Færsluflokkur: Heilbrigðismál
31.12.2024 | 11:31
Undarleg gáta leyst
Dýralæknir var kallaður á heimili gamallar konu. Hún bjó ein í stórri blokkaríbúð á höfuðborgarsvæðinu. Hún átti litla og fallega kisu. Nú var hún veik. Verulega uppþembd og aðgerðalítil. Læknirinn fann strax út að kisan var kettlingafull.
"Það getur ekki verið," mótmælti gamla konan. "Hún er alltaf hérna inni. Hún fær aðeins að skjótast út á svalir þar sem ég fylgist með henni."
Læknirinn var viss í sinni sök. Hann fullyrti að stutt væri í að kettlingarnir kæmu í heiminn. Meira gæti hann ekki gert í málinu.
Á leið sinni út kom hann auga á kött. Sá svaf makindalega í forstofunni. Læknirinn kallaði á konuna og benti á köttinn. "Hér er ástæðan fyrir því að kisa er kettlingafull."
Konan gapti af undrun og hreytti hneyksluð út úr sér: "Er herra læknirinn eitthvað verri? Þetta er bróðir hennar!"
25.11.2024 | 10:22
Heilsu- og megrunarkúr sem slær í gegn
Margir bera nettan kvíðboga gagnvart jólunum - í bland við tilhlökkun vegna sigurs ljóssins yfir myrkrinu. Honum er fagnað með mat og drykk. Fólk gerir vel við sig og aðra. Sælgæti af ýmsu tagi er hluti af gleðinni: Konfekt, brjóstsykur, kökur, tertur, heitt súkkulaði og þessháttar er hluti af hefðinni. Ýmsum hættir til að bæta á sig einhverjum kílóum.
Á nýju ári er gripið til þess ráðs að fara í megrunarkúr. Jafnan er hann til þess verra er upp er staðið. Þá er gott að vita að til er bráðhollur megrunarkúr. Hann er fyrst og fremst heilskúr en hefur megrandi hliðarverkun. Engin fita og kaloríur. Bara prótein, steinefni og hollusta. Að auki kostar hann ekki neitt en kallar á skemmtilega útiveru fyrir alla fjölskylduna.
Þetta er skordýrakúrinn. Fjölskyldan fer út í náttúruna og safnar skordýrum: Flugum, möðkum, brekkusniglum, jötunuxum, járnsmiðum, köngulóm og svo framvegis. Dýrin eru skoluð og síðan léttsteikt á pönnu. Gott er að strá örlitlu salti og pipar yfir. Þetta má snæða með soðnum kartöflum. Einfalt, fljótlegt, holt og gott.
12.11.2024 | 10:19
Anna frænka á Hesteyri hringdi á lögguna
Fyrir nokkrum árum hringdi Anna Marta á Hesteyri í eldri frænku okkar í Reykjavík. Það var alvanalegt. Konan var nýbúin að setja lit í hárið á sér Hún beið eftir að hann verkaðist áður en hann yrði skolaður. Hún upplýsti Önnu um stöðuna. Bað hana um að hringja aftur eftir 10 mínútur.
Í þann mund er konan skolaði hárið mundi hún eftir því að kartöflur og mjólk vantaði. Komið fast að kvöldverðartíma og eiginmaðurinn væntanlegur úr vinnu. Hún skrapp í matvörubúðina skammt frá. Aðeins ein stelpa var á afgreiðslukassanum. Hún var nýbyrjuð og óörugg. Gerði einhver mistök með tilheyrandi töfum. Röðin við kassann lengdist.
Er konan hélt heim blöstu við blikkandi ljós á sjúkrabíl og lögreglubíl í innkeyrslu hennar. Lögreglumaður upplýsti að tilkynnt hafi verið að kona væri steinrotuð og slösuð á baðherberginu.
Konan sýndi lögreglunni inn í baðherbergi og útskýrði að um misskilning væri að ræða. Síðan hringdi hún í Önnu fjúkandi reið. Anna sagðist hafa hringt í hana 10 mínútum eftir að konan bað hana um það. Síminn hringdi út. Aftur og aftur. Hún hafi þá lagt saman 2 og 2 og fengið þá niðurstöðu að konan hefði runnið til við að skola hárið og skollið harkalega á gólfið.
Konan bannaði Önnu að senda aftur á sig sjúkrabíl og lögreglu. Anna svaraði: "Jú, ef ég verð vör við að þú liggir slösuð þá hringi ég í neyðarlínuna! Ef þú hefðir slasast núna þá værir þú að þakka mér en ekki skamma mig."
Heilbrigðismál | Breytt 13.11.2024 kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
5.8.2024 | 12:11
Pottþétt ráð gegn veggjalús
Veggjalúsin er leiðinda kvikindi. Hún lifir í þurru og hlýju umhverfi. Hún felur sig á daginn og bíður í rólegheitum eftir að fórnarlambið fari að sofa. Þegar það er sofnað læðist lúsin hljóðlega að því og sýgur úr því blóð. Í bitinu er staðdeyfiefni. Þess vegna vaknar fórnarlambið ekki við bitið.
Blessunarlega er lítið um lúsina hérlendis. Til þess er of kalt. Á ferðalögum erlendis verður margur var við kláða og blóðblett í sárinu. Einfalt er að sporna gegn dýrinu. Aðeins þarf að kaupa létta frystikistu og geyma í henni föt, handklæði, snyrtivörur og fleira. Þar með eru litlir möguleikar fyrir skepnuna að laumast heim til Íslands með ferðamanninum.
Ekki taka upp úr ferðatöskum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
8.7.2024 | 07:49
Þannig týnast bílar
Lögreglan hefur vottað að fólk eigi til að týna bílnum sínum. Margir kannast við það. Þar af er ekki alltaf verið að blanda lögreglunni í málið. Fyrst eru fleiri möguleikar kannaðir.
Eitt sinn - sem oftar - átti ég leið í Kringluna. Þetta var rétt fyrir lokun. Eftir að hafa útréttað fór ég út á bílastæði. Ég mundi ekki hvar ég hafði lagt bílnum. Það gerist iðulega. Sjaldan þarf ég að rölta langt áður en hann blasir við. Það tókst ekki í þessu tilfelli. Þó vissi ég fyrir víst að hann var á jarðhæð og ekki í hliðarsal.
Eftir dágóða stund hringdi ég í konuna og lýsti stöðunni. Ég átti að sækja hana úr vinnu. Hún ráðlagði mér að hinkra á meðan bílum fækkaði á stæðunum. Leið svo og beið. Bílum fækkaði fyrir framan mig. Að því kom að ég kannaðist við einn. Rann þá upp fyrir mér ljós: Ég mundi skyndilega eftir því að ég var á leigðum bíl. Minn var á verkstæði. Því hafði ég steingleymt!
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30.4.2024 | 07:06
Gapandi hissa
Ég veit ekkert um boltaleiki. Fylgist ekki með neinum slíkum. Engu að síður fer ekki framhjá mér hvað boltafólk gapir mikið. Það er eins og stöðug undrun mæti því. Það gapir af undrun. Að mér læðist grunsemd um að einhverskonar súrefnisþörf spili inn í. Fólkið berjist við - í örvæntingu - að gleypa súrefni. Þetta er eins og bráðasturlun.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
13.3.2024 | 10:08
Allir góðir saman!
Fyrir nokkrum árum stálpuðust barnabörn mín. Þau lærðu að lesa og lásu mikið; allskonar blöð, tímarit, bækur og netmiðla. Gaman var að fylgjast með því. Nema að mér varð ljóst að margt í fjölmiðlum er ekki til fyrirmyndar. Þá datt mér í hug að setja sjálfum mér reglu: Að skrifa og segja aldrei neitt neikvætt og ljótt um neina manneskju.
Þetta var U-beygja til góðs. Það er miklu skemmtilegra að vakna og sofna jákvæður og glaður heldur en velta sér upp úr leiðindum. Til viðbótar ákvað ég að hrósa einhverjum eða einhverju á hverjum degi. Svoleiðis er smitandi og gerir öllum gott.
28.2.2024 | 09:36
Maður með nef
Margir kannast við ævintýrið um Gosa spýtukall. Hann er lygalaupur. Hann kemur jafnóðum upp um sig. Þannig er að í hvert sinn sem hann lýgur þá lengist nef hans. Þetta er ekki einsdæmi. Fyrir áratug fór að bera á svona hjá breskum hermanni á eftirlaunum, Jóa lygara, Þegar hann laug bólgnaði nef hans. Að því kom að nefið formaðist í stóran hnúður. Þetta hefur eitthvað að gera með taugaboð og örari hjartslátt þegar hann fer með fleipur.
Þetta lagðist þungt á 64 ára mann. Hann einangraði sig. Læddist með Covid-grímu út í matvörubúð að nóttu til þegar fáir eru á ferli. Fyrir tveimur árum leitaði hann til lýtalæknis. Sá fjarlægði hnúðinn, lagaði nefið í upprunalegt horf og gaf Jóa ströng fyrirmæli um að láta af ósannindum..
Heilbrigðismál | Breytt 29.2.2024 kl. 08:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.10.2023 | 14:13
Viðbjóðsmatur
Ég átti erindi í matvöruverslun. Fyrir framan mig í langri röð við afgreiðslukassann var hávaxinn grannur eldri maður. Hann hélt á litlu laxaflaki á frauðplastsbakka. Um hann var vafin glær plastfilma.
Maðurinn sló takt með bakkanum; bankaði honum í læri sér. Við ásláttinn losnaði um plastfilmuna. Að því kom að laxaflakið hrökk út úr bakkanum og veltist um skítugt gólfið og endaði með roðið upp. Úti var snjór og slabb. Fólk bar óhreinan snjó inn með sér. Á blautu gólfinu flaut blanda af ryki, sandi og mold.
Til að tapa ekki stöðu sinni í röðinni stóð gamlinginn áfram á sínum stað en teygði fót að flakinu. Honum tókst að krækja skítugu stígvéli fyrir flakið og draga eftir drullunni til sín. Hann reyndi að strjúka óhreinindin af því. Kjötið var laust í sér. Óhreinindin ýttust ofan í það.
Mér þótti þetta ólystugt og sagði: "Ég skal passa fyrir þig plássið í röðinni á meðan þú sækir annað flak."
Það hnussaði í honum: "Maður hefur látið annað eins ofan í sig án þess að verða meint af. Maginn á togarajaxlinum er eins og grjótmulningsvél. Tekur við öllu án þess að slá feilpúst!"
Maðurinn náði að troða laxinum á bakkann, leggja plastfilmuna yfir og sagði hróðugur: "Ég smjörsteiki kvikindið heima. Bakteríurnar þola ekki hita og drepast!"
15.10.2023 | 14:13
Smásaga um einbúa
Lengst vestur á Vestfjörðum býr Jósafat. Hann er fjárbóndi og einbúi. Hann er heimakær. Fer ekki af bæ nema nauðsyn kalli á. Einsetan hefur ágerst með árunum. Á unglingsárum kunni hann að skemmta sér. Hann eignaðist son eftir einnar nætur gaman. Samband við barnsmóðurina er ekkert. Samband feðgana er stopult. Sonurinn er í Reykjavík og hringir einstaka sinnum í pabba sinn. Eiginlega bara þegar eitthvað fréttnæmt, svo sem eins og þegar hann trúlofaðist og gerði kallinn að afa.
Verra er að sjónin er farin að daprast. Jósafat ber það undir héraðslækninn. Sá pantar fyrir hann tíma hjá augnlæknastöð í Reykjavík. Í þetta sinn hringir hann í soninn. Beiðist gistingar í tvær nætur. Það er velkomið. Kominn tími til að hann hitti tengdadótturina og 5 ára afastrákinn.
Yfir kvöldmat fær tengdadóttirin hugmynd: Krakkinn verður búinn á leikskólanum klukkan fjögur daginn eftir. Þá er kallinn laus. Spurning hvort hann geti sótt strákinn. Hann tekur vel í það. Minnsta mál!
Hann mætir í skólann á réttum tíma. Gleðstur að sjá strákinn kominn í úlpuna sína og stígvél. Hann þrífur í drenginn og arkar af stað. Kauði berst um á hæl og hnakka. Jósafat er vanur að draga ólm lömb og þetta er ekkert öðruvísi. Greinilega er strokárátta í gutta. Til að hindra strok skellir afinn honum flötum á gólfið og sest ofan á hann.
Skömmu síðar koma foreldrarnir æstir og óðamála. Spyrja hvað sé í gangi. Leikskólastjórinn hafði hringt í þau. Sagt að maður hafi komið og rænt einum pabba sem var að sækja barn sitt. Barnið væri enn í skólanum ásamt barni hjónanna.
"Hvernig tókst þér að ruglast á skeggjuðum þrítugum manni og fimm ára barni?" hrópar sonurinn.
"Þetta skýrir margt," tautar afi skömmustulegur. "Það var ekki einleikið hvað barnið var tregt í taumi"
Heilbrigðismál | Breytt 16.10.2023 kl. 18:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)