

  - Ég fékk virkilega flotta svarta hettupeysu.

  - Passar hún?

hettupeysa


Heilsu- og megrunarkúr sem slær í gegn

  Margir bera nettan kvíðboga gagnvart jólunum - í bland við tilhlökkun vegna sigurs ljóssins yfir myrkrinu.  Honum er fagnað með mat og drykk.  Fólk gerir vel við sig og aðra.  Sælgæti af ýmsu tagi er hluti af gleðinni:  Konfekt, brjóstsykur, kökur,  tertur,  heitt súkkulaði og þessháttar er hluti af hefðinni.  Ýmsum hættir til að bæta á sig einhverjum kílóum. 

  Á nýju ári er gripið til þess ráðs að fara í megrunarkúr.  Jafnan er hann til þess verra er upp er staðið.  Þá er gott að vita að til er bráðhollur megrunarkúr.  Hann er fyrst og fremst heilskúr en hefur megrandi hliðarverkun.  Engin fita og kaloríur.  Bara prótein,  steinefni og hollusta.  Að auki kostar hann ekki neitt en kallar á skemmtilega útiveru fyrir alla fjölskylduna.

  Þetta er skordýrakúrinn.  Fjölskyldan fer út í náttúruna og safnar skordýrum:  Flugum,  möðkum,  brekkusniglum,  jötunuxum, járnsmiðum, köngulóm og svo framvegis.  Dýrin eru skoluð og síðan léttsteikt á pönnu.  Gott er að strá örlitlu salti og pipar yfir.  Þetta má snæða með soðnum kartöflum.  Einfalt, fljótlegt, holt og gott. 

    


Togast á um utanlandsferðir og dagpeninga

  Utanlandsferðir hafa löngum freistað opinberra embættismenn ríkis og bæja.  Togast er á um setu í nefndum,  ráðum og æðri embættum.  Öllum brögðum er beitt til að komast í utanlandsferðir.  Þær eru bitlingur.  Ekki aðeins er sport að fara í utanlandsferðir sem almenningur borgar heldur fylgja drjúgir dagpeningar með í pakkanum.

  Undantekning frá reglunni var borgarstjóratíð Ólafs F.  Magnússonar.  Hann beitti ströngu aðhaldi í rekstri borgarinnar.  Hann fór aðeins í eina utanlandsferð í embætti.  Hún var til Færeyja í boði Færeyinga.  Þetta var svo óvenjulegt að illar tungur komu af stað lygasögu um að Ólafur væri flughræddur.  

_lafur_f_magnusson_  

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is 26 ferðir til útlanda á þessu kjörtímabili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúleg ósvífni

  Kunningi minn,  Nonni,  bætti við sig áfanga í skóla fyrir nokkrum árum.  Til að fagna  ákvað hann að blása til matarveislu.  Sá hængur er á að hann kann ekki að matreiða.  Vandamálið er ekki stærra en svo að á höfuðborgarsvæðinu eru ótal veitingastaðir.  Þar á meðal einn asískur í göngufæri frá vinnustað Nonna. 

  Hann mætti á staðinn og spurði eftir yfirmanni.  Sá birtist brosandi út að eyrum og einstaklega góðlegur á svip.  Hann sagðist heita Davíð og vera eigandi.

  Nonni bar upp erindið;  hann væri að leita tilboða í 20 manna veislu.  Davíð brosti breiðar og sagði:  "Þú þarft ekki að leita tilboða.  Ég gef þér tilboð sem undirbýður öll önnur veitingahús.  Þú velur einn tiltekinn rétt fyrir hópinn og ég gef þér 50% afslátt!  Til að það gangi upp erum við að tala um pappírslaus viðskipti."

  Nonni gekk að þessu.  Þeir innsigluðu samkomulagið með handabandi og Davíð knúsaði þennan nýja vin sinn.

  Nokkrum dögum síðar mætti Nonni með gesti sína.  Þeim var vísað til sætis og matur borinn fram:  Væn hrúga af hrísgrjónum og örfáir munnbitar af svíni í sósu.

  Afgreiðsludaman tilkynnti ítrekað að gestir með sérrétt mættu ekki fá sér af nálægu hlaðborði.

  Í lok máltíðar grínuðust menn með að vera enn glorhungraðir eftir þennan litla "barnaskammt".  Nonni hnippti í afgreiðsludömuna og spurði hvort möguleiki væri á ábót fyrir þá sem væru ennþá svangir.  Hún tók erindinu vel.  Snaraðist inn í eldhús og sótti stóran hrísgrjónapott.  Spurði hvort einhver vildi aukaskammt af hrísgrjónum.  Einhverjir þáðu það en nefndu að löngun væri meiri í kjötbita.  Það var ekki í boði. 

  Með ólund rétti Nonni afgreiðsludömunni 29000 kall.  "Nei,  pakkinn er 58000 kall,"  mótmælti daman.  "Davíð samdi um 50% afslátt,"  útskýrði hann.  Hún fullyrti á móti að það væri aldrei gefinn afsláttur.  Eftir þref bað hann dömuna um að hringja í Davíð.  Nonni skildi ekki asíumálið en þótti undarlegt að konan hló og flissaði.   Eftir símtalið sagði hún Davíð ráma í að hafa boðið 10% afslátt.Nonni þyrfti því að borga "aðeins" 52200 kall.

  Þungt var í Nonna er hann gekk heim.  Hann er sannfærður um að Davíð hafi sviðsett leikrit.  Ekki síst núna þegar Davíð er opinberlega sakaður um mansal og fleiri glæpi. 

hrísgrjón


Bónusgreiðslur og Bónuskort

  Í kjölfar bankahrunsins 2008 uppgötvaðist að bankarnir gengu á bónuskerfi.  Starfsmenn smöluðu gömlu fólki eins og rollum í réttir.  Smöluðu því af öruggum bankabókum yfir í Sjóð 9 og hvað þeir hétu allir þessir sjóðir.

  Bónuskerfið virkaði svo vel að Samkeppniseftirlitið og Skatturinn hafa tekið það upp.  Fleiri mætti virkja með bónuskerfi.  Til að mynda bílastæðisverði.  Það yrði handagangur í öskjunni ef vörðurinn fengi 1000 kall og Bónuskort fyrir hvern bíl sem hann sektar.  Hann myndi sleppa matar- og kaffihléi til að ná bónusnum upp.

  Hvað með lögguna?  Hvað ef hún fengi 10.000 kall og Bónuskort fyrir hverja handtöku?  Ekki má gleyma dómurum.  Þeir mættu fá vænan bónus og Bónuskort fyrir hver óskilorðsbundinn dóm.

kort

 

   


Smásaga um einbúa

  Lengst vestur á Vestfjörðum býr Jósafat.  Hann er fjárbóndi og einbúi.  Hann er heimakær.  Fer ekki af bæ nema nauðsyn kalli á.  Einsetan hefur ágerst með árunum.  Á unglingsárum kunni hann að skemmta sér.  Hann eignaðist son eftir einnar nætur gaman.  Samband við barnsmóðurina er ekkert.  Samband feðgana er stopult.  Sonurinn er í Reykjavík og hringir einstaka sinnum í pabba sinn.  Eiginlega bara þegar eitthvað fréttnæmt,  svo sem eins og þegar hann trúlofaðist og gerði kallinn að afa.  

  Verra er að sjónin er farin að daprast.  Jósafat ber það undir héraðslækninn.  Sá pantar fyrir hann tíma hjá augnlæknastöð í Reykjavík.  Í þetta sinn hringir hann í soninn.  Beiðist gistingar í tvær nætur.  Það er velkomið.  Kominn tími til að hann hitti tengdadótturina og 5 ára afastrákinn.

  Yfir kvöldmat fær tengdadóttirin hugmynd:  Krakkinn verður búinn á leikskólanum klukkan fjögur daginn eftir.  Þá er kallinn laus.  Spurning hvort hann geti sótt strákinn.  Hann tekur vel í það.  Minnsta mál!

  Hann mætir í skólann á réttum tíma.  Gleðstur að sjá strákinn kominn í úlpuna sína og stígvél.   Hann þrífur í drenginn og arkar af stað.  Kauði berst um á hæl og hnakka.  Jósafat er vanur að draga ólm lömb og þetta er ekkert öðruvísi.  Greinilega er strokárátta í gutta.  Til að hindra strok skellir afinn honum flötum á gólfið og sest ofan á hann.

  Skömmu síðar koma foreldrarnir æstir og óðamála.  Spyrja hvað sé í gangi.  Leikskólastjórinn hafði hringt í þau.  Sagt að maður hafi komið og rænt einum pabba sem var að sækja barn sitt.  Barnið væri enn í skólanum ásamt barni hjónanna.  

  "Hvernig tókst þér að ruglast á skeggjuðum þrítugum manni og fimm ára barni?"  hrópar sonurinn.

  "Þetta skýrir margt,"  tautar afi skömmustulegur.  "Það var ekki einleikið hvað barnið var tregt í taumi"    

 

langdreginn


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.