Partý aldarinnar

áð í fjallgöngu

 

  Fyrir nokkrum árum ákvað kunningi minn að halda upp á þrítugsafmæli sitt með stæl.  Hann var nýskilinn við kellu sína.  En blankur.  Hann sló bankalán fyrir því sem kallað var "partý aldarinnar".  Enda var hann í leiðinni að halda upp á skilnaðinn.  Þar fyrir utan var þetta einnig innflutningspartý vegna íbúðar sem hann hafði tekið á leigu.

  Ekkert var til sparað þó ekki væri gengið jafn langt og hjá íslenskum auðmönnum sem buðu upp á Elton John eða Duran Duran.  Blessunarlega ekki. 

  Kunninginn keypti bílhlass af bjór og kampavíni.  Hann skreytti íbúðina ótal uppblásnum blöðrum,  utan sem innan,  og allskonar partýglingri.  Keypti helling af furðulegum pappírshöttum,  ýlum og dóti sem er áberandi á gamlárskvöldi.

  Hann fékk vin sinn til að spila á hljómborð (skemmtara) inn á geisladisk undirleik við helstu rútubílasöngva. Hann lét fjölrita texta þessara sömu slagara:  Fatlafól,  Stál og hnífur,  Undir bláhimni og svo framvegis.  Það átti að syngja vinsælustu slagarana fram undir morgun.

  Allur eftirmiðdagur fór í að smyrja snittur og smábrauð.  Jafnframt voru skálar fylltar kartöfluflögum og raðað innan um ídýfur af ýmsu tagi.

  Um klukkan 23:00 kíkti ég við.  Enginn var mættur í partý aldarinnar.  Ég stoppaði stutt við og hélt síðan á hverfispöbbinn.  Kunninginn gaf mér fyrirmæli:  "Ekki vera of lengi.  Partý aldarinnar hefst upp úr miðnætti.  Þú mátt ekki missa af fjörinu."

  Ég ílengdist á pöbbnum.  Skilaði mér í partý aldarinnar um klukkan 2.  Þá var allt með sama sniði og klukkan 23:00.  Enginn hafði mætt.  Ekki ein einasta manneskja.  Ef undan er skilin ein fullorðin útlend kona sem kunninginn hafði rekist á í stigaganginum.  Hann náði að hella í hana einu bjórglasi.  En þau gátu ekki spjallað saman.  Konan talar hvorki ensku né íslensku.  Bara pólsku. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Djöfull hefur verið leiðinlegt að ganga frá morguninn eftir.

S. Lúther Gestsson, 28.4.2009 kl. 00:47

2 identicon

Varstu virkilega allann eftirmiðdaginn að smyrja snittur og smábrauð Jens?

Og fórstu nokkuð á pöbbinn?

Elli L (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 00:52

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

  Sorgleg saga. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.4.2009 kl. 00:53

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Svipar til dæmisögu úr biblíusögu, hefði átt að fara út á götu og bjóða hverjum sem þiggja vildi.

Helga Kristjánsdóttir, 28.4.2009 kl. 00:54

5 identicon

Ert þú að meina kosningahátíð XF

Tryggvi (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 01:18

6 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

hahah já ég .. ég spyr ein og Tryggvi.. Hét þessi náungi kannski Guðjón A Kristjánsson ?

Brynjar Jóhannsson, 28.4.2009 kl. 04:59

7 identicon

I spent my 30th birthday in Las Vegas, baby. Where it is always a party, and everyone is always welcome. But it is not for the timid. Probably my only birthday with style, but I cannot imagine going into my 30s any other way. Poor dude! The 30s suck unless they rock.

Lissy (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 05:12

8 Smámynd: Hannes

En skemmtileg afmælisveisla eða þannig. Ertu ekki að tala um kosningaúrslitin og eftir partýið hjá FF?

Ég læt mig nú bara hverfa þegar ég á afmæli.

Hannes, 28.4.2009 kl. 10:13

9 Smámynd: Júlíus Valsson

Og ég sem hélt að þú værir tuttuguogeitthvað

Júlíus Valsson, 28.4.2009 kl. 12:37

10 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

   

Ía Jóhannsdóttir, 28.4.2009 kl. 13:35

11 identicon

 Hann var nýfráskilinn.Þegar menn skilja þá skilja menn við vini og tengdarfólk maka og  eiga kannski sárafáa vini þegar upp er staðið .Oft er þetta verra hjá körlunum.   Íbúðin var allaveganna ekki gerð fokheld eða sjónvarpinu grýtt út um gluggann   einsog ég  hafði fyrst í sögubyrjun haft grun um að sagan endaði  .

hordurhalldorsson.. (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 14:02

12 identicon

Gleymdi hann nokkuð að senda út heimboðin? Þessi saga minnir mig á eina grátbroslega smásögu sem ég las einu sinni í menntó, "Bella Fleace gave a party" eftir Evelyn Waugh. Sú saga fjallar um sérvitra gamla konu sem undirbýr stórveislu, en enginn mætir nema eitt forvitið nágrannapar (sem reyndar mætir óboðið). Kella síðan deyr daginn eftir, og þegar farið er í gegnum eigur hennar finnast öll boðskortin, sem aldrei voru send út...

Gunnhildur Reynisdóttir (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 15:19

13 identicon

Gunnar Th Gunnarsson stórbloggari og leigubílstjóri á Reyðarfirði á stórafmæli á næsta ári ( á ekki að mæta hjá stórbloggaranum ef hann býður til veislu ) ?   Ég hef skorað á hann að fara í framboð fyrir litla Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu alþingiskosningar. Það er mitt innlegg fyrir stórafmæli kappans. Ég ábyrgist hinsvegar ekki að hann nái kjöri.  

Stefán (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 16:21

14 Smámynd: Jens Guð

  Sigurður Lúther,  sennilega var léttara að taka til heldur en ef 20 manns hefðu mætt,  oltið blindfullir og ælandi um allt fram á morgun,  brotið vínglös,  slegist og allt þetta hefðbundna sem fylgir almennilegum partýum.

  Hitt veit ég að kunninginn borðaði snittur og smábrauð næstu daga ásamt kartöfluflögum.  Mig minnir að hann hafi fengið að skila kampavíninu og bjórnum aftur í Vínbúð.

Jens Guð, 28.4.2009 kl. 20:22

15 Smámynd: Jens Guð

  Elli L,  ég stend vaktina þegar kemur að pöbbarölti.  En snittur og smábrauð smyr ég ekki.  Ég kem aldrei nálægt neinu slíku,  nema þegar kemur að því að snæða góðgætið.  Mér þykir ósköp notalegt að setjast niður í Norræna húsinu eða BSÍ og fá mér smurbrauð með laxi eða rækjum - á meðan ég les dagblöðin.

Jens Guð, 28.4.2009 kl. 20:29

16 Smámynd: Jens Guð

  Jóna Kolbrún,  að minnsta kosti var kunninginn sorgmæddur á svip.  Og eiginlega fúll og svekktur.

Jens Guð, 28.4.2009 kl. 20:32

17 Smámynd: Jens Guð

  Helga,  ég held að hann hafi gert eitthvað í humátt að því.  Þannig fann hann pólsku konuna í stigagangnum.  Annars var komin nótt þegar rann upp fyrir honum sú staðreynd að enginn af boðsgestum hans mætti.  Á þeim tíma sólarhrings,  klukkan 2 að nóttu,  eru fáir á ferli í rólegri hverfum borgarinnar.

Jens Guð, 28.4.2009 kl. 20:37

18 Smámynd: Jens Guð

  Tryggvi,  það var stöðugt líf og fjör á kosningahátíðum XF og kosningavökum.  Menn voru sannfærðir um stórsigur alla kosninganóttina.  Sjálfur formaðurinn var óþreytandi að benda á að fylgið myndi skila sér í utankjörstaðaatkvæðunum sem eru talin síðast.  Þá yrðu 2 - 4 þingmenn í hús.

  Það dofnaði aðeins yfir þegar endanleg úrslit voru ljós.  Ég held að það hafi aðallega verið vegna þess að fólk var orðið syfjað.  

Jens Guð, 28.4.2009 kl. 20:43

19 Smámynd: Jens Guð

  Brynjar,  ég get upplýst að þessi náungi heitir ekki Guðjón og er ekki í Frjálslynda flokknum.  Hann hefur þó kosið XF til skiptis við XD.

Jens Guð, 28.4.2009 kl. 20:47

20 Smámynd: Jens Guð

  Lissy,  some are popular and lucky.  Some are not.

Jens Guð, 28.4.2009 kl. 20:49

21 Smámynd: Jens Guð

  Hannes,  nei,  þetta gerðist fyrir nokkrum árum,  á gullárum Frjálslynda flokksins.

  Ég nota sömu aðferð og þú:  Er að heiman á afmælisdaginn.

Jens Guð, 28.4.2009 kl. 20:53

22 Smámynd: Jens Guð

  Júlíus,  ég er hátt á sextugsaldri.

Jens Guð, 28.4.2009 kl. 20:55

23 Smámynd: Jens Guð

  Ingibjörg,  takk fyrir innlitið.

Jens Guð, 28.4.2009 kl. 20:57

24 Smámynd: Jens Guð

  Hörður,  þó ég þekki lítið til vinahóps mannsins þá hef ég grun um að þú hittir naglann á höfuðið:  Að stærsti hluti vinahópsins hafi haldið með konunni.  Skilnaðurinn lagðist illa í konuna.  Hún var stöðugt að senda honum sms með hótunum um að senda á hann handrukkara og annað í þá veru.  Mér skilst að konan hafi verið dugleg að kvarta undan kauða við vinahópinn.

Jens Guð, 28.4.2009 kl. 21:05

25 Smámynd: Jens Guð

  Gunnhildur,  ég veit ekki hvernig hann bauð í partý aldarinnar.  Hann bauð mér bara munnlega.  Ég tel víst að þannig hafi það verið í öðrum tilfellum.  Þetta var ekki fjölmennur hópur sem átti að mæta.  Kannski 15 - 20 manns. 

  Hún er góð þessi saga sem þú vitnar til.

Jens Guð, 28.4.2009 kl. 21:09

26 Smámynd: Jens Guð

  Stefán,  ef hann býður til veislunnar í Reykjavík mæti ég fyrstur manna.  Mér þykir aðeins of langt að fara alla leið til Reyðarfjarðar. 

Jens Guð, 28.4.2009 kl. 21:12

27 Smámynd: doddý

angaskinnið þessi gaukur. ég myndi gráta ef ég byði til veislu og ENGIN kæmi. kv d

doddý, 28.4.2009 kl. 23:47

28 Smámynd: Jens Guð

  Doddý,  þetta var vitaskuld svekkjandi fyrir blessaðan drenginn. Hann var búinn að hlakka til í marga daga.  Talaði ekki um annað en partý aldarinnar og undirbúningur átti allan hans hug dögum saman.

Jens Guð, 29.4.2009 kl. 00:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband