Veitingahús - umsögn

 steiktur

Veitingastaður:  American Style,  Skipholti 70,  Reykjavík

Réttur:  Steiktur fiskur 

Verð:  1395 kr.

Einkunn: ** (af 5)

  Íslenskur veitingastaður sem kallast American Style vísar til þess að boðið sé upp á mat og umhverfi að amerískum hætti.  Nærtækast er að ætla að staðurinn sé í grænlenskum stíl.  Grænland er það land Ameríku sem stendur Íslandi næst landfræðilega.

  Þegar inn á staðinn er komið blasa við stórar ljósmyndir af síðhærðum rokkstjörnum.  Án þess að velta því frekar fyrir mér gekk ég út frá því sem vísu að myndirnar væru af liðsmönnum grænlensku hippahljómsveitarinnar frábæru Sume.  Ég virti myndirnar betur fyrir mér á meðan beðið var eftir matnum.  Þá sá ég að þær voru af breskum og bandarískum hipparokkurum í betri kantinum:  Led Zeppelin,  Jimi Hendrix og svo framvegis. 

  American Style er skyndibitastaður í fínni flokknum.  Uppistaðan af matseðli eru samlokur,  hamborgarar,  pítur,  franskar og þess háttar.  En einnig nautasteik,  steiktur fiskur og fleira.  Sennilega er óhætt að setja AS í flokk með Pítunni og Vitaborgaranum.

  Ég pantaði mér steiktan fisk án þess að spyrjast frekar fyrir um hann.  Vonaðist til að hann væri pönnusteiktur.  Þannig fisk fékk ég mér stundum í Pítunni á árum áður.  Þar er ekki lengur boðið upp á þann rétt.

  Þegar maturinn var lagður á borð fyrir framan mig blasti við djúpsteiktur fiskur með frönskum kartöflum.  Þetta var ekki grænlenskur réttur heldur breski þjóðarrétturinn Fish & Chips.  Sem betur fer var fiskurinn þó ekki þakinn þykku hveitideigi að hætti Breta heldur þunnri og ágætri kryddblöndu.  Djúpsteiktur fiskur í Bretlandi er þorskur en í AS er það ýsa.  Því fagnaði ég með niðurbældu húrrahrópi.  Ég er meira fyrir ýsuna nema þegar um saltfisk er að ræða.   

  Franskar kartöflur þekktust ekki í Hjaltadal í Skagafirði á mínum uppvaxtarárum.  Ég smakkaði þær ekki fyrr en sem unglingur úti í Bandaríkjunum.  Þegar ég fæ að ráða kýs ég flestar aðrar útgáfur af kartöflum.  Ef ég hefði haft rænu á að hugsa út í þetta hefði ég áreiðanlega getað fengið bakaða kartöflu með fisknum í stað þeirra frönsku.  Bökuð kartafla stendur nefnilega til boða með nautasteikinni á AS.

  Með fisknum og frönskum er borin fram sítrónusneið,  kokteilsósa og ferskt salat.  Salatið er góð blanda af papriku,  agúrkusneiðum,  hráum lauki,  iceberg og hvítri grænmetissósu.  Það setur máltíðina í annan og betri flokk en breska Fish & Chips skyndibitann.  Gerir þetta meira að alvöru máltíð.  Kokteilsósa getur passað frönskum kartöflum en remúlaði passar betur með fiski.

  Þjónustan á AS var hröð og góð.  Músíkin á staðnum var truflandi.  Ég er bara með 30% heyrn og heyrði ekki betur en verið væri að spila músík úr tveimur græjum.  Ég heyrði lög með CCR en jafnframt eitthvað annað.  Ég veit ekki hvort sjónvarp var í gangi eða hvað það var annað sem truflaði CCR músíkina. 

  Hálfur lítri af bjór á AS kostar 745 kall.  Það er í dýrari kantinum en ég geri ekki athugasemd við verðið á AS að öðru leyti.           

 Önnur umsögn:   http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/590495


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Vorkenni ekki fólki sem fer á svona staði , me included

Ómar Ingi, 31.8.2008 kl. 23:52

2 Smámynd: Jens Guð

  Ég vorkenndi mér ekki að fara á staðinn og tékka á því sem hann hefur upp á að bjóða.  Hann olli ekki beinlínis vonbrigðum en sló heldur ekki í gegn hjá mér.

Jens Guð, 1.9.2008 kl. 00:05

3 identicon

Ostborgarinn er mjög góður á American Style. Einnig er þægilegt að fara þangað með lítil börn þar sem leikaðstaðan er góð. Það er stundum erfitt fyrir okkur foreldra með lítil börn að fara út að borða þar sem maður hefur áhyggjur af því að börnin trufli aðra gesti eða þá að börnin eru orðin óróleg og vilja fara áður en mamma og pabbi eru búin að borða. En þetta er ekki vandamál á ´´Stylnum´´. En ég er sammála þér í því að tónlistin er oft óþolandi hávær. Það er hreinlega dónaskapur af þeirra hálfu að æra gestina og reyna að hvetja þá með þeim hætti til að vera fljótir að borða. Verðið er of hátt fyrir slíkt.

Heiðrún (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 00:14

4 Smámynd: Jens Guð

  Heiðrún,  ég er svo matvondur að þykja hamborgarar ómerkilegur matur.  Nema færeyskir hamborgarar sem eru kjötbolla í brauði.  Ég hefði verið meira en svo sáttur að heyra músík með CCR spilaða en það var verra að sú músík var kaffærð í annarri músík sem var spiluð ofan í CCR.

Jens Guð, 1.9.2008 kl. 00:27

5 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég get nú viðurkennt það að á ferðum mínum til Tjöruborgar, þá hef ég átt til að stunda einvhverja skyndibitastaði.  Yngsti brói minn á til að vilja gera hittíng á 'ztælnum' & ég læt auðzveipur undan & fæ mér tvöfaldann ostborgara án meðlætiz.

Enda fullkomin máltíð, með eitthvað úr öllum fjórum fæðuflokkunum.

Þú & þitt blæti með belgízkt steiktar kartöflur upp á ~franzkann~.

Steingrímur Helgason, 1.9.2008 kl. 00:27

6 Smámynd: Halla Rut

Bíddu, og því fær staðurinn þá bara 2 af 5 stjörnum. Mér sýnist þú bara frekar ánægður með staðinn. 

Halla Rut , 1.9.2008 kl. 00:44

7 Smámynd: Jens Guð

  Steingrímur,  ég deili ekki með þér áhuga á ostborgara.  Það hefur ekkert með AS að gera.  Þannig lagað.  Fyrir minn gamaldags smekk sveitamanns úr Hjaltadal í Skagafirði er hamborgari ekki matur heldur neyðarbrauð með hakkaðri kjötklessu. 

  Halla Rut,  ég var og er ekkert ósáttur við máltíðina á AS.  Hinsvegar geri ég samanburð við til að mynda Sægreifann.  Þar fæ ég sjósiginn fisk með hamsafloti.  5 stjörnu rétt sem kostar 100 kalli meira.

  Munur á djúpsteiktum fiski og pönnusteiktum jafngildir 2 stjörnum.  Munur á frönskum kartöflum og bakaðir kartöflu eða soðnum kartöflum jafngilda einnig 2 stjörnum.  Kokteilsósa er ekki besti kostur með djúpsteiktum fiski.  Ef við erum að tala um kalda sósu er remúlaði meira við hæfi.  Meiri stæll er þó yfir sérlagaðri heitri sósu.  Ég var mjög ánægður með ferska salatið.  Það er betri blanda en á Pítunni.

  Þegar ég ber saman verð og gæði við Sægreifann,  Sjávarbarinn (hlaðborð í hádegi á 1400 kall),  Fljótt og gott á Umferðarmiðstöðinni (hlaðborð með lítið spennandi djúpsteiktum fiski en mörgu öðru á 1600 kall) þá er temmilegt að gefa AS 2 stjörnur. 

Jens Guð, 1.9.2008 kl. 01:13

8 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

  Frábær stjörnugjöf

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.9.2008 kl. 02:25

9 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Ég sé Jens, að þú setur þorsk í Fish and Ship's hjá Bretum. Það er ekki rétt, nema að hluta, það fer eftir því hvar þú ert á Englandi. T.a.m. er alltaf notuð ýsa í F&S í Grimsby og á svæðinu sunnan Humber en þorskur norðan við í Leeds og Hull og svo er þetta víðar. Lýsa t.d. er mjög ljúffeng í F&S og notuð víða, (fékk hana oft á Shetlanseyjum t.d.)

Án þess það hafi beint að gera með stjörnugjöfina, (takk fyrir hana) þá getur verið ágætt að vita þetta...

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 1.9.2008 kl. 07:53

10 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Það er ekkert verra að hafa matgæðing eins og þig hér á meðal vor. Hef aldrei komið inn á þennan stað enda lítinn áhuga á greasy American food.  Tek undir orð Hafsteins, gott að vita þetta.  Njóttu dagsins

Ía Jóhannsdóttir, 1.9.2008 kl. 08:23

11 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

MySpace and Orkut Good Morning Glitter Graphic - 2

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 1.9.2008 kl. 08:52

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Því miður fékk ég bara að skrifa einu sinni veitingahúsagagnrýni á Mogganum, enda fór staðurinn á hausinn skömmu síðar.

Þorsteinn Briem, 1.9.2008 kl. 09:27

13 identicon

mmmmm sjósiginn með hömsum, ég verð að fara að hafa það í matinn...

alva (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 09:46

14 Smámynd: Haukur Nikulásson

Þú ert eiginlega ekki búinn að útskýra það sem mér finnst undarleg stjörnugjöf.

Þú segir mismuninn á djúpsteiktum fiski og pönnusteiktum jafngilda 2 stjörnum. Einnig segir þú muninn á bakaðri kartöflu og frönskum muna tveimur stjörnum. Hvernig geturðu þá gefið 2 stjörnur þegar þú átt ekki eftir nema eina eftir frádragið?

Mér finnst skrýtið að þú sért svo kærulaus að athuga ekki hvernig fiskurinn er steiktur ef það skptir svona miklu máli? Mér finnst líka skrýtið að þú sért ekki með það á hreinu að fá þér bakaða kartöflu í stað franskra ef það skiptir líka svona miklu máli? Ég hefði talið að maður myndi spyrja fyrst og éta (skjóta) svo.

Ég reyndi að setja mig í spor American Style og spyrja sjálfan mig hvort þetta væri á sanngjörn stjörnugjöf út frá ofangreindu. Ég myndi svara því neitandi.

Þar sem ég geri ráð fyrir að þú sért ekkert of hátíðlegur í þessu langar mig líka að vita hvort 30% heyrn ráði því að þú sért bara gefinn fyrir hávært pönkrökk?

Haukur Nikulásson, 1.9.2008 kl. 11:12

15 Smámynd: Gylfi Björgvinsson

Mæli með nautasteikinni þeirra  alveg þokkalega útilátin á viðunandi verði

Gylfi Björgvinsson, 1.9.2008 kl. 11:37

16 Smámynd: Gulli litli

"Grænland er það land Ameríku" einhverstaðar hef ég misst úr landafræðinni...

Gulli litli, 1.9.2008 kl. 12:16

17 identicon

Gulli ... hann Jens er væntanlega að vísa til þeirrar staðreyndar að Grænland er hluti af meginlandi norður-Ameríku.  Auk þess er Jens sennilega að benda á þann misskilning sem margir eru haldnir að setja samansemmerki milli hugtakanna Ameríku og Bandaríkjanna.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 12:59

18 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gulli litli vill væntanlega meina að Grænland sé hluti af Danmörku, sem er þá bæði í Evrópu og Ameríku, enda er Grænland í Norður-Ameríku og stærsta eyja í heimi. Í Danmörku eru þar af leiðandi mun hærri fjöll en hér á Klakanum og fjöldinn allur af ísbjörnum.

"Eftir þjóðaratkvæðagreiðslu 1978 fékk Grænland heimastjórn sem tók gildi 1. maí 1979. Þjóðhöfðingi er enn Margrét II, Danadrottning."

http://is.wikipedia.org/wiki/Gr%C3%A6nland

Þorsteinn Briem, 1.9.2008 kl. 13:01

19 Smámynd: Jens Sigurjónsson

Tvær stjörnur af fimm mögulegum, finnst mér nokkuð góð einkunn, fyrir þennan stað.

Jens Sigurjónsson, 1.9.2008 kl. 15:42

20 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Jens fær fúlgu fjár fyrir að skrifa þetta, að ég tali nú ekki um alla ánægjuna sem af því gefst.

En þorsk á ekki bara að snæða saltan eða á annan hátt "múnderaðan", hann á að borða sem oftast og þá bara með kartöflum (og þá auðvitað með rauðum íslenskum, annað er nánast glæpur!) og örlitlu sméri og hollu salati eftir smekk!

Lifi Þorskurinn!

Magnús Geir Guðmundsson, 1.9.2008 kl. 16:30

21 Smámynd: Siggi Lee Lewis

Hamborgarinn á Stænum er snillingur í að láta mann finna gott bragð, sem og láta mann verða vel saddan á innan við 3 mín. Staðurinn fær þrjár og hálfa stjörnu hjá mér.

Siggi Lee Lewis, 1.9.2008 kl. 17:59

22 Smámynd: Siggi Lee Lewis

Stælnum átti þetta að vera að sjálfsögðu....

Siggi Lee Lewis, 1.9.2008 kl. 18:00

23 Smámynd: Siggi Lee Lewis

Bæði Grænlan og vesturhluti Íslands eru í Ameríku. Það er meira að segja hægt að skokka yfir flekamótin á einhverri brú á Reykjanesi....

Siggi Lee Lewis, 1.9.2008 kl. 18:03

24 Smámynd: Þorsteinn Briem

Rétt hjá þér, Siggi. Reykjavík er í Ameríku. American Style, Skipholti 70, Reykjavík, heitir því ekki American Style fyrir ekki neitt.

Þorsteinn Briem, 1.9.2008 kl. 18:49

25 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Ég hef tvisvar etið á Amerískum stíl. Fyrra skiptið var sjálfsagt sæmilegt, en það seinna er eftirminnilegt fyrir þær sakir að hamborgarinn sem fram var reiddur var svo illa steiktur (þrátt fyrir ítrekaða beiðni um annað) og bragðvondur að ég missti alla lyst á kjötmeti. Ég gafst reyndar upp á grænmetisátinu fyrir ilm jólasteikarinnar...sex mánuðum síðar.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 1.9.2008 kl. 18:52

26 Smámynd: Heidi Strand

Jeg er enig med Gisli at oksesteken er god.
A.S. fikk dårlig kritikk forleden.

Heidi Strand, 1.9.2008 kl. 18:55

27 Smámynd: Jens Guð

  Halldóra,  ég tek undir það að ég ætti að fá borgað fyrir að borða.  Ég veit hinsvegar ekki hvern ég get rukkað um það. 

  Jóna,  takk fyrir það.

  Hafsteinn,  ég hef einungis komið til London,  New Castle og Skotlands.  Í þau örfáu skipti sem ég hef pantað mér Fish & Chips þar hefur fiskurinn verið þorskur.  Þess vegna hélt ég ranglega að það væri reglan.  Bestu þakkir fyrir að leiðrétta þetta.

  Ingibjörg,  hann er semsagt bitastæðari maturinn hjá þér í Tékklandi.

  Linda,  takk fyrir glæsilega morgunkveðju.

  Steini,  það hefur verið beint samhengi þar á milli.  Hehehe!

  Alva,  það er einn albesti matur sem hægt er að komast í.

  Haukur,  það er meðaleinkunnin sem gildir,  alveg eins og í lokaprófum í skóla,  plötugagnrýni,  kvikmyndaumsögn og svo framvegis. 

  Ég les aldrei matseðla,  meðal annars vegna sjóndepru.  Ég leita bara að stikkorðum og læt ráðast hvað fylgir með.  Mér þykir gaman að borða á sem flestum veitingastöðum og tékka á hinum ýmsu réttum.

  Heyrnaskerðingin ræður því ekki að ég sæki í hávært pönkrokk.  En hún hjálpar. 

  Gylfi og Heidi,  ég þar að prófa nautasteikina næst.

  Gulli,  þú hefur verið of upptekinn af að horfa á sætu stelpurnar í skólanum þegar kennarinn fór yfir heimsálfuna Ameríku.  H.T.,  Steini og Siggi Lee votta að ég hef rétt fyrir mér.

  Jens,  ég tel stjörnugjöfina og umsögnina vera sanngjarna.  Ég er ekki tengdur neinu veitingahúsi og er algjörlega hlutlaus í afstöðu til allra veitingastaða.

  Maggi,  mikið vildi ég að þetta væri rétt hjá þér með fúlgur fjár.

  Tinna,  æ, æ.  Kokkarnir eiga sína góðu og slæmu daga.  Ein kenningin er sú að eðlilegast sé að miða við slæmu dagana.  Það sé útkoman sem reikna eigi með.  Ef maður hittir á góðu daga kokksins er það bónus.

Jens Guð, 1.9.2008 kl. 19:55

28 identicon

Sæll Jens Guð. Takk fyrir skemmtilega síðu.  Hef farið nokkrum sinnum á AS og fengið bæði frábæran mat en einnig hræðilega vondann.  Er þó nokkuð sáttur við stjörnugjöfina þína. 

Vil þó einnig benda á að ég hef farið í nokkrun tug skipta á Bæjarinns bestu í miðbænum án þess að hafa nokkurn tíman orðið fyrir vonbrigðum, það hlýtur að jafngilda fimm stjörnum eða svo.  Kanski fjórar og hál, stundum svolítið rok og rigning á þeim veitingarstað.

Kristján VI (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 20:55

29 Smámynd: Þorsteinn Briem

Bill Clinton mælti líka með Bæjarins bestu í miðbænum og gaf staðnum fimm stjörnur úr bandaríska fánanum, þannig að nú eru bara 45 stjörnur eftir í honum, að bestu manna yfirsýn.

Þorsteinn Briem, 1.9.2008 kl. 21:07

30 Smámynd: Gulli litli

Landafrædi var líka ad brugga landa á heimavistinni hjá okkur í denn..

Gulli litli, 1.9.2008 kl. 21:08

31 identicon

Að mínu mati er Stællinn einhver ofmetnasti veitingastaður landsins.  Má minns þá frekar biðja um eðalskyndibitann Habibi!

...désú (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 22:03

32 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Jens hvað segir þú um borgarann á Vitabarnum?

Sigurjón Þórðarson, 1.9.2008 kl. 22:37

33 Smámynd: Jens Guð

  Steini,  ég var einmitt farinn að undrast hvað varð af þessum 5 stjörnum sem vantar í bandaríska fánann.

  Gulli,  þetta er flottur orðaleikur. 

  Desú,  hvar fæst Habibi?

  Sigurjón,  ég hef smakkað Gleym-mér-ei borgarann á Vitabarnum.  Hann er besti hamborgari sem ég hef smakkað.

Jens Guð, 1.9.2008 kl. 23:57

34 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Hangið hér og þar,

hef og víða flakkað.

En "Borgara" á BAR,

bragðað ei né smakkað!

Magnús Geir Guðmundsson, 2.9.2008 kl. 01:00

35 identicon

Ég er sammála ykkur með hamborgarana á Vitabarnum, held að engir toppi þá í gæðum.

Stefán (IP-tala skráð) 2.9.2008 kl. 09:34

36 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Kristján: Vil þó einnig benda á að ég hef farið í nokkrun tug skipta á Bæjarinns bestu í miðbænum án þess að hafa nokkurn tíman orðið fyrir vonbrigðum.

Enn þarf ég að vera ósammála. Bæjarins "Bestu" er ofmetnasta búlla Reykjavíkur. Hrái laukurinn er of blautur og brauðið gufusoðið nánast í mauk. Má ég þá frekar biðja um pylsurnar á Select - svo fremi að þær séu ekki búnar að liggja á teinunum allan daginn.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 2.9.2008 kl. 14:03

37 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Þú þarft að skila tveimur stjörnum þar sem þú viðurkenndir að hafa fengið franskar vegna eigin aulaháttar. Áttaðir þig ekki á að biðja frekar um þá bökuðu.

Annars fær AS ** hjá mér líka. Verðlagið þar er hins vegar út úr kú eins og á flestum þessum stöðum. Ég kann hins vegar vel við fríu gosáfyllinguna sem er eiginlega þeð eina ameríska við staðinn.

Ps. Pítan og AS eru reknir af sama fyrirtækinu, Foodco ehf. Þeir reka líka Aktu Taktu, Pylsuvagninn Laugardag, Eldsmiðjuna, Greifann Akureyri og RPC á Laugavegi. Jafnvel eitthvað fleira sem ég man ekki í svipinn.

Páll Geir Bjarnason, 3.9.2008 kl. 02:12

38 Smámynd: Jens Guð

  Páll Geir,  þú segir aldeilis fréttir.  Þetta vissi ég ekki.  Ég "gúglaði" nafnið Foodco og sá í fljótu bragði að þeir eiga líka eitthvað sem heitir Jolli og einnig Pizza Company sem selur beyglur.

  Ég veit ekki hvort að það er sama fyrirbæri en Foodco er líka til sem matsölukeðja víða um heim.  Þetta fyrirtæki er greinilega að leggja undir sig góðan part af veitingahúsum á Íslandi.

  Tinna,  það er gott að fá sem flest sjónarhorn á matinn.  Ég hef ekki smakkað pylsur í mörg ár.  Ef Bæjarins bestu eru ekki bæjarins bestu verð ég að kæra staðinn fyrir brot á samkeppnislögum með nafngiftinni.

Jens Guð, 3.9.2008 kl. 02:56

39 Smámynd: Grænlandsblogg Gumma Þ

Hæ félagi. Gaman að lesa þína umsögn um mat og meððí. Sérstaklega þótti mér að sjálfsögðu athyglisvert að SUME skyldi fá pláss hjá þér í tónlistarhlutanum

Grænlandsblogg Gumma Þ, 15.9.2008 kl. 14:35

40 Smámynd: Jens Guð

  Heill og sæll,  Guðmundur. 

  Ég sá að dóttir þín er orðin ritstjóri aðal blaðsins á Grænlandi.  Ég passa upp á að nafn SUME gleymist ekki.  Ég verð með lag frá þeim á safnplötu sem er að koma út,  "World Music from the Cold Seas".

Jens Guð, 15.9.2008 kl. 17:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband