Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
15.10.2024 | 10:11
Gátan leyst
Afabróðir minn flutti til Færeyja um aldamótin 1900. Þar hófst hann þegar í stað við að eignast börn með tveimur þarlendum konum. Fyrir bragðið á ég fjölmennan frændgarð í Færeyjum. Flestir bera ættarnafnið Ísfeld. Margir hafa orðið áberandi í sjávarútvegi, tónlist og byggingarlist. Samruni íslenskra og færeyskra gena hefur gefist vel.
Barnungur færeyskur frændi minn, Nói, var í kristnifræði í skólanum fyrir helgi. Heimkominn tjáði hann mömmu sinni frá náminu. Kennarinn hafi upplýst að guð, Jesú og heilagur andi væru eitt og hið sama.
Stríðin mamman spurði: "Hvernig í ósköpunum geta 3 guðir verið eitt og hið sama?"
Nói svaraði um hæl: "Ætli það sé ekki eins og með sjampóið okkar, 3 in 1. Það er hársápa, hárnæring og baðsápa í einu og sömu flöskunni."
13.10.2020 | 23:56
Illmenni
Ég er fæddur og uppalinn í sveit, Hrafnhóli í Hjaltadal, í útjaðri Hóla. Öll unglingsár vann ég í Sláturhúsi Skagfirðinga á Sauðárkróki. Það var gaman. Við slátruðum hátt í sjö þúsund lömbum hvert haust. Og slatta af öðrum dýrum. Ég vann við að vigta skrokkana, grysja þá og koma fyrir í frysti. Í frystinum mátti maður bara vera í 25 mínútur í einu. Á þeim tíma sturtaði ég í mig brennivíni. Er komið var úr frystinum helltist víman hratt og skemmtilega yfir mann. Það var gott "kikk". .
Ég hef fullan skilning og umburðarlyndi gagnvart fólki sem drepur dýr sér til matar. Mörg dýr gera það sjálf. En sjaldnast sér til einskærrar skemmtunar. Fólk sem drepur dýr sér til skemmtunar er vont fólk.
Trúmál og siðferði | Breytt 14.10.2020 kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
25.11.2018 | 00:15
Kinnasleikir
Lengi er von á einum. Nú hefur Óli kinnasleikir bæst við í skrautlega flóru íslenskra jólasveina. Störfum hlaðin kynferðisbrotadeild ríkiskirkjunnar rannsakaði málið: Komst hægt og bítandi að niðurstöðu; um að háttsemi jólasveinsins falli undir eitt af mörgum fjölskrúðugum kynferðislegum áreitum og ofbeldi kirkjunnar þjóna. Kinnasleikir vill frekar telja þetta til almennra þrifa. Svona sé algengt. Einkum meðal katta.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (46)
20.5.2018 | 11:04
Hvað finnst þér?
Glyvrar er 400 manna þorp á Austurey í Færeyjum. Það tilheyrir 4000 manna sveitarfélaginu Rúnavík. Eins og almennt í Færeyjum skipar kirkjan háan sess í tilveru íbúa Glyvrar. Kirkjubyggingin er næstum aldargömul. Hún er slitin og að lotum komin. Á níunda áratugnum var púkkað upp á hana. Það dugði ekki til. Dagar hennar eru taldir.
Eftir ítarlega skoðun er niðurstaðan sú að hagkvæmasta lausn sé að byggja nýja kirkju frá grunni. Búið er að hanna hana á teikniborði og stutt í frekari framkvæmdir. Verra er að ekki eru allir á eitt sáttir við arkitektúrinn. Vægt til orða tekið. Sumum er heitt í hamsi. Lýsa honum sem ljótustu kirkjubyggingu i heimi, hneisu og svívirðu.
Öðrum þykir ánægjuleg reisn yfir ferskum arkitektúrnum. Þetta sé djörf og glæsileg hönnun. Hún verði stolt Glyvrar.
Hér eru myndir af gömlu hvítu kirkjunni og nýju svörtu. Hvað finnst þér?
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
3.3.2018 | 07:13
Fólk er fíklar
Allir eru að fá sér. Allir eru fíklar. Munurinn liggur í því hver fíknin er. Sumir eru nikótínfíklar. Aðrir eru matarfíklar, spilafíklar, alkar, athyglissjúkir, ástarfíklar, dansfífl eða eitthvað allt annað.
Séra Óli sleikur er kattþrifinn sleikifíkill. Hann má ekki sjá ósleikta konukinn án þess að stökkva á hana og sleikja. Vegna jafnaðarhugsjónar er honum óstætt á að sleikja aðeins aðra kinn. Hann finnur sig knúinn til að sleikja báðar kinnar. Líka eyru og háls ef tími gefst til.
Samkvæmt úrskurðarhópi og úrskurðarnefnd fagaðila og amatöra ríkiskirkjunnar er sleikiþörf embættismannsins eðlilegt embættisverk. Óhreinar kinnar skulu sleiktar uns þær verða hreinar. Þetta er eins og að skírast upp úr heilögu kranavatni.
Fundið hefur verið að því að séra Óli sleikur ríghaldi konum föstum á meðan hann sleikir á þeim báðar kinnar, eyru og háls. Þessu ber að sýna skilning. Ef konurnar væru að hlaupa út um allt á meðan séra Óli sleikur sleikir á þeim kinnar þá er næsta víst að sleikur myndi misfarast að hluta. Jafnvel lenda aftan á hálsi eða baki. Ekki vill ríkiskirkjan það. Því síður mælir hún með því af sama krafti og umskurði.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
25.7.2017 | 17:09
Bítillinn Paul McCartney tekur snúning á trúfélagi
Í Bandaríkjum Norður-Ameríku eru starfandi mörg trúfélög. Eitt þeirra heitir Westboro Baptist Church. Það er sannkristin hvítasunnukirkja sem innvígir safnaðarmenn með niðurdýfingarskírn. Söfnuðurinn er kallaður WBC-fjölskyldan.
Af ýmsum tilefnum safnast fjölskyldan saman á almannafæri með stór spjöld á lofti. Boðskapurinn einkennist af hatri á samkynhneigðum, múslimum, kaþólikkum, gyðingum, hermönnum og ýmsu fleiru.
Alltof margir veitast að fjölskyldunni þegar hún stendur með spjöldin sín. Garga að henni ókvæðisorð. Það herðir hana í trúnni. Staðfestir í hennar huga að þetta sé barátta við djöfulinn. Eigi skal hopa fyrir þeim skratta heldur bíta fastar í skjaldarendur og tvíeflast.
Breski Bítillinn Paul McCartney var að spila í Kansas. WBC-fjölskyldan tók á móti honum. Hann tók ljósmynd af henni. Síðan skipti hann út hatursfullum texta á spjöldunum fyrir titla á þekktum Bítlalögum. Afraksturinn birti hann á Instagram og Twitter. Undir myndina skrifaði hann: "Þakka Westboro Baptist Church fyrir hlýjar móttökur!"
Þetta hefur vakið mikla kátínu; slegið öll vopn úr höndum WBC-fjölskyldunnar. Sýnt hana í spaugilegu ljósi - á góðlátlegan máta. Hún á ekki svar við kærleiksríkri kveðju frá Bítlinum.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 18:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.3.2017 | 10:32
Horfði á fótinn lengjast
Þessa dagana kryddar danskur kraftaverkapredikari tilveru Færeyinga. Hann heitir Hans Berntsen og fer eins og stormsveipur um eyjarnar með fyrirbænir og kraftaverk. Fréttamaðurinn Snorri Brend segir á Fésbók frá heimsókn sinni til predikarans á þriðjudaginn. Sá greindi þegar í stað að annar fóturinn væri nokkrum cm styttri en hinn. Það kallaði á bæn og kraftaverk.
Svo bænheitur var Hans að Snorri horfði með eigin augum á fótinn lengjast um 4 cm. Síðan hefur hann sofið værar um nætur en í langan tíma. Áður hafði hann ekki hugmynd um að fæturnir væru mislangir.
.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 15:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
20.1.2017 | 11:40
Vandræðaleg mistök
Tilvera aldraðrar brasilískrar konu hefur alla tíð snúist að miklu leyti um bænahald. Mörgum sinnum á dag leggst hún á bæn og brúkar talnaband. Til að skerpa á mætti bænarinnar hefur hún notast við litla styttu af heilögum Anthony. Hann er eitt af stærstu númerum kaþólskra dýrlinga og mjög kröftugur. Að því er mér skilst.
Konunni áskotnaðist styttan fyrir nokkrum árum. Eftir að styttan fékk lykilhlutverk í bænahaldinu þá var eins og ótal dyr opnuðust. Konan varð bænheit. Bænir hennar hrifu sem aldrei fyrr. Hún fór reyndar aldrei fram á mikið. Var hvorki hégómleg í ákallinu né ósanngjörn.
Nýverið uppgötvaði ömmustelpa hennar að styttan væri ekki af heilögum Anthony heldur plastleikfang úr Hringadróttinssögu. Hringadróttinssaga byggir á norrænu goðafræðinni. Gandalf er Óðinn og fígúran sem gamla konan á kallast Elrond.
Þrátt fyrir þessa uppgötvun getur gamla konan ekki hugsað sér að biðja án þátttöku leikfangsins. Reynslan af því er svo góð.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.12.2016 | 18:54
Jól - og styttist í Þorra
Heims um ból halda menn jól;
heiðingjar, kristnir og Tjallar.
Uppi í stól stendur í kjól
stuttklipptur prestur og trallar.
7.9.2016 | 17:31
Skelfilegar eftirstöðvar vegna 11. septembers
11. september er fræg dagsetning. Þann dag 1973 var löglega kjörnum stjórnvöldum í Chile steypt af stóli í valdaráni. Pinochet varð einræðisherra. Við tók sæluríki frjálshyggjunnar. 11. september 2001 var flugvélum flogið inn í svokallaða tvíburaturna í New York. Þeir hrundu snyrtilega til jarðar ásamt einum turni til sem ekki var flogið á. Enn í dag stríða New York búar við margvíslega erfiðleika vegna þessa atviks.
Fjöldi þeirra glímir við áfallastreituröskun og slæmt þunglyndi. Enn aðrir hafa orðið krabbameini að bráð. Læknar hafa greint næstum því 70 tegundir af þannig krabbameini. Flest í öndunarfærum.
Þegar allt er talið saman þjást 400.000 manns af þessum veikindum sem afleiðingu turnahrunsins; andlegum og líkamlegum. Þetta er há tala þegar mið er tekið af því að íbúar New York eru aðeins 8,5 milljónir. Ætla má að flestir sjúklinganna séu á Manhattan þar sem turnarnir stóðu. Íbúar þeirrar eyju eru 1,6 milljónir.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 17:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)