Bestu hljómsveitir Bubba

  Á dögunum stóð ég fyrir skoðanakönnun um viðhorf til hljómsveita Bubba Morthens.  Valið stóð á milli helstu afgerandi hljómsveita hans.  Þeim minna þekktu sleppti ég (svo sem Gúanóbandinu og Mögulegu óverdósi).  Spurt var:  Hver var/er besta hljómsveit Bubba?  Niðurstaðan varð þessi:

utangarðsmenn

1.  Utangarðsmenn 42,8%

  Það kemur ekki á óvart að Utangarðsmenn hreppi toppsætið.  Þetta var hljómsveitin sem kom Bubba-æðinu af stað 1980 og breytti landslagi íslenskrar rokkmúsíkur til frambúðar.  Sprengdi poppmarkaðinn upp með látum og kom af stað rokkvakningu sem náði hámarki í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík

egó

2.  Egó 29,1%

  Ég reiknaði með að mjórra yrði á munum á Egói og Utangarðsmönnum.  Egó náði ennþá meiri almennum vinsældum en Utangarðsmenn.  Að sumu leyti var Egó þó brokkgengari hljómsveit:  Byrjaði ferilinn sem þungarokkshljómsveit en sveigði fljótlega yfir í aðgengilegra og fjölbreyttara nýrokk,  svokallaða nýbylgju.  Bubbi dældi á færibandi út stórsmellum með Egói sem margir hafa orðið sívinsælir,  svo sem Stórir strákar fá raflostMóðirFjöllin hafa vakað og Meskalín.  Ferill Egós endaði ekki eins glæsilega og hann hófst.  Hljómsveitin liðaðist í sundur eftir ítrekaðar mannabreytingar og var komin í illindi við útgefanda sinn.  Síðasta plata Egós var gefin út af öllum í ólund:  Hljómsveitinni sem og útgefandanum.  Platan stóð fyrri plötum Egós að baki,  hún var lítið sem ekkert auglýst og seldist dræmt.  Áður en Egó hætti endanlega var Bubbi hættur í hljómsveitinni en Sævar Sverrisson tekinn við hljóðnemanum.  Síðustu ár hefur Egó verið endurvakin með reglulegu millibili.

das kapital  

3.  Das Kapital 13,5%

  Ekki hefði ég veðjað á að Das Kapital yrði ofar GCD á þessum lista.  En Das Kapital var svo sem frábær hljómsveit,  vel pönkuð,  hrjúf og ljúf.  Þekktustu lög Das Kapital eru Blindsker,  Lili Marlene og Leyndarmál frægðarinnar.

gcd

4.  GCD 7,1%

  Mig grunar að GCD hafi starfað aðeins of lengi.  Það var ævintýraljómi yfir hljómsveitinni framan af:  Rokkkóngurinn Bubbi og Hr. Rokk,  Rúnar Júlíusson,  saman með súpergrúppu.  Hljómsveitin hlaut gífurlega góðar viðtökur og þeir félagar dældu út stórsmellum á borð við MýrdalssandHótel Borg,  Kaupmanninn á horninu og fleiri.  Mér segir svo hugur að GCD hefði varðveitt stærri ímynd ef hún hefði aðeins starfað í 2 ár eða svo,  eða jafn lengi og þetta hljómaði virkilega frísklegt og spennandi dæmi.

MX-21

5.  MX-21 4,3%

  Margir líta kannski á MX-21 sem einskonar undirleikarahljómsveit hjá Bubba.  Þetta var hljómsveitin sem spilaði með honum á Frelsi til sölu og Skapar fegurðin hamingjuna? Snilldar plötuumslag.

stríðogfriður

6.  Stríð og friður 3,2%

  Það sama á við um Stríð og frið eins og MX-21:  Margir hugsa eflaust um þessar hljómsveitir sem undirleikarahljómsveitir hjá Bubba.  Stríð og friður er sú hljómsveit Bubba sem hefur starfað lengst og spilar á væntanlegri plötu hans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ertu ekki að meina VERSTU hljómsveitir BUBBA.?

Númi (IP-tala skráð) 18.5.2008 kl. 23:46

2 Smámynd: Ómar Ingi

Minnir mig á Hlutabréf.

Ómar Ingi, 19.5.2008 kl. 00:27

3 Smámynd: Dunni

Hellv.. að þessi könnun fór fram hjá mér.

Báðar voru þær góðar sveitir Utangarðsmenn og Egó.  Afar ólíkar þó.  Mér fannst Egóið betra band á sínum bestu stundum sem þungarokkband. Líkaði alltaf best að heyra Begga í þeirri tegund tónlistar.  Kanski vegna þess að mér gengur illa að þróa sjálfan mig út úr þungarokkinu

 En eftir Egóið hefur mér aldrei fundist mikið til um tónlist Bubba. Margar plöturnar eru áheyrilegar meðan maður vaskar upp en ekki mikið meira en það. 

Dunni, 19.5.2008 kl. 05:51

4 Smámynd: Jóhann G. Gunnarsson

Kom það þér á óvart að Das Kapital skuli vera ofar en GCD?  GCD var vondur brandari sem gekk of langt.

 Líka merkilegt að allar efstu sveitirnar nnema Stríð og Friður,  voru starfandi meðan Bubbi var í dópinu svo greinilega  myndi það bara vera jákvætt ef hann félli... myndi kannski fara að gera góða tónlist aftur... 

Jóhann G. Gunnarsson, 19.5.2008 kl. 12:31

5 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Ekki að spyrja af loftbólublaðrinu og órökstuddu dylgjunum þegar Bubbi er til umræðu félagi Jens! Ég og hann kynntumst einmitt fyrst þarna um og eftir '90 þegar GCD varð til, og þá var hann ÞVERT Á MÓTI því sem hér er dylgjað um ekki í neyslu!Hefur reyndar ekki mikið upp á sig að eltast við svona bull úr fólki auk þess sem það má auðvitað hafa sínar skoðanir á bubba og tónlist hans til eða frá eins og það vill. Ég á samt erfitt með að sitja aðgerðarlaus hjá þegar gagnrýnin á sér enga stoð og er sprottin af engu öðru en íllgirni og öfund!

Get annars sjálfur ílla gert upp á milli, en eins og þú veist líka Jens var Bubba og er líklega enn ekki gefið um sumt allavega sem EGÓ gerði, enda var hann þá sannarlega í rugli og man ekkert eftir sumu á ferli sveitarinnar.(það hefur margoft komið fram hjá honum) Svo hef ég þá skoðun að bæði GCD og Stríð & friður séu á sínum kröftugustu augnablikum á sviði, eiginlega á svipuðu róli og EGÓ þegar þungarokkinu sleppti.Hrára, en fyrst og síðast skemmtilegar sveitir!

Magnús Geir Guðmundsson, 19.5.2008 kl. 14:48

6 Smámynd: Guðmundur Rafnkell Gíslason

BUll, Utangardsmenn eru og voru bestir. Wings eda Beatles?

Guðmundur Rafnkell Gíslason, 19.5.2008 kl. 21:21

7 Smámynd: Jens Guð

  Númi,  ég var ekki að meina verstu hljómsveitir en það má alveg snúa því þannig.  Fer eftir ýmsu. 

  Ómar,  þetta eru hlutabréf.  Þannig lagað. 

  Dunni, Utangarðsmenn komu með sprengikraftinn og allt sem til þurfti að stokka upp ládeyðuna sem réði ríkjum.  Egóið var gott framhald.  Stækkaði og útvíkkaði dæmið út yfir vinældalistana.

  Jóhann,  ég miða við sölutölur platna og aðsókn á hljómleika.  Ég játa á mig að hafa ekki gert mér grein fyrir því að Das Kapital skipaði í dag stærri sess en GCD.  Ég var og er aðdáandi Das Kapital.  Elti uppi flesta hljómleika Das Kapital á höfuðborgarsvæðinu og það allt.  Gerði plötuumslag hljómsveitarinnar,  var í stjórn Gramms sem gaf út plötuna og fylgdist náið með framvindu mála.  En GCD varð strax stærra nafn og skírskotaði til breiðari hóps.  Að óreyndu hélt ég að það myndi skila sér í þessari skoðanakönnun.  En ég hafði rangt fyrir mér og skrifa það á að GCD hafi teygt lopann um of.  Ævintýraljómi þeirrar hljómsveitar hafi fjarað út áður en hljómsveitin sendi frá sér þriðju plötuna.

  Maggi,  ég man eftir því þegar 3ja plata Egós kom út og við vorum að hlusta á lokalagið,  Reykjavík brennur.  Þá bölvaði Bubbi yfir að hafa haft það lag með.  Sagði:  "Þetta lag er aðeins of gott til að hafa sloppið inn á plötuna."  Bubbi var í illindum við útgefandann,  Steinar Berg,  og vildi ekki að platan seldist.

Jens Guð, 20.5.2008 kl. 00:44

8 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Einmitt og ekki í fyrsta skipti sem neistaði þeirra tveggja á millum. En er þér sammála, þessi þriðja, Teika eða hvað hún heitir,var langt í frá jafn sterk og hinar tvær, sú fyrsta (sem hét GCD undir nöfnum Bubba og Rúnars) og Svefnvana.CCR og Byrdsáhrifin t.d. þar lítt eða ekki fyrir hendi lengur. En ef mig misminnir ekki, voru þó á Teika ágætislög innan um sem náðu hylli, "Ég sé ljósið" Reaggaelagið til dæmis ekki satt? (leiðréttist ef ég fer villur vegar)

Magnús Geir Guðmundsson, 20.5.2008 kl. 12:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband