Færsluflokkur: Fjármál

Heilsu- og megrunarkúr sem slær í gegn

  Margir bera nettan kvíðboga gagnvart jólunum - í bland við tilhlökkun vegna sigurs ljóssins yfir myrkrinu.  Honum er fagnað með mat og drykk.  Fólk gerir vel við sig og aðra.  Sælgæti af ýmsu tagi er hluti af gleðinni:  Konfekt, brjóstsykur, kökur,  tertur,  heitt súkkulaði og þessháttar er hluti af hefðinni.  Ýmsum hættir til að bæta á sig einhverjum kílóum. 

  Á nýju ári er gripið til þess ráðs að fara í megrunarkúr.  Jafnan er hann til þess verra er upp er staðið.  Þá er gott að vita að til er bráðhollur megrunarkúr.  Hann er fyrst og fremst heilskúr en hefur megrandi hliðarverkun.  Engin fita og kaloríur.  Bara prótein,  steinefni og hollusta.  Að auki kostar hann ekki neitt en kallar á skemmtilega útiveru fyrir alla fjölskylduna.

  Þetta er skordýrakúrinn.  Fjölskyldan fer út í náttúruna og safnar skordýrum:  Flugum,  möðkum,  brekkusniglum,  jötunuxum, járnsmiðum, köngulóm og svo framvegis.  Dýrin eru skoluð og síðan léttsteikt á pönnu.  Gott er að strá örlitlu salti og pipar yfir.  Þetta má snæða með soðnum kartöflum.  Einfalt, fljótlegt, holt og gott. 

    


Togast á um utanlandsferðir og dagpeninga

  Utanlandsferðir hafa löngum freistað opinberra embættismenn ríkis og bæja.  Togast er á um setu í nefndum,  ráðum og æðri embættum.  Öllum brögðum er beitt til að komast í utanlandsferðir.  Þær eru bitlingur.  Ekki aðeins er sport að fara í utanlandsferðir sem almenningur borgar heldur fylgja drjúgir dagpeningar með í pakkanum.

  Undantekning frá reglunni var borgarstjóratíð Ólafs F.  Magnússonar.  Hann beitti ströngu aðhaldi í rekstri borgarinnar.  Hann fór aðeins í eina utanlandsferð í embætti.  Hún var til Færeyja í boði Færeyinga.  Þetta var svo óvenjulegt að illar tungur komu af stað lygasögu um að Ólafur væri flughræddur.  

_lafur_f_magnusson_  

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is 26 ferðir til útlanda á þessu kjörtímabili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúleg ósvífni

  Kunningi minn,  Nonni,  bætti við sig áfanga í skóla fyrir nokkrum árum.  Til að fagna  ákvað hann að blása til matarveislu.  Sá hængur er á að hann kann ekki að matreiða.  Vandamálið er ekki stærra en svo að á höfuðborgarsvæðinu eru ótal veitingastaðir.  Þar á meðal einn asískur í göngufæri frá vinnustað Nonna. 

  Hann mætti á staðinn og spurði eftir yfirmanni.  Sá birtist brosandi út að eyrum og einstaklega góðlegur á svip.  Hann sagðist heita Davíð og vera eigandi.

  Nonni bar upp erindið;  hann væri að leita tilboða í 20 manna veislu.  Davíð brosti breiðar og sagði:  "Þú þarft ekki að leita tilboða.  Ég gef þér tilboð sem undirbýður öll önnur veitingahús.  Þú velur einn tiltekinn rétt fyrir hópinn og ég gef þér 50% afslátt!  Til að það gangi upp erum við að tala um pappírslaus viðskipti."

  Nonni gekk að þessu.  Þeir innsigluðu samkomulagið með handabandi og Davíð knúsaði þennan nýja vin sinn.

  Nokkrum dögum síðar mætti Nonni með gesti sína.  Þeim var vísað til sætis og matur borinn fram:  Væn hrúga af hrísgrjónum og örfáir munnbitar af svíni í sósu.

  Afgreiðsludaman tilkynnti ítrekað að gestir með sérrétt mættu ekki fá sér af nálægu hlaðborði.

  Í lok máltíðar grínuðust menn með að vera enn glorhungraðir eftir þennan litla "barnaskammt".  Nonni hnippti í afgreiðsludömuna og spurði hvort möguleiki væri á ábót fyrir þá sem væru ennþá svangir.  Hún tók erindinu vel.  Snaraðist inn í eldhús og sótti stóran hrísgrjónapott.  Spurði hvort einhver vildi aukaskammt af hrísgrjónum.  Einhverjir þáðu það en nefndu að löngun væri meiri í kjötbita.  Það var ekki í boði. 

  Með ólund rétti Nonni afgreiðsludömunni 29000 kall.  "Nei,  pakkinn er 58000 kall,"  mótmælti daman.  "Davíð samdi um 50% afslátt,"  útskýrði hann.  Hún fullyrti á móti að það væri aldrei gefinn afsláttur.  Eftir þref bað hann dömuna um að hringja í Davíð.  Nonni skildi ekki asíumálið en þótti undarlegt að konan hló og flissaði.   Eftir símtalið sagði hún Davíð ráma í að hafa boðið 10% afslátt.Nonni þyrfti því að borga "aðeins" 52200 kall.

  Þungt var í Nonna er hann gekk heim.  Hann er sannfærður um að Davíð hafi sviðsett leikrit.  Ekki síst núna þegar Davíð er opinberlega sakaður um mansal og fleiri glæpi. 

hrísgrjón


Bónusgreiðslur og Bónuskort

  Í kjölfar bankahrunsins 2008 uppgötvaðist að bankarnir gengu á bónuskerfi.  Starfsmenn smöluðu gömlu fólki eins og rollum í réttir.  Smöluðu því af öruggum bankabókum yfir í Sjóð 9 og hvað þeir hétu allir þessir sjóðir.

  Bónuskerfið virkaði svo vel að Samkeppniseftirlitið og Skatturinn hafa tekið það upp.  Fleiri mætti virkja með bónuskerfi.  Til að mynda bílastæðisverði.  Það yrði handagangur í öskjunni ef vörðurinn fengi 1000 kall og Bónuskort fyrir hvern bíl sem hann sektar.  Hann myndi sleppa matar- og kaffihléi til að ná bónusnum upp.

  Hvað með lögguna?  Hvað ef hún fengi 10.000 kall og Bónuskort fyrir hverja handtöku?  Ekki má gleyma dómurum.  Þeir mættu fá vænan bónus og Bónuskort fyrir hver óskilorðsbundinn dóm.

kort

 

   


Smásaga um einbúa

  Lengst vestur á Vestfjörðum býr Jósafat.  Hann er fjárbóndi og einbúi.  Hann er heimakær.  Fer ekki af bæ nema nauðsyn kalli á.  Einsetan hefur ágerst með árunum.  Á unglingsárum kunni hann að skemmta sér.  Hann eignaðist son eftir einnar nætur gaman.  Samband við barnsmóðurina er ekkert.  Samband feðgana er stopult.  Sonurinn er í Reykjavík og hringir einstaka sinnum í pabba sinn.  Eiginlega bara þegar eitthvað fréttnæmt,  svo sem eins og þegar hann trúlofaðist og gerði kallinn að afa.  

  Verra er að sjónin er farin að daprast.  Jósafat ber það undir héraðslækninn.  Sá pantar fyrir hann tíma hjá augnlæknastöð í Reykjavík.  Í þetta sinn hringir hann í soninn.  Beiðist gistingar í tvær nætur.  Það er velkomið.  Kominn tími til að hann hitti tengdadótturina og 5 ára afastrákinn.

  Yfir kvöldmat fær tengdadóttirin hugmynd:  Krakkinn verður búinn á leikskólanum klukkan fjögur daginn eftir.  Þá er kallinn laus.  Spurning hvort hann geti sótt strákinn.  Hann tekur vel í það.  Minnsta mál!

  Hann mætir í skólann á réttum tíma.  Gleðstur að sjá strákinn kominn í úlpuna sína og stígvél.   Hann þrífur í drenginn og arkar af stað.  Kauði berst um á hæl og hnakka.  Jósafat er vanur að draga ólm lömb og þetta er ekkert öðruvísi.  Greinilega er strokárátta í gutta.  Til að hindra strok skellir afinn honum flötum á gólfið og sest ofan á hann.

  Skömmu síðar koma foreldrarnir æstir og óðamála.  Spyrja hvað sé í gangi.  Leikskólastjórinn hafði hringt í þau.  Sagt að maður hafi komið og rænt einum pabba sem var að sækja barn sitt.  Barnið væri enn í skólanum ásamt barni hjónanna.  

  "Hvernig tókst þér að ruglast á skeggjuðum þrítugum manni og fimm ára barni?"  hrópar sonurinn.

  "Þetta skýrir margt,"  tautar afi skömmustulegur.  "Það var ekki einleikið hvað barnið var tregt í taumi"    

 

langdreginn


Frábært ráð gegn matasrsóun

  Fátt er skemmtilegra en hlusta á útvarp.  Enda er eins og útvarpið sé hannað til þess.  Ef maður er iðinn við kolann;  er duglegur við að hlusta á útvarp þá slæðist að hlustandanum margskonar fróðleikur.  Stundum til gagns og gamans.  Oft hvorutveggja.

  Um helgina voru sagðar útvarpsfréttir af matarsóun.  Talin voru upp fjölmörg ráð til að sporna gegn matarsóun.  Til að mynda að fara í matvörubúð með innkaupalista og láta ekki glepjast af tilboðum;  velja smærri pakkningar.  Einnig að sulta mat,  frysta hann og borða afganga.  Helst að lifa bara á afgöngum - skildist mér. 

  Kröftugasta ráðið var:  Að gera við gömul föt.  Ég fatta ekki hvernig það spornar gegn matarsóun.  Enda hef ég ekki lært matreiðslu.   

maturbuxur

  


Ósvífið Nigeríusvindl

  Unga manninn,  Nígeríudrenginn,  dreymdi um að eignast tölvu.  Æðsta óskin var að eignast Apple tölvu.  Í Nígeríu er - einhverra hluta vegna - ævintýraljómi yfir Apple tölvum.  Kannski spilar inn í að plötufyrirtæki Bítlanna heitir Apple.  

  Á hverjum degi rölti drengurinn niður á sölutorg í von um að finna Apple tölvu á góðu verði.  Hann viðraði þetta við sölumann.  Sá selur síma af ýmsu tagi og fylgihluti.  Hann taldi sig geta útvegað Apple tölvu á góðu verði.  Hann bauð stráksa að koma á torgið daginn eftir.  Sem hann gerði.  Þar beið hans þessi fallega rauða tölva með upphleyptu gulu Apple merki.  Hann er að springa úr stolti yfir glæsitækinu. 

  Eina vandamálið er að tækið var dýrara en vonir stóðu til.  Hinir krakkarnir í þorpinu halda því fram að kauði sé fórnarlamb ósvífins Nígeríusvindls.  Hann veit að leiðindin stafa einungis af öfund.  Hann hlær að þeim. 

tölva 


Hvað gerðist?

  Grandvar virðulegur maður keypti sér rándýra spariskó sem voru í tísku.  Örfáum dögum síðar voru skórnir bókstaflega búnir:  Sólarnir götóttir,  saumar farnir að gefa sig,  hælarnir uppurnir og skórnir að öðru leyti verulega sjúskaðir.

  Maðurinn fór með skóna í skóbúðina og krafðist endurgreiðslu.  Þar reif fólk kjaft.  Sakaði hann um óvenju bíræfna kröfu.  Honum ofbauð dónaleg framkoman.  Hann snéri sér til Neytendasamtakanna.  Þar mætti hann sömu framkomu og í skóbúðinni.  Vandamál var að engin kvittun var til staðar.  Hann froðufelldi af reiði yfir óréttlæti heimsins. 

  Víkur þá sögunni að öðrum manni.  Sá var að flytja til útlanda.  Hann setti íbúð sína í sölu.  Á tilteknum degi hafði hann opið hús.  Hann átti samskonar tískuskó.  Nema að þeir voru gamlir og gjörsamlega búnir.  Hann lét þá þó duga framyfir flutninginn til útlanda.  Þar eru skór miklu ódýrari. 

  Er opnu húsi lauk uppgötvaði hann að gömlu skórnir voru horfnir.  Í staðinn voru komnir splunkunýir skór af sama tagi.    

skór


Vandræðalegt hlutverk götulistamanns

  Böskarar er það fólk kallað sem spilar, syngur og skemmtir almenningi að öðru leyti á götum úti.  Áhorfendur/áheyrendur kunna vel að meta.  Skemmtikraftarnir hafa fyrir framan sig hatt eða opna tösku.  Þangað kasta vegfarendur smápeningum.  Þetta er vinsælt í erlendum stórborgum.  Hérlendis má stundum rekast á útlendinga spila á harmóniku fyrir utan stórmarkaði.

  Í Brighton á Englandi starfar böskari að nafni Shane Dyer.  Hann kann að syngja og spila á gítar eitt lag.  Aðeins eitt lag.  Það er "Streets of London".  Sívinsælt lag eftir Ralf McTell.  Best þekkt í flutningi Rogers Withakers og Anti-Nowhere Leaque.  Orri Harðarson hefur sungið það með íslenskum texta eftir Ómar Ragnarsson.

  Ég hef séð náungann standa með gítarinn sinn úti á götu.  Hann hvorki syngur né spilar.  Að honum streymir þó fólk og kastar peningi í töskuna hans.  Um leið tilkynnir það honum að þetta sé greiðsla fyrir að hann flytji ekki lagið næsta hálftímann á meðan viðkomandi sinnir sínum erindum í nálægum verslunum.

  Shane játar að honum þyki þetta vandræðalegt og niðurlægjandi.  Hann telur flutning sinn á laginu vera frambærilegan.  Hinsvegar grunar hann að fólk sé með óþol gagnvart laginu.  Kostur er að hann þénar meira fyrir að spila ekki heldur en á meðan hann spilaði.

  Kannski ætti hann að læra annað lag.  Hann gæti fengið fé fyrir að spila það ekki.  Gæti tvöfaldað innkomuna. 

     


Banki rassskelltur

  Um eða eftir miðjan níunda áratuginn var hraðbanki kynntur til sögunnar.  Sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi á,  eins og skáldið orðaði það.  Nýjungin var kynnt með öflugri auglýsingaherferð.  Sú kostaði skildinginn.   

  Maður nokkur átti bankanum grátt að gjalda.  Hann hafði skrifað upp á ábyrgð fyrir bankaláni ættingja.  Ábyrgðin var upp á 500 þúsund.  Lánið lenti í vanskilum.  Bankinn skuldsetti manninn.  Verra var að bankinn uppfærði upphæðina til samræmis við verðbólgu þess tíma.  Maðurinn var ósáttur og fór með málið fyrir dómstóla.  Þar tapaði hann málinu.

  Maðurinn stofnaði fyrirtækið Hraðbanki og festi sér nafnið í firmaskrá.  Því næst gekk hann á fund bankastjóra.  Gerði honum grein fyrir því hver ætti nafnið Hraðbanki.  Næsta skref væri að fá lögbann sett á auglýsingaherferðina.  Eða - það sem hann væri líka til viðræðu um - að bankinn keypti af sér nafnið.  Það væri falt fyrir 1200 þúsund krónur. 

  Maðurinn var ekki með frekju.  Þetta var sú upphæð sem hann hafði tapað í viðskiptunum við bankann.  Upphæðin var aðeins brotabrot af því sem auglýsingaherferð bankans kostaði.  Bankastjórn stökk með snatri á tilboðið. 

   


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.