Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
7.9.2010 | 23:09
Jenis av Rana skýtur sig í fótinn - II
Í næstu bloggfærslu hér fyrir neðan geri ég grein fyrir því hvernig Jenis av Rana hefur tapað tiltrú almennings í Færeyjum á málflutningi hans. Færeyingar almennt skammast sín fyrir öfgafullan málstað hans. Það er mikilvægt að halda því til haga. Gott dæmi um viðbrögðin er opið bréf guðfræðingsins Árna Zachariassen til Jóhönnu Sigurðardóttur. Sjá: http://www.arnizachariassen.com/ithinkibelieve/?p=1187
Árni er virtur blaðamaður á dagblaðinu Dimmalætting (færeyska Mogganum). Færeyska áfladrottningin Eivör hefur hingað til ekki verið yfirlýsingaglöð á opinberum vettvangi um pólitík eða trúarmál. Nú er henni nóg boðið. Hún hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu á fésbók sem útleggst: "Ég set sjaldan hér inn yfirlýsingar en Jenis fær mig til að fyllast af skömm fyrir að vera Færeyingur!!!!!!":
Eg skrivi sjálvdan slíkar viðmerkingar inni her, men Jenis far meg at føla skomm yvir at vera føroyingur!!!!!!
![]() |
Danir blása Jenis-málið út |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt 8.9.2010 kl. 11:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (58)
25.8.2010 | 19:49
Er biskup með mynd af barnaníðingi uppi á vegg hjá sér?
Þegar ég var krakki og unglingur skreytti ég vegg í herberginu mínu með stórum myndum af uppáhalds rokkstjörnunum mínum. Núna hafa þær myndir vikið fyrir myndum af börnum mínum og afastelpunni. Þetta er algengur siður: Að fólk hafi uppi á vegg hjá sér myndir af því fólki sem þeim er hjartfólgnast.
Hvaða mynd ætli skipi stærstan sess hjá Karli Sigurbjörnssyni þessa dagana? Getur verið að það sé risastór mynd af manni sem er umtalaðastur fyrir nauðganatilraunir gegn fjölda kvenna og barnaníð? Getur verið að Karl sé með í veskinu sínu mynd af Steingrími Njálssyni?
![]() |
Boða rannsóknarnefnd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (49)
8.7.2010 | 22:22
Vilt þú 100 þúsund kall beint í vasann?
Kuklarar eða skottulæknar (þeir sem stunda "óhefðbundnar" lækningar) og (mis heiðarlegir eða mis óheiðarlegir) lyfjaframleiðendur togast á um veika fólkið. Þessi markaður er stór. Það getur verið góður peningur í honum. Umræða um allt sem snýr að veika fólkinu er oftast af hinu góða. Nema þegar hún er af hinu vonda.
Flest lyf sem boðin eru til sölu á netinu - í svokölluðum "spam" pósti - eru plat. Eins og svo margt annað. Til að mynda fyrirbæri sem kallast heilun, höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun, smáskammtalækningar og fugladansinn.
Félagsskapurinn Vantrú býður nú 100 þúsund kr. hverjum þeim sem getur sýnt fram á að lithimnulestur sé annað en bull. Þetta er auðunninn peningur fyrir allan þann fjölda sem hefur árum saman stundað nám við lithimnulestur og vinnur sem lithimnufræðingar. Forvitnilegt verður að fylgjast með biðröðinni. Eða hvað?
James Randi hefur í mörg ár boðið eina milljón dollara þeim sem getur sýnt fram á "yfirnáttúrulega" hæfileika. Ótrúlega fáir miðlar, hugsanalesarar eða aðrir slíkir hafa spreytt sig. Ekki einu sinni Þórhallur miðill hefur lagt í að reyna við milljón dollarana. Eins og þetta ætti að vera létt og fyrirhafnarlítið að ná í þennan aur.
![]() |
Græddi milljónir á sviknum lyfjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
9.4.2010 | 11:53
Ný mynd af Jesú
Það hafa ekki margar myndir náðst af Jesú frá Arabíu, söguhetju Nýja testamentisins. Sumar af þekktustu myndum af kappanum eru sannanlega falsaðar. Jafnvel þó aðrir telji manninn á myndunum vera sláandi líkan fyrirmyndinni. Á föstudaginn langa gerðust þau undur og stórmerki í Bretlandi að nákvæm andlitsmynd af Jesú þessum birtist í tyggjóklessu:
Fyrir óvana er ráð að píra augu þangað til rétt glittir í tyggjóklessuna. Síðan skal bakka aftur á bak þangað til andlitsfallið í klessunni er farið að líkjast Jesú.
Til samanburðar er hér fyrir neðan mynd sem fræðimenn telja gefa betri vísbendingu um útlit Jesú en tyggjóklessan. Fjölskyldusvipurinn leynir sér ekki.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 12:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
8.12.2009 | 19:26
Mikilvægt að leiðrétta
Mánudags- og þriðjudags tölublað DV þessa vikuna er sérdeilis skemmtilegt. Það er úttroðið af áhugaverðri umfjöllun um eitt og annað forvitnilegt og fróðlegt. Meðal annars er opnugrein um bók eftir Roger Boye breskan blaðamann The Times, Meltdown Iceland. Ingi F. Vilhjálmsson gagnrýnir bókina og finnur henni margt til foráttu. Til að mynda er hann afar ósáttur við eftirfarandi texta í bókinni:
"Björk Guðmundsdóttir, sem virtist deila þeirri trú landsbyggðarfólks, að til væri ósýnilegt fólk, álfar, sem gætu gert mönnum erfitt fyrir í lífinu ef þeim væri ekki sýnd tilhlýðileg virðing..."
Um þetta segir bókargagnrýnandinn:
"Við þurfum að fara að kveða niður þessar tröllasögur um álfatrú Íslendinga. Ég veit ekki hvaðan þær koma í nútímanum, ekki þekki ég einn mann sem trúir á eða talar um álfa."
Gagnrýnandinn stingur upp á að ríkisstjórnin grípi í taumana til að þagga niður í þeim sem nefna álfatrú Íslendinga í eyru útlendinga.
Ég veit ekki hverja sá maður umgengst er þekkir ekki einn mann sem trúir á eða talar um álfa. Það er um fátt annað talað þar sem ég þekki til. Á uppvaxtarárum mínum í útjaðri Hóla í Hjaltadal bjuggu álfar í hinum ýmsu steinum og klettum. Huldufólk (sem fellur undir víðan skilning á samheitinu álfar) bjó í nokkrum klettum. Um þetta var rætt um leið og menn spáðu í veðrið.
Það er vel á fjórða áratug síðan ég flutti suður. Ólíklegt er að viðhorf fólks fyrir norðan til álfa hafi breyst mikið.
Þvers og kruss um Ísland eru vegir lagðir í sveig framhjá álfabyggðum. Þar sem það er illmögulegt er samið við álfana. Það geta orðið langir og strangir samningafundir. Álfarnir eiga til að vera þráir við að yfirgefa heimili sín. En það borgar sig alltaf að semja við þá og ná góðri lendingu. Þeir eru nefnilega hefnigjarnir þegar sá gállinn er á þeim.
Íslendingar fjölmenna jafnan í svokallaðar álfagöngur. Þar er rölt um álfabyggðir. Sömuleiðis sýna Íslendingar Álfasetrinu á Stokkseyri mikinn áhuga. Það er troðningur þar yfir sumartímann. Komið hefur til tals að veiða meinlausan færeyskan álf og lauma honum í Álfasetrið.
Íslendingum þykir fátt skemmtilegra en syngja um álfa. Nema ef vera skyldi að hlusta á aðra syngja um álfa. "Hann mun aldrei gleym´enni," söng Rúnar Júl í sívinsælu lagi með Unun. Þar segir frá kynnum ungs manns af álfadís. "Eru álfar kannski menn?" syngur Magnús Þór Sigmundsson og upp á síðkastið einnig Gísli Hvanndal. Ekki má heldur gleyma "Stóð ég úti í tungsljósi". Bara svo örfáir söngvar um álfa séu nefndir.
Ein af helstu fjáröflunarleiðum SÁÁ er sala á SÁÁ álfum. Þeir eru að vísu ekki lifandi verur. En sýna hvað álfar skipa stóran sess í tilveru Íslendinga. Einnig öll þessi vinsælu mannanöfn á borð við Álfdís, Álfheiður, Álfgerður, Álfhildur, Álfrún, Álfgeir, Álfur, Álfþór, Huld, Hulda, Hulddís, Huldrún... Sömuleiðis bregður álfum oft og tíðum fyrir í íslenskum málverkum og íslenskum bókum.
Á seinni hluta sjöunda áratugarins fór að bera á gnómum hérlendis (afbrigði af álfum) í kjölfar vinsæls lags með Pink Floyd, The Gnome. Lag sem Facon frá Bíldudal krákaði með íslenskum texta.
Að lokum má benda á að skoðanakannanir sýna ætíð að meirihluti Íslendinga trúir á tilvist álfa. Hæst er hlutfallið hjá framsóknarmönnum. Næstum 7 af hverjum 10 trúir á álfa. Það á sér ýmsar skýringar. Kannski helstar þær að margir framsóknarmenn eru í afdölum þar sem meira er um álfa en í þéttbýli.
Ath: Myndin efst er ekki af alvöru álfum. Þetta er samsett mynd.
Trúmál og siðferði | Breytt 10.12.2009 kl. 03:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.11.2009 | 21:32
Mæjónes-söfnuðurinn
Í DV í dag er staðfest flökkusaga um að fjölskyldufyrirtækið Gunnars mayonnaise hafi breyst í einskonar sértrúarsöfnuð. Þar á bæ hefur verið settur forstjóri, Kleopatra Kristbjörg, andlegur leiðtogi fjölskyldunnar. Að sögn starfsmanns kemur Kleopatra ekki nálægt rekstrinum og hefur enda enga þekkingu á til þess. Sumir starfsmenn fyrirtækisins hafa aldrei séð hana.
Helen Gunnarsdóttir, einn eiganda fyrirtækisins, fullyrðir að Kleopatra sé heiðarlegasta kona sem til er. Engin af rösklega 3,3 milljörðum kvenna heims kemst með tær þar sem Kleopatra hefur hæla. Hún er hlý með afbrigðum. Góð umfram allar manneskjur. Gáfuðust allra kvenna á Íslandi. "Ofsalega vel gefin og mælsk". Jafnframt er hún þeim einstæða hæfileika gædd að fá "fólk til að sjá ljósið". Hallelúja!
Helena segir Kleopötru vera hæfileikaríkan rithöfund. "Bókin hennar, Hermikrákuheimur, er besta bók sem til er," að sögn Helenar. Hallelúja! Biblían, Góði dátinn Sveijk og Sjálfstætt fólk eru prump til samanburðar við Hermikrákuheim.
Helena vill ekki meina að klíka sé í kringum Kleopötru heldur styrktaraðilar (hver er munurinn?).
Ég veit ekki hver Kleopatra er umfram það að í gegnum tíðina hafa birst í dagblöðum heilsíðuauglýsingar þar sem hún er hlaðin lofi. Þar er fullyrt að ALLIR vilji snerta hana og konur jafnt sem karlar bugti sig og beygi fyrir henni. Hún veki ALLSSTAÐAR aðdáun og fólk falli að fótum hennar. Jafnframt að hún sé mjög andleg og gædd dulrænum hæfileikum. "Að vera nálægt henni er engu líkt." Hallelúja!
Í umræddum auglýsingum eru sýnishorn af ritsnilld hennar og andlegri leiðsögn. Einnig í auglýsingum um bækur hennar. Þau sýnishorn styðja ekki fullyrðingar um hæfileika hennar. Þeir hljóta að opinberast á öðrum vettvangi.
Ég fann ekki mynd af andlegum leiðtoga mæjónes-safnaðarins. Ég læt samnefnara hans/hennar duga.
Trúmál og siðferði | Breytt 4.11.2009 kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (50)
4.10.2009 | 21:25
Davíð Oddsson hundskammar bloggaraskrílinn - og veitir ekki af
Bloggheimar eru iðulega stórundarlegir. Af öngvu tilefni vitna lítilmenni í stjórnmálum til þess að "bloggheimar logi" og gefa þannig í skyn að tilfinningahiti sé í þjóðfélaginu. Það eina sem hefur gerst er að orðljótustu bloggarar hafa þrútnað út örlítið meira en endranær og reyna að yfirbjóða hvern annan með uppspuna og munnsöfnuði. Eldglæringar á blogginu hafa aldrei skipt neinu máli um nokkurn skapaðan hlut. Kórstjórar bloggsóðanna hafa ekki áhrif á þjóðfélagsumræðuna.
Ofangreint er stytt samantekt á fyrri hluta leiðara Davíðs Oddssonar í Mogganum í dag. En það skiptast á skin og skúrir. Þó Davíð telji margan bloggarann "bölmóðsins besta vin" þá býður tilveran á Íslandi í dag upp á fleira en bloggaraskríl til að ólundast út í. Davíð hefur velþóknun á eftirtöldum: Spaugstofuhópnum, Ómari Ragnarssyni, Ladda, Ragnari Bjarnasyni, Jóhannesi eftirhermu Kristjánssyni og Jens Guði. Reyndar er ég ekki alveg viss með síðast nefndan. Það skvettist dökkur bjór yfir niðurlag leiðarans svo ég þurfti eiginlega að giska á hvað stendur þar.
Ég held að Davíð eigi ekki sérstaklega við Hannes Hólmstein með lýsingunni á bloggurum. Líklegra þykir mér að Davíð jafnvel undanskilji Hannes, eins og Ómar Ragnarsson og mig.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (43)
1.10.2009 | 00:21
Miðilsfundur
Fyrir nokkrum árum varð ég samferða vini mínum í flugvél út á land. Við vorum báðir með námskeið í tilteknum kaupstað. Af tillitssemi við þá sem þar voru nefni ég ekki staðinn. Í flugvélinni ræddum við um miðilsfundi. Vinur minn er grallari og ákvað að sprella. Við bjuggum í heimavist framhaldsskóla. Um kvöldið þóttist vinurinn falla í trans þar sem við sátum í sjónvarpssal með heimavistarbúum. Vinurinn þóttist fá krampakast og náði að froðufella. Ég tilkynnti viðstöddum að hann væri fallinn í miðilstrans.
ALLIR viðstaddir keyptu grínið. Vinurinn þuldi upp algengustu íslensk mannanöfn og viðstaddir gáfu sig fram sem ættingjar og aðstandendur framliðinna. Vinurinn bar þeim skilaboð að hætti miðla. Honum þótti þetta svo kjánalegt að hann fór að tiltaka sértækari og furðulegri dæmi. Ekkert lát varð á viðbrögðum viðstaddra sem töldu sig kannast við skilaboðin.
Vinurinn gekk ennþá lengra í sprellinu og gaf upp sjaldgæft íslenskt nafn. Enginn kannaðist við það. Þá sagði vinurinn: "Fyrirgefið. Viðkomandi ætlaði að mæta á miðilsfund á Hvammstanga en villtist."
Enginn fattaði djókið. Annað eftir þessu. Vinurinn bullaði út í eitt og allir voru gagnrýnislausir á bullið.
Daginn eftir kallaði einn heimavistardrengja vininn á eintal. Sagðist hafa skýrt mömmu sinni frá miðilsfundinum og þau mæðgin væru tilbúin að borga vininum pening fyrir að setja upp einkamiðilsfund með þeim. Faðir drengsins var nýlega fallinn frá og þau mæðgin langaði að ná sambandi við föðurinn.
Þá var vini mínum nóg boðið. Hann sagði: "Undir þessum kringumstæðum skulið þið ekki koma nálægt miðilsfundum. Alls ekki. Forðist allt slíkt eins og þið mögulega getið."
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 18:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
25.9.2009 | 17:44
Sérkennilegar skilnaðartertur
Í Bandaríkjunum halda konur upp á hjónaskilnað með heilmikilli veislu fyrir vinkvennahópinn. Skilnaðartertan er ómissandi í veislunni. Útfærslurnar geta orðið skrautlegar. Ekki síst ef skilnaðurinn hefur verið í illu. Það hefur ekkert verið átt við myndirnar af þessum tertum í tölvu (fótósjopp). Húmor nýfráskilinna kvenna er bara svona þó ég skilji ekki alveg hver punkturinn á að vera með sumum tertunum.
"Loksins, loksins er ég laus við þetta fífl!!"
"Farðu út með ruslið!!"
21.7.2009 | 22:36
Bíllinn sem hvarf
Ég hef efasemdir um allt sem kallast "yfirnáttúrulegt". Tel eðlilegar og náttúrulegar skýringar nærtækari en skilgreininguna "yfirnáttúrulegt". En margt er skrítið og ég kann ekki skýringar á öllum slíkum fyrirbærum. Áðan ók ég í rólegheitum frá Hafnarfirði til Reykjavíkur. Umferð var lítil. Á leiðinni frá gatnamótunum í Garðabæ og í átt að Kópavogi ók á undan mér á hægri akrein nýlegur lítill rauður fólksbíll. Hann fór hægar yfir en ég. Þess vegna tók ég framúr.
Ég leit í hliðarspegilinn til að vita hvort ég væri kominn nægilega langt fram fyrir bílinn til að beygja aftur inn á hægri akrein. En það sást enginn bíll í speglinum. Ég leit aftur fyrir mig og kom heldur ekki auga á bílinn. Það er til fyrirbæri sem kallast "svartur blettur" eða "dauðapunktur". Það er punktur sem sýnir ekki í hliðarspeglinum bíl sem er staðsettur við hægra afturhorn míns litla sendibíls. Það var sama hvernig ég horfði í spegilinn eða aftur fyrir mig. Bíllinn sást ekki.
Ég beygði á hægri akrein eftir að hafa fullvissað mig um að þar væri ekki þessi bíll að flækjast fyrir. Allt gekk vel. Bíllinn sást ekki í baksýnisspeglinum. Bíllinn var horfinn. Það er enginn hliðarvegur þarna til hægri sem bílinn gat beygt út á. Þetta var dularfullt. Ég ók út í kant. Stöðvaði bíl minn og fór út. Horfði í allar áttir. Rauði bíllinn var horfinn.
Hvað var í gangi? Var þetta huldubíll? Hafði ég séð ofsjónir?
Er huldufólk að aka um þjóðvegi landsins á huldubílum? Hvaðan fær huldufólkið huldubíla?
Ég er ekki vanur að sjá ofsjónir. Held ég. Að vísu er ég á pensillínkúr, á verkjalyfjum, bólgueyðandi og acidophilus. Veldur sú blanda ofskynjunum?
Einn möguleikinn er sá að ég sé geðveikur og rugli saman ímyndun og raunveruleika. Útiloka það ekki. Eða er til enn ein skýring sem mér yfirsést?