1.3.2008 | 05:54
Hörkuspennandi tónlistargetraun
Siggi Lee Lewis dró mig á Organ í gærkvöld til að taka þátt í Pop-Quiz tónlistargetraun. Ég hef aldrei áður tekið þátt í svona tónlistargetraunum á Organ eða Grand Rock og vissi lítið út á hvað dæmið gekk. Hinsvegar hef ég lagt það í vana minn að koma vel út í öðrum tónlistargetraunum og sá enga ástæðu til að gera breytingu á.
Þátttaka var góð. Setið við hvert borð. Valgeir Guðjónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi, var höfundur spurninga og spyrill. Hann fór á kostum. Honum tókst að yfirfæra einfaldar spurningar í góða brandara og sumum spurningum stillti hann þannig fram að svör gátu ekki orðið annað en brandarar líka. Sömuleiðis fór hann létt með að snúa athugasemdum utan úr sal upp í létta brandara. Varð af þessu hin besta skemmtun og óhætt að segja að Valgeir kitlaði hláturtaugar þannig að endanleg úrslit urðu aukaatriði í frábæru skemmtikvöldi.
Þegar farið var yfir svör voru tvær spurningar felldar niður. Önnur vegna þess að hún stóðst ekki og hin vegna þess að svarmöguleikar reyndust vera fleiri en einn. Þar var spurt um það fyrir hvað Jethro Tull hafi getið sér frægð.
Ég svaraði að hann hafi skrifað fræga bók um jarðrækt. Sá sem hæst skoraði á móti mér svaraði að Jethro Tull hafi orðið frægur fyrir plóginn. Svarið sem spurningahöfundur leitaði eftir var að Jethro Tull fann upp sáðvélina.
Ég vil meina að mitt svar sé réttast og vísa til upplýsinga um Jethro Tull á til að mynda Wikipedia. Engu að síður er svona spurningakeppni fyrst og fremst léttur leikur, góð skemmtun og engin ástæða til að umgangast hana öðruvísi. Það var mér algjörlega að meinalausu þó að þessi spurning væri felld niður. Og þó að Jethro Tull hafi ekki fundið upp plóginn þá betrumbætti hann plóginn.
Hin spurningin sem var felld niður snéri að því að þegar Pink Floyd hljóðritaði meistaraverkið Dark Side of the Moon þá hafi önnur ennþá frægari hljómsveit hljóðritað í sama hljóðveri ennþá frægari plötu. Valgeir vildi meina að það hafi verið Bítlarnir að hljóðrita Abbey Road. Ég benti á að Abbey Road var hljóðrituð 1969 en Dark Side of the Moon 1973. Án þess að ég viti hvar Pink Floyd hljóðrituðu sínar plötur þá hljóðrituðu Pink Floyd plöturnar More og Umma Gumma 1969. Sama ár hljóðrituðu Bítlarnir Abbey Road.
Þessi spurning var því felld niður af dómnefnd spurningakeppninnar.
Leikar fóru þannig að niðurstaða kvöldsins var fengin með bráðabana. Ég svaraði fyrstu 4 spurningum hans rétt en klikkaði á spurningunni um nafn köngulóarinnar í fyrsta laginu sem John Entwistle samdi. Keppinauturinn vissi að hún hét Boris. Þar með voru úrslit ráðin. Smáklúður hjá mér að muna ekki eftir nafni lagsins Boris the Spider. Ég endaði í 2. sæti. Sem er ekkert nema gaman.
Ég endurtek og ítreka að ég er ekki á nokkurn hátt ósáttur við úrslitin. Það er ekkert nema gaman að taka þátt í svona leik. Það er jafnframt bara gaman að uppgötva óvænt að ég sé ekki fróðastur allra um rokksöguna. Sú staðreynd kallar á endurmat á styrkleika mínum á því sviði. Ég er blessunarlega laus við keppnisskap og hafði einungis gaman að leiknum.
Ekki síður þótti mér gaman að hitta gamlan kunningja, Kristinn Pálsson, og uppgötva að hann sér um þáttaröðina fróðlegu og skemmtilegu á rás 2 Uppruni tegundanna. Eins vel og ég reyni að fylgjast með þessari þáttaröð þá var ég ekki búinn að kveikja á því hver er umsjónarmaður hennar. Einhvernvegin fannst mér það vera Páll Kristinn Pálsson rithöfundur, án þess að hugsa frekar út í það.
Einnig þótti mér gaman að hitta Helgu Þóreyju, plötugagnrýnanda Morgunblaðsins. Við höfum vitað af hvor öðru til fjölda ára án þess að þekkjast eiginlega. Skrifuðum til dæmis bæði fyrir poppblaðið Sánd á sínum tíma. En það skemmtilega er að við eigum sameiginlegan stóran kunningja- og vinahóp, bæði hérlendis og í Færeyjum. Þannig að við höfðum um margt að spjalla.
Ekki nóg með það heldur hitti ég líka yngri bróðir Kidda rokk. Sá er í hljómsveitinni Singapore Sling. Fleira fólk hitti ég sem gaman var að ræða við.
Þannig að kvöldið varð hin mesta skemmtun sem náði langt útfyrir spurningakeppnina. Áður en ég hélt heim fór ég í eftirlitsferð upp í Ármúla. Það var allt undir "kontról" bæði á Classic Rock og Good Fellas svo ég gat farið að sofa áhyggjulaus.
Athugasemdir
Hmm það hefði verið gaman að mæta þarna. Hafði ekki heyrt af þessari keppni. Tók einhverntímann þátt í svona keppni fyrir nokkrum árum og hafði mjög gaman af. Einar bróðir er líka í plötubransanum. Hann vinnur hjá 12 tónum.
Kristján Kristjánsson, 1.3.2008 kl. 11:24
Jújú, Valgeir með skemmtilegri mönnum , ekki spurning!
En mér finnst nú fyrir neðan þína virðingu, að þurfa að svara spurningum eins og um einvherja nefnda kónguló með John Entwhistle af öllum mönnum!
Og hvaða gemlingur var þetta sem fékk svo sigurinn með þessu svindli!?
Magnús Geir Guðmundsson, 1.3.2008 kl. 13:55
Þetta hefur verið skemmtilegt kvöld á margan hátt Jens minn.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.3.2008 kl. 13:56
Maggi..John Entwistle er sennilega einn af áhrifamestu bassaleikurum rokksögunnar.
Bubbi J. (IP-tala skráð) 1.3.2008 kl. 14:12
Helv. gott: Allt undir kontrol og ég gat farið að sofa áhyggulaus. Ég segi það með þér Jens minn það borgar sig ekki að hafa of mikið á herðunum þegar maður legst til hvílu.
Sigurður Þórðarson, 1.3.2008 kl. 14:51
ég er búinn að vera að hlusta á "Uppruna tegundanna" í vefupptökum. Kristinn vitnaði meira að segja í bloggið þitt í einum þætti, eða réttara sagt, sagði fólki að fara á bloggið þitt til að fá fleiri upplýsingar um House of the Rising Sun m. The Animals (minnir mig). Sniðugt hjá honum að vísa í það, enda getur hann ekki verið að kjafta endalaust í þættinum, er bundinn tímamörkum og reynir að koma sem mestum upplýsingum á stystum tíma, spilar líka minna en hann ætlar sér, en það skiptir ekki máli, frábær þáttur og fagmannlega unninn.
Já Bubbi hefur rétt f. sér, John Entwistle er enginn aukvisi eins og sést m.a. á því hverja hann hefur haft áhrif á http://en.wikipedia.org/wiki/John_Entwistle
Jens af hverju þarftu að sjá hvort að allt sé undir kontról á téðum börum ;)
Fyrst þú minntist á Færeyjar, gafstu e-ð í Skálavíkur-söfnunina?
Ari (IP-tala skráð) 1.3.2008 kl. 17:52
Ég er sammála þeim sem lofsama John Entwistle. Hann var snilldarbassaleikari. Þegar maður horfir á tónleika með The Who festast augun oftast við hann.
Kristján Kristjánsson, 1.3.2008 kl. 17:57
Árni, takk fyrir það. Það örlaði ekki á flensu fyrr en eftir að aflokinni spurningakeppninni.
Kiddi, þannig að þið bræður eruð í harðri samkeppni.
Maggi, það var ekkert svindl þarna í gangi. Ég kannaðist ekki við sigurvegarann og gleymdi nafni hans strax.
Ásthildur, þetta var afskaplega vel heppnað kvöld.
Bubbi, svo sannarlega rétt hjá þér. Entwistle átti margan góðan stjörnuleik.
Siggi, það munar öllu að fara áhyggjulaus í háttinn.
Ari, mér rann blóðið til skyldunnar; að ganga úr skugga um að allt sé í besta horfi í Ármúlanum. Einhver þarf að fylgjast með því og ég taldi ekki eftir mér að taka það að mér í gær.
Þessi Skálavíkur-söfnun hefur farið framhjá mér. Hvar getur maður gefið í hana?
Jens Guð, 1.3.2008 kl. 19:31
Jájájá, ég veit auðvitað um frægð kappans í einni af villtustu tónleikasveit sögunnar m.a. en það var bara þetta með áttfætluna sem ég var að agnúast út af og þetta "Landbúnaðarrugl" sem varð þér Jens greinilega óverðskuldað að falli!
Magnús Geir Guðmundsson, 2.3.2008 kl. 03:20
Jens, upplýsingar um söfnunina má finna hér http://www.visir.is/article/20080225/FRETTIR01/102250116/-1/FRETTIR mbl.is hafði enga slíka frétt og því hefur moggabloggarinn ei séð neitt um það. Ísafjarðarbær ætlar að gefa slatta las ég og þakka f. rausnarlega söfnun Færeyinga þegar snjóflóðin voru þar vestra. http://www.uf.fo/les_tidindi.asp?Id=53553
Ari (IP-tala skráð) 2.3.2008 kl. 12:20
Sigurvegarinn í pop-quiz keppninni var Viðar Hákon Gíslason úr hljómsveitinni Trabant.
Jens Guð, 3.3.2008 kl. 23:39
það var virkilega skemmtilegt! sjáumst vonandi aftur á föstudaginn.
Helga Þórey Jónsdóttir (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 01:48
Og þessi Viðar er auðvita frá 'Isafirði,dóttursonur Villa Valla rakara sem ég var að seigja þér frá um daginn,svo er hann sonur Söru Vilbergs myndslistakonu og moggabloggara .Held að ég sé að fara með rétt mál.
Rannveig H, 5.3.2008 kl. 12:44
Þetta hélt ég Sara Var að seigja Jens frá pabba þínum ásamt öðrum tónlistamönnum að vestan,en gleymdi að tengja Viðar við pabba þinn en nú er það komið til skila.mig hlakkar til að eignast nýja diskinn þeirra
Rannveig H, 5.3.2008 kl. 19:09
Sæll Jens.
Keppnin hjá Valgeiri var flott, margar stór-skemmtilegar spurningar: Tammy Winette og mennirnir í lífi hennar (bíður uppá svar sem illmögulegt er að vita, reynir að gisk-hæfileika), Come back baby (og Eagles með norðlenskum framburði), osfrv.
Sennilega hefurðu verið svo niðursokkinn í að pæla í spurningunum að það skolast eilítið til hjá þér hvernig hlutirnir gengu fyrir sig í lokin. Liðin í bráðabananum voru þrjú - ekki tvö: Jens/Siggi. Jói Magg/Ágúst. Viktor/liðsfélagi hans sem ekki hefur komið fram hvað heitir (Jebb, þetta er nú aðal ástæðan fyrir þessarri athugasemd minni; það verður að koma skýrt fram hér að ég hafi fengið jafn mörg stig og Jens Guð í tónlistar-spurningakeppni *glott*).
Varðandi plóginn. Þegar búið var að fara yfir svörin voru tvö lið með 19 stig, þá meðtalið að Jethro Tull svörin hjá ykkur og okkur væru rétt eða a.m.k. fullnægjandi. Valgeir sagði fyrst að ef menn nefndu eitthvað í sambandi við jarðrækt væri það nógu gott til að teljast rétt. Enda erfitt að giska á eitthvað tengt jarðrækt svona út í bláinn. "Fann upp plóginn" er hugsanavilla hjá mer, enda skeikar þar nokkrum árþúsundum! Alltjent mundi ég að Jethro Tull hafði eitthvað verið að föndra við, ja einmitt, jarðrækt. Er ég þó enginn sérfræðingur, hvorki í tónlist né landbúnaði. Síðan kveður Valgeir upp þann dóm að svörin við Jethro Tull spurningunni, þessi tvö a.m.k séu ekki nógu nákvæm (en spurningin per se ekki felld niður), sáðvél þurfti að koma fram. Gott og vel. Þá eru bæði liðin með 18 rétt svör. Þá kemur í ljós að þriðja liðið er með 18 rétt. Bráðabaninn fer svo 5 - 4 - 4, þar sem Boris gerir gæfumuninn. Þokkalegasta systemið á ná 5 af 5 í bráðabana.
En svona gekk þetta fyrir sig í lokin. Við Jói höfum verið í stífum æfingum alla vikuna, lesið Poppbókina, NME og Bændablaðið af kappi og mætum galvaskir á Organ á föstudaginn.
Ágúst Örn
Ágúst Örn Gíslason (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 11:23
Ágúst, bestu þakkir fyrir leiðréttinguna. Þetta rann allt eitthvað í hálfgerða flækju fyrir mér þegar farið var yfir stigin og reynt var að fá botn í þetta. Ég var kominn í spjall og vangaveltur við fólkið á næsta borði, einnig við Sigga Lee á mínu borði, Siggi stökk af og til upp á svið með vangaveltur og bar mér tíðindi af stöðu mála. Ég er bara með 30% heyrn. Sem er bara hið besta mál. - Nema þegar kliður eða skvaldur er í salnum. Þá rennur allt saman í þéttan hljóðvegg þar sem ég á erfitt með að greina eina rödd frá annarri.
Ég játa fúslega að ég var með rangt svar við spurningunni um raðgiftingar/skilnaði Tammy Wynette. Einhverra hluta vegna fara ástarmál fræga fólksins yfirleitt framhjá mér. Ég mundi þó eftir því þegar hún tók saman við frægan kántrý-bolta, George Jones, eftir að hafa skilið við fyrsta karl sinn. Hún og George skildu og þá giskaði ég á að Tammy hefði tekið saman við einn til viðbótar. En rétt svar var 5.
Það má líka alveg koma fram að ég er ekki eins fróður um músík og músíktengt efni eins og úrslit í þessari keppni bendir til. Mér til hjálpar varð að Valgeir Guðjónsson er örfáum árum eldri en ég og hlustaði á margar sömu hljómsveitir á sjöunda og áttunda áratugnum.
Jens Guð, 6.3.2008 kl. 20:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.