Jón Þorleifs

jakinn.jpggunnar thor 

  Á næstunni ætla ég að rifja upp sögur af Jóni nokkrum Þorleifssyni.  Hann féll frá fyrir nokkrum árum.  Þá kominn hátt á tíræðisaldur.  Hann var sérkennilegur um margt.  Góður maður sem varð fjölskylduvinur.  Sögurnar eiga kannski mest erindi við okkur sem þekktum Jón.  Okkur þótti vænt um hann.  Hann var nánast í afahlutverki sona minna og systurbarna minna.  Börnin elskuðu hann.  Mér er kunnugt um að þannig hafi það einnig verið um börn fleiri.  Til að mynda Birgis Svans Símonarsonar.

  Jón var einstæðingur.  Hann bjó alltaf einn og var barnlaus.

  Á gamals aldri tók Jón upp á því að senda frá sér bækur.  Þær voru allt frá því að vera sjálfsævisögulegar (Nútíma kviksetning),  til þess að vera ljóðabækur,  skáldsögur og hugleiðingar um heimsmál.

  Ég hitti Jón fyrst 1974.  Þá lenti ég til borðs með honum í afmælishófi verkalýðsfélagsins Dagsbrúnar.  Þáverandi iðnaðarmálaráðherra,  Gunnar Thoroddsen,  mætti í hófið.  Gunnar heilsaði gestum með handabandi og óskaði til hamingju með daginn.  Þegar Gunnar kom að Jóni spratt Jón á fætur og tróð höndum í vasa.  Um leið sagði hann:  "Ég ætla ekki að óhreinka mig á því að taka í hönd þína."  Gunnar lét sér í engu bregða og sagði:  "Þá heilsumst við bara að gömlum bændasið:  Með kossi á kinn."  Gunnar gerði sig líklegan til að fylgja því eftir.  Jón hörfaði snöggt og mælti:  "Ég kýs að brúka kjaftinn öðru vísi á þig."

  Við þetta kom fát á Gunnar.  Hann leit í kringum sig,  tvísté og sagði við konu sína:  "Við skulum finna okkur sæti."  Sem þau og gerðu án þess að heilsa fleirum með handabandi.

  Síðar hældi Jón sér af því að hafa kippt Gunnari ofan úr fílabeinsturni og komið honum í skilning um að hann væri ekki merkilegri en verkafólkið í afmælishófinu.  "Jafnvel ómerkilegri," sagði Jón.  

  Næst flutti Gvendur Jaki ávarp.  Ávarpinu lauk með því að Gvendur bauð gestum að njóta veitinga sem í boði voru.  Þá spratt Jón á fætur.  Hann lyfti yfir höfði sér tómum kaffibolla og tómum kökudiski og kallaði:  "Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því,  Guðmundur J., að ég taki meira en þú ætlar mér!".

  Kurr kom á sessunauta Jóns.  Þeir sussuðu á hann og sögðu þetta ekki vera rétta tilefni til leiðinda.  Jón svaraði því til að hann léti ekki "stráklinga" segja sér fyrir verkum.  Beindi hann einkum orðum að Benedikt Kristjánssyni (Benediktssonar,  þáverandi borgarfulltrúa Framsóknarflokksins),  bróðir Baldurs,  prests í Þorlákshöfn.

  Í afmælishófinu stóð Jón við yfirlýsingu sína til Gvendar Jaka.  Fékk sér hvorki vott né þurrt en lék á alls oddi.  Enda búinn að koma skýrum skilaboðum áleiðis.  

 

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Það vantar að safna saman svona dögum - Við höfum heyrt sögur af Lalla í Pólunum - Lása kokki - Óla Maggadon - Hauki pressara o.fl. sem á eftir að safna saman - vissulega koma fleiri karakterar upp í hugann - en lendingin sú sama - á endanum gleymast þessar sögur.

Ólafur Ingi Hrólfsson, 6.10.2011 kl. 01:00

2 Smámynd: Jens Guð

  Ólafur Helgi,  ég ætla að rifja upp sögur af Jóni Þorleifs í og með til að þær varðveitist.  En samt þannig að ég nái að undirstrika að þetta var góður og merkilegur maður um margt.  Ég hitti Hrafnhildi Gunnlaugsdóttur,  systurdóttur hans í sumar.  Við rifjuðum upp nokkrar sögur af Jóni.  Fram að því var ég búinn að velta fyrir mér að blogga um Jón en var hálf hikandi við dæmið vegna þess að óttaðist að sögur af honum myndu gefa ranga mynd af þvi hvað hann var í raun góður maður.  Okkur Hrafnhildi kom þó saman um að þessar sögur af Jóni myndu aðeins verða okkur upprifjun á því hvað Jón var frábær náungi.  Þess vegna undirstrika ég að sögur af Jóni eru ekki til að hæðast af honum heldur til þess að rifja upp fyrir okkur vini hans,  sem þóttu vænt um hann,  að hann átti sínar broslegar útfærslur á tilverunni.  Jón Þorleifsson var meiriháttar góður maður og merkur um margt. 

Jens Guð, 6.10.2011 kl. 01:29

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það verður gaman að fylgjast með þeirri uppryfjun.  Það þarf að halda á lofti sögum um þessa sérkennilegu alþýðumenn, sem voru í raun snillingar sem fáir tóku eftir vegna þess að þeir þóttu sennilega ekki nógu merkilegir, þó slíkir hafi oft borið af eins og gull af eiri.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.10.2011 kl. 08:49

4 Smámynd: Jens Guð

  Ásthildur Cesil,  takk fyrir hvatningarorðin. 

Jens Guð, 6.10.2011 kl. 13:53

5 Smámynd: Ómar Ingi

http://ommi.blog.is/blog/ommi/entry/1196248/

Einn léttur frá Nonna 5 aur

Ómar Ingi, 6.10.2011 kl. 16:13

6 Smámynd: Jens Guð

  Ómar Ingi,  takk fyrir brandarann

Jens Guð, 6.10.2011 kl. 19:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.