Færsluflokkur: Tónlist
7.2.2017 | 20:35
Alþjóðlegi Clash-dagurinn
Pönkið varð til í Bandaríkjum Norður-Ameríku um miðjan áttunda áratuginn. Ekki sem tónlistarstíll heldur afstaða og uppreisn gegn svokölluðu prog-rokki. 1976 bætti breska hljómsveitin Sex Pistols um betur og formaði pönkið sem tónlistarstíl; pönkrokk. Eldsnöggt skutust upp undir hlið Sex Pistols lærisveinar í bresku hljómsveitinni The Clash.
The Clash dvaldi ekki lengi við pönkrokkið heldur fór út um víðan völl. Þróaði pönkið yfir í fjölbreytta nýbylgju. Forsprakkarnir, Sex Pistols, sendu aðeins frá sér eina alvöru plötu. The Clash dældu plötum inn á markaðinn. Fengu snemma viðurnefnið "Eina bandið sem skiptir máli." (The only band that matter).
The Clash náði ofurvinsældum í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Það varð banabiti. Annar tveggja framvarða, söngvarinn Joe Strummer, átti erfitt með að höndla það dæmi. Það var ekki hans bjórdós. Hinn forsprakkinn, gítarleikarinn og lagahöfundurinn Mick Jones, var hinsvegar áhugasamur um að gera enn frekar út á vinsældalista. Þar með sprakk hljómsveitin í loft upp.
Í Bandaríkjunum - og um heim allan - er árlegur Clash-dagur haldinn hátíðlegur 7. febrúar. Þá spila útvarpsstöðvar einungis Clash-lög frá morgni til klukkan 18.00. Fjöldi bandarískra borga hefur gert 7. febrúar, Clash-daginn, að formlegum hátíðardegi. Þær eru: Austin í Texas, Seattle, San Francisco, Kent, Van Couver, Washington DC, Tucson, Ithaca, svo og og enska borgin Bridgwater. Kannski slæst Reykjavík í hópinn á næsta ári. Eða Garðabær.
Tónlist | Breytt 8.2.2017 kl. 05:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
21.1.2017 | 20:16
Glæsileg ljóðabók
Á dögunum áskotnaðist mér ljóðabókin Safnljóð. Undirtitill er 2006-2016. Höfundur er Skagfirðingurinn Gísli Þór Ólafsson. Ég þekki betur til hans sem tónlistamannsins Gillons. Ég á tvær flottar af fjórum sólóplötum hans. Gísli Þór er sömuleiðis liðsmaður blússveitarinnar ágætu Contalgen Funeral frá Sauðárkróki.
Eins og nafn bókarinnar upplýsir undanbragðalaust þá hefur hún að geyma úrval ljóða eftir Gísla Þór. Þau eru úr fimm ljóðabókum hans og af plötunum.
Ljóðin eru óbundin og óhefðbundin. Engir stuðlar eða höfuðstafir né rím. En góður möguleiki er á að greina hljómfall í sumum þeirra.
Það er ferskur tónn í ljóðunum. Frumleg hugsun og kímni. Það er gaman að lesa ljóðin aftur og aftur. Sum vaxa við endurlestur. Önnur eru alltaf jafn mögnuð. Til að mynda eitt sem heitir "Haukur Ingvarsson":
Hver er þarna að fikta í kaffivélinni?
er það ekki KK
sem er að fikta í kaffivélinni?
Annað og töluvert öðruvísi er "Ást á suðurpólnum":
Hve oft
ætli mörgæsir
hafi séð þig
sveitta ofan á mér
er við nutum ásta
á suðurpólnum
í engu nema vettlingum
Bókin inniheldur - auk ljóðanna - fróðleik um feril Gísla Þórs. Ég hvet ljóðelska til að kynna sér hana. Hún er virkilega ágæt, flott og skemmtileg. Fátt nærir andann betur en lestur góðra ljóða.
Tónlist | Breytt 22.1.2017 kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2017 | 10:09
Hræðileg mistök
Vegir guðanna eru órannsakanlegir. Ætlun er ekki alltaf ljós í fljótu bragði. Stundum eru farnar krókaleiðir til að koma skilaboðum á framfæri. Það henti í kaþólskri kirkju í Kolombo á Sri Lanka í aðdraganda jóla í fyrra. Til fjáröflunar - og til að mæta bænaþörf safnaðarins - var ákveðið að láta prenta innblásna Maríubæn, móður Jesú til heiðurs. Fundinn var fínasti pappír og frágangurinn hafður sem glæsilegastur.
Salan hlaut fljúgandi start. Mörg hundruð eintök seldust á einum degi. Daginn eftir uppgötvaðist að textinn var ekki Maríubæn heldur kjaftfor dægurlagatexti eftir bandarískan rappara, 2bac Shakur. Sá var myrtur fyrir tveimur áratugum. Eins og gengur. Textinn fjallar um ofbeldi, klám og eiturlyf.
Talsmaður kaþólikka á Sri Lanka segir að um mannleg mistök sé að ræða. Klúður í prentsmiðjunni.
Ekki tókst að prenta réttan texta áður en jólin gengu í garð. Kaupendum var hinsvegar boðin endurgreiðsla. Fáir þáðu hana. Flestir höfðu tekið ástfóstri við rapptextann. Kröftugri bæn höfðu þeir ekki kynnst og þuldu hana daglega yfir alla jólahátíðina. Stundum tvisvar á dag.
Tónlist | Breytt 6.10.2017 kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.12.2016 | 18:54
Jól - og styttist í Þorra
Heims um ból halda menn jól;
heiðingjar, kristnir og Tjallar.
Uppi í stól stendur í kjól
stuttklipptur prestur og trallar.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.12.2016 | 12:46
Einn söngvari hefur fallist á að syngja fyrir tilvonandi forseta
Eftir áramót verður ljúflingurinn Dóni Trump settur formlega í embætti forseta Bandaríkja Norður-Ameríku. Löng hefð er fyrir því að við slíkt tilefni sé miklum hátíðarhöldum slegið upp. Að þessu sinni ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur ennfremur í Rússlandi.
Hefðin boðar að hátíðardagskráin samanstandi af leik og söng heitustu og stærstu nafna amerískra tónlistarmanna. Mikill heiður þykir fyrir viðkomandi að vera valinn til þátttöku. Jafnframt reynist hún hafa öflugt auglýsingagildi til langs tíma.
Trump hefur þegar haft samband við marga í hópi skærustu stjarna. Fram til þessa hefur hann farið bónleiður til búðar. - Þrátt fyrir boð um gull og græna skóga. Jafnvel setu í eftirsóttum embættum. Stemmningin er sú sama og þegar hver poppstjarnan á fætur annarri bannaði góðmenninu að spila lög þeirra á kosningafundum.
Örfáir tónlistarmenn könnuðust við að styðja forsetaframboð Trumps. Þeir hugsa sér nú gott til glóðarinnar. Vandamálið er að nöfn þeirra eru ekki af þeirri gráðu sem þörf er á. Kosningateymi Trumps gerir sér grein fyrir því að hljómleikarnir megi ekki samanstanda af þeim. Það væri hræðilega hallærisleg og niðurlægjandi staða.
Ein ljóstýra hefur kviknað. Lærð óperusöngkona, Jackie Evancho, upplýsti í gær að hún hafi þegið boð um að syngja á hljómleikunum. Hún varð þekkt fyrir sex árum vegna þátttöku og góðs gengis í vinsælum raunveruleikaþætti í sjónvarpi, Americas Got Talent. Síðan hefur hún sungið jólalag og eitthvað fleira inn á plötu. Nafn hennar er á mörkum þess að vera nógu öflugt til að standa undir sólóhlutverki á hljómleikunum.
Jackie greindi frá því að hennar hlutverk verði að syngja lag með öðrum lærðum óperusöngvara. Sá heitir Bocelli. Frá honum hefur hinsvegar hvorki heyrst hósti né tíst um það hvort að hann sé tilkippilegur.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.12.2016 | 18:06
Svakalegustu íslensku hljómsveitanöfnin
Mér var bent á ansi skemmtilega samantekt yfir - eða kosningu um - þau íslensk hljómsveitanöfn sem hafa sjokkerað mest og flesta rækilegast. Áhugavert. Samt ekkert svo svakalegt. Frekar að þessi nöfn séu grallaraleg. Listinn ku hafa verið tekinn saman fyrir tíu árum, 2006, á spjallþræðinum www.live2cruize. Ég veit ekkert hvaða fyrirbæri það er. Mér var vísað á að listinn hafi verið endurbirtur á www.menn.is. Þar fann ég hann.
Þó að listinn sé tíu ára gamall þá kemur það ekki að sök. Engin ný hljómsveitanöfn hafa komið fram á síðustu árum sem sjokkera.
Efst hér er ljúft myndband með hljómsveitinni frábæru Sjálfsfróun (nafn nr. 6)
3. Bruni BB (Bruni Bjarna Benedikstssonar)
4. VBV (Vinstra brjóst Vigdísar)
7. Æla Ég held að þessi ágæta hljómsveit sé enn starfandi í Keflavík.
12. Hölt hóra (Hölt hóra með kúk á brjóstunum)
14. Nefrennsli Þekktust fyrir að bassaleikarinn var Jón Gnarr.
16. Rotþróin Ég hélt að nafn þessarar húsvísku hljómsveitar væri án ákveðins greinis. Nafnið sé Rotþró. Mig minnir að ég eigi eitthvað með þeim á kassettu.
Atli Fannar með Haltri hóru - áður en sú hljómsveit breyttist í Ingó & Veðurguðina. Sjaldan hefur góð hljómsveit tekið jafn afgerandi kollhnís aftur á bak á versta veg.
Tónlist | Breytt 7.12.2017 kl. 10:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.12.2016 | 19:37
Ný plata
Einn margra skemmtilegra fastra þátta á Útvarpi Sögu er "Meindýr og varnir". Þar fer Guðmundur Óli Scheving á kostum. Á auðskilinn hátt fræðir hann um allskonar pöddur, svo sem silfurskottur og veggjalýs. Líka rottur og myglusvepp. Fróðleikinn kryddar hann með gamansemi, skemmtisögum og frumsaminni tónlist. Frábærir þættir.
Að undanförnu hef ég verið að hlusta á tvær hljómplötur Guðmundar Óla. Listamannsnafn hans er Góli (stytting og samsláttur á nöfnunum Guðmundur Óli). Plöturnar heita "Sporin í sálinni" og "Spegillinn í sálinni". Sú fyrrnefnda kom út 2014. Hin 2015.
Töluverður munur er á þeim. Sú fyrri er hrárri og einfaldari í alla staði. Undirleikur er að uppistöðu til kassagítar. Ýmist plokkaður eða sleginn. Músíkina má skilgreina sem vísnasöngva eða þjóðlagatónlist (á ensku "folk"). Á hinni er meiri hljómsveitarbragur og popptónlist: Með hljómborðum, bassa og trommum. Jafnframt er meira lagt í útsetningar. Jafnvel svo mjög að þær lyfta vel undir lögin. Dæmi um það er bjöllukennt hljómborð í viðlagi "Þú ert mín ást". Hljómurinn (sándið) er sömuleiðis hreinni og tærari.
Öll lögin eru frumsamin. Þau eru aldeilis ágæt. Mörg hver grípandi og öll vel söngræn. Einföld og notaleg. Ég veit ekki hvort að ég meti það rétt en mér finnst eins og laglínur seinni plötunnar flæði liprar og áreynslulausar. Kannski vegna útsetninga. Kannski vegna þess að þar er meira kántrý.
Textarnir/ljóðin gefa tónlistinni drjúga vigt. Eru safaríkt fóður út af fyrir sig. Unun á að hlýða. Þeir/þau eru mörg sótt í smiðju úrvalsljóða Davíðs Stefánssonar, Steins Steinarr, Tómasar Guðmundssonar, Arnar Arnarssonar, Hannesar Hafsteins, Vilhjálms frá Skáholti og sjálfan margverðlaunaðan Guðmund Brynjólfsson. Í bland eru frumsamin ljóð.
Á "Speglinum í sálinni" er þetta ljómandi jólalag sem heyra má hér fyrir neðan.
Flottar plötur. Nú er komin út ný plata fá Góla. Hún heitir "Hvíslið í sálinni".
Tónlist | Breytt 16.12.2016 kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.12.2016 | 11:18
Vinyllinn slær í gegn
Geisladiskurinn kom á markað á níunda áratugnum. Hann náði eldsnöggt að leggja undir sig plötumarkaðinn. Vinylplatan hrökklaðist út í horn og lyppaðist þar niður. Einnig kassettan. Framan af þráuðust ráðamenn í tónlistariðnaðinum í Bandaríkjum Norður-Ameríku við. Neituðu að taka þátt í geisladisksvæðingunni. Rökin voru ágæt. Ótti við að sala á tónlist myndi hrynja við innkomu disksins.
Annarsvegar vegna þess að tilfinningin fyrir því að halda á geisladisk væri lítilfjörleg í samanburði við að halda á 12" vinylplötu. Geisladiskurinn er aðeins fjórðungur af stærð vinylplötunnar. Textinn hálf ólæsilega smár. Myndefni ræfilslega smátt.
Hinsvegar var og er hljómplatan vinsæl gjafavara. Vinylplatan var og er í veglegri stærð. Myndarlegur pakki. Til samanburðar er geisladiskurinn aumari en flest annað. Minni en bók til dæmis að taka. Disknum er troðið í vasa.
Þegar Kaninn gafst upp fyrir þrýstingi - seint og síðar meir - og hleypti disknum inn á markaðinn þá brá hann á snjallt ráð: Pakkaði disknum inn í glæsilegan og myndskreyttan pappahólk af sömu hæð og umslag vinylplötu og þrefalt þykkri. Þetta virkaði. En fjaraði út hægt og bítandi. Markaðurinn vandist disknum og pappahólkurinn var einnota.
Með tilkomu tónlistar á netinu, USB-lykilsins, niðurhals og allskonar hefur diskurinn hopað hraðar en Grænlandsjökull. Á sama tíma hefur vinyllinn sótt í sig veðrið. Ástríðufullir tónlistarunnendur upplifa gömlu góðu tilfinninguna við að handleika 12" hlunkinn; vanda sig við að setja grammafónnálina niður á réttan stað á plötunni; skynja plötuna í aðgreindri hlið 1 og hlið 2; standa upp og snúa plötunni við. Það er alvöru skemmtun.
Nú er svo komið að á Bretlandi er sala á vinyl orðin stærri en niðurhal tónlistar. Hvergi sér fyrir enda á þeirri þróun. Vinylplötuspilarar seljast eins og heitar lummur. Plötubúðir eru aftur orðnar að gömlu góðu hljómplötubúðunum.
![]() |
Vínyll vinsæll í Bretlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 11:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.11.2016 | 23:33
Hugmyndafræði pönksins
Pönkbyltingin á seinni hluta áttunda áratugarins var uppreisn gegn ráðandi öflum í dægurlagaiðnaðinum: Plöturisunum, umboðsmönnum sem stýrðu dæminu, stóru prog-hljómsveitunum, þreytta hippaliðinu með löngu gítarsólóin, taktskiptingar og svo framvegis. Pönkið var afturhvarf til einfalda rokksins. Líka áskorun til þess að rokkarar "kýldu á það", gerðu hlutina sjálfir (Do-It-Yourself). Allir máttu vera með: Að gera þó að eitthvað vantaði upp á að geta. Það útilokaði samt ekki flinka tónlistarmenn frá því að vera með. Allir máttu vera með.
Ég set spurningamerki við það að njörva pönkið niður í bás hugmyndafræðinnar. Pönkið táknar frelsi. Frelsi til að gera það sem þér dettur í hug. Vera þátttakandi í pönki án þess að þurfa að uppfylla alla reiti uppskriftar pönksins.
Það er ekkert nema gaman að sonur þeirra sem hönnuðu pönkið, Malcolms McLarens og Viviennar, skuli gera róttæka uppreisn gegn fortíðarhyggju gagnvart pönki. Allt svona mætir mótsögn. Þetta beinir athygli að pönki og rifjar upp pönkbyltinguna. Gróflega.
Eftir stendur að fátt er skemmtilegra en pönk. Það er góð skemmtun.
![]() |
Alvöru pönk hér á ferð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2016 | 21:26
Aukasýning - aðeins í þetta eina skipti!
Nýverið kom út ný heimildarmynd um Bítlana, "Eight Days a Week". Í henni er fjöldi viðtala, m.a. við alla liðsmenn. Þar á meðal ný viðtöl við Paul McCartney, Ringo Starr og samstarfsmenn. Einnig áður óbirt viðtöl við John Lennon og George Harrison. Myndin dregur upp áhugaverða og skýra drætti af því hvaða áhrif velgengnin og síðan ofurfrægðin hefur á sálarlíf þeirra og þroska.
Að sjálfsögðu skipar tónlistin háan sess.
Sem kunnugt er komu öskur í áheyrendum iðulega illa niður á hljómleikaupptökum með Bítlunum. Hljóðkerfi sjöunda áratugarins voru ekki nógu öflug til að yfirgnæfa öskrin. Einmitt þess vegna gáfust Bítlarnir upp á hljómleikahaldi 1966. Þeir heyrðu ekki í sjálfum sér.
Með nýjustu stafrænu tækni tókst framleiðendum myndarinnar að dempa svo mjög niður áheyrendaöskrin að tónlistin heyrist hvellskýr. Við það opinberast Bítlaunnendum nýr heimur.
Myndin hefur hvarvetna hlotið einróma lof, jafnt gagnrýnenda sem almennings. Í Rotten Tomatoes fær hún meðaleinkunnina 95% (af 100).
Á morgun, sunnudaginn 27.nóv, er aukasýning á myndinni í Háskólabíói klukkan 18.00. Aðeins i þetta eina sinn. DVD útgáfa er ekki í sjónmáli vegna þess að höfundarrréttarsamningar fóru í hnút. Þar fyrir utan er meiriháttar upplifun að heyra tónlistina í hæstu hljómgæðum. Það er nánast eins og að sitja hljómleika með Bítlunum.
Aukasýningin er hvergi auglýst sérstaklega. Vinsamlegast deilið þessum upplýsingum á Fésbók og bloggi.
Tónlist | Breytt 27.11.2016 kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)