Færsluflokkur: Spaugilegt

Tímafrekt að rekast á ölvaðan mann

  Það var föstudagskvöld.  Að venju ekkert að gera hjá lögregluþjónunum tveim í Klakksvík,  höfuðborg norðureyjanna í Færeyjum.  Einskonar Akureyri þeirra.  Um miðnætti var farið í eftirlitsferð um bæinn.  Þá rákust þeir á ungan mann vel við skál.  Hann var með nýtt smávægilega blóðrisa fleiður.  Enga skýringu kunni hann á tilurð þess.  Kom af fjöllum. 

  Lögum samkvæmt verður læknir að gefa út vottorð um að óhætt sé að láta mann með áverka í fangaklefa. Lög eru lög.  Lögreglan ráðfærði sig við neyðarlínuna.  Úr varð að ekið var með manninn í neyðarvakt sjúkrahússins í Klakksvík.  Vakthafandi læknir treysti sér ekki til að skrifa upp á vottorð á meðan engar upplýsingar væru um tilurð fleiðursins. 

  Lögreglan ók þá með manninn sem leið lá til Þórshafnar,  höfuðborgar Færeyja.  Vegna veðurs og slæms skyggnis tók ferðin fjóra tíma.  Maðurinn var skráður inn á bráðamóttöku borgarspítalans.  Vakthafandi læknir gaf þegar í stað út vottorð um að óhætt væri að hýsa manninn í fangaklefa.  Hann hvatti jafnframt til þess að maðurinn fengi að sofa úr sér vímuna í Þórshöfn. Gott væri að gefa honum kaffibolla.  Var hann því næst sendur með leigubíl frá borgarspítalanum með fyrirmæli um að leggja sig í fangaklefa hjá Þórshafnarlögreglunni.   

  Lögregluþjónarnir snéru aftur til Klakksvíkur.  Sælir eftir óvenju erilssama nótt.  Upp var runninn sólbjartur morgunn.  

      


Naflaskraut

  Við höfum heyrt út undan okkur að töluvert sé um að ungar konur fái sér naflaskraut.  Þetta er svo gott sem tískufyrirbæri.  Jafnan eru það nettir "eyrnalokkar" sem fá að prýða naflann.  Þeir passa samt ekki öllum.  Þá er þetta ráðið.

naflaskraut


Fólkið sem reddar sér

  Fjórar fjölskyldur í Essex á Englandi urðu heimilislausar eftir að íbúðir þeirra brunnu til kaldra kola.  Þetta atvikaðist þannig að húsbóndinn á einu heimilinu tók eftir því að útimálningin var farin að flagna af.  Honum hraus hugur við að þurfa að eyða sólríkum degi í að skafa málninguna af.  Til að spara sér puð brá hann á ráð:  Hann úðaði bensíni yfir húsið og kveikti í.  Málningin fuðraði upp eins og dögg fyrir sólu.  Líka húsið og nálæg hús.

  Orkuboltinum Christina Lamb í Cornwall á Englandi datt í hug að reisa verönd við hús sitt.  Hún hófst þegar handa við að grafa grunn.  Í ákafa tókst henni að höggva í sundur gasleiðslu bæjarins sem stóð eftir í ljósum loga.

  Mike Howel í Bristol á Englandi var ekkert að æsa sig yfir því að festa fingur í smíðabekk sínum.  Fingurinn var pikkfastur.  En hann var svo sem ekki að fara neitt.  Mike hafði fátt betra að gera þann daginnn en rölta með fingurinn og smíðabekkinn 3ja kílómetraleið á sjúkrahús.  Það tók aðeins 8 klukkutíma.  Hefði tekið styttri tíma ef vegfarendur hefðu ekki stöðugt verið að stoppa og spyrja út í dæmið.  

       


Smásaga um trekant sem endaði með ósköpum

  Jonni átti sér draum.  Hann var um trekant með tveimur konum.  Þegar hann fékk sér í glas impraði hann á draumnum við konu sína.  Hún tók því illa.

  Árin liðu.  Kunninginn færði þetta æ sjaldnar í tal.  Börnin uxu úr grasi og fluttu að heiman.  Hjónin minnkuðu við sig.  Keyptu snotra íbúð í tvíbýlishúsi.  Í hinni íbúðinni bjuggu hjón á svipuðum aldri.  Góður vinskapur tókst með þeim.  Samgangur varð mikill.  Hópurinn eldaði saman um helgar,  horfði saman á sjónvarp,  fór saman í leikhús, á dansleiki og til Tenerife.

  Einn daginn veiktist hinn maðurinn.  Hann lagðist inn á sjúkrahús.  Á laugardagskvöldi grillaði Jonni fyrir þau sem heima sátu.  Grillmatnum var skolað niður með rauðvíni.  Eftir matinn var skipt yfir í sterkara áfengi.  Er leið á kvöldið urðu tök á drykkjunni losaralegri.  Fólkið varð blindfullt. 

  Þegar svefndrungi færðist yfir bankaði gamli draumurinn upp hjá Jonna.  Leikar fóru þannig að draumurinn rættist loks.  Morguninn eftir vaknaði kappinn illa timbraður.  Konurnar var hvergi að sjá.  Sunnudagurinn leið án þess að málið skýrðist.  Á mánudeginum hringdi frúin loks í mann sinn.  Tjáði honum að þær vinkonurnar hefðu uppgötvað nýja hlið á sér.  Þær ætluðu að taka saman.  Sem þær gerðu.  Eftir situr aleinn og niðurbrotinn maður.  Hann bölvar því að draumurinn hafi ræst.

Threesome      


Smásaga um flugferð

  Haukur var háaldraður þegar hann flaug í fyrsta skipti með flugvél.  Tilhugsunin olli honum kvíða og áhyggjum.  Hann áttaði sig á að þetta var flughræðsla á háu stigi.  Til að slá á kvíðakastið leitaði hann sér upplýsinga um helstu ástæður fyrir flugslysum.  Það gerði illt verra.  Jók aðeins kvíðakastið.

  Áður en Haukur skjögraði um borð deyfði hann sig með koníaki sem hann þambaði af stút.  Það kom niður á veiklulegu göngulagi fúinna fóta.  Hann fékk aðstoð við að staulast upp landganginn.  Allt gekk vel.

  Nokkru eftir flugtak tók hann af sér öryggisbeltið og stóð upp.  Hann mjakaði sér hálfhrasandi að útihurð vélarinnar. Í sama mund og hann greip um handfangið stökk flugfreyja fram fyrir hann og kallaði höstuglega:  "Hvað heldurðu að þú sért að gera?"

  "Ég þarf að skreppa á klósett," útskýrði hann. 

  "Ef þú opnar dyrnar hrapar flugvélin og ferst!" gargaði flugfreyjan æstum rómi.

  Kalli var illa brugðið.  Hann snérist eldsnöggt á hæl og stikaði óvenju styrkum fótum inn eftir flugvélinni.  Um leið hrópaði hann upp yfir sig í geðshræringu:  "Hvur þremillinn!   Ég verð að skorða mig aftast í vélinni.  Þar er öruggast þegar vélin hrapar!"        

flugvél  


Kossaráð

  Kærustupör lenda iðulega í hremmingum þegar kossaárátta blossar upp hjá þeim.  Vandamálið er nefið.  Það er illa staðsett á miðju andlitinu.  Þar skagar það út í loftið eins og Snæfellsnes.  Við kossaflangsið rekast nefin venjulega harkalega saman.  Oft svo illa að á eftir liggur parið afvelta á bakinu með fossandi blóðnasir. Við það hverfur öll rómantík eins og dögg fyrir sólu.

  Þetta þarf ekki að vera svona.  Til er pottþétt kossaaðferð sem setur nefin ekki í neina hættu.  Hún er svona (smella á mynd til að stækka):

koss 


Ást í háloftunum

  Ég brá mér á pöbb.  Þar var ung kona.  Við erum málkunnug.  Við tókum spjall saman.  Hún var í flugnámi og ætlaði að taka próf daginn eftir.  Hún var með bullandi prófskrekk.  Sú var ástæðan fyrir pöbbarölti hennar.  Hún var að slá á skrekkinn.  

  Við höfðum ekki spjallað lengi er ungur maður settist við borðið hjá okkur.  Hann þekkti okkur ekki en var hress og kátur.  Hann sagðist vera nýskilinn að Vestan og það væri eitthvað eirðaleysi eða einmannleiki í sér. Tal beindist fljótlega að prófskrekknum.  Maðurinn sagði að prófið væri ekkert mál.  Hann væri flugmaður og gæti leiðbeint konunni daginn eftir.  Tók hún þá gleði sína og skrekkurinn fjaraði út.  Vel fór á með þeim og að lokum leiddust þau út í leigubíl.

  Nokkru síðar sagði bardaman mér að snurða hafi hlaupið á hjá skötuhjúunum.  Konan hafði komið grátandi á barinn og sagt farir sínar ekki sléttar.  Þau höfðu að vísu átt góða nótt.  En að lokinni heimaleikfimi um morguninn flýtti maðurinn að klæða sig.  Hann sagðist vera of seinn út á flugvöll.  Hann þyrfti að sækja konuna sína þangað.

  Bólvinkonan benti honum á að hann hefði sagst vera fráskilinn að Vestan.  "Ég var bara að vitna í dægurlag með Önnu Vilhjálms," svaraði hann hlæjandi.  "En hvað með flugprófið?"  spurði hún.  "Það var spaug,"  svaraði hann.  "Ég veit ekkert um flugvélar.  Ég er strætóbílstjóri!"    

flugvél


Sjaldan launar kálfur ofeldi.

  Ég þekki konu eina.  Við erum málkunnug.  Þegar ég rekst á hana tökum við spjall saman.  Hún er fátæk einstæð móðir 23ja ára manns.  Þrátt fyrir aldurinn býr hann enn heima hjá henni.  Hann er dekurbarn.  Konan er í vandræðum með að ná endum saman um hver mánaðarmót.  Eini lúxus hennar er að reka gamla bíldruslu.  Það er eiginlega í neyð.  Hún á erfitt með gang vegna astma og fótfúa.  Hún kemst ekki í búð án bílsins. 

  Núna um helgina varð hún á vegi mínum.  Hún sagði farir sínar ekki sléttar.  Kvöldið áður bað sonurinn um að fá bílinn lánaðan.  Honum var boðið í partý.  Konan tók vel í það.  Sjálf þurfti hún að fara einhverra erinda út í bæ.  Það passaði að sonurinn skutlaði henni þangað í leiðinni.  

  Er hún var komin á leiðarenda tilkynnti hún syninum að hann þyrfti að sækja sig um klukkan 11.  

  - Ekki séns,  svaraði kauði.

  - Hvað átt þú við?  Ég þarf að komast heim,  útskýrði konan.

  - Ég er að fara í partý.  Það verður nóg að drekka.  En það verður enginn ölvunarakstur.

  - Ég er að lána þér bílinn minn.  Þú skalt gjöra svo vel og sjá mér fyrir fari heim.

  - Þú verður að redda þér sjálf.  

  - Hvernig á ég að redda mér fari?  Ég get hvorki tekið strætó né gengið heim.

  - Hefur þú aldrei heyrt talað um taxa?  hrópaði sonurinn um leið og hann reykspólaði burt.  

taxi 


Rökföst

    Í gær ræddi ég við unga stúlku um jólin. 

  - Hvað verður í matinn hjá ykkur á aðfangadag?  spurði ég.

  - Það er alltaf tvíréttað;  lamb og svín,  svaraði hún.

  - En á jóladag?

  - Ég veit það ekki.  Enda er það ekkert merkilegur dagur!

  - Jú, jóladagurinn er eiginlega skilgreindur sem aðal jóladagurinn.

  - Í útlöndum,  já.  Á Íslandi er aðfangadagur aðal jóladagurinn.  Þá bjóðum við hvert öðru gleðileg jól; þá er mesta veislan og við opnum jólapakkana,  lesum á jólakort og leikum okkur.

  - Það er rétt hjá þér að þetta er misvísandi.  En orðið aðfangadagur þýðir að þetta sé dagurinn fyrir jóladag; aðdragandi jóla.

  - Hvers vegna heldur þú að í súkkulaðijóladagatalinu sé síðasti dagurinn 24. des?  25. des er ekki einu sinni í dagatalinu.

  Ég var mát!


mbl.is „Jólunum er aflýst“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvinafagnaður

  Ég var gestkomandi úti í bæ.  Þar hittust einnig tvær háaldraðar systur.  Þær höfðu ekki hist í langan tíma.  Það urðu því fagnaðarfundir.  Þær höfðu frá mörgu að segja. Þar á meðal barst tal að frænku þeirra á svipuðum aldri.  Þær báru henni illa söguna.  Fundu henni allt til foráttu.  Sögðu hana vera mestu frekju í heimi,  samansaumaðan nirfil,  lúmska,  snobbaða,  sjálfselska,  ósmekklega,  ófríða,  vinalausa,  drepleiðinlega kjaftatík...

  Systurnar fóru nánast í keppni um að rifja upp og segja af henni krassandi sögur.  Í æðibunuganginum hrökk upp úr annarri:  "Það er nokkuð langt síðan ég hef heyrt frá henni."

  Hin tók undir það og bætti við:  "Eigum við ekki að kíkja snöggvast til hennar?"

  Það gerðu þær.  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband